Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

REI II: Hin "tæra snilld" Magma-samningsins

Það var einstaklega nöturleg, súrrealísk og grátbrosleg sýn sem beið kjarnakvendis ágæts sem ekki er sama um hagsmuni almennings og framtíð þjóðarinnar, þegar hún skundaði niður í ráðhús til að fylgjast með umræðum um einstaklega mikilvægt mál: brunaútsölu á hlut borgainnar í HS Orku, til erlends skuggafyrirtækis á i. Skvaldrandi áhugalausir borgarfulltrúar sem báru greinilega meiri umhyggju fyrir nýjum Fésbókar-vinum heldur en samstarfsmönnum sínum sem voru að halda ræðu, hvað þá hagsmunum Reykvíkinga og framtíðar þeirra, nokkuð sem truflaði "status"-breytingar á borð við:"Ég á ógisslega krúttlega tölvu" eða "Þorleifur í vinstri grænum fær ekki að fljúga á milli landa eins og ég, ligga ligga lá".

Nokkuð sem kemur ekki á óvart þegar maður horfir á hið nýja REI-mál og þess hryllings sem felst í því: að við séum að glata yfirráðum yfir auðlindum okkar í allt að 130 ár, enda stóð viðkomandi upp og ákvað að trufla fundinn með ósk um að borgarfulltrúar einbeittu sér að þessu mikilvæga máli, nokkuð sem skilaði illum augngotum og vanþóknun um að pöpullinn væri að hafa skoðun á þeim störfum sem yfirstéttin innti af hendi inn á Fésbók.

 En þetta vekur hjá manni upp hræðilegar tillfinningar og ugg um enga framtíð hér í landi þar sem fólk sem lætur sig engu máli skipta um framtíð þjóðarinnar og hvort almenningur muni bera skertan hlut frá afdrífaríkum ákvörðunum þeirra. Nei, þeim þykir meira gaman að velta fyrir sér niðurstöðum Fésbókar-prófsins "Hvaða spillta aðalsmaður ertu?" eða "Hvaða útrásarvíkingi hentar mér best að þóknast?" og flissa í metingi yfir því hversu lík þau eru Lúlla kóng og konu hans Marie Antoinette.

En þetta vekur upp einnig bræði, mjög mikla bræði yfir því sinnuleysi, vanhæfni og spillingu hinnar "tæru snilldar" sem felst í Magma-samningnum sem meir og meir er að koma upp á yfirborðið að sé viðurstyggilegur samningur fyrir alla aðra en þá sem hagnast einir: stjórnmálamenn og fyrirtækin sem hafa þá í vasanum. Lítum á nokkur atriði sem hafa verið upplýst um þennan samning og gera hann einstaklega óhagstæðan:

  • Við missum öll yfirráð yfir auðlindum þjóðarinnar á Reykjanesinu í allt að 130 ár.
  • Orkuveita Reykjavíkur er notuð sem lánastofnun til handa erlendu fyrirtæki sem getur ekki fengið fjármagn erlendis. 
  • Fjármálastjórn Reykjavíkurborgar hefur reiknað það út að tap Reykvíkinga á þessu verði um 5-6 milljarðar. Þetta er svipað og kostar að reka leikskólakerfið í dag, í ca hálft ár.
  • Samningurinn felur í sér smágreiðslu nú upp á 4 milljarða sem er ca. eitt stk. Mogga-skuldir afskrifaðar og svo kúlulán til 7 ára með veð í hlutabréfunum einum en engum alvöru eignum. Þetta býður upp á að Magma getur mergsogið HS Orku og skuldsett það alla leið til Katmandu, hent svo hlutabréfunum til baka og sagt "Æi, við þurfum þetta ekki lengur"
  • Kúlulánið er ekki bara með veð í pappír sem við notum vanalega við þörfum okkur, heldur ber aðeins 1,5% vexti og það óverðtryggt lán sem miðar við álverð að hluta til. Til glöggvunar má benda á að Bandaríkin sem fá AAA í lánshæfni, fengu aðeins 3,5% vexti.
  • Á sama tíma eru Reykvíkingar að borga fyrir hlut Hafnarfjarðarbæjar með 4,5% verðtryggðum vöxtum, sem hinir "tæru snillingar" REI-flokkana keyptu í fyrra ævintýri sínu sem til allrar hamingju tókst að stöðva þá.
  • Kúlulánið sem slíkt er ekki bara með fyrrgreinda ókosti því það á að endurgreiðast í dollurum en í blekkingarleiknum sem nú er stundaður, er upphæðin sett fram í krónum miðað við núverandi verðlag. Þetta þýðir það að ef krónan hækkar, þá fá Reykvíkingar, Akurnesingar og Borgnesingar enn minna í sinn vasa.
  • Við það að HS Orka endar í höndum einkafyrirtækis, þá mun hagnaður af orkusölu ekki lenda í vasa borgarinnar og sveitarfélaga viðkomandi, heldur í höndum samviskulausra viðskiptamanna.
  • Einnig er öruggt að öll orkusala til álvers og gagnavers mun verða algjörlega úr höndunum á sveitarfélögunum sem missir þar stóran spón úr aski sínum.
  • Eigendur HS Orku sem ekki er vitað hverjir eru en miðað við orðróma séu líklegast Rio Tinto, einhverjir útrásarvíkingar og slík óbermi, munu geta stjórnað og ákvarðað algjörlega um hvernig atvinnu-uppbygging verður á svæðinu. Fyrirtækið mun geta og mun örugglega kúga aðila sem mótmæla þeim og gera sveitarstjórnum erfitt fyrir sem malda í móinn.
  • Orkuverð til almennings mun hækka gífurlega, versnandi þjónusta og annað sem mun skerða gífurlega lífskjör fólks, verður að raunveruleika.

Þegar maður lítur á þetta og orðaskak við fótgönguliða REI-flokkana sem standa að þessu ásamt mörgum ósvöruðum spurningum úr fyrir pistli, þá verður manni ljóst að það er eitthvað rotið í Danmörku og það er ekki líkið af föður Hamlets né hákarli útrásarvíkinga. Nei, það er eitthvað meira á bak við þetta, eitthvað ljótt, eitthvað illt og spilt sem hefur oft komð við sögu áður þegar þessir tveir flokkar koma saman og fara að skipta á milli sín eigum almennings.

Og hverjir væru það? Jú, það væru útrásarvíkingarnir og gamlir klíkubræður sem stjórnað hafa á bak við tjöldin í REI-flokkunum og mín ágiskun er: S-hópurinn og svo einhverjir úr Landsbankanum, kannski Bjöggi Thor, kannski Halldór J. Kristjánsson sem einmitt er farinn til Kanada til að taka við nýju starfi tengt fjárfestingum í orkugeiranum eða einhverjir slíkir. Hver veit en fullviss er ég innra með mér að einhverjir af þessum koma nálægt þessari "tæru snilld" sem matreidd er hér í annari útgáfu af REI-málinu sem hér birtist.Já,REI-mál taka tvö, sömu leikmenn, sama offors, sama auðlind á ný en nú bara með nýju nafni kennt við Magma.

Kannski er ég ofsóknaróður líkt og einn af varðhundum REI-flokkana kallaði mig í gær en líklegast er maður búinn að sjá of oft hvernig hin íslenska spilling virkar, hvernig flokkarnir starfa, hvaða afleðingar það hefur fyrir íslenskan almenning og hvað íslenskir stjórnmálamenn dansa í kringum klíkufélaga og auðmenn á kostnað almennings, sem fær mann til að telja þetta vera drifkraftinn á bak við ofsa REI-flokkana við að selja þessu erlenda skuggafyrirtæki sem getur ekki einu sinni fjármagnað kaupin sjálft erlendis. Þó gæti þetta verið vitleysa hjá mér og þessir flokkar eru eingöngu að taka hið sárasaklausa inngöngupróf í Hell's Angels og sáu að þarna væri hægt að "nýta tækifæri kreppunar" eins og varaformaður Sjálfstæðisflokksins orðaði það svo einhvern tímann til að fá að klæðast leðrinu undir merkjum vítisengla.

Gerið eitt ef ykkur er ekki sama um auðlinda þjóðarinnar, eyðið örfáum mínútum af tíma ykkar til að gera eitthvað í málunum, sendið bréf, faxið á borgarfulltrúa eða REI-flokkana, skrifið greinar, rísið upp úr sófanum og mótmælið eða hvað sem er, en umfram allt gerið þetta ekki bara fyrir ykkur, heldur börnin ykkar og barnabörn sem eiga rétt á því að fá að njóta auðlinda í eigu þjóðarinnar en ekki í umsjá innlendra og erlendra braskara sem horfa ekki á hægri eða vinstri þegar kemur að því hámarka eigin gróða þegar kemur að þeim sem verið er að mergsjúga hvern einasta aur úr.

Hér á eftir fylgja netföng allra borgarfulltrúa og varaborgarfulltrúa ásamt stöðluðu bréfi tekið annars staðar frá, fyrir þá sem vilja slíkt en umfram allt, stöðvum græðgivæðingu auðlindanna, græðgivæðingu sem minnir mann strax á hvert síðasta tilraun REI-flokkana á slíku endaði og við erum nú að súpa seyðið af, í skelfilegu hamförum bankahrunsins.

Hér eru svo textinn og netföngin:

"

Netföng borgarfulltrúa sem hægt er að afrita beint í póstforrit:
vilhjalmurth@reykjavik.is,bjork.vilhelmsdottir@reykjavik.is, dagur.b.eggertsson@reykjavik.is,gisli.marteinn.baldursson@reykjavik.is, borgarstjori@reykjavik.is,jorunn.frimannsdottir@reykjavik.is, jvi@reykjavik.is,kjartan.magnusson@reykjavik.is,oddny@reykjavik.is, olafur.f.magnusson@reykjavik.is,oskar.bergsson@reykjavik.is, sigrun.elsa.smaradottir@reykjavik.is,soley.tomasdottir@reykjavik.is, thorbjorghelga@reykjavik.is,thorleifur.gunnlaugsson@reykjavik.is

Netföng varaborgarfulltrúa sem hægt er að afrita beint í póstforrit:
marsibil@reykjavik.is,sif.sigfusdottir@reykjavik.is, bolli@hi.is,marta.gudjonsdottir@reykjavik.is, ragnar.s@simnet.is,kristjan.gudmundsson@or.is, bjorn.gislason@shs.is, aslaug@sja.is,margret.kristjana.sverrisdottir@reykjavik.is,dofri.hermannsson@reykjavik.is, stefan.johann@islandia.is,steben@internet.is, gerlag@internet.is, hermannv@nordlingaskoli.is

Hugmynd að texta, ef vill: 

Kæri borgarfulltrúi

Ég hvet þig eindregið til að samþykkja EKKI söluna á HS Orku. Ísland þarf á öllum sínum auðlindum að halda í komandi kreppu og þessi orka verður bara verðmætari eftir því sem á líður. Ég minni á að það styttist í sveitarstjórnarkosningar og það verður örugglega minnt á þetta mál þegar nær dregur, hvernig sem það fer. Mér finnst að hagsmunum Orkuveitunnar og borgarbúa sé illa sinnt með því að selja hlutinn á undirverði.

Virðingarfylls
t"

 


mbl.is Segir samninga við HS Orku í samræmi við orkulög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spurningar varðandi tilboð Magma og einnig ársreikning HS

Það er alltaf meir og meir sem vekur upp áleitnar spurningar og óþægilegar í tengslum við einkavæðingu Hitaveitu Suðurnesja, tengslanet o.fl. sem ég hef fjallað um aðeins áður. Þarna eru auðlindir Suðurnesjamanna að komast í hendur erlends fyrirtækis sem enginn veit hver á og innlendra braskara sem skulda á bilinu 20-30 milljarða hjá Íslandsbanka en fá að starfa áfram óáreittir. Er það hugsanlega vegna náinna tengsla þar á bæ við eigendur Geysi Greens Energy, svo náin og innvígð að það er eins og klippt út úr verkferilskerfi hins Gamla, Spillta Íslands.

En nú er ögurstund í dag því tilboð Magma Energy um kaup á hlut OR í HS Orku sem gæfi þeim meirihlutaeign rennur út í dag eða eins og það kallast hjá gamla, spillta Íslandi: yrðu "kjölfestufjárfestir". Í framhaldi af því er ágætt að velta fyrir sér nokkrum spurningum og ekki bara hverjir standa þarna á bak við í raun. Á heimasíðu Ögmunds Jónassonar má finna bréf frá lesenda sem ber upp nokkrar spurningar:

"• Ef hluturinn verður samt sem áður seldur, hvaða tryggingu höfum við fyrir því að reksturinn verði til hagsbóta fyrir landsmenn og arðurinn renni ekki úr landi?
• Afhverju tekur félagið ekki lán hjá lánastofnunum í Kanada eða Bandaríkjunum á þeim lágu vöxtum sem allir tala um að séu í boði og borgar greindan hlut upp í topp þ.e. skuldar hinum erlendum bönkum eftirstöðvar kaupverðsins frekar en að Orkuveita Reykjavíkur taki að sér að fjármagna þessi kaup?
• Ef kjörin eru ekki nógu hagstæð í þessum löndum, fyrir fyrirtæki sem er jafn vel rekið og vel stætt og eigandi þess segir, er þá eðlilegt að Orkuveita Reykjavíkur taki þessa áhættu og veiti lánið? Það er eins og það eigi bara að selja sama hversu lélegt tilboðið er."

Þetta eru nefnilega umhugsunarverðar spurningar og eiginlega vekur fleiri upp.

  • Hversvegna á OR að lána Magma fyrir hlutnum?
  • Af hverju á OR að fara að selja með gríðarlegu tapi fyrir okkur útsvarseigendur í Reykjavík sem eigum þennan hlut?
  • Hvaða skynsemi felst í því að selja hlut og lána með 7 ára kúluláni á svo lágum vöxtum að lánið brennur upp í verðbólgu?
  • Eru borgarfulltrúar Reykjavíkur og stjórn OR nokkuð að hugsa um hagsmuni Reykvíkinga?
  • Hvað býr að baki þessari asa við að koma hlut OR í HS Orku í hendur aðilum sem ekkert er vitað um?
  • Hversvegna þarf Magma að fá lán hér?
  •  Hversvegna geta Magma ekki fjármagnað kaupin erlendis(svo maður hamri á þessu aftur)?
  • Hvað er vitað um fjárhag Magma og eigendur þeirra?

Einhverra hluta vegna verður maður sannfærðari og sannfærðari um að þetta sé nýtt REI-mál á ferð, sérstaklega þar sem eins og ég hef ymprað á áður, það eru sömu leikendur enn við borðið, sama fólkið að véla um að koma eigum almennings í hendur örfárra manna eða fyrirtækja sem er nákvæmlega sama um hvernig okkur vegnar, heldur aðeins hugsað um gróðann sér til handa með tilheyrandi hækkun orkuverðs, versnandi þjónustu og öllum þeim skelfingum sem fylgir einkavæðingu auðlinda og nauðsynlegrar þjónustu til handa almenningi í hendur rándýra græðginnar sem er enn að.

En talandi um að hugsa ekki um hag almennings, þá benti Sveinn nokkur Pálsson eða Sveinn hinn Ungi, á áhugaverðan hlut í bloggfærslu sinni um Hitaveitu Suðurnesja. Sveinn gluggaði þar í ársreikninga Hitaveitu Suðurnesja fyrir árið 2008 og tók eftir frekar áhugaverðum hlut í tengslum við tap HS á því ári. Hitaveita Suðurnesja tapaði þá 11,7 milljörðum sem er talsverður viðsnúningur frá árinu á undan og fyrri árum. Það sem er þó sérlega athyglisvert í þessu öllu er hver er ástæðan á hluta tapsins.

Hitaveita Suðurnesja tapaði 4,6 milljörðum vegna afleiðusamninga.

Eins og mér skilst, þá er afleiðusamningar einfaldlega veðmál um að eitthvað verði á ákveðnu verði eftir einhvern tíma eða með öðrum orðum, þú veðjar eða ert í raun að taka þátt í fjárhættuspili. Þetta vekur upp ákveðnar spurningar einnig:

  • Hversvegna er fyrirtæki sem er í orkuviðskiptum að stunda fjárhættuspil?
  • Hversvegna leyfðu opinberir eigendur Hitaveitu Suðurnesja sem hefur það að markmiði að stunda orkuframleiðslu, að farið væri út í áhættusamt fjárhættuspil og brask?
  • Hversvegna gripu þeir ekki í taumana og hversvegna gerði enginn athugasemd við þetta?
  • Eru fleiri orkufyrirtæki í svipuðum "monkey business"?
Þetta eru bara örfáar spurningar en stórar sem áhugavert væri að sjá svör við og ef "öllum steinum verður velt við" þá munu örugglega fleiri og óhugnanlegri spurningar koma upp á yfirborðið.

 

 


mbl.is Eignast meirihluta í HS Orku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugleiðingar Ísþræls

Í dag var Ice-Save samþykkt og í dag ákvað ég loks að skrifa mitt fyrsta, langa og eina innlegg um þetta mál. Oft áður hef ég reynt að rita eitthvað um þetta mál sem hefur verið vandræðamál sem ekki varð komist undan að leysa á einhvern hátt, en gengið frekar illa þar sem skoðanir mínar fyrr í sumar sveifluðust til og frá líkt og margra. Ekki var það til bóta að umræðan var að mestu af því tagi að manni bauð við henni, upphrópanir um föðurlandsvikara og brigsl um landráð af hálfu fólks sem spilaði samkvæmt fyrirframgefnum skoðunum á ríkistjórn eða samkvæmt möntru flokkslínu, drekktu nær allri vitrænni umræðu og á endanum hafa örugglega náð að fæla fólk frá að skoða málin eða taka ígrundaða ákvörðun út frá öllum þáttum.

Svo maður tali um svona hvernig þetta hefur litið út og þróast frá mínum sjónarhóli, þá ætla ég að byrja frá því að samningurinn kom í höfn, samningur sem er ekki upphaf alls ills, heldur eingöngu punktur á þessari vegferð sem hófst með gráðugum mönnum í banka allra landsmanna. Einhvern veginn þá varð mér það ljóst að þegar samninganefndin var farin af stað, að þetta væri mál sem þyrfti að semja um því erfitt yrði að fara dómstólaleiðina miðað við öll óveðurskýin og alkulinu sem ríkti gagnvart Íslandi á alþjóðavettvangi. Einnig var það öruggt að við þyrftum að gangast við ábyrgðum okkar sem fyrri ráðamenn höfðu gengist við og með nokkuð almennum vilja stjórnarþingmanna og að mig minnir einnig að einhverju leyti stjórnarandstöðu.

Svo kom samningurinn sem manni varð brátt ljóst að var ekki góður samningur né réttlátur frekar en margt annað sem hefur gerst hér. Samninganefndinni höfðu orðið á mistök með ýmsa þætti, nokkuð sem flestum er ljóst og alltof mörg vafa-atriði voru þarna sem vöktu upp réttmætar spurningar. Aftur á móti blæs maður á það að það hafi verið gert af ásettu ráði eða af einhverjum undirlægjuhætti, nefndin var líkt og nær því allir íslenskir stjórnmálamenn og embættismenn í gegnum tíðina, hálfgerðir kjánar í samanburði við erlenda samningsaðila, sendir á fund faglærðra hákarla. Hvort við hefðum getað fengið betri samninga með öðrum innlendum mannskap er ég ekki viss og hreinlega stórefast um það eftir hina stórkostlegu umgjörð sem Sjálfstæðisflokkurinn hreykti sér af með 6,7% vöxtum og styttri lánstíma, og hafði örugglega áhrif á það hvernig endanlegur samningur leit út.

Í fyrstu voru viðbrögð manns að það ætti að troða þessum samningi þvert upp í boruna á feðgum tveimur í teinóttu ásamt bankabjálfum sínum, miðstjórnarmanni Sjálfstæðisflokksins sem finnst það þokkafullt að vera með slaufu og öðrum þeim sem sátu í bankastjórn, og hafna honum algjörlega. Það kæmi nefnilega ekki til greina að borga skuldir vina Davíðs Oddsonar og vinnumiðlunar SUS sem kallast Landsbankinn, hafði stofnað til. Eðlileg viðbrögð byggð á hreinræktaðri reiði og tilfinningasemi og ekkert að því svosem nema kannski að þessi niðurstaða var fengin án íhugunar eða vangaveltna.

Svo fór umræðan meir og meir af stað og þegar eftir smátíma maður var byrjaður eingöngu að lesa það sem byrjaði ekki á landráð, föðurlandsvik, þjóðníðingar eða „þjóðhollir menn eiga að rísa upp gegn svikráðum KOMMÚNISTA“, þá byrjaði maður algjörlega að sveiflast með og á móti með hverri góðri grein sem reyndi að rökstyðja mál sitt án gífuryrða. Maður lifði algjöra óvissu um allt saman og gat ekki lent á niðurstöðu innra með sér. Þó sem lengra leið á umræður sumarsins varð manni meira og meira ljóst að undan samningi kæmumst við ekki og þegar maður las eða hlýddi á fólk utan hjarta skotgrafa flokkana, fólk sem maður hafði lært af reynslunni að væri að segja hluti af heilindum og hefði nægilega sýn á hlutina til þess að meta þá, þá væri staðan einfaldlega sú að við værum „damned if we do, damned if we don‘t“ og sterkari líkur væri á að samþykkt samningsins væri skárri kosturinn af tveimur hræðilegum á gatnamótum þar sem svartnættið ríkti á þeim tveimur leiðum sem liggja framundan.

En orð og röksemdir nokkurra aðila eru ekki það eina sem fékk mig til þess að telja samþykkt skárri kost því í svona stórum málum sem margt hangir á spýtunni og hlutirnir eru ekki svart-hvítir, þá verður maður að bakka frá eigin tilfinningasemi stundum og horfa yfir vígvöllinn svo maður grípi aðeins til myndlíkingar, og þá varð manni brátt ljóst að þetta var barátta í vonlausri aðstöðu. Herinn stóð einn á vígvellinum gegn máttugum, sameinuðum andstæðingum fyrrum vina sem töldu sig svikna og hlunnfarna af þessum litla, hrokafulla her og blésu til sóknar gegn honum. Enginn vildi hjálpa þessum svikurum og þjófum sem nú stóðu í forarvaði við óhagstæð skilyrði sköpuð af þeim sjálfum með dyggum stuðningi nokkurra hershöfðingja og herdeilda sem höfðu aðstoða við svikin og þjófnaði frá vinum, herdeilda sem vildu svo ekki bera ábyrgð á eða iðrast þess að birgðar ætlaðar til að framfleyta hernum höfðu einnig horfið með aðstoð og/eða heimskupörum þeirra.

Hvað er til ráða á slíkum vígvelli? Hvað ber að gera? Valið er mjög einfalt, annað hvort berjast menn til síðasta manns gegn ofurefli við óhagstæðar aðstæður með litlum sem engum birgðum sem valda gjörtapi, nokkuð sem getur ekki farið öðruvísi með sundruðum her vegna svika og þjófnaða hershöfðingja, vina þeirra og undirmanna sem hinn almenni hermaður getur ekki sætt sig við að fylgja. Hinn möguleikinn í stöðunni er að koma sér í burtu af vígvellinum með sem minnstum skaða þó hann sé gríðarlegur orðinn, kaupa sér tíma til þess að sameina herinn á ný, koma honum í gegnum þrautagönguna sem bíður hans, refsa hinum seku, , endurskipuleggja sig, fá baráttuviljann á ný og hefja baráttuna á ný á vígvelli að eigin vali. Þó þessi orrusta sé töpuð, þá er ekki stríðið búið.

Hin strategíska hlið var þó ekki það eina sem bættist við í flóru röksemda því sýnin sem maður sá framundan í þjóðhagsspá ASÍ sem á eftir að birtast, var myrk og þung. Hið eitraða epli sem arfleifð mannfjandsamlegrar frjálshyggjutilraunar sem framkvæmd var á þjóðinni, var mjög eitrað og það þarf þennan sjö ára frest til að ná vopnum á ný því þó Damiklesar-sverð Ísþrælkunar hangi yfir okkur, þá eru sjö ár sem við höfum von til þess að hindra að hann slitni, sjö ár af því að reyna að byggja upp það sem drepið hefur verið: traust, sátt og virðingu, ekki bara heima fyrir heldur einnig erlendis.

Þar liggur nefnilega eitt af okkur stóru vandamálum, það er að við getum ekki eytt kröftum okkar í vonlausu baráttu sem Ice-Save er í raun miðað við núverandi aðstæður því traustið og virðingin utan frá er engin. Ef maður lítur út frá sjónarhóli þeirra erlendu þjóða sem við kljáumst við og vilja ekki treysta okkur nema gengið sé frá samkomulaginu, þá er þetta mjög einfalt: við erum hrokafull, við neituðum að hlusta, við komum fram af einstöku stærilæti og höfðum upp stór orð um að við borguðum ekki reikninga okkar, við tókum þátt í svindlinu og svikunum. Já, við tókum þátt utan frá séð því flestum er það ljóst ekki bara hér, heldur erlendis að stjórnvöld voru viljandi með í að halda blekkingunni áfram og skapa aðstæður fyrir stærstu svikamyllu sem sést hefur verið, hvort sem það voru ráðherrar, þingmenn, Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn með forystu eins af arkitektum hrunsins og viljugs velgjörðarmanns þeirra sem hreinsuðu fé frá breskum og hollenskum einstaklinga, líknarfélaga, spítala, sveitarfélaga og m.a.s. Scotland Yard. Já, Scotland Yard, Íslendingar rændu Scotland Yard, geri aðrir betur. Er það furða þó allir séu fúlir út í okkur?

Við erum vonda fólkið í augum heimsins og það breytist ekki með því að segja í hrokafullum tón:"Nei, við borgum ekki." Ef maður skrifar upp á ábyrgð fyrir einhverja, þá losnar maður ekkert undan ábyrgðinni þó viðkomandi stingi af frá skuldunum. Slíkt vita allir sem gerast ábyrgðarmenn á lánum eða öðru slíku, innheimtu-aðilinn horfir bara þegjandi á þig  með vorkunnarsvip yfir hrokafullri fáviskunni og segir svo:"Borgaðu annars hjólum við í þig af fullri hörku.. Réttlátt? Nei. Sanngjarnt? Nei. En ef við viljum semja og látum af hroka og afneitun á ábyrgð, þá eru frekari líkur á að okkur takist að fella niður hluta af skuldinni eða getum náð einhverju fé til baka frá hinum ábyrgðarlausa með jafnvel aðstoð innheimtumannsins.

Fleira gæti ég týnt til og ekki er það fallegt því efnahagslífið er að koðna niður, innan úr bönkunum heyrir maður að fyrirtæki séu að fara yfirrum vegna þess að það er ekkert hægt að gera, ákvörðunarfælni þar og vantraust erlendis frá hefur haft þau áhrif að sumir þurfa að staðgreiða eða greiða fyrirfram fyrir nauðsynlegar vörur eða varahluti, nokkuð sem gerir enn erfiðara fyrir sum fyrirtæki til að starfa eðlilega. Samfélagið var nefnilega sett á pásu og atvinnulífið látið ganga fyrir gufunum í bensíntanknum á meðan lýðskrum, orðalagspælingar og langdregið orðaska hefur gengið fyrir.  Til allrar hamingju þó var þessi orkunýting ekki alveg til einskins því þetta skilaði fyrirvörum sem gefur allavega einhverja glætu í þetta hvort sem það var fengið fram með lýðskrumi þeirra sem hugsa um hag sinna flokka ofar öllu eða baráttu þeirra sem stóðu heilir fyrir utan leikskólann á Austurvelli og heimtuðu að reynt yrði að breyta þessu svo skaðinn yrði lágmarkaður. Stjórnin hlustaði allavega, þingið gat ekki annað en þorað að reyna að ná lendingu og örugglega einhver góður hluti gerði sér grein fyrir því að lenda varð einhverri sátt, það varð að vinna saman

Þegar allt þetta er haft í huga og fyrirvara voru komnir í höfn, þá gat ég sem almennur borgari ekki lengur barmað mér, haldið áfram afneitun eða þrjósku. Ég verð því að greiða þessu atkvæði mitt með óbragð í kjaftinum og vona hið besta en ég set líka fyrirvara á þetta allt. Ég hef nefnilega líka sem almenningur, líka sem borgari og líka sem Íslendingur, ákveðnar kröfur bæði til þings og framtíðar.

Ég set því eftirfarandi fyrirvara til sjö ára en að þeim loknum, þá mun ég vera annaðhvort fluttur úr landi eða búiinn að ákveða að ég vilji tilheyra þessu þjóðfélagi lengur. Þessir fyrirvarar eru svo hljóðandi:

Ég krefst þess að stjórnvöld geri allt á þessum sjö árum til þess að fá IceSave-samningi breytt, reyni að bæta álit umheimsins á okkur og leggi allt í sölurnar til að lágmarka skaðann af þessum samning.

Ég krefst þess að stjórnvöld geri hvað sem þau geta til að ganga ekki nærri velferðarkerfinu, verndi auðlindir og þjóðareigur framar öllu gegn innlendum og erlendum fjárglæframönnum og öðrum sem ásælast eigur okkar og vilja eignast þær á bruna-útsölu með bellibrögðum og aðstoðar AGS.

Ég krefst þess að það verði lýst yfir algjöru stríði gegn þeim sem sviku okkur og komu okkur í þessa stöðu. Enginn miskunn, enginn fagurgali, enginn teknísk lagaflækja á að hindra að réttlæti á einhvern hátt nái fram að ganga.

Ég krefst þess að harðar verði gengið að þeim sem hafa sóað gífurlega magni fjár, þeim sem hafa ótæpilega farið ránshendi um bankanna í formi ofurlána og stóreignamönnum sem hafa sölsað undir sig fé með vafasömum hætti, en að almenningi sem hefur það eitt til sakar unnið að hafa asnast til að fæðast inn í samfélag siðlausrar frjálshyggju og spilltrar stjórnmála sem fyrirlitið hafa almenninga hingað til.

Ég krefst þess og tel það algjört skilyrði, að hér verði myndað nýr samfélagssáttmáli eða hið „Nýja Ísland“ og það verði ekki andvana fætt eða kæft í þinghúsinu eftir að róast í samfélaginu. Það skal verða stjórnlagaþing, það skal verða ný stjórnarskrá skrifuð af almenningi og fyrir þjóðina alla.

Ég krefst þess að þingmenn, ráðherrar og stjórnsýslan öll verði látin gangast undir strangar siðareglur sem hafi hagsmuni almennings að leiðarljósi og að Alþingi verði ekki lengur skúffufyrirtæki valdaætta, viðskiptablokka, auðmanna eða Viðskiptaráðs heldur Alþingi verði fyrir alla borgara landsins.

Ég krefst þess að það verði tryggt með lögum að siðferði verði látið ríkja í viðskiptum og þrengt verði að því frelsi sem orsakaði hrunið, frelsinu til að mega vera siðblindur og iðka slíkt í viðskiptum og hörð viðurlög verði sett vð brotum þar.

Og að lokum krefst ég þess, að hér rísi upp réttlátt samfélag,  gott samfélag sem ég get viljað búað í, samfélag þar sem maður getur horft framan í spegilinn og sagt:“Ég þraukaði, ég barðist og ég uppskar samfélag vonar, virðingar og sáttar öllum til handa.“ Ef það gengur eftir og þetta haft að leiðarljósi, þá er ég tilbúinn til þess að þrauka þorrann. Ef ekki þá er bara eitt sem hægt er að segja:

„Guð blessi Ísland, ég er farinn!“


mbl.is Icesave-frumvarp samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óvísindaleg könnun um fréttamat fjölmiðla á degi Sigmundar og Exista.

Í gær var dagur þar sem nokkur skemmtileg umræðu-efni voru til umfjöllunar í fjölmiðlum og bloggheimum eins og venjulegum. Eftir allt fjaðrafokið um það mál sem virtist vera mál málanna í fjölmiðlum og hjá stórhneyksluðum bloggurum, þ.e. hvort Sigmundur hafi verið edrú eður ei eða jafnvel minnst fulli maðurinn í salnum, þá ákvað ég að gera óvísindalega könnun á nokkrum fréttamiðlum um fréttamat fjölmiðla um hvað væru stærstu mál dagsins í gær og valdi þar nokkur mál: Exista og þeim tengt, Sigmundur, skuldavandi heimilanna, IceSave og HS Orku/Magma-einkavæðinguna á Suðurnesjum

Hérna eru niðurstöður af talningu, gef mér +/- 1 í óvísindalegu mati sem fráviki. Skemmtið ykkur við að skoða þessa töflu en Fjöldi frétta, er fjöldi innlendra frétta(viðskitpadálkar mbl og visis teknir út sér)

 

Fréttamiðill

Fjöldi  frétta

Sigmundur

Exista

Skuldir heimila

HS Orka og Magma

ICE-SAVE

dv.is

23

9(+2Sandkorn)

5

1

1

0

Ruv.is

56

1

3

4

2

0

Visir.is

50

8

0

4

1

1

Mbl.is

46

2

2

6

1

4

Viðsk.-mbl

17

x

6

0

0

0

Viðsk.-visir

18

x

4

0

0

0

 Nokkrar athugasemdir ætla ég að gera þó við þessi vísindi mín. Viðkskiptafréttir á mbl.is og visir.is eru oft fréttir sem eru stuttan tíma á forsíðunni og enda svo þar innan skamms. RÚV hefur þá sérstöðu að þeir taka þær fréttir inn í yfirlit innlendra frétta eða erlendar ólíkt þessum miðlum. Ég ákvað því að taka þær sér út því þar er blandað inn erlendum í bland við fréttir sem tengjast Íslandi. Því eru heildarfréttir mbl og visir eingöngu það sem birtist undir dálknum Innlendar fréttir.

Þegar litið er svo á vinsælustu fréttir þeirra miðla sem birta slíkt, þá eru 2 af 7 vinsælustu um Sigmund hjá DV en 3 af 6 hjá visir.is yfir þær vinsælsutu að því virðist. Erfitt er að sjá hjá Mogganum hvað er vinsælast miðað við gærdaginn þar sem það virðist breytast ört en líkið Michael Jackons trónaði þar á toppnum fyrir stundu og aðeins sást glitta í greiðslu-aðlögun sem vinsælt skoðunarefni. Um tíma í gær þá voru reyndar nær því aðalfréttir bæði á DV og Vísir um Sigmunds-mál alls 3-4 í einu(því miður tók ég ekki screenshot) á meðan fréttir tengdar hinu dreifðust meir um daginn eða fóru framhjá fólki vegna fyrirsagna.

Og hvað var vinsælast í bloggheimum fyrir fólk að ræða? Miðað við einstaklega ónákævma vísindilega könnun sem fólst í því að kíkja inn á blogg tengdum fréttum eða athugasemdir á Eyjunni sem ekki er með í þessari könnun vegna lélegrar fréttaleitar, þá lagði Sigmund Exista-lýðinn í snöggum sjómanni. Hinum málunum sem dreymdi um að vera það mikilvægasta í huga fréttamanna og bloggara, fengu varla að snerta hundaskálina við borð þessara trölla sem kljáðust um að vera mest á milli tanna hins venjulega Íslendings með tölvuna í fanginu.

Það skal þó tekið fram að þetta er til gamans gerts fyrst og fremst en er kannski ágætis umhugsunarefni um hvað við eyðum mestu púðri í að skrifa og tala um, hvað eru mikilvæg málí raun, hvað ekki og hvort athygli okkar sé ekki beint að einhverju smámáli í raun þegar stærri mál eru kæfð niður í rotþró þrælslundar og vanhæfni íslenskrar fjölmiðlastéttar.

Hvort mun hafa meiri áhrif á líf okkar eftir fimm ár: meint ölvun Sigmunds eða einkavæðing HS Orku?

Slíkar spurningar þurfum við að spyrja okkur við og við.


"Smear campaigning" gegn Sigmundi Erni og Eldmessu-ræða hans

Síðustu daga hefur borið aðeins á því að sumir Íslendingar sem sanna orð götusóparans eftir Menningarnótt um að Íslendingar séu svín, velti sér upp úr forarvaði slúðurs og kjamsa á mjög klipptu myndbandi sem ætlað er að sýna Sigmund Erni nokkurn í sem verstu ljósi og þeirri sögu komið á kreik að hann sé fullur. Þó ég hafi heyrt bæði góðar og slæmar sögur um viðkynni af þessum mann(og verið reiður út í hann út af Hótel Borgar-mótmælum)i, þá eiginlega ofbýður mér framferði þessara svína slúðursins og sóðaherferðar sem minnir mann helst á aðferðir Repúblikana-flokks Bush nokkurs eða andlegs tvíburaflokks Repúblikana hér á landi: Sjálfstæðisflokksins.

Þegar litið er á umrætt myndband þá má sjá að það er mjög klippt með ákveðna takta sem minnir á svokölluð "smear campaigning". Klippt til úr ræðum og andsvörum kvöldsins með hæðnislegum athugasemdum og allt dregið fram í sem verstu ljósi auk Guðlaugs Þórs(sem á sína athugasemd skilið miðað við framgöngu hans í ýmsum hlutum) sem hefur verið einnig talsvert skotmark svokallaðrar náhirðar Sjálfstæðisflokksins kennda við Davíð og inniheldur þá siðferðislega gjaldþrota menn sem hafa skapað þvílíkar hörmungar til handa íslenskri þjóð með siðblindunni sem felst í óheftri frjálshyggju, frjálshyggju sem hefur skaðað þjóðina svo mikið að hún mun eiga erfitt uppdráttar næstu árin og lítillar viðreisnarvon ef lýðskrumandi frjálshyggjan fær að ráða.

Í framhaldi af svona byrjun á herferð er komið kjaftasögu á kreik um að viðkomandi hafi gerst sekur um eitthvað athæfi sem þykir ekki boðlegt og jafnvel glæpsamlegt, mannorðið svert þar til skaðinn er skeður, og sama hvað viðkomandi reynir að verja sig, þá trúir fólk sögunni sem komið er á kreik eða eins og hér: léttvínsglas með mat er orðið að allsherjarfyllerí, nokkuð sem ég held að stór hluti Íslendinga stundar og sér ekkert að enda ekki fyllerí um að ræða. 

"Let the bastard deny it" var eitt sinn sagt af slíkum mönnum sem notuðu þessa mannorðsárásar-fræði, menn á borð við Joseph McCarthy sem íslenskir hægrimenn sumir hverjir telja hafa veirð misskilda hetju, Richard Nixon sem taldi sig þurfa að njósna um andstæðinga sína og lét brjótast inn í Watergate og George W. Bush jr. sem beitti sóðalegum ófræingarherferðum gegn andstæðingum sínum um að þeir væru á móti föðurlandinu og fleira.

Allt eru þetta hetjur íslenskra hægrimanna sem kenna sig við frjálshyggju Davíðs Oddsonar hvort sem það er Frjálshyggju-félagið, Der Sturmer-rit þeirra Vef-þjóðviljinn, AMX og náhirðin sem gerði þjóðna gjaldþrota og iðrast einskins heldur vill koma sér til valda á ný svo hægt sé að koma í veg fyrir að rannsóknir verði framkvæmdar og hafist verði handa við að tryggja valda-ættum, auðmönnum og öðrum ribböldum þeim sem riðu um hérað og kveiktu í bæjum íslensks almennings eftir að hafa nauðgað Fjallkonunni við bæjarhliðið, völdin áfram til að ræna, rupla og nauðga þjóðinni í heild sinni með aðstoð svikulla kotkarla sinna í Framsókn sem fengu hluta þýfisins.

Þegar horft er á ræðu Sigmunds Ernis, viðbrögð, frammíköll, andsvör o.fl. þá er mér nokkuð ljóst að maðurinn er ekki drukkinn og hef ég umgengist nógu marga drukkna einstaklinga um ævina. Það eru aðrir sem ættu að skammast sín og ætti að ræða við þarna um hegðun og framferði, svo sem þingmaðurinn sem segir að Sigmundur vinni fyrir auðmenn en er sjálfur í fóstri auðmanns í formannssæti". Einnig er spurningin með hvort þingkonan sem vill umræður nú um hegðun þingmanna, ætti ekki að líta í eign barm þegar hún ræðst ekki gegn Sigmundi efnislega heldur kallar hann heimskan með orðaskrúði. Hvað þá um þá sem garga á meðan Eldmessu Sigmundar stendur yfir og kalla Baugur eða ESB sem sök á öllu illa en neita að horfast augu við það að það sem SIgmundur bendir á, að við verðum að líta okkur nær með hverjir orsökuðu hrunið, sökudólgarnir sem ekki má leita að.

Nei, þeir sem eru óviðeigandi eru þeir sem horfast ekki í augun við eigin gerðir, þeir sem neita að iðrast og standa upp með lófaklappi, hálfgrátandi af geðshræringu yfir ræðu Flugnahöfðingjans mikla úr Svörtuloftum sem siðblindur kann aðeins eitt, að kasta smérinu á sem flesta til að breiða yfir sekt sína. Þeir sem neita að iðrast, þeir sem lýðskruma til að deila og drottna sér og auðmönnum sínum til hagsbóta, þeir sem vissu betur inn á þingi en héldu áfram leiknum, þeir sem vilja halda öllu óbreyttu í faðmi frjálshyggjunnar,það eru þeir sem eru ekki þinginu sæmandi, hvað þá íslensku samfélagi. 

Ég mæli svo með að fólk hlusti eða lesi magnaða ræðu Sigmundar, hlusti svo á andsvör, frammíköll og annað til að meta þetta sjálft. Ræðuna má finna hér í texta-formi á vef Alþingis og listann yfir ræður og andsvör má finna hér en þar má einnig horfa og hlýða á ræðuna. Dæmið svo fyrir ykkur sjálf en látið ekki vel klippt myndband segja ykkur matreidda og fyrirfram ákveðna sýn, segja ykkur niðurstöðuna.

 


mbl.is Fékk sér léttvín með mat
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skuggaverk á Suðurnesjum II: Nýtt REI eða hvað?

Á Suðurnesjum er eitt síðasta vígi frjálshyggjunnar í Reykjanesbæ, sömu frjálshyggju og gerði þjóðina gjaldþrota og sömu frjálshyggju sem færði einkavinum banka, Síma og annað sem skúffufyrirtæki þeirra í ráðherrastól og einkavæðingarnefnd gáfu þeim. Nú er svo komið að frjálshyggjan sem veður enn áfram í blindri heimsku græðginnar og trúarofstækisins á það að auðmenn og einkafyrirtæki séu ofar þjóðinni, ætlar sér að koma orku-auðlindum Suðurnesja í hendur einkafyrirtækis um ókomna tíð.

En hvenær hófst þetta ferli allt? Þetta hófst í útrásinni illræmdu um áramótin 2006-2007 þegar bankarnir og braskarafyrirtækin voru byrjuð að horfa hýrum augum til orku-auðlinda sem eigna sem hægt væri að fá aukinn pening í veltuna fyrir kreditkortum, bíóferðum og gulláti forsvarsmanna þessara fyrirtækja. Í bloggfærslu frá því að styrkurinn frá FL-Group til Sjálfstæðisflokksins komst í hámæli, þá setti ég fram þá skoðun að styrkurinn hefði verið mútugreiðsla vegna einkavæðingar á hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja og þar setti ég fram eftirfarandi tímalínu um upphaf þessa ferlis:

  • 20. desember Árni Matthíasen fjármálaráðherra og Jón Sigurðsson, viðskipta- og iðnaðarráðherra, fela einkavæðingarnefnd á fundi, að einkavæða hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja. Á sama fundi er bréf tekið fyrir þar sem Glitnir lýsir áhuga sínum á að kaupa HS.
  • 29. desember Greiðsla FL Group, eins af eigendum Glitnis, upp á 30 milljónir berst inn á reikning Sjálfstæðisflokksins. Um svipað leyti eru greiddar 25 millur frá Landsbankanum.
  • 1. janúar Lög um styrki lögaðila taka gildi.
  • 7. janúar Glitnir og FL Group stofna fyrirtækið Geysir Green Energy ásamt  VGK-hönnun.
  • 2. febrúar Reykjanesbær kaupir 2,5% hlut í GGE fyrir 175 milljónir. 
  • 30. apríl GGE eignast hlut ríkisins, til viðbótar hlutnum í HS frá Reykjanesbæ. Samtals er GGE með 32% og reyndi síðar meir að eignast meir, bæði um sumarið og svo hefði REI-sameiningin skilað um 48% hlut í HS.

Á þessum tíma stýra hrunvaldar tveir sem kallast Sjálfstæðisflokkur og Framsókn, bæði ríki og borg auk þess sem Reykjanesbær er á valdi Sjálfstæðisflokksins. Báðir þessir aðilar eru vel tengdir inn í bankanna með einkavæðingarnefnd sem inniheldur menn sem komu bönkunum í hendur ósvífinna fjárglæframanna, ÍAV í hendur góðra vina þar sem setið var báðum megin borðs og svo að ógleymdum Símanum sem er í höndum eins skelfilegasta fyrirtæki landsins sem enn skrimtir: Exista.

En nóg um það. Hlaupum aðeins hratt yfir sögu í þessu ferli öllu. Um sumarið þá er REI stofnað, fyrirtækið sem átti eftir að verða banabiti fyrsta samstarfs frjálshyggjuflokkana beggja í borgarstjórn. Sameina átti REI og GGE svo maður rifji það upp, og þar kom einmitt Hitaveita Suðurnesja mjög svo við sögu. Hlutur OR í Hitaveitu Suðurnesja átti að renna inn í hið sameinaða félaga og GGE kæmi með sinn hlut einnig inn í þetta. Í kjölfarið átti einnig að gleypa hlut Hafnarfjarðarbæjar af hinu sameinaða fyrirtæki og athyglisvert er að skoða það sem stendur í frétt um óánægju Hafnfirðinga með þetta:

"Í tilkynningu sem Árni Sigfússon bæjarstjóri Reykjanesbæjar, og stjórnarformaður Hitaveitu Suðurnesja, sendi frá sér í gær kemur fram að samið hafi verið við Reykjavík Energy um að stofnað yrði sérstakt félag um dreifikerfið sem yrði í meirihlutaeigu Reykjanesbæjar, og annað um virkjanirnar sem yrði í meirihlutaeigu Reykjavík Energy. Fyrirtækinu verði því skipt upp í tvö félög."

Kunnuglegt er það ekki? Í dag er nefnilega staðan sú að Hitaveitu Suðurnesja var gert samkvæmt lögum að skipta upp í tvö fyrirtæki og þar af er annað þeirra, HS Orka komið i meirihluta-eigu Geysi Green Energy.

En aðeins meira um REI-málið því þegar meirihlutinn sprakk og Björn Ingi rölti út með rýtingasettið sitt fræga, þá hafði Sjálfstæðisflokkur náð þeim sáttum á milli sín að selja átti REI til einka-aðila með hlut HS og hugviti starfsmanna til áratugs eða tveggja innanborðs, bara ekki til FL Group því þeir voru ekki "réttir" aðilar að mati stuttbuxnagengisins stórvarasama.

REI fór fjandans til og ekki var hugað að einka(vina)væðingu á nýjan leik fyrr en kreppan skall á. Þá var þann fyrsta desember 2008 Hitaveitu Suðurnesja skipt upp í tvö félög HS Orku og HS Veitu, og stuttu síðar þá tilkynnti Árni Sigfússon það að sveitarfélögin ættu að kaupa landið af HS Orku og leigja þeim það til baka. Í framhaldi kom stjórnarformaður OR og tilkynnti með frjálshyggjuhreim það i miðjum hasar stórviðburða að OR ætlaði sér að losa sig við hlutinn í HS-fyrirtækjunum tveimur. Svo líður fram á sumar og Reykjanesbær sem er í stórum fjárhagskröggum selur hlut sinn í HS Orku til Geysi Green Energy, fyrirtæki sem er í reynd gjaldþrota(skuldar víst 23 milljarða en er haldið á lifi af bönkunum) og kaupin með fjármögnun frá óþekktu kanadísku fyrirtæki sem kallast Magma Energy sem myndi eignast um 10% í GGE fyrir greiðann. Magma er sama fyrirtæki sem sagðist ekki vilja hafa ráðandi hlut en hefur nú boðið í hlut OR og vill eignast ráðandi hlut í HS Orku nú sem myndi þýða að HS Orka yrði komin í hendurnar á einka-aiðlum að mestu leyti.

Skoðum aðeins þessi kostakaup öll sem Magma og GGE eru að fá. Samningurinn sem GGE fékk var ansi góður að mörgu leyti eða svo maður rifji upp úr annari bloggfærslu:

"Þá er reyndar áhugavert að skoða hvernig um var samið um greiðslu eða eins og segir hér í frétt Eyjunnar:

"Samkvæmt frétt um drögin á á vb.is verða þrír milljarðar króna greiddir með peningum, fjórir milljarðar með hlut GGE í HS Veitum og sex milljarðar með skuldabréfi sem greiðist á 7 árum. Þá felur samkomulagið í sér að Reykjanesbær kaupir landsvæði og auðlindirnar af HS Orku fyrir 1,3 milljarða króna. Á móti fær bærinn auðlindagjald sem getur numið allt að 90 milljónum króna á ári."

Sjáum nú til, skoðum þetta betur. Bærinn endar í raun með 1,7 milljarð í peningum, HS Veitu-hlutinn, skuldabréf og auðlindirnar sem skila samkvæmt auðlindagjaldi til bæjarins 90 milljónum á ári max. 90 milljónum af fyrirtæki sem veltir milljörðum á hverju ári samkvæmt ársreikningi?"

 Það sem komið hefur svo í ljós síðan ég ritaði ofangreint er að tekjur Reykjanesbæjar af þessari eign sinni voru eitthvað meiri áður en Sjálfstæðisflokkurinn tók til við að keyra fyrirtækið í kaf með klassískri aðferð frjálshyggjunnar, þ.e. reka það svo illa að sala er réttlætanleg, en áður var fyrirtækið að skila á annað hundrað milljóna í hagnað líkt og einhver benti á.Einnig má benda á það að HS Orka ætlar sér nú að margfalda orkuframleiðslu til frambúðar þrátt fyrir að þeir séu að fara framúr sér við Svartengi, svo framúr sér að það þurfti víst að grípa í taumana um daginn.

Skoðum svo hvað Magma/Geysir Green fá út úr kaupunum:

  • Afnotarétt til 65 ára framlengjalegan til 130 ára
  • Talsverð áhrif á atvinnusköpun á svæðinu og í raun geta ákveðið hverskonar starfsemi þrífst.
  • Ódýrar auðlindir á útsöluverði með kúluláni til 7 ára á mjög lágum vöxtum og á mun hagstæðara verði en í Bandaríkjunum t.d. 

Hvað fá svo sveitarfélögin út úr þessu braski öllu? Það er góð spurning en á fljótt litið hallar ansi á þau:

  • Reykjanesbær eignast HS Veitu að meirihluta
  • Reykjanesbær fær pening til að setja inn í nær því gjaldþrota sveitarfélag
  • Reykjanesbær fær örlítið fé á hvejru ári með auðlindagjaldi
  • Reykjanesbær missir afnotarétt á auðlindum sínum til 130 ára
  • Reykjanesbær tapar öllum tekjum af orkusölu til nýs álvers, gagnavers og annars iðnaðar til frambúðar, og öllum hagnaði af orkusölu.
  • OR fær 3,7 milljarða inn í reksturinn.
  • OR veitir kúlulán með einstaklega lágum vöxtum til 7 ára með veð í hlutabréfum. Miðað við verðbólgu og fleiri þætti þá má reikna með að OR stórtapi með því að veita þetta kúlulán sem gæti farið svo að þegar búið er að þurrka auðlindina upp þá geti menn skilað hlutabréfunum.
  • OR selur hlutinn í HS Orku með tapi eða á 6,7 kr. hlutinn í staðinn fyrir 7,0 hlutinn sem keyptur var af Hafnarfjarðarbæ.
  • Stjórn OR missir af hagnaði orkusölu vegna nýs álvers, gagnavers og alls hagnaðs í raun.
  • Neytendur munu uppskera hækkandi orkuverð, skert lífskjör enn frekar og jafnvel orku- og vatnsskömmtun sé miðað við reynslu annara landa af svipuðum hlutum.
  • Þjóðin öll glatar yfirráðarétti yfir einni af auðlindum sínum næstu 130 árin og jafnvel til frambúðar ef auðlindin skyldi hverfaá þeim tíma.

En hugleiðum fleiri þætti með þetta allt. Skoðum t.d. Reykjanesbæ og ástarsambandið við Geysi Green Energy. Einn af stærstu eigendum GGE er Glitnir sem á útrásartímanum var umsvifamikið í samstarfi við Reykjanesbæ. Reykjanesbær rekur fyrirtækið Fasteign til helminga við Glitni og er hlutverk þessa fyrirtækis að eiga og reka þær fasteignir sem bærinn þarf að nota. Virðist einnig standa styr um það félag innan bæjarfélagsins ef marka má þessa frétt hér. Glitnir var á tímum REI og einkavæðingar hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja í aðaleigu Milestone sem bróðir bæjarstjórans starfaði fyrir sem forstjóri SjóVá(og síðar meir í félagi við bróðir fjármálaráðherra tengdu fasteignum á Keflavíkkurflugvelli) og svo hinsvegar FL Group sem var einnig stór hluthafi í GGE þá. Einhvern veginn virðist þarna suður með sjó kristallast kunningjaklíkutengslin viðskiptalífs og stjórnmála sem kristallast í skúffufyrirtæki spillingarinnar sem staðsett er á Háaleitisbraut, nánar tiltekið í Valhöll.

Skoðum aðeins aðra hluthafa í GGE einnig.  Þar er Atorka hf. sem Glitnir eða Íslandsbanki eins og hann kallast í dag, á hlut í. Fl-Group eða Stoðir eiga þarna einnig hlut og svo má benda á að Landsbankinn á þarna einnig hut í gegnum eignarhaldsfélag erlendis og svo Horn fjárfestingafélag sem var stofnað til þess að sjá um hlutabréfa-eign Landsbankans sem fluttust yfir í Nýja Landsbankann. Gaman að geta þess einnig að innan þessara banka virðist minnst hreinsun á fólki tengdu hruninu og óeðlilegum viðskiptaháttum farið fram.Stærsti hluthafi í Atorku eru svo Þorsteinn Vilhelmsson í gegnum mismunandi félög og annar smærri er forstjóri Atorku, Magnús Jónsson einnig í gegnum mismundi félög. 

 Þriðji stærsti hluthafinn samkvæmt heimasíðu GGE er svo VGK-Invest eða verkfræðistofan Mannvit. Það sem er þó athyglisvert við VGK-Invest eru eigendur þar og það að VGK Invest tengdist einnig REI í gegnum 2% hlut. Þar má nefna fyrirtækið Landvar ehf. sem á um 35% hlut í VGK Invest en þetta fyrirtækja er í eigu sívinsælla sprelligosa sem hafa týnst um tíma eða Finnur Ingólfsson og félagar í S-hópnum, þeir Helgi Guðmundsson og Kristinn Hallgrímsson, líkt og bent er hér á í frétt DV um GGE frá því í sumar. En það er meira athyglisvert í þessari frétt um önnur tengsl tengd Glitni eða eins og segir hér:

"Árni Magnússon, fyrrverandi ráðherra og framsóknarmaður, hefur afskipti af framtíð GGE sem starfsmaður Íslandsbanka. Auk þess er Vilhelm Þorsteinsson yfirmaður fyrirtækjasviðs bankans, en hann er sonur Þorsteins Vilhelmssonar, aðaleiganda Atorku, stærsta hluthafa GGE. Hluthafar í VGK-Invest og Atorku hafa því bæði ættar- og flokkstengsl inn í Íslandsbanka."

 Til upprifjunar má minnast þess að Árni Magnússon var ráðinn þarna inn í Glitni á sínum tíma til að leiða orku-útrás fyrirtækjasviðs og Vilhelm þessi komst einnig í fréttir fyirr risakúlulán upp á 800 milljónir í gegnum eignahaldsfélag sitt AB154 ehf. Einnig er gaman að geta þess svona í framhjáhlaupi að um svipað leyti og Bjarni Ármanns og Hannes Smárason héldu fræga kynningu á REI, þá stóðu Árni Magnússon og Lárus Welding einnig í ströngu í New York við kynningu á orku-útrás Glitnis sem var æði vegleg eins og lesa má hér.

Kíkjum aðeins á OR þá og hverjir tengjast þessari sögu allri í gegnum REI og nú HS Orku-einkavæðinguna. Þar er bæði á ferð borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar líkt og áður en þar eru einnig menn á borð við Hjörleif Kvaran sem var stór leikandi í REI-málum öllum(tók þátt í ráðningu Bjarna Ármanns m.a.) eins og má sjá hér í grein Péturs Blöndals í bloggfærslu Láru Hönnu. Einnig tengdist OR og REI, maður að nafni Ásgeir Margeirsson sem var eitt sinn aðstoðarforstjóri OR og hafði svo mikinn velvilja borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að hann gat heimsótt Guðlaug Þór Þórðaróson á sjúkrabeð til að ræða það að taka þátt í stofnun GGE á milli jóla og nýárs, eða um svipað leyti og FL Group millifærði inn á reikning Sjálfstæðisflokksins. Ásgeir þessi endaði sem forstjóri Geysi Green Energy síðar.

Þegar maður lítur yfir sviðið þá fer maður að hugsa um hverjir eru búnir að vera persónur og leikendur í þessu öllu frá því að hlutur ríkisins í HS var einkavæddur og ágætt að búa til lista yfir hverjir koma við sögu:

  • Árni Sigfússon og bæjarstjórn Sjálfstæðisflokks í Reykjanesbæ
  • Hjörleifur Kvaran
  • Guðlaugur Þ. Þórðarson
  • Árni Magnússon
  • Bjarni Ármannson
  • Hannes Smárason
  • Ásgeir Margeirsson
  • Finnur Ingólfsson og S-hópurinn
  • Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar
  • Stjórn OR sem er að góðum hluta skipuð Framsóknar og Sjálfstæðismönnum.
  • Einkavæðingarnefnd með yfirumsjón fjármálaráðherrans Árna Matt og viðskiptaráðherrans Jón SIg en hún var skipuð eingöngu fulltrúum Framsóknar og Sjálfstæðisflokks.

Ég veit ekki um ykkur en maður byrjar að leggja saman tvo og tvo ósjálfrátt og komast á þá skoðun að þarna sé taka tvö á REI-málinu í gangi, með fulltingi hrunflokkana tveggja, og ný svikamylla sett á sviðið.  Þegar maður lítur á það einnig að eignarhald Magma er óljóst, maður veit ekki hverjir standa á bak við það eða hverjir koma þar nálægt, þá byrjar maður að fyllast óhugnanlegum gruni og ekki bara þeim gruni sem ég reifaði eitt sinn, að þetta tengdist endurkomu Bjarna Ármanns til landsins, heldur að þarna sé á ferð tilraun útrásarvíkinganna siðblindu að hætti rússnesku oligarkanna, til að nýta sér ástandið til að hagnast óhemjulega á meðan þjóðinni blæðir út fyrir þeirra tilstuðlan. Og svo þegar bent er á það á vefsíðu sem kallast Independent Icelandic News að Halldór J. Kristjánsson sé farinn til Kanada til að vinna við fjárfestingar á orkusviði, þá byrjar hrollurinn að læðast upp bakið. Það er nefnilega einnig tekið fram að hann tengist þessum "viðskiptum" á Suðurnesjum.

Því meir sem maður horfir á þetta mál því meira tel ég að þetta verði að stöðva með öllum tiltækum ráðum og ég ætla að skora á fólk að gera það sem Lára Hanna Eiríksdóttir hvetur til, þ.e. að senda Steingrími J. Sigfússyni póst og biðla til hans um að koma í veg fyrir þetta og svo hinsvegar að senda þingheimi póst og biðla til þeirra um að hætta að vera skúffufyrirtæki útrásarvíkinga við Austurvöll og taka sig saman um að koma í veg fyrir að auðlindirnar sem ÞJÓÐIN á, verði komið í hendurnar á óprúttnum viðskiptamönnum af útrásartagi og tryggja að hið opinbera sjái um eignarhald og rekstur á orku-auðlindum okkar hvort sem það þurfi að fara í þjóðnýtingu til að bjarga þeim úr klóm frjálshyggjunnar eður ei. 

Eða viljum við glata öllu okkar, því sem gæti skipt sköpum fyrir framtíð þjóðarinnar, úr höndum almennings og þjóðarinnar allar til vafasamra fjárfesta og fjárglæframanna með tilstuðlan tveggja gerspilltra flokka? Ég veit allavega hvort ég vill. Orkan er okkar allra, ekki eingöngu þeirra sem eiga fé eða stjórnmálaflokkog það er okkar að tryggja að við, börn okkar, barnabörn og þjóðin öll hafi yfirráðarétt og nýtingarrétt á henni til framtíðar.

Lærum af reynslunni, brennum okkur ekki á sömu mistökum og aðrar þjóðir, brennum okkur ekki enn eina ferðina á tilraunum frjálshyggjunnar til að ræna okkur verðmætunum og komum í veg fyrir þetta.

 Að lokum vill ég benda fólki á það sem Hannes Friðriksson og Lára Hanna Einarsdóttir hafa skrifað um málin.

 

 

 

 


mbl.is Upplýsandi fundur með Magma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skuggaverk á Suðurnesjum: Enn meir um einka(vina)væðingu auðlinda í hendur GGE

Í dag sáust þrenningarteikn íslenskrar spillingar: auðmönnum hyglað af góðum vinum af æðstu stöðum, bankamenn kröfðust í krafti óskammfeilni græðginnar bónus-greiðslna fyrir að setja banka á hausinn og það sem er hér fjallað um í fréttinni: spilltir stjórnmálamenn sem æstir eru að koma auðlindum þjóðar og eignum almennings í hendur einkavina.

Frá því að þetta ferli hófst með mútugreiðslum til handa Sjálfstæðisflokknum vegna einkavinavæðingar á hlut ríkisins í HHS, hefur þessi þráhyggja Sjálfstæðisflokksins við að selja auðlindir Íslendinga í hendur manna sem einskis svífast, verið með ólíkindum að horfa á. Einkavinavæðing í upphafi, vandræðagangur með hlut OR og að lokum REI-málið hefð átt að gera mönnum ljóst að almenningur væri mótfallinn svona.

En nei, hafist var handa við að nýta tækifæri kreppunnar þegar athyglin beinist annað á tímum ESB-umræðunnar, hentugrar umræðu fyrir þá sem vilja vinna í skugganum og lauma myrkraverkum í gegn. Því ferli lýsti ég hér áður og var þá smávon um að einhvern veginn tækist að stöðva þetta allt saman, að Suðurnesingar myndu rísa upp og stöðva þá ósvinna sem var að gerast þarna.

Hvaða ósvinna? Nú, það er verið að færa þarna einkafyrirtæki réttinn til þess að nýta orku-auðlindir okkar landsmann, næstu 130 árin sem eru mun lengra en við munum nokkurn tímann lifa. Fyrir það fæst grátlegt auðlindagjald sem er varla upp i nös á ketti þegar yfir er litið og það sem verra er, að þarna fer fyrirtæki sem var í góðum rekstri þar til frjálshyggjupúkarnir suður með sjó ákváðu að keyar það kerfisbundið í hallarekstur. Um svipað leyti tóku þessir púkar einnig til hendinni innan bæjarins, komu öllu sem þeir gátu í hendur Glitnis og eigenda þeirra með þeim afleiðingum að bærinn á varla nokkra fasteign í bænum né lengur auðlindir. Nú stefnir þar að auki að þessar orku-auðlindir okkar verði ekki bara undir hæl misvitra fjárglæframanna og févana frjálshyggjumana, heldur einnig í eign erlendra aðila sem stefna að því að ná... tja, er ekki best að grípa til orðsins óhugnanlega: kjölfestuhlut í fyrirtækinu.

Sandgerði hefur selt sinn hlut fyrir litið og nú er innan OR bæði þrýstingur á Hafnfirðinga um að selja glorhungruðum græðgispúkum miskunnarlausrar frjálshyggjunnar sinn hlut og svo hinsvegar hamast ofstækisfullir frjálshyggjumenn okkar Reykvíkinga eins og graðir hundar á lóðarí við að koma eign okkar Reykvíkinga í hendur erlendra og innlendra fulltrúa græðisvæðingar sem hafa komið landinu á kné. Það aðhyllist þeirra trúarbrögðum nefnilega að sjá til þess að gangsterar í teinóttum fötum geti hagnast einir og almenningur beri skaðann áratugi fram í tímann.

En hverjar eru afleiðingarnar fyrir utan að Suðurnesjamenn missa yfirráðarétt sinn í 130 ár? Það er góð spurning en svo miðað sé við hvernig svona einka(vina)væðingar hafa farið i öðrum löndum og hér reyndar einnig, þá kristallast þetta alltaf í tvennu: hærra verð til neytandans og verri lífsgæði honum til handa sem afleiðing af því og svo verri þjónusta á allan hátt. Einnig má við því búast að Suðurnesingar megi byrja að búa við orkuskort, allur hagnaður af sölu raforku til stóriðju og fyrirtækja mun renna beint til eigenda en ekki til sveitarfélagsins líkt og áður og erfiðara verður að reka sveitarfélagið sem slíkt. Við það bætist að þetta einkavinavædda fyrritæki mun hafa krumlu sína læsta um Suðurnesin og geta stjórnað þróun atvinnu sem og öðrum þáttum, stjórnmálamenn verða undir hælnum á þeim og vei þeim sem ætlar að reyna að hafa aðrar skoðanir en eigendur þess.

Svo mun söngurinn hefjast á ný annars staðar:" ríkið getur ekki verið í samkeppni við einka-aðila, markaðnum er einum treystandi, samkeppnin á orkumarkaðnum mun skila betri þjónustu til viðskiptavina" og allt það sem við höfum heyrt áður frá aðilum sem stóðu þétt á bak við olíusamráð og bankabrask.

Höfum við ekki lifað slíkan tíma upp nú þegar? Erum við ekki að upplifa hrikalegar afleiðingar frjálshyggjunnar og einkavæðingar sem stendur? Vilja Suðurnesingar taka á sig enn meira högg af þeim þáttum?

Það er þeirra einna að meta og þeirra að berjast fyrir. Við hin verðum að leggja þeim lið og stöðva sölu OR og annarra til hinnar nýju hrollvekju einkavæðingar og martraðar frjálshyggjunnar með öllum ráðum sem til eru, jafnvel að krefjast þess að ríkið grípi inn í og þjóðnýti auðlindirnar til bjargar almenningi suður með sjó. Það eru nefnilega mannréttindi okkar að geta haft aðgang að ódýru rafmagni, orku og vatni til að lifa af og við verðum að gæta okkur á því að siðlausir menn nýti sér ekki tækifæri kreppunnar til að brjóta á okkur og framtíð okkar til betra lífs, sér og sínum til handa.

Eða viljum við bara loka eyrunum aftur og vonast eftir hamingjusömum endi með fákeppni, okri og engri þjónustu á meðan við sitjum heiladofin og slefandi í sófanum yfir hinu íslenska Wipeout á Stöð 2?

Maður spyr sig.


mbl.is Áhyggjur af framsali auðlindaréttar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Adieu, Borgarahreyfing

Í dag er maður dapur, í dag er maður sár, í dag er maður leiður því að í dag er dagurinn sem Borgarahreyfingin endanlega dó í hjarta mínu. Þessi vegferð sem hófst hjá mér í kytru í Borgartúni þar sem nokkrir menn settust niður og ákváðu að koma þeirri hugmyndafræði sem verið var að móta háleitt á efstu hæð þar af hópi sem þar sat, frá umræðustiginu yfir í framkvæmdastigið sem nauðsynlegt var svo að árangur næðist. Þessi vegferð hefur endað með skelfingu einni, andhverfunni við upphaf í heilindum, andhverfuna við þær hugsjónir sem lagt var af stað með, andhverfu við siðferði manns sjálfs.

Og hvernig var þessi vegferð? Hvernig varð hún svona í augum manns? Hvernig gat þess hreyfing sem lagði af stað af krafti vonar með heilindi og siðferði að leiðarljósi, kannski barnalega stundum en af einlægni, orðið að Frankenstein-skrímsli í forarvaði siðferðisbresta, óheilinda og rýtingsstungna? Hvað gerðist? 

Þetta er erfitt svar og örugglega margþætt en það eina sem ég get, er að lýsa mínum sjónarhól á þessari vegferð frá Borgartúninu sem varð að skærri stjörnu um tíma en brenndi sig upp um leið. Frá Borgartúninu færðist þetta til funda þar sem reynt var að sættast a stefnu, strauma, vott af skipulagi og öðru sem skipti máli í þeirri stóru framkvæmd sem var framundan: þingframboð. Allir virkuðu sem þeir ynnu af heilindum og væru að gera sitt besta en þrasfundir sem tóku alltof langan tíma, áttu það til að tefja fyrir og reyndari menn sem sátu með, sögðu að svona gengi ekki, þrasið um smáatriðin yrðu að víkja fyrir einblíningu á praktískari hluti, bæði út á við og inn á við. 

Áfram hélt þetta þó en samt byrjuðu að koma fram teikn fram sem hefðu átt að vera aðvörun um að ekki væri allt eins og vera bæri. Sá sem þetta ritar lenti m.a. í því að vera ýtt til hliðar sem vefritstjóra með tölvupósti, með ákvörðun sem virtist tekin í skyndingu og önnur manneskja átti skyndilega að taka við öllu án samráðs. Það fyrirgafst þó eftir nokkurra daga sárindi  né nokkuð við þá sem við tók að sakast enda alsaklaus af ákvörðuninni og vinnubrögðum þessum sem ég erfi ekki við þann aðila.

En þetta var þó smáhlutur í raun um asa og taugatitring í brjálæðinu sem kosningabaráttan var, kosningabarátta sem maður sér ekki eftir að hafa tekið þátt í og er reynslunni ríkari eftir á. Þó fór maður að ókyrrast yfir því að sú stjórn sem átti að stýra kosningabaráttunni virtist ekki hafa heildarsýn á hlutunum með fyrirfram ákveðna áætlun í huga, heldur var að bregðast við frá degi til dags út frá þrasfundum morgnana. Brátt fór að kvisast til manns að ákveðnir aðilar sem þar sátu, töldu það meira aðkallandi að eiga sviðið eitt, leggja fólk innan stjórnarinnar í hálfgert einelti og jafnvel krefjast þess að formaðurinn viki vegna þess að þjóðin þyrfti á öðrum að halda en honum. Síðastnefnda málið varð til þess að heil vika glataðist í undirbúningi kosningabaráttu, nokkuð sem var alls ekki ásættanlegt á þeim tímapunkti þegar allur kraftur þurfti að fara í baráttuna, ekki einhverjar persónulegar kýtir sem leystust fyrir rest með hálfkjánalegri yfirlýsingu um að hreyfingin hefði eingöngu talsmenn en ekki hefðbundið skipulag á strúktúr stjórnar.

Við það greip mann ákveðinn vantrú og maður vissi ekki hvort  Borgarahreyfingin væri andvana fædd eða hvort þetta væri einfaldlega álagið í kosningabaráttunni að brjótast út í svona heimskulegum uppákomum í garð fólks sem hefur nú sagt sig úr stjórn og hreyfingunni. Samt hélt maður áfram, ótrauður bæði vegna þessa fólks sem maður þekkti og svo sannfærðist maður á ný af hálfu þess að taka þátt í þessu fólki sem var heilt í baráttunni, grasrótarfólksins sem lagði sitt fram af hjarta og sál og kom þessum fjórmenningum á þing við mikinn fagnað á kosningakvöldið.

Sá fagnaður stóð þó ekki lengi yfir því brestir fóru strax að koma fram, brestir sem reyndust ekki vera álagið heldur brestir þeirra sem blekktu sig til valda að manni fannst þegar litið er yfir söguna frá kosningum, og sviku þá sem stóðu í þessu. Þó er mögulegt að við þröskuld þinghús hafi farið fram inngönguathöfn inn i helvíti fláræðis og óheilinda þar sem ógeðsdrykki spillingar og siðleysis var neytt ofan í þá sem voru ekki nógu sterkir á svellinu til að segja nei með penum hætti.

Í byrjun sumar heyrði maður af því að allskonar uppákomur í tengslum við peningamál og stórmennskulega sýnir um risahúsnæði fyrr allt hið mikla fé sem frá ríkinu kom og fór fram mikill átakafundur þar sem harkaleg gagnrýni fór fram á kosningastjóra  fyrir launamál og aðra fyrir önnur mál, en ég get ekki vitnað um hvað þar gekk á og tel reyndar að miðað við samtöl við nokkra aðila og viðkynni mín af kosningastjórunum að einhver misskilningur eða ýkjur hafi verið þar á ferð því um þann mann hef ég haft eingöngu góð viðkynni af, og hafði samúð með þegar ég sá vörn hans á auka-aðalfundi sem var haldin um mitt sumar. Fram að þeim auka-aðalfundi heyrði maður þó raddir um versnandi samband þinghóps við stjórn þar sem þinghópurinn að mestu virtist vilja vera æðsta vald hreyfingar, ekki framlenging á henni. 

Auka-aðalfundur var boðaður sem ég sá mér fært að mæta á, fundur sem maður fékk á tilfinninguna að ákveðið hefði verið að skyldi nýttur til að sætta aðila og hreinsa með nýrri stjórn. Tilfinningin sú var léttir, tilfinningin var við lok dags að þá var þetta að mjakast í rétta átt, þetta væru vaxtaverkir einir, nú yrði þetta léttara undir fæti, nú myndu hlutirnir stefna í rétta átt.

Lognið sem féll yfir, reyndist vera svikalogn því þegar afgreiðslan á ESB kom, fyrsta stóra prófmálið fyrir hreyfinguna, þá kolféll þingflokkurinn á prófinu, ekki bara með svikum á því samkomulagi sem flestir stóðu að væri meiningin, þ.e. farið yrði í aðildarviðræður til að geta séð eitthvað í hendi til að kjósa um, heldur féllu þau á stóra siðferðisprófinu sem skipti mestu máli: að verða ekki eins og hinir flokkarnir, að bregðast ekki við með óheilindum og breyta rangt. Gripið var til réttlætingar án iðrunar, gripið var til þeirra meðala sem aðrir voru gagnrýndir fyrir. Þó taldi maður að örvænting yfir IceSave réði ferðinni, málinu stóra sem öllu átti að fórna fyrir: heiðarleika, trausti og virðingu. Tilgangurinn helgaði meðulin líkt og hver varða til vítis segir okkur en samt vonaðist maður eftir iðrun.

Þetta olli því að maður sem þögull áhorfandi sem sá meir en fólk hélt, byrjaði að verða það ljóst að stjarnan skæra væri að brenna upp. Þó vildi maður reyna að lokum að blása lífi í dauðvona sjúklinginn sem lá rotnandi á borðinu fyrir framan, félagsfundurinn í síðustu viku var tilraun til þess þar sem allt það góða fólk sem þar mætti, vildi raunverulega reyna, vildi ekki gefast upp, vildi ná sáttum.

Þó þegar tíminn byrjaði að líða frá þeim fundi og maður byrjaði að sjá og heyra meir og meir sem hinn þögli áhorfandi sem tekur eftir hlutum og hefur vitneskjuna, að þetta var orðið búið spil þó tíminn sem maður gæfi til björgunar var til lítillar vonar um að örfáum aðilum sem engum voru tengdir, gætu gert kraftaverk. Sú von dó þó með hverri frétt og upplýsingu um hegðun þingmanna, bæði hinar opinberu fréttir um ósættið, orða um að þeir hefðu farið þarna inn á eigin forsendum sem virkaði eins og að þau ein hefðu framkvæmt allt, viðsnúning í IceSave-málinu þar sem öllu var fórnandi áður en mátti nú samþykkja með fyrirvörum, hroka þingmanns í garð grasrótarinnar sem vildi reyna að sætta fólk með þeim orðum að félagsfundur vegna deilnanna hefði verið gagnslaus nema þeim sem mættu, hið einstaklega rætna bréf í garð Þráins sem birtist í gær.

Eins og það væri ekki nóg þá voru það einnig hinar óopinberu fréttir um að þingmenn tækju köst á stjórnarliðum, handveldu fólk til að mæta á fundi með sér, töldu að stjórnin ætti að lúta vilja sínum og hefðu stofnað sérfélag um þingflokkinn í algjörri andstöðu við samþykkt félagsfundar um að slíkt ætti ekki að gera. Slíkt sagði manni aðeins eitt, þremenningarnir sem höfðu sig hvað mest í frammi, voru búin að kljúfa sig frá grasrótinni sem kom þeim á þing.

Nú í dag eru þetta þrjár hreyfingar: þinghópurinn sem seldi sálu sína, Þráinn sem stendur einn og heill eftir þann eineltislega mykjuhaug sem dembt hefur yfir hann og svo grasrótin sem stóð trú í hjarta sínu við sannfæringuna sem örfáir einstaklingar hafa gert óhreina og að athlægi í sínum mennska harmleik. Og hversvegna fór svo? Eins og ég segi, þá er það örugglega ekki einfalt svar en sjálfin sem fóru inn á þing voru stór, eitt þeirra mundi þó fyrir hverju viðkomandi átti að standa, þrjú þeirra komu á eigin forsendum og með sig og sína í huga framar þjóðinni sem átti að fara inn á þing. 

Slíkt getur maður ekki við unað lengur, slíkt getur maður ekki tekið þátt í, slíkt getur maður ekki varið eða eytt orku sinni í að berjast við, slíkt eftirlætur maður öðrum einum. Ég segi mig hér með úr hreyfingunni sem hófst til lofts líkt og sjálfstæðisbarátta Íslendinga, varð að afli líkt og lýðveldið Ísland en dó líkt og samfélagið Ísland í spillingu, siðleysi, klíkuskap og einstökum óheiðarleika fámenns hóps. Ég óska því fólki í grasrótinni hið besta og ég vona að ég geti hitt þau öll sem voru heil og trú sjálfum sér, deildu saman sorg og sút, gleði og gráti á ný við mun gleðilegri og skemmtilegri aðstæður. Það fólk er þess virði að hafa kynnst og starfað með og það er það fólk sem átti þetta aldrei skilið.

Adieu, Borgarahreyfing. Sagan mun dæma þennan feril frá búsáhaldabyltingu til blóðugra bakstungna á þennan hátt:

Byltingin át ekki börnin sín, börnin átu byltinguna.
mbl.is Reynt að ná sátt hjá Borgarahreyfingunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimur á hvolfi

Mótmæli á Austurvelli voru í dag undir merkjum InDefence.

Þar mátti sjá Bjarna Benedikstsson formann Sjálfstæðisflokksins sem taldi 6,7% vexti á IceSave-láni til 10 ára með fyrsta gjalddaga ári síðar, vel viðunandi niðurstöðu síðastliðin desember. Í dag stóð hann og mótmælti því að 5,5% vextir væru á láni til 15 ára með fyrsta gjalddaga eftir 7 ár.

Annars staðar stóð Davíð Oddson fyrrum forsætisráðherra og utanríkisráðherra sem gerði sig að Seðlabnakastjóra. Sá maður einkavinavæddi Landsbankans til Björgólfs-feðga og hrópaði þeir lengi lifi, var alltaf frekar blíður í garð þeirra feðga og Landsbankans sem notaður var sem atvinnumiðlun fyrir Sjálfstæðisflokkinn og endaði sú vernd með ósköpum þar sem IceSave-skuldirnar féllu á landann og skilyrði um samning um þá mál sett inn í samkomulag við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn með undirritun Davíðs Oddsonar Seðlabankastjóra.

Í dag stóð Davíð Oddson og mótmælti þeirri undirskrift sinni, einkavinavæðingu bankanna og hlustaði heillaður á Einar Már Guðmundsson bölsótast yfir stefnu og ákvörðunum Sjálfstæðisflokksins og vina þeirra sem þjóðin þarf að borga.

Enn er verið að leita að Hannesi Hólmsteini, Kjartani Gunnarssyni og Björgólfs-feðgum á myndbandi en vænta má að þeir ásamt fleirum öflugum Sjálfstæðisfmönnum sem kölluðu mótmælendur skríl, lýð og töldu að lögreglan ætti að berja þá til óbótar í vetur, sama lögregla og stóð nú og klappaði með Davíð og Bjarna. Reikna má með niðurstöðu innan skamms.

Í dag var ég kallaður Quislingur, landráðamaður og föðurlandsvikari fyrir að vilja ekki sýna samstöðu og telja þennan fund póltískt lýðskrum auglýst upp með þjóðernishyggju, í þágu Sjálfstæðisflokksins.

Ef þessi súrrealíski heimur á hvolfi, er afleiðing innhverfar íhugunar David Lynch, þá hef ég bara eitt að segja:

GUÐ BLESSI ÍSLAND, ÉG ER FARINN!

 


mbl.is Sneisafullur Austurvöllur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samstöðu-spuni þjóðernishyggjunar

Mér er heitt í mansi núna enda fylltist mælirinn nú af dropum ógeðfellds áróðurs. Hver er ástæðan? Í gærkvöldi sá ég ábendingu um auglýsingu frá InDefence sem ég hef verið frekar tortrygginn í garð vegna annarsvegar tengsla þeirra við Framsóknarflokkinn og svo hinsvegar framkoma þeirra í tengslum við nýlegan borgarafund þar sem þeir eignuðu sér fundinn í fréttatilkynningum þrátt fyrir að vera eðeins gestir í boði aðstandenda Borgarafunda.

Það fauk hressilega svo í mig þegar ég sá þessa auglýsingu þó ég hafi verið orðinn nett pirraður yfir ábendingunni, því hún innihélt það sem ég fyrirlít framar öllu: þjoðernishyggjulegt myndmál notað í pólitískum myndmáli. Þar var flennistór mynd af styttunni af Jóni Sigurðssyni grenjandi eins og að hann hefði veirð neyddur til að hlusta á ræður Bjarna Ben og Sigmunds Davíðs einhvers staðar í þröngum fangaklefa í leynifangelsum CIA. Myndmálið var augljóslega til að sýna að hann gréti yfir IceSlave-samningnum sem Bjarni Ben hafði lofað rétt fyrir jól en þótti nú grátlegur, en tónninn sjálfur undirniðri er alvarlegri á margan hátt.

Síðustu daga hafa nefnilega birst fleiri auglýsingar í svipuðum dúr þar sem Jón Sigurðsson er notaður í svipuðum pólitískum tilgangi þar sem gefið er í skyn ákveðinn hótun til þingmanna með orðalaginu:„Kæri þingmaður. Afstaða þín mun aldrei gleymast í Icesave deilunni – kjóstu gegn ríkisaábyrgð“ af ónafngreindum aðilum sem kalla sig Áhugafólk um framtíð Íslands.Þetta áhugafólk er þó ekki annað en yfirvarp yfir Samtök Fullveldissinna sem eru öfgaþjóðernishyggjumenn sem fara einnig hamförum við að auglýsa upp þennan fund og berja á trommur þjóðernisrembings í pólitískum tilgangi. 

Þegar þessar auglýsingar báðar eru svo skoðaðar í samhengi þá má lesa út úr þeim ákveðin skilaboð. Ef þú telur að það eigi að fara samningaleið eða hugleiðir einhverjar aðrar lausnir en þá sem InDefence og Fullveldissinar vilja, þá ertu föðurlandsvikari. Þar sem IceSave-málið er einnig blandað við ESB til að ná fram markmiðum fullveldssina og Sjálfstæðisflokksins sem þeir flestir, ef ekki allir tilheyra, þá ertu landráðamaður og vei þér, ef þú skyldir minnast á í þeirra hópi að Davíð beri einhverja ábyrgð á hruninu og skuli stinga inn, þá ertu nefnilega orðinn sekur um guðlast. Semsagt ef þú fylkir þér ekki á bak við grátandi Jón Sigurðsson, þá ertu lydda sem vilt skríða fyrir útlendingum, landráðamaður eða föðurlandsvikari í bland við hefðbundið blótsyrði hægri öfgamanna: kommúnisti eða Samfylkingarmaður. 

Þessar þjóðernisöfgar fylla mig alltaf af velgju, velgju þess sem veit að þeir sem spila á slíkt í pólitískum tilgangi, eru með hrient lýðskrum í valdabrölti eða til að fá hrætt fólk á sitt band hvort sem það er að mótmæla einhverju máli, senda hermenn til Íraks til að berjast fyrir föðurlandið eða enn verri hluti sem má lesa í sögubókum. 

Ég veit það allavega að ég mun ekki mæta á þennan samstöðu-fund spunameistara þeirra afla sem eru að nýta sér IceSave-málið inn á þingi til að ná völdum á ný. Ég veit það allavega að ég mun ekki mæta á samstöðufund sem þjóðernisöfgamenn auglýsa grimmt mitt á milli þess sem þeir tala um að vinstri menn séu landráðamenn, samkynhneigðir séu óæskilegir í samfélag manna og að múslimar séu ógn við hinn hvíta, kristna kynstofn, jafnvel þó það kitli mig aðeins að mæta dulbúinn sem vinstrisinnaður, samkynhneigður múslimi til að sjá viðbrögð brúnstakkalegra Samtaka fullveldissina sem telja sig eina hafa rétt a skoðunum hér á landi.

En nei, ég held ég haldi mig bara heima og rifji upp myndina Triumph of the will  til áminningar um verstu afleiðingar þess að þjóðernishyggja sé spunninn inn í pólitískt lýðskrum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

AK-72

Höfundur

AK-72
AK-72
Með óþrjótandi áhuga á kvikmyndum, sögu og stjórnmálum.Telur sig hafa fullt frelsi til að hrósa og gagnrýna hvern sem er og hvenær sem er.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...1212_913482
  • ...ner1_568492
  • ...rad-banner1
  • Screenshot

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband