Óboðnir gestir og "öryggisúttekt"

Langaði til að deila þessari sögu með ykkur sem tilbreyting frá argaþrasi stjórnmála og dægurmála, enda er þetta ekta saga sem ratar ekki í blöðin þó í henni leynist örlagafólk og mannlegir harmleikar með skammti af smáhúmor.

Fyrir tveimur vikum síðan þá hrökk ég upp um miðja nótt við það að svefnherbergið mitt sem snýr að götunni, var orðið bjart. Ég nuddaði stýrurnar úr augunum og kíkti út um rifu á glugganum og sá að þar voru tveir sjúkrabílar fyrir utan og lögreglubíll. Eftir smástund sá ég hvar sjúkraflutningamennirnir báru einhvern út lífs eða liðinn úr kjallaranum hjá mér(virtist þó ekki vera trukkabílstjóri með tilliti til lögreglunnar) og fóru í burtu. Ég heyrði lögreglunna ræða við einhvern fyrir utan og ein af fáum setningum sem ég heyrði var:"Hvernig komst hann inn?" og svarið var að dyrnar hefðu líklegast verið opnar. 

Útidyrnar að framan höfðu verið í ólagi í einhvern tíma og það þurfti alltaf að gefa sér smátíma í að þrýsta/taka í hana, svo dyrnar skyllu í lás. Því miður er það svo að þegar maður býr í húsi þar sem nær því allir íbúar í dag eru leigjendur, þá er eins og það viðgangist allsherjar kæruleysi hjá flestum nema þeim sem eru meðvitaðir um hættuna af því að geta hleypt inn gestum og gangandi.

Við þetta kviknuðu grunsemdir hjá mér. Helgina áður hafði ég heyrt svefnhljóð fram á gangi og tengdi það við að einhver hefði komið lyklalaus heim og sofnað frammi, enda ekki skrítið miðað við að það voru tvö partý í húsinu kvöldið áður. Önnur tenging varð einnig til þar sem ég hafði 1-2 fundið sterka áfengislykt sem angaði um stigaganginn að morgni til og tengdi það við þær grunsemdir að útigangsfólk væri byrjað að lauma sér inn í hlýjuna í þvottahúsinu. Grunsemdir mínar fengust svo staðfestar tveimur dögum síðar þegar ég heyrði um laugardagsmorgun, hóstað reglulega á stigaganginum og bingó, einn vesalingurinn laumaði sér út um bakdyrnar stuttu síðar. Fyrstu viðbrögð eftir það voru að rjúka niður og skoða umgengnina, ein Sprite hálffull, skilinn eftir, en engin önnur merki um umgang. Greinilegt að þarna var á ferð einhver sem gerði sér grein fyrir því að til að skjólið yrði lengur þá mætti ekki sjást ummerki og virtist nú vera einn af þeim meinlausu sem eru á götunni.

Viðbrögð mín voru við það fyrsta að skella upp miða til að vara íbúa við og ítreka að útidyrnar þyrftu að vera læstar, svona á meðan maður væri að reyna að ná í eigendur og gera ráðstafanir um að taka á dyramálinu. Þeir fáu sem ég náði í fljótu bragði, urðu sammála um að redda smiði og græja þetta þannig að það yrði mannhelt því þó flestir af þeim útigangsmönnum séu meinleysisgrey þá eru fyrir það fyrsta ekki allir meinlausir, sprautufílarnir tilbúnir að selja ömmu sína fyrir næsta skammt og einnig áhætta með eld og fleira sem maður er að taka ef maður veit af þessu. Síðasta vetrardag var svo hjólað í að græja þetta en þó ekki fyrr en eftir eina skemmtilega heimsókn af götunni.

Um hálf tólf leytið kvöldið áður þá sat ég hér við tölvunna og heyrði útundan mér af götunni að tveir ölvaðir menn gengu framhjá. Annar heyrist skyndilega segja:"Hvað, ætlarðu þarna inn?" og næsta sem ég heyri er að einhver gekk inn um dyrnar. Smá hik kom á mig en ég rauk svo fram á gang og heyrði að viðkomandi var kominn niður í kjallarann og byrjaður að rjála við dyrnar að aftan. Ég stóð þarna með manndrápssvipinn á sloppnum, tilbúinn í slaginn með símann í annari hendi ef maður skyldi nú þurfa á hjálp lögreglunnar að halda,ekki vitandi að þeir væru uppteknir við að gera sig tilbúna undir barsmíðar vegna særts stolts silkihúfa. Upp stigann kemur svo maður sem má kalla Konung útigangsmannana í dag, enginn annar en Lalli Johns, og fylgir hér samtalið á eftir:

Ég(hvessi augun og rödd):"Ert þú ekki eitthvað að villast, vinur?"

LJ(flóttalegur með drafandi röddu):" Ég sá að það var opið hérna og var að tékka hvort það væri ekki allt í lagi hérna inni."

Lalli klárar að ganga upp stigann og stendur við dyrnar sem hann opnar til hálfs:"Það er eitthvað ólag á þessari læsingu, ég gæti nú gert við hana fyrir þig."

Lalli strýkur dyrunum blíðlega og horfir upp eftir þeim:"Þetta er nú ekki nógu öruggt hérna.....Ég var að vinna hjá Öryggismiðstöðinni."

Lalli snýr sér við, réttir mér hendina og kynnir sig mannalega:"Lalli Johns"

Eftir handarbandið, bakkar Lalli út úm dyrnar, umlar að allt sé í góðu og skellir þeim aftur.

Daginn eftir öryggisúttekkt Lalla, kom smiðurinn og græjaði þetta. Það er nú ekki á hverjum degi sem maður fær svona ókeypis ráðleggingar frá fagmanni á borð við Lalla og fyrir þá sem vilja láta hann taka út stigaganga og hús sín, þá má bóka tíma hjá honum mili 12-17 niður á Lækjartorgi eða Ingólfstorgi. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: AK-72

Jebb, reyndar kom svo í ljós við tiltekt í þvottahúsinu umbúðir utan af sprautunálum sem hafði veirð troðið á óáberandi stað. En já, maður varð feginn allavega að þetta var nú bara meinleysisgreyið hann Lalli í úttekt þetta kveldið.

AK-72, 29.4.2008 kl. 12:26

2 Smámynd: Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Skondin saga. Lalli má eiga það að hann er ekki alvitlaus. Hann er kannski rangur maður á réttum stað. Öryggisfulltrúi ha ha.

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, 29.4.2008 kl. 18:17

3 Smámynd: Þarfagreinir

Hann Lalli er klárlega snillingur.

Þarfagreinir, 29.4.2008 kl. 18:21

4 Smámynd: Hrannar Baldursson

Góð saga.

Hrannar Baldursson, 30.4.2008 kl. 07:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

AK-72

Höfundur

AK-72
AK-72
Með óþrjótandi áhuga á kvikmyndum, sögu og stjórnmálum.Telur sig hafa fullt frelsi til að hrósa og gagnrýna hvern sem er og hvenær sem er.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...1212_913482
  • ...ner1_568492
  • ...rad-banner1
  • Screenshot

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 123085

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband