Heimildarmyndaklúbburinn Hómer

Nú þegar styttist í heimildarmyndahátíðina Skjaldborg á Patreksfirið, þá flaug upp í hausinn á mér hvort það væri ekki óvitlaust að kynna Heimildarmyndaklúbbinn Hómer sem ætlar að mæta á hátíðna til að fylgjast með, ræða við heiðursgestinn Albert Maysles en hann og bróðir hans hafa sett sitt mark á kvikmyndasöguna með myndum sínum, ásamt því að klúbburinn sér þarna tækifæri á að hrinda heimsvalastefnu sinni í framkvæmd....úpps, ég kjaftaði kannski af mér.

 En hvaða félagsskapur er þetta og hvað gerir hann? Heimildarmyndaklúbburinn Hómer spratt upp úr hópi áhugasamra manna um kvikmyndir og heimildarmyndagerð, sem bæði tækifæri til að hitta félagana og svo til þess að sjá eitthvað spennandi fyrir þennan hóp bjór- og fróðleiksþyrstu manna. Herbert Sveinbjörnsson sem ásamt Guðmundi Erlingssyni(einnig klúbbmeðlimur) stóðu á bak við heimildarmyndina Tímamót, er forsprakki og einræðisherra klúbbsins(stundum er einræði gott þegar kemur að félagstarfi) og stjórnar með harðri hendi dagskránni sem hann velur af einstakri list. Yfirleitt er horft á 2 myndir í fullri lengd og oft á tíðum eru þetta eitthvað þema sem hægt er að tengja saman, þó ekki sé alltaf svo. Í framhaldi af áhorfi kvöldsins er oft spjallað um efni og fleira sem þróast út frá samræðunum og hafa klúbbar staðið eitthvað framyfir miðnætti þegar mesti hamurinn er í mönnum eftir áhorfið, og margt skemmtilegt og fróðlegt flakkar í bland við dægurmálin.

En Hómer er ekki lengur ósýnilegur í dimmum sjónvarpsherbergjum þar sem myrkraverk um framtíð heimsins og heimsyfirráð eru rædd, heldur er hann farinn að láta á sér kræla á opinberum vettvangi. Nú nýverið þá fékk Sigríður Pétursdóttir kvikmyndafræðingur, Hómer til að flytja pistla um áhorf sitt, í þætti sínum Kvika á Rás 1 og ef alt gengur að óskum þá verða reglulegir pistlar fluttir þar, sem meðlimir semja og útbúa fyrir flutning. Einnig hefur klubburinn komið sér upp heimasíðu sem verður bloggað á frá Skjaldborg þar sem einnig verður tekið viðtal við hinn merka Albert Maysles, ef allt gengur að óskum.

Að lokum ælta ég að láta fylgja með nýjasta pistil klúbbsins úr kviku. Til ábenidngar má benda á að þar sem stendur SB, þá þýðir það að þarna eigi að koma hljóðbrot úr viðkomandi mynd og er þá þýðingin strax á eftir.

 "

Nader og Schwarzenegger - Pistill

Heimildamyndaklúbburinn

Hómer

Kynnir

útvarpsumfjöllun um myndirnar:

An Unreasonable Man eða Ósveigjanlegur maður

eftir Henriette Mantel og Steve Skrovan

frá 2006

og

Running With Arnold eða Boðið fram (eða hlaupið) með Arnold

eftir Dan Cox

frá 2006

3.maí.2008

An unreasonable man

SB #1

„Takk Ralph fyrir Íraksstríðið, takk Ralph fyrir skattalækkanirnar, takk Ralph fyrir eyðilegginguna á umhverfinu og fyrir eyðilegginguna á stjórnarskránni.

Þetta er verra enn barnalegt þetta jaðrar við íllsku.

Mér finnst að maðurinn verði að fara, hann ætti að búa í öðru landi. Hann er búinn að valda nægum skaða hér nú er komið að einhverju öðru landi.

Ralph, snúðu þér aftur að afturendum bifreiða ekki eyðileggja möguleika Demokrata á forsetastólnum aftur líkt og þú gerðir fyrir fjórum árum.“

Þessi upphafsorð lýsa þeirri mynd sem dregin hefur verið upp af neytendalögfræðingnum Ralph Nader frá því að úrslit í bandarísku forsetakosningunum árið 2000 voru kunngerð. En er þetta hin rétta sýn á manninn? Það er umfjöllunarefni myndarinnar An unreasonable man eða Ósveigjanlegur maður.

Hinn líbanskættaði Nader vakti fyrst athygli á sér þegar hann skrifaði bók þar sem hann gagnrýndi bandarískan bílaiðnað harkalega fyrir lélegar öryggiskröfur og gallaða bíla sem fyrirtækin settu á markað, í fullri vitneskju um hversu léleg og hættuleg hönnunin væri.

Ekki voru þessi risafyrirtæki hrifin af baráttu Naders fyrir öryggi bíleigenda og fljótlega fór honum að finnast sem hann væri eltur. Einnig fór að bera á dularfullum símhringingum og heimsóknum ókunnugra manna til vina Nader, í þeim tilgangi að fræðast um einkalíf hans. Þá birtist skyndilega glæsileg kona í matvöruverslun sem gekk upp að honum og vildi eiga við hann samræður um stjórnmál. Konunni var þó ekki ætlað að eiga samræður við Nader heldur átti hún að tæla hann til samræðis svo hægt væri að þagga niður í honum með svo sem einu kynlífshneyksli.

Umfjöllunarefni bókar Naders endaði fyrir þingnefnd þar sem bílafyrirtækin játuðu sig sigruð og báðust afsökunar á framferði sínu í hans garð.

SB#2

„Ég vil biðja nefndina afsökunar sem og Ralph Nader og ég vona að afsökunarbeiðnin verði tekin til greina.“

Þessi sigur Naders gegn bílaframleiðendum varð svo til þess að alríkislög um öryggiskröfur í bílum og umferð voru sett árið 1972.

En baráttu Naders fyrir hagsmunum neytenda og almennings var hvergi nærri lokið. Nader, sem eyðir 18 stundum á dag í hugsjónabaráttu sína, fór þannig að sanka að sér fólki sem var tilbúið til að leggja hönd á plóginn. Það fólk öðlaðist fljótt nafnbótina Nader‘s raiders eða Víkingar Naders og einbeitti sér að baráttu fyrir hag neytenda með því að kafa í gögn og vekja athygli á spillingu ýmissa aðila. Harkaleg gagnrýni Naders og samstarfsfélaga varð þannig til þess að mörgum lögum var breytt til hins betra ásamt því sem neytenda-, vinnu- og umhverfisvernd jókst. Má e.t.v. segja að uppeldi Naders, þar sem faðir hans úthlutaði honum pólitískum verkefnum á hverjum morgni sem kröfðust gagnrýninnar hugsunar og verja þurfti að kveldi, hafi skilað þessu árangursríka framlagi Naders til hagsbóta fyrir almenning.

SB#3

„Á hverjum morgni fyrir skóla tilkynnti pabbi Ralphs umræðuefni sem átti að ræða yfir kvöldmatnum.

Til dæmis, við ætlum að ræða um bílastæðavandamál við aðalgötuna. Þannig að við reyndum að finna lausn á bílastæðavandanum.“

Í stjórnartíð Jimmy Carters fór að síga á ógæfuhliðina hjá Nader sem hafði stutt Demókrata dyggilega í gegnum tíðina. Hann hafði ávallt talið að málefni hans ættu góðan hljómgrunn hjá Demókrötum, en þegar á reyndi var það mest í orði. Með valdatöku Regans hófst svo niðurrif á öllu því sem Nader hafði barist fyrir. Niðurrif sem varð til þess að stofnanir sem ætlað var að hafa eftirlit með fyrirtækjum og sinna réttindum neytenda voru stórlaskaðar og ekki svipur hjá sjón þegar valdatíð Clintons hófst. Valdataka Clintons breytti þó litlu fyrir þennan ötula baráttumann. Demókratar höfðu nefnilega dottið ofan í sömu gryfju og Repúblikanar og voru orðnir hallir undir ýmis fyrirtæki vegna ríflegra styrkja í kosningasjóði. Hugsjónir þær sem Nader gat tengt sig við á þeim bæ voru því horfnar.

Í gegnum tíðina hafði Nader oft verið spurður að því hvort hann myndi skella sér í forsetaframboð en ávallt svarað því neitandi. Að lokum var forsetaframboð þó hið eina sem hann sá í stöðunni til að vekja athygli á baráttumálum sínum eða fá þeim framgengt. Ákvörðun um framboð til forseta fyrir hönd Græningja var því tilkynnt.

SB#4

Eins og þið vitið ætla ég að bjóða mig fram til forseta sem óháður frambjóðandi í öllum fylkjum. Mikilvægast er að forsetaframbjóðendur taki tillit til fólksins, því þessir frambjóðendur hafa ekki staðið sig lengi. Flokkarnir tveir hafa ekki staðið sig, það þarf að hrista upp í þeim og halda þeim á tánum.“

Kosningabarátta Naders fór að mestu fram í stórum samkomuhúsum þar sem leikarar og þekktir listamenn komu fram til stuðnings honum. Þar á meðal Susan Sarandon leikkona og Michael Moore kvikmyndagerðamaður.

SB#5

Þið verðið að skilja að snýst um meira en að sigra, þetta snýst um heildamyndina og hér byrjar heildarmyndin. „

„Við erum þar sem við erum því að við höfum sætt okkur við svo lítið svo lengi. Ef við höldum því áfram versnar þetta bara, ef þú sættir þig við skárri kostin af tveimur íllum endarðu samt uppi með vondan kost.“

Fjölmiðlar vildu sem minnst vita af honum vegna tengsla eigenda þeirra við annað hvort Demókrata eða Repúblikana og var Nader því skipulega haldið í burtu frá þeim. Þessi kæfing á málfrelsi Naders náði þó fyrst hámarki þegar kom að kappræðum forsetaframbjóðendanna. Þar komu stóru stjórnmálaflokkarnir ekki einungis í veg fyrir þátttöku hans, því þegar háskólanemi gaf honum miða á kappræðurnar sjálfar svo hann gæti fylgst með, fékk fylkislögreglan fyrirskipanir um að meina honum aðgang.

En svo fór sem fór. Bush vann og í biturð sinni yfir ósigrinum fundu demókratar sér blóraböggul í Nader. Honum var kennt um ósigur Gore og allsherjar rógsherferð fór af stað gegn honum.

En var tapið honum að kenna? Þegar litið er nánar á þær fullyrðingar í myndinni kemur annað í ljós.

SB#8

„Allir frambjóðendurnir fengu fleiri enn þessi 537 atkvæði sem skildu að Bush og Gore Demokratar fóru að leit að blóraböggli sem þeir fundu í Nader Og litu framhjá staðreyndinni að 10 milljón Demokratar kusu Bush.“

Þetta varð þó Nader einnig dýrkeypt á annan hátt. Margir snéru við honum baki og ósættir við nána samstarfsmenn í gegnum tíðina ollu vinslitum. En ótrauður hélt hann áfram og bauð sig fram aftur árið 2004 við lítinn fögnuð þeirra sem gleypt höfðu við þeim áróðri að hann hefði stuðlað að valdatöku Bush.

SB#7

„Þegar þú ferð inn í kjörklefann og hugsar, mér mun líða vel að kjósa Ralph Nader, því að hann er hreinn og ég er hreinn og mig langar að líða vel. Þannig að ég ætla að kjósa Nader. Hlustið vinir, foreldrar ykkar hljóta að hafa kennt ykkur að fyrir fimm mínútna vellíðan þurfið þið að borga fyrir alla ykkar ævi.“

Við lok myndarinnar um þennan hugsjónamann koma upp í hugann skilgreiningarnar sem birtar eru í upphafi. Þær segja að sveigjanlegur maður aðlagi sig heiminum, en að ósveigjanlegur maður aðlagi sig ekki heiminum heldur reyni að aðlaga heiminn að sér. Til þess að framfarir verði í samfélaginu þurfum við ósveigjanlega menn. Nader sé hinn ósveigjanlegi maður.

Running with Arnold

SB#8

„Viltu í alvöru fá leikara í framboð til ríkisstjóra. Hver er betri en leikari einhver sem hægt er að leikstýra og getur farið eftir handriti. Hann hefur einfaldningslegan sjarma sem gæti höfðað til kjósenda en hann er gangandi sviðsmynd.“

Þegar stórstjarnan Arnold Schwarzenegger bauð sig fram til ríkisstjóra Kaliforníuríkis í Bandaríkjunum i þeim tilgangi að bola demókratanum David Gray frá völdum, varð uppi fótur og fit. Í myndinni Boðið fram (eða hlaupið) með Arnold eða á ensku Running with Arnold, er farið yfir feril hins metnaðargjarna Arnold Schwarzenegger sem ungur að aldri fékk áhuga á vaxtarrækt. Vaxtarræktin varð brátt aðaláhugamál hans og gekk það svo langt að hann strauk úr hernum til að geta tekið þátt í keppni. Eftir að hafa sankað að sér titlum í greininni flutti Schwarzenegger til Bandaríkjanna með 20 dollara í vasanum og stóra drauma. Eins og flestir vita náði hann miklum frama í kvikmyndum og varð að stórstjörnu, en þar fyrir utan auðgaðist hann mikið á líkamsræktarstöðvum og fasteignaviðskiptum. Við þetta bættist að hann giftist inn í Kennedy-fjölskylduna. Arnold varð því eins konar holdtekja ameríska draumsins.

En hugur Arnolds stefndi einnig inn í stjórnmálin og tengist myndin að mestu þeim heimi. Farið er yfir skuggalegri hliðar Schwarzenegger: framhjáhöld, vinskap við fyrrum nasista, kynferðislega áreitni, heimskuleg ummæli og sú mynd dregin upp að hann sé tækifærissinnaður maður sem geri hvað sem er fyrir frægð og frama.

Þeirri einsleitu mynd sem dregin er upp af Arnold er ætlað að fá áhorfendur til að halda að hann sé holdgervingur illskunnar. Myndin er þannig í raun rógsherferðarmynd dulbúin sem heimildarmynd og er því gott dæmi um að áhorfendur þurfa einnig að vera gagnrýnir á heimildirnar og samsetningu þess efnis sem fyrir augu ber. Þótt sannleikur kunni að leynast í þeim ásökunum sem á Arnold eru bornar, er matreiðslan þannig að gagnrýnir áhorfendur efast um gildi ásakananna og grunsemdir um hálfsannleik naga þá.

SB#9

Hasta la vista baby

Þegar á heildina er litið gefa báðar myndirnar ágætis sýn inn í bandaríska stjórnmálaveröld, þótt á ólíkan hátt sé. Myndin An unreasonable man gefur manni þá sýn að þó að hugsjónamenn séu ötulir þá séu það fyrirtækin og peningarnir sem ráði ferðinni og veiki stoðir lýðræðisins illilega. Hin myndin gefur manni innsýn í þá skuggahlið bandarískrar kosingabaráttu þar sem persónuárásir ráða ríkjum en málefnin gleymast eða falla í skuggann. Í þessum skúmaskotum ráða gamlar slúðursögur úrslitum frekar en það hvort menn hafi eitthvað fram að bera til hagsbóta fyrir almenning. Að sama skapi má segja að myndirnar endurspegli þann sorglega raunveruleika að tækifærissinnaðir athafnamenn á borð við Arnold, sem hugsa um þrönga hagsmuni þeirra sem gefa í kosningasjóðinn, séu búnir að ryðja hugsjónamönnunum í burtu til að setjast sjálfir að kjötkötlunum.

 

Það var heimildamyndaklúbburinn Hómer sem færði ykkur þennan pistil. Okkur er að finna á slóðinni www.hmk-homer.com.

Góðar stundir, klaufabárðar."

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Soldið löng færsla svo ég las hana ekki alla, geri það í betra tómi. En ég muna kíkja á síðuna ykkar

Lísa Margrét Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 5.5.2008 kl. 20:22

2 identicon

Og svo má benda á að það er hægt að hlusta á pistil kappanna í Kviku á vef Ríkisútvarpsins, þeir eru í seinni helmingi þáttarins. Slóðin er svona; http://dagskra.ruv.is/streaming/ras1/?file=4353264 það er ennþá skemmtilegra að fá þetta með hljóði  

Sigga (IP-tala skráð) 6.5.2008 kl. 15:00

3 Smámynd: Neddi

Og þar sem að RÚV hefur ekki opið fyrir hlustun á þáttum eldri en 2 vikur eru pistlarnir settir í hlustanlegu formi líka inn á www.hmk-homer.com.

Njótið vel.

Neddi, 6.5.2008 kl. 16:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

AK-72

Höfundur

AK-72
AK-72
Með óþrjótandi áhuga á kvikmyndum, sögu og stjórnmálum.Telur sig hafa fullt frelsi til að hrósa og gagnrýna hvern sem er og hvenær sem er.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • ...1212_913482
  • ...ner1_568492
  • ...rad-banner1
  • Screenshot

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband