Skuggaverk á Suðurnesjum II: Nýtt REI eða hvað?

Á Suðurnesjum er eitt síðasta vígi frjálshyggjunnar í Reykjanesbæ, sömu frjálshyggju og gerði þjóðina gjaldþrota og sömu frjálshyggju sem færði einkavinum banka, Síma og annað sem skúffufyrirtæki þeirra í ráðherrastól og einkavæðingarnefnd gáfu þeim. Nú er svo komið að frjálshyggjan sem veður enn áfram í blindri heimsku græðginnar og trúarofstækisins á það að auðmenn og einkafyrirtæki séu ofar þjóðinni, ætlar sér að koma orku-auðlindum Suðurnesja í hendur einkafyrirtækis um ókomna tíð.

En hvenær hófst þetta ferli allt? Þetta hófst í útrásinni illræmdu um áramótin 2006-2007 þegar bankarnir og braskarafyrirtækin voru byrjuð að horfa hýrum augum til orku-auðlinda sem eigna sem hægt væri að fá aukinn pening í veltuna fyrir kreditkortum, bíóferðum og gulláti forsvarsmanna þessara fyrirtækja. Í bloggfærslu frá því að styrkurinn frá FL-Group til Sjálfstæðisflokksins komst í hámæli, þá setti ég fram þá skoðun að styrkurinn hefði verið mútugreiðsla vegna einkavæðingar á hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja og þar setti ég fram eftirfarandi tímalínu um upphaf þessa ferlis:

  • 20. desember Árni Matthíasen fjármálaráðherra og Jón Sigurðsson, viðskipta- og iðnaðarráðherra, fela einkavæðingarnefnd á fundi, að einkavæða hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja. Á sama fundi er bréf tekið fyrir þar sem Glitnir lýsir áhuga sínum á að kaupa HS.
  • 29. desember Greiðsla FL Group, eins af eigendum Glitnis, upp á 30 milljónir berst inn á reikning Sjálfstæðisflokksins. Um svipað leyti eru greiddar 25 millur frá Landsbankanum.
  • 1. janúar Lög um styrki lögaðila taka gildi.
  • 7. janúar Glitnir og FL Group stofna fyrirtækið Geysir Green Energy ásamt  VGK-hönnun.
  • 2. febrúar Reykjanesbær kaupir 2,5% hlut í GGE fyrir 175 milljónir. 
  • 30. apríl GGE eignast hlut ríkisins, til viðbótar hlutnum í HS frá Reykjanesbæ. Samtals er GGE með 32% og reyndi síðar meir að eignast meir, bæði um sumarið og svo hefði REI-sameiningin skilað um 48% hlut í HS.

Á þessum tíma stýra hrunvaldar tveir sem kallast Sjálfstæðisflokkur og Framsókn, bæði ríki og borg auk þess sem Reykjanesbær er á valdi Sjálfstæðisflokksins. Báðir þessir aðilar eru vel tengdir inn í bankanna með einkavæðingarnefnd sem inniheldur menn sem komu bönkunum í hendur ósvífinna fjárglæframanna, ÍAV í hendur góðra vina þar sem setið var báðum megin borðs og svo að ógleymdum Símanum sem er í höndum eins skelfilegasta fyrirtæki landsins sem enn skrimtir: Exista.

En nóg um það. Hlaupum aðeins hratt yfir sögu í þessu ferli öllu. Um sumarið þá er REI stofnað, fyrirtækið sem átti eftir að verða banabiti fyrsta samstarfs frjálshyggjuflokkana beggja í borgarstjórn. Sameina átti REI og GGE svo maður rifji það upp, og þar kom einmitt Hitaveita Suðurnesja mjög svo við sögu. Hlutur OR í Hitaveitu Suðurnesja átti að renna inn í hið sameinaða félaga og GGE kæmi með sinn hlut einnig inn í þetta. Í kjölfarið átti einnig að gleypa hlut Hafnarfjarðarbæjar af hinu sameinaða fyrirtæki og athyglisvert er að skoða það sem stendur í frétt um óánægju Hafnfirðinga með þetta:

"Í tilkynningu sem Árni Sigfússon bæjarstjóri Reykjanesbæjar, og stjórnarformaður Hitaveitu Suðurnesja, sendi frá sér í gær kemur fram að samið hafi verið við Reykjavík Energy um að stofnað yrði sérstakt félag um dreifikerfið sem yrði í meirihlutaeigu Reykjanesbæjar, og annað um virkjanirnar sem yrði í meirihlutaeigu Reykjavík Energy. Fyrirtækinu verði því skipt upp í tvö félög."

Kunnuglegt er það ekki? Í dag er nefnilega staðan sú að Hitaveitu Suðurnesja var gert samkvæmt lögum að skipta upp í tvö fyrirtæki og þar af er annað þeirra, HS Orka komið i meirihluta-eigu Geysi Green Energy.

En aðeins meira um REI-málið því þegar meirihlutinn sprakk og Björn Ingi rölti út með rýtingasettið sitt fræga, þá hafði Sjálfstæðisflokkur náð þeim sáttum á milli sín að selja átti REI til einka-aðila með hlut HS og hugviti starfsmanna til áratugs eða tveggja innanborðs, bara ekki til FL Group því þeir voru ekki "réttir" aðilar að mati stuttbuxnagengisins stórvarasama.

REI fór fjandans til og ekki var hugað að einka(vina)væðingu á nýjan leik fyrr en kreppan skall á. Þá var þann fyrsta desember 2008 Hitaveitu Suðurnesja skipt upp í tvö félög HS Orku og HS Veitu, og stuttu síðar þá tilkynnti Árni Sigfússon það að sveitarfélögin ættu að kaupa landið af HS Orku og leigja þeim það til baka. Í framhaldi kom stjórnarformaður OR og tilkynnti með frjálshyggjuhreim það i miðjum hasar stórviðburða að OR ætlaði sér að losa sig við hlutinn í HS-fyrirtækjunum tveimur. Svo líður fram á sumar og Reykjanesbær sem er í stórum fjárhagskröggum selur hlut sinn í HS Orku til Geysi Green Energy, fyrirtæki sem er í reynd gjaldþrota(skuldar víst 23 milljarða en er haldið á lifi af bönkunum) og kaupin með fjármögnun frá óþekktu kanadísku fyrirtæki sem kallast Magma Energy sem myndi eignast um 10% í GGE fyrir greiðann. Magma er sama fyrirtæki sem sagðist ekki vilja hafa ráðandi hlut en hefur nú boðið í hlut OR og vill eignast ráðandi hlut í HS Orku nú sem myndi þýða að HS Orka yrði komin í hendurnar á einka-aiðlum að mestu leyti.

Skoðum aðeins þessi kostakaup öll sem Magma og GGE eru að fá. Samningurinn sem GGE fékk var ansi góður að mörgu leyti eða svo maður rifji upp úr annari bloggfærslu:

"Þá er reyndar áhugavert að skoða hvernig um var samið um greiðslu eða eins og segir hér í frétt Eyjunnar:

"Samkvæmt frétt um drögin á á vb.is verða þrír milljarðar króna greiddir með peningum, fjórir milljarðar með hlut GGE í HS Veitum og sex milljarðar með skuldabréfi sem greiðist á 7 árum. Þá felur samkomulagið í sér að Reykjanesbær kaupir landsvæði og auðlindirnar af HS Orku fyrir 1,3 milljarða króna. Á móti fær bærinn auðlindagjald sem getur numið allt að 90 milljónum króna á ári."

Sjáum nú til, skoðum þetta betur. Bærinn endar í raun með 1,7 milljarð í peningum, HS Veitu-hlutinn, skuldabréf og auðlindirnar sem skila samkvæmt auðlindagjaldi til bæjarins 90 milljónum á ári max. 90 milljónum af fyrirtæki sem veltir milljörðum á hverju ári samkvæmt ársreikningi?"

 Það sem komið hefur svo í ljós síðan ég ritaði ofangreint er að tekjur Reykjanesbæjar af þessari eign sinni voru eitthvað meiri áður en Sjálfstæðisflokkurinn tók til við að keyra fyrirtækið í kaf með klassískri aðferð frjálshyggjunnar, þ.e. reka það svo illa að sala er réttlætanleg, en áður var fyrirtækið að skila á annað hundrað milljóna í hagnað líkt og einhver benti á.Einnig má benda á það að HS Orka ætlar sér nú að margfalda orkuframleiðslu til frambúðar þrátt fyrir að þeir séu að fara framúr sér við Svartengi, svo framúr sér að það þurfti víst að grípa í taumana um daginn.

Skoðum svo hvað Magma/Geysir Green fá út úr kaupunum:

  • Afnotarétt til 65 ára framlengjalegan til 130 ára
  • Talsverð áhrif á atvinnusköpun á svæðinu og í raun geta ákveðið hverskonar starfsemi þrífst.
  • Ódýrar auðlindir á útsöluverði með kúluláni til 7 ára á mjög lágum vöxtum og á mun hagstæðara verði en í Bandaríkjunum t.d. 

Hvað fá svo sveitarfélögin út úr þessu braski öllu? Það er góð spurning en á fljótt litið hallar ansi á þau:

  • Reykjanesbær eignast HS Veitu að meirihluta
  • Reykjanesbær fær pening til að setja inn í nær því gjaldþrota sveitarfélag
  • Reykjanesbær fær örlítið fé á hvejru ári með auðlindagjaldi
  • Reykjanesbær missir afnotarétt á auðlindum sínum til 130 ára
  • Reykjanesbær tapar öllum tekjum af orkusölu til nýs álvers, gagnavers og annars iðnaðar til frambúðar, og öllum hagnaði af orkusölu.
  • OR fær 3,7 milljarða inn í reksturinn.
  • OR veitir kúlulán með einstaklega lágum vöxtum til 7 ára með veð í hlutabréfum. Miðað við verðbólgu og fleiri þætti þá má reikna með að OR stórtapi með því að veita þetta kúlulán sem gæti farið svo að þegar búið er að þurrka auðlindina upp þá geti menn skilað hlutabréfunum.
  • OR selur hlutinn í HS Orku með tapi eða á 6,7 kr. hlutinn í staðinn fyrir 7,0 hlutinn sem keyptur var af Hafnarfjarðarbæ.
  • Stjórn OR missir af hagnaði orkusölu vegna nýs álvers, gagnavers og alls hagnaðs í raun.
  • Neytendur munu uppskera hækkandi orkuverð, skert lífskjör enn frekar og jafnvel orku- og vatnsskömmtun sé miðað við reynslu annara landa af svipuðum hlutum.
  • Þjóðin öll glatar yfirráðarétti yfir einni af auðlindum sínum næstu 130 árin og jafnvel til frambúðar ef auðlindin skyldi hverfaá þeim tíma.

En hugleiðum fleiri þætti með þetta allt. Skoðum t.d. Reykjanesbæ og ástarsambandið við Geysi Green Energy. Einn af stærstu eigendum GGE er Glitnir sem á útrásartímanum var umsvifamikið í samstarfi við Reykjanesbæ. Reykjanesbær rekur fyrirtækið Fasteign til helminga við Glitni og er hlutverk þessa fyrirtækis að eiga og reka þær fasteignir sem bærinn þarf að nota. Virðist einnig standa styr um það félag innan bæjarfélagsins ef marka má þessa frétt hér. Glitnir var á tímum REI og einkavæðingar hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja í aðaleigu Milestone sem bróðir bæjarstjórans starfaði fyrir sem forstjóri SjóVá(og síðar meir í félagi við bróðir fjármálaráðherra tengdu fasteignum á Keflavíkkurflugvelli) og svo hinsvegar FL Group sem var einnig stór hluthafi í GGE þá. Einhvern veginn virðist þarna suður með sjó kristallast kunningjaklíkutengslin viðskiptalífs og stjórnmála sem kristallast í skúffufyrirtæki spillingarinnar sem staðsett er á Háaleitisbraut, nánar tiltekið í Valhöll.

Skoðum aðeins aðra hluthafa í GGE einnig.  Þar er Atorka hf. sem Glitnir eða Íslandsbanki eins og hann kallast í dag, á hlut í. Fl-Group eða Stoðir eiga þarna einnig hlut og svo má benda á að Landsbankinn á þarna einnig hut í gegnum eignarhaldsfélag erlendis og svo Horn fjárfestingafélag sem var stofnað til þess að sjá um hlutabréfa-eign Landsbankans sem fluttust yfir í Nýja Landsbankann. Gaman að geta þess einnig að innan þessara banka virðist minnst hreinsun á fólki tengdu hruninu og óeðlilegum viðskiptaháttum farið fram.Stærsti hluthafi í Atorku eru svo Þorsteinn Vilhelmsson í gegnum mismunandi félög og annar smærri er forstjóri Atorku, Magnús Jónsson einnig í gegnum mismundi félög. 

 Þriðji stærsti hluthafinn samkvæmt heimasíðu GGE er svo VGK-Invest eða verkfræðistofan Mannvit. Það sem er þó athyglisvert við VGK-Invest eru eigendur þar og það að VGK Invest tengdist einnig REI í gegnum 2% hlut. Þar má nefna fyrirtækið Landvar ehf. sem á um 35% hlut í VGK Invest en þetta fyrirtækja er í eigu sívinsælla sprelligosa sem hafa týnst um tíma eða Finnur Ingólfsson og félagar í S-hópnum, þeir Helgi Guðmundsson og Kristinn Hallgrímsson, líkt og bent er hér á í frétt DV um GGE frá því í sumar. En það er meira athyglisvert í þessari frétt um önnur tengsl tengd Glitni eða eins og segir hér:

"Árni Magnússon, fyrrverandi ráðherra og framsóknarmaður, hefur afskipti af framtíð GGE sem starfsmaður Íslandsbanka. Auk þess er Vilhelm Þorsteinsson yfirmaður fyrirtækjasviðs bankans, en hann er sonur Þorsteins Vilhelmssonar, aðaleiganda Atorku, stærsta hluthafa GGE. Hluthafar í VGK-Invest og Atorku hafa því bæði ættar- og flokkstengsl inn í Íslandsbanka."

 Til upprifjunar má minnast þess að Árni Magnússon var ráðinn þarna inn í Glitni á sínum tíma til að leiða orku-útrás fyrirtækjasviðs og Vilhelm þessi komst einnig í fréttir fyirr risakúlulán upp á 800 milljónir í gegnum eignahaldsfélag sitt AB154 ehf. Einnig er gaman að geta þess svona í framhjáhlaupi að um svipað leyti og Bjarni Ármanns og Hannes Smárason héldu fræga kynningu á REI, þá stóðu Árni Magnússon og Lárus Welding einnig í ströngu í New York við kynningu á orku-útrás Glitnis sem var æði vegleg eins og lesa má hér.

Kíkjum aðeins á OR þá og hverjir tengjast þessari sögu allri í gegnum REI og nú HS Orku-einkavæðinguna. Þar er bæði á ferð borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar líkt og áður en þar eru einnig menn á borð við Hjörleif Kvaran sem var stór leikandi í REI-málum öllum(tók þátt í ráðningu Bjarna Ármanns m.a.) eins og má sjá hér í grein Péturs Blöndals í bloggfærslu Láru Hönnu. Einnig tengdist OR og REI, maður að nafni Ásgeir Margeirsson sem var eitt sinn aðstoðarforstjóri OR og hafði svo mikinn velvilja borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að hann gat heimsótt Guðlaug Þór Þórðaróson á sjúkrabeð til að ræða það að taka þátt í stofnun GGE á milli jóla og nýárs, eða um svipað leyti og FL Group millifærði inn á reikning Sjálfstæðisflokksins. Ásgeir þessi endaði sem forstjóri Geysi Green Energy síðar.

Þegar maður lítur yfir sviðið þá fer maður að hugsa um hverjir eru búnir að vera persónur og leikendur í þessu öllu frá því að hlutur ríkisins í HS var einkavæddur og ágætt að búa til lista yfir hverjir koma við sögu:

  • Árni Sigfússon og bæjarstjórn Sjálfstæðisflokks í Reykjanesbæ
  • Hjörleifur Kvaran
  • Guðlaugur Þ. Þórðarson
  • Árni Magnússon
  • Bjarni Ármannson
  • Hannes Smárason
  • Ásgeir Margeirsson
  • Finnur Ingólfsson og S-hópurinn
  • Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar
  • Stjórn OR sem er að góðum hluta skipuð Framsóknar og Sjálfstæðismönnum.
  • Einkavæðingarnefnd með yfirumsjón fjármálaráðherrans Árna Matt og viðskiptaráðherrans Jón SIg en hún var skipuð eingöngu fulltrúum Framsóknar og Sjálfstæðisflokks.

Ég veit ekki um ykkur en maður byrjar að leggja saman tvo og tvo ósjálfrátt og komast á þá skoðun að þarna sé taka tvö á REI-málinu í gangi, með fulltingi hrunflokkana tveggja, og ný svikamylla sett á sviðið.  Þegar maður lítur á það einnig að eignarhald Magma er óljóst, maður veit ekki hverjir standa á bak við það eða hverjir koma þar nálægt, þá byrjar maður að fyllast óhugnanlegum gruni og ekki bara þeim gruni sem ég reifaði eitt sinn, að þetta tengdist endurkomu Bjarna Ármanns til landsins, heldur að þarna sé á ferð tilraun útrásarvíkinganna siðblindu að hætti rússnesku oligarkanna, til að nýta sér ástandið til að hagnast óhemjulega á meðan þjóðinni blæðir út fyrir þeirra tilstuðlan. Og svo þegar bent er á það á vefsíðu sem kallast Independent Icelandic News að Halldór J. Kristjánsson sé farinn til Kanada til að vinna við fjárfestingar á orkusviði, þá byrjar hrollurinn að læðast upp bakið. Það er nefnilega einnig tekið fram að hann tengist þessum "viðskiptum" á Suðurnesjum.

Því meir sem maður horfir á þetta mál því meira tel ég að þetta verði að stöðva með öllum tiltækum ráðum og ég ætla að skora á fólk að gera það sem Lára Hanna Eiríksdóttir hvetur til, þ.e. að senda Steingrími J. Sigfússyni póst og biðla til hans um að koma í veg fyrir þetta og svo hinsvegar að senda þingheimi póst og biðla til þeirra um að hætta að vera skúffufyrirtæki útrásarvíkinga við Austurvöll og taka sig saman um að koma í veg fyrir að auðlindirnar sem ÞJÓÐIN á, verði komið í hendurnar á óprúttnum viðskiptamönnum af útrásartagi og tryggja að hið opinbera sjái um eignarhald og rekstur á orku-auðlindum okkar hvort sem það þurfi að fara í þjóðnýtingu til að bjarga þeim úr klóm frjálshyggjunnar eður ei. 

Eða viljum við glata öllu okkar, því sem gæti skipt sköpum fyrir framtíð þjóðarinnar, úr höndum almennings og þjóðarinnar allar til vafasamra fjárfesta og fjárglæframanna með tilstuðlan tveggja gerspilltra flokka? Ég veit allavega hvort ég vill. Orkan er okkar allra, ekki eingöngu þeirra sem eiga fé eða stjórnmálaflokkog það er okkar að tryggja að við, börn okkar, barnabörn og þjóðin öll hafi yfirráðarétt og nýtingarrétt á henni til framtíðar.

Lærum af reynslunni, brennum okkur ekki á sömu mistökum og aðrar þjóðir, brennum okkur ekki enn eina ferðina á tilraunum frjálshyggjunnar til að ræna okkur verðmætunum og komum í veg fyrir þetta.

 Að lokum vill ég benda fólki á það sem Hannes Friðriksson og Lára Hanna Einarsdóttir hafa skrifað um málin.

 

 

 

 


mbl.is Upplýsandi fundur með Magma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: AK-72

Ákvað að tengja þessa bloggfærslu við fréttina af fundinum með Magma og set því þær athugasemdir sem hafa birst við fyrri útgáfu færslunnar hér inn.

 1

Þetta er ekki lítil dossía - ég er alveg ringlaður!    Þú ert ekki einhamur að halda utan um allt þetta kraðak og tengja saman og koma því frá þér á tiltölulega skiljanlegan hátt.      Maður hefur svosem ekkert efast um óheilindi Magma Energy en öll þessi tengsl til þessara leiðinda manna, allt oní Bjarna Ármannsson og Þorstein Vilhelmsson og Árna Magnússon (sem hafa mikið til gleymst að undanförnu ásamt Finni!).

Ég skrifa Steingrími og CC'a á þingmenn VG til að stappa þá í stálinu!

Þakka fyrir góð skrif á blogginu þínu nú sem áður!

Ragnar Eiríksson

Ragnar Eiriksson (IP-tala skráð) 25.8.2009 kl. 16:35

2 Smámynd: AK-72

Þakka þér Ragnar. Verð sjálfur hálfringlaður á öllu þessu stundum, vona að þetta hafi verið bærilega skiljanlegt og var einmitt að velta fyrir mér hvort það þyrfti ekki að tengja upp skýringarmynd með þessu öllu þó ég hafi ekki tök á því sjálfur sem stendur. Eitthvað af þessu var maður búinn að taka eftir þegar ég var að garfa í að skoða tengslin vegna FL Group í mútumálinu um páskanna og síðan verið baka til í minninu.

AK-72, 25.8.2009 kl. 16:46

AK-72, 25.8.2009 kl. 16:59

2 Smámynd: AK-72

Ein athugasemd við þessa frétt annars. Þarna kemur fram að Capacent situr fundinn með Magma og fjármálaráðherra en samkvæmt vefsíðunni Independent Icelandic News, þá eru ráðgjafar Capacent allt fyrrum starfsmenn Glitnis sem sáu um fjárfestingar í orkugeiranum.

AK-72, 25.8.2009 kl. 17:03

3 identicon

Það hlýtur að styttast í að þjóðin grípi til aðgerða gegn þessum skríl sem leitast við að stela hér öllu.

Neyðarréttur almennings brýtur þeirra ólög.

Hafðu þökk fyrir dugnaðinn.

TH (IP-tala skráð) 25.8.2009 kl. 17:18

4 Smámynd: Baldvin Björgvinsson

Sá sem sat við hliðina á mér þegar fjallað var um þetta í fréttum í gær sagði bara: "Hva! er falin myndavél einhversstaðar hérna inni?".

Og þegar ég lýsti því hvernig Magma ætlaði að borga þetta með kúluláni frá seljandanum þá...

Baldvin Björgvinsson, 26.8.2009 kl. 07:23

5 Smámynd: Úlfar Þór Birgisson Aspar

Jú jú svona lítur dæmið út,ég vil meina að þetta sé hin nýja stálpípu rugl.Þetta er búið að vera í burðarliðnum nú á 4 ár og lokahnykkurinn á næsta leiti.

Svo er annað sem ekki hefur verið gengið frá að nýtingarétturinn er ekki alveg Árna og félaga að sýsla með því ekki má gleyma að landið er eign Grindavíkur.

En það er gott að vita að í allri umræðu um icesave ESB stöðu bankanna fyrirtækja og heimila eru ekki allir landsmenn sofandi,núna er nefninlega gott lag að díla með þessa auðlind okkar meðan öll umræða er um fyrrnefnd atriði.

Haltu áfram að vekja máls á þessu,því þessi auðlind verður brátt verðmætari en gull  olía  og eðalsteinar af bestu gerð.

Úlfar Þór Birgisson Aspar, 26.8.2009 kl. 11:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

AK-72

Höfundur

AK-72
AK-72
Með óþrjótandi áhuga á kvikmyndum, sögu og stjórnmálum.Telur sig hafa fullt frelsi til að hrósa og gagnrýna hvern sem er og hvenær sem er.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • ...1212_913482
  • ...ner1_568492
  • ...rad-banner1
  • Screenshot

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband