Til varnar nafnleysi í samfélagi ógnar

Ég hef verið aðeins hugsi yfir þessari nafnleysisumræðu því að mörgu leyti hefur hún verið á einn veg: þ.e. þar sem lítill minnihluti nafnleysingja eru sóðar og níðingar, þá skuli ganga í skrokk á þeim öllum. Því hef ég ákveðið að stíga fram og taka aðeins upp hanskann fyrir hinni nafnlausu umræðu á netinu, eitt af því sem er óvinsælt af hálfu þeirra sem vilja stýra öllum umræðum og yfir tjáningarfrelsi drottna.

Þegar ég byrjaði að blogga þá ákvað ég að byrja með dulnefnið AK-72, sem er samsett úr stöfum í nafni mínu og fæðingarári. Tvennt var það sem olli þessari ákvörðun og það var að ég var að færa mig hikandi inn á þennan ritvöll sem bloggið er og svo hinsvegar það sem var aðalástæðan: ég var ekki með skoðanir sem voru vinsælar, þ.e. ég gagnrýndi Sjálfstæðisflokk og Framsókn fyrir það fyrsta og svo hafði ég sterkar skoðanir gagnvart forarpytti íslensku þjóðarinnar: rasismanum, þjóðernishyggjunni og útlendingahatrinu sem einkennir umræðu þegar kemur að þessum minnihlutahópum. Enda fór sem fór, maður lenti í eldheitum umræðum og fékk á sig hatursfullar athugasemdir frá fólki sem skrifaði undir nafni og maður skildi alveg fullkomlega hversvegna nafnleysi getur verið gott i umræðu þar sem maður tekur upp hanskann fyrir minnihlutahóp.

Svo kom þó að ég fór að skrifa undir nafni eftir beiðni frá ritstjóra Mogga-bloggsins en hélt þó þessu heiti á yfirborðinu enda myndaði það smá „buffer" að mér fannst. Og það kom líka í ljós að skrifa undir nafni hafði einmitt ákveðin áhrif því þegar leið á umræðu um múslima og fordóma gegn þeim sem ég tók þátt í, þá gerðist nokkuð sem vakti hroll hjá mér og ónot. Einn af verstu öfgamönnunum í þeirri umræðu sem ég tel að gangi ekki heill til skógar, tók sig til og gróf upp hvar ég vann, netfangið þar og byrjaði að senda mér óhugnanlega tölvupósta með hatursáróðri. Ég bað hann um að hætta þessu og sagði honum að ég hefði ekki beðið um að fá svona viðurstyggð senda. Svar hans var að hann teldi sig hafa fullkominn rétt á því, hann væri að fræða mig um hætturnar af múslimum og þverneitaði að taka mig af póstlista sínum heldur hélt áfram að senda póst.

 Ógnin af þessu var einnig augljós, ofstækisfullur kynþáttahatari og kristinn öfgamaður taldi sig geta gert hvað sem er og óhugnaðurinn sem fylgdi þessu, lifið með manni í nokkra daga á eftir. Að lokum varð þó niðurstaðan sú hjá mér, að einfaldlega setja klikkhausinn í „junk-mail filter", lét vini mína vita af þessu og sagði þeim að ef  ég endaði lúbarinn eða með hníf í kviðnum, þá ætti að leita fyrst að grunuðum hjá íslenskum kynþáttahöturum sem fóru mikið um netheima. Ég ætlaði ekki að láta einhverja hálfslefandi, innræktaða amlóða hræða mig né hafa áhrif á mann.

 Þó bliknar þessi saga mín miðað við íslenskt samfélag eins og það hefur verið síðustu ár undir stjórn náhirðar og sauðskinsskálka. Það var og er samfélag ógnar og ótta ,samfélag þar sem mönnum er hótað eða refsað fyrir að segja skoðanir sínar, tjá sig eða jafnvel upplýsa um glæpi líkt og litli Landsímamaðurinn gerði. Hann var rekinn fyrir að fara til lögreglunnar og láta vita um glæp uppáhaldsdrengja Bláu handarinnar sem kreistir og kremur alla þá sem henni líkar ekki við, og átti víst erfitt með að fá vinnu eftir á. Orðið um að hann væri „uppljóstrari" var víst látið ganga meðal klíkubræðra sem seint fyrirgáfu að andlit „frelsis markaðarins" skuli hafa verið gripið með kúkinn í brókunum og milljónir í vasanum. Ef hann hefði aftur á móti farið hefðbundna leið og látið yfirmann vita, þá hefði þetta bara verið kæft niður og hann færður á milli deilda, líkt og einhverjir bankamenn lentu í þegar þeir urðu varir við óeðlilega hluti innan bankakerfisins fyrir hrun.

Það sama hefur gerst fyrir suma þá sem skrifa á netinu undir nafni hafa upplifað, þeim er hótað, þeim er ógnað og sviptir atvinnu fyrir að tjá sig um málefni líðandi stundar, skoðanakúgun er liðin af hálfu þeirra sem völd hafa eða valdinu þjónka. Þetta varð sérstaklega áberandi í vetur þegar fólk sem tók þátt í mótmælum þurfti að þola allskonar svívirðingar, hótanir, ógnanir og jafnvel rúðubrot og ofbeldi, en nei, það var í lagi, þetta voru bara kommúnistadrullusokkar, þetta voru atvinnumótmælendur og þeir voru ekki eins réttháir í augum þeirra sem grenja nú. Þá mátti svívirða, níða, hrækja á, berja á og já, talsmenn frelsisins gengu fram með blóðþorstaglampa, heimtandi harðari aðgerðir gegn því fólki sem dirfðist að standa upp úr sófanum og láta skoðanir sínar í ljós. En var þetta fólk að væla? Nei, það tók mestum skítnum af æðruleysi því það ætlaði ekki að leyfa rökkum níðinga flokkakerfisins  að brjóta sig niður og myndaði skel ólíkt þeim stjórnmálamönnum, flokksdindlum, fjölmiðlamönnum og vörgum viðskiptalífsins sem vilja stýra allri umræðu.

En það eru ekki bara þeir sem skrifa og tjá sig á netinu sem lenda í svona, það eru líka þeir sem tjá sig á vinnustöðum þar sem yfirmenn þola ekki „rangar" skoðanir líkt og gerðist með einn ættingja minn sem vann hjá einu borgarbatteríinu. Hann lét gamminn geysa í einum kaffitímanum þar sem hann hraunaði aðeins yfir Framsóknarflokkinn, nokkuð sem nýja yfirmanninum með valdastandpínuna líkaði ekki við. Þegar verkstjóra-jæjað kom, þá var ættinginn dreginn inn á skrifstofu og honum tilkynnt það í ógnvekjandi tón að svona ætti hann ekki að tala og það yrði séð til þess að honum yrði sparkað ef hann talaði svona um Framsóknarflokkin aftur. Ættinginn gerði það eina rétta í stöðunni, sagði honum bara að eiga sínar hótanir, gekk út og fékk sér aðra vinnu, nokkuð sem var auðvelt fyrir mann með hans menntun og reynslu.

En í samfélagi ógnar og ótta sem hið „Gamla Ísland" var og er, þá er ekki svo hægt um vik á mörgum stöðum að gera hið eina rétta í stöðunni og storka skoðanakúgaranum. Tökum sem dæmi, þá sem búa út á landi og í litlum bæjarfélögum eða þorpum. Þar er nefnilega mun erfiðara að vera með „óvinsælar" skoðanir hvort sem það er að leggjast á móti álverum eða vera ekki með sömu skoðun og aðalatvinnurekandinn eða stjórnmála-aflið í þorpinu, það gæti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér, ekki bara fyrir hann heldur einnig fjölskylduna. Þar er nefnilega hægt að beita hóprefsingu og ég efast ekki um að þeir sem valdið hafa, þeir sem tala mest um „frelsi einstaklingsins og markaðsins" og „tjáningarfrelsið má ekki hindra" hafi refsað mönnum fyrir að tjá sig undir nafni enda hafa þeir sem kenndir eru við skrímsladeild og náhirð oftast verstir verið.

Þetta leiðir því að öðru, þetta tal um hræsnina sem felst í því að tala um „frelsið" en þola ekki að aðrir hafi aðrar skoðanir. Hræsnin á bæ þeirra sem heimta að skrúfað sé fyrir skoðanir eða hvassa gagnrýni eða heimta að einhver yfirritskoðari taki á mönnum sem skrifa undir nafni, líkt og nýbakaður þingmaður nokkur sem aðhyllist „frelsið", telur að eigi að gera við hvassan skrifara sem dirfist að urra í áttina að honum. Hvar er frelsið þá ef þingmaður getur látið þagga niðri í gagnrýnanda sínum?

 Slepjan sem liggur svo í orðum margra þeirra sem stíga fram nú sem siðapostular og fulltrúar vandlætingar, er í senn hræsin og velgjuvaldandi. Aðilar sem allir eiga sök á því hruni sem hefur orðið hér, aðilar sem hafa ekkert lært af hruninu og dreymir um hið „gamla Ísland" rísi upp á ný sem Fimmta ríkið. Og hverjir eru þeir þegar litið er yfir hringleikahús íslenskrar umræðu?

  • Stjórnmálamenn sem væla hvað mest undan að landinn blaðri á netinu og nota yfirskin um „netníð og nafnleynd". Sjálfir sjá þeir ekkert að notkun dulnefna ungliða sinna eða hópa sem birtu auglýsingar í þeirra þágu með lítt dulbúnum og jafnvel frekar árásargjörnum áróðri fyrir kosningar og nú í sumar. Nei, þá var það í lagi, því andstæðingurinn er skotmark sem í lagi er að beita nafnlausu níði gegn. Það er nefnilega munur á því að vera nafnlausi Jón eða Háaleitis-Jón þegar kemur að persónulegu skítkasti.
  • Viðskiptamennirnir sem settu landið á hausinn grenja nú undan umræðunni, heimta „lockdown" á slíkt því það á ekki að líðast að þeir sem borga skaðann eftir þá fái að tala um gjörðir þeirra. Við bætist að viðskiptamenn vilja að sjálfsögðu stjórna algjörlega umræðunni um sitt fyrirtæki eða útrásarvíkinganna sem eiga fyrirtækin en kveinka sér undan neikvæðri umræðu, umræðu sem þeir geta ekki stjórnað og tengist oft á tíðum hvernig þeir haga sér. Nei, hegðun þeirra er alltaf til fyrirmyndar enda eru það bara eðlileg viðskipti að ræna fólk ævisparnaðinum og setja heila þjóð á hausinn.
  • Blessaðir fjölmiðlarnir sem þegja margir hverju þunnu hljóði yfir því að FME gangi harkalega fram til að þagga niðri í þeirra stétt fyrir að kjafta frá glæpum eigenda fjölmiðlanna. Nei, þá er betra að vera hlýðinn og þægur hvutti, styggja ekki eigendur og stjórnarmenn sem eiga fjárhagslega hagsmuni undir t.d. brunaútsölu á orkuveitum.

Þó er kannski hræsni fjölmiðlageirans mest pirrandi því þar stíga fram sjálfumglaðir fjölmiðlamenn sem riddarar réttlætisins gagnvart nafnlausum netverjum og setja sig á háan stall en gæta sín ekki að þeir standa á klettabrún tvískinnungsins. Tvískinnungsins sem felst í nafnlausum áróðurs og árásardálka sem kallast Staksteinar eða Fuglahvísl, nafnlausar ritstjórnagreinar og kjallaragreinar Svarthöfða og Velvakanda. Ekki sjá þeir neitt að allskonar slíkum meinfýsnum og jafnvel skítlegum dálkum því eins og fuglar AMX sem hvísla hvað meinfýsilegast, þá horfa þeir bara með augum ránfuglsins illa og hlæja illlýsislega líkt og hýenur viðskiptalífsins sem þeir þjóna.

Nei, það sem fer fyrir brjóstið á þessum þremur vandlætingarhópum er fyrst og fremst að allt sé ekki eins og það á að vera, að umræðan sé stjórnuð að hætti hins gamla Íslands þar sem stjórnmálamenn og fjölmiðlamenn sitja eins og þægir seppar við matardallinn frá húsbændum sínum úr yfirstéttinni, í þeirri von um að fá að pissa á gullskreyttu klósetti húsbóndans einn daginn. Þeirra gremja er fyrst og fremst ein, að almenningur hafi skoðanir, að almenningur sé hættur að skilja að hans hlutverk sem hálfmenni þrælastéttar sé að halda kjafti, borga skuldir yfirstéttarinnar og vera niðurlægð fótþurrka valdsins um ókomna tíð.

Og hvað þá með bloggara marga sem koma fram undir nafni? Margir þeirra öskra og æpa um hryðjuverkamenn, asna, fávita geðveiki, föðurlandsvik og fleira í þeim dúr undir nafni, oft á tíðum með helbláan fálkann sitjandi á öxlinni, sama fálka og hefur rifið landið á hol og kjamsar nú á vænum kjötbita rifnum úr holdi almennings. Margir þeirra eru engu betri en verstu nafnleysingjarnir, flokksdindlar til hægri og vinstri sem jarma möntruna sem kokkuð er upp á flokkskrifstofum, en hneykslast nú á þeim sem skrifa nafnlaust, nafnleysingjum sem skrifa jafnvel mun betra og fágaðra en heimskuleg níðskrif margra nafngreindra fréttabloggara eru. Margir nafnleysingjana skrifa betri orðræðu, skila skýrari hugsunum og fallegra máli en fréttabloggarinn illræmdi, margir þeirra rökræða og það er aðeins háttur þess sem er komin í rökræðulegt gjaldþrot að byrja að tala um að fólk sé ekki marktækt í skrifum ef það sé nafnlaust.

Að lokum að þegar litið er yfir sviðið og nafnleysingjarnir eru skoðaðir í samanburði við þá nafngreindu, þá kemur oft í ljóst að fámennur hópur nafnleysingja er með níðið en þeir sem raunverulega eru verstir eru innantómir fréttabloggarar og heimskuleg skrif nafngreindra kjaftaska sem geysast fram með svívirðingum um allt og alla sem varla er samhengi í. Níðskrifin ógeðfelldu sem gagnrýnd eru nú blikna oft í samanburði við níðskrif hinna nafngreindu og nafnlausu sem þóttu flott og fín af þeim þríhöfða þurs valdsins áður á meðan það beindist gegn mótmælendum síðastliðinn vetur eða öðrum þeim sem "gamla Ísland" taldi óvin sinn.

Þó eru nafnleysingjarnir svínslegu eða orðljótustu nafngreindu netverjarnir ekki mesta hættan við lýðræðislega umræðu eða svartasti bletturinn á henni því þá er alltaf hægt að hundsa. Nei, þeir sem eru svarti bletturinn og ógn við málefnalegar umræður og lýðræðislegar rökræður, eru flokksdindlarnir og leiguþý auðmanna sem geysist um víðan völl í vernd fyrir húsbændur sína með heimtingum um ritskoðun og þöggun á þeim sem ekki hafa „réttar" skoðanir.

Þeir eru nefnilega fulltrúar hins gamla, spillta Íslands sem vill ná völdum á ný. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

mikið djöfull ertu góður hérna, ég hefði ekki getað sagt þetta betur sjálf.  En ég tel mig vera fórnarlamb þess að vera ég sjálf og gagnrýna það sem mér finnst aðfinnsluvert, og sérstaklega fyrir að fylgja ákveðnum stjórnmálaflokki sem í vor datt út af þingi, þá hefur staða mín verið til háborinnar skammar, þó ég eigi flekklausan feril í yfir 30ár.  Þannig að ég hef fundið á eigin skinni einmitt þetta sem þú talar um.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 7.9.2009 kl. 19:33

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Tek undir með þér heilshugar.

Hrannar Baldursson, 7.9.2009 kl. 19:42

3 Smámynd: Kjartan Jónsson

Vissulega er nafnleysi og níðskrif snúið mál en þessi pistill gerir málinu frábær skil og er sá besti um málið. Get ég kvittað undir margt í skrifunum.

 Um daginn var mér hótað ofbeldi af meðlimi Frjálslynda flokksins eftir að ég gagnrýndi einangrunar- og rasistastefnu flokksins. Um var að ræða refsivert brot en ég dró þó í land með kæru er einstaklingurinn tók orð sín aftur.

Ég hef  tekið eftir því hér á blog.is að andstæðingar Evrópusambandsins og íhaldsmenn hika ekki við að beita níðskrifum, ýmist nafnlausum eða undir nafni, þegar málflutningur þeirra er gagnrýndur.

Þrátt fyrir það þá tel ég óeðlilegt að reynt sé að banna nafnlausum að blogga, netþjónustuaðilar geta auðveldlega fundið út hverjir hinir nafnlausu eru og er það einmitt það sem ætti að gera varðandi þá sem dreifðu rógi um Björgvin G. Sigurðsson.

Menn verða að taka ábyrgð á sínum orðum og allt gott um það að segja.

Síðan kemur spurningin, hvað með þá einstaklinga sem vaða um netheima með lygar, róg, svívirðingar, ærumeiðingar og hótanir undir fullu nafni eins og þessi meðlimur Frjálslyndra gerði? Er ekki mikið nær að banna þá einstaklinga fremur en saklausa nafnleysingja?

Einhver hatursfyllsti einstaklingur bloggsins sem gerir út á óhróður um samkynhneigða skrifar undir full nafni. Sá nýtur þeirra forréttinda að nafn hans kemur sífellt á forsíðu bloggsins á meðan helsti gagnrýnandi hans var útilokaður frá þáttöku hér.

Ég hallast sjálfur að því að skrifa undir nafni en mikilvægast í þessu öllu er þó að allir skrifarar, nafnlausir sem undir nafni, sæti sömu ákvæðum lagana varðandi skrif sín.

Kjartan Jónsson, 7.9.2009 kl. 20:34

4 Smámynd: Kama Sutra

"Þó eru nafnleysingjarnir svínslegu eða orðljótustu nafngreindu netverjarnir ekki mesta hættan við lýðræðislega umræðu eða svartasti bletturinn á henni því þá er alltaf hægt að hundsa. Nei, þeir sem eru svarti bletturinn og ógn við málefnalegar umræður og lýðræðislegar rökræður, eru flokksdindlarnir og leiguþý auðmanna sem geysist um víðan völl í vernd fyrir húsbændur sína með heimtingum um ritskoðun og þöggun á þeim sem ekki hafa „réttar" skoðanir.

Þeir eru nefnilega fulltrúar hins gamla, spillta Íslands sem vill ná völdum á ný."

Þetta er líklega mergur málsins.

Takk fyrir góðan pistil.

Kama Sutra, 8.9.2009 kl. 00:44

5 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Þú ert frábær pistlahöfundur.  Takk fyrir mig í dag. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 8.9.2009 kl. 01:45

6 identicon

Góður!!

Pössum okkur á því að ganga ekki fram og verja gamla ísland og glæpahyskið sem nú reyna hvað þeir geta til að stjórna allir umræðu.
Þetta með nafnleysið er bara fyrirsláttur fyrir þvi að hita ykkur upp svo þið sjálf setjið fram sömu kröfur og elítan og skítugir stjórnmálamenn....
Þetta er afar mikilvægt, þetta er svo mikilvægt að hver sá sem tekur undir heft fresli á tjáningu er glæpsamleg(ur)

DoctorE (IP-tala skráð) 8.9.2009 kl. 07:43

7 identicon

Þetta er frábær grein hjá þér.

Með mafnlausa og þá sem skrifa undir nafni, eiga að gilda sömu lög, ef þeir skrifa eitthvað sem er ærumeiðandi.

En í sambandi við skoðanir þá þjóðmálum, þá er ég dálítið undrandi á sumum athugasemdunum hérna.

Þeir sem aðhyllast skoðanir gömlu flokkanna, hafa fullan rétt til að hafa sína skoðun. Alveg eins og aðrir sem lýsa yfir skoðunum sínum hérna á þessu bloggi, eins og öðrum.

Gamalt er ekki endilega vont. Steingrímur J. Og Jóhanna eru fulltrúar "gömlu flokkanna" þó þau hafi gengið í aðra flokka, Engar þerra hugnaðist.

Það er samt allt í lagi að skipta um skoðun. En þau stjórna eins og fyrrum og fara ekki úr gamla farinu.

Mér finnst það í lagi. Og er samt ekki skoðanasystir þeirra.

Var Ísland spillt þegar ég fæddist í janúar 1944?  Ennþá tengt Danmörku?

Sigrún Jóna (IP-tala skráð) 8.9.2009 kl. 07:45

8 Smámynd: Sigurður Hrellir

Fyrir nokkuð mörgum árum (fyrir daga bloggsins) þegar ég skrifaði mína fyrstu Moggagrein um virkjanamál fékk ég daginn eftir upphringingu frá ókunnugum manni sem hrósaði mér fyrir kjarkinn. Hins vegar vildi hann líka "vara mig við" því að svona skrif gætu komið sér illa fyrir mig þar sem að nafn mitt yrði á svörtum lista meðal ráðamanna. Stundum hef ég velt því fyrir mér hvort að tilgangurinn með samtalinu var raunverulega sá að hrósa mér eða hræða mig frá frekari þátttöku á þessum vettvangi.

Ég þakka ég fyrir stórfínan pistil.

Sigurður Hrellir, 8.9.2009 kl. 10:03

9 Smámynd: Einar Guðjónsson

Góður pistill og margt til í því sem þú skrifar.

Einar Guðjónsson, 8.9.2009 kl. 11:05

10 identicon

heyr heyr, vel mælt !

Ólafur í Hvarfi (IP-tala skráð) 8.9.2009 kl. 11:13

11 identicon

Þakka fyrir góðan pistil og ágæta yfirferð yfir sviðið. Held því samt fram að menn eigi að skrifa undir nafni. Athugum hverjir það eru sem halda lífi í samfélagi hræðslunnar sem höfundur lýsir svo ágætlega. Jú, það eru þeir sem beygja sig fyrir valdinu, búa jafnvel til hættur og ógnir í huga sér, gagnrýna fremur nafnlaust en að standa fyrir sínu máli opinberlega. Ættinginn sem ,,hraunaði yfir" framsóknarmenn og fékk tiltal fyrir, gekk bara út og fékk sér aðra vinnu. Það var svosem áætt en betra hefði þó verið ef hann hefði látið sverfa til stáls opinberlega, gert úr þessu stórmál, einkum vegna þess að ekki eru allir í stöðu til þess að ganga út og fá sér aðra vinnu. Það er ljóst að skríllinn sem keyrði landið í kaf er að ná vopnum sínum aftur, en það eru bara fíflin sem á foraðið var att. Að baka eru hinar grónu valdaklíkur landsins með aumra og þýlynda stjórnmálamenn að handbendi. Þetta lið kann að þykjast hneykslað á fjármálaklúðrinu, en nýtt Ísland vill það síst af öllu. Við munum ekki reisa nýtt, frjálst opið og heiðarlegt þjóðfélag með nafnlausum skrifum.

Haukur Brynjólfsson

Haukur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 8.9.2009 kl. 14:11

12 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sæll Agnar.

Það getur enginn ásakað bloggara um að þeir hafi ekki brugðist við þessum "ásökunum" og ekki rætt sín á milli efni þeirra.

Stundum finnst mér eins og þessi miklu viðbrögð við kveininu í tveimur frammámönnum sem hafa báðir fulla ástæðu til að barma sér og finna óáþreifanlegan sökudólg fyrir vandræðum sem þeir hafa sjálfir komið sér í, beri keim af því að bloggarar séu upp með sér yfir að loks sé eftir þeim tekið og þeir tilgreindir sem áhrifavaldar á þjóðmálin. Loks er farið að taka þá alvarlega.....

Eins og ég hef áður sagt, nafnleynd hefur lítið sem ekkert með heiðarleika og rógburðar-áráttu fólks að gera. Netið er og verður miðill sem ekki er hægt að hemja á neinn hátt. Það er "frjálst" að því leiti til. Tæknilega er ekki hægt að koma í veg fyrir að eitthvað sé ritað á netinu né er hægt að halda einhverjum ábyrgum fyrir því. Aðeins er hægt að setja slíkar reglur á afmörkuðum svæðum á netinu.

Svanur Gísli Þorkelsson, 8.9.2009 kl. 14:20

13 Smámynd: AK-72

Vinnufélag minn kom með ágætan punk og vinkilt inn í þessa umræðu um nöfn og nafnleysi í íslenskri umræðu. Eitt af því sem þjakar alla stjórnmálaumræðu á Íslandi, er að þú ert dreginn í dilka: þú ert Frammari, þú ert í Samfó, þú ert Sjalli. Nafngreiningin þvælist fyrir sumum sem reyna að koma rökum sínum á framfæri þar sem fólk lítur á hver skrifar og hverjum hann fylgir að málum og hættir því til að fleygja burt öllum rökum viðkomandi.

Það er örugglega enginn saklaus af þessu, og það gét ég sagt um sjálfan mig að maður á stundum til að detta í þessa gryfju.

AK-72, 8.9.2009 kl. 16:22

14 Smámynd: AK-72

Ég held að grundvöllurinn að því að menn skrifi undir nafni, sé ekki að neyða þá til þess eða beita boðum og bönnum, heldur fyrst og fremst að skapa heilbrigt samfélag með heilbrigðri umræðu þar sem enginn þarf að óttast það að vera hótað, ógnað eða refsað á einn eða annan hátt fyrir að tjá sig og leyfast að vera með skoðanir á hlutunum. Þetta er þó bundið því að menn gangi ekki yfir ákveðna línu því það er ekkert sem heitir algjört tjáningarfelsi og má þar t.d. benda á einmitt níðskrif eða rógburð sem dæmi um slíkt. Þegar fólk hættir að vera hrætt og finnur það að þó það fylgi ekki meirihlutanum eða valdinu að málum í umræðunni, þá sé því ekki ógnað eða refsað, þá hættir nafnleysið að vera einhver spenna eða vernd, það hverfur smátt og smátt þörfin á því.

Aftur á móti í hræðslusamfélagi þar sem skoðanakúgun er stunduð eða menn reyna að beita kröftum sínum til að hindra umfjallanir eða umræðu, þá verður nafnleysið alltaf til staðar og eykst þá frekar. Netið finnur nefnilega alltaf leið til að fólk geti rætt hlutina fyrir utan valdsvæði stjórnmálamanna, fyrirtækja og fjölmiðla í eigu þeirra.

AK-72, 8.9.2009 kl. 17:41

15 Smámynd: Benedikt Sigurðarson

Góður pistill . . . .

. . það er ekki auðvelt að þora að ganga fram með "óvinsælar skoðanir" í samfélagi gærdagsins og heldur ekki ennþá þótt eitthvað sé að slakna á.

Menn eru dregnir í dilka og merktir fyrirfram - áður en hlustað er á það sem þú kannski hefur að segja - - og svo eru menn lagðir í einelti með "útilokun" sem vægast vopnið

Benedikt Sigurðarson, 8.9.2009 kl. 19:31

16 identicon

Ég er sammála því sem kemur fram í 15. athugasemd: það er of mikið um argumentum ad hominem. Ef skoðun er almennilega rökstudd þá er enginn þörf fyrir að einhver þurfi að lita skoðun sína af persónu eða orðspori.

En nú kvæsa ýmsar "opinberar" persónur við hvers kyns gagnrýni sem oftar en ekki á rétt á sér. ("Hver er sannleikanum sárreiðastur") En ekki má gleyma Lúkasareffectinum en þar voru bloggarar sem skrifuðu undir nafni sem veitust að blásaklausum ungum manni á meðan einhverjir örfáir "nafnleysingjar" reyndu að koma viti og heilbrigðri skynsemi fyrir þá froðufellandi og múgæstu hunda. (Kímnin er viljandi)

Ekkert nafn gefið (IP-tala skráð) 9.9.2009 kl. 01:23

17 identicon

Þótt "Ekkert nafn gefið" hafi eitthvað til síns máls þá getur hann eða hún ekki ætlast til að fólk eyði tíma og orku í að sundurgreina rök á bak við hverja einustu "skoðun" sem einhver Jón út í bæ setur fram í athugasemdadálki á bloggi.

Þá er skömmini skárri að geta bara stimplað menn og dregið þá í dilka eftir hentugleika því vitleysan sem vellur upp úr sumu fólki er ekki oft bandvíddarinar virði. Og oftar en ekki kemur ekkert gagnlegt frá slíkum sauðum.

Hr "Nafnlaus" (IP-tala skráð) 9.9.2009 kl. 01:38

18 identicon

Hr "Nafnlaus", athugasemd þín er einmitt gott dæmi um skot og níð á hóp fólks í stað þess að reyna að koma með eitthvað bitastætt til að auðga umræðuna. Og hvers vegna skrifar þú ekki undir með þínu rétta nafni? Hræddur um að verða fyrir aðkasti í vinnu og einkalífi? Þá ættirðu að þekkja það af eigin raun hvernig er að hafa óvinsælar skoðanir.

Ekkert nafn gefið (IP-tala skráð) 9.9.2009 kl. 01:45

19 Smámynd: Gerður Pálma

Takk fyrir frábæran pistil sem er svo dapurlega sannur.

Gerður Pálma, 9.9.2009 kl. 06:45

20 Smámynd: Loopman

Þessi grein er góð hjá þér. Umræðan er bæði þörf og athyglisverð.

Þessa grein fann ég fyrir nokkrum vikum og passar vel hér inn.

http://icelandtalks.net/?p=304

Hér er verið að tala um hvernig land óttans virkar, og það sýnir hversu mikilvægt nafnleysið er í raun.

Loopman, 10.9.2009 kl. 12:02

21 Smámynd: B Ewing

Öndvegis rit í sögu íslenskrar vefritunar ! Ekkert minna.

B Ewing, 10.9.2009 kl. 17:54

22 identicon

Takk fyrir innleggið.  Ég hef aldrei bloggað en hef skrifað athugasemdir við fréttir nafnlaust.  Ekki af því að ég sé með dónaskap eða skammast mín fyrir skoðanir mínar heldur af því að ég bý í litlu samfélagi, þekkist og hef stöðu þar sem kæmi sér illa fyrir þá sem þurfa að leita til mín að þekkja mínar skoðanir á mönnum og málefnum.  Einnig treysti ég ekki mínum yfirboðurum til að gera mér ekki lífið minna bærilegt ef þeir vissu um mína þanka.  Yfirboðararnir eru jú opinberlega og óopinberlega pólitískt ráðnir og kunna ekki við gagnrýni á gamla góða flokkakerfið.  Á ég þá ekki að fá, á málefnalegan og kurteisan hátt, að láta skoðanir mínar í ljós án þess að fjölskylda mín og okkar fjárhagur sé e.t.v. ekki.. segjum..eins "örugg/ur" með sína lífsafkomu og áður?  Nafnleysi er enginn glæpur, hatursáróður og ofstæki er það, en þá hættir maður bara einfaldlega að lesa eða taka mark á viðkomandi, ekki?

IB (IP-tala skráð) 10.9.2009 kl. 19:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

AK-72

Höfundur

AK-72
AK-72
Með óþrjótandi áhuga á kvikmyndum, sögu og stjórnmálum.Telur sig hafa fullt frelsi til að hrósa og gagnrýna hvern sem er og hvenær sem er.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • ...1212_913482
  • ...ner1_568492
  • ...rad-banner1
  • Screenshot

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 123042

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband