Færsluflokkur: Menning og listir

Er hið Nýja Ísland andvana fætt?

Þegar búsáhaldabyltingunni lauk, þá leið manni eins og uppreisnarmönnum í lok Stjörnustríðs. Helstirni ríkistjórnarsamstarfsins hafið sprungið, Svarthöfðar Sjálfstæðisflokksins þeyttust á brott án nokkurrar ábyrgðar á hermdarverkum sínum á borð við IceSave eða mútugreiðslna vegna einkavinavæðingar á Hitaveitu Suðurnesja hvað þá bankanna. Baráttan stóð þó áfram um tíma þar sem Keisarinn sjálfur sat sem fastast í Seðlabankanum en varð þó að leggja á undanhald síðar, eftir hetjulega baráttu þeirra sem sáu að sér innan þings. Reyndar tókst þó öflum Keisarans þar á bæ að tefja nóg til að undanhaldið yrði sem sársaukafyllst fyrir þjóðina og náðu svo örlitlum hefndum með því að sjá til þess að þjóðin fengi ekki skýrt umboð til þess að búa til nýja samfélagssátt, hvað þá að auðlindir yrðu í þjóðareign.

Fyrsti sigurinn var í höfn en keisarinn og náhirð hans voru kænir líkt og er valdsjúkra manna háttur, háttur þeirra sem hafa blindast af valdahrokanum, siðblindunni og græðginni sem Fjórða Ríki Frjálshyggjunnar taldi sem dyggðir á meðan heiðarleiki, samviska og réttlæti öllum til handa voru lestir og annarlegar hvatir, sem ætti að berja út úr fólki með misnotkun valds og stjórnsýslu. Keisarinn og hirð hans nýtti tímann nefnilega vel og virðist hafa náð vopnum sínum á ný og stefnir að því að gera allt sem það getur til að ganga milli bols og höfuðs á fylgismönnum hins Nýja Íslands því samfélag með réttlæti, gagnsæi og von er eitthvað sem er andstætt allri hugmyndafræði Keisarans, náhirðar og yfirstéttar kvótagreifa, auðmanna, Viðskiptaráðs og bankaþrjóta sem Flokkinn eina dýrkar og verndar.

Einhvern veginn lítur sviðið út svona, fyrsta stóra orrustan um Nýtt 'Island er að tapast á meðan stuttbuxnastormsveitir og skilanefndir Svarthöfðanna, fara hamförum í að berja niður alla mótstöðu gegn Gamla, spillta Íslandi. Afskriftir til handa kvótagreifum og auðmönnum eru framkvæmdar með kennitöluflakki og velvild bankanna á meðan Intrum og innheimtudeildir bankanna ganga fram líkt og dauðasveitir gegn almenningi sem hefur orðið fyrir gríðarlegri kjaraskerðingu og eignamissi, þökk sé sömu banka- og auðmönnum, mönnum sem ganga í burtu frá milljarða skuldum og fá samt að kaupa sér 700 þúsund kr. sturtuhausa eins og ekkert sé. Bankaleynd er beitt eins og bjúgsverði gegn öllum þeim sem vilja upplýsa glæpi og spillingu og lítið sem ekkert er gert til þess að ná fram réttlæti gegn þeim sem hrunið orsökuðu, hvort sem það eru auðmenn, bankamenn eða yfir-Svarthöfði náhirðarinnar sem siðblindur færði okkur Ísþrælkun með illyrmislegt glott á vör og slaufu um hálsinn.

Því miður er það svo að þegar maður lítur á þetta og fleiri þætti á borð við fáar, ómarkvissar aðgerðir í þágu heimilanna og varla má minnast á afnám verðtryggingu, ekkert er gert til að rannsaka mútugreiðslur til Sjálfstæðisflokksins, orku-auðlindirnar gefnar til sænsks skúffufyrirtækis sem er í eigu dularfulls og vafasams fyrirtækis í Kanada vegna þess að gerspilltir gæðingar hrunflokkana hagnast á því, útrásarvíkingar á borð við Jón Ásgeir og Björgólf Thor eru stilkfríir  þegar kemur að yfirheyrslum, hvað þá að eignir þeirra og annarra slíkra séu frystar á meðan sólbrúnkustjarna frjálshyggjuarms Samfylkingarinnar tilkynnir að gengið verði fram af fullkomnu miskunnarleysi og hörku gegn námsmönnum og bótaþegum sem grunaðir eru um svindl á kerfinu. 

Einhvernvegin þá færist yfir mann svartnættið á ný bara þegar litið er á þetta en einnig á það hvernig samfélagið er að þróast á ný yfir í sama Gamla(Íslands) farið. Stjórnmálamenn, spunaliðar þeirra og flokksdindlar hafa fundið öryggi hornatuð landans og dramb síns á ný og með þeirri vissu um að samfélagið sé að verða rólegt og tilbúið undir þrældóm lénsveldis auðmanna náhirðar, valdaætta, S-hóps, úlfa og svína, fara þeir fram og segja með sama fyrirlitningartón og gjarn var hjá talsmönnum Fjórða Ríkis Frjálshyggjunnar, að við sem tilheyrum þeim undirmálslýð sem þrælar fyrir þeirra gnægtum, að almenningur eigi að halda kjafti, borga bara og láta sér nægja að það verður birt skýrsla fyrsta nóvember. Bannað sé að spyrja spurninga, velta upp steinum, skoða ormagryfjur og vera til vandræða fyrir yfirstéttina sem hefur Alþingi í vasa sínum, í gegnum prófkjör og  kosningasjóði, því þessi skýrsla inniheldur hina fullkomnu synda-aflausn til handa stjórnmálamönnum, ráðherrum og ráðaneytisstjóra sem seldi í Landsbankanum kortér í hrun, þetta verður aðeins símadömu á samskiptasviði SPRON að kenna miðað við fullvissuna sem skín frá flokksdindlum sem fær mann til að halda að niðurstöðurnar hafi verið ákveðnar, aðeins átti eftir að semja umgjörðina um þær.

Fjölmiðlarnir taka svo undir þennan söng, eyða mestu púðri í innihaldsrýrar dægurfréttir á borð við ástarmál Paris Hilton og Ronaldo eða sokkabuxur Þóru Tómasar, meðan umfjöllun um mikilvæg mál fer fyrir ofan garð og neðan, blaður stjórnmálamanna í Kastljósi er í sama gír og áður, ekkert er stuggað lengur við þeim sem bannað var að styggja fyrir hrun heldur herða þeir tökin enn harðar á fjölmiðlum sínum, reyna að koma a stað þeirri ríkisskoðun að landinn á að þrælka en ekki hugsa með álitsgjöfum sem allir segja það sama í kór:"Við eigum ekki að vera vond við útrásarvíkinganna, þeir voru svo voða, voða góðir við okkur" milli þess sem þeir tala um að allir eigi að vera rólegir, skýrslan eina sé málið..Sumir ganga jafnvel svo langt að reka þá sem hafa skoðanir ekki þeim að skapi eða flækjast fyrir náhirð Keisarans og veldi spillingarinnar sem um frjáslhyggjunna sveipast. Þá blaðamenn sem ekki er hægt að reka er svo ógnað með kærum í gegnum Fjármálaeftirlitið sem svaf viljandi á verðinum og leit undan geispandi þegar til þurfti, enda var því eingöngu ætlað að þjóna þeim sem markaðnum stjórnuðu, ekki þeim sem markaðurinn græddi á.

Og hvernig er umræðan? Hún er að færast í sömu skotgrafirnar, sömu flokkadrættina og pissukeppnina þar sem foringja- og flokksdýrkunin er að kaffæra öll rök sem gera það að verkum að það þykir í góðu lagi t.d. að gefa auðlindir þjóðarinar, auðlindirnar sem framtíð okkar byggist á því það sé fótboltaliðið sem menn halda með, sem gerir það. Hvað er að slíku fólki? Er því sama um samfélagið?

Og mennirnir sem ættu að halda sig heima fyrir og halda kjafti vegna skammar, geta stormað óhikað nú í fjölmiðla án þess að fá óþægilegar spurningar, líkt og sölumaður IceSave sem mætir eins og fíkniefnasali í fjölmiðla og grenjar undan því að verið sé að bjarga fíklunum úr bráðri lífshættu vegna kattarskítsblandaða heróinsins sem hann seldi þeim. Ætti þetta fólk ekki að skammast sín, er illfyglum Bláu handarinnar svo gersamlega sneydd samviska og iðrun, að þeir telja sig hafa efni á þvi að rífa kjaft eftir það sem þeir gerðu okkur? Var siðblinda skömmtuð genetískt með aðstoð Kára í þennan kór, fyrir ríkisábyrgð á Decode?

Við bætist að gamla ömurlega pissuröflkeppnin um Jón Ásgeir vs. Davíð er að hefjast á ný, nú þegar landanum hefði átt að vera flestum ljóst að báðir aðilar eru í raun barátta eins Frankenstein-skrímslis frjálshyggjunnar sem var ekki nógu hlýðinn skapara sínum Dr. D.O. Frankenstein en sá hinn sami skapaði í veruleikafirru sinni, illvígan her stuttbuxnaskrímsla og sleppti þeim eftirlitslausum í frjálshyggjutilraunarstofu sinni til að sjá hversu fljót þau yrðu að rífa tilraunadýrin sem íslenskur almenningur kallast, á hol. Erfitt er að sjá hvor er verri því þeir eru báðir stikufríir hrunvaldar sem iðrast einskins og svífast einskins í sínum Freddy vs. Jason-slag, en við sem búum hér í þessu landi þurfum að þjást og blæða  fyrir afleiðingar gjörða beggja(og fleiri slíkra), jafnvel lengur en börn og barnabörn okkar lifa.

davi_sopi_gunnar_fbl_081212_913482.jpg

Ég er svartsýnn já, ég er það því samfélagið og atburðir síðustu vikna og mánuða er ekki að gefa manni von um að nokkuð breytist hér frekar en áður. Fátt eitt gefur manni von hér á haustmánuðum og óútprentuð skýrsla frá rannsóknanefnd sem maður hefur vissar efasemdir um vegna orðsins "Alþingis" sem hengt er við nafngift hennar, mun ekki varla breyta neinu. Hví segi ég það? Því viðbrögð stjórnmálastéttarinnar eru mjög fyrirsjáanleg og keimlík viðbrögðum yfirstéttar hrunvalda. Enginn verður dreginn til ábyrgðar úr stjórnsýslu, engir þingmenn eða ráðherrar þurfa að gangast undir landsdóm, enginn þarf að sæta ákærum fyrir landráð eða aðra þá glæpi/vísvítandi gáleysi sem þeir frömdu, samtryggingin er nefnilega ofar réttlætinu og ofar þjóðinni enda gætu upplýsingar um sérstaka fyrirgreiðslu stjórnmálastéttarinnar í Landsbankanum annars farið á stjá. Þó má reikna með að fundinn verði millistjórnandi eða skúringakerling út í horni til að kenna um hrunið. Enda er alltaf slíkum peðum er vel hægt að fórna í þeirri von um að skríllinn friðist svo auðmennirnir og stjórnmálaflokkarnir fái að halda áfram með sitt klíkræði sem aðalgrunnstoð samfélagsins um ókomna tíð.

Hvar er réttlætið í þessu? Hvar er vonin? Hvar er varðstaðan um að hið Fjórða Ríki Frjálshyggjunnar fái ekki að halda áfram ótrautt eins og ekkert hafi gerst? Hvar er hið Nýja Ísland sem okkur var lofað? Hvar er nýr samfélagssáttmáli og stjórnlagaþingið sem talað var um en hefur dottið út af borðinu að því virðist, kæft með kodda þingsins í von um að enginn muni eftir því í haust?

Því er ekki nema von að maður velti fyrir sér hvort baráttan fyrir Nýju Íslandi sé ekki andvana fædd, sérstaklega þar sem sumir baráttumannanna hafa fallið fyrir fagurgala hins Gamla Íslands og látið lýðskrum Keisarans og náhirðar hans afvegaleiða sig í baráttunni og barið á potta í takt við spunaskrum InDefence fyrir hrunflokkana tvo. Sum börn búsáhaldabyltingarinnar gleymdu meira að segja hugsjónunum, átu byltinguna og lögðust í hjaðningavíg sín á milli, stuttbuxnastormsveitum og Svarthöfðum stjórnmála og fjölmiðla, til mikillar skemmtunar og ánægju.

Maður veltir því einnig fyrir sér hvort þetta sé ekki töpuð orrusta(jafnvel stríðið allt) líkt og í fimmta kafla Stjörnustríðs: Keisaraveldið snýr aftur, og hvort það sé ekki best fyrir sem flesta að yfirgefa þá ísplánetu sem hér mun fyrirfinnast í  óbyggilegu samfélagi óréttlætis, spillingar og lénsskipulags náhirðarinnar, í þeirri von um að betri framtíð finnist í fjarlægari löndum, þar sem réttlæti er ekki eitthvað orð án merkingar, von er eitthvað sem þess er virði að lifa fyrir og samfélagssáttmáli er ekki eitthvað sem skeint er sér með á klósetti Gamla Íslands sem staðsett er í Valhöll.

En hver veit, kannski er svartsýnin of mikil hjá mér og ég er að líta á þetta vitlaust í myndlíkingu minni. Kannski á ég að vera bjartsýnn og líta á þetta sem erfiða baráttu hóps bandamanna við að halda víginu í miðri Ardennusókn örvæntingarfullra herja Fjórða Ríkis Frjálshyggjunnar, í þeirri von um að halda út þar til skriðdrekar hins Nýja Íslands undir forystu réttlætisgyðjunnar, komi þjóðinni til bjargar í þessari lokasókn náhirðarinnar gegn bjartari framtíð hennar.

Maður spyr sig.


Sjónarhorn-Frumsýning á Menningarnótt 2009

Á morgun er Menningarnótt, á morgun er ár eða svo síðan Heimildarmyndaklúbburinn Hómer stóð fyirr kvikmyndatöku á Miklatúni í veröld sem eitt sinn var en er ei meir og á morgun frumsýnir Heimildarmyndaklúbburinn Hómer afraksturinn, mynd sem kallast Sjónarhorn sem verður sýnd í Hljómskálagarðinum kl. 14:30 og Tjarnarbíó kl.18:30. En hvað er Sjónarhorn og hver sagan á bak við þessa mynd?

Hvítasunnuhelgina 2008 ákvað Heimildarmyndaklúbburinn Hómer sem er félagskapur fólks sem hittist reglulega og horfir á áhugaverðar heimildarmyndir saman, að halda til Patreksfjarðar á heimildarmyndahátíðina Skjaldborg. Hátíðin kveikti í þessu fríða föruneyti löngun og neistann til að skapa eitthvað og framkvæma eitthvað.  Hugmyndum var kastað fram og aftur og á öðrum bjór sem oft á tíðum er fylgifiskur kvikmyndagerðar, stakk einn félaganna upp á því að safna saman fólki héðan og þaðan úr ólíkum áttum sem myndi kvikmynda einn atburð og hann klipptur saman í rauntímamynd. Áður en bjór tvö var búin og þessi þriðji sem fær alla til að gleyma góðu hugmyndunum daginn eftir tók við, þá höfðum við dottið niður á að það væri alveg brill að kvikmynda Menningarnætur-tónleikana sem hafa verið stórasti viðburður Menningarnætur með flugeldasýningu á eftir, og fanga andrúmsloftið sem þar ríkti á svæðinu. Ákveðið var að stefna að því að hafa þetta 100 manns og  nafngiftina Project 100.

Þegar komið var heim frá Skjaldborgar-hátíðinni dásamlegu, þá hófst undirbúningurinn. Reykjavíkurborg leist velá þetta og veitti smástyrk, starfsmönnum Rásar 2 hrifust einnig með og RÚV lét til hljóðupptökur og baráttan við að fá fólk og styrktaraðila hófst.Erfiðlega gekk það enda voru blikur á lofti um versnandi árferði en þó sáu einhverjir aumur á okkur svo sem Sony Center sem lét okkur í té spólur til upptöku. Smá vonleysi greip mannskapinn um tíma vegna þess að markmiðstalan 100 manns, virtist ekki vera að nást en svo tókum við þá ákvörðun að þó það næðist ekki, þá myndum við einfaldlega framkvæma þetta með öllum þeim mannskap sem vildi taka þátt, bara kýla á þetta eins og einhver orðaði það.

Loks rann stóri dagurinn upp og mannskapurinn dreif að til að fá spólur og myndir teknar af þeim. Einhver afföl urðu og sumir komu hlaupandi að Kjarvalstöðum rétt fyrir töku-stund sem miðuð var við þegar hljómsveitin Hjaltalín myndi stíga á svið og klukkustundu síðar þegar Magnús og Jóhann hefðu lokið söng sínum, þá væri tökum lokið. Tökunum var safnað saman að því loknu og daginn eftir þegar Ísland varð "stórasta land í heimi"svo vitnað sé til fagnaðarláta forsetafrúrnar yfir árangri handboltaliðsins á Ólympíuleikunum, þá vorum við þegar byrjaðir að taka stikkprufur og byrjaðir að hugsa að e.t.v. hefðum við bara gott "stöff" í höndunum og gætum því hjólað í það að reyna að fá meira fjármagn fyrir eftirvinnsluna.

Nokkrum vikum síðar breyttist allt þegar Guð blessaði Ísland og stórasta eyjan breyttist í Helvítis Fokking Fokk-landið. Við það fauk síðasta vonin um fjármögnun dó með blessuninni og líkt og aðrir varð Heimildarmyndaklúbburinn Hómer heltekinn af hruninu, svo heltekinn að margir meðlimir tóku sig til og stóðu saman upp úr sófanum, sögðu:"I'm mad as hell and I'm not going to take it anymore" og framkvæmdu ýmsa hluti yfir þennan stormasama vetur. Meðlimirnir tóku þátt í skipulagningu borgarafunda, mótmælafundum, bloggskrifum, börðu potta, pönnur og trommu í Bónus-poka fyirr framan þinghúsið þar til fólkið sem bað Guð um að blessa Ísland, hrökklaðist frá völdum. Í framhaldi af því gengu sumir m.a.s. svo langt að stofna stjórnmálahreyfingu og bjóða sig fram til þings í öllum hasarnum en ávallt á þessu tímabili eftir hrun, fengum við reglulega áminningu um að okkar biði ólokið verkefni, að gera þessa mynd tilbúna til sýningar.

Loks fór það í gang á ný, lítið sýnishorn sett saman fyrir Skjaldborgar-hátíðina sem gaf okkur innblástur og neistann til framkvæmda, myndn kynnt þar og brjáluð klippivinnatók við yfir sumartímann hjá Herberti Sveinbirnssyni sem sýndi meðlimum klúbbsins endanlegan árangur svo í gær, árangur sem kallast Sjónarhorn.

Þegar maður horfði svo á árangurinn líða yfir tjaldið, þá spruttu upp margar hugleiðingar í kolli manns, hugleiðingar um horfinn heim sem birtist manni þarna áður en allt breyttist, hugleiðingar um heim sem maður sér líklegast aldrei aftur, allt er breytt. En það voru ekki einu hugleiðingarnar því að sjónahorn nær því fimmtíu einstaklinga á sama atburðinn birtust, þá voru þau mörg hver ólík í kringum sama atburðinn, hver sá sitt með sínu augu, hver hafði sinn smekk fyrir hvað væri áhugaverðast hverja stundina, hver og einn dró upp glefsur af hlutum sem við sjáum ekki í matreiddum tónleikamyndum eða ritskoðuðum fréttum af samtíma-atburðum svo maður taki annað dæmi. Þátttakendunum tókst að draga upp samtímaheimild að manni fannst, samtímaheimild um fólk á mannfögnuði sem ætlað er að skemmta mörgum eina kvöldstund.

Þó er það ein hugleiðing hjá mér sem stendur upp úr með þetta allt og það er hugleiðingin sem spratt upp í dag, þegar þessu er öllu lokið. Það þarf ekki mikið til að framkvæma hluti og skapa eitthvað. Það sem eingöngu þarf er hugmyndin, þorið til að hætta að tala engingu og byrja að framkvæma, kraftinn sem fylgir sköpunargleðinni og þolinmæðina til að halda áfram þó á móti blási. Peningaleysi og önnur vandamál er eitthvað sem maður veltir sér ekki upp úr, heldur reynir að finna lausn á frekar en að gefast upp, því ef áhuginn og krafturinn er til staðar leysist þetta á endanum.

Að lokum þá langar mig til að segja að án alls þess góða fólks sem gaf okkur stund af lífi sínu þetta kvöld á Miklatúni fyrir ári siðan, eingöngu af áhuga, gleði og óeigingirni þeirra sem vilja sjá eitthvað verða að veruleika, þá hefði þetta aldrei orðið að veruleika.

Þökk sé ykkur að við getum frumsýnt á Menningarnótt 2009 "öðruvísi" tónleikamynd og vonandi mætir fólk sem flest til að sjá ykkar Sjónarhorn.

 

 


Réttlæti Ekkert Ofbeldi-Myndband

Ákvað að setja þetta myndband hér inn á bloggið. Frekar flott af þeim sem gerðu þetta.

 

 

 


Project 100 vantar enn fólk í heimildarmyndatöku

Fyrr í sumar þá setti ég færslu inn um Project 100 sem er hugarfóstur okkar félaganna í Heimildarmynaklúbbnum Hómer. Ætlun okkar er að fá 100 manns með Mini-DV vélar til að taka upp tónleikanna á Menningarnóttu í samvinnu við Reykjavíkurborg og Rás 2. Í framhaldinu verður svo klippt saman heimildarmynd um upplifunina séð í gegnum þessa 100 einstaklinga og sýna á næstu Menningarnótt.

Þrátt fyrir að lítið hafi veirð auglýst og sumarfrí sem vinna hafi tekið sinn toll af undirbúningnum, þá hefur það samt skilað okkur nær þriðjungi þess mannskaps sem við þurfum. Nú erum við loks að reyna að koma þessu í fjölmiðla af viti og vonandi skilar því að við getum framkvæmt þetta. Ef einhverjir eru áhugasamir og vilja taka þátt í þessari heiimildarmyndagerð, endilega kíkið á heimasíðunna okkar og skráið ykkur:

www.projecthundred.com

 


Project 100-Kvikmyndataka á Menningarnótt

Stundum fáum við félagarnir svo skemmtilegar hugmyndir að við verðum að framkvæma þær. Ein af slíkum kom upp á "brain-storming" á Patró  þegar heimildarmyndahátíðin Skjaldborg stóð sem hæst. Eftir að henni hafði verið varpað fram og menn hugsuðu meir og meir, því ákveðnair urðum við í því að framkvæma hana, enda vorum við ekki komnir á það stigið að fara að leysa öll heimsins vandamál yfir bjór en eins og margir kannast örugglega við, þá gleymast slíkar lausnir fljótt. Hjólin fóru svo fljótlega af stað eftir heimkomu og opnuðum við annarsvegar Facebook-síðu og svo heimasíðu sem DV tókst reyndar að skrifa vitlaust þegar þetta var kynnt þar en aðsetur hennar er: www.projecthundred.com.

En hver er hugmyndin? Hún er frekar einföld á pappír. Við ætlum að fá 100 manns, helst með mini-DV vélar, til að taka upp klukkutíma af tónleikunum á Menningarnóttu í samvinnu við Reykjavíkurborg, og klippa saman í eina mynd sem verður allt að 55-60 mínútur þar sem allir fá að njóta sín. Ekki má slökkva á vélum frá því að byrjað er en á meðan tökum stendur hefur þáttakandinn algjörlega frjálst val um efnistök, sjónarhorn eða annað þó við setjum þær takmarkanri að halda sig innan tónleikasvæðis. Ætlunin er svo í framhaldi að sýna myndina á Skjaldborg og svo á Menningarnóttu 2009 og verður myndin svo í framhaldi aðgengileg á heimasíðunni. 

Þessa daganna erum við í leit að sjálfboðaliðum til að taka þátt í þessu og hafa nokkrir skráð sig og það ánægjulegasta var að fyrsti þáttakandinn var 54 ára gömul kona. Okkar draumur er nefnielga að fá sem mesta breidd í aldri, kyni, störfum, reynslu o.fl. til að ná flóru samfélagsins á bak við vélina. Talandi um reynslu, þá gerum við engar sérstakar kröfur um reynslu, eingöngu um það að fólk komi með sína vél sjálft, við ætlum að skaffa mini-DV spólur sjálfir og stefnum að því að halda kynningu á kvikmyndatöku fyrir þáttakendur þar sem rennt er yfir grunnatriðin.

Ef þið viljið vita meir, þá kíkið endilega á heimasíðuna og skráið ykkur eða sendið spurningar. Ef fólk er ekki viss um vélarnar sínar, þá getum við fundið út hvenrig þær eru. Eins og ég sagði, við viljum helst Mini-Dv til að auðvelda eftirvinnsluna sem verður bilun en ætlum ekki að vera neitt strangir á því, við viljum að þetta gerist frekar en að hengja okkur á smáatriði.

Að lokum þá væri ég mjög þakkláttur ef fólk getur látið áhugasama vita eða jafnvel sett upp auglýsinga-"banner" á síðuna sína en hann má finna hér og stærri útgáfu hér.

 Bið ykkur vel að lifa.

 

 

 


Óskars-tilnefningarnar komnar-Ekki mikið óvænt

Jæja, þá er loksins komnar tilnefningar fyrir aðaluppskeruhátíð ársins: Óskarsverðlaunin. Það er svo sem ekki margt sem kemur á óvart í rauninni, maður vissi að Dreamgirls fengi margar tilnefningar, Scorsese yrði útnefndur, Pan's labyrinth sem besta erlenda mynd en Sena hefur ekki áhuga á að sýna hana því eins og þeir orðuðu það:"HAHAHAHA, hver heldurðu að hafi áhuga á að sjá mexíkanskar myndir?". Little miss sunshine er svo sem ekki neitt óvænt frekar en Babel og ég hefði orðið mjög hissa ef Peter O'Toole hefði ekki fengið tilnefningu enda fer karlinn víst á kostum í Venus. Verst að Will Smith fær tilnefningu, hef hrikalegt óþol gegn  honum þó maður gefi honum kredit fyrir leik við og við.

Það sem kannski helst kemur á óvart er Ryan Gosling fyrir besta leik í karlhlutverki, Borat fyrir besta handrit og að Jackie Earle haley hafi fengið tilnefningu sem er skemmtilegt því hann hvarf í fjölda ára eftir að hafa leikið í myndum á borð við Breaking away og minnistæður sem mest óþolandi krakki í heimi í The day of the locust. Alltaf gaman þegar það er endurkoma með stíl. Einnig kom mér það nú aðeins á óvart að hin hrollvekjandi heimildarmynd Jesus camp skuli vera útnefnd. Ánægjulegt þó umfjöllunarefnið sé óhugnanlegt: Kristnar sumarbúðir sem heilaþvo börn að hætti Talibana og eru með mikla hernaðarhyggju og tilbeiðslu til Bush sem hins nýja Messíasar, sem hluta af heilaþvottinum.

Nú þarf maður bara að leggjast yfir þetta og spá í spilin næsta mánuðinn þar til stundin rennur upp. Kvikmyndaklúbburinn Afspyrna hefur hingað til horft á afhendinguna með sínum venjulegu hefðum: vöfflubakstri, veðmálum, teljandi hversu oft sama auglýsingin birtist í hléum og hvaða bull og vitleysu þulurinn á Stöð 2 lætur út úr sér.

Um bloggið

AK-72

Höfundur

AK-72
AK-72
Með óþrjótandi áhuga á kvikmyndum, sögu og stjórnmálum.Telur sig hafa fullt frelsi til að hrósa og gagnrýna hvern sem er og hvenær sem er.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • ...1212_913482
  • ...ner1_568492
  • ...rad-banner1
  • Screenshot

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband