Dabbi kóngur og Jón biskup

    Einhvern veginn verður mér alltaf hugsað til Hinriks II, Englandskonungs og Beckets biskup, þegar kemur að Baugs-málinu. Hinrik og Becket höfðu eitt sinn verið mátar en svo lenti þeim saman þegar Becket neitaði að beygja sig undir ofurvald konungs og setja kirkjuna undir hæl hans. Þetta endaði í illdeilum sem páfi neyddist til að skipta sér af og þær enduðu með því að Hinrik hreytti út úr sér orðum um hvers vegna einhver losaði sig ekki við þennan helvítis prest. Fjórir riddarar skildu þetta sem skipun, skipulögðu og framkvæmdu morð á Becket í kirkju hans. Sumir sagnfræðingar segja að það hafi verið með fullri vitund Hinriks sem hafi eingöngu verið að tala undir rós til að forðast ákæru fyrir skipulagt morð. Morðið á Becket snérist í höndunum á Hinriki og undirsátum, páfi gerði Becket að dýrlingi og að lokum þurfti konungur að auðmýkja sig opinberlega og iðrast við gröf Beckets sem var almennt orðinn að píslarvotti.
   Í Baugsmálinu varð atburðarrásin þannig að Davíð Oddson eða Dabbi kóngur byrjaði að leggja fæð á Jón Ásgeir og Baugsmenn fyrir að vilja ekki setja kirkju sína, markaðinn, undir hæl Davíðs. Sumir segja að þetta hafi byrjað í tíð Davíðs sem borgarstjóra en ég tel að þetta hafi byrjað við einkavæðingu FBA sem Davíð fagnaði í fyrstu en trompaðist svo yfir þegar hann sá að Jón nokkur Ólafs hafði keypt bankann ásamt Jóni Ásgeiri. Jónarnir tveir voru ekki hluti af aðalsmönnum þeim er mynduðu hirð Davíðs:heildsölum, Kolkrabbafjölskyldunum og kvótagreifum, heldur höfðu þeir byggt upp veldi sitt samkvæmt þeim reglum er kóngu setti en skildu ekki að menn þurftu að tilheyra hirðinni til að mega það. Hirðmönnum sem hirðfíflum mislíkaði þessi ótukt götustrákana að dirfast að halda að þeir sætu að sama borði þegar kæmi að einkavinavæðingu, sérstaklega þó kónginum sem leit á ríkið sem sitt. Óvild kóngsins og hirðar hans í garð Jón Ásgeirs, manna hans og veldi, magnaðist svo með ýmsum hætti og almennt var það orðið viðurkennt að þarna var ekki kært á milli.
    Enginn veit i raun hvort Dabbi kóngur hreytti út úr sér svipuðum orðum og Hinrik en riddarar, trúir kóngi sínum, tóku sig til og ákváðu að nú væri kominn tími til að þagga niðri í biskupi markaðarins, honum Jóni Ásgeiri. Þrír settust niður á skrifstofu í einum kastala valdsins:Morgunblaðinu, ræddu um og skipulögðu aðförina gegn Jóni Ásgeiri og lénsveldi hans Baugi, með þeim vopnum sem þeim höfðu áskotnast, fyrrum heitmey gamla barónsins af Baugi sem mislíkaði það illa að hafa verið velt út úr rúmi og landflótta fésýslumanni í hefndarhug sem taldi Jón hafa dregið konu sína á tálar.
    Þegar áætlunin var tilbúin var haft samband við fógeta ríkisins sem var trúr sínum kóngi og hafist handa. Fógetanum var gert að finna einhverjar sakir á hendur Jóni, foður hans og undirsátum, sönnum sem upplögnum og skaða þá sem mest í augum annara lénsherra sem og almennings með stóru höggi. Ráðist var inn í kirkju Jóns en áætlunin tókst ekki sem skyldi. Baugsveldið féll ekki í valinn svipstundis heldur barðist hatrammlega á móti árás konungsveldisins fyrir rétti sem og annars staðar.
    Kóngurinn varð brátt óvinsæll vegna misnotkunar á valdi sínu þegar hann reyndi að keyra lög í gegn sem klárlega var beint gegn eigum Baugs er hafði að gera með fjölmiðla ásamt því að hafa lýst yfir stuðningi við stríð yfirgangsams stórveldis og fleiri verkum. Almenningur sem og aðrir mislíkaði það og að lokum neyddist Ólafur Ragnar Grímsson páfi til að grípa í taumana og stoppa kónginn sem var orðinn líkt og illvígur tarfur í drápsham í stríði sínu við Baugs-veldið og almenning i landinu.Á endanum hrökklaðist konungur frá völdum og var hann sendur í útlegð í hinn afskekkta kastala Seðlabankann þar sem hann situr bitur og áhrifalaus dreymandi  um endurkomu sína til valda.
     Örlög riddara hans og vopna þeirra eru þó óráðin, einum var verðlaunað með dómarasæti sem gæti komið fyrrum kóngi og hans hirð vel síðar, sá er básunaði hvað mest orð konungs hefur glatað traust fólks á blaði sínu en engum tekst að ýta honum í burt, sá þriðji var hrakinn frá hirðinni af nýjum kóngi og fógetinn eyðilagði trúverðugleika sinn og löggæslumanna sinna. Bréf heitmeyjarinnar um samsæri riddarana kom fyrir sjónir almennings og að lokum lenti fésýslumaðurinn á sakamannabekk við hlið óvinar síns og nafna.
    Jón Ásgeir og veldi Baugs náði að koma sér undan aðför konungs og hans manna þó því sé ekki alveg lokið. Hirðinni mistókst og aðförin snérist í andhverfu sína og gerði Jón að dýrlingi og píslarvætti í augum almennings sem var orðinn þreyttur á harðræði og spillingu konungs og hirðmanna.
    Nú er spurningin hvað gerist næst, mun þáttur konungs og hans manna vera rannsakaður? Mun einhver þurfa að bera ábyrgði á stórfelldum útgjöldum af skattpeningum upp á hundruðir milljóna? Mun yfirmaður lögreglu og leyniþjónustu konungs taka ábyrgð á gjörðum fógetanum og böðlum hans og fara frá? Eða munu fjölmiðlar sem þeir sem á þingi sitja forðast að taka á málinu og þeir seku munu halda áfram í sínum störfum, bruggandi ný launráð? Og svo að lokum, mun einhver af fjölmiðum landsins, hjóla í gamla, bitra kónginn og minna hann á orð sín um að ef aðför fógeta væri pólitískur gjörningur, þá myndu dómstólar vísa málinu frá sér?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

AK-72

Höfundur

AK-72
AK-72
Með óþrjótandi áhuga á kvikmyndum, sögu og stjórnmálum.Telur sig hafa fullt frelsi til að hrósa og gagnrýna hvern sem er og hvenær sem er.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...1212_913482
  • ...ner1_568492
  • ...rad-banner1
  • Screenshot

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 123081

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband