Borgarafundurinn-Hugrenningar undirbúningsaðila

Þegar Gunnar hélt sinn fyrsta borgarafund í Iðnó í lok október upp á eigin spýtur, þá held ég að mér né nokkrum öðrum sem sátu þar, óraði fyrir snjóboltanum sem rúllaði á stað þar með okkur innanborðs. Sá fundur olli því nefnilega að ég ákvað að finna reiði minni í garð stjórnar, bankamanna, auðmanna, eftirlitsaðila og annara óhæfra embættismanna valda út frá flokkskírteinum, farveg í að reyna að gera eitthvað og finna kannski smá von um framtíð hér á Íslandi.

Í frmahaldi af því tróð ég mér í fartesið með Gunnari, Davíð og öllu því ágæta fólki sem einnig var á svipuðum nótum, það vildi svör og það vildi að það væri talað við sig og hlutir útskýrðir. Svo byrjaði boltinn að rúlla, tveir fundir enn, annar í Iðnó og næsti í NASA og að endingum stóðum við í Háskólabío, mánuði seinna eftir þessa hugdettu eins manns, þar sem við vissum ekki hvort nokkur maður myndi mæta né hvort nokkur af þeim háans herrum sem telja sig hafa eina vald til að tala fyrir þjóðina, myndu mæta. En þau undur og stórmerki gerðust að þetta fór fram úr okkar vonum, bíóið meira en troðfylltist, valdamennirnir mættu bíóið með greinilega þá trú að fólk myndi kikna í hnjánum við komu þeirra og meðhöndla þá með silkihönskum þar sem þau fengju að mjálma sömu loðnu frasanna aftur og aftur.

Raunin varð önnur, því líkt og þingmennirnir sem mættu á fyrsta borgarafundinn kynntust illlilega, fengu ráðherrarnir það að mestu málefnalega óþvegið, og manni varð það ljóst að líkt og þingmennirnir flestir ef ekki allir, voru ráðherrarnir ekki í neinum tengslum við fólk, heldur aðskildi gjá þá við fólk, gjá hroka og stéttar sem hvorki deilir né skilur mikið hvað almenningur hefur áhyggjur af eða vill.. Þetta var þó ekki það eina sem líktist fyrsta fundinum, því að mörgu leyti endurtók hann sig í því að fóllk var að upplifa að geta loksins geta talað við ráðamenn, loksins spurt það sem lá þeim á hjarta, loksins reynt að fá svör og einnig að leyfa ráðamönnum að skynja reiðina, sárindin og vantraustið sem borið er til þeirra. Fólk vill einfadlega að það sé hlustað og talað við það og ekki bara það, heldur einnig þá sem m.a. hafa haft framsögu á borgarafundum eða tjáð sig annars staðar með hugmyndir að lausnum og ábendingum um lausnir og hvað þarf að gera strax eða forðast. Því miður virðist svo vera að þeir sem hafa mest gert í því að sökkva skipum, hafi óbilandi trú á að þeir einir hafi vitið og getuna til að bjarga þeim og aðrir séu bara vitleysingar sem kunni ekki neitt í björgun.

Um frammistöðu ráðherra og framsögumanna ætla ég svo sem ekkert mikið að segja, enda hafa marigr tjáð sig um það, heldur bara það eitt að þegar ég hlustaði á ráðherrana og horfði á þingmennina þá kom hugsunin um spurningar sem hefur hvílt á mér lengi: hversvegna á ég að standa í þessu? Hversvegna á maður að hafa áhuga á að taka þátt í þessu samfélagi, borgandi skuldir annara og með sama liðið gjammandi á þingi í stjórn og stjórnarandstöðu sem er orðið svo samdauna rotnu flkkakerfi sem hefur lagt þjoðfélagið í rúst? Á ég ekki bara að gera eins og aðrir eru byrjaðir að gera, flytja út og koma aldrei aftur þar sem lítil von er til þess að þetta samfélag samtryggingar, flokksræðis, spillingar og valdhroka, getur ekki breyst með þetta fólk við stjórnvölinn, fólk sem telur meiri nauðsyn að vernda hina seku og refsa almenningi heldur en að gera nokkuð í átt til breytinga?

Í dag er það eina vonin mín um áframhaldandi Ísland, að samfélagið nái að breytast á næstu mánuðum, þrískipting valds verði að veruleika, gagnsæi og siðferði nái að ríkja í stjórnsýslu og að það náist að útrýma pólitískri spillingu eða lágmarka hana um aldur og ævi. Annars einfaldlega kveður maður Ísland með þá vitneskju að maður reyndi þó á einhvern hátt að hafa áhrif á hlutina en þjóðinni sé þvi miður ekki viðbjargandi fremur en öðrum þjóðfélögum sem hafa dáið út um aldanna rás. Maður er þó ekki einn í því að reyna hvort sem það er með mótmælum, borgarafundum eða dásamlegri flöggun Bónus-fána á Alþingishúsi sem inniheldur fólk sem er rúið trausti, virðingu og sumt hvert heiðarleika, og í því fólki sem reynir að breyta hlutunum, felst eina von Íslands, ekki í fólkinu sem tuðar út í horni og gerir svo ekki neitt nema að borga skuldir sem aðrir komu okkur í, um aldur og ævi.

Að lokum langar mig til að klykkja því út,  að maður hafði nú lúmskt gaman af því að sjá umfjallanir og heyra að við sem undirbjuggum þennan fund, værum öfgapakk, eitthvað VG-"lið" sem ég held að Sjálfstæðismennirnir í hópnum okkar, muni finnast furðulegt og að sjá okkur líkt við nasista jafnvel. Ég ætla þó að játa að ég sem gekk um svartklæddur með appelsínugulan borðann, minniti þó nokkuð á SS-mann og hafði nú spurt einhvern í gríni hvort við hefðum ekki getað haft þetta rautt til að fullkomna útlitið á mér. Kannski mun þó einn ráðherrana minnast mín sem slíks fóls, þegar ég kom, sótti viðkomandi og vísaði framfyrir röðinna inn í salinn þar sem pólitísk slátrun viðkomandi fór fram. Ef viðkomandi hugsar til mín á þann hátt, þá segi ég bara:

Ingibjörg Sólrún, þú slátraðir þér sjálf inn í salnum. Ekki kenna öðrum um.


mbl.is „Þetta er þjóðin“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég verð bara að segja það að þessi fundur var stórmerkilegur og sögulegur, ég klappa fyrir ykkur fyrir þetta framtak.

Að mínu mati og allra þeirra sem ég hef talað við í dag og í gær var þarna þverskurður af þjóðinni að tjá sig, hrokinn í Ingibjörgu og Geir að halda þvi fram að þetta væri nú ekki þjóðin lýsir ómerkilegheitum þeirra og ótta við að sleppa takinu af stöðum sínum.

Ég verð reyndar að segja að stjórnarandstaðan er engu betri til að taka við, það þarf róttækar breytingar, alvöru fólk, mér finnst að þingmenn eigi að geta verið hver sem er í hvaða stöðu sem er, en ráðherrar eiga að vera með menntun við hæfi þess ráðuneytis sem þeir starfa fyrir, í stað þess að menn raði sér upp á þann hátt sem hingað til hefur tíðkast ætti að ráða ráðherrana faglega til starfanna.

Steinar Immanuel Sörensson (IP-tala skráð) 25.11.2008 kl. 22:29

2 Smámynd: AK-72

Þakka þér, Steinar.

Við erum greinilega á sömu nótum með stjórnarandstöðuna og við erum ekki enir. Mikið af mínum vinum og kunningjum, getur ekki hugsað sér að kjósa neinn flokk né fólk sem er á þingi núna og það er eins og ég segi: allt traust er dáið. Það þarf hreinsun innan flokkana og nýja flokka en það eitt nægir samt ekki, það þarf breytingar á kerfinu öllu sem slíku. Rótin er fyrst og fremst kerfið sem hefur skilað okkur þessum vanhæfu einstaklingum, ráðherraræðinu og spillingunni, og ég efast um að það sé nokkur maður á þingi sem vill breyta því sem kom þeim til valda.

AK-72, 25.11.2008 kl. 22:48

3 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Glæsilegt framtak hjá ykkur Gunnari. 

Ingibjörg drullaði upp á bak þarna á pöllunum.. og ég mun aldrei nokkurn tímann kjósa flokk þar sem hún er í forsvari.. aldrei.  

Óskar Þorkelsson, 25.11.2008 kl. 23:11

4 Smámynd: AK-72

Takk, 'oskar. Reyndar eru Gunnar og Davíð Stefánsson aða forsprakkarnir. Ég er bara einn af 20-30 aðstoðarkokkum í þessu.

AK-72, 25.11.2008 kl. 23:18

5 identicon

Ef þú værir ekki svona hallur undir óhroðann frá Mekka þá myndi ég samþykkja þig í stól dómsmálaráðherra í eða ekki í SS-búningi.

Glæsilegur fundur hjá ykkur!!

marco (IP-tala skráð) 25.11.2008 kl. 23:30

6 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Hið raunverulega Alþingi - borgarafundur 24. nóvember 2008

Ég lét mér nægja að horfa á borgarafundinn í sjónvarpinu núna. Fann samt til samviskubits yfir að sýna ekki samstöðu og mæta. En þarna var rödd þjóðarinnar mætt. Og ríkisstjórnin hlustaði ekki fremur venju.  Ég er ekki frá því að Ingibjörg Sólrún hafi framið pólitískt Harakiri með því að segja að þetta væri ekki þverskurður þjóðarinnar. Geir var enn hrokafyllri og segir núna í fréttum að þetta hefði verið ákveðin stemmning en ekki endilega það sem endurskoðar sýnir þjóðarinnar frekar en Þjóðviljinn sem þrátt fyrir nafnið hefði aldrei endurspeglað þjóðarviljann. Segir þetta okkur ekki nóg? Ég get sagt fyrir mig að fullt af klappinu og stuðningi við ýmislegt er ekki endilega að gera sig fyrir mig. Kosningar í febrúar finnst mér glapræði þó ekki sé nema fyrir tíðafar. Hvað þá heldur annað.

Þorgerður Katrín er komin á fullt í baráttunni fyrir að verða næsti leiðtogi Sjálfstæðismanna. Svo diplómatísk að uppskera klapp á sama tíma og samráðherra hennar dýralæknirinn sem sér um fjármálin var baulaður niður. Kristján Möller hrokafullur fyrirgreiðslupólitíkus þumbaðist  í spurningarlausu svari við að réttlæta tilveru sína. Össur brá sér í trúðagervi. Aðrir ráðherrar stóðu sig enn verr. Og pínlegt að horfa á sakamanninn Árna Johnsen bakvið ræðupúltið með fílusvip og krosslagðar hendur. Honum leiddist greinilega pakkið í salnum.

En þarna var komið saman hið raunverulega Alþingi landsins. Raddir fólksins. Þó þær hafi ekki komist inn fyrir hlustir hrokagikkjanna í ríkisstjórn endurómuðu þær kröfur okkar og væntingar. Raddir venjulega Íslendinga. Hvort sem það þarf 10-20 þúsund Íslendinga á Austurvöll, hvað sem mér finnst um aðstandendur mótmælanna, hvað sem verður í gangi milli lögruglu og almennings, þá kemur þessi ríkisstjórn til með að fara frá. Ég vil ekki græna, frjálslynda samspillingarmenn í þeirra stað og það gerist ekki. Við eigum fullt af fólki sem getur sótt um að gæta hagsmuna okkar.

Ekkert þeirra virðist vera í stjórnmálaflokki!

Ævar Rafn Kjartansson, 25.11.2008 kl. 23:41

7 Smámynd: Neddi

Set hér inn athugasemd sem að ég setti hjá Davíð líka

Við erum greinilega að gera vel miðað við það hvernig varðhundar stjórnarflokkanna eru farnir að gelta að okkur. Þeir átta sig bara ekki á því að þeir eru bara eins og litlir hræddir chihuahua hundar sem gjamma en ekkert geta gert.

Neddi, 26.11.2008 kl. 10:02

8 Smámynd: Héðinn Björnsson

Auðvitað erum við ekki þjóðin. En við erum líklega í meiri hluta og a.m.k. það stór hluti þjóðarinnar að án þess að náist við okkur sátt mun enginn friður ríkja í þessu samfélagi.

Það sem mér fannst mest merkilegt það er hversu lélegir diplómatar þetta fólk var. Ekki skrýtið hvað þeim hefur gengið illa að semja fyrir okkar hönd erlendis. Ef þau hefðu bara sagt að þeim hefðu orðið á mistök, beðist fyrirgefningar og að nú gilti að þjappa sér saman og setja nýjan stefnu í sameiningu hefðu þau náð langt í að ná samúð margra Íslendinga. Í staðin fóru þau svo mikinn í hroka og sjálfsvörn að varla gat nokkur sem á horfði annað en skammast sín. Það ber vitni um lýðræðislegan þroska þessa fólks að það gat ekki séð tækifærið sem svona kraftmikill fundur er til að hvetja fólk til dáða og þátttöku í að skapa saman nýtt Ísland.

Héðinn Björnsson, 26.11.2008 kl. 16:38

9 identicon

Þetta er bara misskilningur hjá þér (og fleirum sem rita hér að ofan). Ég t.d. hef aldrei kosið Ingibjörgu Sólrúnu en mér finnst samt hafa verið illa að henni vegið eftir þennan fund. Tel hana ekki hafa meint að fundarmenn væru ekki hluti af þjóðinni, heldur það að álit þeirra fundarmanna sem tjáðu sig á fundinum, endurspeglaði ekki álit þjóðarinnar í heild og það held ég að sé einfaldlega rétt.  Mér fannst ráðherrar standa sig mjög vel undir ja að mörgu leyti skítkasti úr salnum. Þó að við séum flest öll reið og sár vegna ástandsins í þjóðfélaginu þá er lágmark að sýna kurteisi. Fundarstjórinn gleymdi alveg eða kunni ekki hlutverk fundarstjóra og var í eins manns hlutverki á sviði sem reyndar var misheppnað hjá honum.  Tilefni fundarins var gott og friðsamleg mótmæli eru alltaf sjálfsögð, en málið er að það er kannski svona 20% þjóðarinnar sem vill skipta um stjórn ákkúrat núna. Það eru helst kjósendur VG sem það vilja, þannig er það bara. Meirihluti þjóðarinnar vill sjá núverandi ríkisstjórn sitja næstu mánuði og reyna að koma okkur út úr mesta vandanum. Það þýðir EKKI að fólk vilji láta seðlabankastjórana og fjármálaeftirlits-forstjóra sitja sem fastast. Auðvitað eiga þeir að axla ábyrgð, að ég tali nú ekki um fyrrverandi (og suma núverandi) æðstu yfirmenn bankanna að ógleymdum svokölluðum útrásarvíkingum.  En kosningar núna eða í jan 2009 yrðu bara til þess að auka á glundroðann sem nægur er fyrir. Kjósum næsta vor .... og best væri ef við þyrftum þá ekki að kjósa flokka, heldur gætum kosið þá einstaklinga sem við treystum, hvar svo sem þeir eru í flokki.

Ég vil endilega sjá svona fundi áfram, en þá VERÐUR að skipa fundarstjóra sem kann sitt fag. Svona rugl eins og var á þessum fundi, gengur ekki! .... .

Katrín (IP-tala skráð) 26.11.2008 kl. 20:58

10 Smámynd: AK-72

Ég er reyndar ósammála þér Katrín, mér finnst Gunnar fínn fundarstjóri. Hann nær að dempa spennu út í sal, hann er ekki með þetta þurrt og leiðinlegt og það er algjör nauðsyn að grípa frammí pólitíkusum sem byrja sinn loðna kjaftavaðal þar sem þeir segja ekki neitt. Hann er bara eins og við hin, að leita að svörum og ef það færi að verða einhver þurr í anda Halldórs Blöndals og Sturla Böðvars að stjórna, þá dræpi þetta formið. Stjórnmálamenn verða að átta sig líka á því að tími silkihanska og tími algjörrar lotningar fyrir þeim er horfinn. Ef þeir geta ekki svarað eins og fólk, talað við fólk eins og manneskjur hreinskilið en ekki bara með innantómum, pólitískum frösum, þá geta þeir ekki búist við að fólk sé að sýna þeim einhverja kurteisi lengur. Tímarnir í dag eru þannig að það þýðir ekki lengur að leyfa stjórnmálamönnum að komast upp með hvað sem er.

Ég held svo að meirihluti fólks vilji skipta um stjórn á vormánuðum og að Geir, Ingibjörg o.fl. sem hafa klúðrað málunum svo illilega víkji til frambúðar, líkt og flestir ef ekki allir þingmenn. Þau eru öll vanhæf á einn eða annan hátt. Helst myndi ég vilja að þau vikju strax, eftirlétu völdin í hendur þjóðstjórnar eða utanþingstjórnar, færu svo í breytingar á kerfinu sem löggjafi þar sem þrískipting valds verði lögfest á þann hátt að þingmenn geti ekki verið ráðherrar og dómararáðningar færðar til þingsins t.d., viðurkenndu mistök sín og hleyput alls staðar að nýju og fersku fólki, ekki fólki samdauna kerfinu. Ef ekki verða breytingar, þá er bara eitt fyrir flesta að gera og það er að yfirgefa landið til frambúðar, því þá er landið hvort eð er ekki þess virði til að búa hér, borgandi skuldir annara í sama rotna kerfinu fyrir sömu rotnu flokkana og fólkið, um aldur og ævi. Nei takk, þá hljómar allt annað sem betri kostur, m.a.s. Zimbabwe.

AK-72, 26.11.2008 kl. 23:31

11 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Eins og sannarlega er ástæða til að hrósa ykkur sem að þessum fundum komið í hástert og þeir án efa merk heimild um þá tíma sem við lifum núna, þá virðist það nú samt því miður að gerast með þann sem þessa síðu skrifar og marga fleiri sem þó vilja fara fram að skynsemi, en festu, að viss múgæsing hefur gripið þá og hlutirnir því miður málaðir enn dekkri litum en raunin er og það þótt þeir sannarlega séu mjög dökkir fyrir!En það er að hluta samt skiljanlegt að viss múgæsing smiti jafnel þá er skynsamastir eru og vilja fara sem best og rökfastast í gagnrýni er leiða á til betri hluta og réttlætis, því vissulega er þolinmæði þeirra takmörkuð sem annara og að reiðin geti orðið skynseminni yfirsterkari! En samt, ef einhver vill ná fram réttlæti sem hann segir borðleggjandi að blasi við um leið og hann vilji að leikreglur lýðræðisins gildi, þá verður hann að sýna fram á það með óyggjandi hætti að viðkomandi, t.d. ráðherra eða flokkur hafi brugðist eða brotið af sér!

Eins slæmt og ástand síðustu vikna hefur reynst og örlagaríkt fyrir okkar litlu þjóð, þá eru samt ekki óyggjandi sannanir eða rök til dæmis fyrir því að S og hennar foringi hafi brugðist!Flokkurinn ber ekki ábyrgð á þeim litlu sem engu leikreglum sem bönkunum og útrásarmönnum var gert að leika eftir, ef hægt er að taka svo til orða. B Og D bera einfaldlega ábyrgð á því! Nú getum við svo endalaust deilt um atburðarásina á sl. vikum og mánuðum, rangar ákvarðanir og sannarlega mjög umdeilanlegar, en hvort einstakir ráðherrar eru rúnir trausti eða eiga skilið að vera kallaðir spillingarlið, það er nokkuð sem mér finnst nú afskaplega erfitt að standa fyrir!

Það er auðvelt að slá fram fullyrðingum eins og að meirihlutin vilji stjórnina burt, könnun sýndi jú vísbendingu um það nú nýlega, aðeins rúnlega 30% lýstu yfir stuðningi. En Samt Studdu nú i sömu könnun mun fleiri en sem nam þeirri prósentu annan stórnarflokkin, sem einmitt "Vonda konan" INgibjörg Sólrún leiðir!Auðvitað á ekki að taka slíkar kannanir sem stóra sannleik auk þess sem aðeins rúmur helmingur gaf upp afstöðu minnir mig, en þær gefa samt alltaf vísbendingu um ríkjandi ástand og það stemmir ekki alveg við það sem þú heldur hér fram!Ekki treysti ég mér til að skjóta á hlutfallið, en það er nú samt þannig, að nokkur hluti fólks hefur ekki tapað fé sínu á bankahruninu, hefur ekki misst vinnuna eða lent í neinu sérstaklega vegna þessa kreppuástands, allavega ekki enn, hvað sem síðar kann að gerast. Þetta fólk, sem samt er örugglega gramt yfir öllum látunum og þekkir eflaust einhverja sem eiga erfitt, hugsar kannski ekki svo djúpt eða hefur svo sterkar tilfinningar gagnvart stjórnvöldum sem aðrir er verr hafa orðið fyrir barðinu á kreppunni og eru því sömuleiðis ekkert tilbúið að fara í kosningar, ekki strax að minnsta kosti.Og eins og hér að ofan var sagt, þá held ég líka að snúið hafi verið út úr orðum IS, allavega heyrði ég hana ekki segja það þessi fundur endurspeglaði ekki vilja þorra fólks, heldur ´væri hún ekki viss um að þetta endurspeglaði vilja MEIRIHLUTA þjóðarinnar! SVona var allavega efnislega svar hennar aðspurð af fréttamanni RÚV strax eftir fundin er hún var spurð um viðbrögð og túlkun!

Forsætisráðherran á hins vegar mjög svo skilið flesta ef ekki alla þá gagnrýni sem beint hefur verið að honum, hann hefur satt best að segja komið mjög ílla út m.a. í samtölum við fleiri en einn og fleiri en tvo fréttamenn og flestum er víst nú kunnugt um!

Magnús Geir Guðmundsson, 27.11.2008 kl. 01:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

AK-72

Höfundur

AK-72
AK-72
Með óþrjótandi áhuga á kvikmyndum, sögu og stjórnmálum.Telur sig hafa fullt frelsi til að hrósa og gagnrýna hvern sem er og hvenær sem er.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...1212_913482
  • ...ner1_568492
  • ...rad-banner1
  • Screenshot

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 123069

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband