Adieu, Borgarahreyfing

Í dag er maður dapur, í dag er maður sár, í dag er maður leiður því að í dag er dagurinn sem Borgarahreyfingin endanlega dó í hjarta mínu. Þessi vegferð sem hófst hjá mér í kytru í Borgartúni þar sem nokkrir menn settust niður og ákváðu að koma þeirri hugmyndafræði sem verið var að móta háleitt á efstu hæð þar af hópi sem þar sat, frá umræðustiginu yfir í framkvæmdastigið sem nauðsynlegt var svo að árangur næðist. Þessi vegferð hefur endað með skelfingu einni, andhverfunni við upphaf í heilindum, andhverfuna við þær hugsjónir sem lagt var af stað með, andhverfu við siðferði manns sjálfs.

Og hvernig var þessi vegferð? Hvernig varð hún svona í augum manns? Hvernig gat þess hreyfing sem lagði af stað af krafti vonar með heilindi og siðferði að leiðarljósi, kannski barnalega stundum en af einlægni, orðið að Frankenstein-skrímsli í forarvaði siðferðisbresta, óheilinda og rýtingsstungna? Hvað gerðist? 

Þetta er erfitt svar og örugglega margþætt en það eina sem ég get, er að lýsa mínum sjónarhól á þessari vegferð frá Borgartúninu sem varð að skærri stjörnu um tíma en brenndi sig upp um leið. Frá Borgartúninu færðist þetta til funda þar sem reynt var að sættast a stefnu, strauma, vott af skipulagi og öðru sem skipti máli í þeirri stóru framkvæmd sem var framundan: þingframboð. Allir virkuðu sem þeir ynnu af heilindum og væru að gera sitt besta en þrasfundir sem tóku alltof langan tíma, áttu það til að tefja fyrir og reyndari menn sem sátu með, sögðu að svona gengi ekki, þrasið um smáatriðin yrðu að víkja fyrir einblíningu á praktískari hluti, bæði út á við og inn á við. 

Áfram hélt þetta þó en samt byrjuðu að koma fram teikn fram sem hefðu átt að vera aðvörun um að ekki væri allt eins og vera bæri. Sá sem þetta ritar lenti m.a. í því að vera ýtt til hliðar sem vefritstjóra með tölvupósti, með ákvörðun sem virtist tekin í skyndingu og önnur manneskja átti skyndilega að taka við öllu án samráðs. Það fyrirgafst þó eftir nokkurra daga sárindi  né nokkuð við þá sem við tók að sakast enda alsaklaus af ákvörðuninni og vinnubrögðum þessum sem ég erfi ekki við þann aðila.

En þetta var þó smáhlutur í raun um asa og taugatitring í brjálæðinu sem kosningabaráttan var, kosningabarátta sem maður sér ekki eftir að hafa tekið þátt í og er reynslunni ríkari eftir á. Þó fór maður að ókyrrast yfir því að sú stjórn sem átti að stýra kosningabaráttunni virtist ekki hafa heildarsýn á hlutunum með fyrirfram ákveðna áætlun í huga, heldur var að bregðast við frá degi til dags út frá þrasfundum morgnana. Brátt fór að kvisast til manns að ákveðnir aðilar sem þar sátu, töldu það meira aðkallandi að eiga sviðið eitt, leggja fólk innan stjórnarinnar í hálfgert einelti og jafnvel krefjast þess að formaðurinn viki vegna þess að þjóðin þyrfti á öðrum að halda en honum. Síðastnefnda málið varð til þess að heil vika glataðist í undirbúningi kosningabaráttu, nokkuð sem var alls ekki ásættanlegt á þeim tímapunkti þegar allur kraftur þurfti að fara í baráttuna, ekki einhverjar persónulegar kýtir sem leystust fyrir rest með hálfkjánalegri yfirlýsingu um að hreyfingin hefði eingöngu talsmenn en ekki hefðbundið skipulag á strúktúr stjórnar.

Við það greip mann ákveðinn vantrú og maður vissi ekki hvort  Borgarahreyfingin væri andvana fædd eða hvort þetta væri einfaldlega álagið í kosningabaráttunni að brjótast út í svona heimskulegum uppákomum í garð fólks sem hefur nú sagt sig úr stjórn og hreyfingunni. Samt hélt maður áfram, ótrauður bæði vegna þessa fólks sem maður þekkti og svo sannfærðist maður á ný af hálfu þess að taka þátt í þessu fólki sem var heilt í baráttunni, grasrótarfólksins sem lagði sitt fram af hjarta og sál og kom þessum fjórmenningum á þing við mikinn fagnað á kosningakvöldið.

Sá fagnaður stóð þó ekki lengi yfir því brestir fóru strax að koma fram, brestir sem reyndust ekki vera álagið heldur brestir þeirra sem blekktu sig til valda að manni fannst þegar litið er yfir söguna frá kosningum, og sviku þá sem stóðu í þessu. Þó er mögulegt að við þröskuld þinghús hafi farið fram inngönguathöfn inn i helvíti fláræðis og óheilinda þar sem ógeðsdrykki spillingar og siðleysis var neytt ofan í þá sem voru ekki nógu sterkir á svellinu til að segja nei með penum hætti.

Í byrjun sumar heyrði maður af því að allskonar uppákomur í tengslum við peningamál og stórmennskulega sýnir um risahúsnæði fyrr allt hið mikla fé sem frá ríkinu kom og fór fram mikill átakafundur þar sem harkaleg gagnrýni fór fram á kosningastjóra  fyrir launamál og aðra fyrir önnur mál, en ég get ekki vitnað um hvað þar gekk á og tel reyndar að miðað við samtöl við nokkra aðila og viðkynni mín af kosningastjórunum að einhver misskilningur eða ýkjur hafi verið þar á ferð því um þann mann hef ég haft eingöngu góð viðkynni af, og hafði samúð með þegar ég sá vörn hans á auka-aðalfundi sem var haldin um mitt sumar. Fram að þeim auka-aðalfundi heyrði maður þó raddir um versnandi samband þinghóps við stjórn þar sem þinghópurinn að mestu virtist vilja vera æðsta vald hreyfingar, ekki framlenging á henni. 

Auka-aðalfundur var boðaður sem ég sá mér fært að mæta á, fundur sem maður fékk á tilfinninguna að ákveðið hefði verið að skyldi nýttur til að sætta aðila og hreinsa með nýrri stjórn. Tilfinningin sú var léttir, tilfinningin var við lok dags að þá var þetta að mjakast í rétta átt, þetta væru vaxtaverkir einir, nú yrði þetta léttara undir fæti, nú myndu hlutirnir stefna í rétta átt.

Lognið sem féll yfir, reyndist vera svikalogn því þegar afgreiðslan á ESB kom, fyrsta stóra prófmálið fyrir hreyfinguna, þá kolféll þingflokkurinn á prófinu, ekki bara með svikum á því samkomulagi sem flestir stóðu að væri meiningin, þ.e. farið yrði í aðildarviðræður til að geta séð eitthvað í hendi til að kjósa um, heldur féllu þau á stóra siðferðisprófinu sem skipti mestu máli: að verða ekki eins og hinir flokkarnir, að bregðast ekki við með óheilindum og breyta rangt. Gripið var til réttlætingar án iðrunar, gripið var til þeirra meðala sem aðrir voru gagnrýndir fyrir. Þó taldi maður að örvænting yfir IceSave réði ferðinni, málinu stóra sem öllu átti að fórna fyrir: heiðarleika, trausti og virðingu. Tilgangurinn helgaði meðulin líkt og hver varða til vítis segir okkur en samt vonaðist maður eftir iðrun.

Þetta olli því að maður sem þögull áhorfandi sem sá meir en fólk hélt, byrjaði að verða það ljóst að stjarnan skæra væri að brenna upp. Þó vildi maður reyna að lokum að blása lífi í dauðvona sjúklinginn sem lá rotnandi á borðinu fyrir framan, félagsfundurinn í síðustu viku var tilraun til þess þar sem allt það góða fólk sem þar mætti, vildi raunverulega reyna, vildi ekki gefast upp, vildi ná sáttum.

Þó þegar tíminn byrjaði að líða frá þeim fundi og maður byrjaði að sjá og heyra meir og meir sem hinn þögli áhorfandi sem tekur eftir hlutum og hefur vitneskjuna, að þetta var orðið búið spil þó tíminn sem maður gæfi til björgunar var til lítillar vonar um að örfáum aðilum sem engum voru tengdir, gætu gert kraftaverk. Sú von dó þó með hverri frétt og upplýsingu um hegðun þingmanna, bæði hinar opinberu fréttir um ósættið, orða um að þeir hefðu farið þarna inn á eigin forsendum sem virkaði eins og að þau ein hefðu framkvæmt allt, viðsnúning í IceSave-málinu þar sem öllu var fórnandi áður en mátti nú samþykkja með fyrirvörum, hroka þingmanns í garð grasrótarinnar sem vildi reyna að sætta fólk með þeim orðum að félagsfundur vegna deilnanna hefði verið gagnslaus nema þeim sem mættu, hið einstaklega rætna bréf í garð Þráins sem birtist í gær.

Eins og það væri ekki nóg þá voru það einnig hinar óopinberu fréttir um að þingmenn tækju köst á stjórnarliðum, handveldu fólk til að mæta á fundi með sér, töldu að stjórnin ætti að lúta vilja sínum og hefðu stofnað sérfélag um þingflokkinn í algjörri andstöðu við samþykkt félagsfundar um að slíkt ætti ekki að gera. Slíkt sagði manni aðeins eitt, þremenningarnir sem höfðu sig hvað mest í frammi, voru búin að kljúfa sig frá grasrótinni sem kom þeim á þing.

Nú í dag eru þetta þrjár hreyfingar: þinghópurinn sem seldi sálu sína, Þráinn sem stendur einn og heill eftir þann eineltislega mykjuhaug sem dembt hefur yfir hann og svo grasrótin sem stóð trú í hjarta sínu við sannfæringuna sem örfáir einstaklingar hafa gert óhreina og að athlægi í sínum mennska harmleik. Og hversvegna fór svo? Eins og ég segi, þá er það örugglega ekki einfalt svar en sjálfin sem fóru inn á þing voru stór, eitt þeirra mundi þó fyrir hverju viðkomandi átti að standa, þrjú þeirra komu á eigin forsendum og með sig og sína í huga framar þjóðinni sem átti að fara inn á þing. 

Slíkt getur maður ekki við unað lengur, slíkt getur maður ekki tekið þátt í, slíkt getur maður ekki varið eða eytt orku sinni í að berjast við, slíkt eftirlætur maður öðrum einum. Ég segi mig hér með úr hreyfingunni sem hófst til lofts líkt og sjálfstæðisbarátta Íslendinga, varð að afli líkt og lýðveldið Ísland en dó líkt og samfélagið Ísland í spillingu, siðleysi, klíkuskap og einstökum óheiðarleika fámenns hóps. Ég óska því fólki í grasrótinni hið besta og ég vona að ég geti hitt þau öll sem voru heil og trú sjálfum sér, deildu saman sorg og sút, gleði og gráti á ný við mun gleðilegri og skemmtilegri aðstæður. Það fólk er þess virði að hafa kynnst og starfað með og það er það fólk sem átti þetta aldrei skilið.

Adieu, Borgarahreyfing. Sagan mun dæma þennan feril frá búsáhaldabyltingu til blóðugra bakstungna á þennan hátt:

Byltingin át ekki börnin sín, börnin átu byltinguna.
mbl.is Reynt að ná sátt hjá Borgarahreyfingunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Agnar.... var ég búin að segja þér að þú ert frábær penni?

góð lýsing á atburðarrásinni... og ég tek undir hvert orð. S

Heiða B. Heiðars, 14.8.2009 kl. 15:54

2 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Frábær grein og lýsir því vel hvernigmér líður á þessari stundu..

Ég hinsvegar fór að velta því fyrir mér í sumar þegar þremenningarnir fóru í plottið sitt margfræga.. hvort að eðli íslendinga almennt sé ekki svona.. svikulir og óheiðarlegir upp til hópa !  Það er reyndar mín reynsla af íslendingum.. og þegar ég fer héðan af landi brott innan nokkura daga.. þá tel ég ekki að ég sjái eftir þessari þjóð.. þjóð sem styður svikaöfl aftur og aftur... 

Adjö ísland.. adjö íslenska þjóð ! 

Óskar Þorkelsson, 14.8.2009 kl. 16:02

3 Smámynd: Héðinn Björnsson

Ég var farinn svo miklu fyrr en þið hin eftir að hafa fundist flokksræðisóttinn vera að drepa alla ákvörðunartöku að ég upplifði þessa síðustu og verstu tíma ekki innan frá eins og þið og því séð hlutina öðruvísi. Fannst alltaf uppröðunin á þinglistana hafði verið sérkennileg og að Samstöðuhópnum gengi illa að vinna með Borgarafundshópnum og að Þráinn ætti ekki heima þarna yfir höfuð enda ekki hluti af hreyfingunni, en leyfði mér að vona að þetta myndi ganga einhvernvegin ekki síst vegna þess að úr því fólk vildi ekki flokksræði hlyti það að vera tilbúið til að virða að fólk hefði mismunandi skoðanir.

Það sýnist mér sem utanaðkomandi að afstaðan til ESB hafi verið tekin án þess að það hafi verið hugsað í gegn eingöngu til að bregðast við ofuráherslu Samfylkingarinnar á málið í kosningarbaráttunni. Við ræddum það í desember og janúar að ESB væri sérsniðið til að kljúfa andstöðuna við ríkjandi ástand og við reyndumst ekki hafa neitt vopn gegn því útspili Samfylkingarinnar og útrásarpésanna. Í sumum málum er erfitt að finna málamiðlanir og ég skil vel að fólk hafi lent í verulegum vandræðum með að styðja aðildarumsókn að ESB þegar á hólminn er komið ekki síst í ljósi þess sem meira og meira kom í ljós að var framtíðarstefna ESB-ríkjanna fyrir Ísland sem birtist okkur í gegnum AGS-áætlunina og Icesavesamningana.

Það sem hinsvegar gerði að verkum að ekki var hægt að láta hlutina ganga virtist utan frá ekki síst vera að þingflokkur Borgarahreyfingarinnar byrjaði ekki á að kynna ákvörðun sína á grasrótarfundi heldur í fjölmiðlum og inni á þinginu og misti þar með möguleikan á að ná fram skilningi á sínum málstað þar sem hann skipti mestu mál, í baklandi sínu.

Baráttan heldur áfram og ég efast ekki um að þegar kemur að því í haust að verja heimili fólks sem á að bera út munum við þurfa að skipuleggja nýja hreyfingu til að berjast fyrir breytingum á samfélaginu og þá verðum við að hafa lært af þeim mistökum sem voru gerðar í síðustu uppreisn. Það skiptir því miklu að læra hvað tókst og hvað mistókst svo við getum gert betur næst.

P.S. Er einhver eftir í hreyfingunni sem getur lokað henni samkvæmt stefnuskránni þar sem augljóst er að hún getur ekki náð fram stefnu sinni? 

Héðinn Björnsson, 14.8.2009 kl. 16:27

4 Smámynd: Hrannar Baldursson

Sorglegt. Ekki gleyma samt að rót vandans felst í að hver einstaklingur hefur veikleika og mikið af pólitískum leikjum fara í að herja á þessa veikleika.

Það eina sem þetta sýnir er að X-O hafði rétt fyrir sér. Flokkakerfið er spillandi og vonlaust að vinna með það eins og það er í dag.

Þá er bara að finna nýjar leiðir. Aldrei að gefast upp.

Hrannar Baldursson, 14.8.2009 kl. 16:30

5 Smámynd: Hrannar Baldursson

Héðinn: ekki gleyma Hagsmunasamtökum heimilanna, sem völdu meðvitað að blanda ekki saman pólitískum metnaði og hagsmunamálum heimilanna.

Hrannar Baldursson, 14.8.2009 kl. 16:33

6 Smámynd: AK-72

Héðinn: Já, það eru nokkrir eftir sem gætu farið þá leið í haust. Það fólk er þó sem stendur að berjast örvæntingarfullri baráttu við björgunarstörf svo maður noti þann þreytta frasa. 

Hrannar: Maður gefst ekki upp, maður sleikir sárin um tíma og spáir svo hvert skal maður stefna og hvað maður hefur lært af þessu. Ef maður gefst upp þá getur maður alveg eins gerst sjálfvirk atkvæðavél fyrir Sjálfstæðisflokkin, þ.e.a.s. þessi sem kýs alltaf það sama vegna þess að pabbi kaus það, þessi sem kýs vegna þess að hann þekkir ekkert annað, þessi sem kýs vegna þess að hann græðir á daginn, grillar á kvöldin og lætur aðra um að hugsa fyrir sig.

AK-72, 14.8.2009 kl. 16:46

7 Smámynd: Sóley Björk Stefánsdóttir

Þetta er ömurlegt. Ég samhryggist þér, mér og bara allri þjóðinni fyrir að svona skyldi fara :( Það opnast hver ormagryfjan af annarri þessi misserin og jafnvel þar sem síst skyldi :(

Mér finnst samt að eitthvað hafi þrátt fyrir allt áunnist. Þau sem fóru á þing hafa að mínu mati gert ýmislegt gott. Svo má náttla alltaf reyna aftur, reynslunni ríkari. Stökkið gæti tekist betur með lengra tilhlaupi? Sjálf ákvað ég að vinna gegn spillingunni inni í einum hinna flokkanna, við þurfum að vera út um allt og aldrei að gefast upp. Vinna gegn spillingu, græðgi og svínaríi allsstaðar alltaf!

Sóley Björk Stefánsdóttir, 14.8.2009 kl. 17:19

8 Smámynd: Kjartan Jónsson

Ég samhryggist þér með þessi örlög Agnar.

Hallast ég að því að Birgitta, Margrét og Þór væru best geymd í L-listanum innan um aðra ómerkinga, einangrunarsinna og rasista.

Kjartan Jónsson, 14.8.2009 kl. 20:39

9 Smámynd: Bumba

Ekki datt mér til hugar að svona myndi fara. Það er enginn munur á þessu svikapakki og hinu horngrýtis draslinu í hinum flokkunum. Valdagræðgi og valdaníðsla, skal ná yfirhöndinni hvað sem það kostar. Undirróður og andstyggð. Mikið sé ég eftir atkvæðinum mínu. Svei attan vesalingar.

 Agnar minn, hjartans þakkir fyrir þessa góðu grein. Héðan af mun ég skila auðu. Með beztu kveðju.

Bumba, 15.8.2009 kl. 00:24

10 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Það sem mér sýnist vera að gerast er, burtséð frá afmörkuðum atburðum í þessu ferli, að í rauninni er ákveðinn armur að yfirtaka flokkinn.

Átök tveggja megin stefna.  Það er hægt að kalla þessar stefnur eða arma eitt eða annað,   en í megnatriðum skiptast armarnir hugmyndafræðilega í þá sem telja að ísland eigi að einangra sig frá öðrum lýðræðisríkjum evrópu og hinna sem telja að íslandi sé betur borgið í samstarfi og samvinnu útá við í uppbyggingunni sem framundan er.

Einangrunarsinnar vs samvinnusinnar.

Mér sýnist munstrið í meginatriðum passa inní þessa kenningu mína. 

Ómar Bjarki Kristjánsson, 15.8.2009 kl. 01:01

11 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæll Aggi,

ég samhryggist þér og finnst gott að heyra að þú ætlar að nota tímann í annað en tóma eftirsjá. Nú erum við reynslunni ríkari. Frá upphafi var togstreita milli hópa innan Borgarahreyfingarinnar. Það er ekki óeðlilegt, þannig er það oftast. Það sem skorti var tilfinningargreind, hæfileikinn til að vinna með öðru fólki. Algjör skortur á að leysa málin innan hópsins. Ég hef velt þessu aðeins fyrir mér hvers vegna þetta gekk ekki hjá ykkur. Kannski er það bara að sumir einstaklingar nenntu ekki að bæta nýjum nöfnum í símaskrána í gemsanum sínum.

Ég er ósammála Ómari, ESB hafði engin áhrif á andlátið, meinið var skortur á tilfinningargreind.

Ég er sammála Héðni, haustið mun verða blóð, sviti og tár fyrir okkur sem er ekki sama.

Strákar, sjáumst.

Gunnar Skúli Ármannsson, 15.8.2009 kl. 02:13

12 identicon

Var þá Borgaraflokkurinn bara einn saumaklúbburinn í viðbót ?

Sorgleg örlög sérlega pirrandi fyrir þá sem héldu að það væri kominn flokkur sem ekki félli í fjórflokkakerfið.

Ragnar Benediktsson (IP-tala skráð) 15.8.2009 kl. 07:36

13 Smámynd: AK-72

Sóley: Ég held að það sem þau gerðu gott þarna, sé allt unnið fyrir bí vegna þess að fólk man ekki lengra en stóru málin. Skaðinn sem þetta hefur ollið svo íslenskum stjórnmálum er líka geigvænlegur því við hvert það framboð sem reynir að fara af stað, þá verður flissað út í horni og sagt:"Ætli þetta sé ný Borgarahreyfing?"

En maður sest nú og sleikir sárin og við erum þegar byrjaðir að spá hvað við gerum í framtíðinni sem hættum í gær, við höldum áfram og og tökum bara Churchill á þetta:"We'll fight them on the beaches, we'll fight them in the air but we'll never surrender"....einstaklega háfleygt og klisjukennt hjá mér:)

Bumba: Ég vona að einhvern daginn gæti komið sú staða upp að þú getir greitt atkvæði á ný.

Ómar: Ég held ekki, Ómar, og eiginlega verð að segja að ég tel svo ekki vera þó ESB-atkvæðagreiðslan hafi verið vendipunktur. Þetta er margþætt vandamál og sjálfur ætla ég að íhuga þetta frekar mikið svo maður læri af reynslunni, hver veit kannski maður skrifi eða plati einhvern með sér í heimildarmyndagerð um Sögu Borgarahreyfingarinnar-Frá búsáhöldum til bakstungna.

Gunnar Skúli: Það kom líka upp í umræðum í gær að minnst var á skort á pólitísku hyggjuviti og svo félagslegri fötlun, þ.e. að geta starfað með öðrum. Við eigum eftir að kryfja þetta betur einhvern tímann en segi fyrir mitt leyti að hvaða ólíku skoðanir sem við höfum þá var maður farinn að sakna þess að vinna í Borgarafundunum, það gengi allt er dúndur í samvinnu allt saman. Við sjáumst allavega í stríðinu í haust, það verður erfitt framundan.

Ragnar: Saumaklúbbar eru nú ekki þekktir fyrir blóðug átök, svikráð og bakstungur nema þá kannski rómverskir saumaklúbbar:)

Því miður eins og ég segi svo að ofan þá held ég að þetta sé framtíðarskaði fyrir íslensk stjórnmál og alla þá sem vilja reyna breyta einhverju utan fjórflokkana.

AK-72, 15.8.2009 kl. 12:02

14 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Það skiptir miklu máli fyrir fólk að þekkja lyndiseinkunn og karakter þeirra sem kosnir eru sem fulltrúar þjóðarinnar á þing. Stefnur flokka skipta engu máli því samkvæmt stjórnarskrá á hver þingmaður að kjósa samkvæmt sinni samvisku. Aðalmálið er að gott og heiðvirt fólk komist inn á löggjafarsamkunduna.

Munurinn á Borgarahreyfingu og öðrum flokkum átti að vera sá að þingmenn hennar áttu ekki að þurfa stjórnast af einhverjum flokkssamþykktum. Þeir áttu að vera frjálsir til að kjósa eins og samviska þeirra bauð þeim - Þeir áttu að leiða inn nýja starfshætti á þingi þar sem heiðarleiki var í forsæti en gamladags hrossakaup fordæmd. 

Eða hvað? Var þetta öfugt? Á það að vera; það skiptir engu máli hvaða karakter þingmenn hafa svo fremi þeir hlýða flokksforystunni í öllum málum... ?

Bara ef þingmennirnir hefðu farið eftir samþykktum hreyfingarinnar.

Kannski er enn tækifæri. Hér er samþykkt sem enn er hægt að fara eftir; "Borgarahreyfingin leggur sig niður og hættir störfum þegar þessum markmiðum hefur verið náð eða augljóst er að þeim verður ekki náð."

Pólitík sukkar

Svanur Gísli Þorkelsson, 16.8.2009 kl. 12:46

15 Smámynd: Þór Jóhannesson

Aggi - hver er þessi sálfræðingur sem Margrét vitnar til og vel inni í málefnum hreyfingarinnar samkvæmt bréfinu? Varla eru þeir margir sem koma til greina!

Þór Jóhannesson, 17.8.2009 kl. 01:15

16 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Þetta er vitaskuld hárrétt hjá þér Herbert en í þessu felst ákveðin mótsögn. Ef að hreyfingin ákveður eitthvað sem brýtur í bága við samvisku þingfólksins, hverju á það að fylgja? - Ég veit að Þór var að brjóta bæði gegn samvisku sinni og stefnu flokksins, svo fremi sem honum hafi ekki snúist hugur...en  þar komum við að enn annarri mótsögn. Hvenær má þingfólk skipta um skoðun og kjósa eitthvað sem það var upphaflega á móti? 

Ég get ekki séð að komið verði i veg fyrir þessar mótsagnir nema að þingfólki verði algjörlega leift að láta samvisku sína ráða í einu og öllu. Þá getur það skipt um skoðun ef þeim finnst ástæða til og þarf ekki heldur að standa einhverjum flokki eða hreyfingu skil á gerðum sínum. -

Þetta kerfi sem við búum við þar sem þú þarft flokk eða hreyfingu til að merkja við á atkvæðisseðlinum er mikil bjögun á lýðræðinu og í raun í mótsögn við stjórnarskrána sem gerir ráð fyrir að hver þingmaður geti kosið í einu og öllu eftir samvisku sinni og aldrei samkvæmt flokkslínum. -

Svanur Gísli Þorkelsson, 17.8.2009 kl. 02:52

17 Smámynd: Lilja Skaftadóttir

Ég tel að samviska þingmanns eigi að vera í einu og öllu "hagur almennings". Þessu má snúa á alla vegu, ágætt væri að fá umræðu um það hvað þetta felur í sér.

Lilja Skaftadóttir, 17.8.2009 kl. 11:31

18 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Herbert: Því miður færðu ekki að velja þér einstakan fulltrúa í kosningum á Ísandi, heldur verður þú að velja flokk eða lista. Það er stórkostleg bjögun á fulltrúalýðræðinu. -

Svanur Gísli Þorkelsson, 18.8.2009 kl. 09:53

19 Smámynd: Baldvin Jónsson

Aggi, takk fyrir samveruna og samstarfið. Ömurlegt að missa góða menn, en skil vel þína afstöðu. Einhvern veginn erum við búin að vera að berjast við að miklu leyti, aðra hluti innan hreyfingarinnar en háleit markmið okkur stefndu að. Ég er þó enn þeirrar trúar að á landsfundinum eigum við að geta komið þessu fleyi á rétta stefnu aftur. Skipulags og samþykktavinna mun þar skipta öllu máli.

Svanur og Herbert. Kerfið einfaldlega er í þversögn við sjálft sig. Afsögn þingmanns úr þingflokki er til dæmis enn eitt dæmið um það. Við fáum bara að kjósa flokka, en stakir þingmenn halda þó engu að síður umboði kjósenda þegar að þeir yfirgefa flokk. Einfaldlega stórfurðulegt þetta kerfi og því þarf að breyta augljóslega.

Baldvin Jónsson, 19.8.2009 kl. 11:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

AK-72

Höfundur

AK-72
AK-72
Með óþrjótandi áhuga á kvikmyndum, sögu og stjórnmálum.Telur sig hafa fullt frelsi til að hrósa og gagnrýna hvern sem er og hvenær sem er.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...1212_913482
  • ...ner1_568492
  • ...rad-banner1
  • Screenshot

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband