Eru nafn og myndbirtingar hin íslenska aftaka?

Fyrir örfáum árum síðan þá braust út ofsareiði meðal almennings í garð DV, vegna sjálfsmorðs manns sem blaðið hafði birt nafn og mynd af. Maðurinn hafði verið grunaður kynferðisrotamaður en nafnbirtingin virtist þó þegar öll kurl komu til grafar, ekki vera sá faktor sem réð þessari ákvörðun. Umræðan sem spannst í kjölfarið þar sem fórnarlömb mannsins höfðu m.a. orð á því að þessi blaðaumfjöllun og afleðingar hennar, hefði orðið til þess að eyðileggja málið gegn manninum og því myndi aldrei sannleikurinn ná að koma fram.  Í kjölfarið á þessu máli þá var hætt að birta nafn og mynd af grunuðum einstaklingum og féll málið í gleymsku fyrir utan það að menn töluðu við og við um fréttamennsku DV í fyrirlitningrtón.

En líkt og annað, þá virðist svona ferli fara í hringi. Nú nýverið hefur það verið að ágerast hjá fjölmiðlum að birta nöfn og myndir af grunuðum einstaklingum og helst draga í viðtal til að fá áhorf eða lestur og hafa Fréttablaðið og Stöð 2 verið harðast að manni finnst í þessari athyglisleit sinni. Í fyrstu voru það myndir eingöngu birtar af útlendingum því líklegast hefur þótt viðkomandi fréttamönnum og ritstjórum það þægilegast því þeir geta ekki varið sig né líklegri til að eiga ættingja sem gæti þótt það sárt að sjá umfjöllunina í fréttum og í framhaldi á blogg-síðum eða spjallvefjum. 

En loks kom að því að það var ekki nóg og nú um helgina birtist frétt um prest og sagt að verið væri að kæra hann vegna kynferðisbrota og nafn hans og mynd birt. Reis upp þá æstur múgurinn sem álítur grun samansem sekt og greip sér heygaffla og kyndla í hönd sem hjá nútímamanninum finnst í formi lyklaborðs og Internet-tengingar. Í framhaldi má segja að viðkomandi prestur hafi gersamlega verið hengdur og það allt út frá einni frétt um mál sem er ekki búið að rannsaka. Fáum virðist hafa dottið það til hugar að kæra jafngidli ekki dómi í málnu sem óljósar upplýsingar voru til um. Að sama skapi má segja að þó að málið myndi falla niður vegna þess að sannanir skorti t.d. þá er ferill mannsins og orðspor ónýtt um aldur og ævi, búið er að hnýta reipið í formi sleggjudóma almennings.

Sami almenningur virðist oft gleyma því að grunaðir einstaklingar eiga einnig fjölskyldur sem eiga jafn erfitt út af málum og fjölskyldur fórnarlamba. Ég þekki slíkt dæmi frá konu sem ég vann með og var náskyld manni sem framdi glæp. Í kjölfar áfallsins fyrir fjölskylduna sem var í áfalli yfir því að viðkomandi skuli hafa framið slíkan glæp, þá reyndi það mjög svo andlega á viðkomandi konu sem þurfti að heyra og sjá umfjallanir um málið. 

Í framhaldi af þessu þá fór maður að velta fyrir sér enn og aftur, um réttlætingu nafn- og myndbirtinga í okkar litla samfélagi. Mynd- og nafnbirtingar eru oft á tíðum réttlætar með því að verið sé að benda á hættulega ofbeldismenn, nauðgara og barnaníðinga, nokkuð sem er erfitt að færa rök gegn, þegar menn á borð við Steingrím Njálsson eiga í hlut. Að sama skapi veitir það ákveðið aðhald að almenningur sé látinn vita af því þegar opinberir aðilar fara glæpsamelga með fé líkt og Árni nokkur Johnsen og miðað við okkar samfélag þá er það nauðsyn að lsíkt frétti fólk, vegna þöggunaráráttu stjórnmálamanna á gjörðum flokksbræðra sinna. Einnig getur verið þörf á því að fólk viti að það sé að eiga í viðskiptum við þekkta fjárglæframenn eða vafasama viðskiptamenn t.d. þegar kemur að fasteignaviðskiptum og öðrum hlutum þar sem það leggur aleiguna undir.

En slæmu hliðarnar eru margar þegar litið er til okkar litla samfélags. Útskúfun manna verður algjör oft á tíðum fyrir það að vera grunaðir um hryllilega glæpi þó svo að á endann reynist þeir saklausir, íslensk þjóðarsál er einstaklega dómhörð án sannana og smjattað er oft á tíðum á sögum um viðkomandi um langa tíð. Að sama skapi eru fréttamenn of æstir í að halda vinsældum og keppni, að þeir virðast ekki dómbærir á að beita því tvíeggja sverði sem þetta er, og nöfnum og myndum skellt fram án þess að bíða eftir frekari upplýsingum um málin. Einnig má segja að duttlungar ráði oft ferð eða ótti við stjórnmálamenn og peningamenn því á meðan skellt er fram myndum af grunuðum þá er ekki fjallað um samviskulausa fjárlglæpamenn sem hrekja fólk út úr húsum eða nöfn slíkra persónna birt opinberlega í fjölmiðlum, jafnvel þó viðkomandi hafi verið dæmdur og nafngreindur fyrir rétti.  

Að lokum má segja það, að spurningin um réttmæti nafn- og myndbirtingar sé ekki hægt að svara með einföldu já eða nei. Því miður verða þó fjölmiðlar að læra að meðhöndla þetta tvíeggja sverð með ábyrgð og varfærni hvort sem það erí formi vinnureglna eða almennrar siðferðisvitundar og einnig því að við búum í litlu samfélagi þar sem sleggjudómarar hengja menn byggða á fyrstu fréttum óháð sönnunum í málum hvort sem það er prestsmálið eða Lúkasarmálið.

Það gæti nefnilega komið að því einn daginn að einhver saklaus svipti sig lífi eftir heykvíslar bloggara og ábyrgðarlausa fréttamennsku fjölmiðla. Ef svo færi, hvern ætti að kæra fyrir morð?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Valsson

Ágæt hugvekja hjá þér AK-72, þótt nafnlaus sé. Smáborgarinn er refsiglaður, það eitt er víst.

Júlíus Valsson, 7.5.2008 kl. 21:44

2 Smámynd: Ragnheiður

Ég aðhyllist ekki nafn-myndbirtingar fyrr en sekt er sönnuð með dómi.

Ragnheiður , 7.5.2008 kl. 22:36

3 identicon

Saklaus uns sekt er sönnuð er það ekki svo? Góður punktur og skemtileg lesning.

Heiðrún Berglind Finnsdóttir (IP-tala skráð) 8.5.2008 kl. 00:26

4 Smámynd: Sigurbjörn Friðriksson

Góða sanngjarna fólk!

Einhver bloggaði í gær með þeim hætti að fólk eins og við, vem vildum að beðið væri með nafn- og myndbirtingu yrði frestað þar til að hinn grunaði yrði sakfelldur, þ.e., ef hann er þá ekki sýknaður, værum: "UMBURÐALYNDISFASISTAR".

Sumum finnst að: "Saklaus uns sekt er sönnuð" eigi ekki við í svona málum.  Refsiglatt fólk sem vill "aftökur" á mannorði án dóms og laga.

Svo virðist sem fjölmiðlar gæti ekki jafnræðis um nafn- og myndbirtingar, varðandi "Jón og séra Jón" sbr., séra Gunnar og háskólakennarinn.

Kær kveðja, Björn bóndi.

Sigurbjörn Friðriksson, 8.5.2008 kl. 12:12

5 Smámynd: AK-72

Júlíus: Er nú bara nafnlaus á yfirborðin eins og ég orða það yfirleitt. Þakka annars fyrir kommentin sem og þið hin.

Sigurbjörn: Það er reyndar stór grundvallarmunur á málum Gunnars og háskólakennarans. Með nafnbirtingu á Gunnari þá er aðeins vitað um hann sjálfan en ekki hver meint fórnarlömb eru. Aftur á móti þá er það nú svo með kennarann að börn hans eru þau sem bortið hefur verið á samkv. fréttum og því auðvelt að komast að nöfnum þeirra. +út frá nafni kennarans Það er því af tillitsemi við þau sem nafnið er ekki birt að mínu mati.

AK-72, 8.5.2008 kl. 12:58

6 Smámynd: Haraldur Davíðsson

Að dómi kveðnum eru nafn og myndbirtingar sjálfsbjargarviðbrögð úrræðalausrar þjóðar. komdu með betri hugmynd. Plís.FRIÐUR

Haraldur Davíðsson, 8.5.2008 kl. 16:45

7 Smámynd: AK-72

Haraldur: Ég er ekki alveg að ná því hvað þú ert að meina með sjálfsbjargarviðbrögð úrræðalausrar þjóðar. Værirðu til í að útskýra það nánar?

Svo má einnig velta því fyrir sér hvort nafn- og myndbirting sé ekki einnig tvöföld refsng sem nær mun lengra en fangelsisdómur. Fangelsisdómur er það gjald sem menn greiða til samfélagsins en á samfélagið að halda áfram að refsa þeim um aldur og ævi í formi nafn- og myndbirtinga? Og hvar liggja mörkin eftir að dómur er fallinn, um hvaða aðila og fyrir hvaða glæpi sé réttlætanlegt að birta nafn og mynd? Og ef menn hafa greitt gjald sitt til samfélagsins og eru að reyna að bæta sig, á þá samfélagið að vera sífellt að refsa þeim með nafnbirtingunni? 

AK-72, 8.5.2008 kl. 19:12

8 Smámynd: Guðrún Þóra Hjaltadóttir

Því miður er "fólkið" harðari dómari en dómsvaldið. Fólk japlar á þessu aftur og aftur og jafnvel á meðan það lifir. Það vita flestir nafn háskólakennarans , Ísland er mjög lítið þegar kemur að slíkum þáttum því miður. Myndin af Gunnari á báðum sjónvarpsstöðvum var frekar ósmekkleg.

Það þar alltaf að vera velta svona hlutum upp aftur og aftur og minna okkur á.

Ég hef verið að velta fyrir mér hvort nafnbirting gæti hamið aðra í slíkum gjörðum.

Guðrún Þóra Hjaltadóttir, 8.5.2008 kl. 20:17

9 Smámynd: Hrannar Baldursson

Áhugaverðar umræður. Takk fyrir mig.

Hrannar Baldursson, 9.5.2008 kl. 01:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

AK-72

Höfundur

AK-72
AK-72
Með óþrjótandi áhuga á kvikmyndum, sögu og stjórnmálum.Telur sig hafa fullt frelsi til að hrósa og gagnrýna hvern sem er og hvenær sem er.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...1212_913482
  • ...ner1_568492
  • ...rad-banner1
  • Screenshot

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 31
  • Frá upphafi: 123103

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband