Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Ósvaraðar spurningar vegna hrunsins

Þegar búsáhaldabyltingin hafði róast niður, þá var viðkomið að það kæmi skeið á meðan fólk biði og sæi hvað gerðist í framhaldi, þrátt fyrir að mörgu sé ósvarað. Greinilegt er á gjörningum eins og afskrifturm Landsbanka og Glitnis á um 60% skulda Árvaks sem Björgúlfarnir stofnuðu til, að sumstaðar er talið þetta merki um að almenningur sé orðinn þægur á ný og hægt að skella þessum byrðum á herðar þjóðarinnar.Það má ekki gerast heldur verður að halda áfram að hamra járnið, og eitt af því er að heimta svör við mörgum ósvöruðum spurningum.

 Ef maður kíkr á margt sem maður hefur verið að spyrja sjálfan sig, þá eru hér þó nokkrar spuringar og ekki tæmandi listi:

Almennt í tengslum við bankanna:

Hversvegna voru lappirnar dregnar í því að hefja rannsókn?

Hversvegna fengu stjórnendur bankanna að sitja í lengri tíma óáreittir og með fullan aðgang að gögnum?

Hversvegna er ekkert gagnsæi með afskriftir?

Hversvegna eru fyrrum eigendur gömlu bankanna, stjórnendur þeirra og aðrir, ekki komnir á válista og útilokaðir frá viðskiptum hér á landi, heldur fá að kaupa eins og t.d. Árvak með góðum afslætti?

Hversvegna er ekkert gagnsæi um hvernig meðhöndlun mála er?

Af hverju eru söluferli fyrirtæki ekki upp á borðum?

Hversvegna er ekki enn byrjað að rannsaka ásakanir um óeðlilega fyrirgreiðslu sem Davíð Oddson nefndi, né upplýst af jfölmiðlum eða bönkum? Ég hef fengið það staðfest(án nafna) að Landsbankinn hafi allavega stundað slíkt.

Landsbankinn:

Hversvegna voru hryðjuverkalögin sett á Landsbankann?

Hversvegna eru enn menn á borð við Yngva Örn Kristinnson, fyrrum yfirmann Verðbréfasviðs og núverandi yfirhagfræðingur bankans, enn starfandi í yfirmannastöðum þarna og fleiri nátengdir Sigurjóni Árnasyni?

Hvað líður annars rannsókn á óeðlilegum viðskiptum Landsbankans í tengslum við húsnæðismál, þar sem téður Yngiv Örn var ráðgjafi ríkistjórnarinnar í þeim málum?

Hversvegna var Ársæll Hafsteinsson, yfirmaður lögfræðisviðs Landsbankans, maður sem hafði verið dæmdur fyrir að leka innherja-upplýsingum til Björgúlfs Guðmundssonar, skiipaður í skilanefnd? Hversvegna var ákveðið að treysta slíkum manni?

Hversvegna gera Landsbankamenn allt til þess að koma í veg fyrir, að fólk sem tapaði á peningasjóðunum, fái aðgang að gögnum um þá?

Hvað hafa Landsbankamenn afskrifað af skuldum 30-menningana og fyrirtækja þeirra hjá sér?

Og svo eitt sem ég heyrði nýlega, og vill endilega koma í umræðuna: hvaða þingmaður eða þingmenn, hafa farið inn í Landsbankann ásamt forstjóra fyrirtækja, til að sjá til þess að viðkomandi fyrirtæki fengju fyrirgreiðslu?

Kaupþing:

Hversvegna hefur ekki enn verið hætt við afskriftir á lánum lykilstarfsmanna Kaupþings? Hversvegna hefur það verið þaggað niður?

Hvaða starfsmenn Kaupþings voru búnir að færa skuldir sínar yfir í einkahlutafélög, líkt og Frosti ReyrRúnarsson og Ingvar Vihjálmsson, og hafa þeir fengið að komast upp með það?

Hversvegna hefur ekkert verið gengið almennilega í að kanna tengsl Kaupþings-Lúxemburg við skattsvik, fjárflutnigna til Jómfrúareyja o.fl. vafasamra staða þar sem skattsvik, peningaþvætti o.fl. tengd skipulagðri glæpastarfsemi þrífst? Hver er staðan á þeim málum?

Hversvegna fékk Robert Tscengis 107 milljarða króna yfirdrátt og hverjir aðrir hafa fengið slíkt?

Glitnir:

Hversvegna situr Birna Einarsdóttir ennþá sem bankastjóri? Hversvegna var henni ekki vikið frá eftir að upp komst með "gleymda hlutinn"?

Af hverju fékk fyrrum eigandi bankans að kaupa Árvak með góðum afslætti, og fleiri aðilar tengdir Glitni?

Hversvegna hefur enginn verið handtekinn eða vikið vegna Stím-málsins, og hvað er að frétta af því?

Hversvegna er enn margir lykilmenn úr Gamla Glitni enn starfandi í Nýja Glitni?

Hversvegna var Árni Tómasson, settur í skilanefnd Glitnis þrátt fyrir dóminn sem hann hlaut með Ársæli Hafsteinssyni fyrir að leka innherja-upplýsingum til Björgúlfs?

Annað í tengslum við fjárfestingar og fjárfestingafélög:

Hvað töpuðu lífeyrissjóðir miklu á fjárfestingum í bönkunum, hver voru tengsl stjórnarmanna og hverjir tóku ákvörðunina um að fjárfesta í vafasömum fyrirtækjum á borð við Exista?

Hversvegna hefur ekkert verið gruflaði í því að þrír lífeyrissjóðir voru látnir fjárfesta í Exista snemma a síðasta ári þegar fyrirtækið virtist í vandræðum? Allir þessir sjóðir hafa þurft að skerða greiðslur og einn af stjórnameðlimum eins sjóðsins var Vilhjálmur Egilson, formaður SA. Hversvegna hefur hann ekki verið spurður út i þetta?

Hversvegna er ekki búið að upplýsa hvaða fyrirtæki og auðmenn, tóku stöðutöku gegn krónunni?

Hversvegna fékk Viðskiptaráð 90% af tillögum sínum um viðskiptalífið í gegn hjá stjórnvöldum og hversvegna sitja enn margir gerendur hrunsins í forsvari fyrir það?

Hversvegna er ekki verið að rannsaka endurskoðendaskrifstofurnar, þátt þeirra og lögfræðistofna í hruninu?

Af hverju er ekki veirð að rannsaka þátt Tryggva Þórs Herbertssonar í tengslum við Mishkin-skýrsluna?

Hversvegna er ekki byrjað að rannsaka Gift-málð?

Hversvegna er ekki einnig byrjað að rannsaka Byr og ýmislegt vafasamt í tengslum við eignarhald á því?

Hversvegna hefur Inga jóna, eiginkona fyrrum forsætisráðherra og fyrrum stjórnarmaður í FL Group, ekki veirð spurð út í hvað fór þar fram?

Stjórnvöld:

Hversvegna gripu stjórnvöld ekki í taumana þegar ljóst var hvert stefndi snemma árs 2008?

Hversvegna var ekkert gert varðandi IceSave, af hálfu stjórnvalda?

Hversvegna er ekki gengið í egur Björgúflsfeðga hér á landi og erlendis vegna IceSave?

Hversvegna lánaði Seðlabankinn Kaupþingi, þegar Seðlabankastjóri sagðist hafa varað við bankahruninu? Var það ekki einstaklega óábyrgt?

 Hversvegna verða gögn "rannsóknanefndar þingsins" eða hvítþvottanefndar réttara sagt, ekki gerð öll opinber?

Hversvegna hefur ekkert verið birt úr skýrslum endurskoðenda um bankanna, heldur falið sig á bak við bankaleynd?

Hversvegna er ekkert byrjað að rannsaka af hálfu lögreglu eða slíkra aðila, hvort Baldur Guðlaugsson hafi staðið í innherjaviðskiptum?

Hversvegna hefur það ekkert verið rannsakað né upplýst hvað gerðist þegar Seðlabankinn festi gengið um tíma við evruna í október? Ég hef heimildir fyrir því að það var ekki gert í samráði við hagfræðinga bankans sem urðu fyrst varir við það á visir.is, og að gjaldeyrissjóður bankans, hafi nær því klárast. Hverjir fluttu fé út úr landi á þeim stutta tíma?

Hversvegna er ekki verið að rannsaka tengsl stjórnmálaflokka við bankanna og hvort þeir hafi þegið fé í tugmilljónatali í gegnum skúffufyrirtækin?

Hversvegna er ekki veirð að hjóla í stjórnmálamenn um að fá raunverulega stöðu þjóðarinnar upp á borðið?

Hversvegna hefur ekk enn verið gengið hart í það að frysta eiginir auðmanna og lykilstjórnenda bankanna, þegar fordæmi eru til fyrir því með haldlagningu á fé hælisleitenda?

Af hverju var hætt við að fá erlenda sérfræðinga og allt kapp lagt á að þetta yrði innlendir aðilar, valdir af fjórflokkunum?

Hversvegna er rannsókn hindruð innan stjórnkerfisins af "eftirlitsstofnunum"?

Samkvæmt mínum heimildum þá mun rannsóknafé til saksóknararns, duga skammt ef það á að gera alvöru rannsókn, vegna kostnaðar við tæki, tól og erlenda sérfræðinga í endurskoðun vegna fjármálaglæpa. Hversvegna er það fé svona lítið?

Hversvegna var ákveðið að skera niður fé til efnahagsbrotadeildar þrátt fyrir að augljóst væri að nú þyrfti þess meir en áður? 

Og að lokum, hvað varð um allt gagnsæið, allt upp á borðum, hverjum steini velt við, ekki neinu leynt og allur sannleikurinn kæmi í ljós?

Læt þetta nægja í bili en endilega, bætið við ósvöruðum hlutum og höldum svona á lofti. Þetta má alls ekki gleymast né mega bankarnir og klíkurnar sem tengjast þeim, að byrja að haga sér á sama hátt aftur líkt og er byrjað að örla á. 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Opinn borgarafundur-Mánudagskvöldið kl. 20:00 í Háskólabíó

Nú er komið að næsta borgarafundi hjá okkur sem stöndum í þessu, og ætti þessi að verða áhugaverður. Fyrir það fyrsta skal nefna að Robert Wade sem skrifaði grein þar sem hann varaði við hruninu, síðastliðið sumar, mun vera einn af frummælendum og ég reikna fastlega með að það verði ansi áhugavert hvað hann hefur að segja. Einnig er örugglega einnig áhugavert að hlusta á Raffaellu Tenconi með sína sýn og Sigurbjörg hef ég séð í Silfrinu og lesið viðtal við hana þar sem hún talar um hvað sé mein stjórnsýslunnar hér.

Þó ætla ég að viðurkenna, að ég er persónulega mest spenntur fyrir ræðu hans Hebba vinar míns. Hann er búinn að vera að íhuga og vinna í þessari ræðu í lengri tíma þar sem hann ætlar að tala um samfélagssáttmálann og þrískiptingu valds, hluti sem hafa verið honum hugleiknir, eftir hrunið. Umræðuefnið er honum einnig mikið hjartans mál því líkt og mér, finnst honum samfélagið vera ónýtt á margan hátt því stoðirnar eru ekki bara fúnar, heldur er einnig grunnurinn ónýtur. Einnig verður myndband sem er nokkurskonar annáll borgarafunda sýnt, nokkuð sem hann hefur veirð að eyða degi sem nótt síðustu vikuna við að klippa.

Svo til að svara spurningum verðar formenn flokkana(þeir sem geta mætt), og Viðskiptaráð Íslands sem er sterkasti þrýstihópur hér á landi, því ef skoðað er hvað ríkistjórnir síðustu ára hafa samþykkt af þeirra kröfum, þá er það sláandi, eða um 90% af stefnumálum Viðskiptaráðsins, í tengslum við viðskipta- og fjármálalífið. Mæli með því svo að fólk mæti undirbúið með spurningar, ef það sé eitthvað ákveðið sem það er að velta fyrir sér í tengslum við alla þessa hluti.

En nóg um það, hérna er auglýsingin um fundinn og látið sem flesta áhugasama vita og vonandi mætið þið sem flest.

 "Í Háskólabíó, mánudaginn 12. janúar kl 20-22.


Fundarefni

Íslenskt atvinnulíf í aðdraganda kreppunnar, spurt er hvað fór úrskeiðis og fjallað verður um hriplekt lagaumhverfi og veikar eftirlitsstofnanir.


Frummælendur

Robert Wade - prófessor í stjórnmálahagfræði við London School of Economics
Raffaella Tenconi - hagfræðingur hjá Straumi fjárfestingarbanka í London
Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir - stjórnsýslufræðingur
Herbert Sveinbjörnsson - heimildamyndagerðarmaður og aðgerðarsinni
Auk þeirra hefur formönnum stjórnmálaflokkanna og Viðskiptaráði Íslands verið boðin þátttaka í pallborðsumræðunum.


Fyrirkomulag

Fundarform verður með sama sniði og áður, þegar frummælendur hafa lokið máli sínu er orðið gefið laust og fundargestir úr sal fá að tjá sig eða spyrja þátttakendur í pallborði spurninga. Hver aðili hefur tvær mínútur til að tjá sig svo gott er að vera vel undirbúinn.

Rétt er að taka fram að enskumælandi frummælendum verður gert kleift að svara spurningum sem bornar eru fram á íslensku með aðstoð túlks, og erindi þeirra og svör verða sömuleiðis þýdd á íslensku.

Spyrjum, hlustum og fræðumst.

Sýnum samstöðu og borgaralega virkni og fjölmennum á fundinn."


Opinn borgarafundur í kvöld kl. 20 í Háskólabíó-Mætum öll sem getum

Ætla að minna á og hvetja fólk til að mæta. Það eru allavega einhverjir verkalýðsforkólafr búnir að staðfesta komu sína og vonandi mæta sem flestir úr þeirra hópi og forstöðumenn lífeyrissjóðanna sem þurfa að svara ýmsu.


OPINN BORGARAFUNDUR #5

Háskólabíó Mánudaginn 8. desember, klukkan 20:00.

Fundarefni: Verðtryggingin,skuldir heimila og fl.

Við skorum á forystumenn verkalýðsfélaga og lífeyrissjóða, Viðskiptaráðherra og Félagsmálaráðherra til að mæta og svara spurningum milliliðalaust
Auk þess hvetjum við alla aðra ráðherra og þingmenn að mæta að og hlusta á sitt fólk.

Hinum almenna borgara mun nú gefast tækifæri að spyrja viðkomandi forustusveit spjörunum úr.

Þá munu verkalýðshreyfingin, fulltrúar lífeyrissjóða auk ráðherra eiga kost á því að skýra fyrir okkur almennum borgurum hvernig þessi samtök munu mæta kreppunni með okkur.

Hvernig hefur varðveisla eigna okkar gengið fyrir sig hjá lífeyrissjóðunum, hver er niðurstaðan,hvað er tapið mikið ?

Mun verðtryggingin gera þá sem skulda eignalausa? -Landflótta?

Frummælendur:
Ásta Rut Jónasdóttir, húsmóðir
Gylfi Arinbjörnsson, framkvæmdastjóri alþýðusambands Íslands
Vésteinn Gauti Hauksson, markaðsstjóri

Við fækkum frummælendum úr fjórum í þrjá vegna fjölda áskorana um að gefa áheyrendum í sal meiri tíma til spurninga.

þegar frummælendur hafa lokið máli sínu geta fundarmenn tjáð sig eða spurt gesti Borgarafundarins.

Fjölmennm á fundinn, spyrjum spurninga og fáum svör. Án þeirra getum við ekki myndað okkur skoðun né tekist á við vanda heimilanna.

Sýnum borgaralega virkni, ábyrgð og samstöðu-mætum í Háskólabíó.
f.h. undirbúningsnefndar
borgarfundur@gmail.com


Borgarafundurinn í Háskólabíó í kvöld-Mætum öll

Endilega látið sem flesta vita af þessu og fyllum Háskólabíó. Nú er búið að boða ráðherra og verða settir stólar upp á svið fyrir þá. Það er kominn tími til að þeir svari fólki beint og það milliliðalaust.

Hér er svo tilkynningin:

 Gott fólk takk fyrir frábærar mætingar á Borgarafundi undanfarnar vikur Nú þurfum við virkilega að vera dugleg og virkja alla til að mæta. Við þurfum að sýna stjórnvöldum að við stöndum saman og viljum milliliðalausar umræður og upplýsingar frá þeim. Fyllum Háskólabíó og sýnum hvers megnug við erum

____________________________________________________

OPINN BORGARAFUNDUR #4

Í Háskólabíói , mánudaginn 24. nóvember klukkan 20:00.


Við hvetjum ríkisstjórn Íslands og alla alþingismenn til að mæta á svæðið, hlusta á sína kjósendur og vera með í umræðunni. Á sviðinu verður komið fyrir 12 merktum stólum fyrir ríkisstjórnina, auk stóla fyrir alla alþingismenn. Einn stóll verður sérmerktur seðlabankastjóra.

Til hvers?
- Til að hinn almenni borgari geti komið hugmyndum sínum og skoðunum á framfæri á óvissutímum.

- Öllum stjórnmálamönnum, ráðherrum, alþingismönnum, seðlabankastjórum og bankastjórum er boðið að mæta til að svara spurningum Íslendinga, milliliðalaust.

- Til að almenningur fái skýr skilaboð og sé ekki hafður útundan í umræðunni.

- Til að leita spurninga og svara um efnahagsástandið.

Fyrirkomulag:
Fjórir frummælendur hefja umræðuna (5 mínútur hver):

Þorvaldur Gylfason, hagfræðingur
Silja Bára Ómarsdóttir, alþjóðastjórnmálafræðingur
Benedikt Sigurðarson, framkvæmdastjóri
Margrét Pétursdóttir, verkakona

Þegar frummælendur hafa lokið máli sínu er orðið gefið laust og hver sem vill fær tvær mínútur til að tjá sig úr sal eða spyrja þátttakendur í pallborði spurninga.

Fundarstjórn og tímavarsla verður sem fyrr tekin föstum tökum í nafni lýðræðislegrar umræðu.

Sýnum stuðning með þátttöku – spyrjum og heimtum svör – látum í okkur heyra.

Við ítrekum breyttan fundarstað. Hittumst í Háskólabíói kl. 20:00.

F.h. undirbúningshóps 


Sameining SÍ og FME eða hvernig skal koma Davíð í burtu og það með fulla tösku af seðlum

Ég hef alltaf gaman af kenningum, sérstaklega samsæriskenningum en verst er að þessa daganna hafa flestar þeirra ræst og það sem sannanir um svo óhugnanlega og gífurlega siðspillingu, heimsku, græðgi og hugarfar sem minnir helst á dystópískar lýsingar af verstu ríkjum heims.

En nú er ein kenning kominn upp sem er ansi trúverðug og það er í tengslum við sameiningu Seðlabankans og Fjármála-eftirlitsins. Eins og flestir sem eru ekki enn búnir að koma sér héðan, þá hefur verið talsverð krafa um að losna við Davíð nokkurn Oddson sem er búinn að líma sig fastan við kóngastól í Seðlabankanum þar sem hann gaular Gleðibankann meðan hann brennir efnahagskerfi þjóðarinnar sér til ánægju, hita og kökubaksturs. Almenningur getur jú borðað kökur þegar brauðið er búið. Gamli flokkurinn hans sem dýrkar hann og dáir og getur ekki hugsað sér að láta þennan hamingjusama og taumlausa Fenris-úlf í gereyðingargríni, verða rekinn með þeirri skömm sem hann á skilið. Samfylkingin sem langar svo mikið til að halda völdum, valdanna vegna þessa daganna, getur ekki heldur tekið áhættuna á að missa fallegu ráðherrastólana sem þau hafa fengið að máta. Allt hefur því veirð í status quo í spillingarbaðkarinu sem þjóðinni blæðir út í og hengist hægt og rólega í skuldasnörunni þessu veruleikafirrta fólki til skemmtunar.

En nú hafa samkvæmt þessari kenningu, einhverjir örvæntingarfullir menn í flokkunum sem hafa fundið fyrir eldi í sætum sínum, fundið leið framhjá til að taka tappann Davíð Oddson úr og slegið jafnvel fleiri en eina flugu í höggi. Hjáleiðin er nefnilega sameining Seðlabankans og Fjármála-eftirlitsins sem myndi skila fléttu sem hægt væri að sætta sig við af hálfu ríkistjórnarinnar. Við það gerist nefnilega það að það verður í raun til ný stofnun sem þyrfti að endurskipuleggja. Við endurskipulagninguna þá er nauðsynlegt að auglýsa stöðurnar upp á nýtt: forstjóri FME myndi fá færi á að færa sig um set annað, með afsökun um að "annað spennandi starf væri í boði" og fara í burut í kyrrþey til náðugs starfs annars staðar fyrir ríkið. Við það bætist bónusinn að starfsemi FME færi í algjört uppnám við breytingarnar sem gæfu bankamönnunum og fjárglæframönnunum meiri tíma til að eyða gögnum og koma fé út úr landi. Ekki amarlegur þakklætisvottur það fyrir góðar greiðslur í kosningasjóði. Aðrir embættismenn úr Seðlabankanum fyrir utan Davíð, myndu fara á eftirlaun, stjórnarmenn einnig fyrir utan það að Hannes Hólmsteinn myndi einbeita sér að kennslu um hvað frjálshyggjan hefði verið eyðilögð af synjun Ólafs Ragnars á fjölmiðlafrumvarpinu og hvað alllir hefðu veirð vondir við Davíð, Halldór Blöndal o.fl. afdankaðir yrði komið fyrir á órólegu deildinni á Grund og annað eftir því

En hvað með Davíð? Hann mun ákveða að vegna þessara breytinga sé kominn tími til þess að hann skoði aðra meira spennandi kosti, og hver er sá kostur? Það skyldi þó ekki vera sendiherrastóllinn í Washington sem ekki hefur veirð skipað í, eftir tilfærslu sendiherrans þaðan til Færeyja. Kóngurinn fengi þá að ljúka starfsævinni fyrir utan landsteinana sem honum er ekki lengur vært í, vegna þess að stefna hans og flokksins hans hefur skilað efnahagslegri hryðjuverku-árás gegn þjóðinni. Að sjálfsögðu verður svo eftirlaunafrumvarpið ekki afnumið á meðan því menn eins og Bjarni Benediktsson o.fl. skósveinar, munu tala um að það sé svo "erfitt og flókið" að taka af þessi ólög sem tók þrjá daga að koma á. Loks þegar gamli foringinn er orðinn sjötugur, þá mun hann taka út feita eftirlaunatékkann sinn ásamt öllum ritlaunum sínum, fara með töskurnar fullar af fé til fasteignasala, og kaupa sér búgarð í Texas til að eyða ævikvöldinu á.

Hver veit, kannski verður sá búgarður við hliðina á vini hans, Bush?


mbl.is Nýja Seðlabankastjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Opinn borgarafundur á NASA í kvöld kl. 20:00! Fjölmennum öll!

Vinir og velunnarar! Nú ríður á að láta þetta fundarboð berast í gegnum tölvupóst, bloggsíður og símskeyti. Hægt er að vista viðhengið og prenta það út.

Á fundinum verður m.a. rætt verður um ábyrgð og stöðu fjölmiðlanna. Í viðhengi er veggspjald fundarins sem er upplagt að festa á bloggsíður, MySpace, Facebook og áframsenda í tölvupósti. Við erum á www.borgarafundur.org.


OPINN BORGARAFUNDUR #3


á NASA við Austurvöll, mánudaginn 17. nóvember klukkan 20:00.

Í pallborði verða ritstjórar og fréttastjórar helstu fjölmiðla landsins, auk fulltrúa frá Blaðamannafélagi Íslands.

Hvetjum ríkisstjórn Íslands og alla alþingismenn til að mæta á svæðið, hlusta á sína kjósendur og vera með í umræðunni. Hvetjum ennfremur alla fjölmiðlamenn og konur til að mæta og taka þátt.
 
Til hvers?
- Til að hinn almenni borgari geti komið hugmyndum sínum og skoðunum á framfæri á óvissutímum.

- Öllum stjórnmálamönnum, seðlabankastjórum, bankastjórum, fréttastjórum og öðru fjölmiðlafólki er boðið að mæta til að svara spurningum Íslendinga, milliliðalaust.
 
- Til að almenningur fái skýr skilaboð og sé ekki hafður útundan í umræðunni.
 
- Til að leita spurninga og svara um efnahagsástandið.
 
Fyrirkomulag:

Fjórir frummælendur hefja umræðuna (5 mínútur hver):

Irma Erlingsdóttir, bókmenntafræðingur
Eggert Briem, stærðfræðingur
Björg Eva Erlendsdóttir, blaðamaður
Davíð A. Stefánsson, bókmenntafræðingur

Þegar frummælendur hafa lokið máli sínu er orðið gefið laust og hver sem vill fær tvær mínútur til að tjá sig úr sal eða spyrja þátttakendur í pallborði spurninga.
 
Fundarstjórn og tímavarsla verður sem fyrr tekin föstum tökum í nafni lýðræðislegrar umræðu.

Sýnum stuðning með þátttöku – spyrjum og heimtum svör – látum í okkur heyra.
 
Við ítrekum breyttan fundarstað. Hittumst á NASA kl. 20:00.
 
F.h. undirbúningshóps: Gunnar Sigurðsson leikstjóri (gus@mmedia.is - s: 897 7694) og Davíð A. Stefánsson bókmenntafræðingur (david@ljod.is - s: 864 7200).

 Bendi einnig á www.borgarafundur.org með upptökum frá síðustu fundum, myndum og spjalli.


Það sem FME og bankarnir segja ekki

Þegar ég var að velta fyrir mér sannleiksgildi þessarar sögu um að verið væri að fella niður skuldir starfsmanna bankans, þá var sett eftirfarandi athugasemd frá manni nokkrum að nafni Gestur H.:

"Úr því að þú vitnar í athugasemd mína verð ég að koma að smá komment. Það er ekki verið að "fella niður lán" í eiginlegum skilningi. Veit reyndar ekki hvað Bankamaður á við með að "losa ákveðinn hóp undan skuldbindingum" en ljótu dæmin sem ég hef fregnir af eru svona:

Maður kaupir hlutbréf með láni frá banka. Hlutabréfin verða verðlaus við bankahrunið en krafan frá Gamla Banka er enn til staðar. Hana þarf að greiða. Hann á (eða stofnar) einkahlutafélag og fær síðan bankann til að flytja lánið af sinni kennitölu yfir á ehf félagið sitt. Veðið fyrir láninu eru hlutabréfin, sem núna eru orðin verðlaus og eru líka færð yfir á ehf. Krafan gjaldfellur en einkahlutafélagið á engar eignir og getur ekki borgað. Það er lýst gjaldþrota, engar eignir í búinu og bankinn tapar kröfunni. Maðurinn sjálfur sleppur og borgar ekkert.

Þannig losnar lántakandinn undan því að borga. Ef þú eða ég færum og bæðum um að færa skuldir okkar yfir í ehf sem á engar eignir og engin veð væri hlegið að okkur og okkur vísað út. Það er með algjörum ólíkindum að menn geti, stöðu sinnar vegna, hagrætt málum með þessum hætti. Get ekki ímyndað mér að það sé löglegt. Vitneskju mína hef ég frá tveimur mönnum sem eru báðir "háttsettir í kerfinu" og er þessa stundina að leita eftir skriflegum staðfestingum þó ég dragi orð þeirra ekki í efa. Dæmin sem Bankamaður vísar í kunna að vera annars eðlis.

Sumir hafa notað sömu aðferð og bankastýran sem týndi bréfunum sínum ætlaði að gera, þ.e. að nota ehf í sinni eigu til að kaupa bréfin. Þeir geta látið félagið sitt fara á hausinn. Einhverjir gætu samt þurft að "bjarga" alvöru verðmætum úr þeim fyrst, en um það gilda líka reglur. Einnig gætu þeir fengið skattinn á sig ef þeir hafa notið sérkjara eða vaxtaleysis - þann þátt þekki ég ekki nógu vel. Væri fróðlegt ef einhver sem er snjall í skattareglum ehf-félaga veit hvort slík hlunnindi fylgi ekki eigandanum þó hann stofni ehf um hlutabréfakaupin sín. Hvað sem öðru líður þá er skítalykt af málinu. Og það eru hreint ekki litlar upphæðir sem hér um ræðir."

Í dag birtist frétt um að tveir starfsmenn Kaupþings hefðu stofnað ehf. rétt áður en bankinn var yfirtekinn og hafði annar þeirra náð að framkvæma þessa brellu. FME segir ekki aukatekið orð um þetta né heldur Kaupþing, að svona hafi þetta verið framkvæmt og í raun er það eina sem sagt er, að skuldirnar séu eign hins nýja banka. Annað er svo loðiið að mörgu leyti að það hálfa væri nóg.

Ég játa að að mér finnst þetta vera fyrirsláttur og það sé verið að reyna að kaupa sér tímabundin frið. Maður trúir ekki einu orði sem kemur frá bönkunum í dag, Seðlabanka, FME o.lf. vegna þess að þessir aðilar hafa logið svo mikið að okkur og eru þessa daganna að reyna að bjarga eigin rassi. Fjölmiðlar hafa sofið á vaktinni og eftir leynifund ritstjóranna og útvarpstjóra á maður erfitt með að trúa því sem kemur þaðan þessa daganna. Enda er ég kominn á þá niðurstaða að yfirmennirnir í bönkunum og FME verði að víkja strax frá störfum og fá traustverða menn til að rannsaka svona hluti. Persónulega sting ég upp á Vilhjálmi Bjarna, treysti honum til þess en aðra veit ég ekki um, enda ekki skrítið.

Allt traust er nefnilega farið.

 


mbl.is FME hefur ekki samþykkt niðurfellingu skulda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru bankarnir að fella niður lán eigin starfsmanna vegna hlutabréfakaupa?

Á blogg-síðu Egils Helgasonar, þá birtist eftirfarandi bréf frá bankamanni:

"Smá saga af því sem er að gerast innan bankanna þriggja núna - staðfest frá fyrstu hendi þar sem ég er einn af þeim sem þetta á við. Finnst siðferðisleg skylda mín að láta vita af þessu.

Mikill fjöldi starfsmanna hefur keypt hlutabréf gegn láni (og þá helst erlendu) á undanförnum árum og jafnvel stuttu fyrir hrunið. Innan bankanna er unnið að því hörðum höndum að leysa úr þessari flækju og losa fólk undan þessari skuldbindingu - ástæðan er m.a. sú að starfsmenn sem tapa öllu og verða gjaldþrota mega ekki vinna hjá bankanum.

Hvaða sanngirni er þetta - ef losa á ákveðinn hóp undan skuldbindingum, afhverju á það ekki við alla. Þetta þarf að fá á hreint frá Björgvini G., formönnum skilanefnda og/eða núverandi bankastjórum.

Annað að fjölmargir framkvæmdastjórar seldu eitthvað að bréfum vikuna fyrir hrunið - FME hlýtur að rannsaka það og bakfæra slík viðskipti, við treystum þeim til þess (eða ekki!)."

Í athugasemd stuttu á eftir segir Gestur H þetta:

"

Um fyrsta bréfið, frá bankamanni:
Ef þetta er rétt (sem ég veit því miður að er) þá er með þessu verið að rýra eignir sjóðanna. Gæðingarnir losa sig undan skuldbindinum og almenningur fær að borga brúsann.

Þetta er beint orsaka samhengi: Gæðingarnir sleppa - sjóðirnir rýrna - almenningur tapar.

Sjálfur mátti ég sætta mig við 31,2% rýrnun á mínum sparnaði, þetta yfirgengilega siðleysi verður að stoppa. Sumir af þessum gjörningum eru þess eðlis að þeir geta tæpast verið löglegir."

Þegar maður hugsar svo um hverjir eru líkelgastir til að hafa verið að kaupa hlutabréf með lánum innan bankanna, þá eru það helst yfirmenn og liðið sem hefur hagað sér mest af siðleysi og heimsku í innherjaviðskiptum í tengslum við ráðgjöf vegna ÍLS, IceSave o.fl. Allt þetta fólk er enn starfandi hjá bönkunum í toppstöðum. 

En það er ekki bara það, heldur er þetta gróf mismunu í garð annars fólks sem þeir mismuna með þessum hætti. Það er skýlaus krafa að þeir grei það sama þegar kemur að lánum viðskiptavia sinna og ég m.a.s. efast jafnvel um að þeir séu að haga sér samkvæmt lögum í þessu. Allavega á að hefjast tafarlasut rannsókn á þessu og stöðvun á þessum gjörningum, eða að það sama verði gert við aðra skuldara.

 

 

 


Hýenur hlutabréfamarkaðarins-Grein frá því í sumar og eftirleikur hennar

Þegar Exista stal af mér hlutabréfunum í Símanum síðastliðið sumar, þá ákvað ég í reiði minni að skrifa grein í Morgunblaðið, þar sem ég lýsti framferði þeirra sem því miður vakti ekki mikla athygli nema hjá vinnufélögum, vinum og ættingjum. Greinin sú fór ekki vel í þá Exista-menn og var einn þeirra sendur í það að svara mér. Svargreinin var annarsvegar hálfgerð lofgrein um hvað Exista væri stöndugt og æðislegt fyrirtæki og hvað þeir hefðu marga hluthafa. Reyndar var þetta með hluthafana ansi vafasamt þar sem margir þeirra höfðu eignast bréf í Exista þegar Kaupþing ákvað að sleppa því að greiða út arð í peningum, heldur lét hluthafa sína fá Exista-bréf, hvort sem var um að kenna blankheitum eða öðru.

Restin af greininni fór í hrokafullan skæting sem mannin fannst varla svaraverður, þar sem annarsvegar var gefið var í skyn að maður væri að ljúga og jafnvel eitthvað klikk fyrir að hafa viljað halda mínu hlutafé í Símanum. Að lokum klykkti manngreyið út með því að það væri nú aldrei hægt að gera öllum til geðs og að sjálfsögðu yrðu alltaf einhverjir óánægðir með það að vera rændir.....ég hef nú ekki séð enn fólk dansa um af gleði yfir því að vera rænt.

Svo leið sumarið, ég sendi inn fyrirspurn um gjörðir Exista og hvort þetta væri leyfilegt, til FME sem af sinni alkunnu vandvirkni og áhugamennsku um hagsmuni almennings, svaraði aldrei. Í framhaldi tóku miklar annir við, sem höfðu meiri forgang en að hjóla í Exista strax þó ég hugleiddi næstu skref. Ég hugsaði mér að e.t.v. ætti maður að reyna að hafa samband við e.t.v. Vilhjálm Bjarnason, þingmenn og jafnvel viðskiptaráðherra með beiðni um að hið minnsta yrði tekið á þessum málum svo stórfyrirtæki gætu ekki rænt pínulitla hluthafa í krafti valds síns. En svo dundi ósköpin á þjóðinniog í dag, segi ég fyrir mitt leyti að ég græt svo sem ekki peningin en maður vill að tekið sé á siðferðinnu og að svona geti ekki gerst. Reyndar vonast ég einnig til þess að Björgvin viðskiptaráðherra leyfi mér að fara inn í Exista, fremstan í fararbroddi víkingasveitar, þegar kemur að því að taka þurfi til á þeim bænum. Ég þarf nefnilega að svara svargreininni.

Hérna er þetta greinarkorn:

"Hýenur hlutabréfamarkaðrins

Þann 11. Júní síðastliðinn fékk ég símtal frá Kaupþing sem er í eigu Exista hf., þar sem mér var sagt það að Exista hf. hefði ákveðið að hrifsa af mér hlutabréfin sem ég átti í Símanum eða Skiptum eins og það kallast í dag, í skjóli þess að vera orðinn stærsti fanturinn á skólalóðinni, þ.e. stærsti hluthafinn. Þetta hafði þeim tekist eftir einstaklega vafasöm brögð við það að setja Skipti á markað og kippa í burtu örstuttu síðar án þess að gefa almenningi færi á að eignast hlut í fyrirtækinu líkt og var skilyrði einkavæðingar Símans. Í framhaldi af því þá gerði Exista hf. yfirtökutilboð sem ég ákvað að ganga ekki að enda hafði ég grun um að Exista hf. væri frekar vafasamt fyrirtæki siðferðislega og betra að halda mínum bréfum sem ég hafði átt og vildi eiga, frá því 2001 heldur en að láta hlunnfara sig. Því miður höfðu þeir þá lagaglufu sem kallast innlausn og gefur þeim svipuð réttindi til að ræna nesti smælingjanna líkt og sambærilegir fantar á skólalóðinni og sönnuðu fyrir mér grunsemdir mínar.

Í staðinn fyrir þetta ágæta nesti sem maður átti í formi hlutabréfanna í Skiptum, þá átti ég að fá hlutabréf í Exista að „sama andvirði“, sem myndu afhendast mánuði eftir ákvörðun Exista hf um innlausn án kosts um að geta losnað við þau. Ef þau „jöfnu“ skipti eru skoðuð nánar, þá má sjá þetta er álíka og að láta rífa af sér góða nautasteik og vera afhent vel úldið og maðkað hrossakjöt í staðinn og fullyrt að það sé sami hluturinn. Exista hf. ákvað nefnilega hvað hlutabréfin í sér og Skiptum væru mikils virði, verðlagði eigin bréf á genginu 10,1 og gáfu svo út hlutabréf í sjálfu sér til að standa undir þessu. Þegar ég fékk vitneskju um þetta þá stóð raungengi Exista í 8,85 og hafði einmitt lækkað frá verðlagningu Exista sem gilti. Í dag þegar þetta er skrifað, stendur gengið í 7,60 og má alveg reikna með að það verði komið lægra þegar ég fæ loksins hlutabréfin í þessu fyrirtækii. Ef við setjum þetta upp í krónutölu þá er e.t.v. auðveldara að gera sér grein fyrir tapinu og miðum við gengi hlutabréfanna x 10 þúsund hlutir.

2. júní þegar stjórnin ákveður að gefa út hlutabréf : 101.000 kr.

11. júní þegar ég fæ vitneskju um þetta: 88.500 kr.

28. júní þegar greinin er skrifuð: 76.000 kr.

2. júlí þegar loksins bréfin í Exista eru afhent mér: 70.000 kr. eða lægra?

Í lögum er kveðið á að þegar innleyst eru bréf í skjóli fantaskaps stærsta hluthafans, þá beri að greiða fyrir það með raunverulegu andvirði. Eins og sjá má þá er það ekki gert, heldur er verið að féfletta mig ásamt öðrum sem í þessu lenda, auk þeirra sem gengu að yfirtökutilboði Exista hf. með því að afhenda mér ekki raunverulegt andvirði í peningum. Í staðinn fær maður lélegan og illa lyktandi skeinipappír á yfirverði sem er ekki í neinu samræmi við raunveruleikann og ekkert reynt að bæta það tap sem verður vegna biðtímans. Við það bætist að ég hef engan áhuga á að eiga hlut í fyrirtæki þar sem siðlaust fólk ræður ríkjum . Að mínu mati er þetta því ekki annað en hreinn og klár þjófnaður þó löglegur sé, sérstaklega með tilliti til þess að Exista gefur ekki færi á að fá andvirðið í peningum, heldur fær einhliða að setja alla skilmála sjálft og ræður því algjörlega hvað það lætur fólk fá í staðinn fyrir eigur þess. Ég veit allavega að ef ég myndi haga mér svipað sem einstaklingur þá sæti ég annað hvort inni eða lögreglan væri að vara við þessu sem nýju formi af Nígeríu-svindli.
Í augum leikmanns eins og mér, lítur þetta út sem að hafi verið ætlunin allan tímann hjá því kaldrifjaða og samviskulausa fólki sem fer með stjórnun hjá Exista. Þeir ná þarna að sleppa við að greiða um 25% kaupverðs í Skiptum og munu svo örugglega í framhaldi kaupa hlutabréfin af fólki sem þeir hafa þannig prettað, á spottprísi. Þegar þeir hafa svo náð því til baka sem þeir gáfu út til að „fjármagna“ kaupin í Skiptum, verður svo bréfunum ýtt upp á ný, þeir koma út í gróða og hafa náð að sölsa undir sig stöndugt fyrirtæki með siðlausum klækjum og bellibrögðum á kostnað annara. Þetta er ekki ólíklegt því annað eins hefur gerst og viðskiptasiðferðið frekar dapurt meðal fjárfesta hér á landi.

Að lokum fær þetta mann til þess að hugsa um hvort það sé ekki þörf á því að viðskiptaráðherra beiti sér fyrir lagabreytingum sem geri það að verkum að litlir hluthafar njóti einhverjar verndar frá þeim stóru sem haga sér svipað og Exista o.fl. slíkir. Hér á landi virðist einnig vanta lög til að bæta viðskiptalegt siðferði og vernda almenning fyrir þeim rándýrum sem leika lausum hala í viðskiptalífinu og rífa fólk á hol fjárhagslega. Því er ekki skrítið að fólk eigi létt með að trúa því að bankarnir standi fyrir gengisfellingu krónunnar, sérstaklega þegar viðskiptalegt siðleysii virðist ríkja meðal fagfjárfesta . Ég hvet að lokum fólk til að forða sér frá því að láta peninga sína í fyrirtæki á hlutabréfamarkaði eða sjóði þar sem Exista og slík fyrirtæki fá að leika sér með, því það er öruggt að slíkar hýenur hlutabréfamarkaðsins munu ganga í burtu hlæjandi, með annara manna fé í sínum vösum.  "


Stjórnarmaðurinn Illugi Gunnarsson og Sjóður 9

"Einn stjórnarmanna í sjóðum Glitnis, þar á meðal Sjóði 9, sem gaf sjóðsfélögum rangar upplýsingar um samsetningu sjóðsins, var og er þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi aðstoðarmaður forsætisráðherra, sem nú er seðlabankastjóri. Hvað var hann að gera inni á gafli hjá Glitni?"

Ég hnaut um þessa setningu þegar ég las grein Þorvalds Gylfasonar í morgun þar sem fettað var fingur út í óeðlileg tengsl í fjármálageiranum m.a.Fyrsta nafnið sem flaug í hausinn við lýsinguna á þingmanninum, var Illugi Gunnarsson og þegar nánar var leitað, þá kom í ljós að það var rétt.

Nú veltir maður fyrir sér ábyrgð Illuga sem stjórnarmanns í Glitni sjóðum hf og hvaða vitneskju og ákvarðanir hann tók, sérstaklegaa með tilliiti til Sjóðs 9. Sjóður 9 var sá peningasjóður þar sem ekki stóð steinn yfir steini þegar kom að samsetningu bréfa þar og ekki snifsi af ríkisskuldabréfum sem átti að vera kjölfestan þar. Þegar viðbættist hin ranga upplýsingagjöf þá var þetta farið að daðra við að vera fjársvikamylla og hið minnnsta vörusvik.

Nú veit ég ekki hvort ég leggi réttan skilning í hlutverk stjórnar og stjórnarmanna, en minn skilningur er sá að henni sé m.a. ætlað ákveðið eftirlitshlutverk með stefnu og markmiðum fyrirtækja ásamt stefnumótun. Ef svo er þá hefur Illugi klárlega brugðist skyldum sínum þarna, og stóra spurningin er: hver er ábyrgð og vitneskja hans, og mun hann axla ábyrgð sem fulltrúi "nýja Íslands" eða vonast eftir gleymsku kjósenda líkt og fulltrúar "gamla Íslands" hafa gert hingað til?

Því miður er ég sannfærður um að "gamla 'Island" ráði för. Ekkert breytist né mun breytast

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

AK-72

Höfundur

AK-72
AK-72
Með óþrjótandi áhuga á kvikmyndum, sögu og stjórnmálum.Telur sig hafa fullt frelsi til að hrósa og gagnrýna hvern sem er og hvenær sem er.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...1212_913482
  • ...ner1_568492
  • ...rad-banner1
  • Screenshot

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 32
  • Frá upphafi: 123145

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 32
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband