Fordómar, Íslendingar og múslimar

Fyrir ekki svo löngu síðan, þá sagði systir min mér sögu úr starfi sínu sem kennari af starfsfélaga sínum sem hafði starfað í ónefndum skóla. Eitt af fögunum sem sá kenndi börnum í yngri kantinum, var trúarbragðafræði. Einn daginn þegar nálgaðist að fjalla um Íslam, þá komu boð heiman frá foreldrum eins drengsins. Foreldrarnir heimtuðu að honum yrði vikið úr tíma á meðan fræðsla um Íslam færi fram því þau vildu ekki að krakkinn lærðii um djöfullega mannvonskutrú eða hvernig sem það var aftur orðað af hálfu foreldranna. Boðað var til fundar við foreldranna af hálfu skólastjóra og kennarans til að reyna að tala við þá um að þetta væri eingöngu fræðsla um aðalatriði allrar trúarbragða í heiminum en ekki trúboð og bent á að þetta væri smáhluti af námsefninu sem kæmi til prófs. Hvorki gekk né rak í rökræðum við foreldranna og var drengnum vikið úr tíma að þeirra kröfu og gerður hálfgerðu viðrini í augum skólafélaganna fyrir að eiga svona "klikk" foreldra. En ekki bitnaði þetta bara á drengnum, heldur einnig á tveimur skólasystrum og leikfélögum hans, þær voru nefnilega múslimar og þarna fengu þær allt í einu að heyra að þær væru eitthvað öðruvísi og vondar manneskjur, án þess að hafa hugmynd hvers vegna.

Þessi saga flaug upp í hausinn á mér þegar ég las komment nýverið sem settur var við færslu hjá bloggvini mínum. Þar tjáði íslensk kona sem er múslimi um fyrir það fyrsta hvað fólk væri fáfrætt um íslam, bað það að hætta að alhæfa og hætta að segja fólki hverju því trúir, sem er í raun skoðun þess sem skrifar en ekki þessarar konu til að mynda. Að sjálfsögðu tók sig til aðili og fór að reyna að segja henni að hennar trú væri vond en ekki er ætlun hjá mér að fara út í þá sálma heldur annað sem mér þótti umhugsunarvert.

Í fyrsta innleggi þessarar konu, þá lauk hún innleggi sínu á þessum nótum::

"Friður sé með ykkur og megi aukin manngæska ríkja hér á landi.

P.S. Ég kem ekki fram undir nafni af ótta við samlanda mína. Þannig er Ísland orðið."

Ég veit ekki með aðra en mér finnst orðið það frekar óhuggulegt að fordómar séu orðnir svo miklir að þeir í garð múslima hér á landi, að þeir óttist að koma fram undir nafni vegna hræðslu við samborgara sína. Manni hefur fundist nóg um stanslausan hatursáróður sem er básúnað á mörgum bloggum, spjallsíðum og vefjum þar sem básúnað er af fylgismönnum öfga-kristinna og öfgahægrimanna, að allir múslimar séu illskan uppmáluð. Því miður virðist þetta vera virka sem og annars staðar í Evrópu þar sem uppgangur hægri-öfgamanna sem eru af sama meiði og öfgaklerkarnir í hinum íslamska heimi eru. Á Ítalíu þykir ástandið farið að minna á uppgang fasista Mussolinis þar sem ofsóknir af hálfu stjórnmálaafla og fylgismanna þeirra sem tilheyra fasista-öflunum, eru óhugnanlega líkar ofsóknum sömu afla gegn gyðingum fyrir stríð. 

Hér á landi er þó ekki ástandið orðið svona en það líður varla sá dagur að maður sér ekki skrifað hér á bloggum og spjallvefjum, hvað múslimar eru vondir og hjá mörgum er enginn greinarmunur gerður á öfgamönnum og venjulegu trúaðu fólki. Stanslaust er hamrað á því til að óvinagera fólk og reynt að draga upp sem djöfullegasta mynd af öllum þeim sem iðka þá trú. Frasar á borð við að þeir geti ekki aðlagast samfélögum, haldi hópinn, meðhöndli allar konur illa, séu villimenn, glæpamenn morðingjar og reynt að tengja trú þeirra við barnaníð. Því miður hljómar þetta allt saman kunnuglegt í eyrum áhugamanna um seinni heimstyrjöldina og Helförina, því þetta eru nákvæmlega sömu frasar sem nýttir eru til að kynda upp hatur og spilað á ótta fólks, og nasistar beittu gegn Gyðingum en þar var einmitt einnig vitnað oft á tíðum í Talmudinn um illsku gyðiniga þegar á þurfti. Sami áróður glumdi m.a.s. hér á landi þegar Morgunblaðið og Vísir hömuðust gegn gyðingum og bendi ég fólki að skoða það nánar úr þessum blöðum til samanburðar við þær áróðurstrumbur sem barið er á nú gegn múslimum. 

En hvað veldur þessum fordómum hér á landi? Hverjar eru ástæðurnar? Ég hef verið aðeins að velta því fyrir mér því ekki erum við þjóð sem múslimar hafa verið til vandræða né staðið í illdeilum við. Þvert ámóti höfum við frekar kynt undir illindi í þeirra garð með stuðningi okkar við ólöglega innrásarstríðð í Írak sem er líklegast eitt mesta óþverraverk þáverandi valdhafa hér á landi og þó lengra væri litið eða allt til áranna fyrir seinni heimstyrjöld þar sem íslensk stjórnvöld vísuðu gyðingum frá landinu í opinn dauðan í Þýskalandi, á sama tíma og foringjum nasista var haldið heimboð. En já, að þessum upphafsspurningum, hver ætli ástæðan sé? Mögulega er það einhliða, gagnrýnislaus og neikvæður fréttaflutningur þar sem æsifréttamennskan ræður ríkjum og fyrirsagnirnar festast í kolli hins venjulega sleggjudæmandi Íslendings sem gefur sér lítinn tíma til þess að kynna sér málin. Fréttir eru nefnilega skyndibiti í dag, fyrirsagnir og rétt svo rennt yfir mál og ekki gefin nægileg sýn inn í atburði né frekari vitneskja boðin fram frá ólíkum sjónarmiðum þar á bæ. Stórmál kláruð á 3-4 mínútum og með heppni þá mæta tveir spekingar til að þjarka í Kastljósi í 10 mínútur þar til snúið er að hljómsveitarkynningu

Annar möguleiki er sá að á þessum tímum þá hefur á margan hátt fáfræði aukist að manni finnstog gagnrýnin hugsun hefur verið hægt og sígandi farið halloka þegar kemur að því að kynna sér hlutina. Aróður er álitinn trúverðug heimild líkt og sjá mátti með áróðursmyndina FITNA sem var kynnt sem "heimildarmynd" líkt og Triumph of the will hennar Leni Riefenstahl forðum. Kannski tengist þetta menntun, að hún sé svo léleg í dag að fólk kunni ekki lengur að vindsa úr ótrúverðugum heimildum þegar kemur að fjölmiðlum og þeirri ofgnótt af upplýsingum sem hægt er að nálgast á internetinu og eru margar hverjar einhliða eða vafasamar. Maður hefur m.a.s. séð vitnað til heimasíðna "skinheads" samtaka sem"hiemilda" í rökræðum og þá finnst manni það illa komið fyrir fólki ef slíkt er tekið trúverðugt.

Þriðji möguleikinn sem mér dettur í hug að tengist þessu, er þessi innbyggði ótti Íslendinga og örugglega fleiri þjóða, við allt hið óþekkta. Við bjuggum í einangrun til fjölda ára þar sem einu útlendingarnir sem oft sáust voru danskir kaupmenn sem seldu okkur maðkétið mjöl og svo nokkrir Fransmenn sem voru jafnvel drepnir ef þeir ösnuðust til að stranda á skeri af hræddum mug(ef sú saga er rétt) við útlendingana. Síðustu öld náðum við að komast út úr torfkofunum en að sama skapi þá vildum við sem þjóð ekki sjá þá sem voru öðruvísi, svetringjar voru ekki æskilegir á Keflavíkurflugvöll samkvæmt beiðni stjórnvalda og Kaninn var að stela konunum okkar samkvæmt ofurhræddum karlmennum með minnimáttarkennd og uppfullir ótta. Í gegnum tíiðna hefur svo meðal-Íslendingur alltaf þurft að finna sér eitthvað til að óttast í formi útlendings, allt frá Kananum til Asíbúa og núna í dag eru það múslimar og innflytjendur.

Að lokum ætla ég að ljúka þessum hugleiðngum í bili með því að segja eitt. Einn aðili sem gengið hefur um bloggsíður og talað um vonsku Kóransins og múslima, hefur spurt m.a. hvort ég hafi lesið Kóraninn. Nei, það hef ég ekki gert nema brot hér og þar og ekki hef ég heldur lesið Biblíuna alla né Talmúdinn eða önnur helgirit að öllu og er trúlaus í dag. Aftur á móti geri ég mér fullkomna grein fyrir einu, að allan texta er hægt að taka úr samhengi, allan texta er hægt að túlka að vild og allan texta er hægt að nota til að réttlæta bæði hið góða og hið illa.

Svo er það hugarfar viðkomandi einstaklings sem skiptir máli því mikill meirihluti trúaðs fólks, óháð trúarbrögðum, er að tilbiðja hið góða og finna þar frið með sjalfu sér til að rækta kærleik, hvort sem það eru kristnir, múslimar, hindúar, Vottar Jehóva, búddistar o.fl. Þeir sem við eigum að berjast á móti eru öfgamennirnir hvort sem þeir eru að misnota trúna til að réttlæta óhæfuverk eða öfgamenn sem reyna að kynda undir hatur á minnihlutahópum með því að spila á ótta fólks og vanþekkingu og reyna að búa til sundrungu og hatur sem bitnar yfirleitt á, líkt og í þessari sögu minni fyrst, á þeim sem eiga það ekki skilið: sakleysingum.

Frábið mér svo alla kommenta með tilvitnunum í trúarrit þar sem verið er að beita þessu áróðurstrixi sem ég minntist á ,með að taka orð úr trúarritum til að demonisera alla þá sem tilheyra þeim.


Bloggfærslur 1. júní 2008

Um bloggið

AK-72

Höfundur

AK-72
AK-72
Með óþrjótandi áhuga á kvikmyndum, sögu og stjórnmálum.Telur sig hafa fullt frelsi til að hrósa og gagnrýna hvern sem er og hvenær sem er.
Okt. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...1212_913482
  • ...ner1_568492
  • ...rad-banner1
  • Screenshot

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.10.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband