Er hið Nýja Ísland andvana fætt?

Þegar búsáhaldabyltingunni lauk, þá leið manni eins og uppreisnarmönnum í lok Stjörnustríðs. Helstirni ríkistjórnarsamstarfsins hafið sprungið, Svarthöfðar Sjálfstæðisflokksins þeyttust á brott án nokkurrar ábyrgðar á hermdarverkum sínum á borð við IceSave eða mútugreiðslna vegna einkavinavæðingar á Hitaveitu Suðurnesja hvað þá bankanna. Baráttan stóð þó áfram um tíma þar sem Keisarinn sjálfur sat sem fastast í Seðlabankanum en varð þó að leggja á undanhald síðar, eftir hetjulega baráttu þeirra sem sáu að sér innan þings. Reyndar tókst þó öflum Keisarans þar á bæ að tefja nóg til að undanhaldið yrði sem sársaukafyllst fyrir þjóðina og náðu svo örlitlum hefndum með því að sjá til þess að þjóðin fengi ekki skýrt umboð til þess að búa til nýja samfélagssátt, hvað þá að auðlindir yrðu í þjóðareign.

Fyrsti sigurinn var í höfn en keisarinn og náhirð hans voru kænir líkt og er valdsjúkra manna háttur, háttur þeirra sem hafa blindast af valdahrokanum, siðblindunni og græðginni sem Fjórða Ríki Frjálshyggjunnar taldi sem dyggðir á meðan heiðarleiki, samviska og réttlæti öllum til handa voru lestir og annarlegar hvatir, sem ætti að berja út úr fólki með misnotkun valds og stjórnsýslu. Keisarinn og hirð hans nýtti tímann nefnilega vel og virðist hafa náð vopnum sínum á ný og stefnir að því að gera allt sem það getur til að ganga milli bols og höfuðs á fylgismönnum hins Nýja Íslands því samfélag með réttlæti, gagnsæi og von er eitthvað sem er andstætt allri hugmyndafræði Keisarans, náhirðar og yfirstéttar kvótagreifa, auðmanna, Viðskiptaráðs og bankaþrjóta sem Flokkinn eina dýrkar og verndar.

Einhvern veginn lítur sviðið út svona, fyrsta stóra orrustan um Nýtt 'Island er að tapast á meðan stuttbuxnastormsveitir og skilanefndir Svarthöfðanna, fara hamförum í að berja niður alla mótstöðu gegn Gamla, spillta Íslandi. Afskriftir til handa kvótagreifum og auðmönnum eru framkvæmdar með kennitöluflakki og velvild bankanna á meðan Intrum og innheimtudeildir bankanna ganga fram líkt og dauðasveitir gegn almenningi sem hefur orðið fyrir gríðarlegri kjaraskerðingu og eignamissi, þökk sé sömu banka- og auðmönnum, mönnum sem ganga í burtu frá milljarða skuldum og fá samt að kaupa sér 700 þúsund kr. sturtuhausa eins og ekkert sé. Bankaleynd er beitt eins og bjúgsverði gegn öllum þeim sem vilja upplýsa glæpi og spillingu og lítið sem ekkert er gert til þess að ná fram réttlæti gegn þeim sem hrunið orsökuðu, hvort sem það eru auðmenn, bankamenn eða yfir-Svarthöfði náhirðarinnar sem siðblindur færði okkur Ísþrælkun með illyrmislegt glott á vör og slaufu um hálsinn.

Því miður er það svo að þegar maður lítur á þetta og fleiri þætti á borð við fáar, ómarkvissar aðgerðir í þágu heimilanna og varla má minnast á afnám verðtryggingu, ekkert er gert til að rannsaka mútugreiðslur til Sjálfstæðisflokksins, orku-auðlindirnar gefnar til sænsks skúffufyrirtækis sem er í eigu dularfulls og vafasams fyrirtækis í Kanada vegna þess að gerspilltir gæðingar hrunflokkana hagnast á því, útrásarvíkingar á borð við Jón Ásgeir og Björgólf Thor eru stilkfríir  þegar kemur að yfirheyrslum, hvað þá að eignir þeirra og annarra slíkra séu frystar á meðan sólbrúnkustjarna frjálshyggjuarms Samfylkingarinnar tilkynnir að gengið verði fram af fullkomnu miskunnarleysi og hörku gegn námsmönnum og bótaþegum sem grunaðir eru um svindl á kerfinu. 

Einhvernvegin þá færist yfir mann svartnættið á ný bara þegar litið er á þetta en einnig á það hvernig samfélagið er að þróast á ný yfir í sama Gamla(Íslands) farið. Stjórnmálamenn, spunaliðar þeirra og flokksdindlar hafa fundið öryggi hornatuð landans og dramb síns á ný og með þeirri vissu um að samfélagið sé að verða rólegt og tilbúið undir þrældóm lénsveldis auðmanna náhirðar, valdaætta, S-hóps, úlfa og svína, fara þeir fram og segja með sama fyrirlitningartón og gjarn var hjá talsmönnum Fjórða Ríkis Frjálshyggjunnar, að við sem tilheyrum þeim undirmálslýð sem þrælar fyrir þeirra gnægtum, að almenningur eigi að halda kjafti, borga bara og láta sér nægja að það verður birt skýrsla fyrsta nóvember. Bannað sé að spyrja spurninga, velta upp steinum, skoða ormagryfjur og vera til vandræða fyrir yfirstéttina sem hefur Alþingi í vasa sínum, í gegnum prófkjör og  kosningasjóði, því þessi skýrsla inniheldur hina fullkomnu synda-aflausn til handa stjórnmálamönnum, ráðherrum og ráðaneytisstjóra sem seldi í Landsbankanum kortér í hrun, þetta verður aðeins símadömu á samskiptasviði SPRON að kenna miðað við fullvissuna sem skín frá flokksdindlum sem fær mann til að halda að niðurstöðurnar hafi verið ákveðnar, aðeins átti eftir að semja umgjörðina um þær.

Fjölmiðlarnir taka svo undir þennan söng, eyða mestu púðri í innihaldsrýrar dægurfréttir á borð við ástarmál Paris Hilton og Ronaldo eða sokkabuxur Þóru Tómasar, meðan umfjöllun um mikilvæg mál fer fyrir ofan garð og neðan, blaður stjórnmálamanna í Kastljósi er í sama gír og áður, ekkert er stuggað lengur við þeim sem bannað var að styggja fyrir hrun heldur herða þeir tökin enn harðar á fjölmiðlum sínum, reyna að koma a stað þeirri ríkisskoðun að landinn á að þrælka en ekki hugsa með álitsgjöfum sem allir segja það sama í kór:"Við eigum ekki að vera vond við útrásarvíkinganna, þeir voru svo voða, voða góðir við okkur" milli þess sem þeir tala um að allir eigi að vera rólegir, skýrslan eina sé málið..Sumir ganga jafnvel svo langt að reka þá sem hafa skoðanir ekki þeim að skapi eða flækjast fyrir náhirð Keisarans og veldi spillingarinnar sem um frjáslhyggjunna sveipast. Þá blaðamenn sem ekki er hægt að reka er svo ógnað með kærum í gegnum Fjármálaeftirlitið sem svaf viljandi á verðinum og leit undan geispandi þegar til þurfti, enda var því eingöngu ætlað að þjóna þeim sem markaðnum stjórnuðu, ekki þeim sem markaðurinn græddi á.

Og hvernig er umræðan? Hún er að færast í sömu skotgrafirnar, sömu flokkadrættina og pissukeppnina þar sem foringja- og flokksdýrkunin er að kaffæra öll rök sem gera það að verkum að það þykir í góðu lagi t.d. að gefa auðlindir þjóðarinar, auðlindirnar sem framtíð okkar byggist á því það sé fótboltaliðið sem menn halda með, sem gerir það. Hvað er að slíku fólki? Er því sama um samfélagið?

Og mennirnir sem ættu að halda sig heima fyrir og halda kjafti vegna skammar, geta stormað óhikað nú í fjölmiðla án þess að fá óþægilegar spurningar, líkt og sölumaður IceSave sem mætir eins og fíkniefnasali í fjölmiðla og grenjar undan því að verið sé að bjarga fíklunum úr bráðri lífshættu vegna kattarskítsblandaða heróinsins sem hann seldi þeim. Ætti þetta fólk ekki að skammast sín, er illfyglum Bláu handarinnar svo gersamlega sneydd samviska og iðrun, að þeir telja sig hafa efni á þvi að rífa kjaft eftir það sem þeir gerðu okkur? Var siðblinda skömmtuð genetískt með aðstoð Kára í þennan kór, fyrir ríkisábyrgð á Decode?

Við bætist að gamla ömurlega pissuröflkeppnin um Jón Ásgeir vs. Davíð er að hefjast á ný, nú þegar landanum hefði átt að vera flestum ljóst að báðir aðilar eru í raun barátta eins Frankenstein-skrímslis frjálshyggjunnar sem var ekki nógu hlýðinn skapara sínum Dr. D.O. Frankenstein en sá hinn sami skapaði í veruleikafirru sinni, illvígan her stuttbuxnaskrímsla og sleppti þeim eftirlitslausum í frjálshyggjutilraunarstofu sinni til að sjá hversu fljót þau yrðu að rífa tilraunadýrin sem íslenskur almenningur kallast, á hol. Erfitt er að sjá hvor er verri því þeir eru báðir stikufríir hrunvaldar sem iðrast einskins og svífast einskins í sínum Freddy vs. Jason-slag, en við sem búum hér í þessu landi þurfum að þjást og blæða  fyrir afleiðingar gjörða beggja(og fleiri slíkra), jafnvel lengur en börn og barnabörn okkar lifa.

davi_sopi_gunnar_fbl_081212_913482.jpg

Ég er svartsýnn já, ég er það því samfélagið og atburðir síðustu vikna og mánuða er ekki að gefa manni von um að nokkuð breytist hér frekar en áður. Fátt eitt gefur manni von hér á haustmánuðum og óútprentuð skýrsla frá rannsóknanefnd sem maður hefur vissar efasemdir um vegna orðsins "Alþingis" sem hengt er við nafngift hennar, mun ekki varla breyta neinu. Hví segi ég það? Því viðbrögð stjórnmálastéttarinnar eru mjög fyrirsjáanleg og keimlík viðbrögðum yfirstéttar hrunvalda. Enginn verður dreginn til ábyrgðar úr stjórnsýslu, engir þingmenn eða ráðherrar þurfa að gangast undir landsdóm, enginn þarf að sæta ákærum fyrir landráð eða aðra þá glæpi/vísvítandi gáleysi sem þeir frömdu, samtryggingin er nefnilega ofar réttlætinu og ofar þjóðinni enda gætu upplýsingar um sérstaka fyrirgreiðslu stjórnmálastéttarinnar í Landsbankanum annars farið á stjá. Þó má reikna með að fundinn verði millistjórnandi eða skúringakerling út í horni til að kenna um hrunið. Enda er alltaf slíkum peðum er vel hægt að fórna í þeirri von um að skríllinn friðist svo auðmennirnir og stjórnmálaflokkarnir fái að halda áfram með sitt klíkræði sem aðalgrunnstoð samfélagsins um ókomna tíð.

Hvar er réttlætið í þessu? Hvar er vonin? Hvar er varðstaðan um að hið Fjórða Ríki Frjálshyggjunnar fái ekki að halda áfram ótrautt eins og ekkert hafi gerst? Hvar er hið Nýja Ísland sem okkur var lofað? Hvar er nýr samfélagssáttmáli og stjórnlagaþingið sem talað var um en hefur dottið út af borðinu að því virðist, kæft með kodda þingsins í von um að enginn muni eftir því í haust?

Því er ekki nema von að maður velti fyrir sér hvort baráttan fyrir Nýju Íslandi sé ekki andvana fædd, sérstaklega þar sem sumir baráttumannanna hafa fallið fyrir fagurgala hins Gamla Íslands og látið lýðskrum Keisarans og náhirðar hans afvegaleiða sig í baráttunni og barið á potta í takt við spunaskrum InDefence fyrir hrunflokkana tvo. Sum börn búsáhaldabyltingarinnar gleymdu meira að segja hugsjónunum, átu byltinguna og lögðust í hjaðningavíg sín á milli, stuttbuxnastormsveitum og Svarthöfðum stjórnmála og fjölmiðla, til mikillar skemmtunar og ánægju.

Maður veltir því einnig fyrir sér hvort þetta sé ekki töpuð orrusta(jafnvel stríðið allt) líkt og í fimmta kafla Stjörnustríðs: Keisaraveldið snýr aftur, og hvort það sé ekki best fyrir sem flesta að yfirgefa þá ísplánetu sem hér mun fyrirfinnast í  óbyggilegu samfélagi óréttlætis, spillingar og lénsskipulags náhirðarinnar, í þeirri von um að betri framtíð finnist í fjarlægari löndum, þar sem réttlæti er ekki eitthvað orð án merkingar, von er eitthvað sem þess er virði að lifa fyrir og samfélagssáttmáli er ekki eitthvað sem skeint er sér með á klósetti Gamla Íslands sem staðsett er í Valhöll.

En hver veit, kannski er svartsýnin of mikil hjá mér og ég er að líta á þetta vitlaust í myndlíkingu minni. Kannski á ég að vera bjartsýnn og líta á þetta sem erfiða baráttu hóps bandamanna við að halda víginu í miðri Ardennusókn örvæntingarfullra herja Fjórða Ríkis Frjálshyggjunnar, í þeirri von um að halda út þar til skriðdrekar hins Nýja Íslands undir forystu réttlætisgyðjunnar, komi þjóðinni til bjargar í þessari lokasókn náhirðarinnar gegn bjartari framtíð hennar.

Maður spyr sig.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Því miður er það svo að þegar maður lítur á þetta og fleiri þætti á borð við fáar, ómarkvissar aðgerðir í þágu heimilanna og varla má minnast á afnám verðtryggingu, ekkert er gert til að rannsaka mútugreiðslur til Sjálfstæðisflokksins,

Ertu viss um að mútugreiðslurnar hafi bara verið til Sjálfstæðisflokksins?  ég er ekki viss.  ég held að samtrygging fjórflokksins gagnvart öllum nýjum framboðum sé algjör, og allt gert til að drepa niður hverja þá sem reyna að komast fram.  Það hefur sýnt sig. 

Annars góð grein hjá þér eins og endranær.  Takk fyrir hana.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.9.2009 kl. 17:58

2 Smámynd: AK-72

Það er örugglega einhverjir fleiri en sá flokkur sem þáði fé undir borðið en þetta er það eina sem er "solid" og við getum bent á að ekkert er gert til að rannsaka það. Ég held þó að það tíðkist meir samt að hlutir séu ekki gerðir hér á landi nema að tryggt sé að hollir flokksmenn fái hlut af ágóðanum frekar en að þeim sé greitt undir borðið, í gegnum klíkræðið sem hér ríkir.

AK-72, 22.9.2009 kl. 18:03

3 identicon

Allt eins og talað út úr mínu hjarta !  Kærar þakkir fyrir lesninguna, en það er erfitt að koma öllu klúðrinu og allri spillingunni í eina litla grein. Til dæmis vantaði að minnast á landráðin með veðsetningu kvótans. En listinn er víst endalaus !

Með kærri kveðju og takk aftur fyrir þessar góðu athugasemdir.

Margrét (IP-tala skráð) 22.9.2009 kl. 20:42

4 Smámynd: Steingrímur Helgason

Flott færzla, ert á réttunni að mínu mati, & Ást. Cecil naglhittir líka í hennar athugazemd.

Steingrímur Helgason, 22.9.2009 kl. 20:48

5 identicon

Virkilega góð grein, takk. Ég fylgist nokkuð vel með "ástandinu" utanfrá og met þínar greinar mikils.

Eflaust hafa margir tekið eftir einni ákveðinni breytingu í "byltingunni", samt vil ég endilega koma mínum hugsunum á framfæri:

Búsáhaldabyltingin var allt of fámenn í byrjun, þar sem fólk hreinlega vildi ekki skilja hvað væri að gerast.

Búsáhaldabyltingin varð einhverntíman stærri, stór varð hún samt aldrei. (Íslendingar eru ekki vanir svona uppákomum, voru orðnir svoldið þægilegir fyrir framan flatskjáinn og Playstation, sem og "Aldrei myndi Biggi frændi gera svona lagað"). Kannski var byltingin stór, á íslenskan mælikvarða?. Byltingin virkaði allavega, sem betur fer.

Þá kom Icesafe: Ný mótmæli! Hver kom þeim á? Ekki voru það búsáhaldahetjurnar. Allt í einu getur maður unnið sér inn eina milljón fyrir háværasta öskrið, hljóðið, blístrið osfrv. Halló???!!!

Núna eru allt í einu þeir flokksbundnu meðalríku byrjaðir að skipuleggja mótmæli?! Og öskra eftir stuðningi allrar þjóðarinnar. Allt í einu voru vopn heiðarlegu baráttumanna búsáhaldarbyltingarinnar tekin af þeim. Allt í einu þurfti maður að velja á milli mótmæla. Mótmæli þeirra flokksbundnu fengu ótrúlega góða kynningu (góð sambönd við fjölmiðla), þeir sem höfðu virkilega ástæðu til að mótmæla, þ.e. ca. 90% íslensku þjóðarinnar, þurftu allt í einu að mæta á þessi vel skipulögðu mótmæli...

Ég vona að alvöru baráttumenn og -konur Íslands láti ekki stjórna sér í sínum mótmælum. Ekki láta óvininn ákveða hvenær og hvar eigi að mótmæla. Þá er baráttan nú þegar töpuð.

áhugasamur (IP-tala skráð) 22.9.2009 kl. 21:04

6 identicon

Þó ég deili ekki með þér svartsýninni Agnar, þá skil ég þig vel. Nýja Ísland hefur ekki verið í umræðunni síðan fyrir kosningar, það er miður. Andspyrnuhreyfingin er sundruð, telja sína menn við stjórnvölinn. Á meðan stal náhirðin, eins og þú kallar þá, byltingunni. Þeirra eina markmið er að komast aftur til valda til að bjarga andliti flokksins og mér sýnist á öllu það vera að takast. Það verða engar stjórnarskrárbreytingar á meðan flokkurinn er í 30% eða yfir því þá þarf að kjósa og eina hreina vinstri stjórn sögunar vill ekki láta það yfir sig ganga. Nýja Ísland er því í gíslingu góðborgaranna sem vilja flokkinn sinn aftur við völd. Þetta er hálfgerð pattstaða. Blóðugi bolludagurinn nálgast óðum félagi AK.

Herbert Sveinbjörnsson (IP-tala skráð) 23.9.2009 kl. 00:17

7 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Hannes á horninu og Davíð Oddsson stálu BSRB og prentarabyltingunni miklu 1984 og hafa í raun stýrt ferð síðan. Ég hélt eða vonaði í það minnsta að búsáhaldabyltingin markaði endaloka þess tíma. Skósveinar keisarans eru hinsvegar margfalt stærri og öflugri her en flestir gera sér grein fyrir. Það má þó greina það á athugasemdadálkum Eyjunnar, ÍNN, Útvarpi Sögu og að ógleymdu Mogga-blogginu.

Helgi Jóhann Hauksson, 23.9.2009 kl. 02:16

8 Smámynd: Stefán Einarsson

Það sem að undrar mig mest er að fólk hefur ekki séð að Svarthöfðarnir eru út um allt og í öllum hinum fjórflokkum sem glæggt má sjá á vinnubrögðum hinu nýju ríkistjórnar. Þjóðin hafði möguleika á að gera breytingar í síðustu alþingiskosningum en valði því miður að breyta raunverulega engu. Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn er bara sitthvort andlitið á sama djöflinum og Vinstir grænir og Framsókn sitthvort eyrað. Á meðan að fólk sér það ekki, verður engin alvöru bylting á Íslandi.

Stefán Einarsson, 23.9.2009 kl. 10:28

9 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Hmm, fyrir kosningar var búið að sýna fram á, að Sjálfstæðisflokkurinn hafði fengið mesta peninga frá bönkunum og eigendum þeirra, Samfó var nr. 2, og Framsókn var einhverjum skrefum fyrir aftan þá flokka, með 3. mest.

Fyrstu 2. flokkarnir fengu sem sagt, áberandi mest, Framsókn mikið - og VG nánast ekkert, sem gat skipt máli.

Svo, ef spilling er mæld skv. fjármagni frá bönkunum og eigendum þeirra, þá eru Samfó og X-D, með áberandi forystu, síðan Framsókn - og langminnst spilltur er VG.

Þessi mæling er að sjálfsögðu ekki nákvæm, einungis byggða á upplísingum, er komu fram í fjölmiðlum fyrir síðustu kosningar, og einhver ætti að muna eftir, og snerust um fjármögnun flokkanna fyrir kosningarnar þar á undan, þ.e. síðasta kjörtímabil.

Eins og einhver ætti einnig að muna eftir, fór X-D í þá æfingu að skila fjármunum að hluta, er kom í ljós að einn styrkurinn af mörgum, var mjög áberandi miklu hærri en styrkir annarra aðila, er veittu styrki.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 23.9.2009 kl. 14:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

AK-72

Höfundur

AK-72
AK-72
Með óþrjótandi áhuga á kvikmyndum, sögu og stjórnmálum.Telur sig hafa fullt frelsi til að hrósa og gagnrýna hvern sem er og hvenær sem er.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • ...1212_913482
  • ...ner1_568492
  • ...rad-banner1
  • Screenshot

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband