N1-ríkistjórnin

Í umræðum á Eyjunni, eða nánar tiltekið Silfri Egils, um erfðaprinskrýningu Sjálfstæðisflokksins eða Bjarna Ben líkt og krónprins Engeyjar-ættarinar kallast, var sett snemma fram smá athugasemd sem vakti eftirtekt mína. Þar var bent á eitt af þeim meinum sem hafa leitt þjóðina í glötun: hagsmunatengsl Bjarna  annarsvegar og hinsvegar formanns Framsóknarflokksins. Þessi tengsl lægju í gegnum stjórn fyrirtækisins N1 þar sem væntanlegur formaður Sjálfstæðisflokksins, var stjórnarformaður.Ekki er þó það sök eitt og sér, að hafa verið þar stjórnarformaður heldur eru nú tengslin frekar meiri.

Ef við skoðum nú stjórn N1 í dag, þá lítur hún út svona:

  • Einar Sveinsson-formaður og föðurbróðir Bjarna 
  • Benedikt Jóhannesson-frændi Bjarna og ku hafa pantað skoðanakönnun fyrir fyrirtæki sitt Talnakönnun er sýndi úrslit, hagstæð erfingjanum.
  • Jón Benediktsson-Bróðir Bjarna og kosningastjóri hans
  • Gunnlaugur M. Sigmundsson-Faðir Sigmunds Framsóknarformanns og tilheyrði S-hópnum ef mig minnir rétt.
  • Halldór Jóhannson-Veit nú engin deili á þessum manni en reikna með að hann tilheyri annað hvort S-hóp eða Engeyjar-ættinni. Annað kæmi varla til greina í svona hagsmunaklíkufyrirtæki.

Í framhaldi af því, þá var því velt upp að þar sem líklegt er að þessir tveir flokkar myndu ganga í sæng saman eftir kosningar, hvort sem það er af gömlum vana eða sjálfgefnu hækjuhlutverki Framsóknar þegar kemur að Sjálfstæðisflokknum, þá ætti slík ríkistjórn ekki annað nafn skilið en N1-ríkistjórnin. N1-ríkistjornin yrði því enn ein ríkistjórnin, sem tæki mið af sérhagsmunum ættarvelda, auðmannaklíkna og flokkshagsmuna framar almenningshagsmunum og það með öllu tilheyrandi: einkavinavæðingu, vina- og ættmennaskipunum og áframhaldandi spillingu þar sem klíkur skipta á milli sín auðævum þjóðar og hagsmunum hennar er fórnað. 

Hvað hefði breyst við valdatöku slíkrar stjórnar? Ekkert í raun, nema að spillingin hefði fengið flotta andlitslyftingu sem fengi kvenfólkið til að kikna í hnjánum og meiri sölu á teinóttum fötum hjá Sævari Karli, enn á ný. Maður fórnar eiginlega af höndum af örvinglun yfir slíkum, drungalegum framtíðarspám sem myndu auka enn meir á framtíðarvanda þjóðarinnar og 35 stiga frostið í Manitoba hljómar skyndilega sem ásættanlegur valkostur, þegar slíkt myrkur hellist yfir sálarlíf manns í bland við dökka sýn ASÍ o.fl. á ástand mála hér næstu árin.

En hvað getum við gert til þess að koma í veg fyrir slíkan ófögnuð eins og enn eina N1-ríkistjórn(héðan í frá samnefnari fyrir sérhagsmunaklíkustjórnir) af hvaða toga sem er? Eru ekki leiðir til þess? Að sjálfsögðu eru til leiðir en það þarf vilja og áframhaldandi þrýsting og kröfur á núverandi stjórnvöld og stjórnmálaflokka til að gera þeim ljóst að þetta er eitthvað sem við munum ekki sætta okkur við.

 Í raun má skipta upp leiðunum til þess í tvo parta: fyrir og eftir kosningar. Fyrir kosningar þá þyrftum við að fá á hreint skýr svör um að ekki yrði gengið óbundið til kosninga, heldur gera þá skýra kröfu að Sjálfstæðisflokknum yrði haldið frá valdastólum og embættum þar sem þeir gætu gert sem  mestan óskunda. Þetta er ekki aðeins gott fyrir þjóðina, heldur einnig fyrir flokkinn sem virðist gersamlega ófær um að geta tekið til hjá sér, hent út spillingunni, breytt stefnunni frá því að hugsa um hagsmuni þeirra er gefa í kosningasjóðinn, yfir í að setja hagsmuni þjóðarinnar á oddinn og geta horfst í augu við hvað flokkurinn hefur gert þjóðinni og beðist fyrirgefningar. Það mun taka þá kannski 4-40 ár, hver veit? 

Annað sem þarf að halda á lofti fyrir kosningar, eru kröfur á hendur þinginu. Að fyrir það fyrsta að kosningalögum verði breytt þannig að fjórflokkarnir hafi ekki þessa 5% reglu lengur, að flokkar og fólk sem tilheyrir ekki valdaklíkunum geti komist að og að persónukjör verði meira. Annað sem þarf að tryggja er gagnsæi þegar kemur að þingheimi en þar er að velkjast í forsætisnefnd frumvarp um siðbót og hvað er það sem flækist fyrir þingmönnunum þessa daganna? Að sjálfsögðu er það að þeir vilja ekki gefa upp eigna- og hagsmunatengsl, heldur vilja þeir að það veðri val þingmannsins. Hvað hafa þeir að fela og hversvegna er verið að gera þetta? Svarið liggur í raun uppi, þeir sem eru í forsætisnefnd og valdaklikur flokkana, vilja ekki að tengslin verði uppljóstruð, slíkt gæti orðið slæmt fyrir einkavæðingu bankanna á ný eða annara slíkra gjörninga.

Örugglega má svo bæta við fleirum nauðsynlegum aðgerðum fyrir kosningar en þá eru það leiðir eftir kosnignar. Persónulega er ég á því máli að farsælasta skrefið sé að stokka upp kerfinu algjörlega, þ.e. stjórnarskrárbreytingar og sérstaklega raunverulega þrískiptingu valds, tryggja nær algjört gagnsæi líkt og á Nörðurlöndum, herða lög um hagsmunatengsl þings og ráðherra, draga úr vægi prókjara og gera þau helst útdautt form en frekar leyfa kjósandanum að velja hverja hann telur að geti stjórnað landinu eftir kosningar og þar með tryggja að við sitjum ekki uppi með 10 Árna Matt á móti hverjum Vilmundi Gylfa t.d. Fleira mætti tína til en fyrst og fremst er það sem við þurfum er hugarfarsbreytingar þegar kemur að stjórnmálum, að ekki sé einhver sérstök stjórnmálastétt sem ungar út erðfaprinsum og prinsessum í gegnum valdaklíkur eða háskólapólitíkina, og hefur einkarétt á þingstörfum. Við þörfnumst frekar að gott og heiðarlegt fólk úr öllum stéttum, vilji fara í stjórnmál, þjóðinni til heilla en rotnum valdaklíkum til ógagns. Annars getum við einfaldlega kysst þetta sker bless og skellt okkur til Manitoba í frostið.

Þá er bara spurningin: raunverulegar breytingar eða eigum við að halda okkur við enn eina N1-ríkistjórn?

 


Bloggfærslur 11. febrúar 2009

Um bloggið

AK-72

Höfundur

AK-72
AK-72
Með óþrjótandi áhuga á kvikmyndum, sögu og stjórnmálum.Telur sig hafa fullt frelsi til að hrósa og gagnrýna hvern sem er og hvenær sem er.
Okt. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...1212_913482
  • ...ner1_568492
  • ...rad-banner1
  • Screenshot

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.10.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband