14.7.2009 | 11:05
Svar frá Finni bankastjóra vegna bloggbréfs í síðustu viku
Í síðustu vikur ritaði ég opið bréf á blogginu hjá mér til Finns Sveinbjörnssonar, bankastjóra Kaupþings vegna Björgúlfsmála. Ekki bjóst ég nú við því að í pósthólfi mínu myndi ég finna svar í morgun og finnst það nú virðingarvert af Finni, að svara aumum bloggara eins og mér. Hann bað mig um að birta einnig svarið opinberlega og get ég ekki annað en orðið við þeirri sjálfsögðu ósk. Hér á eftir fer bréfið í heild sinni:
Kæri Agnar
Þakka þér fyrir bloggbréfið sem þú sendir mér í síðustu viku. Þótt þú hafir verið hrifsaður yfir í Nýja Kaupþing, eins og þú orðar það, þá vona ég að þú verðir ánægður með þjónustuna og haldir áfram í viðskiptum um langa tíð, rétt eins og allir hinir 100.000 viðskiptavinir bankans.
Í bréfinu þínu koma fram ýmis jákvæð atriði í minn garð sem ég þakka þér fyrir. Það er alltaf gott að fá strokur! Þú beinir þeim tilmælum til mín að marka bankanum siðlega viðskiptahætti. Mig langar að upplýsa þig um að í síðasta mánuði gekkst bankinn fyrir námskeiði fyrir stjórnarmenn í bankanum og dótturfélögum hans og helstu stjórnendur bankans um góða stjórnarhætti. Þar fór sérfræðingur á sviði stjórnarhátta yfir helstu atriði sem einkenna góða (og slæma stjórnarhætti) og guðfræðingur/siðfræðingur fjallaði um viðskiptasiðfræði. Þótt hér væri ekki um ítarlega yfirferð að ræða, opnaði hún augu þátttakenda fyrir fjölmörgu sem bæta má. Stjórn bankans leggur höfuðkapp á að endurvekja traust viðskiptavina og alls almennings á bankanum. Það verður ekki gert með einföldum töfralausnum eða sýndarmennsku, heldur hægt og bítandi á löngum tíma. Breytingar á stjórnendateymi bankans eru hluti af því. Nýtt nafn, stefna, framtíðarsýn og gildi annar hluti. Endurskoðun á innri reglum bankans, stjórnarháttum, daglegum vinnubrögðum, markaðsstarfi og hvernig stöðugt er unnið að úirbótum á öllum sviðum eru önnur dæmi um þætti sem huga þarf að þegar traust er endurvakið. Og eitt bið ég þig um að halda til haga: Starfsfólk bankans hefur almennt staðið sig frábærlega við erfiðar aðstæður frá bankahruninu í október. Álagið hefur verið mikið, mál iðulega flókin og illleysanleg og umræðan og viðhorfin í fjölmiðlum og meðal almennings í garð bankans yfirleitt neikvæð.
Ég vil nefna að fljótlega mun ég kynna fyrir stjórn bankans verkefni/áætlun sem miðar að því að stjórnarhættir í bankanum verði til fyrirmyndar hér á landi. Þetta er metnaðarfullt markmið en það er þess virði að reyna. Það hefur komið fram opinberlega að ráðningarsamningur minn við bankann nær til áramóta. Þá lýkur honum einfaldlega án uppsagnarfrests, án biðlauna eða nokkurrar annarrar starfslokagreiðslu. Fyrir liggur vilji núverandi eiganda bankans til að auglýsa bankastjórastarfið laust til umsóknar. Mér finnst það sjálfsagt og eðlilegt. Hvort sem ég verð lengur í bankanum en til áramóta eða ekki, þá er mér það metnaðarmál að nota þessa mánuði til að endurreisa bankann eftir erfiðan vetur ásamt því góða fólki sem hér starfar. Keppikeflið er að hann verði fyrirmyndarfyrirtæki sem nýtur trausts meðal viðskiptavina og annarra landsmanna og getur tekist af fagmennsku á við þau tröllvöxnu skuldaverkefni sem við blasa.
Í bréfinu þínu koma fram áhyggjur af því að bankinn muni afskrifa skuldir nafngreindra einstaklinga. Ég vil endurtaka það sem ég hef þegar sagt: Þessar skuldir hafa ekki verið afskrifaðar. Unnið er að málinu innan bankans eins og svo fjölmörgum öðrum stórum og smáum skuldamálum. Ég vil jafnframt fullvissa þig um að bæði ég og stjórn bankans gerum okkur grein fyrir afstöðu fjölmargra viðskiptavina og annarra landsmanna til hugsanlegrar afskriftar. Og ég fullyrði að þegar að því kemur að leiða þetta mál til lykta verða hagsmunir bankans, í víðtækasta skilningi, hafðir að leiðarljósi.
Fyrst ég er með þig á línunni", þá langar mig að reifa nokkur atriði sem hafa verið mér, öðru starfsfólki og stjórn bankans hugleikin að undanförnu:
1. Það hefur löngum verið meginregla banka að horfa eingöngu til viðskiptalegra sjónarmiða og reyna að hámarka verðmæti við innheimtu skulda. Þetta getur gerst með ýmsum hætti, þ.á m. með samningum og einhverri eftirgjöf skulda. Stundum búa bankar yfir betri vitneskju um tekjur, eignir og skuldir viðkomandi en aðrir utanaðkomandi og meta því aðstæður með öðrum hætti (ég er að tala almennt en ekki sérstaklega um það mál sem þú nefnir í bloggbréfi þínu). Ef þrýst er á banka að víkja frá þessari meginreglu, við hvað á þá að miða? Eiga bankar að setjast í dómarasæti og vega og meta viðskiptavini eftir einhverju öðru en viðskiptalegum sjónarmiðum? Á hvaða forsendum? Ef við heimfærum þetta á okkar land, eiga bankar að ganga sérstaklega hart gegn þeim einstaklingum sem teljast hafa komið landinu í þá stöðu sem það er nú? Hvað með þá sem mætti kalla minniháttar útrásarvíkinga"? En stjórnmálamenn?
2. Við í Nýja Kaupþingi gerum okkur fulla grein fyrir því að aðgerðaleysi í skuldamálum einstaklinga og fyrirtækja eykur aðeins á þann vanda sem þjóðin stendur frammi fyrir. Við erum alfarið á móti því að láta reka á reiðanum í þeirri von að mál leysist af sjálfu sér á þann hátt að einstaklingar og fyrirtæki með veikustu fjárhagsstöðuna fari í þrot en aðrir lifi. Við viljum bretta upp ermar og taka á málum. Við höfum þróað verklagsreglur og verkferla. Ráðinn hefur umboðsmaður viðskiptavina sem fylgist með því að gætt sé sanngirni og jafnræðis og hugað að samkeppnissjónarmiðum. Við höfum breytt skipulagi bankans til að geta betur tekist á við úrlausn skuldavandamála. Ég reikna með að á næstu vikum dragi mjög til tíðinda því um þessar mundir renna út frystingar hjá aragrúa viðskiptavina. Við höfum þróað ýmsar lausnir og viðrað þær við viðskiptavini okkar og utanaðkomandi aðila. Viðbrögðin eru ekki einhlít og lýsa ágætlega þeirri togstreitu sem er meðal þjóðarinnar:
a. Sé ætlunin að afskrifa skuldir einstaklinga og laga þær að greiðslugetu viðkomandi, þá spyrja þau sem ráða ágætlega við skuldir sínar og þau sem skulda ekki neitt: Hvað með mig? Af hverju verður ekkert gert fyrir mig? Af hverju á að hjálpa þeim sem lifðu hátt, fjárfestu í stóru og glæsilegu húsnæði og eyddu kæruleysislega um efni fram? Hvað með nágrannann sem sýndi fjárhagslega ábyrgð? Ég heyri þessi sjónarmið iðulega hjá viðskiptavinum.
b. Svipað gildir um fyrirtæki og hugsanlega eftirgjöf á skuldum þeirra. Þegar kemur að stærri fyrirtækjum, sem eru of skuldsett en lífvænleg, þá mun bankinn í einhverjum tilvikum leysa fyrirtækin til sín og fyrri eigendur tapa öllu sínu áður en bankinn afskrifar skuldir. En sama nálgun gengur ekki þegar kemur að smáum og meðalstórum fyrirtækjum. Í þeim tilvikum veltur starfsemin oftar en ekki á eigandanum og það er algerlega óraunhæft fyrir reksturinn að bankann krefjist þess að þeir hverfi úr starfi.. En það þarf að lækka skuldabyrðina að öðrum kosti fara fyrirtækin í þrot. Og með fjöldagjaldþroti fyrirtækja kemur enn meira atvinnuleysi og viðvarandi efnahagskreppa. Því verður að afskrifa skuldir, svo einfalt er það. Hvað þá með fyrirtækin sem standa ágætlega, á ekki að gera eitthvað fyrir þau? Og ef skuldir fyrirtækja verða afskrifaðar að einhverju leyti, hvað þá með einstaklingana?
Þegar ég hugsa um núverandi ástand og framtíð þessarar þjóðar, þá er aðeins eitt sem ég óttast: Að vonbrigðin, vantraustið, tortryggnin, beiskjan og reiðin verði til þess að við hjökkum í sama farinu næstu mánuði og misseri. Ef við ætlum fresta öllu á meðan við leitum að hinu fullkomna réttlæti, þá mun okkur ekki miða fram á veginn. Þá mun sífellt fleira fólk verða afhuga því að búa áfram hér á landi. Það er ömurleg framtíðarsýn og ég veit að þú ert mér sammála í því að vinna að því hörðum höndum að hún gangi ekki eftir. Þú gerir það á þínum vettvangi og ég geri það í bankanum. Einhver mistök verða gerð, kúnstin er að lágmarka þau. En mistökin eru betri en aðgerðaleysið.
Góð kveðja,
Finnur Sveinbjörnsson,
bankastjóri Nýja Kaupþings
![]() |
Ráðþrota gegn úrræðaleysi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
Bloggfærslur 14. júlí 2009
Um bloggið
AK-72
Tenglar
Borgarahreyfingin
Kvikmyndir og því tengt
- Heimildarmyndaklúbburinn Hómer Félagskapur sem hittist til að drekka í sig fróðleik og bjór á þriggja vikna fresti
Project 100
- Heimasíða Project 100 Viltu vera einn af 100?
Bloggvinir
-
don
-
soleys
-
tharfagreinir
-
sigurgeirorri
-
neddi
-
smali
-
omnis
-
nanna
-
baldurkr
-
siggi-hrellir
-
gorgeir
-
paul
-
geimveran
-
skari60
-
semaspeaks
-
vest1
-
thj41
-
gudrunlilja
-
zeriaph
-
siggisig
-
gudbjorng
-
svatli
-
athena
-
ace
-
ragnarb
-
einarolafsson
-
amadeus
-
brell
-
thorsaari
-
tbs
-
vilhjalmurarnason
-
patent
-
jennystefania
-
drum
-
folkerfifl
-
larahanna
-
ragnar73
-
hildurhelgas
-
ladyelin
-
sigurduringi
-
sij
-
hedinnb
-
valgeirskagfjord
-
hehau
-
baldvinj
-
jonarnarson
-
olinathorv
-
saemi7
-
agustg
-
ingaragna
-
liljaskaft
-
astajonsdottir
-
reisubokkristinar
-
lehamzdr
-
sparki
-
malacai
-
leifur
-
evaice
-
gus
-
tryggvigunnarhansen
-
kjarri
-
vistarband
-
fun
-
einari
-
spurs
-
annaeinars
-
gattin
-
kaffistofuumraedan
-
launafolk
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (4.10.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar