Tillögur "þingmanna-arms" séð með sjónarhóli fyrrum félagsmanns XO

Þegar ég gekk út úr Borgarahreyfingunni eftir hið illræmda bréf Margrét Tryggva, þá kvaddi ég með þeim orðum að byltingin hefði ekki étið börnin sín, börnin hefðu étið byltinguna. Þessi orð komu mér aftur upp í huga þegar ég las tillögur svokallaðs "þingmanna-arms" í hreyfingunni, um framtíðarskipulag Borgarahreyfingarinnar. Ég varð nefnilega undrandi á þeim og eiginlega fannst talsvert í þeim furðulegt og jafnvel ólýðræðislegt líkt og ég orðaði í athugasemd á síðu Gunnars Waage, eins af höfundum þessa plaggs. Reyndar fór það ekki vel í Gunnar því hann í snarhasti lokaði fyrir athugasemdir, sagði að þetta yrði rætt bara á laugardaginn og eyddi svo öllum framkomnum athugasemdum um þessar tillögur. Greinilega ekki mikið gefinn fyrir opnar umræður eða gagnrýni, nokkuð sem fær mig til að skrifa eftirfarandi athugasemdir hér á bloggið mitt.

Nú ætla ég ekki að neita því að það má finna ágæta punkta í þessum tillögum og held að reynsla manns af því hvernig farið hefur fyrir Borgarahreyfingunni að þegar á reyndi, að skipulagið vantaði og strúktur og valddreifing var ekki nákvæmlega útfærð auk þess sem þingmennirnir byrjuðu að haga sér eins og ríki í ríkinu að manni fannst, þ.e. hundsuðu félagsmenn og töldu að grasrótin væru þjónar sínar en ekki að þeir væru þjónar grasrótarinnar og fóru eftir samþykktum félagsfunds eftir hentisemi sv sem að stofna sérfélag um þingflokkinn í andstöðu við samþykkt félagsfunds. Þetta háttalag átti sinn þátt í erjum þeimsem geisað hafa en nóg um það enda tillögurnar aðalmálið.

Nú veit ég ekki hvernig þessar tillögur voru samsettar eða hvernig menn unnu þetta en þær finnst mér bera vott um að annarsvegar að þær séu settar fram ekki endilega í besta hug, þ.e. að reiðin yfir því að einhverjir aðrir hafi boðið sig fram eða komið með skipulag sem ekki er þóknanlegt þinghópnum, hafi látið fólk teyma sig út í fen þarna og ekki horft til aðvörunarorða sem beint var til Björgvins G. um daginn: Fólk á ekki að semja lög í reiði. Þo gæti verið asi þar á ferð því ég á erfitt með að trúa að vissir einstaklingar sem þarna eru, séu að gera þetta af slíkum hug.

En hvað með það, það sem ég sé stórlega að þessu er hvernig framsetningin er á öllum valdastrúktúr og valddreifingu. Fyrir það fyrsta þá er valdastrúkturinn þannig að þinghópurinn stendur einn og sér fyrir utan allt nema að hann á að fylgja eftir stefnunni og mæta á fund einu sinni í mánuði. Fyrir það fær hann fastafulltrúa í stjórninni hjá hreyfingunni sem virðist eiga fyrst og fremst að vera kaffidrykkjuklúbbur nema að þeir tveir vinsælustu fá að gera það í tvö ár samfleytt og tveir óvinsælli stjórnarmenn þurfa að rölta út og hleypa öðrum að, og með það eina hlutverk að ráða framkvæmdastjóra og tala um hvort hann sé að standa sig í vinnuni eða ekki. Þetta geldir eiginelga algjörlega tilgang þess að hafa stjórn því stjórn í öllum hreyfingum, félögum og flokkum hefur nefnilega ávallt þann tilgang að sjá um ákvarðanatökur í umboð félagsmana um hluti sem þarf ekki að  boða til sérstakra félagsfunda um og er nokkurskonar framlenging á grasrót hreyfinga. 

En það sem er einng athyglisvert og umhugsunarvert eru völd framkvæmdastjóra. Þau eru nefnilega gríðarleg völd fyrir eina manneskju og í raun virka eins og forstjóri fyrirtækis í besta falli eða eiginlega sem algjör einræðisherra yfir starfi hans. Hann hefur allan rekstur í höndum sér, hann þarf bara að skila tillögum að fjárhagsáætlun til stjórnar sem hún samþykkir og ber ábyrgð á EN stjórnin má samt ekki taka neinar fjárhagslegar ákvarðanir aðrar. Það er jú framkvæmdastjjórinn sem hefur allt það á sinni könnu. Hann ræður algjörlega yfir grasrótarstarfinu og hefur það í hendi sér hverjir fá framgengt að koma af stað vinnu í málum eða öðru og í raun er enginn hemill á honum þar sem ef stjórnin getur ekki komist að niðurstöðu um störf hans þá getur það dregist á langinn að sparka honum. Stjórnin þarf nefnilega að ræða sig á niðurstöðu og ef hún getur það ekki á einum fundi þá er ákvörðunartöku frestað þar til á næsta fundi.

Framkvæmdastjórinn er einnig talsmaður hreyfingarinnar út á við en það sem er einnig athyglisvert að samkvæmt þessu er framkvæmdastjórinn eini maðurinn sem má ekki greiða atkvæði um neitt innan hreyfingarinnar, ólíkt öðrum íbúum landsins sem virðast allir eiga geta tölt inn al landsfund og lagt jafnvel hreyfinguna niður ef þeim sýnist. Sé fyrir mér Framsóknarflokkinn smala 300 Pólverjum á landsfund og segja bara hreint út:"Njet XO" 

En já landsfundurinn og allt það er líka skrítið allt. Þar virðist nefnilega vera eini vettvangur grasrótarinnar til að hafa áhrif á starf allt, stefnu og samþykktir. Jú, grasrótin má hitta þingmenn einu sinni í mánuði en þeir eru ekki bundnir því að hlusta á grasrótina, hvað þá að hitta hana meira en þörf krefur líkt og sumarið eftir kosningar og svo fundur sem ég kom sem gestur á nýverið eftir brotthvarf mitt úr hreyfingunni. Grasrótin getur svo sem unnið að ýmsu starfi, stundað kjaftagang og fengið að vera með en hún hefur bara þessi völd: mæta á landsfund, breyta samþykktum og leggja niður hreyfinguna. Að öðru leyti, ekkert, nada, nothing. Hún getur svo sem reynt að knýja fram auka-landsfund, þ.e.a.s. ef tveir í stjórninni meika ekki að taka ákvörðun um hvort framkvæmdastjórinn sé slæmur í starfi en nota bene, til þess þarf 7% af KJÓSENDUM hreyfingarinnar eða um 1000 manns miðað við kosningar. Það eru fleiri en skráðir eru í hreyfinguna sem eru víst um 600 sem leiðir mig að öðru atriði sem er fáránlegt í augum mínum.

Það á að hætta að halda félagatal sérstaklega....öhm, hætta að halda félagatal? Hvernig geta menn þekkt styrk hennar? Hvernig geta menn virkjað innra starf almennilega án vissu um fjölda félagsmanna? Hvernig geta menn fengið félagsmenn? Að kasta félagatalinu er glapræði þegar kemur að innra starfi grasrótar ef þú ætlar að reyna að virkja fólk því þá ertu bara með einvherja örfáa í kollinum en enga vissu um hverjir hafa áhuga á að starfa innan hreyfingarinnar. Það gæti þó verið skiljanlegt að það skipti engu máli svo sem lengur ef grasrót er hvort sem er ætlað að vera einhver klappkór fyrir þinghópinn sem er efst á valdapýramídanum en virðist ekki geta veitt honum aðhald á neinn hátt, hvað þá stjórninni sem þinghópurinn getur auðveldlega drottnað yfir ef þeirra fólk nær tökum þar.

Einhvernveginn finnst mér þegar litið er yfir þessar tillögur að þær skapi fleiri vandamál en þær eiga að leysa, búi til erfiðan grundvöll þegar kemur að því að hlúa að innra starfi og færir völdin yfir á hendur of fárra og jafnvel opnar fyrir hálfgert einræði eins manns sem hefur einnig peningamálin á sinni könnu. Ég get svo engan veginn séð að þetta leysi vandamál Borgarahreyfingarinnar sem eru ekki bara skipulagsmál og samstarfsörðugleikar milli þinghóps, stjórnar og grasrótar heldur muni eingöngu auka þau vandamál og gera allt starf verra þrátt fyrir að þarna megi finna ljósa punkta(renni e.t.v. síðar yfir þá) sem yfirskyggðir eru af þessum stóru göllum.

Ég held að þessi lagabreyting yrði hreyfingunni að aldurstilla og ég held að það sé betri grundvöllur til að skapa sterkari hreyfingu sé út frá tillögum þeim sem málefnahópur hefur verið að hnoða saman í allt sumar. Svo játa ég að það vekur eiginlega virkilega furðu að sjá sum nöfn á bak við þessa tillögu, þó sérstaklega Heimssýnar-hjónakornin Gunnar og Lísu sem hafa svoleiðsi djöflast á öllum þeim með allskonar aðfinnslum og skítkasti, þeim sem dirfast til að lýsa óánægju sinni með þinghópinn og sérstaklega gegn því fólki sem tilheyrir 12-menningunum sem ég hef haft reynslu af því að vinna með sumum hverjum. Sjálfur hef ég ekkert yfir þeim 12-menningum(eða þeim sem ég þekki þar) að kvarta og vona innilega að þau nái ásamt öðru ágætu fólki(allavega Baldvin þinghópsmegin og svo þeir sem eru á milli) að rífa hreyfinguna upp úr því að verða mestu stjórnmálamistök íslenskrar sögu(fyrir utan Davíð Oddson) og gera hana að því sem stefnt var að: heiðarlega hreyfingu sem ætlaði að breyta hlutunum. Stórt til orða tekið en því mður satt þar sem líklegt er að hryllingurinn sem gengið hefur yfir hreyfinguna með rýtingasetti Björns Inga, hefur líkklegast skilað því að lítil framboð munu eiga erfitt uppdráttar næstu 30-50 árin.

Hvað varðar þessar tillögur í heild sinni, þá lýsi ég frati á þær sem fyrrum Borgarahreyfingarmaður og tel þær einfaldlega stórgallaðar og jafnvel stórhættulegar lýðræði innan hreyfingarinar.


mbl.is Borgarahreyfingin sem grasrótarafl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. september 2009

Um bloggið

AK-72

Höfundur

AK-72
AK-72
Með óþrjótandi áhuga á kvikmyndum, sögu og stjórnmálum.Telur sig hafa fullt frelsi til að hrósa og gagnrýna hvern sem er og hvenær sem er.
Okt. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...1212_913482
  • ...ner1_568492
  • ...rad-banner1
  • Screenshot

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.10.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband