Kennitöluflakk kvótagreifa, hið nýja REI-mál og er verið að þyrla upp moldviðri með ESB-umræðunni?

Rétt fyrir kosningar, þá fullyrti góður félagi minn, að það væri ástæða fyrir því að ESB-umræðan fór skyndilega af stað og beint í skotgrafirnar. Henni væri nefnilega ætlað að beina athyglinni í burtu frá sóðamálum en þá var einmitt í gangi mál varðandi mútur til Sjálfstæðisflokksins. Mig er byrjað að gruna að hann hafi kannski hitt naglann á höfuðið.

Hversvegna? Tvö mál hafa nefnilega orðið merkilega lítið í umræðunni, drekkt af upphrópunum um landráð þar sem annar hver froðufellandi öfgamaður landsins, tjáir sig á þann máta að hræðslu-áróður fær næstum því nýja merkingu. Allavega verð ég hálfhræddur um að okkar verstu martraðir verða að veruleika, ef þessir spangólandi öskurapar nái völdum einhvern tímann. 

En já, að málunum. Annað málið er einkavæðing orku-auðlinda Suðurnesjamanna, sem Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjanesbæ stendur fyrir. Því máli eru gerð góð skil hér hjá Láru Hönnu. Miðað við það sem maður hefur kynnt sér með það mál, að þá er líklegast um að ræða nýtt REI-mál, þar sem fyrirtæki stjórnar algjörlega á bak við tjöldin. Ég mæli með að flestir lesi umfjöllun Láru Hönnu og einnig umfjallanir Hannesar Friðrikssonar sem hefur verið hvað öturlegastur við að gagnrýna þetta, líkt og hrópandi í eyðimörk.

Hitt málið er nokkuð sem mig langar að gera skil hér og það tengist nokkru sem Sjálfstæðisflokkurinn er einnig tengdur, þ.e. kvótakerfið sem þeir ganga svo langt fram að verja, að ekki má einu sinni setja ákvæði inn í stjórnarskrá um að þjóðin eigi auðlindir landsins. Ekki er þetta þó kerfið sjálft sem ég ætla fjalla um, heldur kennitöluflakk kvótagreifa sem afleiðingu af hruninu. Upp á síðkastið hafa borist tvennar fréttir af útgerðum sem hafa verið að forða sér undan skuldunum. Soffaníus Cesilson hf. í Grundarfirði seldi allar eigur sínar yfir til SC ehf. og skildi eftir 7,5 miljarða í skuldir eftir í gamla fyrritækinu og er í uppsiglingu dómsmál líkt og lesa má hér. Annað fyrirtæki í eigu feðga í Bolungarvík sem betur eru þekktir sem Stím-feðgarnir, eftir að þeir leppuðu fyrir Glitni á kaupum Glitnis í sjálfu sér, er einmitt að gera nákvæmlega það sama, stofna nýtt fyrirtæki, færa kvótann og skip yfir í hið nýja og skilja eftir skuldirnar. Ekki er einu sinni reynt að fela þetta, heldur gera menn þetta alveg blákalt vegna þess að þeir vita að þeir komast upp með þetta, líkt og kemur fram í fréttinni.

Það sem er einnig athyglisvert við fréttina af þeim Stím-feðgum er niðurlagið í stuttri útgáfu fréttarinnar á vefnum en þar stendur:

"Já, já, við fengum bara samþykki frá bönkunum til að færa þetta yfir á aðra kennitölu. Þeir voru bara með í þessu,“ segir Jakob og bætir því við að með þessu hafi þeir viljað tryggja áframhaldandi rekstur útgerðarfyrirtækisins og aðgreina hann frá fjárfestingahlutanum."

Takið eftir þessu, þeir fengu samþykki frá bönkunum sem í þessu tilfelli eru báðir bankar þar sem enn starfar margt af því fólki sem deildi þar og drottnaði frá fyrri tíð: Stím-bankinn Glitnir sem núna kallar sig Íslandsbanka og svo hinsvegar Landsbankinn. Takið eftir einnig hinu í þessu niðurlagi, þeir eru að aðgreina útgerðina frá fjárfestingahlutanum. Fjárfestingahlutanum? Halló, FJÁRFESTINGAHLUTANUM? Hvað er útgerðarfyrirtæki að standa í fjárfestingastarfsemi? Ganga ekki útgerðarfyrirtæki út á það að veiða fisk og selja hann til hæstbjóðandi eða veiða fisk og vinna hann svo í landi? Hversvegna er útgerðarfyrirtæki að standa í hlutabréfabraski?

Og þar liggur nefnilega málið. Báðar þessar útgerðir að mér skilst, voru að stunda hlutabréfabrask sem tengdist ekki neitt starfsemi þess og örugglega margar fleiri, og nú þegar kemur að skuldadögum fyrir fjárhættuspilið, þá ákveða útgerðamenn að stinga af frá skuldunum og taka allt með sér. Eftir situr reikningurinn í bökunum sem afskrifa þá um leið og nýrri kennitölu er úthlutað, og a endanum lendir þetta á almenningi að greiða fyrir þetta. Á sama tíma berst LÍÚ og Sjálfstæðisflokkurinn fyrir þeirra hönd, hart gegn því að farin verði fyrningaleið eða fundin einhver lausn í átt til réttlætis og friðs um kerfið. Rökin sem eru beitt eru m.a. sú að sjávarútvegurinn sé svo skuldsettur, skuldsettur vegna veðsetningu á kvótanum og hvert fóru þeir peningar teknir að láni? Ekki mikið í sjávarútveginn sem slíkan, heldur aðeins í Matador-leik sem endaði með skelfingu. Þessi rök halda því litlu vatni þegar sjávarútvegurinn gerir sér svo það að leik, að skipta um kennitölur til að losa sig undan skuldunum og ég játa að ég sem hef hingað til talið að reyna eigi að finna lausn á deilum varðandi kvótakerfið á þann máta að flestir geti sætt sig við, tel að ef þetta er hið almenna framferði í sjávarútveginum, þá eigi að fara 100% fyringarleið bara strax og þeir fara á hausinn, sem fara á hausinn.

Þetta vekur einnig upp fleiri spurningar um hvað sé að gerast inn í bönkunum með afskriftir og ekki bara Björgúlfsfeðga, og hvað er verið að bralla þar með framtíð fyrirtækja. Ekkert er nefnilega upp á borðum um hvernig er afskrifað,hvernig er staðið að málum heldur fær maður þá tilfinnngu að verið sé að hygla sumum "góðkunningjum" framar öllum, líkt og gerist á bak við margar luktar dyr þessa lands.

En eitt er víst, að í hinum risastóra ESB-sandkassaleik sem yfirgnæfir margt, þá er hægt að komast upp með ýmislegt ósvífið. Hvað þá, ef Sjálfstæðismenn ná fram tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum. Ringulreiðin, sandkassaleikurinn og einstengislegri einbeitningu fjölmiðla að bara einu atriði í samfélagsumræðunni, myndi þýða að margt skuggalegt gæti farið fram án þess að nokkur maður tæki eftir því. Moldviðri hefur oft verið þyrlað upp í gegnum tíðina til að afvegaleiða umræðuna frá slíkum verkum og ég er farinn að hallast að því eins og fyrr var nefnt, að umræðan um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu sé einmitt hugsuð sem slík auk fleirri þátta. Margir af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins hafa nefnielga áður lýst sig fylgjandi aðildarviðræðum en nú skyndilega eru sumir hverjir komnir í bullandi mótsögn við sjálfa sig. Skyndilega hlynntir dýrri þjóðaratkvæðagreiðslu sem velflestumer fulljóst að er eingönguverið að slá fram til að þæfa málið,nokkuð sem þeir máttu ekki heyra minnst á áður og nýbúnir að væla um að stjórnlagaþing sé svo dýrt, því eigi ekki að halda slíkt. Hugarfarsbreyting? Nei, held ekki, bara hagsmuna-aðilar að kippa í spottann sem nær alla leið inn í þingflokksherbergið.

Verum vel á verði, reynum að sjá í gegnum moldviðrið, annars kemur það í kollinn á okkur síðar.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

takk fyrir þennan stórgóða og þarfa pistil

Óskar Þorkelsson, 12.7.2009 kl. 22:58

2 identicon

gott hjá þér að vekja athygli á þessum málum,sérstaklega þetta með sægreifana sem þurfa ekki lengur að hræðast að lög nái yfir þá...

zappa (IP-tala skráð) 12.7.2009 kl. 23:20

3 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Þetta er óþolandi hvernig stjórnvöld hafa farið með almannafé, í allskonar afskriftir og björgunarðagerðir fyrir "auðmenn" Íslands. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 13.7.2009 kl. 01:20

4 identicon

ESB rétttrúnaðurinn og allur hamagangurinn við að koma því í gegn á mettíma gerir jarðveginn góðan fyrir svona svika vinnubrögð eins og þú vísar hér til.

Einnig ef þetta verður svo kanski á endanum samþykkt á Alþingi og þá meira að segja kanski með minnihluta þingmanna á bak við sig. Þá verður send inn umsókn og svo fara sjálfar samningaviðræðurnar í gang og þær eiga eftir að tefja mjög tíma stjórnmálamannanna og ráðuneytanna, þannig að slælega verður tekið ða brýnustu málum sem brenna hér á þjóðinni.

ESB málið hefði átt að bíða á a.m.k. 2 til 3 ár, nú gerir það ekkert nema slæmt það er að sundra þjóðinni og kljúfa hana í illvígar fylkingar og svo að eyða dýrmætum tíma ráðamanna í þetta hjal.

Svo ef þeir koma svo með einhvern samning eftir 1 eða 2 ár þá verður þetta ESB mál alveg örugglega kolfellt af þjóðinni.    

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 13.7.2009 kl. 10:52

5 Smámynd: AK-72

Ég veit það nú ekki, Gunnlaugur. Þessi þjóð er búin að vera sundruð lengi, allt frá hruni og lengra aftur. Í 14 ár hefur veirð rætt fram og aftur um að athuga með ESB og niðurstaðan sem ég dreg af þeirri umræðu er einfaldlega sú að ef við förum ekki í aðildarviðræður, þá höfum við ekkert til að byggja á, til að taka afstöðu. Ég tel að það sé nauðsyn að fara í þessar viðræður til að fá endanlega úr því skorið hvort þetta sé gott/slæmt. Ég tek nefnilega ekki mark á öfgamönnunum sem vilja alls ekki fara í ESB og hrópa um landráð, andþjóðlegheit og allskonar upphrópanir á sama tíma og þeir vilja viðhalda þessu viðbjóðslega, rotna samfélagi sem við búum í. Ég er nefnilega ekki búinn að gleyma því að margir af þessum töluðu af fyrirlitningu um þá sem risu upp úr sófanum og reyndu að gera eitthva í vetur, og töluðu á þeim nótum að Sjálfstæðisflokkurinn og Davíð Oddson væri guðir, guðir sem rétthærri væru þjóðinni. En það þýðir ekki heldur að ég taki mark á öfgafullum ESB-sinnum, ég vill bara fá samning og málfenalega umræðu sem ég get tekið upplýsta ákvörðun út frá, og helst lausa við upphrópanir öfgakristinna, fasískra fullveldissina sem eru að rifna af öfgaþjóðernshyggju, nýfrjálshyggjumanna og þröngsýnna, hræddra íhaldsskarfa til hægri og vinstri.

Jóna: Vandamálið er ekki stjórnvöld sem slík í þessu tilfelli, heldur fyrst og fremst hvað er að gerast inn í bönkunum Það virðist eiginlega engin vita það né nokkrar reglur í gangi. Félagi minn í bankageiranum hefur sagt mér það, að það er líka ákvörðunarfælin í gangi sem hefur ollið því að fyrirtæki sem gætu hafa reddað sér, hafa orðið gjaldþrota vegna þess að það þorði enginn að taka ákvarðanir í tengslum við lán eða ábyrgðir vegna verkefna. Á sama tíma hafa víst gæðingar fengið forgang, jafnvel valsað inn með stjórnmálamann í bandi.

AK-72, 13.7.2009 kl. 13:47

6 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Vér íhaldsmenn, sem standa undir þeirri nafngift, erum EKKI hræddir, við höfum viljað segja okkur úr lögum við EES í mörg undanfarin ár og feta leið Svissara.

Gróðapungar eru EKKI ´´ihald, heldur illa uppdregið lið, sem nærist á græðgi og brúkar gylliboð til að æra og særa hina heiðarlegustu menn.

Við viljum hafa sagt okkur frá stjórnmálasambandi við Breta strax síðastliðið haust.

Við höfum EKKI viljað selja banka í hendur ,,erl kröfuhafa" til að ,,eigna st VINI" í útlöndum, því við vitum sem er, að það verða ekki vinir heldur húsbændur og við þý þeirra um langan aldur.

Stöndum fast við sjálfstæði og höldum í frelsið frá 1944 og því sem áður var allt fr´´a landnámsbyggð, þar til að Samfylkingarmenn þess tíma undirrituðu tollheimtusamninga og Noregskóngar fengu ráð okkar öll í hendi og svo varð enn meiri niðurlæging þegar Kalmarsambandið varð að veruleika (svona svipað og ESB)

Nóg í bili

Mibbó

Bjarni Kjartansson, 13.7.2009 kl. 15:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

AK-72

Höfundur

AK-72
AK-72
Með óþrjótandi áhuga á kvikmyndum, sögu og stjórnmálum.Telur sig hafa fullt frelsi til að hrósa og gagnrýna hvern sem er og hvenær sem er.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...1212_913482
  • ...ner1_568492
  • ...rad-banner1
  • Screenshot

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband