20.9.2009 | 15:47
Hugleiðingar um sýnileika stjórnmálamanna og leiðtoga
Eitt af því sem hefur verið að naga mig upp á síðkastið , er umræðan um að Jóhanna sé ekki sjáanleg og svo söngurinn um að það vanti leiðtoga til að stappa stálinu í fólk. Ég hef aðeins sveiflast til með þessum söng, svona allt þar til ég fór að hugsa betur um þetta hluti en þá hef ég verið færast hægt og rólega í burtu frá þessum hrópum og köllum sem skipta engu máli í raun.
Nú hafa allir svosem frekar misjafnar skoðanir á aðgerðum ríkistjórnar(ég sjálfur er mishrifinn) og orðum stjórnmálamanna í fótboltaliðum leikskólans við Austurvöll, en þegar maður byrjar að spyrja sjálfan sig ákveðinnar spurningar um þessa umræðu. Hversvegna? Hversvegna þarf Jóhanna að vera svona sýnileg að mati sumra?
Fyrir það fyrsta þá þegar ég fór að hugsa um það, þá skiptir það mig engu máli hvað Jóhanna hefur að segja til að stappa stálinu í fólk eða hvað þá aðrir leiðtogar í stjórnmálum eða stjórnmálamenn. í raun skiptir það ekki máli hvað stjórnmálamenn segja eða hvort þeir séu sýnilegir, það sem skiptir máli fyrst og fremst er hvað þeir gera. Sýnilegustu stjórnmálamennirnir eru nefnilega ekki þeir bestu endilega eða þeir sem gaspra hvað mest, líkt og sjást á úldnum undanrennusöngvum Sigurðs Kára og stuttbuxnadrengjanna sem sóttist eftir athygli með allskonar bulli sem skilaði okkur þjóðarþroti og siðrofi samfélagssáttmálans. Það sama á við sápukúlurnar sem fjúka út úr munni félagsmálaráðherra þegar hann mætir á svæðið í spjallið enda hefur varla nokkur skiljanleg og heil brú fundist í hjali hans, aðeins loðnir frasar sem ekkert innihald hafa.
Þá held ég að ég vilji frekar dauðaþögn frá stjórnmálamönnum og sjáanleg verk birtast í framkvæmd, innantómt hjalið kallar frekar fram kjánahroll sem fyrirfinnst einnig í tilkynningaskyldu spunahóps Framsóknar í InDefence og væli sölumanna dauðans yfir fíknó....fyrirgefið, sölumanni IceSave í Sjálfstæðisflokknum, yfir því að aðrir séu að taka á skítnum eftir þá. Semsagt aðgerðir, ekki orð eru það sem skiptir mestu máli, reynslan af íslenskum stjórnmálamönnum hefur sannað það.
En þá fer maður einnig að spyrja sig, hverjir eru þetta sem tala svo, hverjir eru þetta sem gagnrýna Jóhönnu fyrir að vera ekki allstaðar eða heyrast á hverjum degi í. Svarið er frekar augljóst þegar litið er yfir sviðið, það eru klappstýrur hrunsins úr Valhöll að mestu, það eru þeir sem koma úr stjórnarandstöðu sem láta mest og það eru spunahöfundar andskotans sem hanna þetta. Einn stór spuni um eitthvað sem skiptir marga engu máli en er bara þetta venjulega: að reyna að koma höggi á andstæðinginn og grafa undan honum á einhvern hátt með því að spila á tilfinningar fólks.
En hversvegna er hamast svona á þessu? Þarna telja menn sig hafa fundið einhvern veikleika stjórna, eitthvað sem þeir telja að höfði til tilfinninga fólks, eitthvað sem er hægt að láta fólk trúa um að skipti í raun máli þegar það gerir ekki "jack'n'shit" fyrir okkar daglega líf og heilsu, hvort einhver manneskja mæti til að hugga okkur í sjónvarpi eða útvarpi. Ef það sé málið, þá þurfum við að leita okkur öll sálfræðihjálpar ef við séum svo illa stödd að þurfa stjórnmálamann til að þerra tárin á kinnum vorum eða jafnvel einfaldlega gefast upp og fara héðan.
En svo er að skoða það sem fylgir eftir í þessum spunasöng einnig, ekki bara gagnrýnin á sjáanleika heldur hvað fylgir eftir alltaf, þessi gullna setning:"við þurfum leiðtoga". Já, við þurfum leiðtoga, sérstaklega ef maður er hræddur hægri maður sem hleypur eins og hauslaus hæna í kringum grillið sem þú hefur staðið við síðustu árin, hugsunarlaust og ekki vitað hvernig þú eigir að tala og svara. Fjandinn hafi það, ég skil þá fullkomlega líka, sitjandi uppi með Bjarna Ben sem leiðtoga og myndi votta þeim mína dýpstu samúð ef þeir ættu ekki allt hið versta skilið fyrir hrunið sem þeir iðrunar- og samviskulaust telja að að þeir beri enga ábyrgð á, né telja að eigi að gera nokkuð í átt til siðbótar og heilbrigðs samfélags á ný.
Enda þegar þessar hræddu hænur eru keyrðar í gegnum CSI-maskínur sem greina hvað hænurnar í raun vilja, þá má sjá að þær vilja allar eitt: þær vilja Davíð(eða klóm hans frá Kára) á ný til valda því hann kenndi þeim að þær þurfa ekki að hugsa, þær þurfa ekki að skipta sér að neinu, þær þurfa aðeins að tilbiðja og verja Leiðtogann. Ég veit allavega ekki um aðra en þegar minnst er á Davíð og Leiðtoga í sömu setningunni, þá byrja ég yfirleitt að sjá rautt, brýt glerið utan af neyðar-trommusettinu mínu og er tilbúinn í slaginn við að berjast gegn þeim uppvakningi hrunsins á ný og hinum lifandi dauða stuttbuxnaher sem ráfar um göturnar í leit að manneskjum til að nærast á. Við þurfum nefnilega ekki eitthvað gamalt, geggjað hró á ný til valda, sérstaklega eftir að viðkomandi gerði Seðlabankann gjaldþrota og hefur gert þjóðinni mun meiri skaða en Móðuharðindin á efnahagslegum sterum enda er slíkur uppvakningur, eingöngu til þess fallinn að sundra þjóðinni enn meir.
En þurfum við einhvern leiðtoga og alla þá leiðtogadýrkun sem íslenskum stjórnmálum fylgir miðað við reynsluna? Nei, engan veginn ekki því slíkt hefur hindrað alla lýðræðislega þróun og verið lýti á allri umræðu þessa lands þar sem fólk fylkir sér líkt og rollur á beit utan um forystuhrútinn sem má gera hvað sem honum sýnist líkt og fyrrnefndur Davíð, í þágu klíkubræðra og spillingar valdsins. Lög má brjóta, beygja, siðrof er fínt ef það þjónar flokknum og Foringjanum en leiðtogadýrkunin þjónar aldrei hagsmunum almennings þegar á heildina er litið. Nei, við þurfum ekki svona leiðtoga, hinn eina leiðtoga sem ræður yfir landinu og allir bugta og beygja sér fyrir og þeir sem gera það ekki, eru kallaðir geðveikir, Baugspennar fullir af annarlegum hvötum, fullir af sjúklegri öfund eða hatri og eru fífl, fávitar og asnar fyrir að skilja ekki mikilfengleik Leiðtogans eina.
Ef við þurfum leiðtoga, þá þurfum við ekki leiðtoga sem standa í pólitisku skítkasti eða lýðskrumi í von um völd flokksins eina(og klíkubræðra) framar hagsmunum þjóðar, við þurfum ekki leiðtoga sem sveiflast til með vindinum eftir skoðanakönnunum, við þurfum ekki leiðtoga sem er þjónn auðmanna og Viðskiptaráðs, við þurfum ekki leiðtoga sem gefur vinum sínum auðlindir og banka landsins, við þurfum ekki leiðtoga sem nærist á pólitískri spillingu og við þurfum alls ekki leiðtoga sem telur að valdið sé hans eins og hirðarinnar sem hann dýrka.
Nei,,þá þurfum við frekar marga leiðtoga en ekki einn, sem skilja orðið samvinnu, sem skilja það að leggja þurfi til hliðar stuttbuxnadeildir og spunameistara, sem skilja að froðublaður skipti minna máli en framkvæmdir, leiðtoga sem segja okkur umbúðarlaust hvernig hlutirnir eru í raun, leiðtoga sem þora að taka óvinsælar ákvarðanir á kostnað pólitískrar framtíðar sinnar, og marga samhenta leiðtoga sem myndu einbeita sér að því að vinna að því koma landinu á það stig að hér verði til heilbrigt samfélag sem rísi upp úr gerspilltri ösku Fjórða Ríkis Frjálshyggjunnar, samfélag sem maður getur verið stoltur af því að hafa upplifað að sjá verða til.
En eitt veit ég þó fyrir sjálfan mig, eftir þessa stuttu naflaskoðun um leiðtoga og slíkt, að ég þarf ekki að fá einhvern leiðtoga til að stappa í mig stálið, ég þarf ekki að hlusta á froðu spunameistara um að allt reddist ef leiðtoginn eini ráði, ég þarf ekki að sjá smettið á stjórnmálamönum til að líða betur því ég veit hvað það er sem fengi mig til þess að rísa upp úr þessari ösku, fengi stálinu stappað í mig, fengi mig til þess að fá von á ný að spillingin verði sigruð og framtíð verði sjáanleg, og það er eitt orð sem kristallar það.
RÉTTLÆTI!
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Fjölmiðlar, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:17 | Facebook
Um bloggið
AK-72
Tenglar
Borgarahreyfingin
Kvikmyndir og því tengt
- Heimildarmyndaklúbburinn Hómer Félagskapur sem hittist til að drekka í sig fróðleik og bjór á þriggja vikna fresti
Project 100
- Heimasíða Project 100 Viltu vera einn af 100?
Bloggvinir
- don
- soleys
- tharfagreinir
- sigurgeirorri
- neddi
- smali
- omnis
- nanna
- baldurkr
- siggi-hrellir
- gorgeir
- paul
- geimveran
- skari60
- semaspeaks
- vest1
- thj41
- gudrunlilja
- zeriaph
- siggisig
- gudbjorng
- svatli
- athena
- ace
- ragnarb
- einarolafsson
- amadeus
- brell
- thorsaari
- tbs
- vilhjalmurarnason
- patent
- jennystefania
- drum
- folkerfifl
- larahanna
- ragnar73
- hildurhelgas
- ladyelin
- sigurduringi
- sij
- hedinnb
- valgeirskagfjord
- hehau
- baldvinj
- jonarnarson
- olinathorv
- saemi7
- agustg
- ingaragna
- liljaskaft
- astajonsdottir
- reisubokkristinar
- lehamzdr
- sparki
- malacai
- leifur
- evaice
- gus
- tryggvigunnarhansen
- kjarri
- vistarband
- fun
- einari
- spurs
- annaeinars
- gattin
- kaffistofuumraedan
- launafolk
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Góð hugleiðing Aggi, en mjög rökræn.
Staðreyndin er nefnilega að ansi margt í heiminum byggir ekki á rökum heldur tilfinningum og líðan. Nýlegur viðskilningur hluta Borgarahreyfingarinnar er í raun afar gott dæmi um það. Þar var fólki báðum megin borðs farið að líða svo mikið, að rök skiptu orðið minna máli og tilfinningar meiru.
Ég tek undir með þér, að til langs tíma skiptir auðvitað mjög miklu máli HVAÐ stjórnmálamenn gera. En til skamms tíma skiptir hins vegar LÍKA mjög miklu máli hvað þeir segja og hvernig þeir koma fyrir.
Það að sjá meira af Jóhönnu mun engu breyta, hún kemur ekki þannig fyrir að það veki hjá fólki von og traust. Að minnsta kosti augljóslega ekki síðustu mánuði.
Góður leiðtogi, sem augljóslega þjóðina vantar stórkostlega akkúrat núna, er einstaklingur sem að hefur þann hæfileika til að bera að vekja hjá fólki von. Til þess að vekja hjá okkur von, þarf að sjálfsögðu eitthvað meira að gerast gagnvart stöðu heimilanna, en fyrst og fremst þarf að fara að tala kjark í okkur. Kjark til þess að viðstígum fram sem þjóð og förum aftur að gera eitthvað sjálf.
Þar er kraftur þjóðarinnar, þar er framleiðnin. Í einstaklingsframtakinu.
Lækkun stýrivaxta ásamt sterkum leiðtoga gæti komið "hjólum samfélagsins" aftur á fullan snúning. Það þarf ekki mikið meira til.
Ég þarf orðið á því að halda að fá einhverja sterkari mynd af leiðtoga þjóðarinnar en manneskju sem er nánast eins og krossfest þarna. Manneskju sem þurfti að þrábiðja um að taka að sér hlutverkið af því að hún ætlaði að fara á eftirlaunin sín.
Manneskju sem að kemur fyrir sem píslarvottur og bera stöðugt fyrir sig að ástandið sé bara svona svart vegna gjörða fyrri valdhafa.
Það er mikill sannleikur í því, en það er vitað. Nú þarf að leita að von og framtíð.
Krafan um raunverulega leiðtoga er okkur sauðunum eðlileg. Hún er hins vegar ekki krafa um að fá gjöreyðendur Sjálfstæðisflokksins aftur til valda. ALLS EKKI!
Krafan um leiðtoga snýst samt ekki endilega um stjórnanda. Bestu leiðtogarnir eru oftast þeir sem leiða hópinn með karisma og eigin gjörðum. Þeir sem smita út frá sér og fá fólk til að taka þátt.
Krafan um leiðtoga ER réttlætiskrafa. Það er hins vegar á okkar ábyrgð að tryggja að slíkur leiðtogi sé ekki handbendi gjöreyðandanna.
Baldvin Jónsson, 20.9.2009 kl. 17:25
Mér harðnar ekkert við að zjá Jógu, reyndar, & þetta mal því um hana fer alveg fyrir aftan vængina á mér.
Ef einhverjum Agli finnzt leitt að hún vilji ekki vera með í 'rjómatertuþætti' hanz, þá er það bara hanz öl & böl.
Ég reyndar viðurkenni að ég myndi vilja zjá einhverjar aðgerðir fyrir fólkið í landinu, aðrar en að reyna að flæma flezt allt velviljandi vinnandi fólk frá því, með auknum nefzköttum & neyzluzköttum á almennínginn, en það er líka bara einhver önnur nöldrandi zérzkoðun mín.
Mér gremzt enda líka hvað Valhöllinn vinnur alltaf vel vinnuna zína.
Steingrímur Helgason, 21.9.2009 kl. 00:39
Eigum við ekki bara að fá Castró lánaðan frá Cúbu þá læknast allt, eintómt einræði.Því ekki virðist þjóðstjórn vænlegur kostur, þar sem íslenska þjóðin hefur aldrey getað staðið saman nema í littlum hópum.Hvað skyldi þurfa að ské til að fá okkur til að vinna saman?Íslenska þlóð! Mér er líka alveg sama þó ég sjái aldrey smettið á þessum íslensku bergþursum illa klæddum og druslulegum sem hafa fengið leyfi meirihluta íslensku þjóðarinnar til að taka málin í sínar hendur og haga sér eins og fáráðlingar, enda ekki við öðru að búast, það hefur alla tíð viðgengist.Bara ömurlegt!
Aðalheiður Magnúsdóttir, 21.9.2009 kl. 09:15
,, Já, við þurfum leiðtoga, sérstaklega ef maður er hræddur hægri maður sem hleypur eins og hauslaus hæna í kringum grillið sem þú hefur staðið við síðustu árin, hugsunarlaust og ekki vitað hvernig þú eigir að tala og ... "
Þó ekki væri fyrir annað en þessa gullvægu setningu, þá þakka ég fyrir þennan stílsterka pistil, sem ég er sammála í veigamiklum atriðum, eins og ég raunar bloggaði sjálf um fyrir skömmu.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 21.9.2009 kl. 11:33
Flottur. Takk.
Björn Birgisson, 21.9.2009 kl. 14:43
Ég efast stórlega um að Jóhanna ráði við að vera leiðtogi hversu oft sem hún kemur fram og þá ekki síst vegna þess að hún er í endalausri mótsögn við sjálfa sig og því erfitt að fylgja leiðsögn hennar. Hún hefur heldur aldrei talað til fólks um hvað það eigi að gera en hlutverkaleysi fólks undir áföllum er verulega meðvirkandi í að ýta undir óeirðum og ófrið. Ef núverandi ríkisstjórn hefði frá því hún tók við komið fram með hvað hún vildi að almenningur gerði sem hluti af áætlun ríkisstjórnarinnar til nýs Íslands hefði staðan verið allt önnur.
Héðinn Björnsson, 21.9.2009 kl. 15:20
Frábær pistill!
Þarfagreinir, 22.9.2009 kl. 11:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.