Nokkur sparnaðarráð til Palla

Helstu verðmæti fjölmiðla felst í starfsfólki þess og því er það einstaklega dapurlegt að sjá Pál Magnússon að hætti annara forstjóra í fílabeinsturnum, byrja á því að spara á vitlausum enda. Þó læðist að manni sá grunur að það verði slegnar nokkrar flugur í einu höggi, losað sig við fréttamenn með "rangar skoðanir", þ.e. ekki tilbúnir að selja starfsheiður sinn fyrir Sjálfstæðisflokkinn ásamt áframhaldandi undirbúningi á einkavinavæðingu sem hófst með ohf.-væðingunni.

Hérna eru nokkrir hlutir sem Páll hefði getað gert til sparnaðar og slegið vel á hallan ásamt því að auka vinsældir sínar út á við, í stað þess að enda uppi með viðurnefni á borð við "Slátrari Sjálfstæðisflokksins".

1. Páll hefði getað selt forstjórajeppann og bensínhákinn sem hann keyrir á um, á kostnað RÚV. Í staðinn hefði verið hægt að halda í við sig líkt og Geir talar um, og annað hvort fengið sér Yaris eða verið vistvænn og sparsamur í strætó. Giska á að sparnaðurinn sé um 8 millur á ári bara með þessu. Þarna er búið að redda tveimur stöðugildum hið minnsta

2.  Lækkað laun sín um þriðjung og samt verið hærri en forsætisráðherra í launum. Sex-sjö millur komnar þarna og þar með ekki þurft að segja upp 1,5-2 starfsmönnum.

3. Hætta í Eurovison- Ég held að flestir sjái að sparnaðurinn sé í það minnsta hundrað millljónir með þessu og myndi hvort sem er leggjast af, ef RÚV yrði einkavinavætt. Við eigum hvort eð er engan séns í keppnina, fyrst við sendum ekki Botnleðju á sínum tíma.  Auk þess þá þyrfti ekki að segja neinum upp nú og byrjað væri að grynnka á hallanum.

4. Hætta að vera áskrifendur að efni frá Hannesi Hólmstein á okurverði, heldur gera sömu gæðakröfur til hans og annara. Þarna myndií það minnsta einhverjir tugir milljóna og Palli myndi losna við það að þurfa að liggja undir ámæli og háði, fyrir sýningar á útvarpsefninu rándýra Enn er Maður nefndur.

5. Enga handboltaleiki, takk.-Sýn er tilbúið til þess að taka við þessu og ég losna þá við að láta þessi leiðindi eyðileggja fyrir mér matarlystina. Allavega 20-30 millur þar í sparnað.

6.  Sttokka upp í Kastljósi og losa sig við þessa rándýru froðu eins og Kastljósið er í dag-Gera þetta að alvöru fréttaþætti með skotleyfi á íslenska mafíosa og aðra bankastarfsmenn ásamt öðrum þeim sem gefa í kosningasjóð Sjálfstæðisflokkinn. Bæði myndi það auka vinsældir þáttarins ásamt því að spara fé sem fer í innihaldslausa froðui. Samnýting fréttamanna útvarps og sjónvarps myndi þarna skila miklum árangr og losa okkur við þá yfirborskenndu umræðu sem fer í fram í Kastljósi þar sem stórmál í deiglunni eru afgreidd á innan við 10 mínútnum af tveimur gjammandi viðmælendum sem kaffæra þann þriðja. Þessi þriðji er ekki spyrillinn yfirleitt.

7. Hætta að sýna frá Grímunni og Eddunni-Ætli megi ekki reikna með 10-20 milljón króna sparnaði þarna, ásamt því að að bæta heilsufar áhorfenda og þá sem eru neyddir til að mæta þarna. Aulahrollur getur verið skaðlegur og valdið hausverkjum sem og uppköstum. 

Ef einhver lumar á fleiri ráðum handa Palla, þá endilega skella þeim fram. Hver veit, kannski hlustar hann og hættir undirbúningnum á einkavinavæðingunni og fer að reka þetta eins og maður.


mbl.is RÚV fækkar stöðugildum um 20
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Eins og í Stalíngrad"

Þessi upphrópun hér að ofan sást á forsíðu eins dagblasðins síðastliðinn mánudag og var tilvitnun í ónefndan mann sem greinilega upplifði harða götubardaga þar sem barist var um hvert hús með öllum tiltækum vopnum. Sprengjuflugvélum, fallbyssum, eldvörpum sem og skrðdrekum beitt gegn mönnum sem höfðu aðeins eina kúlu í rifflinum og gátu valið að vera drepnir af nasistum eða kommisörum félaga Stalíns. og skeyttu báðir stríðsaðilar þar að auki lítt um líf almennra borgara þarna svo maður minnist hvernig sá hernaður fór fram í seinni heimstyrjöldinni.

Þetta var þó ekki Baghdad, Fallujah eða önnur borg í Írak sem lýst var þarna, heldur Bíladagar á Akureyri þar sem innrásaher er hafði að leiðarljósi trú á yfirburði hvítra sportbíla og með varanlegar heilaskemmdir eftir áhorf á Fast and the furious, kljáðist þar við fótgönguliða marskálksins Björn sem þurfti þó ekki að beita kommisörum sínum í sérsveitinni gegn vinum sem óvinum þarna.

Með tilliti til þessarar stóryfirlýsingar um Stalíngrad Íslands og nútíma einkavinagæsku, þá getur maður ekki annað en spurt að lokum: hvenær verður svo uppbyggingin á þessu stríðshrjáða svæði "outsourcuð" til innvígðra og innmúraðra?

Project 100-Kvikmyndataka á Menningarnótt

Stundum fáum við félagarnir svo skemmtilegar hugmyndir að við verðum að framkvæma þær. Ein af slíkum kom upp á "brain-storming" á Patró  þegar heimildarmyndahátíðin Skjaldborg stóð sem hæst. Eftir að henni hafði verið varpað fram og menn hugsuðu meir og meir, því ákveðnair urðum við í því að framkvæma hana, enda vorum við ekki komnir á það stigið að fara að leysa öll heimsins vandamál yfir bjór en eins og margir kannast örugglega við, þá gleymast slíkar lausnir fljótt. Hjólin fóru svo fljótlega af stað eftir heimkomu og opnuðum við annarsvegar Facebook-síðu og svo heimasíðu sem DV tókst reyndar að skrifa vitlaust þegar þetta var kynnt þar en aðsetur hennar er: www.projecthundred.com.

En hver er hugmyndin? Hún er frekar einföld á pappír. Við ætlum að fá 100 manns, helst með mini-DV vélar, til að taka upp klukkutíma af tónleikunum á Menningarnóttu í samvinnu við Reykjavíkurborg, og klippa saman í eina mynd sem verður allt að 55-60 mínútur þar sem allir fá að njóta sín. Ekki má slökkva á vélum frá því að byrjað er en á meðan tökum stendur hefur þáttakandinn algjörlega frjálst val um efnistök, sjónarhorn eða annað þó við setjum þær takmarkanri að halda sig innan tónleikasvæðis. Ætlunin er svo í framhaldi að sýna myndina á Skjaldborg og svo á Menningarnóttu 2009 og verður myndin svo í framhaldi aðgengileg á heimasíðunni. 

Þessa daganna erum við í leit að sjálfboðaliðum til að taka þátt í þessu og hafa nokkrir skráð sig og það ánægjulegasta var að fyrsti þáttakandinn var 54 ára gömul kona. Okkar draumur er nefnielga að fá sem mesta breidd í aldri, kyni, störfum, reynslu o.fl. til að ná flóru samfélagsins á bak við vélina. Talandi um reynslu, þá gerum við engar sérstakar kröfur um reynslu, eingöngu um það að fólk komi með sína vél sjálft, við ætlum að skaffa mini-DV spólur sjálfir og stefnum að því að halda kynningu á kvikmyndatöku fyrir þáttakendur þar sem rennt er yfir grunnatriðin.

Ef þið viljið vita meir, þá kíkið endilega á heimasíðuna og skráið ykkur eða sendið spurningar. Ef fólk er ekki viss um vélarnar sínar, þá getum við fundið út hvenrig þær eru. Eins og ég sagði, við viljum helst Mini-Dv til að auðvelda eftirvinnsluna sem verður bilun en ætlum ekki að vera neitt strangir á því, við viljum að þetta gerist frekar en að hengja okkur á smáatriði.

Að lokum þá væri ég mjög þakkláttur ef fólk getur látið áhugasama vita eða jafnvel sett upp auglýsinga-"banner" á síðuna sína en hann má finna hér og stærri útgáfu hér.

 Bið ykkur vel að lifa.

 

 

 


Þjófarnir í Exista hf.

Í dag fékk ég símtal þar sem mér var tilkynnt að ég hafi verið rændur og geti ekki gert neitt nema kyngja því, það væri löglegt. Þetta var þó ekki forstjóri olíufélags sem hringdi til að segja frá nýrri verðhækkun, heldur var þetta starfsmaður Kaupþings sem er eitt af þeim fyrirtækjum sem er í egiu þjófanna sem ég svo kalla: Exista hf. og eigendur þess. En hverju var stolið og hvað meina ég með þessum stóru orðum?

Fyrir nokkrum árum, þegar byrjað var að einkavæða Símann áður en kosningasjóðir gildnuðu og einkavinavæðing hófst af hálfu Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar, þá keypti ég smáhlut í Símanum. Félagi minn af fyrrum vinnustað, hafði ráðlagt mér það þareð alls staðar í heimnum þar sem farið væri í slíkan gjörning með símafyrirtæki, þá hefði það reynst góð fjárfesting. Þennan hlut hef ég átt síðan og haldið fast í, sama þótt kaldrifjaðir menn með blóðsugutennur, íklæddir teinóttum jakkafötum, hafi reynt að hafa hann af mér.

Síðastliðið haust var svo Símanum skipt upp í þrjú fyrirtæki: Skipti og undirfyrirtæki m.a. um grunnet Símans, þið vitið, þetta sem var ekki hægt að aðskilja frá öðrum hluta Símans og hefur gert það fyrirtæki að yfirburða aðila. Hef grun um að það hafi verið nú heiftin hans Davíðs í garð Baugs-fyrirtækja sem réð því að séð var til þess að svo fór. En allavega þá var gengið frá þessu, og Árni Matt sem hefur nú verið einstaklega elskulegur við að hjálpa félögum í flokknum við vafasama hluti og láta þa´sleppa(hvar er t.d. málsóknin gegn olíufyrirtækjunum?), hann gaf að sjálfsögðu vinunum frest fram á vor til að setja Símann eða Skipti eins og það heitir í dag, á markað.

Við það fór ákveðinn gjörningur af stað. Exista sem var meirihluta-eigandi, skellti því á markað í skamma stund til að hafa sagst hafa gert það og Árni Matt sá að sjálfsögðu ekki neitt rangt við það, gamlir félagar hvort eð er. Í framhaldi fóru vampírurnar í teinóttu jakkafötunum sem eiga og stýra Exista hf, af stað. Reynt var að gera hluthöfum tilboð sem þeir gátu ekki hafnað þannig séð, þ.e. þeir ákváðu hvaða verð átti að greiða fyrir hlutinn sem var að manni sýndist lægra en raunverð hluta í Skiptum hf, og ætluðu að greiða fyrir með hlut í sjálfum sér á því verði sem þeir ákváðu að væri réttlátt. 

Ég ákvað að taka þessu tilboði ekki, fannst einstök skítalykt af þessu þar sem þeir greiddu ekki markaðsverð og hafði grun um að Exista væri jafn vafasamt og Lalli Johns í "öryggisúttekt". Grunur minn reyndist réttur, allavega í augum leikmanns, um siðferðisleysi Exista-fólks, þeir ákváðu að nýta sér lögin og stela af mér hlutnum bókstaflega, og fæ ég engu um það ráðið samkvæmt lögum, eitthvað sem kallast "innlausn" á lagamáli. Ætlunin er að ég fái hlutabréf í Exista og ekki einu sinni val um pening, þeir ákváðu það svona sísona. En það er ekki nóg með að þeir hrifsi af mér eigurnar krafti stærðar sinnar, heldur hafa þeir vísvítandi rýrt eigurnar sem maður á að fá í stðainn. Þann 30. maí gáfu þeir út hlutabréf í tenglsum við þessa yfirtöku Skipta og 2. júní ákveður stjórnin sem samanstendur greinilega af rjóma fólks sem stendur jafnvel siðferðislega og Hannibal Lecter þegar kemur að viðskiptum, að innleysa til sín hluta annara m.a. mín. 

Í framhaldi af þessum gjörningi stjórnar þá virðist sem gengi bréfanna um allt að 15% enda skyndilega mun miera í boði heldur en áður, og innlausnin gengur út á það að það eigi að troða inn á mann hlutum i þessu siðblinda fyrirtækis á mun hærra verði fyrir hlutinn en hið raunverulega markaðsvirði er. Ég get því ekki annað séð en að það sé verið að hafa af mér fé og manni veltir því einnig fyrir sér hvort svona einhliða ákvörðun um greiðsluna og þeirra verðmat, hvort þetta sé löglegt. Manni finnst eins og að Jón Ásgeir hafi verið ákærður fyrir svipað þegar kom að 10-11 en sloppið á því að það var ekki inni í lögum(gæti misminnt þó). Allavega skaðast allir þeir sem seldu Exista sinn hlut í Skiptum fyrir og höfðu trú á fyrirtækinu, þeir eru þegar búnir að tapa 10-15% af söluverðmætinu vegna útgáfu þessara hlutabréfa.

Ef maður skoðar úr lagasafni þá stendur m.a. þetta:

" 110. gr. Innlausnarréttur tilboðsgjafa og hluthafa.
Ef tilboðsgjafi og aðilar sem hann er í samstarfi við skv. 100. gr. eignast meira en 9/10 hlutafjár eða atkvæðisréttar í félagi í yfirtökutilboði geta tilboðsgjafinn og stjórn félagsins í sameiningu ákveðið að aðrir hluthafar í félaginu skuli sæta innlausn tilboðsgjafans á hlutum sínum. Sé slíkt ákveðið skal senda nefndum hluthöfum tilkynningu með sama hætti og gildir um boðun aðalfundar, eftir því sem við á, þar sem þeir eru hvattir til að framselja hluthafanum hluti sína innan fjögurra vikna. Skilmála fyrir innlausn skal greina í tilkynningunni. Ef tilboðsgjafi fer fram á innlausn innan þriggja mánaða frá lokum tilboðstímabils skal verð sem boðið var í tilboði teljast sanngjarnt innlausnarverð, nema ákvæði 3. mgr. 103. gr. eigi við.
Sé hlutur ekki framseldur samkvæmt ákvæðum 1. mgr. skal greiða andvirði hans á geymslureikning á nafn rétthafa. Frá þeim tíma telst hluthafinn réttur eigandi hlutar og hlutabréf fyrri eiganda ógild. Setja má nánari ákvæði hér um í samþykktum."

Ekki sé ég að ég fái andvirðið greitt með hlutabréfum úr fyrirtæki sem er á hraðri niðurleið.

Ef maður kíkir svo á lagagreinarnar um misnotkun, þá skal enginn segja mér það fyrir það fyrsta að það hafi ekki veirð búið að ákveða að gera þetta svona fyrirfram, aðdragandinn er það stuttur og ávinningurinn það stuttur :

"117. gr. Markaðsmisnotkun og milliganga fjármálafyrirtækis.
Markaðsmisnotkun er óheimil. Með markaðsmisnotkun er átt við að:
   1. eiga viðskipti eða gera tilboð sem:
   a. gefa eða eru líkleg til að gefa framboð, eftirspurn eða verð fjármálagerninga ranglega eða misvísandi til kynna, eða
   b. tryggja óeðlilegt verð eða búa til verð á einum eða fleirum fjármálagerningum, nema aðilinn sem átti viðskiptin eða gaf fyrirmæli um þau geti sýnt fram á að ástæður að baki þeim séu lögmætar og að viðskiptin eða fyrirmælin hafi verið í samræmi við viðurkennda markaðsframkvæmd á viðkomandi skipulegum verðbréfamarkaði,
   2. eiga viðskipti eða gera tilboð sem byggð eru á tilbúningi eða þar sem notuð eru einhver form blekkingar eða sýndarmennsku,
   3. dreifa upplýsingum, fréttum eða orðrómi sem gefa eða eru líkleg til að gefa rangar eða misvísandi upplýsingar eða vísbendingar um fjármálagerninga, enda hafi sá sem dreifði upplýsingunum vitað eða mátt vita að upplýsingarnar voru rangar eða misvísandi. Þegar fjölmiðlamenn miðla slíkum upplýsingum í krafti starfs síns ber að meta upplýsingamiðlunina með hliðsjón af reglum um starfsgrein þeirra, svo fremi þessir aðilar hljóti hvorki ávinning né hagnist af miðlun viðkomandi upplýsinga með beinum eða óbeinum hætti.
Fjármálafyrirtæki sem heimild hefur til verðbréfaviðskipta er óheimilt að hafa milligöngu um verðbréfaviðskipti hafi starfsmenn þess vitneskju eða grun um að viðskiptin brjóti í bága við 1. mgr."

Nú væri gott að fá álit einhverra sem til þekkja, hvort þetta séu heiðarleg viðskipti bæði löglega og siðferðislega, eðlilega að þessu staðið bæði lagalega og siðferðislega, hvort það sé í lagi að skella hlutabréfum inn á markað sem eru þess til fallinn að rýra hlut eigenda sem hafa látið glepjast af tilboði sem reyndist svo rýra eigur þeirra, og það sem mér finnst líka eitt af aðalatriðunum: Mega þessir sem eru að hafa svona af manni fé með því að troða inn á mann hlutabréfum á yfirverði, ákveða einhliða hvað þeir greiða fyrir innlausn hluta og eihliða ákveðið að sú greiðsla skuli fara fram á hlutum í fyrirtæki sem er á hraðri niðurleið og rýrir greiðsluna?

Svo vonast ég til að fleiri sem lenda í þvi sama og fleiri til, geri það sama og ég ætla að gera, færa öll viðskipti í burtu á næstu mánuðum, frá fyrirtækjum í eigu Exista en þar má nefna Símann sem maður verður feginn að losna við miðað við þjónustuleysi þess, VÍS og Kaupþing. Ég ætla allavega ekki að eyða fé mínu í að auðga fólk sem hefur vísvítandi af manni fé, með klækjum og brellum. Þetta fær mann þar að auki ekki til að hafa áhuga á að leggja fé í fyrirtæki hér á landi og vonandi hefur almenningur vit á því að koma sér í burtu af leikvelli teinóttu hákarlanna, þeir geta bara leikið sér með eigið fé.


Hatursáróðurstæknin Sköpun óvinar

Í síðustu færslu minni þá hugleiddi ég aðeins fordóma Íslendinga í garð múslima, nokkuð sem virtist fara í taugarnar á sumu fólki því í stað þess að ræða það, byrjuðu þessir aðilar að skella inn upphrópunum og hatursáróðri í garð múslima. Líkt og ég sagði þar þá var þetta allt saman kunnuglegt í augum áhugamanns um seinni heimstrjöldina og Helförina, áróðurstækninni sem Göbbels fullkomnaði ásamt Streicher og fleirum, beitt enn á ný og byggir á áróðurstækni sem kallast Sköpun óvinar, sem hefur verið beitt í gegnum aldirnar þegar kemur að stríðum en einnig frá tímum nasista í hatursáróðri og má þar t.d. nefna Rúanda og Bosníustríðið sem góð dæmi um notkun þessarar áróðurstækni.

En hver er þessi áróðurstækni og markmið hennar? Markmið hennar er fyrst og fremst að taka fyrir eitthvað ákveðið mengi fólks, hvort sem það byggist á þjóðerni, trú eða öðrum þáttum, og gera það ómennskt í augum þorra almennings svo það sé réttlætanlegt að fara fram með mismunun eða ofbeldi og í verstu tilfellunum útrýmingarherferð. 

Til að skapa þennan óvin í huga fólks, þá er hamrað á nokkrum skilaboðum aftur og aftur þar til fólk byrjar að trúa því og fer að líta á fólkið með fyrirlitngu og loks hatri sem gerir þeim sem prédika svo, kleyft að beita því fólki til voðaverka gegn "óvininum".

Í stuttu máli þá eru skilaboðin þessi:

  • Óvinurinn er öðruvísi en við-Hamrað er á þessu með tilvísiunum um ólíkan menningarheim, ólíkan hugsunarhátt eða ólíkan kynþátt, sem gerir þá óhæfa til sambýlis við aðra. Þegar fólk byrjar að trúa þessu, þá er auðveldara að sía inn fleiri skilaboð um "vonsku óvinarins".
  • Óvinurinn er alillur frá örófi alda og verður alltaf illur-Hamrað er á þessu oft á tíðum með tilvitinum í söguna, reynt er að tengja t.d. ofsatrú og voðaverk við allan hópinn sem á að herja á, og sú mynd dregin upp að þeir séu djöfullegir í öllu er þeir taka sér fyrir hendur. Ekki er gert ráð fyrir á engan hátt að í þeim leynist gott og að hópurinn sé allur eins og illskan erfist milli kynslóða.
  • Óvinurinn hefur ollið okkur miska áður-Allt er tínt til þegar kemur að þessu, bæði sönn atvik og upplogin þar sem mengið sem skilgreinir "óvininn", er orsök þessara óhæfuverka sem eru hryðjuverk, styrjaldir, barnaníð og allt sem er ógeðfellt. Tilgangur þessara skilaboða er að framkalla fornarlambstilfinningu og reiði hjá fólki í garð "óvinarins". Þannig getur það fundið hjá sér réttlætistilfinningu þegar það beitir "óvininn" rangindum eða ofbeldi, það er að hefna sín fyrir óhæfu hinna.
  • Óvinurinn hefur djöfulleg áform um óhæfuverk í okkar garð í nánustu framtíð-Þessi skilaboð berast í beinu framhaldi af fórnarlambstilfinningunni sem réttlæting á óhæfurverkum, það er einungis verið að stöðva áform "óvinarins" sem geta verið margvísileg og allt frá skipulögðum áformum um að yfirtaka lönd með barnafjölgun og gera þjóðina þar með að minnihluta í eigin landi til skipulagðra glæpa, hryðjuverka eða styrjalda gegn "fórnarlömbum óvinarins".
  • Við erum miklu göfugari en óvinurinn og eigum allt gott skilið sem óvinurinn ætlar sér að taka frá okkur-Þetta eru mikilvæg skilaboð sem spila oft á tíðum inn á þjóðerniskennd og upphafningu hópsins sem áróðrinum er ætlað að ná til. Ætlunin með þessum skilaboðum er ekki aðiens að upphefja fólkið heldur einnig gera óvininn að slíkri ógn, að óhæfuverk framin gegn honum eru ekki illverk heldur nauðsyn til að "vernda hina göfugu siðmenningu okkar" sem "óvinurinn" í illsku sinni stefnir að eyðileggingu á og hefur komist upp með hingað til vegna "umburðarlyndi og göfugmennsku okkar".
  • Óvinurinn er sameinaður gegn okkur svo við verðum að vera sameinuð einnig. Allir þeir sem reyna að koma í veg fyrir þá sameining, eru verkfæri óvinarins-Þarna er verið að þjappa hópnum saman í baráttunni en einnig sem er mjög mikilvægt í þessum skilaboðum, að allir þeir sem dirfast að mótmæla eða efast um hina algjöru illsku "óvinarins" eru allt frá því að vera kallaðir nytsamir sakleysingjar eða naivisitar til þess að vera svikarar við þjóð, kynþátt, trúna eða annan faktor sem hinn sameinaði hópur "okkar" fellur undir.
  • Þetta er lokauppjgörið og ef við losnum við óvninn þá bíða okkar betri dagar-Í flestum öllum hatursáróðri þá má sjá þessi skilaboð koma fram fyrr eða síðar, og í margskonar formi allt frá því að hagur fólks vænkist um leið og hópurinn hverfur frá landinu til þess að geryeða þurfi honum. Hamrað er á að "óvinurinn" sé heilagri krossferð eða stríð gegn okkur svo dæmi sé nefnt, og þetta geti orðið okkar síðasta tækifæri til að stöðva "óvininn", annars líði "siðmenning okkar "undir lok.

Það er vert að hafa þessa hatursáróðurstækni í huga þegar talað er um hvað hinn eða þessi hópur séu slæmir samfélaginu, og spyrja sig hvort verið sé að kynda undir andúð í garð þessa hóps. Að sama skapi þá verðum við að gera ákveðna kröfu til okkar sjálfra, að vera gagnrýninn á hvað er verið að matreiða ofan í okkar og í hvaða tilgangi, sérstkalega þegar offlæði upplýsinga réttra og rangra, finnst á veraldarvefnum. Þar má finna allskonar hatursáróðurs, misvel falinn og misvel gerðan, sem ætlað er til að skapa fordóma og hatur. Varast verður svo að draga ályktanir og alhæfingar um hópa út frá gjörðum örfárra og gæta sín að glepjast ekki af hatursáróðrinum þó hann hljómi sannfærandi í eyrum fólks vegna einmitt gjörða smábrots af hópnum sem verið að "demonisera".

Studdi mig við þessa stórgóðu grein við skrifin en einnig má benda fólki sem vill lesa sér meira til um þessa tækni, að það má finna nokkrar ágætis grenar um þetta og bækur þar sem hatursáróðurinn er krufinn með sögulegum dæmum. Að lokum bendi ég á að kíkja á þetta stórgóða vefsvæði þar sem áróður nasista er varðveittur og mæli með að renna yfir áróður gegn gyðingum og hafa Sköpun óvinar í huga.


Fordómar, Íslendingar og múslimar

Fyrir ekki svo löngu síðan, þá sagði systir min mér sögu úr starfi sínu sem kennari af starfsfélaga sínum sem hafði starfað í ónefndum skóla. Eitt af fögunum sem sá kenndi börnum í yngri kantinum, var trúarbragðafræði. Einn daginn þegar nálgaðist að fjalla um Íslam, þá komu boð heiman frá foreldrum eins drengsins. Foreldrarnir heimtuðu að honum yrði vikið úr tíma á meðan fræðsla um Íslam færi fram því þau vildu ekki að krakkinn lærðii um djöfullega mannvonskutrú eða hvernig sem það var aftur orðað af hálfu foreldranna. Boðað var til fundar við foreldranna af hálfu skólastjóra og kennarans til að reyna að tala við þá um að þetta væri eingöngu fræðsla um aðalatriði allrar trúarbragða í heiminum en ekki trúboð og bent á að þetta væri smáhluti af námsefninu sem kæmi til prófs. Hvorki gekk né rak í rökræðum við foreldranna og var drengnum vikið úr tíma að þeirra kröfu og gerður hálfgerðu viðrini í augum skólafélaganna fyrir að eiga svona "klikk" foreldra. En ekki bitnaði þetta bara á drengnum, heldur einnig á tveimur skólasystrum og leikfélögum hans, þær voru nefnilega múslimar og þarna fengu þær allt í einu að heyra að þær væru eitthvað öðruvísi og vondar manneskjur, án þess að hafa hugmynd hvers vegna.

Þessi saga flaug upp í hausinn á mér þegar ég las komment nýverið sem settur var við færslu hjá bloggvini mínum. Þar tjáði íslensk kona sem er múslimi um fyrir það fyrsta hvað fólk væri fáfrætt um íslam, bað það að hætta að alhæfa og hætta að segja fólki hverju því trúir, sem er í raun skoðun þess sem skrifar en ekki þessarar konu til að mynda. Að sjálfsögðu tók sig til aðili og fór að reyna að segja henni að hennar trú væri vond en ekki er ætlun hjá mér að fara út í þá sálma heldur annað sem mér þótti umhugsunarvert.

Í fyrsta innleggi þessarar konu, þá lauk hún innleggi sínu á þessum nótum::

"Friður sé með ykkur og megi aukin manngæska ríkja hér á landi.

P.S. Ég kem ekki fram undir nafni af ótta við samlanda mína. Þannig er Ísland orðið."

Ég veit ekki með aðra en mér finnst orðið það frekar óhuggulegt að fordómar séu orðnir svo miklir að þeir í garð múslima hér á landi, að þeir óttist að koma fram undir nafni vegna hræðslu við samborgara sína. Manni hefur fundist nóg um stanslausan hatursáróður sem er básúnað á mörgum bloggum, spjallsíðum og vefjum þar sem básúnað er af fylgismönnum öfga-kristinna og öfgahægrimanna, að allir múslimar séu illskan uppmáluð. Því miður virðist þetta vera virka sem og annars staðar í Evrópu þar sem uppgangur hægri-öfgamanna sem eru af sama meiði og öfgaklerkarnir í hinum íslamska heimi eru. Á Ítalíu þykir ástandið farið að minna á uppgang fasista Mussolinis þar sem ofsóknir af hálfu stjórnmálaafla og fylgismanna þeirra sem tilheyra fasista-öflunum, eru óhugnanlega líkar ofsóknum sömu afla gegn gyðingum fyrir stríð. 

Hér á landi er þó ekki ástandið orðið svona en það líður varla sá dagur að maður sér ekki skrifað hér á bloggum og spjallvefjum, hvað múslimar eru vondir og hjá mörgum er enginn greinarmunur gerður á öfgamönnum og venjulegu trúaðu fólki. Stanslaust er hamrað á því til að óvinagera fólk og reynt að draga upp sem djöfullegasta mynd af öllum þeim sem iðka þá trú. Frasar á borð við að þeir geti ekki aðlagast samfélögum, haldi hópinn, meðhöndli allar konur illa, séu villimenn, glæpamenn morðingjar og reynt að tengja trú þeirra við barnaníð. Því miður hljómar þetta allt saman kunnuglegt í eyrum áhugamanna um seinni heimstyrjöldina og Helförina, því þetta eru nákvæmlega sömu frasar sem nýttir eru til að kynda upp hatur og spilað á ótta fólks, og nasistar beittu gegn Gyðingum en þar var einmitt einnig vitnað oft á tíðum í Talmudinn um illsku gyðiniga þegar á þurfti. Sami áróður glumdi m.a.s. hér á landi þegar Morgunblaðið og Vísir hömuðust gegn gyðingum og bendi ég fólki að skoða það nánar úr þessum blöðum til samanburðar við þær áróðurstrumbur sem barið er á nú gegn múslimum. 

En hvað veldur þessum fordómum hér á landi? Hverjar eru ástæðurnar? Ég hef verið aðeins að velta því fyrir mér því ekki erum við þjóð sem múslimar hafa verið til vandræða né staðið í illdeilum við. Þvert ámóti höfum við frekar kynt undir illindi í þeirra garð með stuðningi okkar við ólöglega innrásarstríðð í Írak sem er líklegast eitt mesta óþverraverk þáverandi valdhafa hér á landi og þó lengra væri litið eða allt til áranna fyrir seinni heimstyrjöld þar sem íslensk stjórnvöld vísuðu gyðingum frá landinu í opinn dauðan í Þýskalandi, á sama tíma og foringjum nasista var haldið heimboð. En já, að þessum upphafsspurningum, hver ætli ástæðan sé? Mögulega er það einhliða, gagnrýnislaus og neikvæður fréttaflutningur þar sem æsifréttamennskan ræður ríkjum og fyrirsagnirnar festast í kolli hins venjulega sleggjudæmandi Íslendings sem gefur sér lítinn tíma til þess að kynna sér málin. Fréttir eru nefnilega skyndibiti í dag, fyrirsagnir og rétt svo rennt yfir mál og ekki gefin nægileg sýn inn í atburði né frekari vitneskja boðin fram frá ólíkum sjónarmiðum þar á bæ. Stórmál kláruð á 3-4 mínútum og með heppni þá mæta tveir spekingar til að þjarka í Kastljósi í 10 mínútur þar til snúið er að hljómsveitarkynningu

Annar möguleiki er sá að á þessum tímum þá hefur á margan hátt fáfræði aukist að manni finnstog gagnrýnin hugsun hefur verið hægt og sígandi farið halloka þegar kemur að því að kynna sér hlutina. Aróður er álitinn trúverðug heimild líkt og sjá mátti með áróðursmyndina FITNA sem var kynnt sem "heimildarmynd" líkt og Triumph of the will hennar Leni Riefenstahl forðum. Kannski tengist þetta menntun, að hún sé svo léleg í dag að fólk kunni ekki lengur að vindsa úr ótrúverðugum heimildum þegar kemur að fjölmiðlum og þeirri ofgnótt af upplýsingum sem hægt er að nálgast á internetinu og eru margar hverjar einhliða eða vafasamar. Maður hefur m.a.s. séð vitnað til heimasíðna "skinheads" samtaka sem"hiemilda" í rökræðum og þá finnst manni það illa komið fyrir fólki ef slíkt er tekið trúverðugt.

Þriðji möguleikinn sem mér dettur í hug að tengist þessu, er þessi innbyggði ótti Íslendinga og örugglega fleiri þjóða, við allt hið óþekkta. Við bjuggum í einangrun til fjölda ára þar sem einu útlendingarnir sem oft sáust voru danskir kaupmenn sem seldu okkur maðkétið mjöl og svo nokkrir Fransmenn sem voru jafnvel drepnir ef þeir ösnuðust til að stranda á skeri af hræddum mug(ef sú saga er rétt) við útlendingana. Síðustu öld náðum við að komast út úr torfkofunum en að sama skapi þá vildum við sem þjóð ekki sjá þá sem voru öðruvísi, svetringjar voru ekki æskilegir á Keflavíkurflugvöll samkvæmt beiðni stjórnvalda og Kaninn var að stela konunum okkar samkvæmt ofurhræddum karlmennum með minnimáttarkennd og uppfullir ótta. Í gegnum tíiðna hefur svo meðal-Íslendingur alltaf þurft að finna sér eitthvað til að óttast í formi útlendings, allt frá Kananum til Asíbúa og núna í dag eru það múslimar og innflytjendur.

Að lokum ætla ég að ljúka þessum hugleiðngum í bili með því að segja eitt. Einn aðili sem gengið hefur um bloggsíður og talað um vonsku Kóransins og múslima, hefur spurt m.a. hvort ég hafi lesið Kóraninn. Nei, það hef ég ekki gert nema brot hér og þar og ekki hef ég heldur lesið Biblíuna alla né Talmúdinn eða önnur helgirit að öllu og er trúlaus í dag. Aftur á móti geri ég mér fullkomna grein fyrir einu, að allan texta er hægt að taka úr samhengi, allan texta er hægt að túlka að vild og allan texta er hægt að nota til að réttlæta bæði hið góða og hið illa.

Svo er það hugarfar viðkomandi einstaklings sem skiptir máli því mikill meirihluti trúaðs fólks, óháð trúarbrögðum, er að tilbiðja hið góða og finna þar frið með sjalfu sér til að rækta kærleik, hvort sem það eru kristnir, múslimar, hindúar, Vottar Jehóva, búddistar o.fl. Þeir sem við eigum að berjast á móti eru öfgamennirnir hvort sem þeir eru að misnota trúna til að réttlæta óhæfuverk eða öfgamenn sem reyna að kynda undir hatur á minnihlutahópum með því að spila á ótta fólks og vanþekkingu og reyna að búa til sundrungu og hatur sem bitnar yfirleitt á, líkt og í þessari sögu minni fyrst, á þeim sem eiga það ekki skilið: sakleysingum.

Frábið mér svo alla kommenta með tilvitnunum í trúarrit þar sem verið er að beita þessu áróðurstrixi sem ég minntist á ,með að taka orð úr trúarritum til að demonisera alla þá sem tilheyra þeim.


Um bloggið

AK-72

Höfundur

AK-72
AK-72
Með óþrjótandi áhuga á kvikmyndum, sögu og stjórnmálum.Telur sig hafa fullt frelsi til að hrósa og gagnrýna hvern sem er og hvenær sem er.
Júní 2008
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Nýjustu myndir

  • ...1212_913482
  • ...ner1_568492
  • ...rad-banner1
  • Screenshot

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.10.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband