Færsluflokkur: Bloggar
2.8.2007 | 11:21
Atvinnumótmælendurnir í SUS
Eitt af teiknum þess að verslunarmannahelgi nálgast eru hin hefðbundnu mótmæli atvinnumótmælandana í SUS niður á skattstofu og mótmæla fyrir hönd peningaaflanna. Í ár hafa þeir þó sýnt smá bragarbót og áttað sig á því að það er ekki sérlega vinsælt að veitast að gamalmennum með ofbeldi þó þeir haldi áfram að hindra lögbundið aðgengi fólks að álagningarseðlum og brjóti þar með á rétti fólks. Svo furðulega vill til að þótt þeir séu þarna með ólögleg mótmæli og dólgslæti, þá mætir lögreglan ekki á svæðið og handtekur þá líkt og meðlimi Saving Iceland, jafnvel þótt SUS-ararnir séu með ofbeldi og dólgslæti gagnvart fólki líkt og önnur götugengi.
Þegar maður fer svo að hugleiða mótmæli, baráttumál og yfirlýsingar SUS í gegnum tíðina þá man maður varla eftir öðru en að þeir séu fyrst og fremst að hugsa um hagsmuni fyrirtækja, harðsvíraðra og miskunnarlausra peningamanna og græðigisvæðingar í þjóðfélaginu. Ef eitthvað er þá er minnst hugsað um hag einstaklingsins hjá þeim og almennings og hræsnin verður augljós í orðagjálfri þeirra um "frelsi einstaklingsins" og öðrum hugtökum sem þeir lærðu eins og aðrir pólitískir páfagaukar. T.d. þetta með skattamálin, þá fara þeir yfirum á því að einhver skuli geta skoðað álagningu gjalda, tala um viðkvæmar persónuuplýinsgar en sjá svo ekkert að því og þegja þunnu hljóði þegar fyrirtækjum er gert kleift að safna persónulegum upplýsingum til notkunar gegn einstaklingum(heilsufars-upplýsingar, skoðanir o.fl.). Svo er nú andstaða þeirra við afnám launaleyndar frekar með fyrirtækjunum en einstaklingnum. Er ekki verið að skerða rétt einstaklinga og málfrelsi með að banna þeim að tjá sig um launin sín og réttindi einstaklingssins til að hafa sömu laun og sambærilegur starfskraftur á borðinu við hliðina? Er ekki málið að stuttbuxnaliðið telur að fyrirtækjafasismi eigi að ríkja þar sem fyrirtækin geta haft algjör völd en einstaklingurinn engin?
Svo eru nú málin sem tengjast hagsmunum almennings og SUS dælir út yfirlýsingum út af. Þeir vilja koma t.d. auðlindum landsins í hendur örfárra manna á fákeppnismarkaði sem hefur skilað sér vel eða hitt þó hingað til. Þar er ekki verið að hugsa um hag almennings eða heldur SUS virkilega að mönnum eins og Kristni Björnssyni og félögum sé treystandi fyrir sanngjarnri og heiðarlegri samkeppni á fákeppnismarkaði á t.d. orku, vatni og öðru? Nei, þarna eru þeir eingöngu að tísta fyrir hagsmuni peningamanna en ekki almennings og berjast í leið gegn samkeppniseftirliti því fyrirtæki eigi að vera hafinn yfir lög og geti séð sjálf um að vera heiðarleg.....yeah, right. Ef fyrirtækjum er ekki veitt aðhald, þá munu þau líkt og önnur rándýr notfæra sér tækifærið til að svindla, svína og vera óheiðarleg ef þau telja sig komast upp með það.
Svo eru það baráttumálin: bjór í verslanir og fela tekjur auðmanna. Hmmm, er ekki eitthvað skrítið við þetta? Eru þetta ekki einhver smámál miðað við margt annað sem mætti laga í þjóðfélaginu? Hvar er t.d. yfirlýsingar um að vernda þurfi einstaklinga frá persónunjósnum fyrirtækja? Hvenær skyldu þeir lýsa yfir að það að herða þurfi refsingar vegna brota á Samkeppnislögum og hvetja til eflingar þeirra svo fyrirtæki komist ekki upp með að okra í fákeppninni? Hvers vegna ætli þeir þegi svo þunnu hljóði þegar ráðherra þeirra brýtur á einstaklingi með ráðningu annars óhæfari í stöðu? Og hvað með mannréttindamál? Ekki heyrast píp í þeim yfirleitt t.d. þegar kemur að því að mótmæla Guantamano, ólöglegu fangaflugi CIA og pyntingum heldur verða þeir frekar vitlausir yfir því að álagningarseðlar séu lagðir fram og jafnvel hvetja til þess að börn verði lögð í einelti vegna fátæktar foreldra, fyrst þetta sé leyfilegt. Maður getur ekki annað en velt fyrir sér siðferðiskennd þessara "einstaklinga" sem allir hljóma eins og virkar eins og klónaher með sömu innantómu frasana og handahreyfingarnar. Sumir þeirra verða þar að auki alveg brjálaðir yfir mótmælum gegn fyrirtækjum sem menga og brjóta lög en sjá svo ekkert að því að fyrirtæki tengist grófum mannréttindabrotum og stríðsglæpum og tala jafnvel um að það sé alveg í góðu lagi á meðan viðkomandi fyrirtæki hagi sér ekki svona hér á landi.
Að lokum legg ég til að SUS breyti nafni sínu yfir í SAF sem útleggst þannig Samtök Atvinnumótmælanda Fyrirtækja, og að hver sá sem leggur leið sína niður á skattstofu, kíki á tekjur þeirra í SUS og birti opinberlega. Miðað við æsinginn í þeim á hverju ári, þá hljóta þeir að hafa eitthvað að fela.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
31.7.2007 | 10:04
Þjónusta íslenskra ferðaskrifstofa
Nú er maður kominn heim eftir mestmegnis vel heppnaða sumarleyfisdvöl á Krít. Maður náði góðri afslöppun í steikjandi hitanum ásamt því að ferðast um aðeins á þessari heillandi eyju sem virðist vera almennur búsetustaður vinsamlegs fólks og ýmislegt þar í fari Krítverja sem Íslendingar ættu að taka til fyrirmyndar í viðmóti sem og hegðun s.s. kurteisi í umferðinni, stressleysi og þjónustulund.
Einn var þó galli með ferðina og það var íslenski hlutinn sem er þjónustu Úrvals-Útsýnar sem við fórum með. Óánægjan með þjónustuna, hófst eiginlega fyrir brottför þegar hópurinn lenti í veseni með pöntunina þar sem þeir klúðruðu reikningsgerðinni og á endanum þurfti maður að borga meir og m.a. maðurinn sem hélt að hann væri búinn að fullgreiða ferðina. Skiljanlega varð hann hálffúllyfir þessu en út héldum við samt án þess að vera með eitthvað vesen.
Í vélinni á leiðinni út kom þó næsta atriði sem við settum spurningamerki við. Farið var með leiguflugi frá Iceland Express í 6 klst. flug til Krítar og á leiðinni var boðið upp á samlokur og drykki sem maður þurfti að GREIÐA fyrir. Ég veit nú ekki með aðra en mér finnst það hálfklént að geta ekki boðið upp á mat, þó það væri ekki nema 2 samlokur og vatn, í svona langri og dýrri ferð. Þó IE hafi haft þetta svona í áætlunarflugi sínu, þá finnst manni lágmark að ferðaskrifstofurnar reyni að hafa þetta öðruvísi í leiguflugi. Nógu er ferðin dýr fyrir og þarna er verið að henda burt smáþjónustu sem er ánægjuaukandi til að spara krónur og aura, sérstaklega þar sem ég efast um að Sóma-samlokur og vatnsflaska frá Vífilfelli sem maður borgaði 400 kr. og 200 kr fyrir, séu eitthvað dýrar í innkaupum né 200 kr. Nissað sem sumir fengu sér til þess að lifa flugferðina af.
Heill lenti maður þó eftir þrönga flugferð og haldið á hótelið sem var reyndar í okkar tilfelli toppstaður. Enginn fararstjóri fór þó með okkur heldur var einungis afhentir bæklingar með helstu upplýsingum og símanúmerum til að ná i fararstjóra o.sv.frv. Staðurinn sem maður var á, var nú soldið frá aðalborginni sem Íslendingar voru í, og svo sem truflaði mig ekkert þó þetta væri svona. Aftur á móti furðaði maður sig á því hvað ferðir á vegum ferðaskrifstofanna væru mun dýrari en þeirra innfæddu þegar maður skoðaði verð enda varð fátt um svör þegar við skutum aðeins á fararstjóra með þetta. Reikna þó með að það sé ekki neitt frá þeim heldur frá fyrirtækinu sjálfu sem þessi mikla álagning kemur á ferðir
Persónulega hef ég nú eiginlega ekkert út á fararstjórnina að setja enda varð maður lítið var við hana nema í ferðinni til eyjunnar Santorini þar sem hún var mjög hefðbundin og ekkert út á hana að setja. Þar mætti skoða þó ferðatilhögun til og frá eyjunnar þar sem farið var með hraðferju sem hefur líklegast verið notuð til gripaflutninga hingað til, miðað við þrengsli, lélegrar loftræstingu, útsýnisleysi og almenn óþægindi.
Eitt atvik blótuðum við þó fararstjóranum fyrir og það var þegar við fengum bílaleigubíl. Við höfðum beðið um stóran bíl til að hafa aðeins rúmt um okkur þegar við héldum í skoðunarferð til Knossos og stefnulausa keyrslu um eyjuna til skoðunar. Þegar út á bílastæðið var komið, stóð þar þessi litli Ford Focus sem við böðluðumst okkur inn í, við miklar vinsældir eins manns sérstaklega sem vildi helst brenna bílinn eftir ferðina. Eftir á hyggja er ég ekki viss um þó að þetta sé fararstjóranum að kenna, gæti veirð bílaleigan, en manni hefði þótt þægilegra að vita af þessu fyrirfram.
Svo kom að heimferðinni sem var frekar óþægileg flugferð í miklum þrengslum fyrir alla, í anda fangafluga CIA. Þar var það sama upp á teninginnn, matur drykkur seldur og klikkelsi hjá áhöfninni með það að slökkva ljósin til að leyfa fólki að sofa, þetta var jú næturflug. Maður lifði þennan hryllinga af með herkjum og verkjum í hálsi, herðum og dauðum löppum. Slær samt ekki óþægilegstu flugferð sem ég fór með, til Dublin með íslenskri ferðaskrifstou og leiguflugi, þar sem ég þurfti að borða samlokuna í vélinni með uppréttar hendur og hallandi haus vegna þrengsla sem m.a. voru það slæm, að lappirnar snertu ekki gólfið. Ég þurfti nefnilega að vera með hnén beygð og spyrnt í stólbakið fyrirframan til að geta "setið" þarna. Litli svertinginn sem sat við hliðina á mér var líka á þeim nótum að aðstaða forfeðra sinna í Amistad hefði verið skárri, þar hefðu menn allavega getað teygt úr löppunum.
Þegar heim var komið þá var maður þó í heildina einstaklega sáttur með Krít þrátt fyrir þessa íslensku hnökra og sérstaklega efitr að maður fór að bera bækur sínar saman við litlu systur sem fór með annari ferðaskrifstofu(ætla ekki að nefna hana nema að kvörtunarbréfið beri engan árangur) til Rhodos þar sem hótelið virtist hafa verið helvíti á jörð og fátt staðist sem stóð i bæklingnum. Svo maður taki nokkur brot úr lýsingum hennar þá var ströndin sem átti að vera þarna samkvæmt bæklingnum hinum megin á eyjunni, hótelið reyndist vera þriggja stjörnu en ekki fjögurra eins og auglýst var, íslensku fararstjórarnir reyndu að telja fólki trú um að það væri grískt að heita vatnið kæmi úr bláa krananum og það væri einnig grísk venja að halda á sturtuhausnum yfir sér og því væru ekki neinar festingar fyrir hann og hálfa fæðið reyndist frekar vera vafasamt, afgreitt af slöppum veitingastöðum í kring og í matsal sem minnti meira á biðstað fyrir fangaflutninga til Guantamano eða Auschwitz með glugga og loftleysi . Auk þess var víst þjónusta hótelsins fyrir neðan allar hellur, t.d. áttu samlokur og ís að vera frítt fyrir börnin en þegar starfsfólkið var spurt um það, var hreytt út úr sér að þar sem þau væru Íslendingar þá væru þau nógu rík til að kaupa það sjálf, þrif eftir hentisemi, kakkalakkar í heimsókn og margt annað í þeim dúr. Við bættist svo að bílaleigubílar sem búið var að panta, voru ekki þeir sem beðið var um og lofað heldur einhverjir smábílar sem afgreiddir voru frá bílakirkjugarðinum sem bílaliegan var staðsett við, af 10 ára gutta.
Maður prísaði sig sælan eftir þessar og fleiri lýsingar frá systur minni, með ferðina en maður veltir fyrir sér í framhaldi hvernig þjonustan er orðin hjá ferðaskrifstofum hér í dag. Ég hef ekki farið skipulega ferð í gegnum ferðaskrifstofu í ca. 10 ár en áður fyrr man ég ekki betur en að flugferðirnar hafi verið mun þægilegri, boðið upp á mat og drykk endurgjaldslaust og fararstjórn sem og annað framkvæmt af metnaði. Er þetta kannski afleðing af samþjöppun á þessum markaði þar sem meir virðist eytt í það að hafa veglega yfirbyggingu þar sem ferðum er prangað inn á fólk, frekar en að veita almennilega þjónustu og tryggja að vesen verði ekki með eins og hótel, bílaleigubíla o.sv.frv. Held að þessir aðilar ættu að velta því svo fyrir sér hvort það sé ekki betra að græða ekki eins mikið á hverri seldri ferð, í stað þess að eltast við að spara smáaura á stöðum þar sem kúninn finnur fyrir því.
Eða er þetta bara normið í dag um allan heim og nokkuð sem allir eiga að sætta sig við í fríum sínum?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.7.2007 | 11:27
Starfsmannastjórinn frá helvíti
Fyrir nokkkrum vikum síðan, skrifaði ég blogg sem ég kallaði Avinnuviðtöl frða flei helvti. Þar lýsti ég m.a. reynslu minni úr nýlegu atvinnuviðtali þar sem starfsmannnastjórinn hafði verið að velta sér upp úr heilsu- og holdafari mínu. Þetta viðtal varð uppspretta umræðu í vinahópnum og fólk átti ekki orð yfir þessu en allavega einn vinur minn hafði nú lent í einu biluðu. Sá sem sá um ráðningamál eins fyrirtækis, heimtaði að hann kæmi með heimilistölvuna sína svo hægt væri að athuga hvort hún væri nothæf fyrir vinnu.
Ég væri samt ekkert að minnast á þetta aftur, ef ekki kæmi til að þetta hefði breyst í smá framhaldssögu. Ég hafði algjörlega afskrifað þetta fyrirtæki en var samt farinn aðeins að mildast gegn því enda hafði fólk sem ég þekki og treysti, og þekkir til þarna, sagt mér að þessi maður væri bara svona og ég ætti ekkert að dæma fyrirtækið eftir því. Mikið væri af góðu fólki þar og ekki slæmt að vinna þar. Reyndar heyrði ég svo í vini mínum segja sem hafði unnið þarna, segja að smáhluti yfirmanna þarna skorti ýmislegt upp á, þegar kæmi að mannlegum samskiptum við undirmenn. Það er reyndar alls staðar hjá fyrirtækjum sem eru í stærri kantinum, margir yfirmenn eiga ekki að vera með mannaforráð eða eiga í samskiptum við fólk, heldur hafa komist áfram á því að vera sparkað upp út af öðrum orsökum.
En nóg um það, fyrirtækið birti aðra auglýsingu þar sem sama starf var auglýst aftur og ég hugsaði með mér feginn að ég væri laus allra mála og var farinn að gleyma þessu nema ef ekki kæmi til að fyrir tveimur vikum síðan, er ég í fríi heima. Ég hrekk upp með andkvælum um 10 leytið við það að síminn hringir í frekjutóni og ég ákvað að stökkva á fætur og grípa símann enda hafði ég gefið veiðileyfi á mig frá vinnunni ef það kæmi upp neyðarástand varðandi eitt verkefni. Ekki var það svo, heldur var þetta starfsmannastjórinn illræmdi sem náði mér þarna milli svefns og vöku. Hann byrjaði nú að spjalla við mig rosalega kammó og smeðjulega, og kom svo að aðalatriðinu, að þeir væru að taka seinni skorpu í ráðningum(yeah, right, hafa örugglega ekk fengið umsóknir hugsaði ég) og hvort ég vildi koma í viðtal. Ég jánkaði og OK-aði mig í gegnum þetta enda heilinn ekki byrjaður að geta hugsa. Að lokum endaði samtalið á mjög fölskum og slepjulegum buddy-nótum af hans hálfum með tilheyrandi gæsahúð fyrir mig. Eftir að símtalinu lauk stóð ég svo út á gólfi og barði hausnum í vegg og hugsaði hvað í andskotanum var ég að gera og segja?
Eftir að ég fór að vakna betur og byrjaður á mrogunverkunum:fá mér kaffi, lesa blöðin og leyfa páfagauknum að tæta þau í sig í leiðnni, þá var ég nú þó kominn á það stig að maður ætti nú að láta slag standa og mæta bara í viðtalið. Þetta yrði líklegast hjá öðrum og maður þyrfti nú ekki líkt og fólkið sem þekkti til þarna, að eiga samskipti við þennan mann nema kannski einu sinni á ári. Þetta var allavega orðinn niðurstaðan ef ekki hefði gerst eitt, ég fékk annað símtal síðar um daginn.
Símtalið var frá meðmælanda mínum og góðum félaga. Eftir blaður um hitt og þetta, þá kom hann sér að efninu, hann hafði fengið símtal frá einhverjum að spyrja út í mig. Reyndist það þá hafa verið þessi margræddi starfsmannastjóri og meðmælandi minn sagði mér frá samtalinu svo. Eftir að það haffði byrjað á almennu nótunum um mig, þá kom að aðalefninu sem má lýsa þannig í samtalsformi:
"Hann hafði miklar áhyggjur af því að þú værir einhleypur" Dauðaþögn í símanum.
Ég:"HA???"
Meðmælandi(eða M): Já, það var aðallega í sambandi við það hvort þú hefðir rænu á því að fara í bað"
Ég:"Þú ert að grínast"
M:"Nei,nei,ég er ekki að djóka"(Síðustu tvær línurnar endurteknar nokkrum sinnum í viðbót og svo eftir næstu uppljóstrun")
M(bætir við):"Svo spurði hann einnig um hvort þú passaðir upp á það að skipta um föt og þvo þau reglulega"(Endurtekning á síðustu tveimur línum á undan í mikilli vantrú)
Ég gat ekki annað en hlegið af mikilli undurn eftir þetta, hristi hausinn og sagði vá, hvað þessi maður er bilaður. Svo sagði meðmælandi minn að hann hefði veirð byrjaður að finnast þetta óþægilegt þar sem starfsmannastjórinn var mikið að pumpa hann um þetta. Lauk svo samtali okkar á spjalli um áhugamálin o.fl.
Mér fannst þetta svo ótrúlegt að ég gat ekki annað en sagt mínu fólki frá þessu sem varð vitlaust af hlátri og fékk ég svo margar áskoranir um það að mæta í viðtalið með diktafón, jafvnel lyktandi eins og mykjuhaugur í gömlum sveitalörfum með hjálm á hausnum og páfagaukinn á öxlinni. Þetta var allavega orðinn nógu mikill farsi fyrir til að réttlæta múnderinguna.
Svo kom boðun um viðtal frá yfirmanni þarna í tölvupósti í síðustu viku. Ég var þá á þeim nótum að vera ekkert að standa í þessu lengur og vera ekki að eyða tíma mínum sem og annara í svona bull en samt var þó efi í mér hvað skyldi gera, hvort ég ætti að mæta og kannski hundsa þetta framferði. Þrýstingur frá fólki sem þekkir til var nú ekki til að gera ákvörðunina einfalda og einnig orð vinar míns sem sagði að ef ég vildi ná mér í reynslu í tengslum við þetta starf, þá gæti ég kyngt stoltinu, farið og þraukað þarna í nokkra mánuði og komið mér svo annað, liti betur út á CV að hafa starfað þarna. Eftir að hafa kannað baklandið og ráðfært mig við mína nánustu ráðgjafa í þessum her sem umkringir mig, þá ákvað ég að svara póstinum daginn eftir.
Um kvöldið var mikið hugsað og bylt sér í rúminu þar til maður sofnaði. Um morguninn var ég enn í smávafa en þá kom lítill púki sem settist á öxlina á mér og kallar sig víst Sjálfsvirðingu. Hann sagði mér að ég ætti e.t.v. erfitt með að líta í spegil ef ég myndi kyngja þessu eins og hverjum öðrum skít og láta koma svona fram við mig. Réttlætiskenndin bættist einnig við ásamt fleiru inn í þessar innri umræður og að lokum settist ég niður og skrifaði kurteislegt svar til þessa yfirmanns og sagði honum sólarsöguna og að ég væri ekki beint spenntur fyrir að vinna hjá þeim eftir svona framferði hvort sem ég var undantekning eður ei, allavega sem stendur og lauk bréfinu á því að segjast hvorki vilja afsökunarbeiðni né frekari samskipti við þennan starfsmannastjóra framar. Bætti svo við í lokin að málinu væri lokið af minni hálfu og mér þætti þetta frekar fyndið í öllum fáránleik sínum.
Kannski var þetta röng ákvörðun eður ei, að láta ekki koma fram svona við sig og svara fyrir sig en hvort sem er þá ver ég sáttur við hana. Ekki veit ég þó hvað þessum manni gekk til, hvort hann var að þessu til að geta boðið mér verri laun, eða hvort þetta sé hans hugsunarháttur og hann álitið að bangsalegi maðurinn sem ég er, væri þessi týpa sem léti alla vaða yfir sig og svaraði aldrei fyrir sig. Held þó að þetta hafi ekki verið viðbrögðin sem búist var við af mér
Hver sem ætlun hans var, þá tókst honum eitt þó. Svo maður vitni nú í orð japanska aðmíralns sem sá um árásina á Pearl Harbour, þá vakti hann einungis upp sofandi dreka í mér og slík kvikindi eru yfirleitt ftilbúinn í stríð ef við þeim er stuggað illilega og þau vakin upp af værum blundi. Spurning þó hvort drekinn í mér nái ekki að sofna aftur, hann er búinn að fá að bíta aðeins frá sér.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.6.2007 | 12:03
Paris Hilton, bandarískir og íslenskir fjölmiðlar
Eihver skrifleti hefur þjáð mig upp á síðkastið, bæði út af góðu veðri og svo miklum önnum. Samt er ekki eins og maður hafi ekki viljað setjast niður og buna út úr sér áliti manns á skandölum Gunnars Birgis, vitneskju íslenskra stjórnvalda um fangaflug CIA og svo óvænt framhald af blogginu mínu um atvinnuviðtöl frá helvíti(reikna með að skrifa um það e.t.v. í næstu viku þar sem þeim farsa er ekki enn lokið).
En þó til að koma sér í gírinn, þá er nú eitt sem manni langaði til að koma á framfæri. Ég sem og fleiri, eignðumst nýja hetju í gær: fréttakonuna Mika Brzenenski sem fékk nóg og neitaði að flytja aðalfrétt dagsins og reif hana. Hvaða frétt var það? Jú, Paris Hilton-skrípaleikurinn en Mika fannst þetta út í hött þegar mun mikilvægari fréttir voru látnar bíða. Það var loksins að einhver fréttamaður sagði nóg og ekki lengra.
Þessi farsi er búin að vera fáránlegur og flestallar, ef ekki allar sjónvarpstöðvar í BNA hafa orðið að athlægi vegna umfjöllunar. T.d. var CNN með teljara á hvenær Paris yrði látin laus og beina útsendingu líkt og um heimsviðburð væri að ræða. Come on, er það virkilega heimsviðburður að forrík og gerspillt dræsa(finn ekki betra orð yfir hana), fari í fangelsi í smátíma og sé látin laus. Það eina sem manneskjan hefur gert sér til frægðar er að láta taka myndband af sér í rúminu og vera erfingi auðæva. Er þessi manneskja og hennar lestir virkilega meiri fréttir en t.d. Írakstríðið, sprengjufundir í London o.fl., skýrsla ESB um fangaflug CIA o.fl.? Ég held að það hefði heyrst eitthvað hér, ef allir fjölmiðlar hér, hefðu verið að velta sér dag eftir dag upp úr fallinni Idol-stjörnu, og varla birt fréttir um ríkistjórnarmyndun t.d. eða hvað?
Þetta leiðir nefnilega hugann aðeins að íslenskum fjölmiðlum og hvort þeir séu nokkuð betri. Persónulega finnst mér þeir yfirleitt mun skárri en þessi fréttamennska hér að ofan en eitt er þó gagnrýnisvert strax og það er hvað fréttirnar eru yfirborðskenndar. Oft á tíðum þá eru yfirborðskenndar, stuttar fréttir um mál sem maður vill meira um, valdamenn fá að vaða áfram með vafasamar fullyrðingar án þess að íslenskir fréttamenn hjóli í þá og svo þegar stórmál eru farin að verða vandræðaleg fyrir valdhafa, þá er eins og þeir bakki í burtu eftir viku og reyni að finna eitthvað nýtt til að fjalla um, i þeim tilgangi að láta fólk gleyma og styggja ekki valdhafa meir.
Ef ég tek sem dæmi um yfirborðsfrétt sem ekki er kafað í, þá er það skýrsla ESB um fangaflugið og Ísland, enginn fjölmiðill hefur haft rænu á því að kafa ofan í þann hluta skýrslunar. Annað dæmi um fullyrðingagleði sem enginn spyr út í er t.d. mútuásakanir Davíðs Oddsonar(frægasta smjörklípan hans) og svo vandræðaleg mál eru t.d. Byrgis-málið þar sem komið hafði í ljós að 6 ráðherrar og nokkrir þingmenn höfðu hylmt yfir gríðarmiklu fjármálamisferli. Annars staðar væri þetta fólk e.t.v. á leið í fangelsi eða hefðu sagt af sér, en hér kóuðu fjölmiðlar með.
Talandi um Byrgis-málið og fjölmiðla, þá líklegast kristallaðist íslensk fjölmiðlun gagnvart valdhöfum, í einni frétt RÚV. Þar stóðu fréttamenn í hóp líkt og þægir hundar á meðan ráðherrar sem tóku þátt í yfirhylmingunni strunsuðu framhjá án þess að blaðamenn reyndu að spyrja þá. Loks kom einn ráðherra og henti í þá smá kjötbita til að þeir gætu farið ánægðir í burtu án þess að spyrja gagnrýnna spurninga. Ömurleg sýn en einhvern veginn var þarna allt samankomið sem hrjáir íslenska fréttamenn:of mikil virðing fyrir valdhöfum, meðvirkni, leti og þjónkun við valdið.
Vonandi birtast íslenskir Bernstein og Woodward einn daginn og bjarga íslenskri fjölmiðlun frá þessum aumingjaskap. Verst er að þegar einhverjir gera góða hluti hér(undantekningartilfellin), þá grípa aðrir blaðamenn og flokkshundar athugasemdalaust fullyrðingar frá valdhöfum, um að viðkomandi fréttamenn séu með annarlegar hvatir og séu í eigu Baugs, Samfylkingarinnar eða séu hluti af stóru samsæri andstæðinga sinna í pólitík.
Hérna er svo linkur á YouTube þar sem Mika fær nóg.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.6.2007 | 17:09
Hryðjuverkaáras á almenningsamgöngur hhöfuðborgarsvæðisins
"Hryðjuverkaáras var gerð á almenningsamgöngur höfuðborgarsvæðisins þann 3. júní með þeim skelfilegu afleiðingum að fjöldi gamalmenna, barna, öryrkja, innflytjenda, ferðamanna o.fl. geta ekki komist lengur um borgina með auðveldum hætti. Komið hefur í ljós að margir eru fastir á elliheimilum sem og öðrum stöðum við vondan kost og hafa ættingjar né björgunarmenn ekki getað komið þeim til hjálpar.
Heimldir segja að hryðjvuerkasamtökin Ex-Dueda standi á bak við ódæðið en það eru samtök öfgasinnaðra hægri hryðjverkamanna er stefna á því að leggja velferðarkerfi sem og þjónustu við almenning í rúst svo hægt sé að koma af stað öfgafrjálshyggjuríki þar sem guð þeirra Mammon verður dýrkaður alla daga og allir þegnar verða neyddir til að gera ríkustu prestana ríkari og mega engar tilfinningar sýna nema græðgi."
Þessi frétt flaug í hausinn á mér þar sem ég stóð á biðstöði eftir strætó, nýkominn frá tannlækninum og rétt missti af þremur vögnum sem keyrðu í halarófu. Þar sem ég hafði misst af þeim öllum sem komu á sama tíma, þýddi það að ég þurfti að bíða í hálftíma í viðbót til að komast aftur í vinnuna. Þessi ferð til tannlæknisins þennan dag hafði nefnielga þar að auki kostað auka hálftíma í vinnutap vegna þess að ég þurfti að grípa strætó mun fyrr en venjulega til að komast til tannsa þar sem ég kom 20 mínútur fyrir bókaðan tíma. Ástæðan er einföld, þessar arfavondu og ömurlegu breytingar sem gerðar voru nú síðast og þetta er bara eitt dæmi sem ég hef lent í með strætó eftir breytingar
Þessar breytingar hafa greinilega verið allar gerðar til þess að gera almenningsamgögnurnar verri, óskilvirkari og gera fólk argara út í strætókerfið sem var á réttri leið þar til Sjálfstæðisflokkurinn fékk yfirráðin nú. Fjandinn hafi það, ekki var ég hrifinn af R-listanum en þeir voru allavega á réttri leið með kerfið. Núna er allt saman óþjálla og verra, líkt og verið sé að undirbúa það að koma almenningsamgöngum sem og öðru sem í samfélaginu í hendurnar á samviskulausum og ómennskum fulltrúum græðginnar sem hugsa eingöngu um sinn vasa en ekki bætingu þjónustunnar.
Á sama tíma koma fulltrúar þessara talibönsku einkavinavæðingarafla og segjast vera bæta þjónustuna....jahá. Er verið að bæta þjónustuna með því að skerða hana og gera verri og óþægilegri fyrir þá sem nota? Heldur Gísli Marteinn sem og félagar hans, að strætónotendur séu heimskir? Maður getur ekki annað en spurt. Svo koma fleiri aumar afsakanir eins og að fáir noti strætó á sumrin en ef þeir hefðu rýnt í tölur hjá strætó, þá hefðu þeir séð aukningu á farþegafjölda síðasta sumar sem bendir til aukinna tækifæra.
Svo í framhaldi munu þeir fara að tala um það að enginn noti strætó og því sé best að leggja niður eða einkavinavæða vegna þess að þeim sé betur treystandi fyrir rekstri en hinu opinbera. Ekki munu þeir taka neina ábyrgð á því að þeir frömdu hryðjuverkaárás á kerfið og hafa stundað það vísvítandi að eyðileggja það í annarlegum tilgangi.
Bloggar | Breytt 15.6.2007 kl. 17:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.6.2007 | 20:04
Umræðan um bifhjólamenn vs. aðra ökumenn, umferðin o.fl.
Félagi minn sem er bifhjólamaður er búinn að vera frekar fúll í dag yfir þessu slysi sem gerðist í nótt. Annarsvegar er það út af þessum ofsaakstri sem ekki er réttlætanlegur og svo hinsvegar út af viðbrögðum hjá fólki í tengslum við þetta atvik gegn öðrum ofsaakstri.
Eftir að hafa skoðað ábendingu frá honum um hvernig fólk tekur á tveimur mismunandi fréttum hér, get ég ekki annað en tekið undir það hvað fólk getur verið hræsnisfullt stundum. Viðbrögðin við bifhjólaslysinu eru þau að margir keppast við að lýsa frati á þessa bifhjólamenn, þeir kallaðir illum nöfnum og sumir í umræðu hér sem og annars staðar fullyrða að hætti Íslendinga, og sleggjudæma alla bifhjólamenn sem ökuníðinga.
Á sama tíma birtist frétt um það að franskur ferðamaður ekur á ofsahraða til að ná fluginu sínu og er stoppaður af löggunni til allrar hamingju áður en slys hlýst af. Viðbrögðin eru annars konar, þeir fáu sem blogga um þetta atvik gera grín að þessu, tala um flugbíla eða fyrirsögnin sé fyndin á meðan örfáir velta upp alvarleikanum með kannski einni setningu og búið. Engar fullyrðnigar um að allir Frakkar eða fólksbílanotendur séu ökuníðingar fylgja ólíkt því sem er slengt framan í bifhjólafólk.
Maður veltur fyrir sér hvers vegna þessi viðbrögð eru, er það út af því að ekkert slys varð eða eru þau út af því að fólk finnist það frekar í lagi að keyra hratt á bíl? Á ekki að fordæma bæði atvikin á sama hátt sem og annan ofsaakstur? Og hvers vegna að stimpla heilan hóp út af bjánaskap lítils minnihluta?
Þekkjandi nokkra bifhjólamenn og konur, þá býst ég fastlega við að þau líkt og félagi minn, séu frekar reið yfir þessu, ekki bara því að vera stimpluð út frá hegðun annara heldur einnig yfir því að menn skulu haga sér svona eins og þessir tveir ökumenn í nótt. Flest allir bifhjólamenn eru passasamir ökumenn og heiðarlegt fólk, en líkt og með aðra minnihlutahópa, þá er alltaf blásið upp þegar einhver brýtur af sér og restin stimpluð sem óþokkar. Er það ekki soldið langt gengið?
Persónulega er reynsla mín úr umferðinni sem gangandi vegfarandi á þann veg að ég er í mun meiri hættu frá bílum en bifhjólum. Maður heyrir allavega í þeim langar leiðir, þeir virðast geta litið í kringum sig ólkt mörgum bílstjórum og reyna ekki að keyra niður gangandi fólk fyrir það eitt að nenna ekki að hægja á sér þegar kemur að gangbraut(sá ökumaður skuldar mér einn skósóla) svo maður nefni sem dæmi. Tillitsleysi fólks á bílum gagnvart gangandi vegfarendum hefur aukist og mættu nú margir líta t.d. í eigin barm áður en þeir fara að gagnrýna aksturslag annara hvort sem þeir eru að reyna að taka niður einn á hjóli á jeppanum sínum, eða svína fyrir aðra bíla án þess að gefa stefnuljós.
Ef fólk getur ekki sýnt smá tillitsemi gagnvart gangandi fólki, fólki á reiðhjólum eða bifhjólum sem og öðrum bílum vegna stress, of hárrar tónlistar, frekju eða vegna þess að þeir telji typpaframlenginuna(jeppinn, BMW t.d.) veita þeim forréttindi í umferðinni, þá á það að skila inn skirteininu og taka strætó. Þetta á þó við minnihluta hóps ökumanna sem þó fer stækkandi því miður, og mega allir þeir sem sýna kurteisi í umferðinni eiga góðar stundir.
Ef ekki, þá neyðist ég til að fara að ganga með haglabyssu til að stöðva bíla þegar ég fer yfir næstu gangbraut.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.5.2007 | 13:10
Fjölmiðlar og fordómakynding
Ég hef alltaf gaman af því að velta fyrir mér fréttaflutningi af ýmsum málum, skoða hvernig þeir setja fram fréttir og hvað þeir segja eða segja ekki.
Eitt af því sem ég hef tekið eftir er hvernig fréttaflutningur er þegar kemur að þegar neikvæðum samskiptum, glæpum og öðru slíku í sambandi við útlendinga og hvernig fréttir eru matreiddar þar. Tökum sem dæmi fyrst það að RÚV fyrir nokkrum árum minntist á það að kastast hefði í kekki milli tveggja unglingahópa og einhverra hluta vegna tóku þeir það sérstaklega fram að annar hópurinn hefði verið asískur að uppruna, án þess að það kæmi í raun fréttinni sem slíkri við því ekkert var minnst á það að öðru leyti að litarháttur eða uppruni hefði verið orsök átakanna.
Svo nú síðasta haust, þá kom fréttaflutningur af nauðgunartilraun A-Evrópubúa og fréttir af glæpum tengdar útlendingum. Þessu var slegið fram á forsíðu með stríðsletri og æpandi fyrirsögnum um að útlendingar væru að fremja glæpi. Á sama tíma var konu af erlendu bergi brotið nauðgað af Íslendingi en ekki var því slegið fram á forsíðu með stríðsletri og uppruna glæpamannsins né fórnarlambsins. Nei, maður þurfti að lesa fréttina alla til að komast að því að hún var ekki héðan. Greinilega ekkert fréttnæmt við það að Íslendingar nauðga, kannski vegna þess að Íslendingar eru á bak við meirihluta nauðgana hér á landi.
Framhaldið þekkja flestir, þetta var notað svo í pólitískum tilgangi og sem hræðsluáróður gegn útlendingum þar sem sleggjudómar Íslendinga og útlendingahræðsla fengu útrás í blöðum, á öldum ljósvakans og í sumum tilfellum í framkomu gagnvart saklausu fólki af erlendu bergi brotið.
Svo kom i morgun fréttir um barsmíðar helgarinnar og innan í Fréttablaðinu mátti finna vel falda frétt um það að Litháa hefði verið misþyrmt illilega, í miðri fréttinni. Ég fór þá að velta fyrir mér fyrir að ef það skyldi koma fram að honum hefði verið misþyrmt af Íslendingi, ætli það verði risafyrirsögn í öllum fjölmiðlum:"Litháa misþyrmt af Íslendingi!"? Einhvern veginn held ég ekki. Ef aftur á móti að Íslendingur fengi í það minnsta kinnhest frá útlending þá yrði það sett fram sem stríðsfyrirsögn af viðkomandi fjölmiðlum, það er ég nokkuð viss um.
Fyrirsagnir sem þessar og fréttaflutningur í þessum dúr er til þess fallinn eingöngu, að kynda undir fordóma og gefa fordómafullum einstaklingum vopn til þess að nota í hræðsluáróður. Í framhaldi af því má velta því fyrir sér hver er ábyrgð fjölmiðla? Geta þeir verið stikkfríir og sagt eingöngu að þeir hefðu verið að flytja fréttir? Eða eru þeir eingöngu búnir að gleyma því að orð bera ábyrgð, sérstaklega skoðanamótandi orð líkt og fjölmiðlar bera á borð fyrir okkur?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.5.2007 | 20:22
Fyrsta álit á ríkistjórninni
Þegar ég stóð í kjörklefanum í kosningunum þá var ég búinn að ákveða að kjósa annað hvort VG eða Samfylkinguna. Báðir flokkar höfðu sem stefnu sína mörg mál sem ég var sammála, og í mínu kjördæmi var þar gott fólk efst á blaði:hin efnilega Katrín Jakobs og einn albesti þingmaður landsins, Jóhanna Sigurðardóttir. Ákvörðunin var erfið svo ég dró djúpt andann og ákvað að merkja við þann flokk sem undirmeðvitundin og eðlisávísunin sögðu mér að væri betra valið í þetta sinn.
Kosningarnar fóru eins og þær fóru og svo kom að stjórnarmyndun eins og flestallir vita. Svo í gær fór að sjá fyrir endann á þessu og leist mér ágætlega á þó að helmingurinn af krabbameininu sem hefur verið síðustu 12 árin við völd sé enn til staðar. Þetta leit samt ágætlega út þar sem Samfylkingin hafði öll spil á hendi sér og hafði alla burði í að geta náð góðri stöðu.
En ekki fór svo eins og maður vonaði. Þegar byrjuðu að berast fréttir af ráðherrum og ráðuneytum, runnu á mig tvær grímur. Sjálfstæðisflokkurinn virtist enda með flest mikilvægustu ráðuneytin og budduna þar að auki sem ég hafði vonast og búist við að Ingibjörg tæki nú að sér, enda húsmæðrum yfirleitt betur treystandi fyrir slíku en dauðyflislegum skrifstofublókum. En nei, Ingibjörg ákvað frekar að taka að sér ráðuneytið sem maður þarf bara að muna að segja já við óskum Bandaríkjamanna í, og vildi greinilega ferðast. Það hýrnaði þó aðeins yfir mér að sjá að allavega að umhverfisverndarsinnin Þórunn fékk draumastarfið og hún Jóka fengi félagsmálaráðuneytið og kæmi allavega öryrkjum og öldruðum undir verndarvæng sinn, frá frjálshyggjupjakknum sem fór í heilbrigðismálin, áður en hann tæki smá Kobba kviðrista á þessa þjóðfélagshópa og græðgisvæddi kerfið. Fékk það á tilfinninguna að ef maður myndi lenda í aðgerð næstu fjögur árin, þá væri best að telja öll líffæri eftir, það gæti svo farið að eitthvað yrði selt upp í kostnað.
Einhvern veginn fannst mér þó hlutur Samfylkingarinnar frekar klénn miðað við ráðuneytaskiptingu og sérstaklega þar sem þurfti að skipta iðnaðar- og viðskiptaráðuneytunum upp, starfi sem einn ráðherra hafði haft með áður og fannst eiginlega verið að gefa í skyn að fyrri ráðherrar hefðu greinielga verið tveggja manna makar og unnið allan sólarhringinn, sem ég stórefast um.
Svo byrjuðu óljósar fréttir að berast af málefnasamningnum og sumar ískyggilegar og óhugnanlegar, þ.e. að Sjálfstæðisflokkurinn fengi Íbúðarlánasjóðinn í krumlu sína og gæti fengið tækifærið sitt til að ganga af honum dauðum fyrir hönd bankana. Klukkan 11 í morgun þá kom stóra stundin, samningurinn kynntur og ákvað þá einn vinnufélagi minn að fylgjast með útsendingunni og stuttu seinna átti ég leið framhjá skrifstofunni hans og slóst í hópinn Við fylgdumst með og þetta leit ágætlega út:barnamálin, málefni aldraðra, uppstokkun á landbúnaði en svo byrjuðu að koma atriði sem fengu okkur til að líta á hvorn annan eða hrista hausinn.
Í það fyrsta má nefna stóriðjumálin, mikið hitamál í vinnunni, þar sem Geir tók sérstaklega fram að ekkert yrði skrúfað fyrir stóriðjuna ef hún væri með leyfi og talað um rammaáætlun um náttúruvernd sem ætti að rumpa af á tveimur árum. Einhverra hluta vegna passaði þetta nákvæmlega við það að eftir tvö ár er planið að byrja að byggja álver á Bakka. Tilviljun? Held ekki.
Svo kom annað atriði sem við vinnufélagarnir urðum orðlausir og það var þegar hið ólöglega og viðbjóðslega Írakstríðið var harmað. Ég fékk það þá stórlega á tilfinninguna að Jón Sigurðsson sæti þarna dulbúinn sem Ingibjörg Sólrún því þetta hljómaði nákvæmlega eins: stríðsreksturinn harmaður í innihaldslausu hjali, ekkert frekar um fordæmingu og aðgerðir til að draga til baka stuðning okkar við stríðið eða rannsóknir á gjörðum þeirra sem tóku ákvörðunina, og í anda Framsóknarmanna var talað um að ekki ætti að horfa til fortíðar heldur framtíðar. Gat nú ekki annað en hugsað, ætli þetta hafi líka verið sagt í tengslum við gjörðir nasista eftir seinna stríði lauk?
Eftir þetta fór maður og settist þögull við skrifborðið þar sem maður las yfir stefnuyfirlýsinguna og maður tók meir og meir eftir hversu mikil hægri stjórn þetta verður og ýmislegt loðið t.d. sem gaf fyrirheit um aðgerðarleysi í sjávarútvegsmálum og að jafnvel einkavæðing í orkugeiranum gæti orðið á dagskrá.
Mér var farið að líða eins og ég væri staddur í bærilegum draumi sem væri að breytast i martröð og kvíði nú mjög fyrir framtíð undir stjórn þessarar hægri stjórnar því Samfylkingin virðist hafa látið margt fjúka fyrir ráðherrastóla og völd, m.a. sum stefnumál, mál sem varða hagsmuni almennings eins og Íbúðarlánasjóð og heilbrigðismál, og siðferðislegt stórmál eins og Írakstríðið sem margir(ég þar á meðal) eru enn reiðir yfir og munu ekki fyrirgefa Samfylkingunni fyrir að hafa lúffað eins og lúbarinn hundur í.
Einn ljósan punkt sá ég þó eftir allt saman: eðlisávísunin lét mig krossa við VG. Ég væri annars berjandi hausnum við vegg næstu fjögur árin fyrir að hafa kosið Samfylkingunna og ekki öfunda ég þá sem það gerðu og líður svipað og ég.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
19.5.2007 | 11:24
Stjörnustríð, strumpar og stjórnarslit
Þessa daganna keppast formenn og stuðningsmenn stjórnmálaflokkana við að benda á hvorn annan um hver sprengdi stjórnina og sumir grenja eins og verstu smákrakkar yfir því að fá ekki nammi á sunnudegi, þegar nammidagurinn er nýbúinn.
Einhverra hluta vegna leiddu þessi harmakvein og þras stjórnmálamanna, til tveggja mun áhugaverðari, áhrifameiri og skemmtilegri rifrilda sem maður hefur lent í. Það fyrra átti sér stað þegar ég var krakki og gerðist ca. ári eða tveimur eftir að maður upplifiði Star wars í fyrsta sinn. Ég rölti út til að leika mér og kom þar að tveimur leikfélögum mínum frekar æstum sem stóðu og öskruðu á hvorn annan. Deiluefnið var það að annar stóð í þeirri trú að Svarthöfði hefði drepist í endann á Star wars en hinn benti (réttilega) á að geimflaugin hans hefði einfaldlega laskast og hún þotið stjórnlaust út í geim. Ég var þá spurður út í hvort væri rétt og ég svaraði eftir bestu vitneskju og e.t.v. einnig það að mér líkaði betur við annan, að Svarthöfði hefði drepist. Þetta endaði með látum og margra daga fýlu á milli okkar strákanna og gott ef ekki einvherjir fleiri drógust inn í þetta. Loks kom að því að málið leystist þegar einn var búinn að gleyma rifrildinu og bankaði upp á hjá okkur hinum og spurði hvort maður vildi vera memm, málið dautt. Stuttu síðar sáum við svo Star wars aftur og allir sammála um að geimflaugin hefði þotið í burtu. Næst rifrildi um Star wars fór svo fram mörgum árum seinna um Boba Fett og hvort hann hefði drepist en það er önnur saga....
Hitt eftirminnanlega rifrildið hófst í partý fyrir ca. 5-6 árum. Við sátum þar nokkur og spjölluðum og samtalið leiddi að Strumpunum og ákveðinni Strumpabók. Í þessari bók þá hafði gamli Strumpurinn strumpast eitthvað í burtu og einn strumpur var strumpaður upp í það hlutverk að strumpa yfir hinum strumpunum í staðinn(gat bara ekki staðist að rifja upp strumpa-tal). Fljótt fór þetta nú að snúast út i rifrildi um það hvort strumpurinn sem gerðist einræðisherra í staðinn fyrir gamla strumpinn, hefði verið kallaður Æðsti strumpur eða Yfirstrumpur, og þar á móti hvort nafnið sá gamli hefði verið kallaður. Um þetta var þrasað í örugglega klukkutíma og að lokum röltum við út á djammið.
Þar sem við gengum niður í bæ, hélt rifrildið áfram og að lokum þá var einhver sem snéri sér við að fólki sem gekk á eftir okkur og spurði hvort þau vissu þetta. Enginn hafði hugmynd um þetta og þegar við gengum í burtu þá heyrðist fyrir aftan okkur að fólkið var byrjað að kýta um þetta einnig. Við aftur á móti fórum stuttu síðar að tala um annað og steingleymdum þessu. Ég hef þó góðan grun um að þetta hafi orðið að farandsrifrildi í bænum þetta kvöld og hver veit, kannski startað blóðugum slagsmálum, stíað í sundur hjónum og næstum því sprengt ríkistjórnina daginn eftir.
Þetta leiðir hugann þá aftur að stjórnarslitunum og rifrildum um það hver beri ábyrgð og hver sveik hvern. Eftir nokkra daga þá verður þetta gleymt og grafið því það skiptir engu máli eftir smátíma þegar ný ríkistjórn er kominn og sú staðreynd stendur eftir að stjórnin hætti og allir verða vinir aftur. Hver veit, kannski setjast þau öll í forystu flokkana og horfa á Star wars-myndirnar í röð og rífast um hversu svalur/ömurlegur Boba Fett er eða hómó-erótískt samband Han Solo við gangandi teppi? Það væri allavega mun skemmtilegra rifrildi á milli þessa fólks heldur en tuðið og biturðin í þeim þessa daganna.
Að lokum, ef einhver á umrædda Strumpabók, þá væri ég til í að fá á hreint hvað strumpa-einræðisherrann var kallaður og hvað sá gamli hét. Veit að það eru örugglega þó nokkuð margir sem vilja fá það á hreint núna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.5.2007 | 10:51
Atvinnuviðtöl frá helvíti
Síðustu vikur hefur fjöldinn allur af fólki keppst við það að sækja um vinnu og reynt að selja sig á sem bestan hátt, vitandi það að á morgun verður gengið frá ráðningu í 63 störf og nokkrar aukastöður aðeins seinna. Hæfni eða vanhfæni virðist ekki skipta suma máli heldur aðeins í hvaða klíku þeir eru eða hvernig þeir koma fram fyrir sjónir fyrst og fremst og jafnvel einn hefur verið ráðinn fyrir að vera hálfgerður trúður á vinnustaðnum. Líkt og annars staðar þá bíða sumir í von og óvon um að verða ráðnir, aðrir telja að þeir séu pottþétt komnir með vinnu næstu fjögur árin á meðan sumir eru úrkula vonar um það, sérstaklega eftir að atvinnurekandinn sem er að ráða, hefur lýst mikilli óánægju með þá og vinnubrögð síðustu árin.
En nóg um það, þetta leiðir hugann að eigin atvinnuviötðlum sem maður hefur lent í og ólíkt því sem gerist á morgun, þá er það nú þannig að atvinnurekandinn eða fulltrúi hans, er einnig að koma fram með fyrstu ímynd af fyrirtkinu sem launþeginn fær. Í flestum tilfellum þá eru viðtöl kurteisisleg og báðir aðilar reyna að sýna sitt besta en þó hefur maður lent í viðtölum sem eru furðuleg, pínleg og jafnvel hrikaleg fyrir launþegann.
Ég á mér nokkur slík í gegnum tíðina og langar að deila reynslunni með ykkur lesendum sjálfum mér til sáluhjálpar og öðrum til viðvörunar um hvað þeir geta lent í, þó þetta sé hollt og gott og að auki fær maður ekki vinnuna yfirleitt.
Fyrsta dæmið er frá stofnun þar sem ég var boðaður í viðtal sem fór fram síðla dags. Þegar ég mætti á svæðið og var vísað inn í lítinn fundarsal beið mín heill flokkur fólks sem taldi 5 eða 6 manns. Vanalega lendir maður á einum til tvemur en þarna virkaði þetta eins og yfirheyrslunefnd hjá bandaríska þinginu og þegar viðtalið var komið af stað, þá fékk ég þá tilfinnngu að bráðum kæmi spurningin:"Are you or have you ever been a memeber of the Communist Party?" a la McCarthy. Þessi heila móttókunefnd sem sá um viðtalið leystist svo upp í kjaftavaðal þar sem meirihlutinn fór að blaðra um vinnuslúður við hvort annað fyrir utan einn sem reyndi að fylgjast með og konu sem vildi þjarma að mér illilega með því að spyrja oft reiðilega hvað væri stærsti persónulegi gallinn í mínu fari.
Annað eftirminnanlegt sem innihélt fjölda fólks, er þegar ég sótti um aðstoðarlagerstjórastöðu hjá einu fyrirtæki. Þar var manni vísað inn í fundarsal og sátu þar fjórir menn, þrír við borð og maðurinn sem kom í ljós að maður ætti að e.t.v. að starfa með, hafður út í horni þar sem hann sagði ekki orð allan tímann. Viðtalið byrjaði ósköp eðlilega og manni boðið upp á Ópal með vatnsglasinu sem ég þáði með þökkum. Spurningarnar voru ósköp hefðbundnar nema það að mér var alltaf boðið upp á Ópal reglulega og var farið að líða meir eins og í neytendakönnun heldur en atvinnuviðtali. Loks þegar ég afþakkaði í eitt skipti, þá var sagt með ákafa:"Hva, viltu ekki meiri Ópal?". Mér var farið að líða þá eins og ég væri annað hvort í einhverri Pavlovískri tilraun og átti von á raflosti í gegnum sætið eða þá að markaðsfræðingarnir hefðu loks komist að niðurstöðu að menn borðuðu ekki nema visst mikið af Ópal á fundum. Ekki fékk ég þetta starf hvort sem það var út af of lítilli Ópal-neyslu eða ekki.
En þá að einu hrikalegu. Ættingi minn útvegaði mér viðtal á opinberri stofnun sem þykir ekki ein sú vinsælasta hér á landi. Þar var mér visað inn till starfsmannastjórans sem var frekar kuldalegur í viðmóti fannst mér og svo byrjaði ballið þar sem spurningar komu frá honum sem voru svona upp og ofan. Svo ákvað ég nú að koma á framfæri nokkru sem mér fannst mikilvægt að hann vissi, að ég væri ekki með bílpróf út af slæmri sjón, nokkuð sem hefur ekki að öðru leyti áhrif á vinnu mína og viðbrögðin við því voru svakaleg. Starfsmannstjórinn hellti sér yfir mig og hreytti skít út úr sér ásamt því að öskra á mig hvernig ég ætlaði að komast á milli staða ef með þess þyrfti(starfið innihélt að skjótast í eitt útibú ef það væru einhver stórvandræði en 90-95% innanhús starf að öðru leyti, tók ca. 10 mínútur með strætó og svo eru nú leigubílar til) og mátti helst skilja á honum að ég ætti ekkert að vera að sækja um störf því svona fólk eins og ég væri ekki æskilegt á vinnumarkaði. Ég var hreinlega í losti þegar ég gekk út og leið eins og skít, ekki beint gaman að heyra það að maður sé lægra en allt sem skríður á jórðinni fyrir það eitt að vera með smáfötlun sem maður lifir einfaldelga með. Reyndar prófaði ég svo samt síðar að hringja og tékka hvort ég hefði fengið starfið og kallhelvítið hnussaði bara, sagði nei og skellti á mig.
Svo að lokum kemur viðtal sem ég fór í nýverið. Það byrjaði alveg þokkalega, fulltrúi atvinnurekandans kom vel fyrir og spurningar hefðbundnar og leit út fyrir að vera á allan hátt týpískt viðtal þar til kom að Milljón Króna spurningu þessa aðila, sem getur vel verið að sé hreinlega ólögleg og hljomaði svona: Hvað heldurðu að þú sért mikið veikur á hverju ári? 'Eg svaraði henni án vitneskju um hvort þetta væri leyfileg spurning og svaraði því að líklegast væri það um tvær vikur. Það var eins og ég hefði varpað sprengju því maðurinn varð fyrir losti og byrjaði að tala um að það væri óeðlilegt að maður í yngri kantinum(er nú hálfnaður á ellihemilið) væri veikur 5% ársins og byrjaði svo að yfirheyra mig hvaða heilsubresti ég ætti eiginlega við að stríða því þetta væri svo óeðlilegt og virkaði eins og ég hefði tilkynnt um krabbamein, berkla eða AIDS. Eftir að hafa bent honum á að oftast nær væri þetta vegna ofkælingar í tengslum við núverandi starf, með tilheyrandi kvefi og hálsbólgu, þá hélt hann samt áfram, sannfærður greinielga um það að ég væri langlegusjúklingur á barmi dauðans og reyndi að veiða upp úr mér meir um heilsufarið.
Loks fór hann að tala um að ég væri búttaður og ég yrði að hugsa um skrokkinn á mér sem ég svaraði tl að ég væri nú í formi enda gengi ég mikið. Hann hélt þó áfram og ég var byrjaður að fá hugmynd að sketchu í hausinn þar sem hann færi nú að sýna mér vöðvana í Schwarzenegger pósu eftir að hafa rifið skyrtuna utan af sér, og talandi með austurískum hreim:"Ja, you feel my muscles!". Svo breyttist viðtalið aðeins í normal heit þar til í endann að það var komið aftur inn á heilsufarið sem viritst greinilega að manni fannst, vera helsta ráðningarskilyrði fyrirtækisins.
Fyrir utan staldraði ég við og spáði í því hovrt fyrirtækið væri annað hvort eins og spartnesk nýlenda þar sem menn kepptust við að vera með vöðvapósur alla daga og þeir starfsmenn sem hnerruðu væri hent til úlfana í kjallaranum. Að auki datt mér í hug hvort fyrirtækið væri að leita að fólki til að rækta ofurmenni úr sem yrði hluti af her ofur illmennis með heimsveldisplön. En ég ákvað að hvíla slíkar hugsanir og tók mér klukkutíma göngutúr í góðu veðri enda kannski sama eftir viðtalið og hvernig það fór, hvort ég fái vinnu þarna eður ei.
Góðar stundir!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Um bloggið
AK-72
Tenglar
Borgarahreyfingin
Kvikmyndir og því tengt
- Heimildarmyndaklúbburinn Hómer Félagskapur sem hittist til að drekka í sig fróðleik og bjór á þriggja vikna fresti
Project 100
- Heimasíða Project 100 Viltu vera einn af 100?
Bloggvinir
-
don
-
soleys
-
tharfagreinir
-
sigurgeirorri
-
neddi
-
smali
-
omnis
-
nanna
-
baldurkr
-
siggi-hrellir
-
gorgeir
-
paul
-
geimveran
-
skari60
-
semaspeaks
-
vest1
-
thj41
-
gudrunlilja
-
zeriaph
-
siggisig
-
gudbjorng
-
svatli
-
athena
-
ace
-
ragnarb
-
einarolafsson
-
amadeus
-
brell
-
thorsaari
-
tbs
-
vilhjalmurarnason
-
patent
-
jennystefania
-
drum
-
folkerfifl
-
larahanna
-
ragnar73
-
hildurhelgas
-
ladyelin
-
sigurduringi
-
sij
-
hedinnb
-
valgeirskagfjord
-
hehau
-
baldvinj
-
jonarnarson
-
olinathorv
-
saemi7
-
agustg
-
ingaragna
-
liljaskaft
-
astajonsdottir
-
reisubokkristinar
-
lehamzdr
-
sparki
-
malacai
-
leifur
-
evaice
-
gus
-
tryggvigunnarhansen
-
kjarri
-
vistarband
-
fun
-
einari
-
spurs
-
annaeinars
-
gattin
-
kaffistofuumraedan
-
launafolk
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.4.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar