Færsluflokkur: Bloggar

Hvar er Árni Johnsen?

Aftan á Blaðinu í dag var stór heilsíðuauglýsing frá Sjálfstæðsimönnum á Suðurlandi þar sem þeir stilltu upp helstu stjörnum sínum.....nema Árna Johnsen. Ég fór að hugsa þá hvar er Árni Johnsen og hvers vegna þora Sjálfstæðismenn ekki að sýna hann í auglýsingum eða tefla honum fram á fundum?

Til að mynda hefði verið allavega verið flott að tefla honum fram í stað Árna Matt í umræðum um efnahagsmál þjóðarinnar þar sem Árni Johnsen virðist hafa meira vit og tilfinningu fyrir fjármálum ríkisins, hvernig eigi að meðhöndla skattpeningana og hvernig eigi að svara hlutum. Fjandinn hafi það, páfagaukurinn Nonni úr litla Sjálfstæðisflokknum(sumir kalla þann flokk Framsókn, aðrir Umsókn) sem sat við hliðina á Árna Matt í sjónvarpsal kom betur út en Mattinn.

Miðað við hvað þeir lögðu mikið kapp á að gera hann kjörgengan á ný, hröðuðu gegn syndaaflausninni með uppáskrft helstu forkólfa Sjálfstæðisflokksins á meðan Óli forseti var vant við látinn í þeim tilgangi að troða honum upp á þjóðina sem þingmanni, þá taldi ég nú það alveg bókað að honum yrði skellt fram í hvern einasta kartöflugarð með gítarinn í annari hendi og heilsandi að sjómannasið andstæðingum sínum. En nei, hann sást víst ekki einu sinni á fundi í sinni heimabyggð heldur var Árna Matt teflt fram að manni heyrist.

En hver veit, kannski er þetta svona feluleikur í tilefni kosninga? Það gæti nefnilega einhver snillingurinn úr markaðsfræðinni sem sér um skipulag kosningana hafa fengið þá snilldarhugmynd að fela Árna Johnsen í hverri einustu auglýsingu og uppákomu á vegum Sjálfstæðsiflokksins og þannig stolið hugmyndinni frá Vallabókunum. Eftir kosningar verða svo allir Árnarnir sýndir og haha, þið tókuð ekki eftir honum.

Nú skora ég á ykkur, kæru lesendur að finna Árna Johnsen í auglýsingum, uppákomum og öðru er tengist flokknum. Vegleg verðlaun verða veitt til þeirra sem finna flesta Árna Johnsena: ársbirgðir af kantsteinum og góð dýna frá Kvíabryggju. 


Mamma Jónínu Bjartmarz var meðmælandi!

Í DV í dag kemur fram að móðir Jónínu hafi gefið kærustu barnabarnsins meðmæli til þess að hún gæti fengið ríkisborgarétt. Þar kemur einnig fram það sem manni grunaði í það minnsta að þingmennirnir þrír viðurkenna það að enginn þeirra hafi unnið vinnuna sína þegar þeir tóku umsóknina fyrir, það var aldrei tékkað á meðmælendum né hringt í þá, nokkuð sem heyrir undir Alþingi. Samt sagði Bjarni Ben í Kastljósi að ríkisborgararétturinn hefði verið veittur eftir heildarskoðun á gögnum. Miðað við þessar upplýsingar þá virðist mér sem að ef athugað hefði veirð á meðmælendum þá hefði komið í ljós tengslin við Jónínu því jú, það hlýtur að koma fram við bakgrunnstékk á fólki, hver börnin þeirra séu og svo hefði nú verið hægt að gera það sem DV gerði, þeir gúggluðu nafn mömmunar og fengu tilvísanir á síður Framsóknarflokksins.

 Er ekki kominn tími til að menn leggi bara öll spilin á borðið í stað þess að flækja sig meir og meir í lygavef, yfirklór og útúrsnúninga? 

 Annað sem maður er að velta fyrir sér, eru fjölmiðlar búnir að gefast upp á þessu máli a la mál vikunnar þegar farið er að hitna undir ráðamönnum? Finnst oft á tíðum margir íslenskir fjölmiðlar einmitt gefast upp eða hætta að eltast við einhver mál þegar þeir ættu að halda áfram í að þjarma að stjórnmálamönnum. Nixon hefði örugglega setið sem fastast ef Woodward og Bernstein hefðu ekki nennt þessu nema í viku.  DV má allavega eiga hrós skilið fyrir að halda áfram að grufla í þessu máli.


Hin ÆPANDI þögn Moggans

Eins og flestir hafa tekið eftir þá er stórt mál í gangi í samfélaginu sem tengist veitingu ríkisborgaréttar, ráðherra, störfum þingmanna í undirnefnd allsherjarnefndar og gagnrýni frá starfsfélögum þeirra. Á bloggsíðum, spjallvefjum, vinnustöðum og í vinahópum er spjallað um þetta og sitt sýnist hverjum.

Ekki ætla ég þó að skrifa um málið núna heldur það sem hreinlega öskrar á mig á þessum vef. Það er hin ÆPANDI þögn Mbl.is um málið og þar sem ég les ekki Morgunblaðið dags daglega, þá reikna ég með að þar sé hið sama í gangi, Frá því að Jónína svaraði ásökum Kastljós í frétt hjá mbl.is á fimmtudagskvöldið hef ég ekki séð eina einustu frétt um málið eða i tengslum við ummæli eða slíkt.

Nú hef ég haldið að hlutverk fjölmiðils sé að flytja fréttir og þarne er um að ræða stórmál í dag í samfélaginu og Morgunblaðið kýs að þegja, frekar en að sinna skyldu sinni sem fréttarit. Þetta er ekkert nýtt í gegnum tíðina, það tók nú fjóra daga fyrir þá að minnast einu einasta orði á Árna Johnsen og oft á tíðum hefur komið kannski örfrétt um vandræðaleg mál ráðherra og þingmanna sem spila með "rétta" liðinu í augum ritstjórnar, eða algjöra þögn líkt og nú í aðdraganda kosninga.

Þegar maður skoðar svo þetta í sambandi við orð í Reykjavíkurbréfi Moggans sem skrifuð er af ristjóra líklegast, þar sem koma fram ásakanir um að Samfylkingin hafi reynt að hafa áhrif á ritstjórn mbl.is sem áð hafa staðið á föstu og ekki tekið út frétt, þá slær þetta mann enn meir og ef maður vissi ekki að Mogginn væri fyrst og fremst pólitískt málgagn myndi maður spyrja nokkura spurninga. Lét þá mbl.is undan þrýstingi í þessu máli? Hafa aðrir stjórnmálaflokkar sterkari ristjórnarleg áhrif á Morgunblaðinu? Hver skrúfaði fyrir fréttaflutning af þessu máli? Og fleiri í þeim dúr.

Ef Morgunblaðið og mbl.is ætlar að halda trúverðugleika sínum sem fréttamiðill í aðdraganda kosninga, þá verða þeir einfaldlega að fara að birta fréttir, jafnvel þó að þær komi "liðinu" þeirra illa. Annars sanna þeir enn eina ferðina þá styrku skoðun mína sem olli því að ég sagði upp áskriftinni, að Morgunblaðið er ekkert annað en dulbúið áróðursrit og lítt marktækt fréttablað þegar kemur að málum tengdum Sjálfstæðisflokknum og núverandi ríkistjórn.

 

 


Ekki nógu fínn

Laugardagskvöldið hjá mér fór á annan veg en ég ætlaði mér, ég endaði á djamminu. Þetta hafði byrjað sem bjórsull á Ölstofunni þar sem vinahópurinn ásamt fleirum sem bættust við, sat og spjallaði um kvikmyndir og önnur minniháttar mál enda ekki annað hægt þegar maður situr með kvik.myndagerðarmönnum og öðrum með ástríðu fyrir bíómyndum. Svo þegar líða fór á kvöldið var þetta orðið að djammi og pöbbarölti í einhvern tíma. 

Einn af þeim stöðum sem ég og annar sem var með mér á flækingi, ákváðum að rölta yfir á Sólon til að hitta gamlan vin sem maður sér lítið þessa daganna. Eftir mikla biðlund og hænuskref í biðröðinni sem gekk hægt m.a. vegna þess að dyraverðirnir voru að hleypa reglulega fólki framfyrir, þessa klassíska VIP-elítu röð af fólki sem eru mest megnis plebbar og wannabe þotulið, þá kom að mér og vini mínum. Dyravörðurinn leit á mig, hvessti augun og gerði sig líklegan fyrir vesen þegar baunaði út úr sér:"Það er dress code hér!" Ég hváði við og hann endurtók aftur um leið og hann hnyklaði vöðvanna:"Það ER DRESS CODE hÉR." Ég horfði á hann í vantrú, leit svo á félaga minn sem stóð með spurnarsvip og svo gengum við í burtu glottandi yfir þessu, sérstaklega þar sem við höfðum farið inn á mun fínni staði án nokkura kommenta. Sá reyndar eftir því að hafa ekki spurt dyravörðinn hvað hann hefði hleypt nú mörgum vel klæddum dópsölum inn á staðinn þetta kvöldið.

Ég hefði skilið þetta ef ég hefði mætt eins og mannaveiðari í Villta vestrinu eftir 20 daga í eyðimörkinni eða í slorgalla með sjóhattinn, en það þótti greiniega ekki nógu fínt fyrir þennan stað að maður væri í gallabuxum og bol og svo með úlpu sem yfirhöfn og snyrtilegur að öllu öðru leyti. Ég hef nú talið það allt í lagi fatnað hingað til á skemmtanalífinu og ekki hefur hingað til það talist það svo truflandi og hræðilegt fyrir stað að fólk sjáist þannig inn á honum. Reynslan hefur sýnt það í gegnum tíðina með íslenskt skemmtanalíf að staðir sem eru með VIP-raðir og svona dress code, lenda fyrr eða síðar í því að annað hvort þurfa að hætta með þetta, eða svo kemur annar staður sem drepur þennan. Kannski er þetta bara dæmi um yfirborðsmennskuna og plebbaháttinn í íslensku samfélagi, hver veit?  Það sem er kannski  dáldið skondið og dregur fram hvað þetta er mikill aulaháttur allt saman, er það að það fólk sem ég hef kynnst og er þekkt að einhverju leyti, er á gallabuxum, í bol eða skyrtu, með derhúfu á hausnum eða álíka þegar það er að skemmta sér, og er ekki að standa í einhverju snobbi eða dress code, það er einfaldlega fólk sem er að manni sýnist, nokk sama um slíkt á meðan félagskapurinn er góður.Hefði því verið bannað að fara inn miðað við klæðnað? Held ekki.

VIP-raðir hafa svo sannað sig að í flestum tilfellum er það fólk sem þekkir eigendurnar eða þykist vera einhver og gerir þetta fyrirkomulag enn hallærislegra en það er.

Spurning hvort maður reyni svo að gera hópferð af frægu fólki í slorgöllum eða kuldagöllum, inn á Sólon og sjá hvort því verði ekki hleypt inn án athugasemda. 


Áróðursritið Sirkus?

Í morgun renndi ég í gegnum Fréttablaði yfir fyrstu kaffibollum dagsins að vanda, með páfagauknum sem tætti blaðið í sig með mér. Það væri ekki svosem fréttnæmt nema að ég rak augun í "tímaritið" Sirkus sem fylgdi með.Þar á forsíðunni var Þorgerður Katrín og í einhverju drottningarviðtali og að öllu jafna væri ekki slíkt fréttnæmt nema að í síðasta eða þarsíðasta Sirkus, var einnig forsíðumynd af Þorgerði Katrín og Bjarna Benediktssyni með fyrirsögninni: SJÁLFSTÆÐISMENN MEST SEXÍ! Man þó ekki fyrirsögnina orðrétt.

Að sjálfsögðu fór heilinn af stað og fór að leggja saman tvo og tvo. Þessar tvær forsíður og umfjöllunarefni rétt fyrir kosningar ásamt mikilli persónu- og peningadýrkun sem kemur fram í tímaritinu, skelltu af stað þeirri kenningu að ritstjóri tímaritsins væri byrjaður að reka áróður fyrir flokkinn sinn í tilefni kosninganna, í tímariti sem beint er til ungs fólks. Sá ég fyrir mér næstu tvær forsíður fram að kosningum. Sú fyrri væri svona:

Árni Johnsen í hiphop galla með gullkeðju og derhúfu, mitt á milli Snoop Dog og DMX, í svona "yo"-stellingu með fyrirsögnina ÁRNi JOHNSEN: ORIGINAL GANGSTA. 

og svo föstudaginn 11.maí, daginn fyrir kosningar:

Geir H. Haarde í Bond-smóking með Walther PPK í annari hendi, Ingu Jónu í hinni í flegnum kjól og umkringdur fáklæddu kvenfólki sem horfði upp til hans í tilbeiðslufullum losta og fyrirsögnin: HAARDE, GEIR H. HAARDE:FLOTTASTI BALL HÖZZLERINN!

En svo fór ég í að glugga í eldri blöð sem virtust annað hvort innihalda Höllu Vilhjálms eða Færeyinginn í X-factor sem forsíðuefni eða fyrirsögn og kenningin hrundi aðeins nema ritsjóri Sirkus sanni hana fyrir mér með ofangreindum fyrirsögnum. Síðan gæti verið að ég hef verið hálf fúll i garð Sirkus eftir að þeir hömpuðu einum einstaklega vafasömum athafnamanni og hvað hann hefði verið æðislegur við íþróttafélagið sitt eins og þetta væri góður gæji. Þessi náungi er nefnilega þekktur fyrir glæpastarfsemi og var dæmdur fyrir eiturlyfjasmygl svo maður útskýri hvers vegna það fór í mig. Slíkt gæti hafa haft áhrif á fyrstu samsæriskenningu dagsins hjá mér.

Ég get því þó ekki annað en velt því fyrir mér hvort maður sé ekki hreinlega orðinn svona tortrygginn í dag gegn óbeinum áróðri eða hvað? Er ekki soldið vafasamt eða óheppileg tímasetning að fjölmiðill sem á að höfða til ungs fólks sé að hampa ákveðnum stjórnmálaflokki sem kyntáknum og svo viðtali stuttu seinna, svona rétt fyrir kosningar, sérstaklega þar sem að öðru leyti á blaðið að vera einhvers konar Séð og heyrt-slúður/afþreyingarrit fyrir ungt fólk? Og hvað þá með stjórnmálamenn úr öðrum flokkum, munu þeir fá álíka umfjöllun og viðtöl fyrir kosningar?

Ef svo er þá óska ég(og kannski karlrembusvínið í mér) eftir að Katrín Jakobsdóttir, Katrín Júlíusdóttir og Brýndís Ísfold verði á forsíðu með Ögmund í fyrir aftan sig, í nokkurs konar Charlie's angels-stellingum og með fyrirsögnina ENGLARNIR HANS ÖMMA: FLOTTAR, TÖFF OG SPARKA Í SVEITTA KERFISKALLA.

 


Umhugsunarvert eða hvað?

Stundum rekst maður á setningar á bloggum hjá fólki sem fá mann til að verða kjaftstopp, gapa, klóra sér í hausnum eða gera mann ansi hugsi.

Hér er gott dæmi frá róttækum frjálshyggjumanni:

"Þess má geta að ég kýs ekki af hugsjón,  heldur til að lágmarka skaðann af völdum kosninga."

Er búinn að lesa þessa setningu nokkrum sinnum yfir og velti því hvort maðurinn ætti ekki að endurskoða hugmyndir sínar um frelsi og lýðræði, ef honum finnst kosningar vera skaðlegar. Ef það er málið að hann telji lýðræðislegar kosningar svo neikvæðar, hvað á þá að koma í staðinn? Fyrirtækjaræði eða hitt formið af því svo maður vitni til Mussolini: fasismi?

 Kannski er ég bara að misskilja eitthvað eða hvað?


Pólitískir páfagaukar

Páfagaukar eru stórskemmtilegar skepnur. Það er yfirleitt mikið líf og fjör í kringum þá,  hændir að eigendum sínum en samt með sjálfstæðan vilja, jafnvel með áhugamál eða skoðanir á hlutum. Þó er til ein tegund af páfagaukum sem er ekki fiðruð og þeim fiðruðu finnst moðgandi að teljist til fuglategundinnar og myndi ég varast að ræða um slíka í þeirra návist. Það eru hin fiðurlausa tegund sem dulbýr sig sem homo sapiems og kallast Pólitískir páfagaukar og þykir hvimleitt gæludýr fyir alla, nema eigendur sína.

Þessi páfagaukategund hefur ýmisleg einkenni sem aðgreina þá frá hinum og má þá kannski helst teljaupp hér, fyrir utan mennska útlitið:

Þeir birtast yfirleitt í kringum hitamál í samfélaginu og eru áberandi í kringum kosningar. Fjölgun þeirra virðist einnig fara fram þá og sést það mjög vel í tengslum við ungliðun flokkana. Á miðju kjrötímabili dettur þó stofninn yfirleitt niður nema þegar htiamál er í gangi

Þeir tjá sig yfirleitt í fullyrðingafrösum og geta yfirleitt ekki lært annað þegar kemur að stjórnmálum. Alveg vonlaust þykir að reyna að biðja þá um upplýsingar á bak við frasana eða rökstuðning með.

Þeir eiga mjög auðvelt með að læra hvernig á að koma háværum og hvimleiðum öskrum sínum á framfæri með aðstoð tækni eða fjölmiðla. Þessa daganna sjást þeir t.d. mikið fyrir framan tölvu að blogga og þeir áræðnusut hringja í útvarpstjöðvar eða mæta í útvarpsviðtöl eða jafnvel rata í myndver þar sem þeir mæta annað hvort tegund sinni með andstæðar skoðanir eða fólki. 

Þeir eru altaf nátengdir stjórnmálaflokki og eru alltaf 100% sammála öllu sem formaður eða flokkurinn gerir, jafnvel þó það gangi þvert á stefnu, lífsgildi þeirra eða annað sem skiptir þá máli að öðru leyti.

Þeir eiga það til að þegja vegna skoðanaleysis, þar eigandi( flokksformaðurinn, ráðherra eða þingmaður flokksins síns) gefur línuna. Eftir það hjakka þeir á sama frasanum þar til annar er kenndur. 

Þeir reynda yfirleitt að kæfa umræðuna með háværu gargi og/eða miklum frammíköllum sem samanstendur af frösum sem þeir annað hvort skilja ekki , eða þekkja bara frá eigendum sínum. Ef þeir ná tök á umræðunni þá deyr hún yfirleitt án þess að nokkur muni um hvað var talað eða fái svör við spurningum sínum.

Námsgeta þessarar páfagaukategundar er misjöfn og rannsóknir hafa sýnt að þeir hafa getað lært allt frá 10 frösum upp í um 50-60 og þar sem frasarnir eru eitt helsta einkenni þeirra verður farið út í hvernig má þekkja þá. Þó að svona páfagaukar finnist eltandi alla flokka, þá hafa kannanir sýnt það að hér á landi eru þeir einkum háværastir og mest fylgjandi Sjálfstæðisflokknum að málum og verða sýnidæmi notuð frá þeim. Það skal þó tekið fram að ekki er búin að fara fram könnun á hvort þeir séu meira hlutfallsegir meðal þessa flokks eða hvort þeir séu einfaldlega háværastir.

Eftir vísindalegar rannsóknir þá hefur mátt skipta frösum páfagaukanna í þrennt og virðist það vera staðlað í heilahvelfi þeirra.

<>Langtímafrasarnir eru fjölmennastir.Sumir þeirra virðast hafa verið notaðir í áratugi án innistæðu, eða jafnvel erfast á milli kynsloða. Þeir eru notaðir í öllum tilfellum og oft í upphafi samtala eða "rökræðna". Sem dæmi um slíka langtímafrasa má nefna þessa:

<>"Vinstri menn kunna ekki að fara með peninga"

"Ef vinstri menn ná völdum þá mun landið leggjast í eyði"

"Kaupmáttur (ákveðinn hópur eftir umræðuefni) hefur aukistí tíð okkar"-Stundum skeytt prósentu inn í en aldrei krónutölum því þá myndi frasinn vera gagnslaus

"(Þjóðfélagshópur í umræðunni) hefur aldrei haft það eins gott eins og í tíð flokksins" 

"Hagvöxturinn og góðærið hefur aldrei veirð meiri(getur einnig verið, er okkur að þakka" 

"Vinstri menn geta aldrei unnið saman vegna sundrungar"

Næst eru það skammtímafrasarnir. Frasaminni páfagaukanna er með hólf þar sem frasar lærast í skamman tíma vegna hitamála í samfélaginu. Þeir gleymast um leið og nýtt mál kemur fram eða ný skoðun á málinu kemur fram frá flokknum yfirleitt og getur sveiflast þannig séð með vindinum. og stundum ansi skrýtnar rökfærslur með.

Sem dæmi um slíka frasa í notkun og má nefna:

"Það er ekki mark takandi á honum því hann er leiguþý Baugs"-Um prófessor í fjölmiðlamálinu en um sama mann heyrðist svo sagt þegar hann skilaði hagstæðu áliti fyrir ríkistjórnina: "Þetta er áreiðanleg álitsgjöf hjá honum enda hefur hann reynst hlutlaus og áreiðanlegur í álitsgjöfum sínum".

"Það er aljgör nauðsyn að setja lög því Baugsmenn reyndu að steypa ríkistjórninni af stóli, með fréttaflutningi Fréttablaðsins fyrir kosningar 2003"-Einn talsmaður málfrelsis í fjölmiðlamálinu 

" Við leggum okkar af mörkum til að mengun minnki í heiminum með því að byggja álver hér"

"Jafnréttislög eru barn síns tíma"

"Þetta er bara tímabundið verðbólguskot"

"Íslendingar hafa valið einkabílinn"

Þriðja útgáfan er svo varnarfrasarnir sem eru flestir staðlaðir og gripið til eftir hentugleika og jafnvel þó þær passi ekki við gagnrýnisefnið. Notkun þeirra miðast við þegar páfagaukurinn er kominn í vandræði vegna gagna eða góðrar rökfærslu gegn frasategundunum fyrri.

Sem dæmi má nefna nokkrar klassískar sem hafa verið notaðar aftur og aftur.

"En R-listinn, hann er að rústa efnahag borgarinnar"-Þessi kallaðist á sínum frasi 43 og var stundum velt fyrir sér af sérfræðingum hvort hann tengdist frekar langtímafrösum þar sem einn páfagaukurinn sem skoðaður var notaði þetta sem mótsvar í t.d. Falum Gong-málinu.

"Það er ekkert mark takandi á svona Baugs-penna"-Þessi er nýlega komið fram og stefnir í það að verða langtímaminnisfrasi

"Það er sko allt annað en stefnuleysi Sandfylkingarinnar" 

"Það er bara eðlilegt að menn innan flokksins skiptist á skoðunum"-Gerist yfirleitt þegar htiamál eru að sundra flokknum eða klofningur kominn fram. 

"Þið, þið, þið eruð bara.....AFTURHALDSKOMMATITTIR"-Þetta ert vinnað oft aftan við ig má sjá sigursvip á páfagauknum þá. Kemur reyndar oft eftir að annað hvort er búið að sýna fram á hann hafi rangt fyrir sér og flýgur þá páfagaukurinn jafnvel út um dyrnar eða svarar ekki meir.

"Þetta eru bara atvinnumótmælendur" 

"Það er andstætt lýðræðinu að mótmæla"

Að lokum vilja fiðraðir páfagaukar sem og fuglafræðingar og áhugafólk um stjórnmál, beina því til eigenda þessara pólitísku páfagauka, að loka þá inn í búri svo þeir séu ekki að trufla málefnalega stjórnmálaumræðu eða garga á fólk að ástæðulausu, eigendum sínum til skammar sem og vinum og vandamönnum . 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Guantamano og Auschwitz

Á skírdag birtist ný skýrsla frá Amnesty International þar sem enn einu sinni var reynt að vekja athygli fólks á ömurlegum og grimmilegum aðbúnaði í Guantamano og meðferð á föngum þar sem virðist verða meir og meir harðneskjulegri. 

Í hvert sinn sem berast fréttir af þessum búðum, þar sem mannréttindi eru brotinn á föngum á hverjum degi t.d. með andlegum sem líkamlegum pyntingum, engri réttarstöðu og góðum hluta manna þar hefur verið haldið saklausum föngnum án þess að þeir hafi hugmynd um hvers vegna þeir eru þarna, fyllist ég reiði.  Sú reiði beinist m.a. að vestrænum stjórnvöldum sem og stuðningsmönnum þeirra sem tala af vandlætingu og hræsnisfullri hneykslun um mannréttindabrot Kína, Saudi-Arabíu eða meðferð Írana á breskum sjóliðum en líta undan, þegja um eða réttlæta á þeim forsendum að Bandaríkin séu "góðu" gæjarnir.

Það eru einfaldlega ekki til nokkuð sem heitir "góðu" gæjarnir þegar kemur að svona dýrslegri meðferð á fólki þar sem andlegum sem líkamlegum pyntingum er beitt og því refsað grimmilega fyrir með fullkomnri einangrun t.d. ef það vogar sér að segja frá. Á meðan stjórnvöld m.a. þau íslensku leggja ekki Amnesty lið og setja fram opinber og formlega fordæmingu á alþjóðavettvangi gegn Guantamano og jafnvel einhverjar refsiaðgerðir, munu bandarísk stjórnvöld ganga lengra og lengra því þeir sjá að öllum er sama.

Síðan er sú spurning sem blaðamaðurinn David Rose varpaði fram í bók sinni um Guantamano áhugaverð í þessu sinnuleysi, hvort Bandaríkjamenn hafi ekki einfaldlega starfrækt þessar búðir svona í dagsljósi til að athuga hversu langt þeir gætu gengið og til að dreifa einnig athyglinni í burtu frá mun verri búðum og fangelsum, m.a. þeim leynifangelsum sem CIA ku reka í löndum þar sem pyntingar þykja eðilegar.

Skýrsla Amnesty International sem ég mæli með að lesa.

En að öðrum illræmdari og óhugnanlegri fangabúðum: Auschwitz. Ég hef verið að horfa á einstaklega góða heimildarþætti frá BBC um Auschwitz og helför nasista gegn gyðingum, þar sem sérstaklega er beint ljósinu að Auschwitz-búðunum, sögu þeirra og daglegu lífi og talað bæði vil þolendur sem gerendur og búðunum lýst ítarlega. 

Auschwitz byrjuðu ekki sem útrýmingarbúðir heldur sem fangabúðir fyrir pólska fanga sem aðhylltust rangar skoðanir(kommúnistar, mannréttindasinnar o.sv.frv) eða börðust á móti nasistum með einhverju móti. Þetta voru vinnubúðir en síðar meir þegar ákveðið var að fullum krafti í útrýmingu á gyðingum var bætt við fjölda allan af búðum í kring sem sáu um útrýminguna en þekktust af þeim er Birkenau. Allt þetta svæði hefur síðan verið nefnt eftir aðalbúðunum Auschwitz og eru þekktustu útrýmingarbúðir nasista, nokkuð sem hefur valdið misskilningi hjá sumum um að þetta hafi verið einu búðirnar.

Fleiri útrýmingarbúðir voru starfræktar með þann eina tilgang að drepa sem flesta og t.d. Treblinka þar sem lesstirnar keyrðu beint inn með gyðingana, þeir affermdir beint inn í sturtuklefana og þar gasaðir.Dags daglega hefur verið áætlað að um 12-15 þúsund manns hafi verið drepnir þarna í gasklefanum sem tók um 3000 manns í einu.Engar vinnubúðir voru starfræktar í slíkum búðum ólíkt Auschwitz sem nýtti heilsuhraustari gyðinga sem vinnuafl.

 Stór, þýsk fyrirtæki á borð við IG Farben og Krupp nýttu sér þetta ódýra vinnuafl til framleiðslu á vörum sínum enda var einn helsti hvati fyrir búðarstaðsetninguna hversu vel landið í kring var búið af hráefnum fyrir þessi fyrirtæki og var reiknað með að hægt væri að reka búðirnar á tekjum sem fengjust frá IG Farben, allavega þar til skipulögð morðin hófust en talið er að minnst 1,1 milljón manna hafi dáið þarna af völdum gasklefana sem og ömurlegra aðstæðna.

Ljótur blettur á mannkynssögunni og nokkuð sem á aldrei að gerast aftur en mannskepnan er fljót að gleyma sbr. Bosníustríðið, Rwanda og fleiri staði þar sem litið er framhjá og menn vilja helst ekki gera neitt því það er engir hagsmunir, olía eða annað sem hvetur til aðgerða. 

Maður getur ekki annað en að lokum velt fyrir sér hvað hefði gerst ef ríkistjórnir fyrir seinni heimstyrjöld hefðu tekið mark á og ekki hundsað eða gert lítið úr fréttum af fangabúðum sem nasistar komu af stað.

Hefði kannski Auschwitz sem og helförin aldrei farið af stað, ef naistar hefðu verið fordæmdir eða refsað þrátt fyrir að margir litu á þá sem "góðu" gæjana í upphafi vegna baráttu gegn kommúnistum sem og hinum fyrirlitnu gyðingum?

Getum við leyft slíkt aftur og litið framhjá Guantamano og e.t.v. ennþá meiri grimmd og illri meðferð með tilliti til sögunnar, hvort sem það eru "góðu" gæjarnir eða "vondu" gæjarnir?


Á sjó, I.hluti?

Eins og þeir sem mig þekkja vita, þá neyðist ég vinnu minnar vegna að fara út á sjó í stuttan tíma. Sjóferðirnar geta verið stuttar og langar, skemmtilegar og leiðinlegar og allt eftir því þó þær nýtist mér yfirleitt vel í því að ráðast á bókastaflann og grynnka aðeins á honum. Yfirleitt rúllar þetta áfram í rútinínuvinnu og ekkert fréttnæmt en stundum getur maður ekki annað en deilt ferðasögunni líkt og nú þó kannski ekki merkileg sé. Nöfn verða ekki gefin upp til að vernda hina saklausu og seku og staðreyndum hliðrað til eftir þörfum.

 Síðasta sunnudag þurfti ég að halda af stað í einn stuttan túr. Eftir að hafa verið sóttur of snemma með þeim afleiðngum að ég náði ekki að vaska upp og gleymdi öllum nærbuxum til skipta. Ekki skaðaði það kannski þannig séð því sturtuaðstaðan um borð var ekki það glæsileg að maður stæði í því  að baða sig þar og ekki náði maður að komast í land það snemma á kvöldin til að komast í sund eða sturtu.

Ég hafði nú farið tvisvar áður með þessum báti en nú voru komnir nýir eigendur og vonaðist maður eftir því að aðeins hefði verið hresst upp á hann, sérstaklega vistarverur. Vistarverurnar höfðu nú skánað aðþví leyti að hlýtt var og þurrt í klefunum sem við vinnufélagarnir fengum úthlutað, ólíkt því sem var áður þar sem jöklasvefnpokar voru standard eitt sinn og svo mikill saggi í dýnunum að menn vöknuðu upp líkt og pissublautir á morgnana.

Einn galli var þó við vistarverurnar sem ég man ekki eftir að hafi verið áður. Þar sem við sváfum frammí í stefni þá fyrir utan það að maður þurfti að fara eftir vinnsludekkinu, þá var við stigann niður í káeturnar einhver óþefur sem var eins og megn olíublönduð svitalykt líkt og af vel marineruðum vélstjóra sem hefur sofið í vélarrýminu án baðs í nokkra mánuði og matarbitum hent niður frekar en að fá hann upp í borðsal. Þessi lykt var nú þannig gerð að hún gat æst upp sjóveikina í mönnum. Að öðru leyti var við það allt sama, borðsalurinn jafn druslulegur og óbreyttur frá því að báturinn var smiðaður en nýttist sem slíkur alveg ágætlega. 

Eftir mikið japl og jæja við að koma okkur fyrir og ganga frá græjum og fleira, kom í ljós að eitthvað hafði aðeins klikkað í samantekt á hlutum svo við þurftum að redda því með smá útréttingum sem og aðstoð sjóhrædda, rússneska vélstjórans sem var himinlifandi yfir því að vera að komast í burtu og öfundaði okkur af því að þurfa ekki að vera á sjó nema í ýtrustu neyð. Við þetta kom reyndar í ljós að allt vantaði um borð sem gat talist til hálfgerðar nauðsynja svo sem skrúfur, bolta, verkfæri og margt fleira. Einhverjir sem höfðu verið í áhöfn tímabundið í túr, höfðu nefnilega kvatt bátinn með virktum og hreinsað allt með sér sem ekki var neglt niður, frá verkfærum til hosuklemmna. En þetta hafðist þó og loks komumst við á sjó.

Eitt af því sem gerir sjóferðir skemmtilegar er áhöfnin og samsetningin af þeim. Yfirleitt eru nú þetta hinir fínustu náungar og oft miklir karakterar í þessu litla samfélagi sem við gestirnir komum inn í og oft jafnvel eins og hálfgerður þverskurður af samfélaginu sem og manngerðum. Þarna var t.d. kennari að skjótast í stuttan túr til að redda sínu fólk með son sinn með sér en sá var shanghæjaður í hásetastarfið þegar einn hásetinn fór í bakinu og var borinn í land. Fyrir rússneska vélstjórann kom svo gamall vélstjóri sem leit á það sem heilagt hlutverk sitt að vera miðpunktur allra samræðna og greip hvert tækifæri til að segja sögur eða toppa sögur annara og nægði oft að segja bara já til að hann færi á flug.

Svo var það kokkurinn sem þrátt fyrir að vera alveg ágætis kall þá var hann alveg arfaslakur kokkur. Fyrsta daginn var hann svo sjóveikur(fyrsti túrinn hans) og manni leist ekkert á blikuna, viðbúinn því að hann myndi æla ofan í sveppasósuna með kjötinu. Sveppasósan kláraðist nú ekki hjá kallinum og reyndi hann að koma henni út sem viðbiti næstu daga á eftir með brauði sem öðrum mat.
Svo leist okkur ekki á blikuna næstu daga þegar ekkert bólaði á mat yfir daginn heldur var einungis hent kexi(kláraðist eftir einn dag) og Bónus-brauði(rúgbrauðið kláraðist á degi 2) á borðið ásamt áleggi og á þessu lifðum við fram á kvöld, orðnir glorhungraðir þegar loksins kallinn fór að elda. Hann hafði nefnilega engan tíma því hann var á fullu í aðgerð yfir daginn. Ekki hirti hann heldur um að þrífa upp mylsnu sem og annað af borðunum og er sá fyrsti sjókokkur sem ég hef verið með, sem ekki hefur verið með tuskuna á lofti eftir að hungruðu úlfarnir hafa rifið í sig allt ætt á borðum.  Þrátt fyrir að tekist ágætlega upp með kjötfarsbollur var nú kjöt i karrýkássan ansi döpur, svo döpur að alætan sem var með mér þurfti að fá sér að éta þegar hann kom í land og heimferðarmáltíðin samanstóð af afgöngum sem og pulsupottrétti sem rétt dugði fyrir fimm "heppna?" En nóg um kokkinn.

Eitt annað sem maður hefur nú gaman af við þessi samfélög og sjóferðir, það eru ekki bara áhöfnin heldur einnig viðbrögð þeirra við öðrum og samskipti sín á milli, sérstaklega er gaman að fylgjast með sveittustu sjóhundum breytast yfir í mjúkustu karlmenn þegar konur koma um borð og vilja allt fyrir þær gera. Slíkt var þó ekki til staðar í þessari ferð en aftur á móti fuku gullnar setningar eins og t.d.  ein um hníf:"Það er ekki einu sinni hægt að skera blautan skít með þessu" og þegar rekið var á eftir einum var öskrað reiðilega til baka:"Vertu ekki svona graður, strákur, ég er að æla". Einnig gerðist vélstjórinn hin mesta dramadrottning þegar kar fyrir lifur og hrogn var ekki tilbúið niðri í lest og rauk inn í fýlu og kaffi í stað þess að fara og slægja eða græja sjálfur og margt fleira er hægt að týna til.

Á skírdag náði þó sjóferðin þó hámarki sínu, þ.e. við sáum fram á að klára vinnuna snemma og komast vonandi heim fyrir kvöldmat. Að sjálfsögðu greip lögmál Murphys inn í. Upp úr hádegi varð maður var að eitthvað vesen var komið i gang í vélinni. Maður kláraði vinnuna sína og eftir að hafa troðið í sig síðustu skinkusamlokunni og sötrað lapþunnt og mollulegt kaffi, fleygði maður sér aðeins á bekkinn til að leggja sig. Eftir sífelldar truflanir þar sem skipstjóri, vélstjóri og bátsmaður hlupu inn og út úr borðsal, rölti maður upp í brú til að fá skýringar á því að maður gæti ekki fengið kríuna sína. Þar fékk maður skýringar líkt og "Þú ert búinn að eyðileggja bátinn" frá háseta sem sat þar daufur og reykti og loks svo almennilegt svar frá öðrum. Rör höfðu farið í sundur og glussi sprautaðist út um allt í vélinni þ.á.m. á rafmagnstöflu og hafði næstum kveikt í vélstjóranum. Báturinn var semsagt orðinn vélarvana út af þessu og rákum við stjórnlaust upp að landi, að klettum stutt frá.

Eftir að hafa heyrt þetta þá gerði mðaur það eina sem hægt var að gera í stöðunni, ákvað að fara í koju til að lesa. Það voru nú 3-4 tímar þangað til við myndum stranda og ekki ætlaði ég að skilja eftir ókláraða bók. Til að komast þangað þá þurfti ég reyndar að rölta eftir dekkinu á bátnum því ekki var hægt að komast í gegnum vinnsluna með góðu móti af fenginni reynslu sem hafði annars vegar skilað mér sem slorskrímsli frammí eftir að hafa skriðið undir rennu og hárið sleikt slortauma af ásamt blóði niður eftir baki, og hins vegar hafði ég klofað yfir sömu rennu sem skilaði sér í að gallabuxurnar voru komanr með ansi stórt gat í klofinu og þetta var auðvledasta leiðin. Maður rölti yfir dekkið og fylgdist með glorhungruðum og hálfmóðguðum sjófuglum sem voru yfir sig hneykslaðir á því að báturinn sinnti ekki samfélagslegri skyldu sinnu og gæfu þeim að éta. Virtist fuglagerið vera komið á það stig í pirringnum að þeir voru að gera sig líklega til að sækja um hlutverk í endurgerð af The birds. Manni tókst nú að komast niður án þess að þeir æfðu hlutverkin, upp í koju og las góðan hluta af bókinni áður en vélin hrökk í gang, ca. einum og hálfum tíma fyrir strand og hafði vélstjóranum greinilega tekist að finna teip til að tjasla vélinni saman því ekki hafði hann varahluti að því virtist nema í takmörkuðu magni. Þetta nægði allavega til að klára vinnu dagsins og koma okkur í höfn þar sem maður gat haldið heim á leið, feginn og þreyttur. 

Svo fer maður aftur eftir páska í viku um borð í þennan bát og stóra spurningin er: helst báturinn í heilu lagi og það sem mikilvægara er, hvernig verður þróuin á eldamennsku og kosti um borð? 

 


Viðbrögð við álverskosningum og önnur viðbrögð

Nú er álverskosningum í Hafnarfirði lokið og niðurstaðan ljós: Hafnfirðingar vilja óbreytt ástand en ekki stækku.Þetta var greinilega stórmál þar sem annars staðar og því er ekki annað en gott um það að segja að Hafnfirðingar hafi fengið að kjósa um þetta á lýðræðislegan hátt, nokkuð sem mætti vera meira af og oftar þegar kemur að stórum ákvörðunum fyrir samfélagið hvort sem það eru ákvarðanir í sveitarfélagi eða á Alþingi. 

 En nóg um það, það hefur verið frekar skondið að sjá viðbrögð þeirra sem vildu stækkun og eru hlynntir áversframkvæmdum almennt. Þvílík harmakvein um að Hafnarfjörður verði svefnbær, það sé búið að rústa atvinnulífi Hafnfiðringa, álverið muni fara(stórefast um það) o.sv.frv. Þvílík dramatík sem fengi mexíkóskar sápuóperur til að blikna í samanburði.

Aftur á móti varð manni samt hugsað til í leiðinni, hvar var þetta fólk þegar kemur að því að hugsa til hags annara bæjarfélaga? Ekki man ég til þess að það hafi verið jafn sterk viðbrögð þegar herinn fór, heldur var það einfaldlega að önnur atvinna komi í staðinn. Hvers vegna æsti þetta fólk sig ekki yfir því þegar togaranum Brettingi frá Vopnafirði var lagt og fjölda fólks missti vinnuna, bæði gæðablóðin þar um borð og störfin í tengslum við þjónustu sem og annað? Hvar var þetta fólk allt þegar Grandi, Brim, Samherji, ÚA og öll þau fyrirtæki voru að leika sér að því að færa kvóta í burtu frá bæjum, loka frystihúsum og kippa stoðum undan samfélaginu? Hvers vegna reis þetta fólk ekki upp og talaði um það þyrfti að stoppa svona og hugsa um hag bæjarfélaganna?

Það skyldi þó aldrei vera að sumir þarna hugsi fyrst og fremst um að hagur fyrirtækja sé mikilvægari en hagur almennings og samfélagsins....

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

AK-72

Höfundur

AK-72
AK-72
Með óþrjótandi áhuga á kvikmyndum, sögu og stjórnmálum.Telur sig hafa fullt frelsi til að hrósa og gagnrýna hvern sem er og hvenær sem er.
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • ...1212_913482
  • ...ner1_568492
  • ...rad-banner1
  • Screenshot

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 123355

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband