Færsluflokkur: Bloggar

Enn eitt bloggið um Spaugstofugrín

Ég náði loks að horfa á Spaugstofuþáttinn umdeilda í endursýningu á RÚV á áðan. Þekkjandi Íslendinga má búast við að ansi margir sem misstu af þættinum hafi setið límdir við og annað hvort tekið hlátursroku yfir textanum við þjóðsöngslagið eða fólkið fyllst af svipaðri hneykslun og þegar það downloadaði myndbandinu með Guðmundi í Byrginu. Þar að auki má búast við að gott áhorf verði að næsta þætti þar sem menn bíða spenntir eftir hvernig þeir gera grín að viðbrögðum manna og vart hægt að finna betri og ókeypis auglýsingu en taugatitrandi og yfir sig hneykslaða þjóðrembur, fyrir Spaugstofuna .

 Persónulega sé ég ekkert að því að gera grín að þjóðsönginum eða öðru sem er umvafið einhverjum hálf yfirborskenndum hátíðleika og helgidómi því þannig séð er ekkert svo heilagt að það megi ekki nota það í góðlátlegu gríni eða ádeilu.Hitt er aftur á móti annað mál að ef Spaugstofumenn brutu lög, þá fer það sína leið því lög eru lög hvort sem fólki finnst þau bjánaleg eður ei.

Aftur á móti gat ég ekki annað en brosað yfir mörgum sem hafa verið hneykslaðir eða húmorslausir fyrir þessu því þeir tilheyra eða styðja ríkistjórnarflokkana tvo. Ekki hef ég orðið var við að þetta sama fólk hafi staðið upp og bent sínum þingmönnum og ráðherrum, á að það væri að brjóta stjórnarskránna í fjölmiðlafrumvarpsmálinu  2004 og ekki varð ég var við það að það heimtaði að menn sættu ábyrgð samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð og öðrum lögum þegar 6 ráðherrar stjórnarinnar sem og nokkrir þingmenn, hylmdu yfir fjármálamisferli í Byrginu og dældu áfram peningi þangað með fullri vitneskju um að það væri eitthvað stórkostlegt að í bókhaldinu.Ekki má gleyma heldur öllum þeim skiptum þar sem lög hafa verið brotin í sambandi við mannaráðningar, lóðaúthlutanir, skipulagsmál o.fl. af háflu samflokksmanna.

Hvers vegna hefur margt af þessu fólki ekki verið kært þrátt fyrir að hafa brotið lög og jafnvel sömu menn og hneykslast á meintu lögbroti Spaugstofunnar varið það í orðum sem riti? Er ekki dálítil hræsni í þessu að gera miikið úr lögbroti eins en verja lögbrot annars?

Hvernig læt ég annars,grín með þjóðsöngi sem fáir kunna og önnur yfirborskennd þjóðrembutákn eru miklu verri lögbrot en þegar skeint sér er á stjórnarskrá sem og öðrum lögum.

 

 

 


Skoðanir eða hlutlaus dálkur í Fréttablaðinu?

Fyrir einhverju síðan var blaðamaður færður til í starfi hjá Fréttablaðinu og settur í það að þýða erlendar fréttir sem nokkurs konar kælingu í einhverja mánuði. Ritstjórnin gaf þær skýringar að fastur dálkur sem hann skrifaði væri ekki hlutlaus og bæri of mikinn keim af persónulegum skoðunum hans. Blaðamaðurinn var ekki sáttur og vildi meina það að það hefði verið vegna þess að Bjrön Bjarnason hefði kvartað yfir frekar meinlausri athugasemd um föður sinn og þetta væri af pólitskum toga. Blaðamaðurinn fór frá blaðinu í fússi og ritstjórinn reyndi að gera sem minnst úr þessu og var hálf vandræðalegur.

 Við dálkinum tók Björgvin nokkur(man ekki hvers son) sem hafði verið í forsvari fyrir Heimdall eða SUS.Í upphafi voru dálkaskrifin frekar hlutlaus en brátt fór að örla meir og meir á skoðunum hans í málum og oft mun meir en hafði sést hjá hinum blaðamanninum, Jóhanni Haukssyni(var það ekki örugglega hann?) og persónuelga finnst mér núorðið að í mörgum tilfellum sé orðalag sem og umfjöllunarefni yfirleitt lýsa skoðunum hans. 

Í framhadli af þessu veltir maður því fyrir sér hvort þetta styrki ekki orð Jóhanns um að það hafi verið að refsa honum vegna þrýstings utan frá fyrir "rangar" skoðanir, því miðað við að Björgvin er ekki sendur í kælingu við að þýða erlendar fréttir vegna skrifa sinna og hefur að mestu skrifað þessa dálka síðan þó einn og einn dagur falli niður hjá honum.

Manni finnst ósamræmið í þessu frekar mikið þegar bornir eru saman þessir tveir dálkahöfundar og hvernig tekið er á skrifum þeirra því afsökunin um hlutleysi dálkaskrifanna stenst ekki. Miðast kannski hlutlaus dálkaskrif við hvaða skoðanir eru ríkjandi hjá ritstjóra eða öðrum ráðandi öflum og það sem er ekki þeim þóknanlegt flokkist undir hlutdrægt?

Ég les það sem Björgvin skrifar og hann er ágætur penni þó ég sé ekki sammála skoðunum hans að mörgu leyti, sem hann hefur fullan rétt til þess að tjá þær. Aftur á móti finnst mér misræmið hvernig tekið er á dálkaskrifum frekar mikið og ýta undir það að Jóhann hafi haft rétt fyrir sér. 

Ætla taka fram að lokum að ég er ekki að óska eftir að tekið sé á Björgvini heldur finnst mér vanta skýringar á hvers vegna einum leyfist sem aðrir mega ekki hjá Fréttablaðinu og hvort þetta rýri ekki  trúverðugleika blaðsins?

Síðan getur vel verið að ég hafi bara einfaldlega rangt fyrir mér og sjái ekki að þetta sé allt saman hlutlaust. Ég gæti líka hafa misst af kælingu Björgvins á einhverju tímabili og þetta sé rangt hjá mér, hver veit?


Öryggisgat á skoðanakönnun álversins

Það er eitt sem ég sé strax virkilega að þessari skoðanasöfnun álversins og það er punktur sem éghef ekki séð neins staðar sett spurningamerki við. 

Starfsmenn álversins safna saman upplýsingum um skoðanir fólks og setja inn í tövluforrit. Álverið segir að forritið sýni ekki hver hafi hvaða skoðun og þannig sé öryggis gætt en þá skilur það eftir eitt stórt gat á örygginu: starfsmennina sjálfa. Hvernig er það tryggt að þeir skrifi ekki hjá sér og afhendi yfirmönnum nöfn þeirra sem spurðir eru og hvaða skoðun þeir hafa? Og hvað tryggir starfsfólkið gagnvart því að segja nei við slíku tvöföldu bókhaldi og missa atvinnuna e.t.v. í staðinn? Hvernig tryggir álverið það að ekki sé blaðrað um það mili starfsmanna sinn, hverjir hafi hvaða skoðun o.sv.frv.? Hvernig ætli eyðinga gagna sé háttað ef tvöfalt bókhald sé í gangi? 

Mér finnst það einstaklega vafasamt að álverið noti eigin starfskrafta í þetta því þarna er enginn milliliður á milli starfsmanns og yfirmanna þó fyrirtækið skýli sér á bak við tölvuforrit . Fyrirtækið hefur þarna fullkomið tækifæri til að misnota gagnasöfnun um einstaklinga í gegnum mennska þáttinn.

Í flestum skoðanakönnunum er það yfirleitt þannig að aðilinn sem biður um könnunina hefur ekki beinan aðgang að starfsfólkinu sem sér um verkþáttinn og fær aðeins upplýsingarnar í gegnum forsvarsmennn fyrirtækis sem sér um könnunina sem þarf að lúta ákveðnum siðareglum til að glata ekki trausti. Ég get ekki annað en sett stórt spurningamerki við þessa skoðanakönnun álversins miðað við þetta gat í öryggi um meðferð viðkvæmra persónuupplýsinga, þ.e. skoðana fólks.

 


mbl.is Persónuvernd skoðar Alcan-könnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nafnleysi mitt og annara

Hér á Moggablogginu eru nokkrir aðilar sem fara hamförum yfir því að einhver skuli blogga og ekki gefa upp nafn, kennitölu, buxnastærð og allar persónupplýsingar sem viðkomandi vill. Oft á tíðum sýnist manni að þetta sé fólk úr stjórnmála og fjölmiðlageiranum eða fólk sem hefur svo svakalega sterkar og umdeildar skoðanir að ýmsir sem ekki eru skráðir á Moggabloggið froðufella og missa útúr sér í reiði mikinn dónaskap sem fengju harðasta sjóara til að hneykslast.

 Það er svo sem skiljanlegt að það fólk sem fær skítinn yfir sig vilji nú vita hver standi fyrir því en aftur á móti er það líka frjálst val hvers og eins hvort hann birti skoðanir sínar undir nafni. Málfrelsið hefur nú samt takmarkanir og ætti nú að vera hægt mál að sækja þann rétt ef einhver lætur út úr sér nokkuð sem flokkast undir meiðyrði, blog.is hefur kennitölur sem og nafn allra.

Hjá mér eru ástæðurnar nokkrar sem spiluðu inn í valið á nafnleysinu fyrir utan það að blogg-nikkið er nú tengt nafninu mínu og vinir og vandamenn vita hver ég er. Þessar ástæður mínar gætu svo sem verið uppfullar af ofsóknarbrjálæði eða öðrum geðsveilum en það er ykkar að dæma.

 Ástæður nafnleyndar minnar eru t.d. í fyrsta lagi, þá lít ég á nikk sem nokkurs konar verndartæki fyrir mig, þ.e. á sama hátt og rauða X-ið í símaskránni(nema gegn Gallup sem álitur sig yfir slíkt hafið, þurfti að afskrá mig af þjóðskrá til að losna við þráhyggjufullar ofsóknir þeirra). Fullt nafn mitt er nú þannig gert að það eru fáir eða jafnvel enginn annar, sem ber það nafn í þjóðskrá. Þar sem ég er með sterkar skoðanir stundum á hlutum og skráður fyrir síma, þá kæri ég mig ekki um það að misvitrir vitleysingar hér á landi sem kunna ekki mannasiði, hringi drukknir eða hjóli í mann út á götu, út af því að ég fílaði ekki uppáhaldskaffihúsið þeirra eða áleit hegðun goðsins þeirra ekki sæmandi. Það kæmi mér ekkert á óvart þó að sumt fólk sem skrifar hér sem og annars staðar undir nafni, kannist við þetta.

Önnur og alvarlegri ástæða er sú að þó hér ríki málfrelsi og skoðanafrelsi á landinu, er ekkert öllum sem hugnast það, sérstaklega þegar kemur að stjórnmálamönnum. Ég hef upplifað það á vinnustað, að samstarfsfélagi hafi verið tekinn á teppið eftir að haa skrifað grein þar sem hann gagnrýndi ráðherra. Greinin var undir hans nafni og ekki tengt viðkomandi fyrirtæki en ráðuneytisstjórinn sá ástæðu til að hringja í forstjórann og segja honum að gagnrýnisskrif á viðkomandi ráðherra liðust ekki.

Annað tilvik sem ég þekki til er að náinn ættingi minn vann hjá opinberu fyrirtæki þar sem nýr pólitískt ráðinn yfirmaður tók til starfa. Ættingi minn er ekki vanur að standa á skoðunum sínum og lét gamminn geysa í kaffinu um stjórnmálamann og flokk hans, við lítinn fögnuð þessa yfirmanns. Yfirmaðurinn tilkynnti honum það eftir kaffið að honum væri hollast að þegja og hann skyldi sjá til þess að hann yrði rekinn. Ættinginn sagði bara já og amen og fékk sér vinnu annars staðar en því miður er það öruggt að margir láta þetta yfir sig ganga, sérstaklega grunar mig að slíkt gerist í litlum bæjarfélögum þar sem vinnuveitendur eru oft nátengdir stjórnmálaöflum eða í bæjarstjórn jafnvel(var ekki eitthvað vesen á Snæfellsnesinu út af stjórnmálaskoðunum bæjarstarfsmanns nýlega?) og geta haft áhrif á ýmislegt tengt þeim sem hafa ekki réttar skoðanir.

Annars get ég ekki annað en haldið mig við nafnleysið á meðan stjórnmálaflokkar sem og fyrirtæki eru að safna upplýsingum um skoðanir, heilsufar sem og annað án leyfis frá mér sem og öðrumi. Þetta eru persónulegar upplýsingar sem maður vill hafa í friði frá aðilum sem mér finnst persónulega ekkert hafa að gera með þetta og gætu beitt því jafnvel gegn manni. Svo má nú e.t.v. einnig gagnrýna eitt og það eru fjölmiðlamenn og nafnleysi. Ég veit nú ekki betur en að á útvarpsstöðvum séu símatímar þar sem fólk hringir inn, segist heita Gummi eða Jóna og hraunar yfir fólk og í dagblöðunum eru nafnlausir dálkar eins og Staksteinar, Víkverji, Svarthöfði, ritstjórnarpistlar og viðhorfsgreinar sem sumt er notað í skítkast eða til að gera einhverja aðila tortryggilega í augum almennings. Eruð þið fjölmiðlafólk þess umborin að gagnrýna aðra, ef þið ástundið slíkt sjálf?

Að lokum, þá skiptir það engu máli hvort maður sé með skoðanir með nafni eða nafnlaust á meðan maður stendur við þær og haldi sig innan marka þess sem sæmandi er þegar kemur að orðbragði sem og gagnrýni á aðra, að það sé málefnalegt en ekki skítkast sem ráði og mættu nú sumir hér sem skrifa undir nafni hugleiða þaði. 


Refsingarlausir glæpir hf.

Allt frá því að Samkeppnisstofnun stormaði inn í olíufyrirtækin og hóf rannsókn, var maður viss um að innvígðir og inmmúraðir forstjórar fyrirtækjana myndu aldrei þurfa að gjalda fyrir kaldrifjað og skipulagt samsæri sitt um að féflétta islensku þjóðina, sérstaklega þar sem þeir voru í náðinni hjá ónefndum manni.  Þess vegna kom þessi dómur ekki á óvart í gær og sú niðurstaða saksóknara að ekki yrði endurákært, jafnvel þótt mennirnir hefðu viðurkennt það með stolti að þeir væru Íslandsmeistarar í þjófnaði.Þetta var einfaldlega bara enn ein staðfesting á því að sumir eru jafnari en aðrir hér á landi,  ef þeir tilheyra Kolkrabbanum og eru í Sjálfstæðisflokknum(Árni Johnsen undantekning enda mátti fórna honum um tíma og svo fær hann rússibanaferð með krumlurnar í ríkiskassan í vor). Það líka byrjaði strax á sínum tíma væl frá einhverjum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins um ofsóknir Samkeppnisstofnanir og einn ónefndur maður sagði að það ætti ekki að sekta olíufélögin.

Því miður er það borin von að þessir mestu þjófar Íslandssögunnar munu nokkurn tíma gjalda fyrir glæpi sína og verst að saksóknari hefur ekki cojones í að taka á þeim, hlýtur að vera hægt að kæra þá fyrir þjófnað samkvæmt hegningarlögum, samsæri um að skaða íslensku þjóðina sem mest fjárhagslega(landráð?) eða tengja þá við Al Queda og framselja til Guantamano þar sem þeir fengju "réttlát réttarhöld" og Geirfinnsmálið yrði loks "upplýst" í leiðnni ásamt morðinu á JFK. Það hefur allavega ekki vantað viljann þegar kemur að Baugsmálum(Baugsmenn eru nefnilega ekki innvígðir, innmúraðir og í vinskap við ónefndnan mann).

Samt miðað við niðurstöðu Hæstaréttar, þá er það löglegt að stela í nafni fyrirtækis og spurning hvort íslenska þjóðin geti ekki sameinast um að stofna fyrirtækið Refsingarlausir glæpir hf, Siðblinda hf. og Samviskulaus hf. Þessi þrjú fyrirtæki munu svo hafa samráð um það að féfletta og stela frá fyrirtækjum sem olíuforstjórarnir þrír eiga í sem og öllu verðmætu sem þeir eiga. Samkvæmt dóminum í gær þá væri þetta eingöngu brot á samkeppnislögum og ef fyrirtækin fengju einvherjar sektir þá er bara hægt að láta þau rúlla og fá nýja kennitölu og halda áfram fjörinu eða greiða sektirnar með peningum olíuforstjóranna. Að öðru leyti er þetta ekki refsivert því skipulagður þjófnaður er greinilega ekki glæpur ef þú lætur peningana fara inn í fyrirtækið og hefur fengið samkeppnisaðilana til að vera með.

Spurning hvort  þjófar landsins verði ekki komnir með fyrirtæki fyrir næstu gripdeildir?

 


Reikningur vegna Auðkennislykils og annars

Til bankans míns,

eftir allt brölt og vesen vegna Auðkennislykilsins, breytinga á lykilorðum ásamt okurvöxtum og þjónustugjöldum ykkar þá er kominn tími til að þið farið að greiða skuld ykkar við mig vegna vinnutaps, sálrænna vandamála sem hafa skapast af árásum ykkar á tilveru mína sem og tugþúsunda aðila vegna hálfvitaskaps nokkura einstaklinga sem féllu fyrir vélráðum starfsbræðra ykkar í glæpabransanum.

Mér er kunnugt um það að Auðkennislykillinn sé ætlað að endast í ca. 2 ár og þið munuð þá rukka fyrir nýjan samkvæmt heimildum mínum innan bankageirans sem og ef hann glatast. Ég lít á það sem enn eina tilraun ykkar til að féfletta migs(færslugjöld á debetkort flokkast undir þjófnað að mínu mati, að þurfa að borga ykkur fyrir að nota PENINGANA MÍNA ER GLÆPSAMLEGT) og lít á að nú sé nóg komið, það er kominn tími til að þið borgið eitthvað af kostnaði mínum vegna uppátækja ykkar.

Hér meðfylgjandi er áætlaður kostnaður á ykkur vegna óþæginda minna:

Tímatap vegna notkunar á Auðkennislykli: 12 klst á ári. x 15.000 kr.útseld vinna= 180.000

Vinnutap vegna þess að ég læsti lyklanna inni vegna notkunar á Auðkennislykli(áfastur á lyklakippunni minni): 1 klst á ári. Hefur gerst einu sinni og má búast við ofta, gæti orðið hærri ef erfiðlega gengur að nálgast varalyklana. 1 klst x 15.000=15.000 

Ferðakostnaður vegna Auðkennislykils=7.000 kr. Gæti breyst með tillit til hækkun bensíns

Áætluður tími vegna pirrings yfir þessum óumbeðna Auðkennislykli og notkun hans: 24 klst á ári. x 15.000 kr=360.000

Gjald vegna áhrifa á heilsufar(hækkaðs blóðþrýstings o.fl.): 58.500 kr.á ári

Breytingar á lykilorði á 3 mánaða fresti og upphugsun á nýju 8-16 stafa lykilorði: 48.900 kr. ársfjórðungslega=195.600 á ári

Minnisgjald vegna ný lykilsorðs: 57.500

Tryggingargjald vegna gleymdra lykilorða: 102.700 kr.

Samtals gera þetta kr. 976.300 á ári.

Vinsamlegast greiðið þetta sem fyrst inn á reikning minn fyrir þann 15. apríl þessa árs og næstu ára. Það skal bent á að þetta er verðtryggt og mun fyljgja verðbólgunni sem þið hafið átt ykkar þátt í að koma af stað og mun því hækka á hverju ári í samræmi við þetta auk allra mögulegra gjalda sem þið hafið rukkað mig um.

Ef þetta er ekki greitt á gjalddaga þá mun leggjast á ykkur innheimtukostnaður og 25.% dráttarvextir frá útgáfudegi þessa reiknings. Ef skuld er ekki greitt mánuði eftir gjalddaga þá mun hún fara í innheimtu hjá færustu lögfræðingum þessa heims annars vegar og rússnesku mafíunnar hins vegar.

Hægt er að ræða um niðurfellingu þessa reiknings ef færslugjöld á debetkort eru felldir niður, innlánsvextir séu hækkaðir og útlánsvextir færðir niður í eðlilegt horf en ekki haft á kjörum skuggalegustu okurlánara hérna megin Sikileyjar.

Virðingarfyllst, AK


Íslensku klámborgarnir

Það hefur verið gaman hér á hliðarlínunni við það að að fylgjast glottandi með umræðunni um klámráðstefnuna. Miðað við lætin í sumum þá hefur þetta verið eitt stærsta mál samtímans og skítt með það þó tryggingarfélögin séu að fá í gegn lagabreytingar sem minna óneitanlega á Þriðja ríkið í hugsunarhætti, iðjudeild geðsjúkra sé lokað, fjöldi manns missi atvinnuna á Ísafirði vegna "hagræðingar", skaðsemi Múlavirkjunar á umhverfið reynist meiri en talið var og spilling í ákvörðunartöku um hana látin óáreitt.

Margt fleira er hægt að nefna sem er meira aðkallandi að ræða heldur en það hvort einhverjir ferðamenn sem vinna í einum af mest sleazy bransa heims fengu ekki gistinguna sem þeir áttu pantaða. Nei, í staðinn láta menn eins og þetta hafi verið Alþjóðaráðstefna um frið á jörð og gestirnir sendir til Guantamano þegar lausn var í sjónmáli eða mestu óþokkar heimsins hefðu hist hér til að nauðga börnum og éta .

Fyrir utan það að vera ómerkileg umræða um mál sem skipti ekki máli í raun, þá tókst mörgum það, að opinbera sína öfga og hræsni með fáránlegum fullyrðingum og upphrópunum.

Öfgakenndustu aðilarnir voru tilbúnir til að brjóta mannréttindi til varnar mannréttindum og heimta brottvísun fólksins úr landi fyrir það eitt að vinna í bransa sem er löglegur í þeirra landi.

Sumir af þeim sem berjast fyrir "frelsi" einstaklingsins, reyndust ekki hafa nokkurn áhuga á því þegar það kom að þessu máli.

Aðrir ásökuðu fólkið um barnaníð og margt fleira í hneykslun sinni og ærumeiðandi fullyrðingar fuku, en sáu ekkert athugavert við það að styðja ólöglegt stríð sem hefur kostað hátt í milljón manns, pyntingar í Guantamano og þjófnað á opinberum eigum af hálfu flokksbræðra sinna.

Fólk sem hneykslast á því að klámliðið gæti verið að koma hingað til að ræða og e.t.v. búa til klám, sér svo ekkert að því að klám sé selt í íslenskum verslunum og kaupir sér kannski einn DVD með dildóinum sínum. Klámlögum er ekkert framfylgt gagnvart Íslendingum, að því virðist.

Þeir sem vörðu rétt fólksins til að koma hingað, hafa sumir hverjir verið á móti því að innflytjendur flyttust til landsins því það væru glæpamenn og fólk sem tilheyrði óæskilegum trúarbrögðum, væri ekki velkomið.

Varnaraðilum klámliðsins finnst svo alveg ótækt að það megi ekki halda ráðstefnu og tjá skoðanir sínar en eru yfir sig hneykslaðir og vilja banna þeim sem mótmæla Kárahnjúkavirkjun, að koma til landsins.

Sumum af þessum mönnum finnst það alveg ótækt að feministar mótmæli klámi en fagna óspart þegar kemur að því að hrinda gamalmennum frá skattframtölum, í mótmælum sinna manna á skattstofunni.

Varnaraðilum klámliðsins finnst svo ótækt að brotið sé á réttindum klámborgara en sjá ekkert að því að konur hafi ekki jafnan rétt til launa.

Og svo sem síðasta dæmi, hótelið sem úthýsti klámhundunum, reyndist vera svo sjálft að selja klám í gróðaskyni.

Svona í lokin, þá hafa klámhundarnir fullan rétt til að koma til landsins og halda ráðstefnu því þó þeir séu sleazy þá eiga þeir að hafa jöfn réttnidi við annað fólk, feministar sem og aðrir hafa fullan rétt til að mótmæla þessu og grípa til aðgerða eða þrýstings, hótelið hefur fullan rétt til þess að vísa frá gestum sem þeir telja óæskilega og gestirnir hafa fullan rétt til að sækja rétt sinn ef þeir töldu á sér brotið.

Ef eitthvað er þá hefur þetta opinberað hvað Íslendingar eru móðursjúkar og smáborgaralegar dramadrottnignar þegar kemur að málum sem skipta litlu máli þannig séð, en ekki múkk heyrist þegar kemur að stórum málum og áhugaleysið algjört, sérstaklega þegar kemur að því að bæta mannréttindi stórs hóps fólks. 

Er þessi ráðstefna ekki annars bara afleiðing af vel heppnaðri markaðssetningu Icelandairs á Íslandi sem landi one night stands og dirty weekends?

 


BAFTA, eftirsjá kvikmyndaunnanda o.fl. bíótengt

Einhvern veginn er ég bara hreinlega stemmdur til að blogga um stóru ástríðu mína í lífinu: bíómyndir. Það hefur nefnielga gengið svo mikið á þar á bæ síðustu vikuna eða svo. Mun örugglega vaða úr einu í annað.

Fyrst langar mig til að minnast hins frábæra leikara Ian Richardson sem féll frá, í síðustu viku. Eitt hlutverk hans er í miklu uppáhaldi hjá mér, lanstjórinn í An ungentlemanly act sem var bresk, hárbeitt sjonvarpsmynd um fyrstu 36 klst. í Falklandseyjarstríðinu. Enn einn fallinn frá sem ég þarf að skála fyrir og góða skál. Fyrir þá sem ekki til þekkja þá höfum við tveir félagarnir þá venju að við skálum í einhverju áfengu fyrir öllum þeim er hafa lagt eitthvað fram til kvikmynda og heiðrum þannig fráhvarf þeirra. Annars minntist nú Helen Mirren hans einnig á BAFTA og upplýsti að hann hefði verið hennar kennari í leik.

Talandi um BAFTA, þá eru það á margan hátt mjög afslöppuð og skemmtileg verðlaunahátíð, ekki glamúr eins og Óskarinn heldur meira eins og undirbúningur fyrir gott partý. Þar hefur spilað inn í skemmtilegir kynnar og svo það sem ég fíla hvað mest við BAFTA, þar er heiðrarð fólk sem er ekki endilega í sviðsljósinu en leggur mikið af mörkum á bak við tjöldin. T.d. í ár var location manager nokkur heiðraður, maður sem sér um að finna tökustaði og skipuleggja tökuáætlanir og sjá til þess að allt gangi eftir áætlun, þessar örfáu mínútur sem tekur að taka upp atriði. Þessi maður sem ég man ekki hvað heitir(og skammast mín) sá m.a. um að stoppa alla umferð í London þegar strætóatríðð í Harry Potter var tekið upp og loka frægum stöðum fyrir V for vendetta þegar marsering V-eftirhermana fór fram. Mikil vinna og nokkuð sem spáir kannski ekki í. Tek hattinn ofan fyrir slíkum mönnum.

AFtur á móti tók ég eftir einum í viðbót í In memorium á BAFTA sem þarf að skála fyrir og lát hans hafði farið framhjá mér: Kenneth Griffith. Flestir í dag sem hafa lítið horft á eldir myndir muna eftir honum sem gamla kallinum í Four weddings and a funeral en hjá mér sem öðrum fanatískum kvikmyndaáhugamönnum sem traustur aukaleikari í ótal gamanmyndum sem og öðrum. Uppáhaldshlutverk hans hjá mér er þó sem samkynhneigði sjúkraliðinn í stríðsmyndinni The wild geese þar sem hann stal senunni í hverju atriði sem hann birtist í og af mönnum eins og Richard Burton, Richard Harris, Hardy Kruger og Roger Moore. Geri aðrir betur! Annar sem lék í þeirri mynd féll einnig frá í fyrra: Patrick Allen, ágætur aukaleikari sem var yfirleitt hermaður, aðalsmaður eða lögga, Shakespeare-leikari sem fór ekki mikið fyrir.

En nóg um það, færum okkur yfir í næsta kvikmyndaviðburð vikunnar hjá mér. Heimildarmyndakl´buburinn Hómer hittist enn eina ferðinni í gær og tók fyrir tvær heimildarmyndir sem tilnefndar eru til Óskars(erum einnig búnir að sjá hina mögnuðu Jesus Camp). Fyrst horfðum við á An inconvient truth sem er stórgóð þó hún sé ekki nema fyirrlestur í raun. Hún heldur athyglinni allan tíman og fær mann til að vilja vita meir um global warming. Þetta er allavega umræðuefni sem er þess virði að fara að ræða almennielga og grípa til aðgerða og láta þá ekki gróðahagsmuni fyrirtækja ráða ferðinni fyrst og fremst. Hvernig eiga þau annars að græða ef mannkynið er orðið að léttgrilluðum kolamolum?

 Hin myndin var My country, my country sem er um kosningarnar í Írak og aðdragandann, séð frá nokkrum sjónarhólum. Á margan hátt mjög góð mynd en hefði mátt fókusera e.t.v. betur þó maður fái mikla tilfinningu fyrir andrúmsloftinu í Írak, óttanum hjá hermönnum sem og borgurum, venjulegu fjölskyldulífi í skugga sprenginga, skothríða og rafmagnsleysi á meðan þyrlur sveima yfir Baghdad. Mæli með að kíkja á hana þó hún sé gölluð.

 Að lokum, þá sá ég Pan's labyrinth aftur í kvöld. Mögnuð mynd sem verður betri í annað sinn og maður vonast eftir nokkrum styttum þarnæstu helgi, til hennar.

 


Ys og þys skammdegisins

Stundum þegar fólk kvartar yfir því að janúar og febrúar séu svo leiðinlegir mánuðir, ekkert gerast í skammdeginu og allt í volæði, þá get ég ekki annað en glottað. Ef eitthvað er þá er það ekki nógu duglegt við að finna sér eitthvað til dundurs líkt og ég. Það er einhvern veginn búið að vera allt brjálað hjá mér í að glápa niður DVD-staflann, tæta í mig bækur, er á Microsoft-námskeiði, kvikmyndaklúbbarnir Afspyrna og Hómer á fullu ásamt því að Óskars-myndirnar streyma í bíó og er að klára handritsuppkast þannig að það sé boðlegt í styrkumsókn. Ekki dauð stund í lífinu eftir vinnu og stundum nær maður m.a.s. að slappa af á mlli.

Fólk verður einfaldlega að líta í eigin barm stundum og átta sig á því að það getur ekki beðið eftir því að einhver finni upp á skemmtilegu að gera fyrir sig, heldur verður það að taka af skarið og finna sér eitthvað skemmtilegt að gera og hafa samband við vini og ættingja eða taka frumvkæði að því að hittast. Það er nefnilega ekki alltaf hægt að ætlast til þess að aðrir sjái um slíkt og koðna svo niður sjálfur án þess að skilja hvers vegna ekkert gerist. Oft á tíðum er einnig hægt að gera eitthvað án þess að það kosti mikinn tilkostnað eða engan pening: göngutúr, spilakvöld, lítið matarboð(þarf ekki endilega að þýða drykkju) eða annað.

Semsagt, ef þið þjáist af svona vandamálum með leiðindi, takið ykkur til og eigið frumkvæði að því að gera eitthvað sniðugt og skemmtilegt, hvort sem það er fyrir ykkur sjálf eingöngu eða fleiri í kring. Lífið er einfaldlega of stutt til þess að láta sér leiðast. 


Demantar eru bestu vinir stúlkunnar

Fyrir nokkrum árum þá var systir mín með ergelsi yfir saumaklúbb sem hún hafði farið í. Ein vinkonan átti mann sem hafði heitið því að gefa henni aldrei demant vegna einokunarverslunar og okrinu á þeim. Hinar vinkonurnar voru yfir sig hneykslaðar á þessu tilltisleysi mannsins því eins og allir vita:"Diamonds are girl's best friend" og fóru að bollaleggja að það yrði að taka á þessum stóra vanda vinkonunnar með demantsgjöf til hennar. Systir mín sem er soldið pólitísk, fékk nóg og hélt þrumuræðu yfir þeim um allan óþverran sem tengdist demanta-iðnaðinum: stríðin, grimmdarverkin, barnahermennina og klykkti út að hún væri alveg sammála skoðunum mannsins. Á meðan horfðu vinkonurnar á systur mína með tómum Bambi-augum eins og hún væri að lýsa hægðum sínum, og þegar ræðunni lauk, snéru þær sér aftur að því að planleggja demantskaupin, búnar að blokkera allt hið vonda út.

 Ég mundi eftir þessari sögu í gær,þegar ég fór á hina ágætu Blood diamond sem er hasarmynd með boðskap og gerist í löngu og ömurlegu borgarastríði í Sierra Leone sem öllum var sama um(gæti reyndar haldið heilan fyrirlestur um viðbjóðinn þar t.d. Guess the baby anyone?).Það eina sem heimurinn hafði áhyggjur af, var flæði demanta þaðan og má kannski segja að þessi saga að ofan sé dæmigerð fyrir heiminn og sinnuleysi hans. Við höfum meiri áhyggjur af glingri og hagsmunum okkar en viljum ekkert vita af hörmungum og hvernig við eignumst þetta glingur á kostnað afhöggina útlima, ráni á börnum sem með nauðgunum, pyntingum,ánetjun fíkniefna og heilaþvotti eru gerð að grimmum hermönnum, fjöldamorða og margs konar hörmunga.Ef einhver segir að þetta sé Afríkuvæl eða álíka, þá bendi ég hinum sama að hugleiða hvernig vopnakaup eru framleidd, sérstaklega til skæruliða. Ekki slá þeir lán hjá Alþjóðabankanum? 

En þetta skiptir svo sem engu máli í raun, allar konur verða að eiga demant.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

AK-72

Höfundur

AK-72
AK-72
Með óþrjótandi áhuga á kvikmyndum, sögu og stjórnmálum.Telur sig hafa fullt frelsi til að hrósa og gagnrýna hvern sem er og hvenær sem er.
Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • ...1212_913482
  • ...ner1_568492
  • ...rad-banner1
  • Screenshot

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband