Færsluflokkur: Fjármál
31.8.2009 | 08:10
Spurningar varðandi tilboð Magma og einnig ársreikning HS
Það er alltaf meir og meir sem vekur upp áleitnar spurningar og óþægilegar í tengslum við einkavæðingu Hitaveitu Suðurnesja, tengslanet o.fl. sem ég hef fjallað um aðeins áður. Þarna eru auðlindir Suðurnesjamanna að komast í hendur erlends fyrirtækis sem enginn veit hver á og innlendra braskara sem skulda á bilinu 20-30 milljarða hjá Íslandsbanka en fá að starfa áfram óáreittir. Er það hugsanlega vegna náinna tengsla þar á bæ við eigendur Geysi Greens Energy, svo náin og innvígð að það er eins og klippt út úr verkferilskerfi hins Gamla, Spillta Íslands.
En nú er ögurstund í dag því tilboð Magma Energy um kaup á hlut OR í HS Orku sem gæfi þeim meirihlutaeign rennur út í dag eða eins og það kallast hjá gamla, spillta Íslandi: yrðu "kjölfestufjárfestir". Í framhaldi af því er ágætt að velta fyrir sér nokkrum spurningum og ekki bara hverjir standa þarna á bak við í raun. Á heimasíðu Ögmunds Jónassonar má finna bréf frá lesenda sem ber upp nokkrar spurningar:
" Ef hluturinn verður samt sem áður seldur, hvaða tryggingu höfum við fyrir því að reksturinn verði til hagsbóta fyrir landsmenn og arðurinn renni ekki úr landi?
Afhverju tekur félagið ekki lán hjá lánastofnunum í Kanada eða Bandaríkjunum á þeim lágu vöxtum sem allir tala um að séu í boði og borgar greindan hlut upp í topp þ.e. skuldar hinum erlendum bönkum eftirstöðvar kaupverðsins frekar en að Orkuveita Reykjavíkur taki að sér að fjármagna þessi kaup?
Ef kjörin eru ekki nógu hagstæð í þessum löndum, fyrir fyrirtæki sem er jafn vel rekið og vel stætt og eigandi þess segir, er þá eðlilegt að Orkuveita Reykjavíkur taki þessa áhættu og veiti lánið? Það er eins og það eigi bara að selja sama hversu lélegt tilboðið er."
Þetta eru nefnilega umhugsunarverðar spurningar og eiginlega vekur fleiri upp.
- Hversvegna á OR að lána Magma fyrir hlutnum?
- Af hverju á OR að fara að selja með gríðarlegu tapi fyrir okkur útsvarseigendur í Reykjavík sem eigum þennan hlut?
- Hvaða skynsemi felst í því að selja hlut og lána með 7 ára kúluláni á svo lágum vöxtum að lánið brennur upp í verðbólgu?
- Eru borgarfulltrúar Reykjavíkur og stjórn OR nokkuð að hugsa um hagsmuni Reykvíkinga?
- Hvað býr að baki þessari asa við að koma hlut OR í HS Orku í hendur aðilum sem ekkert er vitað um?
- Hversvegna þarf Magma að fá lán hér?
- Hversvegna geta Magma ekki fjármagnað kaupin erlendis(svo maður hamri á þessu aftur)?
- Hvað er vitað um fjárhag Magma og eigendur þeirra?
Einhverra hluta vegna verður maður sannfærðari og sannfærðari um að þetta sé nýtt REI-mál á ferð, sérstaklega þar sem eins og ég hef ymprað á áður, það eru sömu leikendur enn við borðið, sama fólkið að véla um að koma eigum almennings í hendur örfárra manna eða fyrirtækja sem er nákvæmlega sama um hvernig okkur vegnar, heldur aðeins hugsað um gróðann sér til handa með tilheyrandi hækkun orkuverðs, versnandi þjónustu og öllum þeim skelfingum sem fylgir einkavæðingu auðlinda og nauðsynlegrar þjónustu til handa almenningi í hendur rándýra græðginnar sem er enn að.
En talandi um að hugsa ekki um hag almennings, þá benti Sveinn nokkur Pálsson eða Sveinn hinn Ungi, á áhugaverðan hlut í bloggfærslu sinni um Hitaveitu Suðurnesja. Sveinn gluggaði þar í ársreikninga Hitaveitu Suðurnesja fyrir árið 2008 og tók eftir frekar áhugaverðum hlut í tengslum við tap HS á því ári. Hitaveita Suðurnesja tapaði þá 11,7 milljörðum sem er talsverður viðsnúningur frá árinu á undan og fyrri árum. Það sem er þó sérlega athyglisvert í þessu öllu er hver er ástæðan á hluta tapsins.
Hitaveita Suðurnesja tapaði 4,6 milljörðum vegna afleiðusamninga.
Eins og mér skilst, þá er afleiðusamningar einfaldlega veðmál um að eitthvað verði á ákveðnu verði eftir einhvern tíma eða með öðrum orðum, þú veðjar eða ert í raun að taka þátt í fjárhættuspili. Þetta vekur upp ákveðnar spurningar einnig:
- Hversvegna er fyrirtæki sem er í orkuviðskiptum að stunda fjárhættuspil?
- Hversvegna leyfðu opinberir eigendur Hitaveitu Suðurnesja sem hefur það að markmiði að stunda orkuframleiðslu, að farið væri út í áhættusamt fjárhættuspil og brask?
- Hversvegna gripu þeir ekki í taumana og hversvegna gerði enginn athugasemd við þetta?
- Eru fleiri orkufyrirtæki í svipuðum "monkey business"?
Eignast meirihluta í HS Orku | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Breytt s.d. kl. 08:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
2.8.2009 | 13:44
Lánabók Kaupþings: Illir kostir Kaupþings, hugleiðingar um lögbannið og stóra, skuggalega myndin
Þegar fréttir af lánabók Kaupþings dundu yfir mann og lögbannið var skellt á fréttir RÚV vegna fréttaflutnings úr lánabók Kaupþings sem hafði verið sett á vefinn Wiki-Leaks, þá áttaði ég mig á einu. Ég er ekki reiður lengur, ég er orðinn dofinn yfir hverri einustu fjöldagröf fjármálafrjálshyggjunar sem opnuð er úr rústum Fjórða Ríkis Frjálshyggjunar.
Kannski hjálpar það þó til að sjá hlutina á fleiri en einn hátt, að vera laus við reiðina og vera orðinn svellkaldur yfir öllum þessum óhugnaði sem 18 ár frjálshyggju Davíðs Oddsonar og náhirðar hans, skildi eftir sem minnisvarða um hluti sem mega aldrei endurtaka sig aftur.
En hvað um það, ég ætla að hætta mér út beint út í stórskotahríðina fyrst og koma Kaupþing örlítið til varnar í upphafi. Ég held nefnilega að þeim hafi ekki verið á öðru stætt en að krefjast lögbanns á frétt RÚV með tilliti til starfsemi þeirra. Í lánabókinni sem birtist á Wikileaks, er nefnilega ekki bara að finna upplýsingar um Exista, Bakkabræður og annan óþjóðalýð, heldur einnig fara þarna út upplýsingar um fyrirtæki sem eru heiðarleg, stunda eðlileg viðskipti og hafa í raun ekkert erindi sem fréttamatur né eiga erindi út á við, þ.e.a.s ef allt var eðilegt og því ekki óeðlileg ástæða fyrir lögbannskröfunni til að geta haldið andlitinu gagnvart viðskiptavinum sínum. Önnur ástæða sem ég sé einnig sem forsendur fyrir lögbannskröfu, er að þessi bévítans bankaleynd myndi gera Kaupþing skaðabótaskylt ef þeir reyndu ekki að gera neitt í málunum. Þá hefðu blankir Bakkavarar-bræður, svikamyllan Exista o.fl. getað farið í mál og náð fé til sín(eins og þeir hafi ekki hirt nóg) í gegnum lagalegan grundvöll. Einhvern veginn held ég að maður yrði einstaklega ósáttur við það og vonandi nær þetta að slá það vopn úr höndum þeirra. Þetta var því val á milli að "damned if we do, damned if we don't" kosts.
Nú veit ég að reiðin hefur fengið einhver augu til að tútna út yfir því að ég sé með vörn fyrir Kaupþing. Skiliningur á hversvegna gripið er til svona aðgerða, gerir mann ekki sjálfkrafa samþykkan þeim og ég er engan veginn sáttur við lögbannið á fréttaflutning RÚV því þetta eru upplýsingar sem eiga fullt erindi við almenning, þ.e.a.s. upplýsingar um hrunvaldana. Enda viðbröðgin allstaðar sú sömu, harkaleg með hvatningu til "Streisand effect".Þó er eitt jákvætt við þetta lögbann, nú munum við fáið út úr því skorð fyrir dómi, hvort bankaleynd sé ofar almannahagsmunum, hvort bankaleynd sé ofar réttlæti og hvort bankaleynd sé ofar siðferði og glæpum.
En það er samt svo að þegar maður hættir að einblína á lánabókina sjálfa, þá kvikna ýmsar spurningar um lögbannið. Hveresvegna bara RÚV? Hversvegna ekki hinar stöðvarnar? Hvað var það í frétt RÚV sem gerir þá að sérstöku skotmarki? Maður gæti velt fyrir sér hvort það sé vegna þess að þetta er prófmál, hvort þetta sé vegna þess að Kaupþing var þarna með málamyndargjörning eða það sem ég og fleiri tókum efitr: Kristinn Hrafnsson talaði um heimildir um gífurlega fjármagnsflutninga hjá Kaupþingi og að á næstu dögum yrði meira sagt frá þeim, nokkuð sem Hörður Svavarsson veltir ágætlega upp í blogg-færslu sinni.Heimildr Kristinn virðast vera nokkuð fleiri en upplýsingarnar úr lánabókinni.
En frétt RÚV er ekki það eina sem vakti upp spurningar og hvort meira væri í gangi. Frétt DV á föstudagskvöldið um að lánanefndin hefði afgreitt þessi mál sama dag og þegar ákveðið var að fella niður ábyrgðir starfsmanna Kaupþings, fengu ákveðnar bjöllur til að hringja í hausnum í mér. Í kjölfarið fór ég að grufla og setja saman stærri mynd sem er örugglega ekki tæmandi. Það flaug nefnilega upp í hausinn á mér allar þær fréttir sem komið hafa fram um millifærslur o.fl. og ég ákvað að skoða einn vinkil á þessu, ekki upphæðirnar, heldur tímalínuna í kringum þetta.Ef við byrjum á að líta á tímalínu frá byrjun september:
- 2. september: Björgvin G. Sigurðsson og Baldur Guðlaugsson sitja fund í London varðandi bankakerfið og áhyggjur breskra yfirvalda af Landsbankanum í London lýst þar yfir.
- 11. september: Sigurður Valtýsson forstjóri Exista, færir eignarhlut sinn í félag á Tortola-eyjum. Stuttu eftir hrunið sjálft skráir hann húsið yfir á konuna.
- 7-16. september(hugsanlegt tímabil).:Baldur Guðlaugsson ráðuneytistjóri selur bréf sín í Landsbankanum. Sumar fréttir segja að salan hafi farið fram nokkrum dögum eftir Lundúnar-fund, aðrar tveimur vikum.
- 22. september: Sheik Al-Thani kaupir 5% í Kaupþingi.
- 23. september: Hæsta millifærsla Bjarna Ármanns út úr landi. Hinar millifærslurnar ásamt millifærslum Lárusar Welding, voru ekki dagsettar í fréttum.
- 25. september: Lánanefnd Kaupþings afgreiðir lán og afskrifar önnur, til útrásarvíkingafyrirtækja. Samþykkt í stjórn Kaupþings að ábyrgðir starfsmanna á lánum falli niður. Einar Sveinsson fyrrum stjórnarmaður í Glitni, millifærir 170 milljónir af reikningi sínum til Noregs.
- 29. september: Ríkið lýsir því yfir að ætlun sé að yfirtaka Glitni og kaupa 75% hlut í bankanum.
- 2. október: Ólafur Ólafsson lætur Kaupþing í Lúxemborg kaupa ríkiskuldabréf fyrir fé sitt í Lúxemborg og hefur verið að koma fé út úr landi um svipað leyti.
- 3. október: Breska fjármála-eftirlitið gerir sérstakar ráðstafanir til að tryggja að innlagnir í Singer&Friedlander fari ekki inn í bankann, heldur á serstakan reikning. Heritable, dótturfélagi Landsbankans einnig gert skylt að gera hið sama. Imon-félag Magnús Ármanns kaupir í Landsbankanum.
- 6. október: Kaupþings-menn fara inn í Seðlabankann og fá 80 milljarða króna lán. Sama dag eru Singer & Friedlander og Heritable sett í gjörgæslu breskra yfirvalda
- 7. október:Heritable fært undir hollenska bankann ING.Seðlabankinn festir gengið við krónuna og upphefst miklar umbreytingar úr krónum í evrur innan bankanna. Landsbankinn yfirtekinn.
- 8. október: Seðlabankinn heldur fast við gengisfestinguna allt þar til um kvöldið. Hryðjuverkalög sett á Landsbankann og Kaupþing Edge fært undir ING-bankann.Glitnir yfirtekinn
- 9. október: Kaupþing yfirtekið af ríkinu.
- Björgólfs-feðgar, Karl Wernersson, Magnús Þorsteinsson, Samson og Milestone fluttu fé út úr landi.
- Bakkavör flutti frá London til Reykjavíkur 130 milljónir punda í byrjun október. Þessi fjármagnsflutningur er llíklega einn af orsakavaldöldum hryðjuverkalaga Breta.
- Fleiri menn í viðskiptalífinu(fyrir utan Kaupþings-menn) fluttu eigur sínar í einkahlutafélög eða yfir á konuna fyrir hrun. Ef fólk hefur orku í að finna það út hverjir það voru, endilega komið því á framfæri.
- Kaupþing í Lúxemborg, Tortola-eyjar o.fl. lönd, eru vinsælir áfangastaðir fyrir þetta þar sem rík krafa um bankaleynd, gerir auðveldara fyrir menn að fela eignarhald og hvert peningar fara.
- Hlutabréfakaup Al-Thani og Imons, félags Magnúsar Ármannsonar, eru þegar komin í rannsókn sem sýndarviðskipti.
- Nokkrum sinnum áður hafa birst fréttir af því að óeðlilegir millifærslur hafi átt sér stað hjá Kaupþingi í kringum hrun, sem eru í rannsókn hjá rannsóknanefndinni og saksóknara.
- Glitnir hefur ráðið sérfræðifyrirtækið Kroll til að kanna hugsanlegar óeðililegar millifærslur fyrir hrun.
Ef við skoðum þetta allt saman(vantar reyndar peningaflutninga af IceSave inn í myndina), þá er eitt sem stingur mann strax. Snemma í september voru menn byrjaðir að bjarga egin skinni, selja bréf, losa um eigur og flytja fé út úr landi. Upp úr miðjum september virðist vera brostinn á almennur fjármagnsflótti útrásarvíkinga, bankamanna og annara með innherja-upplýsingar ásamt því að allavega tvenn sýndarviðskipti eru sett á svið. Þetta er bara það sem við vitum af, nota bene, við höfum ekkert fengið enn af ráði úr Glitni og Landsbankanum sem slegin hefur verið þagnarmúr í kringum. Persónulega grunar mig að mesti óhugnaðurinn leynist í Landsbankanum og ekki bara IceSave, heldur einnig þar sem Björgólfs-feðgar réðu þar ríkjum og stjórnsýsla Sjálfstæðisflokksins var hvað í mestu ástarsambandi þar við, enda bankinn atvinnumiðlun fyrir margan SUS-arann og bankastjórnin tengd beint inn í æðstu stjórn landsins. Samkvæmt heimildarmanni sem ég hef enga ástæðu til að rengja, þá átti þar nefnilega líka sér stað sú fyrirgreiðsla til stjórnmálamanna sem hefur veirð minnst á, og gæti átt sinn þátt í því að algjör skjaldborg hafi verið slegin um þann banka til verndar starfsferlum margra. Þögn hefur svo ríkt um Glitni síðan leki varð þar síðasta haust og gripið var til ráðstafana til að koma í veg fyrir slíkt.
Svo má einnig benda á til viðbótar, að allir þessir aðilar: Kaupþings-klíkan, Landsbanka-lýðurinn og Glitnis-gengið, voru að lána hvor öðrum, halda saman upp verði á hlutabréfum bankanna sinna og stunduðu allskonar óeðlilega viðskiptahætti sem miðuðu að því að viðhalda blekkingunni. Því er mögulegt að þegar einhver úr þessum hópi hafi fengið upplýsingar um að öll spilaborgin hafi verið að fara að hrynja, að bræðralagið hafi í anda skyttnana eða einn fyrir alla, allir fyrir einn, hafi gilt framar öllu og boðin gengið út: Þetta er búið, læsið neðri þilförunum svo almenningur komist ekki í björgunarbátana sem ætlaðir eru okkur einum.
En þetta vekur líka upp ýmsar spurnignar til viðbótar, ekki bara ályktanir. Hvaða vitneskja olli þessum fjölmenna flótta og uppnámi fyrir hrun? Lak eitthvað út úr stjórnsýslunni eða frá stjórnmálamönnum sem áttu ýmislegt undir, um að aðgerðir væru í vændum? Hveersvegna gripu FME og Seðlabanki ekki til aðgerða? Hverjir fleiri losuðu um fé sitt úr innstu röðum stjórnsýslunar og stjórnmálaflokkana? Höfðu ráðherrar, þingmenn, ráðuneytistjórar og aðrir valdamenn upplýsingar um hvað væri í gangi innan bankanna og sýndarviðskipti færu þar fram? Og svo hverjir sátu í lánanefndum bankanna?
Mörgum spurningum og hlutum er hægt að velta upp til viðbótar en þetta ætti að nægja að sinni. Þó er eitt atriði sem rifjaðist upp fyrir mér við þessa litlu samantekt og upplýsingaleit og það er þetta hér:
- SKY sjónvarpsstöðin kom fram með umfjöllun um að Ísland hefði veirð notað sem peningaþvottastöð fyrir rússnesku mafíuna. Einnig var skrifuð grein þar sem fjallað var um þetta í rússnesku blaði og birtist hún víða.
Er þetta ekki mál sem ætti að rannsaka einnig frekar? Gæti peningaþvætti tengst fjármagnsflutningum?
Að lokum, þá býð ég ykkur upp á gott grín í boði Samtaka atvinnulífsins: frétt um morgunverðarfund SA sem hafði yfirskriftina:
Traust í viðskiptalífinu - Getur gott siðferði borgað sig?
Netverjar æfir yfir lögbanni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Breytt 3.8.2009 kl. 12:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
14.7.2009 | 11:05
Svar frá Finni bankastjóra vegna bloggbréfs í síðustu viku
Í síðustu vikur ritaði ég opið bréf á blogginu hjá mér til Finns Sveinbjörnssonar, bankastjóra Kaupþings vegna Björgúlfsmála. Ekki bjóst ég nú við því að í pósthólfi mínu myndi ég finna svar í morgun og finnst það nú virðingarvert af Finni, að svara aumum bloggara eins og mér. Hann bað mig um að birta einnig svarið opinberlega og get ég ekki annað en orðið við þeirri sjálfsögðu ósk. Hér á eftir fer bréfið í heild sinni:
Kæri Agnar
Þakka þér fyrir bloggbréfið sem þú sendir mér í síðustu viku. Þótt þú hafir verið hrifsaður yfir í Nýja Kaupþing, eins og þú orðar það, þá vona ég að þú verðir ánægður með þjónustuna og haldir áfram í viðskiptum um langa tíð, rétt eins og allir hinir 100.000 viðskiptavinir bankans.
Í bréfinu þínu koma fram ýmis jákvæð atriði í minn garð sem ég þakka þér fyrir. Það er alltaf gott að fá strokur! Þú beinir þeim tilmælum til mín að marka bankanum siðlega viðskiptahætti. Mig langar að upplýsa þig um að í síðasta mánuði gekkst bankinn fyrir námskeiði fyrir stjórnarmenn í bankanum og dótturfélögum hans og helstu stjórnendur bankans um góða stjórnarhætti. Þar fór sérfræðingur á sviði stjórnarhátta yfir helstu atriði sem einkenna góða (og slæma stjórnarhætti) og guðfræðingur/siðfræðingur fjallaði um viðskiptasiðfræði. Þótt hér væri ekki um ítarlega yfirferð að ræða, opnaði hún augu þátttakenda fyrir fjölmörgu sem bæta má. Stjórn bankans leggur höfuðkapp á að endurvekja traust viðskiptavina og alls almennings á bankanum. Það verður ekki gert með einföldum töfralausnum eða sýndarmennsku, heldur hægt og bítandi á löngum tíma. Breytingar á stjórnendateymi bankans eru hluti af því. Nýtt nafn, stefna, framtíðarsýn og gildi annar hluti. Endurskoðun á innri reglum bankans, stjórnarháttum, daglegum vinnubrögðum, markaðsstarfi og hvernig stöðugt er unnið að úirbótum á öllum sviðum eru önnur dæmi um þætti sem huga þarf að þegar traust er endurvakið. Og eitt bið ég þig um að halda til haga: Starfsfólk bankans hefur almennt staðið sig frábærlega við erfiðar aðstæður frá bankahruninu í október. Álagið hefur verið mikið, mál iðulega flókin og illleysanleg og umræðan og viðhorfin í fjölmiðlum og meðal almennings í garð bankans yfirleitt neikvæð.
Ég vil nefna að fljótlega mun ég kynna fyrir stjórn bankans verkefni/áætlun sem miðar að því að stjórnarhættir í bankanum verði til fyrirmyndar hér á landi. Þetta er metnaðarfullt markmið en það er þess virði að reyna. Það hefur komið fram opinberlega að ráðningarsamningur minn við bankann nær til áramóta. Þá lýkur honum einfaldlega án uppsagnarfrests, án biðlauna eða nokkurrar annarrar starfslokagreiðslu. Fyrir liggur vilji núverandi eiganda bankans til að auglýsa bankastjórastarfið laust til umsóknar. Mér finnst það sjálfsagt og eðlilegt. Hvort sem ég verð lengur í bankanum en til áramóta eða ekki, þá er mér það metnaðarmál að nota þessa mánuði til að endurreisa bankann eftir erfiðan vetur ásamt því góða fólki sem hér starfar. Keppikeflið er að hann verði fyrirmyndarfyrirtæki sem nýtur trausts meðal viðskiptavina og annarra landsmanna og getur tekist af fagmennsku á við þau tröllvöxnu skuldaverkefni sem við blasa.
Í bréfinu þínu koma fram áhyggjur af því að bankinn muni afskrifa skuldir nafngreindra einstaklinga. Ég vil endurtaka það sem ég hef þegar sagt: Þessar skuldir hafa ekki verið afskrifaðar. Unnið er að málinu innan bankans eins og svo fjölmörgum öðrum stórum og smáum skuldamálum. Ég vil jafnframt fullvissa þig um að bæði ég og stjórn bankans gerum okkur grein fyrir afstöðu fjölmargra viðskiptavina og annarra landsmanna til hugsanlegrar afskriftar. Og ég fullyrði að þegar að því kemur að leiða þetta mál til lykta verða hagsmunir bankans, í víðtækasta skilningi, hafðir að leiðarljósi.
Fyrst ég er með þig á línunni", þá langar mig að reifa nokkur atriði sem hafa verið mér, öðru starfsfólki og stjórn bankans hugleikin að undanförnu:
1. Það hefur löngum verið meginregla banka að horfa eingöngu til viðskiptalegra sjónarmiða og reyna að hámarka verðmæti við innheimtu skulda. Þetta getur gerst með ýmsum hætti, þ.á m. með samningum og einhverri eftirgjöf skulda. Stundum búa bankar yfir betri vitneskju um tekjur, eignir og skuldir viðkomandi en aðrir utanaðkomandi og meta því aðstæður með öðrum hætti (ég er að tala almennt en ekki sérstaklega um það mál sem þú nefnir í bloggbréfi þínu). Ef þrýst er á banka að víkja frá þessari meginreglu, við hvað á þá að miða? Eiga bankar að setjast í dómarasæti og vega og meta viðskiptavini eftir einhverju öðru en viðskiptalegum sjónarmiðum? Á hvaða forsendum? Ef við heimfærum þetta á okkar land, eiga bankar að ganga sérstaklega hart gegn þeim einstaklingum sem teljast hafa komið landinu í þá stöðu sem það er nú? Hvað með þá sem mætti kalla minniháttar útrásarvíkinga"? En stjórnmálamenn?
2. Við í Nýja Kaupþingi gerum okkur fulla grein fyrir því að aðgerðaleysi í skuldamálum einstaklinga og fyrirtækja eykur aðeins á þann vanda sem þjóðin stendur frammi fyrir. Við erum alfarið á móti því að láta reka á reiðanum í þeirri von að mál leysist af sjálfu sér á þann hátt að einstaklingar og fyrirtæki með veikustu fjárhagsstöðuna fari í þrot en aðrir lifi. Við viljum bretta upp ermar og taka á málum. Við höfum þróað verklagsreglur og verkferla. Ráðinn hefur umboðsmaður viðskiptavina sem fylgist með því að gætt sé sanngirni og jafnræðis og hugað að samkeppnissjónarmiðum. Við höfum breytt skipulagi bankans til að geta betur tekist á við úrlausn skuldavandamála. Ég reikna með að á næstu vikum dragi mjög til tíðinda því um þessar mundir renna út frystingar hjá aragrúa viðskiptavina. Við höfum þróað ýmsar lausnir og viðrað þær við viðskiptavini okkar og utanaðkomandi aðila. Viðbrögðin eru ekki einhlít og lýsa ágætlega þeirri togstreitu sem er meðal þjóðarinnar:
a. Sé ætlunin að afskrifa skuldir einstaklinga og laga þær að greiðslugetu viðkomandi, þá spyrja þau sem ráða ágætlega við skuldir sínar og þau sem skulda ekki neitt: Hvað með mig? Af hverju verður ekkert gert fyrir mig? Af hverju á að hjálpa þeim sem lifðu hátt, fjárfestu í stóru og glæsilegu húsnæði og eyddu kæruleysislega um efni fram? Hvað með nágrannann sem sýndi fjárhagslega ábyrgð? Ég heyri þessi sjónarmið iðulega hjá viðskiptavinum.
b. Svipað gildir um fyrirtæki og hugsanlega eftirgjöf á skuldum þeirra. Þegar kemur að stærri fyrirtækjum, sem eru of skuldsett en lífvænleg, þá mun bankinn í einhverjum tilvikum leysa fyrirtækin til sín og fyrri eigendur tapa öllu sínu áður en bankinn afskrifar skuldir. En sama nálgun gengur ekki þegar kemur að smáum og meðalstórum fyrirtækjum. Í þeim tilvikum veltur starfsemin oftar en ekki á eigandanum og það er algerlega óraunhæft fyrir reksturinn að bankann krefjist þess að þeir hverfi úr starfi.. En það þarf að lækka skuldabyrðina að öðrum kosti fara fyrirtækin í þrot. Og með fjöldagjaldþroti fyrirtækja kemur enn meira atvinnuleysi og viðvarandi efnahagskreppa. Því verður að afskrifa skuldir, svo einfalt er það. Hvað þá með fyrirtækin sem standa ágætlega, á ekki að gera eitthvað fyrir þau? Og ef skuldir fyrirtækja verða afskrifaðar að einhverju leyti, hvað þá með einstaklingana?
Þegar ég hugsa um núverandi ástand og framtíð þessarar þjóðar, þá er aðeins eitt sem ég óttast: Að vonbrigðin, vantraustið, tortryggnin, beiskjan og reiðin verði til þess að við hjökkum í sama farinu næstu mánuði og misseri. Ef við ætlum fresta öllu á meðan við leitum að hinu fullkomna réttlæti, þá mun okkur ekki miða fram á veginn. Þá mun sífellt fleira fólk verða afhuga því að búa áfram hér á landi. Það er ömurleg framtíðarsýn og ég veit að þú ert mér sammála í því að vinna að því hörðum höndum að hún gangi ekki eftir. Þú gerir það á þínum vettvangi og ég geri það í bankanum. Einhver mistök verða gerð, kúnstin er að lágmarka þau. En mistökin eru betri en aðgerðaleysið.
Góð kveðja,
Finnur Sveinbjörnsson,
bankastjóri Nýja Kaupþings
Ráðþrota gegn úrræðaleysi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Breytt s.d. kl. 20:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
8.7.2009 | 22:04
Kæri Finnur: Bréf til bankastjóra Kaupþings
Kæri Finnur,
þetta er ekki í fyrsta sinn sem mér dettur í hug að rita til þín bréf upp á síðkastið, síðan ég var hrifsaður úr nýjum heimkynnum bankaviðskipta minna í SPRON yfir til Kaupþings. Þangað hafði ég flutt mig eftir að ég hafði tekið þá ákvörðun að flýja Landsbankann-Birkenau(eins og ég kalla þann óþverrabanka eftir réttorðaðan samanburð Ásmundar kollega þíns á starfseminni þar) en Gylfi Magnússon sá svo mikið eftir mér úr faðmi ríkisins, að hann kom mér í fóstur til þín þremur dögum seinna.
Síðast þegar ég var sestur niður til að skrifa þér bréf, þá var það vegna þess að mér ofbauð eins og fjölmörgum, hvað kom út úr lánabókum bankans, blessað af málsvörum andskotans líkt og lögfræðingar eru oft kallaðir. Til allrar hamingju virtist sem að gripið hefði verið í taumana strax og þrátt fyrir yfirlýsingu um að yfirmaður lögfræðideildarinnar hefði "hætt", þá mátt lesa milli línanna að skófar þitt prýddi auman afturendann á honum þegar hann fauk út um gluggann, líkt og í bestu försum. Eina sem gæti þó skyggt á þær ágætu fréttir, væri ef síðar kæmi í ljós að hann hefði fengið gullna fallhlíf til að draga úr fallinu , en vonandi hefur hún þá verið ansi götótt.
En nú er komið annað tilefni til að skrifa til þín og jafnvel mun alvarlegra en áður. Fyrir það fyrsta þá hef ég haft þá tilfinningu að þú gerir þér grein fyrir hlutunum og sért tilbúinn til þess að reyna að gera þær breytingar sem þarf á íslensri bankastarfsemi, þ.e. að færa hana frá því að vera skipulögð glæpastarfsemi, einkasjóður herrastéttar landsins og sýnikennsla í siðleysi og siðblindu fyrir sögubækur framtíðar. Fyrstu skref þin lofuðu nefnilega góðu með tilheyrilegri hreinsun á yfirmönnunum sem innvinklaðir voru í siðleysð og haldnir firrtri blindu á veruleikann. Þetta gerði það að verkum, að manni fannst þrátt fyrir öll hin rotnandi lík í fjöldagröfum fjármálagjörninga fyrri stjórnenda sem opnuð hafa verið, að e.t.v. væri þetta skásti bankinn af þessum þremur sem settu landið á hliðna.
Því miður verð ég að segja, að ég er mjög uggandi um það álit og sú hugsun læðist nú að mér, að mér hafi nú skjátlast um fólk áður. Ég asnaðist nú til þess á sínum tíma, að kjósa Davíð Oddson einu sinni en hef loksins náð því að hætta að gráta mig í svefn og vonandi get fyrirgefið sjálfum mér einhvern daginn.
En hversvvegna ætli ég sé orðinn svona uggandi? Þér ætti það nú að vera það frekar augljóst eftir daginn í dag. Já, það er vegna þessa smátterís að Kaupþing sé í alvörunni að hugleiða það sem möguleika að afskrifa helming af láni Björgúlfsfeðga upp á 6 milljarða. Nú tel ég þig ekki vera vitlausan mann né óskynsaman en það hvarflar að mér nú þar sem þú ert ekki bara að leika þér með eld, nokkuð sem við brýnum börnum fyrir að gera ekki, heldur ertu hreinlega að leika þér með eldvörpu inn í Kaupþings-vinnuskúrnum fullum af bensínvættum púðurtunnum. Örugglega áhugaverður leikaraskapur í örfáar sekúdnur, en örugglega til þess fallið að sprengja allt innan sem utan af húsinu með skelfilegum afleiðngum.
Svo er nefnilega mál með vexti, að það sýður á fólki vegna þessa máls, og sérstaklega þar sem Björgúlfurnar stungu af frá frekar stórum reikning á bresk-hollensku veitingahúsi, eftir að hafa svolgrað græðgisfullt í sig IceSlave kampavíni með gullflögupastana sínu. Þeir nutu þess einstaklega vel og sitja enn með fullt af eignum, þrátt fyrir reikningnum sem allir aðrir eiga að greiða fyrir: ég, þú, starfsmenn Kaupþings og 300.000+ manns til viðbótar í fjölda ára, ef ekki áratugi. Ég gæti skilið að það hefði hvarflað þessi möguleiki á afskrftum eftir árangarsulaust fjárnám og sýnt þætti að feðgarnir væru eignalausir, orðnir gjaldþrota eða komnir í greiðslu-aðlögun með tilheyrandi tilsjónrmanni, en svo er nú ekki. Þeir virðast nefnilega vera borgunarmenn ólkt öðrum sem tilheyra hinum svokallaða almenningi, þeim almenningi sem gengið er fram af hálfu fulltrúa bankans og handrukkara þeirra, af þvílíkri hörku, að skuldararnir tékka ósjálfrátt hvort búið sé að næla gulri stjörnu í barm þeirra, svona til aðgreiningar frá herrastétt auðmanna, fagfjárfesta og bankamanna.
En, já. Börgúlfarnir eru nú borgunarmenn eins og ég sagði áður, og ekki virðist skorta eigur hjá þeim: stórglæsilegt húsnæði hér og þar fyrir sig, snekkjur, Novator, Actavis, húsnæði og lóðir við Hverfisgötu, Laugaveg og þar í kring auk Fríkirkjuvegs 11 sem líklegast verður breytt í IceSlave-safnið til minningar síðar meir um afglöp nýfrjálshyggjunar, græðginanar og heimskunnar sem réð ríkjum hér, hlutir sem mega aldrei gleymast. Það gæti orðið jafnvel aðdráttarafl fyrir ferðamenn líkt og svipuð söfn um hörmungar annars staðar í Evrópu.
Fleiri eignir iega þeir, en það sr svo skrítið að ekki virðist bankanum hafa dottið til hugar að fara í einhverjar aðgerðir gegn þessum feðgu, ekkert fjárnám, engar eignaupptökur, hvað þá að sleppa hýenuhjörðinni í Intrum lausri gegn þeim, þeirri sömu hýenuhjörð og hneggjandi af hlátri rífur í sig særðan almenninginn og heldur honum á vanskilaskrá um aldur og ævi Einhvernveginn grunar manni að varla yrðu þeir Björgúlfs-feðgar settir á vanskilaskrá eða haldið þar inni með endurnýjun krafna þó þeir slepptu því að borga nokkuð. Sumir eru nefnilega jafnari en aðrir hér á landi, sérstaklega þegar þeir eru vel tengdir og liðkunarsamir þegar kom að fyrirgreiðslum í Landsbankanum til handa stjórnmálamönnum. Hvað þá að þeir tilheyri hinum íslenska aðal sem virðist vera hafinn yfir lög, reglur og geti hagað sér hvernig sem er.
En nú er reiðin orðin mikil og það sýður á vel flestum út af þessu, líkt og þú hefur áttað þig á. Nú þarft þú að íhuga málin vel því þegar Vilhjálmur Bjarnason varaði við borgarastyrjöld í gær, þá þó orðin séu stór, þá má alveg sjá grundvöll fyrir því að þetta gæti haft stóralvarlegar afleiðingar að fella niður skuldir þessara manna án þess að ganga að eigum þeirra fyrst. Það er nefnilega svona jarðvegur sem veldur átökum og jafnvel borgarastyrjöldum, þegar réttlætið fæst með teinóttum jakkafötum eingöngu, þegar sumir eru jafnari en aðrir og þegar fólki finnst það hafa ekki lengur að tapa því traðkað hefur verið svo lengi á þei, það svívirt og ofsótt af þeim sem þjóna teinóttklæddri skuldakóngastétt.
Þetta er nefnilega ekki bara lengur spurning um siðferði, mismunun og vafasama viðskiptahætti heldur er þetta einnig spurning um hvort Kaupþing sé að taka afstöðu gegn almenningi og skipa sér í lið með þeim sem knésettu þjóðina. Þetta er líka orðin spurning um að lægja öldurnar, reyna að skapa frið, reyna að skapa grundvöll fyrir sátt og réttlæti og síðast en ekki síst spurningin um að það sé tekið á sama hátt á öllum.
Þitt er valið en eitt veit ég, ég mun aldrei sætta mig við það né mikið af því fólki sem ég þekki. Ég mun fara fram á það að mér verði boðinn sömu afskriftarkjör á mínum skuldum við bankann þó smáar séu, og ef því verður ekki gengist, þá færa viðskipti mín sem fyrst annað. Það munu örugglega einhverjir fleiri gera það sama og miðað við reiðina og heiftina sem þessi hugmynd ykkar um afskrift, er að valda, þá yrði ég ekkert hissa þó fólk fari í beinni aðgerðir gegn bankanum. Leitt þykir mér þó það mjög, að heyra að þú,konan þín og starfsfólk hafi fengið hótanir, en því miður kom það ekkert á óvart. Tilfinning mín miðað við hvað fólk hefur verið að tjá sig um þetta mál, hefur nefnilega verið sú að þetta sé kannski dropinn sem sé að fylla mælinn hjá sumum, ef hann verður að veruleika. Upplifun fólks hefur nefnilega verið sú að það sé ekkert verið að gera til að taka á mönnum eins og þeim feðgum né hefur lítið náðst að draga úr spennuni í þjóðfélaginu þrátt fyrir tilraunir í þá áttina sem hafa ekki náð að slá á reiðina, spennuna og örvæntinguna.
Að lokum þá langar mig til að beina þeim tilmælum til þín að marka bankanum siðlega viðskkiptahætti, ráða jafnvel siðfræðing til starfa við mat á starfsfólki, kenna fólki hvað er siðferðislega rétt og rangt, og innleiða siðferði í bankann sem grundvallarsýn til framtíðar. Starfshættir sem eru löglegir en siðlausir eru nokkuð sem ekki eru heillavænlegir til frambúðar, líkt og efnahagshrunið hefur sýnt manni.
Kveðja,
Agnar Kr. Þorsteinsson
P.S. Ákvað að birta þetta bréf bara opinberlega á blogg-síðu minni, bankinn okkar virðist ekki bjóða upp á að maður geti sent þér tölvupóst. Auk þess hefur maður grun um að síur vírusvarna bankans, hafi fengið aukahlutverk í dag, þ.e. að flokka alla pósta sem tengjast Björgúlfum sem SPAM og því kannski möguleiki að þetta hefði aldrei borist til þín. Hefði hvort eð er ekki búist við svari.
Bankastjóra Kaupþings hótað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Breytt 9.7.2009 kl. 10:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
3.6.2009 | 21:29
Óeðlileg hagsmunatengsl skilanefndarmanna
Eitt af því voldugasta starf sem skapað hefur verið E.H.(Eftir Hrun), er að vera nefndarmaður í skilanefnd gömlu bankanna. Menn sem sitja þar, þurfa að taka ákvarðanir um hvað verður um eigur gömlu bankanna og annað í tengslum við þá eða eins og FME skilgreinir:"Hlutverk skilanefnda er að starfa í samræmi við ákvæði hlutafélagalaga og fara með öll málefni fjármálafyrirtækisins, þar á meðal að hafa umsjón með allri meðferð eigna þess, svo og að annast annan rekstur þess."
Eins og sjá má, þá er þetta einstaklega ábyrgðarmikið starf. Því er það einstaklega mikilvægt og nauðsynlegt að í þessi störf, skuli hafa valist vammlausir menn sem hafnir væri yfir öll hagsmunatengsl og enginn vafi léki á siðferði þeirra, sérstaklega með tilliti til hrunsins og hvað hefur komið upp úr myrkum og illa þefjandi kompum fjármálageirans.
En þetta er Ísland.
Því fór eins og við mátti búast, þá skipaði stuttbuxnadrengur í forstjórastjól Fjármála-eftirlitsins, menn í nefndirnar sem margir hverjir höfðu hagsmunatengsl, menn með "rétt" flokkskírteini og kannski með það í huga, að gæta þyrfti hagsmuna flokksgæðinga, auðmanna og fyrrum stjórnenda bankanna. Enda hefur ríkt síðan leynd og pukur í kringum þessar skilanefndir sem hafa orðið að ríki í ríkinu, og enginn veit í raun hvað fer fram innan luktra dyra þar og tortryggni hjá mér sem fleirum verið ríkjandi í þeirra garð.
Þegar haft er í huga allt klúður, fát og fumur sem runstjórnin og þessi forstjóri FME, hafa komið að, þá hefur maður aldrei orðið neitt sérlega hissa yfir að lesa pistla á borð við þá sem Ólafur Arnarsson ritaði á Pressunni í dag. Þar bendir hann einmitt á þetta ríki í ríkinu sem hann kallar hina nýju yfirstétt og bendir sérstaklega á hagsmunatengsl formanns skilanefndar Glitnis: Árna nokkurn Tómasson, sem þiggur milljón fyrir stjórnarsetu í fyrirtækinu Alfesca. Stjórnarformaður þar er Ólafur nokkur Ólafsson en Árni situr þar sem stjórnarmaður fyrir hönd Kjalar. Alfesca og Kjalar eiga mikið undir skilanefnd Glitnis samkvæmt þessum pistli Ólafs Arnarssonar eða eins og segir þar:
"Skilanefndin mun nú hafa lagt blessun sína yfir samstarf Kjalars, eignarhaldsfélags Ólafs Ólafssonar, aðaleiganda Alfesca, við erlent fjárfestingarfélag, sem hyggst gera hluthöfum Alfesca tilboð í hluti sína. Það vekur athygli að skilanefndin hefur ekki yfirtekið hluti Kjalars í Alfesca þrátt fyrir að fullyrt sé að Kjalar sé í raun komið í fang skilanefndarinnar. Þá hefur heyrst að skilanefndin hafi lítinn sem engan áhuga sýnt fyrirspurnum erlendra fjárfesta um kaup á hlutum Kjalars í Alfesca."
Nafn Árna Tómassonar hefur þó komið upp áður, við og við í umræðunni eftir hrun. Áður fyrr starfaði hann sem bankastjóri í Búnaðarbankanum þar sem margir stjórnendur sem tengjast hruni landsins, komu m.a. SIgurjón Árnason o.fl. sem enduðu í Landsbankanum . Það sem var þó athyglisvert við þann tíma, er að Árni Tómasson var gripinn í bólinu fyrir að hafa rofið bankaleynd og lekið upplýsingum til fyrirtækis út í bæ, ásamt öðrum mannni: Ársæli nokkrum Hafsteinssyni sem var einnig skipaður í skilanefnd Landsbankans. Einnig er áhugavert hvert þessar upplýsingar rötuðu á þessum tíma, til fyrirtækis í eigu Björgúlfs nokkurs Guðmundssonar sem eignaðist Landsbankann þar sem Ársæll fékk starf síðar meir sem framkvæmdastjóri lögfræðisviðs.Í þessum hlekk hér um mannaráðningu Ársæls, SIgurjóns Árnarsonar o.fl. til Landsbankans, má sjá nafn Sigurjón Geirssonar sem situr í skilanefnd Landsbankans og hefur setið þar frá upphafi.
En tengsl Árna ná ekki bara yfir í skilanefnd Landsbankans líkt og sjá má hér í frétt DV, heldur einnig til skilanefndar Kaupþings þar sem Ólafur Ólafsson átti nú hlut í forðum. Þar situr maður að nafni Knútur Þórhallsson. Knútur þessi hefur rekið skrifstofu með Árna en ekkier það bara eina sem tengir hann. Hann vann nefnilega einu sinni að samruna Kaupþings og Búnaðarbankans á sínum tíma, nokkuð sem Árni Tómasson gerði einnig. Knútur þessi var einnig endurskoðandi Exista, fyrrum eigenda Kaupþings, en það fyrirtæki var ásamt Kjalar Ólafs Ólafssonar(sem Árni Tómasson situr fyrir í stjórn Alfesca), stærstu eigendur í Kaupþingi. Þess má einnig getið að Knútur þessi er einnig eigandi í Deloitte endurskoðunarfyrirtækisins, þess sama og sá um úttekt á Landsbankanumeftir hrun og hefur einnig séð um verðmat á bönkunum.
En það eru fleiri skilanefndarmenn sem tengjast innbyrðis á einn eða annan hátt. Sem dæmi má nefna að Steinar Þór Guðgeirsson sem situr í skilanefnd Kaupþings, situr sem stjórnarmaður í Stapa hf. ásamt Lárentsínus Kristjánssyni, skilanefndarmanni í Landsbankanum. Þetta fyrirtæki var í eigu Gnúps hf. sem átti á sínum tíma góðan hlut í FL Group auk hlutar í Kaupþingi og Gnúpur var í eigu olíusamráðsmannsins illræmda, Kristinns Björnssonar og Magnúsar Kristinnssonar, kvótakóngs frá Eyjum. Örugglega má finna fleiri slík dæmi ef grúskað er meir, og er tengslanet skilanefndrmanna og viðskiptalífsins örugglega efni í langan greinarflokk eða heila bók, miðað við þau dæmi sem fljótlega má finna.
Fyrir mitt leyti segi ég og sérstaklega þar sem skilanefndirnar þurfa ekki að gera grein fyrir gjörðum sínum né viðhafa nokkurt gegnsæi, þá getur ekki annað verið en að stór hagsmnatengsl veki upp grunsemdir um að ekki verið sé að gæta að hagsmunum almennings í þessu efni, heldur eingöngu þeirra sem skilanefndarmenn tengjast eða hafa velþóknun á. Ef skilanefndirnar, starf þeirra og gjörðir eiga að vera hafnar yfir allan vafa, þá verður að skipta út þeim mönnum sem hafa hagsmunatengsl og setja í staðinn vammlausa menn en ekki menn sýkta af tengslum við útrásarvíkinga, hafa algjört gagnsæi til að fyrirbyggja frekari hættu á hagsmunaárekstrum eða spillingu, og jafnvel að mínum dómi, hefja rannsókn á gjörðum skilanefndanna hingað til, til að athuga hvort eitthvað hafi verið gert sem ekki má þola dagsins ljós.
Sviptum leyndarhulunni af skilanefndunum, sjáum til þess að þær séu ekki lengur ríki í ríkinu og rjúfum grunsamleg hagsmunatengsl sem vinna á móti því starfi sem þar fer fram. Annars verður hér sama ferlið enn á ný, líkt og áður, góðvinum gefnar eigur gegn flokkskírteini eða öðru, spillingin skammlaust starfar áfram og hvorki traust né sátt mun ríkja hér á ný.
Eða eigum við að halda áfram sofandi að feigðarósi á ný?
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
19.4.2009 | 12:05
Exista og Bakkabræður-Hýenur hlutabréfamarkaðrins fara aftur á kreik.
Að hugsa sér, að það er varla komið ár síðan að Exista rændi hlutabréfunum mínum í Landsímanum og nú virðist sem að það eigi að leika sama leikinn aftur. Eftir þann gjörning í fyrra, þá ritaði ég grein er kallaðist Hýenur hlutabréfamarkaðrins í Morgunblaðið þar sem ég lýsti vinnubrögðunum. Ekki varð fögnðuru við það hjá Exista, heldur fékk ég svar þar sem útúrsnúningar, hálfsannleikar og hroki fjárglæframanna réðu ferðinni.
Stuttu síðar hrundi allt, á meðan ég hugleidd stöðu mína. Exista tókst að lifa þetta af, þó það sé tæknilega gjaldþrota að því virðist, en ýmislegt skuggalegt tengdist þeim byrjaði að koma upp á yfirborðið: stöðutaka gegn krónunni, fulltrúar þeirra í stjórn Kaupþings samþykktu afskriftir lána til handa lykilstarfsmönnum, forstjóri Exista er formaður Viðskiptaráðs sem kom 90% af ályktunum sínum inn í lög með þeim skelfilegu afleiðingum sem við upplifum, og margt, marg fleira.Einnig er alveg furðulegt að þetta fyrirtæki skuli hafa getað fengið að kaupa upp fyrirtæki með útgáfu á hlutabréfum í sjálfu sér, en ekkert lagt til í handbæru fé á síðasta ári. Þannig eignuðust þeir Símann og samkvæmt óstaðfestum heimildum, þá ætla Bakkabræður að láta eitt fyrirtæki Exista: Lýsingu, lána sér fyrir þessum siðlausa gjörningi.
En svo við snúum okkur að aðferðafræðinni sem notuð var við ránið á Símanum og nú Exista, þá gengur þetta svona fyrir sig. Hýenur hlutabréfamarkaðarins gera yfirtökutilboð í fyrirtæki sem þær hafa nýverið eignast stóran hlut í og gerir þær yfirtökuskyldar. Yfirtökutilboð er gert, helst með útgáfu hutabréfa en í þessu tilfelli er það aumingjalegast prís sem gúmmístimplaður var að klappstýru auðmanna: Fjármálaeftirlitinu. Þegar hýenurnar hafa náð 90% eignahlut, þá nýta þær sér lagaklásúlu sem segir að þær hafi rétt til þess að taka hina hlutina af því fólki sem neitaði að selja(brot á eignarétti stjórnarskrár?), og á því verði sem hýenurnar ákveða. Eftir situr almenningur og aðrir litlir hluthafar sem framreiddu raunverulegt fé, með svöðusár í veskinu, sviknir og rændir með aðstoð opinberrar stofnunar, á meðan hýenurnar hlaupa í burtu hlæjandi með vænan kjötbita í kjaftinum.
Hverjir eru kjötbitarnir? Það er nefnilega málið, að inn í Exista liggja verðmæti: Skipti hf eða Síminn, VÍS og Míla ehf. Fyrir ykkur sem ekki vita, þá er Míla grunnet landsímans og með ótrúlega einokunarstöðu, þar sem allir þurfa að versla við það fyrirtæki á einn eða annan hátt.
En hvað er hægt að gera, sem mótsvar nú, sem merki um að við sem höfum veirð rænd og svívirt af auðmönnum, séum hætt að láta traðka á okkur. Við verðum að lýsa yfir stríði gegn þeim, stríði sem þeim mun ekki líka. Við höfum vopn, lögleg vopn umfjöllunar, samtakamátts og aðgerða ýmiskonar.
Fyrir það fyrsta þá á alls ekki að taka tilboðinu. Ef við gerum það, þá missum við áhrif á fyrirtækið, við getum ekki krafist lögreglurannsóknar, rannsóknar á vafasömum bókhaldsbrellum né tekið á málum á hluthafafundum. Auk þess völdum við Bakkavarar-bræðrum auknum fé-útlátum(eða ætti maður kannski að segja Lýsingu ef þeir fá peningin þaðan?), við það að reyna aftur og aftur að sölsa undir sig félagið í annarlegum tilgangi. Ég segi annarlegum, því mín tilfinning er að þar sé eitthvað geymt sem ekki má sjá dagsins ljós, en það gæti verið rangt hjá mér samt.
Annað sem hægt er að gera. á Nýja Kaupþing um 10% part í félaginu. Ef þrýst er á Nýja Kaupþing með bréfaskrifutm, hótunum um að færa viðskipt sín annað ef þeir taka tilboðinu, þá er ávinningur Kaupþings frekar lítill, ef þeir missa hundruð, ef ekki einhver þúsund viðskiptavina frá sér vegna þess að þeir ákveða að þjóna fremur siðlausum auðmönnum sem hafa átt sinn þátt í að koma landinu á vonarvöl.
Það þriðja sem hægt er að gera, er að skrifa greinar, bréf til þingmanna, ráðherra, Fjármála"eftirlits", og hætta því ekkert. Því fleiri sem vita af því hvað er í gangi, því minni líkur eru á að Bakkabræður komist upp með þetta og því óþægilegra er þetta. Ég er sjálfur á því eftir hugmynd annars staðar frá, að það eigi að þjóðnýta grunnet Símans, þ.e. ríkið þjóðnýti Mílu, skapi þar með sjálfu sér tekjugrundvöll og ýti þar með undir heilbrigða samkeppni á fjarskiptamarkaðnum, en ekki einokun.
Hið fjórða sem þarf að skoða, er að nýta sér öll lagaleg ráð til að stöðva þetta. Vilhjálmur Bjarnason beitr þarna einu, og spurning hvað aðrir geta gert. Persónulega er ég að spá í að setja mig í samband við hann og fá ráðleggingar um hvaða úrræði er hægt að beita. Við sem erum hluthafar getum einnig farið fram á að rannsóknir verði settar af stað á hugsanelgum brotum, og það verður að gera.
Hið síðasta sem mér datt í hug, er einhverskonar herferð þar sem við krefjumst að Bakkavarar-bræður og stjórnendur Exista endurgreiði okkur skaðann sem þeir hafa ollið litlum hluthöfum með svívirðilegum brellum sínum, ég vill t.d. .fá hlutabréfin mín í SKiptum til baka, og við krefjumst þess einnig að þessir menn endurgreiði ÞJÓÐINNI fé sitt, gefi eftir eigur sínar og biðjist aföskunar á þeim gjörðum, sem hafa leitt okkur í þjóðargjaldþrot. 'Eg mun geta fyrirgefið þessum mönnum alveg, ef þeir sýna alvöru iðrun, og reyna að bæta fyrir gjörðir sínar á slíkan hátt.
Ég segi fyrir mitt leyti, að ég vill frekar tapa þessum smánarskeini sem ég á og kallast hlutabréf í Exista, fremur en að þau lendi í höndunum á bakkavar-bræðrum og öðrum stjórnendum/stóreigendum í Exista.
Ég er tilbúinn í stríð, stríð sem þessum mönnum mun ekki líka við, stríð við mennina sem lögðu sitt á plóginn við að gera þjoðina gjaldþrota, stríð við mennina sem ætlast til að við borgum skuldir þeirra á meðan þeir féfletta okkur, stríð sem þarf að heyja til að heiðarleiki og siðferði verði að veruleika, í íslensku viðskiptalífi.
Eru fleiri tilbúnir í þetta stríð?
Ætlar að krefjast verðmats á Exista | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Breytt s.d. kl. 12:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
13.4.2009 | 19:08
Valhallarhneykslið: EInkavæðing HS, tengslanetið og var styrkurinn liðkun fyrir einkavæðingu?
Frá því að Valhallarhneykslið komst í fjölmiðla, þá hefur hver sprengjan fallið á fætur annari og varnir FL-okksmanna, verið hefðbundnar. Fyrst steig fram fyrrum formaður og tók við syndunum enda orðin hálfgerð ruslakista fyrir allar syndir FL-okksins og þegar það dugði ekki til að þagga niður umræðuna, þá var gripið til hefðbundnar Baugs-varnar með Samflylkinguna og benda þangað. Það sprakk í andlitið á FL-okksmönnum svo. Framkvæmdastjórinn núverandi lét sig hverfa næst með þeim orðum, að hann hefði ekki komið nálægt þessu og fyrrum framkvæmdastjóri þóttist ekkert vita frekar en miðstjórn og fjáröflunarnefndir flokksins. Að lokum gáfu sig fram tveir menn sem sögðust hafa reddað styrknum fyrir hönd Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, Þorsteinn M. Jónson, stjórnarmaður í FL Group og Steinþor Gunnarsson, yfirmaður í Landsbankanum. Við það átti málið að falla dautt niður og þetta væru "mistök" allt saman.
En er það nægilegt? Er ekki talsvert af spurningum ósvarað um vitneskju manna? Hversvegna er þetta fé gefið? Hvað ætluðust menn að fá í staðinn? Hversvegna er styrkurinn settur fram á þessum tíma? Og svo það sem verið hefur reynt að beinta athyglinni frá, tengslin við REI-málið og það sem er upphafið: að þessu öllu: tengist þessi styrkveiting einkavæðingu á HS?
Í nýlegri færslu hjá Láru Hönnu má lesa ágæta og mjög ítarlega grein Péturs Blöndals blaðamanns, um ferli REI-málsins og því óþarfi að fara nánar út í það sem stendur. Aftur á móti þegar nú þessir"styrkir" hafa komið í ljós, þá er vert að skoða hvað var í gangi á þessum tíma, og það er ekki bara stofnun Geysis Green Energy, heldur einnig einkavæðing HS, sem virðist tengja þessu ferli öllu.
Skoðum smá tímalínu í tengslum við einkavæðingu HS og stofnun GGE.
- 20. desember Árni Matthíasen fjármálaráðherra og Jón Sigurðsson, viðskipta- og iðnaðarráðherra, fela einkavæðingarnefnd á fundi, að einkavæða hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja. Á sama fundi er bréf tekið fyrir þar sem Glitnir lýsir áhuga sínum á að kaupa HS.
- 29. desember Greiðsla FL Group, eins af eigendum Glitnis, upp á 30 milljónir berst inn á reikning Sjálfstæðisflokksins. Um svipað leyti eru greiddar 25 millur frá Landsbankanum.
- 1. janúar Lög um styrki lögaðila taka gildi.
- 7. janúar Glitnir og FL Group stofna fyrirtækið Geysir Green Energy ásamt VGK-hönnun.
- 2. febrúar Reykjanesbær kaupir 2,5% hlut í GGE fyrir 175 milljónir.
- 30. apríl GGE eignast hlut ríkisins, til viðbótar hlutnum í HS frá Reykjanesbæ. Samtals er GGE með 32% og reyndi síðar meir að eignast meir, bæði um sumarið og svo hefði REI-sameiningin skilað um 48% hlut í HS.
Þennan hluta styrkja-málsins finnst mér lítið hafa verið spáð í, sérstaklega einkavæðingarnefnd, leikmenn þar og í bönkunum eða það sem kallast tengslanetið. Það er nefnilega þannig með íslensk stjórnmál og viðskipti, að það nægir ekki að elta peninginn, það verður líka að skoða mennina sem hafa hagsmuni af peningunum, hverjum þeir tengjast og hver eru tengslin í viðskipta- og stjórnmálalífinu.Tengslanetið er kannski flókið og því miður gat ég ekki græjað skyringamynd.
Byrjum á því að skoða einkavæðingarnefnd, hverjir sátu þar þegar þessi einkavæðing átti sér stað.
- Baldur Guðlaugsson-ráðuneytistjórinn sem seldi í LÍ kortér fyrir hrun og Sjálfstæðismaður.
- Illugi Gunnarsson-Sjálfstæðismaður
- Jón Sveinsson-Framsóknarmaður?
- Sævar Þór Sigurgeirsson-Ekki viss um fyrir hvorn flokkinn hann starfaði fyrir í nefndinni.
Skoðum tvær staðreyndir með þessa menn.
Síðar meir þá tók Illugi Gunnarsson það hlutverk að sér, að gerast stjórnarmaður í Glitnir sjóðum.
Jón Sveinsson, Baldur Guðlaugsson og Sævar Þór Sigurgeirsson, tóku allir þátt í einkavæðingu bankanna, á sínum tíma og sátu í þessari nefnd. Þessi nefnd hafði tvo starfsmenn á sínum tíma við einkavæðingu bankanna: Skarpheðinn B. Steinarsson og Guðmund Ólason. Þetta er gott að hafa í huga þegar kemur að stjorn Glitnis og FL Group.
Á þessum tíma eru FL Group og Milestone nokkuð ráðandi eigendur í Glitni. Werners-bræður, Hannes Smárason o.fl. þeim tengdir sitja í stjórnum eða taka sæti í stjórn Glitnis á þessum tíma.
Skoðum nú nokkra menn sem tengjast Glitni í stjórn, og eða starfa þar á þessum tíma.
- Skarphéðinn B. Steinarsson-Stjórnarmaður sem starfaði fyrir einkavæðingarnefnd og þá menn sem sitja þar. Einnig í stjórn FL Group.
- Guðmundur Ólason-Stjórnarmaður sem starfaði fyrir einkavæðingarnefnd og þá menn sem sitja þar. Framkvæmdastjóri Milestone.
- Árni Magnússon-Fyrrum ráðherra Framsóknarflokksins og framkvæmdastjóri hins nýlega orkusviðs Glitnis.
- Jón SIgurðsson-stjórnarmaður og aðstoðarforstjóri FL Group.
- Þorsteinn M. Jónsson-Varastjórn Glitnis(frá febrúar 2007 allavega, gæti verið fyrr) og sá sem reddaði pening frá FL Group, fyrir Sjálfstæðisflokkinn
- Einar Sveinsson-Stjórnarformaður, frændi Bjarna Benediktssonar, eigandi í BNT hf(N1) og stjórnarmaður í Sjóvá-Almennum, sem er í eigu Milestone.
Þá skulum við skoða næst hverjir sitja í stjórn FL Group og/eða tengjast nánum böndum.
- Jón Ásgeir Jóhannesson-Stjórnarmaður sem varla þarf að kynna
- Þorsteinn M. Jónsson-Varaformaður stjórnar FL Group og sá hinn sami og sótti styrkinn fræga.
- Skarphéðinn B. Steinarson-Stjórnarformaður og sá sem vann eitt sinn fyrir einkavæðingarnefnd.
- Kristinn Björnsson-Stjórnarmaður, þekktur úr olíusamráðinu, og fyrirtæki í hans eigu er næststærsti eigandi FL Group á þessum tíma. .Einnig stjórnarmaður i Sjóvá og Árvakri.
Á þessum tíma, séu heimildir mínar réttar, þá voru stærstu eigendurnir Oddaflug Hannesar Smára, Baugsmenn og fyrirtæki Kristinss Björnssonar. Einnig er áhugavert að sjá að Glitnir á í eigenda sínum smá hlut.Í
framhaldi af þessu er vert að skoða Reykjanesbæ, og tengslanetiðá þessum tíma. Þetta er þó aðeinsþað sem maður fann í fljótu bragði.
- Reykjanesbær á fyrirtækið Fasteign hf. til heilminga við Glitnir. Þetta fasteignafélag sér um rekstur fasteigna bæjarins.
- Árni Sigfússon er bæjarstjóri fyrir Sjálfstæðisflokkinn og bróðir hans heitir Þór Sigfússon.
- Þór Sigfússon er forstjóri Sjóvá-Almennra, stjórnarformaður Árvaks á þessum tíma og framkvæmdastjóri SA. Werners-bræður eiga góðan hlut í Glitni og á Sjóvá-Almennar, í gegnum Milestone, Þáttur og önnur fyrirtæki.
Það er vert að minnast þess einnig í framhjáhlaupi að einkavæðing varnarliðssvæðisins, tengdist einnig fyrirtæki í eigu bróður Árna Matt, fjármálaráðherra og Þórs Sigfússonar, og ef mig minnir rétt, þá var Reykjanesbær einnig tengdur því máli. Þori samt ekki að fara með það.
En allavega svo við snúum okkur að aðalmálinu. Það þarf varla neinn eldflaugasérfræðing til að fara að tengja saman tengsl manna í viðskiptalífi og stjórnmálalífi þegar kemur að einkavæðngu HS í gegnum stjórnir fyrirtækjanna sem tengjast því máli, og svo maður reyni að draga saman þessi flóknu tengsl.
- FL Group sem greðir 30 milljónir til Sjálfstæðisflokksins, fer með stóran eignahlut í Glitni.
- Milestone á einnig stóran hlut í Glitni. Milestone er einnig eigandi Sjóvá-Almennra.
- Í stjórn Glitnis og FL Group sameinast menn sem hafa náin tengsl við einkavæðingarnefnd, Sjóvá Almennar og Sjálfstæðisflokkinn.
- Í gegnum Glitni og Sjóvá-Almennar, eru svo sterk tengsl við Reykjanesbæ.
Einnig þegar tímalínan er skoðuð, þá verður varla hægt að draga aðra ályktun en þá, að þessar 30 milljónir voru til þess að liðka fyrir einkavæðingunn á HSi.Landsbankinn(sem var reyndar einnig 8-9 stærsti eigandi í FL Group) var þar að auki einnig að hugsa sér til hreyfings á þessum markaði og því mjög líklegt að einmitt í gegnum flokkinn hafi borist þau skilaboð: "Ef þú vilt vera með í leiknum, þá þurfið þið að borga ykkur inn í hann." Hugsanelga hefur átt Landsbankinn að fá Landsvirkjun eða annað orkufyrirtæki síðar um árið og með þeim rökum að það gengi ekki að ríkið væri í samkeppni við einkafyrirtækið HS eða álíka klassísk rök frjálshyggjumanna þegar kom að einkavæðingunni.
En hversvegna draga menn þá ályktun að það þurfi að liðka fyrir einkavæðingunni? Er það ekki e.t.v. að fenginni reynslu?Þegar haft er í huga að einkavæðingarnefnd var að mestu leyti skipuð mönnum sem sáu um einkavæðingu bankanna á sínum tíma, að innan Glitnis og FL Group voru menn sem þekktu til hvernig hlutirnir gengu fyrir sig, þá getur maður ekki annað en skellt fram þeirri stóru spurningu: Var þetta svona líka þá? Nú sér maður að Illugi Gunnarsson fær stjornarset innan Glitnis eftir þetta, var það eðlilegt eða tengist það störfum hans í einkavæðingu HS? Þarf ekki að opna bókhald flokkana mun lengra aftur í tímann en bara 2006?Þarf ekki að opna einnig prófkjörs-fjármálin aftur í tímann?
Svandís skorar á Guðlaug Þór og Vilhjálm | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Breytt s.d. kl. 19:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
3.3.2009 | 21:27
Ósvaraðar spurningar vegna hrunsins
Þegar búsáhaldabyltingin hafði róast niður, þá var viðkomið að það kæmi skeið á meðan fólk biði og sæi hvað gerðist í framhaldi, þrátt fyrir að mörgu sé ósvarað. Greinilegt er á gjörningum eins og afskrifturm Landsbanka og Glitnis á um 60% skulda Árvaks sem Björgúlfarnir stofnuðu til, að sumstaðar er talið þetta merki um að almenningur sé orðinn þægur á ný og hægt að skella þessum byrðum á herðar þjóðarinnar.Það má ekki gerast heldur verður að halda áfram að hamra járnið, og eitt af því er að heimta svör við mörgum ósvöruðum spurningum.
Ef maður kíkr á margt sem maður hefur verið að spyrja sjálfan sig, þá eru hér þó nokkrar spuringar og ekki tæmandi listi:
Almennt í tengslum við bankanna:
Hversvegna voru lappirnar dregnar í því að hefja rannsókn?
Hversvegna fengu stjórnendur bankanna að sitja í lengri tíma óáreittir og með fullan aðgang að gögnum?
Hversvegna er ekkert gagnsæi með afskriftir?
Hversvegna eru fyrrum eigendur gömlu bankanna, stjórnendur þeirra og aðrir, ekki komnir á válista og útilokaðir frá viðskiptum hér á landi, heldur fá að kaupa eins og t.d. Árvak með góðum afslætti?
Hversvegna er ekkert gagnsæi um hvernig meðhöndlun mála er?
Af hverju eru söluferli fyrirtæki ekki upp á borðum?
Hversvegna er ekki enn byrjað að rannsaka ásakanir um óeðlilega fyrirgreiðslu sem Davíð Oddson nefndi, né upplýst af jfölmiðlum eða bönkum? Ég hef fengið það staðfest(án nafna) að Landsbankinn hafi allavega stundað slíkt.
Landsbankinn:
Hversvegna voru hryðjuverkalögin sett á Landsbankann?
Hversvegna eru enn menn á borð við Yngva Örn Kristinnson, fyrrum yfirmann Verðbréfasviðs og núverandi yfirhagfræðingur bankans, enn starfandi í yfirmannastöðum þarna og fleiri nátengdir Sigurjóni Árnasyni?
Hvað líður annars rannsókn á óeðlilegum viðskiptum Landsbankans í tengslum við húsnæðismál, þar sem téður Yngiv Örn var ráðgjafi ríkistjórnarinnar í þeim málum?
Hversvegna var Ársæll Hafsteinsson, yfirmaður lögfræðisviðs Landsbankans, maður sem hafði verið dæmdur fyrir að leka innherja-upplýsingum til Björgúlfs Guðmundssonar, skiipaður í skilanefnd? Hversvegna var ákveðið að treysta slíkum manni?
Hversvegna gera Landsbankamenn allt til þess að koma í veg fyrir, að fólk sem tapaði á peningasjóðunum, fái aðgang að gögnum um þá?
Hvað hafa Landsbankamenn afskrifað af skuldum 30-menningana og fyrirtækja þeirra hjá sér?
Og svo eitt sem ég heyrði nýlega, og vill endilega koma í umræðuna: hvaða þingmaður eða þingmenn, hafa farið inn í Landsbankann ásamt forstjóra fyrirtækja, til að sjá til þess að viðkomandi fyrirtæki fengju fyrirgreiðslu?
Kaupþing:
Hversvegna hefur ekki enn verið hætt við afskriftir á lánum lykilstarfsmanna Kaupþings? Hversvegna hefur það verið þaggað niður?
Hvaða starfsmenn Kaupþings voru búnir að færa skuldir sínar yfir í einkahlutafélög, líkt og Frosti ReyrRúnarsson og Ingvar Vihjálmsson, og hafa þeir fengið að komast upp með það?
Hversvegna hefur ekkert verið gengið almennilega í að kanna tengsl Kaupþings-Lúxemburg við skattsvik, fjárflutnigna til Jómfrúareyja o.fl. vafasamra staða þar sem skattsvik, peningaþvætti o.fl. tengd skipulagðri glæpastarfsemi þrífst? Hver er staðan á þeim málum?
Hversvegna fékk Robert Tscengis 107 milljarða króna yfirdrátt og hverjir aðrir hafa fengið slíkt?
Glitnir:
Hversvegna situr Birna Einarsdóttir ennþá sem bankastjóri? Hversvegna var henni ekki vikið frá eftir að upp komst með "gleymda hlutinn"?
Af hverju fékk fyrrum eigandi bankans að kaupa Árvak með góðum afslætti, og fleiri aðilar tengdir Glitni?
Hversvegna hefur enginn verið handtekinn eða vikið vegna Stím-málsins, og hvað er að frétta af því?
Hversvegna er enn margir lykilmenn úr Gamla Glitni enn starfandi í Nýja Glitni?
Hversvegna var Árni Tómasson, settur í skilanefnd Glitnis þrátt fyrir dóminn sem hann hlaut með Ársæli Hafsteinssyni fyrir að leka innherja-upplýsingum til Björgúlfs?
Annað í tengslum við fjárfestingar og fjárfestingafélög:
Hvað töpuðu lífeyrissjóðir miklu á fjárfestingum í bönkunum, hver voru tengsl stjórnarmanna og hverjir tóku ákvörðunina um að fjárfesta í vafasömum fyrirtækjum á borð við Exista?
Hversvegna hefur ekkert verið gruflaði í því að þrír lífeyrissjóðir voru látnir fjárfesta í Exista snemma a síðasta ári þegar fyrirtækið virtist í vandræðum? Allir þessir sjóðir hafa þurft að skerða greiðslur og einn af stjórnameðlimum eins sjóðsins var Vilhjálmur Egilson, formaður SA. Hversvegna hefur hann ekki verið spurður út i þetta?
Hversvegna er ekki búið að upplýsa hvaða fyrirtæki og auðmenn, tóku stöðutöku gegn krónunni?
Hversvegna fékk Viðskiptaráð 90% af tillögum sínum um viðskiptalífið í gegn hjá stjórnvöldum og hversvegna sitja enn margir gerendur hrunsins í forsvari fyrir það?
Hversvegna er ekki verið að rannsaka endurskoðendaskrifstofurnar, þátt þeirra og lögfræðistofna í hruninu?
Af hverju er ekki veirð að rannsaka þátt Tryggva Þórs Herbertssonar í tengslum við Mishkin-skýrsluna?
Hversvegna er ekki byrjað að rannsaka Gift-málð?
Hversvegna er ekki einnig byrjað að rannsaka Byr og ýmislegt vafasamt í tengslum við eignarhald á því?
Hversvegna hefur Inga jóna, eiginkona fyrrum forsætisráðherra og fyrrum stjórnarmaður í FL Group, ekki veirð spurð út í hvað fór þar fram?
Stjórnvöld:
Hversvegna gripu stjórnvöld ekki í taumana þegar ljóst var hvert stefndi snemma árs 2008?
Hversvegna var ekkert gert varðandi IceSave, af hálfu stjórnvalda?
Hversvegna er ekki gengið í egur Björgúflsfeðga hér á landi og erlendis vegna IceSave?
Hversvegna lánaði Seðlabankinn Kaupþingi, þegar Seðlabankastjóri sagðist hafa varað við bankahruninu? Var það ekki einstaklega óábyrgt?
Hversvegna verða gögn "rannsóknanefndar þingsins" eða hvítþvottanefndar réttara sagt, ekki gerð öll opinber?
Hversvegna hefur ekkert verið birt úr skýrslum endurskoðenda um bankanna, heldur falið sig á bak við bankaleynd?
Hversvegna er ekkert byrjað að rannsaka af hálfu lögreglu eða slíkra aðila, hvort Baldur Guðlaugsson hafi staðið í innherjaviðskiptum?
Hversvegna hefur það ekkert verið rannsakað né upplýst hvað gerðist þegar Seðlabankinn festi gengið um tíma við evruna í október? Ég hef heimildir fyrir því að það var ekki gert í samráði við hagfræðinga bankans sem urðu fyrst varir við það á visir.is, og að gjaldeyrissjóður bankans, hafi nær því klárast. Hverjir fluttu fé út úr landi á þeim stutta tíma?
Hversvegna er ekki verið að rannsaka tengsl stjórnmálaflokka við bankanna og hvort þeir hafi þegið fé í tugmilljónatali í gegnum skúffufyrirtækin?
Hversvegna er ekki veirð að hjóla í stjórnmálamenn um að fá raunverulega stöðu þjóðarinnar upp á borðið?
Hversvegna hefur ekk enn verið gengið hart í það að frysta eiginir auðmanna og lykilstjórnenda bankanna, þegar fordæmi eru til fyrir því með haldlagningu á fé hælisleitenda?
Af hverju var hætt við að fá erlenda sérfræðinga og allt kapp lagt á að þetta yrði innlendir aðilar, valdir af fjórflokkunum?
Hversvegna er rannsókn hindruð innan stjórnkerfisins af "eftirlitsstofnunum"?
Samkvæmt mínum heimildum þá mun rannsóknafé til saksóknararns, duga skammt ef það á að gera alvöru rannsókn, vegna kostnaðar við tæki, tól og erlenda sérfræðinga í endurskoðun vegna fjármálaglæpa. Hversvegna er það fé svona lítið?
Hversvegna var ákveðið að skera niður fé til efnahagsbrotadeildar þrátt fyrir að augljóst væri að nú þyrfti þess meir en áður?
Og að lokum, hvað varð um allt gagnsæið, allt upp á borðum, hverjum steini velt við, ekki neinu leynt og allur sannleikurinn kæmi í ljós?
Læt þetta nægja í bili en endilega, bætið við ósvöruðum hlutum og höldum svona á lofti. Þetta má alls ekki gleymast né mega bankarnir og klíkurnar sem tengjast þeim, að byrja að haga sér á sama hátt aftur líkt og er byrjað að örla á.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Um bloggið
AK-72
Tenglar
Borgarahreyfingin
Kvikmyndir og því tengt
- Heimildarmyndaklúbburinn Hómer Félagskapur sem hittist til að drekka í sig fróðleik og bjór á þriggja vikna fresti
Project 100
- Heimasíða Project 100 Viltu vera einn af 100?
Bloggvinir
- don
- soleys
- tharfagreinir
- sigurgeirorri
- neddi
- smali
- omnis
- nanna
- baldurkr
- siggi-hrellir
- gorgeir
- paul
- geimveran
- skari60
- semaspeaks
- vest1
- thj41
- gudrunlilja
- zeriaph
- siggisig
- gudbjorng
- svatli
- athena
- ace
- ragnarb
- einarolafsson
- amadeus
- brell
- thorsaari
- tbs
- vilhjalmurarnason
- patent
- jennystefania
- drum
- folkerfifl
- larahanna
- ragnar73
- hildurhelgas
- ladyelin
- sigurduringi
- sij
- hedinnb
- valgeirskagfjord
- hehau
- baldvinj
- jonarnarson
- olinathorv
- saemi7
- agustg
- ingaragna
- liljaskaft
- astajonsdottir
- reisubokkristinar
- lehamzdr
- sparki
- malacai
- leifur
- evaice
- gus
- tryggvigunnarhansen
- kjarri
- vistarband
- fun
- einari
- spurs
- annaeinars
- gattin
- kaffistofuumraedan
- launafolk
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar