18.9.2009 | 18:29
Afsökunarbeiðni til þjóðarinnar
Mín kæra þjóð(fyrir utan útrásarvíkinga, bankamenn, Sjálfstæðismenn og önnur samviskulaus fól sem leitt hafa okkur í glötun),
ég er búinn að horfa lengi í gaupnir mínar, hljóður og fullur af iðrun. Í dag langar mig til að biðjast vægðar af ykkur og bera fram afsökunarbeiðni í þeirri von um að þið getið einhvern tímann fyrirgefið mér þær syndir sem ég játa hér.
Til nánari útskýringar og formála fyrir þá sem vilja vita hversvegna ég leita mér fyrirgefningar svo sál mín geti hvílst, þá tók ég þátt í stofnun, störfum, kosningabaráttu og skrifum fyrir Borgarahreyfinguna í þeirri trú að það fólk sem færi inn á þing, væri heilt og heiðarlegt fólk sem væri hafið yfir það að festast í persónulegum erjum, engum til góðs. Því miður brást mér bogalistin þá og líkt og ég sagði frá áður, fóru leikar þannig að ég yfirgaf hreyfinguna eftir hið fræga Alzheimer-bréf. Þó ég hafi gengið á brott fullur vonbrigða yfir því hvernig leikar höfðu þróast, þá vonaði ég svo innilega að fólk gæti náð sáttum, að fólk gæti náð að horfa frá persónulegum deilum og horfa í átt til heildarinnar því manni þótti þetta sárt, sérstaklega með tilliti til margs hins góða fólks sem innan hreyfingarinnar starfaði, að horfa upp á það sem fór fram.
Reyndin var önnur, þetta var falsvon, von sem var fyrirfram dauð þó ég neitaði að horfast í augun við það sem var að: þinghópurinn var ónýtur að atgervi þegar kom að samvinnu, sáttfýsi, auðmýkt, virðingu við aðra og heilindum í samskiptum við annað fólk, nokkuð sem ég komst að í einkasamtölum við þá sem ég treysti en gátu ei meir þegar að þinghópnum, duttlungum og einræðis-æsingi þeirra kom.
Enda fór sem fór, í stað þess að nota það tækifæri sem landsfundur Borgarahreyfingar var, til að ná sáttum, sáðu þau meiri sundrungu með hrokafullri hundsun lýðræðis og hafa gert það að verkum að breytingarafl það sem lagt var af stað í upphafi, er stórskaðað, rúið trausti líkt og þingflokksformaðurinn, orðið að athlægi og mælist nú rétt svo í upphafsfylgi. Ég vill samt taka það fram að margt af því fólki sem valdist til stjórnar nú og áður, það fólk sem eltir þingmennina eða heldur ótrautt áfram er margt hvert gott fólk sem hefur hjartað á réttum stað, og ég innilega vona að það fólk geti náð að rífa Borgarahreyfinguna upp úr öskunni(og hinir einstaklingarnir sem heilir voru en fylgdu þrenningunni, snúi aftur...án þrenningar að sjálfsögðu).
Ég játa að í dag er ég fíflið, bjáninn sem féll fyrir fagurgala, kjáninn sem féll fyrir látbragði gæðaleikara sem gaspra um hugsjónir og lýðræði af falskri innlifun, án þess að hafa nokkurn skilning á þessum orðum eða öðrum slíkum.
Ég játa að hafa haft von í mér um að þetta fólk hefði í sér þann félagsþroska sem til þyrfti í samstarfi með öðrum, gæti séð að sér og reynt að ná sáttum.
Ég játa að í dag er ég heimski maðurinn sem lagði á plóginn með trú fávitans um að hægt væri að breyta einhverju í stjórnmálalífi landsins en hef líklegast átt þátt í að stórskaða von um að ný framboð geti sprottið upp og breytt hinu pólitíska landslagi til frambúðar.
Kæru Íslendingar og aðrir íbúar þessa sokkna skers(-fyrrgreindir að sjálfsögðu), ég vill biðjast afsökunar á eftirfarandi hlutum:
- Ég biðst afsökunar á því að hafa lagt vinnu, orku og hjarta í það að koma þessum einstaklingum á þing sem líta á alla sem eru á annarri skoðun sem fífl, fávita og aumingja.
- Ég biðst afsökunar á því að hafa komið fólki til valda sem skortir alla þá auðmýkt, gagnkvæmu virðingu, heilindi og siðferði til að koma á hugarfarsbreytingum.
- Ég biðst afsökunar á því að hafa komið til valda, fólki sem talar um lýðræði en getur ekki sætt sig við niðurstöður þess, líkt og sást á landsfundi Borgarahreyfingarinnar, hvað þá skilið að lýðræði byggist m.a. á því að stundum tapar maður í kosningum.
- Ég biðst afsökunar á því að hafa komið einstaklingum inn á þing, sem umbreyttust í það sem barist var gegn á mettíma, hvort sem það var vegna blekkinga eða ógeðisdrykk brugguðum á þingi úr svita Davíðs Oddsonar, táfýlu Finns Ingólfssonar og krókódílatárum Árna Johnsen.
- Ég biðst afsökunar á því að hafa trúað því um tíma að þessir einstaklingar myndu geta brotið odd af oflæti sínu og reynt að tala sig niður á sameiginlega niðurstöðu þó hún væri ekki hin fullkomna lausn.
- Ég biðst afsökunar á því að hafa brugðist því fólki sem reyndi hvað það gat til að lægja öldur innan hreyfingarinnar, öllu því fólki sem reyndi að starfa í þágu hreyfingarinnar en uppskar fyrirlitlegt yfirlæti þingmanna og þá sem börðust við þennan þríhöfða þurs í þeirri von um að hægt væri að ná sameiginlegri sátt, með því að yfirgefa það á ögurstundu í stað þess að leggja mitt á vogarskálarnar.
- Ég biðst innilega og af öllu mínu hjarta, alla þá afsökunar sem kusu þessa einstaklinga inn á þing á grundvelli orða og skrifa minna, og trúðu því sama og ég: að þau færu þangað inn af heilindum en ekki persónulegum metnaði.
- Einnig vil ég að lokum nota tækifærið til að biðjast afsökunar á öðru illvirki sem ég framdi og skaðaði íslensku þjóðina til frambúðar: ég vill biðjast afsökunar á því að hafa kosið Sjálfstæðisflokkinn með Davíð Oddson efstan á lista og átt minn þátt í að halda honum við völd. Sál mín mun brenna í víti fyrir það um alla ókomna tíð ásamt Ice-Slave skuldum sem brennimerktar eru svo í hold mitt:" Með ást frá FL-okknum."
Ég vona því að hinir ágætu landar mínar og þjóð mín góð, geti fyrirgefið mér heimsku mína, fyrirgefið mér syndir fávitans sem trúir að það sé til gott fólk sem vill vel, fyrirgefið mér heimskupör og illvirki þau sem þetta brölt mitt hefur skilað, að í stað þess að hafa komið þjóðinni á þing, þá á ég þátt í að koma sjálfhverfum, hrokafullum ÉG-um á þing, sér einum til dýrðar og öðrum til kjánahrolls.
Ég lýt nú höfði mínu í auðmýkt og bíð eftir dómi ykkar(og sögunnar) með von um fyrirgefningu synda vorra,
Agnar Kr. Þorsteinsson
P.S. Það skal tekið fram að útrásarvíkingar, bankamenn, Sjálfstæðismenn og önnur fól sem hafa sundrað samfélagi voru og sökkt skerinu, þurfa ekki að sættast við mig eða fyrirgefa. Þeir teljast ekki til þjóðarinnar né annarra mennskra samfélaga eftir hermdarverkin sem þeir frömdu og iðrast ei nú né nokkurn tímann um ókomna tíð, enda væri það óábyrg meðferð á samvisku".
![]() |
Hreyfingin verður til |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
Bloggfærslur 18. september 2009
Um bloggið
AK-72
Tenglar
Borgarahreyfingin
Kvikmyndir og því tengt
- Heimildarmyndaklúbburinn Hómer Félagskapur sem hittist til að drekka í sig fróðleik og bjór á þriggja vikna fresti
Project 100
- Heimasíða Project 100 Viltu vera einn af 100?
Bloggvinir
-
don
-
soleys
-
tharfagreinir
-
sigurgeirorri
-
neddi
-
smali
-
omnis
-
nanna
-
baldurkr
-
siggi-hrellir
-
gorgeir
-
paul
-
geimveran
-
skari60
-
semaspeaks
-
vest1
-
thj41
-
gudrunlilja
-
zeriaph
-
siggisig
-
gudbjorng
-
svatli
-
athena
-
ace
-
ragnarb
-
einarolafsson
-
amadeus
-
brell
-
thorsaari
-
tbs
-
vilhjalmurarnason
-
patent
-
jennystefania
-
drum
-
folkerfifl
-
larahanna
-
ragnar73
-
hildurhelgas
-
ladyelin
-
sigurduringi
-
sij
-
hedinnb
-
valgeirskagfjord
-
hehau
-
baldvinj
-
jonarnarson
-
olinathorv
-
saemi7
-
agustg
-
ingaragna
-
liljaskaft
-
astajonsdottir
-
reisubokkristinar
-
lehamzdr
-
sparki
-
malacai
-
leifur
-
evaice
-
gus
-
tryggvigunnarhansen
-
kjarri
-
vistarband
-
fun
-
einari
-
spurs
-
annaeinars
-
gattin
-
kaffistofuumraedan
-
launafolk
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.10.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 123493
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar