Á krossgötum kosninga

Það er svo skrítið að hugsa til þess, að fyrir ári síðan, þá sat maður heima hjá sér og var að velta fyrir sér hvaða bíómynd maður ætti að horfa á, með páfagauknum. Engan veginn gat manni órað fyrir hvað myndi gerast um haustið, né hvaða vegferð maður héldi út í, vegferð sem ekki er enn séð fyrir endann á, þó kaflaskil verði núna á kjördag.

Þessi vegferð hófst með hruninu, þar sem maður uppgötvaði hvað allt var rotið, spillt og græðgin hafði reynst svívirðilegri og hrikalegri en maður bjóst við. Eftir fyrstu daganna þar sem maður var ráðalaus, reiður og ringlaður með puttann á músinni við að smella á „refresh“-takkann, í von um að eitthvað jákvætt, eitthvað sem gæfi von, þá gerðist það, að maður stóð upp úr sófanum, með orð Howard Beales úr myndinni Network, ómandi í kollinum:“I‘m mad as hell and I‘m not going to take this anymore“. Förinni úr sófanum var heitið niður í bæ, til að sýna óánægju sína í verki og standa niður á Austurvelli með hópi fólks, sem fór stækkandi. Brátt varð þessi athöfn sem var feimnisleg í upphafi af manns hálfu, hluti af manns lífi, ljós punktur í afhjúpun svika, spillingar og siðblindra gjörða, þar sem stækkandi hópur fólks kom saman til að sýna samhug og til að sýna að almenningur væri ekki sáttur við það sem gerðist og framferði valdhafa.

En þessi vegferð staðnaði ekki við það að mæta eingöngu í mótmæli, heldur hélt hún áfram í gegnum Borgarafunda-starfið með Gunnari Sigurðsyni, þar sem maður fékk tækifæri til að beina orkunni í jákvæðari áttir, að draga fram upplýsingar, að koma af stað umræðu og reyna að komast að því, hversvegna hlutirnir fóru svona. Brátt áttaði maður sig á því, að það voru ekki bara menn sem brugðust, heldur kerfið allt, kerfið sem átti að vernda okkur en vann með þeim sem sökktu okkur ofan í myrkt hyldýpið þar sem smáljós sást í fjarska, ljós vonar um breytingar í gegnum stjórnlagaþing og afrakstur þess sem yrði Nýtt Ísland, Ísland trausts, sáttar og vonar þar sem heilbrigt og réttlát samfélag risi upp úr hyldýpi kreppunar. En þröskuldur spillingar og vanhæfrar ríkistjórnar stóðu í vegi fyrir því. Vonin dó, vonin kviknaði, vonin í mér sjálfum sveiflaðist frá bjartsýni til örvæntingar og stundum fannst manni að eina vonin fælist í flugmiða, aðra leiðina.

Svo gerðist stórviðburður, viðburður sem fékk mann til að fyllast von, skilaði baráttukrafti og einbeittum vilja um að maður yrði leggja sitt mesta og vonandi besta, á vogarskálarnir um að hér væri hægt að breyta. Þúsundir Íslendinga fóru niður í bæ með potta og pönnur, trommur og flautur, ýlur og vælur, og særði í burtu vanhæfa ríkistjórn, líkt og Sæmundur fróði kölska forðum. Á þessum dögum fann ég þjóðina sem ég vildi tilheyra, þjóðina sem er tilbúin til þess að segja: Hingað og ekki lengra, ég er búinn að fá nóg af svona spillingu og rugli.

Önnur ríkistjórn tók við á meðan skrattakollar íhaldsins sleiktu sár sín og sáu ekki neitt vandamál í sínum garði, allt var öðrum að kenna, slík var blindan á eigin gjörðir. Mæting á mótmæli fjaraði rólega út og stjórnmálastéttin tók því sem að þjóðin hefði sofnað á ný, líkt og dauðþreyttur dreki eftir grillveislu. Allt ætlaði hægt og rólega að síga í sama, gamla farið og einstaka byltingamaður lagði pottunum. En átti það að vera náttúrulögmál? Átti allt saman að verða eins og venjulega?

Nei, hugsaði lítið föruneyti Búsáhaldabyltingarinnar sem taldi þörf að breyta kerfinu, uppræta spillinguna og að það yrði samin nýr samfélagssáttmáli til að hér gæti þjóðin sameinast og orðið heil á ný eftir erfiða tíma. Og hvað var þá til ráða? Átti að ganga inn í fastmótaðar vélar flokkana sem skiluðu af sér froðusnökkurum sem þuldu loðna frasa? Átti Búsáhaldabyltingin að verða endapunktur?

Nei, föruneytið ákvað að stofna hreyfingu, hreyfingu sem ætlaði sér að fara inn á þing og reyna hafa áhrif innan Alþingis, heimta aðgerðir í þágu þjóðar en ekki til þjónkunar auðmanna og reyna gott af sér leiða, í þeim gjörningastormi sem er framundan. Óvissan tók við, baráttan í gegnum storm kosningabaráttu hófst með aðeins viljann og hugmyndir að vopni, í von og óvon um hvernig færi á vígvelli kosningastríðsins undir gunnfána Borgarahreyfingarinnar.

Á kjördegi stendur maður enn á ný, á krossgötum þessarar vegferðar, í óvissu um hvert stefnir. Hvernig samfélag verður hér? Mun verða nýr samfélagssáttmáli í gegnum stjórnlagaþing eða munu Söngvar Satans verða kyrjaðir til dómsdags af söngelskum skrattakollum, til að koma í veg fyrir sátt? Mun rísa réttlátt samfélag eða mun verða haldið áfram á sömu nótum leyndar, lyga og ljótra uppljóstrana? Verður hægt að reisa hér landið úr þeirri rúst sem það varð eftir spillinguna og græðgina? Eiga þeir sem komu þjóðinni og almenningi í þessa stöðu, að fá sín atkvæði í áskrift enn á ný? Eiga þeir að fá atkvæðin sín, þrátt fyrir allt sem gerst hefur, þrátt fyrir allt sem komið hefur í ljós og þrátt fyrir allt innihaldslausa froðusnakkið, enn á ný? Verður ekki að breyta hlutunum núna?

Margar svona spurningar þjóta í gegnum hugann á þessum krossgötum, ekki bara sem þáttakanda í kosningabaráttu, heldur einnig sem manneskju. Framtíðin er nú óskrifað blað og núna ræðst hvort á það sé skrifað í átt til vonar, trausts og sáttar eða í átt til áframhaldandi geðþótta-ákvarðana, spillingar, valdhroka og sinnuleysis sérhagsmunaflokks og manna. Kjósenda er valið, kjósenda er sannfæringin um hverjir skal leiða landið til betri vegar, kjósenda er kosturinn um hvernig framtíðarsýnin gæti orðið.

Að lokum þá biðla ég til ykkar kjósenda, um að veita umboð ykkar til Borgarahreyfingarinar,umboð til að vera þjónar þjóðarinna en ekki herrar hennar, umboð til að breyta hlutunum í átt til gegnsæis, í átt til upprætingu spillingar, í átt til betra samfélags en þær hrundu rústir sem við búum í nú, í átt til samfélags þar sem þjóðin fær að segja sitt oftar en á fjögurra ára fresti. En umfram allt, hvort sem þið viljið veita okkur þetta umboð eður ei, mætið á kjörstað, takið virkan þátt, kjósið og reynið að hafa áhrif með því að velja þá sem eiga að þjóna ykkur í átt til betra samfélags.

Valdið er ykkar.


mbl.is Samfylkingin enn stærst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

X-O þjóðin á þing er þjóðþrifamál.  Vonandi gengur okkur vel á morgun, svo mæta allir á kosningarvökuna í Iðnó. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 25.4.2009 kl. 02:44

3 Smámynd: AK-72

Já, það eru allir velkomnir á kosningavökuna, og ég er harðákveðinn í því að þetta verður skemmtilegt kvöld. Við byrjuðum í 0, fyrir ríflega tveimur mánuðum síðan, í dag kemur í ljós hversu margir settu X við O, og í kvöld þá þurfum við öll á því að sleppa beislinu lausu, hvernig sem fer.

Þetta verður gott partý:)

AK-72, 25.4.2009 kl. 10:47

4 Smámynd: Jón Kristófer Arnarson

Sjáumst í Iðnó.

Jón Kristófer Arnarson, 25.4.2009 kl. 19:29

5 Smámynd: Óskar Þorkelsson

hvar verður líkvaka sjallana ?

Óskar Þorkelsson, 25.4.2009 kl. 19:41

6 identicon

Sæll

Til hamingju.

Nú er um að gera að halda áfram að standa vaktina og láta þá sem ábyrgð bera á þessu rugli sem hefur verið í gangi hér ekki komas upp með að halda áfram blekkingarleiknum.

Fannst ömurlegt að hlusta á Þorgerði Katrínu sem fékk 500 milljónir að láni (ásamt maka) til persónulegra viðskipta þusa um heiðurslaun listamanna í hádeginu í dag.

Svona fólk eins og umrædd Þorgerður eru hættuleg samfélaginu.  Síðan koma fréttir af því að Björólfur yngri er enn á lista ofurríkra í Bretlandi.  Og við erum að borga skuldir þessa fólks.... það hefur ekki breyst en verður að stoppa.

Treysti þingmönnum O hreyfingarinnar að standa vörð um réttlæti í samfélaginu.

 Annars er ég tilbúin með desilítramálin mín (mjög hávær, úr gæða stáli og það sér ekki á þeim þrátt fyrir margra klukkutíma áslátt) til að hendast niður á Austurvöll eins og í vetur. 

Ásta B (IP-tala skráð) 26.4.2009 kl. 15:30

7 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Fannst ömurlegt að hlusta á Þorgerði Katrínu sem fékk 500 milljónir að láni (ásamt maka) til persónulegra viðskipta þusa um heiðurslaun listamanna í hádeginu í dag.

Þetta vareinmiitt umræðuefnið í kaffiboðinu hjá fjölskyldunni í dag.. Þorgerður sýndi sitt rétta eðli þarna.. 

Að Þráinn eigi að skila þessari viðurkenningu er eins og ef einhyver fengi viðurkenningu fyrir sitt framlag en yrði að skila því ef hann vildi fá einhverja vinnu... furðulegur málflutningur og gæti bara komið frá fólki sem er siðblint.

Óskar Þorkelsson, 26.4.2009 kl. 17:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

AK-72

Höfundur

AK-72
AK-72
Með óþrjótandi áhuga á kvikmyndum, sögu og stjórnmálum.Telur sig hafa fullt frelsi til að hrósa og gagnrýna hvern sem er og hvenær sem er.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...1212_913482
  • ...ner1_568492
  • ...rad-banner1
  • Screenshot

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband