Þreytan, kvíðinn og doðinn

Síðustu vikurnar eftir kosningar, þá hef ég haft litla lyst eða löngun til þess að gera nokkuð sem tengist ástandinu hér á landi, hvort sem það er að taka þátt í fundum, skrifa blogg eða eitthvað annað umræðutengt. Ástæðan hefur þó ekki verið endilega sumarveðrið eða að eitthvað annað sérstakt hafi gripið mann, heldur er það þrennt.

Ég hef verið þreyttur, ég hef verið kvíðinn og ég hef verið dofinn. Og líklegast tengist þetta allt saman á einn eða annan hátt, líkt og krosseignartengsl íslensks viðskiptalífs og ætli maður verði ekki að útskýra það nánar.

Þreytan hefur verið margþætt hjá manni eftir kosningar. Skyndilega þreyta og löngun eftir hvíld frá dægurþrasi og stjórnmálaröfli greip mann og þráin eftir því að geta setið einn með sjálfum sér, horft á góðar myndir og lesið góða bækur helltist yfir mann. Einnig löngunin til að hitta fólk sem hægt var að ræða um áhugamálin og slíkt og einfaldlega geta gleymt þessu ástandi um stundarsakir. Umræðan er nefnilega annar hluti af þessari þreytu, skotgrafahernaðurinn og flokkslínufólkið gerði mann dauðþreyttan andlega því skyndilega þegar "liðið" var komið með yfirhöndinna þá umturnuðust sumir og þá var ómögulegt að gera eitthvað fyrir heimilin og sama mantra og "óvinaliðið" hafði kyrjað í upphafi hrunsins um að heimilin gætu sjálfum sér um kennt, var orðið að frösum stuðningsmanna "sigurliðsins".Ekki bætti það úr skák að sumar upphrópanir urðu frekar þreytandi frá mönnum í "óvinaliðinu" sem röfluðu um að það þyrfti að gera eitthvað fyrir fórnarlömb hrunsins, en vilja svo vernda þá sem komu landinu í þennan vítiseld sem er rétt byrjaður að loga, framar öllu.

Þreytan náði líka til heimskulegrar umræðu um allskonar smamál með hneykslunarhrópum smáborgarans, mál sem litlu eða engu skipti svo sem kirkjumæting og bindisskyldu þingmanna, kjól Jóhönnu á Eurovision og svo á bak við tjöldin þá taldi formaður eins flokksins það mikilvægara að eyða tímanum í að röfla um að hann þyrfti að skipta um herbergi heldur en efni fundarins sem hann var á. Heimskan náði líkar til allskonar upphrópana sem voru hver annari heimskulegri strax eftir kosningar þar sem gripið var til allskonar fullyrðinga í allar áttir þar sem menn öskruðu sem hæst á bloggum líkt og að þá myndirðu vinna umræðuna og jafnvel töluðu eins og að allir þingmenn lægju á bloggsíðum þeirra í miðri stjórnarmyndun. Ég tel mig sjálfan heppinn ef málsmetandi aðilar í þjóðfélaginu nenna að lesa mín skrif yfirleitt, svo ég veit varla hvaða stórmennskubrjálæði slíkt fólk hefur, sem jafnvel skrifar bara eina setningu í blogg sín þó ég skilji þá sem voru pirraðir í óvissunni og tímanum sem það tók að mynda nýja stjórn.

En nóg um skot á sambloggara hér á Moggablogginu sem margt hvert er örugglega ágætt fólk, því samhliða þessu þá sótti að manni kvíði og það djúpstæður á margan hátt. Fyrir það fyrsta var það kvíðinn um hvað framtíðin ber í skaut sér, ekki bara fyrir mann persónulega, heldur einnig þjóðina. kvíðinn og óvissan um það hvort nýrri stjórn beri sú gæfa sem þarf til þess að taka á málunum og breyta rétt. Kvíðinn um það að heimskir menn og siðlausir, þæfi mál vegna þess að flokkshugur maurabús flokksagans segja að þingmaurar megi ekki hugsa sjálfstætt. Kvíðinn um það að góðar hugmyndir verði hundsaðar vegna þess að einhver annar datt þeim það í hug. Kvíðinn um það að stjórnmálamenn fastir í 20-30 ára gömlum pakkalausnum um að álver leysi öll heimsins vandamál eða að leggja eigi öll eggin í sömu körfuna-lausnir, verði ofan á.Kvíðinn sem grundvallast í þessari spurningu: Og hvað svo?

En það er einnig kvíðinn það að allt sé að sigla í sama farið, umræðan muni snúast um smámál en ekki stórmál og að gamlir uppvakningar úr drungalegum bankageymslum illskunnar og siðleysisins sem hefur ráðið för íslensks viðstkipalífs, láti á sér kræla á njan leik og teiknin eru öll á lofti um það. Skilanefndir makka í myrkrinu um að viðhalda völdum hrunvalda, hrossakaup ýmiskonar virðast vera í pípunum í formi afskrifta fyrirtækja og áróðursherferðir gegn breytingum í réttltætisátt, eru byrjaðar að láta á ser kræla innan þings sem utan.

En hvað ætli valdi því að slíkt geti gerst aftur á ný, að valdhafar óréttlætis viðskiptamanna og siðblindu stórmógúla telji sig geta haldið áfram leiknum þrátt fyrir allt saman? Það er kannski það sem hefur þjáð mann samtímis þreytunni og kvíðanum, og það er doðinn mikili sem byrjaður er að ná tökum á manni. Doðinn gagnvart þeim fjöldagröfum fjármálakerfisins þar hver annar rotnandi líkhópur fórnarlamba viðskiptamanna, kemur í ljós, því þegar maður hefur séð of mörg lík byrjar maður að verða ónæmur fyrir fjöldanum eða gjörningnum, þetta verður bara tölfræði. Doðinn sem fylgir því að umræðuþreytan ágerist og doðinn sem myndast yfir heimskulegri smámuna-umræðu. Doðinn sem fylgir því vonleysi að kannski sé ekki samfélaginu viðbjargandi. Einnig er það doðinn yfir því  óréttlæti sem framkvæmt hefur verið og doðinn sem fylgir því að sálin í manni er orðinn uppgefinn á þeirri illsku, heimsku og siðleysi sem viðgengst meðal hýenna í teinóttum jakkafötum.

Doðinn er kannski það hættulegasta af öllu sem hefur þjakað mann og í bland við doða sumartímans, þá gæti hann haft alvarlegar afleðingar, því aldrei áður er eins mikil þörf á því að maður sé vakandi og sé á tánum. Tímabilið eftir hrun er nefnilega eitt það hættulegasta því í bland við örvæntingu, óvissu og afvegaleðingu umræðu, þá reyna yfirleitt misjafnir menn að notfæra sér aðstæður til ýmissa verka, sérstaklega þegar umræðan afvegaleiðist frá því að skapa hér heiðarleika og siðferði. Ógagnsæið og óheiðarleiki leyndar og leynimakks verður þá ofan á, og hægt og rólega sígur þjóðfélagið í sama farið án þess að draga nokkurn lærdóm af því sem gerðist þar til sagan endurtekur sig á ný.

Kannski er best að maður skelli í sig kaffibolla nú til að yfirstíga þreytuna, horfist í augum við kvíðann í stað þess að láta hann ráða, og stingi sig á þyrni til þess að hrekja burt doðann. Hver veit, kannski ef nógu margir gera það, þá muni nást að rísa upp hér heilbrigt þjóðfélag á ný?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sóley Björk Stefánsdóttir

Ég held reyndar að allir þeir sem standa í baráttu fyrir réttlæti þurfi að passa það vel að gefa ekki of mikið af sér í baráttuna. Það eru margir sem hafa lent í því að setja of mikið af lífsorku sinni í baráttuna. Vilmundur Gylfason er líklega besta dæmið um það, Það er nauðsynlegt að taka sér hvíld á milli bardaga og hlaða batteríin og algjörlega lífsnauðsynlegt að vera ekki með samviskubit og pressa á sjálfan sig of mikið. Hvert handtak sem þú gerir er einu handtaki meira en flestir gera og þú átt að hugsa meira um þau heldur en þau handtök sem eru óunnin.

Sóley Björk Stefánsdóttir, 21.5.2009 kl. 15:16

2 identicon

Heill og sæll; Agnar Kristján - sem þið önnur, hér á síðu hans !

Þakka þér; þessa einlægu, en jafnframt yfirlætislausu hugvekju, Agnar minn.

Þó við hefðum oftlega; átt harðar sennur, hér á Mbl. síðum, að þá vissi ég ætíð, að innra með þér slægi mildur strengur manngæzku og réttlætis kenndar góðrar.

Og; Sóley Björk á einnig gott innlegg, sem brýnt, í þessa umræðu, ekki síður.

Með beztu kveðjum; úr Árnesþingi /

Óskar Helgi Helgason

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 21.5.2009 kl. 21:28

3 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

takk fyrir einlægja og heiðarlega hugvekju - skil þig mæta vel:)

Birgitta Jónsdóttir, 21.5.2009 kl. 23:34

4 Smámynd: Nanna Katrín Kristjánsdóttir

Flott færsla hjá þér. Eitthvað sem flestir þekkja held ég en færri viðurkenna fyrir sér og öðrum.

Gangi þér vel að ná þér út úr þessu, það er vel hægt og einfaldir hlutir eins og kannski bara göngutúr út í nátturinni geta hjálpað helling.

Nanna Katrín Kristjánsdóttir, 21.5.2009 kl. 23:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

AK-72

Höfundur

AK-72
AK-72
Með óþrjótandi áhuga á kvikmyndum, sögu og stjórnmálum.Telur sig hafa fullt frelsi til að hrósa og gagnrýna hvern sem er og hvenær sem er.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...1212_913482
  • ...ner1_568492
  • ...rad-banner1
  • Screenshot

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 33
  • Frá upphafi: 123106

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband