Aðdragandi aðgerðanna í Bretlandi: Pistill eftir Sigrúnu Davíðsdóttur

Fyrir viku síðan þá var fluttur athyglisverður pistill Sigrúnar Davíðsdóttur um aðdraganda aðgera Breta og er þess virði að hlýða á eða lesa. Hann má finna inn á vef RÚV en ég ætla að taka mér það bessaleyfi og endurbirta hann hér að neðan:

Aðdragandi aðgerðanna í Bretlandi
 
Eins og Kaarlo Jännäri ályktaði í bankaskýrslu sinni er vafasamt að bankarnir þrír hefðu komist út úr kreppunni - en það voru aðgerðir breskra yfirvalda sem brugðu endanlega fyrir þá fæti. Hin opinbera saga er að þetta hafi gerst 8. október þegar Kaupþing Edge, netreikningur Kaupþings, var tekinn yfir af fjárálaráðuneytinu og eignir Landsbankans frystar.
Spegillinn hefur nýlega bætt í þessa sögu, bent á að aðgerðir breskra yfirvalda hófust fyrr. Þegar 3. október var FSA, breska fjármálaeftirlitið, búið að gera ráðstafnir til að innlagnir í Kaupþing Singer & Friedlander, færu ekki í þann banka heldur á sérstakan reikning í enska seðlabankanum. Það þýddi að ekki komu neinir peningar inn í bankann. Boð FSA var svo látið taka gildi frá og með 2. október, var því afturvirkt um einn dag.

Þann 6. október fóru Kaupþingsmenn í Seðlabankann og fengu 80 milljarða króna lán. Og þá er spurningin: upplýstu forráðamenn Kaupþings Seðlabankanum um aðgerð FSA? Spegillinn hefur spurst fyrir um þetta atriði hjá aðilum sem hefðu eðlilega átt að vita þetta. Enginn hefur kannast við að Seðlabankinn hafi verið upplýstur um þetta - en það er þó ekki útilokað.

Einn viðmælanda Spegilsins sagði að ef Seðlabankinn hefði vitað af þessari aðgerð FSA væri ósennilegt að bankinn hefði veitt Kaupþing lánið. Lánið átti ekki bara að duga fram á fimmtudag heldur til að styrkja Kaupþing. Kaupþing á Íslandi hefði klárlega ekki getað lifað af greiðslustöðvun enska dótturfélagsins. Fall Singer & Friedlanders hefði þýtt að lánasamningar Kaupþings hefðu gjaldfallið á stundinni - og þá var sú sagan úti.

En FSA fór ekki aðeins gegn Friedlander 3. október - heldur var sama kvöðin lögð á Heritable, dótturfélag Landsbankans: Heritable átti líka að standa skil á innlánum inn á reikning hjá enska seðlabankanum. Að kvöldi 6. október höfðu engir peningar verið lagðir þar inn. Þá voru aðgerðirnar enn hertar, allt fé tekið af tveimur reikningum sem Heritable átti hjá tveimur bönkum hér - reikningar þar sem bankinn geymdi lausafé. Með öðrum orðum: Heritable var kominn í gjörgæslu breskra yfirvalda og ekki lengur fjárs síns ráðandi - og sama var með Singer & Friedlander.

En var það næsta svo að frysta eigur Landsbankans að morgni miðvikudagsins 8. október? Nei, ekki alveg. Að morgni þriðjudagsins 7. október, strax kl. 9.30, voru innlánsreikningar Heritable lagðir undir hollenska ING-bankann. Ráðherrarnir Darling og Árni Matthiesen töluðu saman þennan morgun.

Ef nafn hollenska bankans er kunnuglegt er það af því Kaupþing Edge, innlánareikninga Kaupþings Singer & Friedlanders var lagður undir ING daginn eftir, 8. október. Og þarna um morguninn 8. voru svo eignir Landsbankans frystar. Þar með og þá fyrst kom opinberlega í ljós að bresk yfirvöld höfðu rækilega tekið til hendinni gagnvart íslensku bönkunum tveimur, Landsbankanum og Kaupþingi.

En já, bresku aðgerðirnar komu ekki eins og þruma úr heiðskíru lofti - þær voru saga í nokkrum köflum. Aðgerðir breska fjármálaeftirlitið hófust ekki 8. október, heldur 3. október. Þær aðgerðir voru leynilegar - innstæðueigendur hefðu auðvitað gert áhlaup á bankana ef þetta hefði frést en skilanefndir bankanna hér opinberuðu þetta í apríl. Það væri þó afar undarlegt ef stjórnendur bankanna hefðu ekki upplýst Seðlabankann um þessar aðgerðir. Og einkum undarlegt ef Kaupþing hefur ekki gert það þegar samið var um 80 milljarða króna lánið.

Það dugir ekki að halda því fram að þessi aðgerð FSA gegn bönkunum tveimur hafi bara verið einhvers konar aðvörun. Þetta var engin aðvörun - það var blóðug alvara. Aðgerðirnar voru rökstuddar með því að viðkomandi bankar uppfylltu ekki lengur skilyrði fyrir starfsleyfi og verið væri að vernda fjármálastöðugleika landsins og innistæðueigendur. Út úr þessari klemmu gátu bankarnir ekki smeygt sér nema að komast í pening - og hvar áttu þeir að gera það eins og ástandið var?

Aðgerðirnar gegn Landsbanka og Kaupþingi voru samhliða og alveg þær sömu: fyrst voru innlán tekin undan dótturfélögunum, svo voru innlánareikningar lagðir undir annan banka, ING - reyndar mjög undarlegt að hollenskur banki skyldi valinn sem svo var kominn á framfærslu hollenska ríkisins nokkrum vikum seinna. Það var örugglega einhver hugsun þarna að baki en ekki enn vitað hver sú djúpa hugsun var.

Hér má hnýta við að í stjórnkerfinu hér eru hugleiðingar um hvort þessi ING-leið standist. Þar var stuðst við lög sem voru sett um leið og bankarnir hrundu, bæði til að eiga við þá og breskan banka sem fór í þrot en lögin tóku ekki gildi fyrr en í febrúar - og það ku hafa vakið áhyggjur. Lögfræðistofan sem var fjármálaráðuneytinu til ráðgjafar í fyrra, meðal annars um íslensku bankanna, hefur slegið öll reikningsmet. Ráðuneytið þarf að borga 22 milljónir punda, um 4,4 milljarða króna - og því eins gott að allt standist.

En 8. október bættist svo ein aðgerð við, þessi rótttæka aðgerð að frysta eignir Landsbankans með víðtækari áhrifum eins og kunnugt er. Þó talsmenn fjármálaráðuneytisins hafi undirstrikað að hryðjuverkastimpillinn ætti ekki við um Landsbankans gerðu hvorki Gordon Brown forsætisráðherra né Alistair Darling fjármálaráðherra neitt til að draga úr hryðjuverkaskírskotuninni eins og margoft hefur komið fram. - Vísast voru það Icesave-reikningarnir sem ollu því að gripið var til svo róttækra ráðstafana - en tilfinningin er nú samt að sú saga sé ekki öll sögð.

Upplýsingarnar um aðgerðirnar fyrir 8. október hafa legið á lausu síðan í apríl. Það er með ólíkindum að íslensk stjórnvöld skuli jafn algjörlega laus við forvitni og löngun til að rekja nú sögu þessara daga fyrir þjóðinni, eins og raun ber vitni.

- Spegillinn 26.06.2009
mbl.is Bankahrunið stærra en Enron
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Karl

Forvitnilegur pistill, gott að þú haldir honum til haga, maður nær ekki Speglinum alla daga.

Eitt lítið atrið sem slær mig - getur það virkilega passað að íslenska ríkið sé að borga Lovells lögfræðistofunni 22 milljónir punda?? Það eru tæp 14.000 kr á mannsbarn á Íslandi.

Komm'on! 

Einar Karl, 3.7.2009 kl. 19:51

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Áhugaverður pistill, allt þetta bankahruns mál er með ólíkindum. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 4.7.2009 kl. 03:26

3 Smámynd: Einar Karl

Ég var að misskilja hluta pistilsins. Reikningurinn sem um er rætt er auðvitað til breska fjármálaráðuneytisins, ekki þess íslenska. Mín fljótfærni!

Einar Karl, 22.7.2009 kl. 09:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

AK-72

Höfundur

AK-72
AK-72
Með óþrjótandi áhuga á kvikmyndum, sögu og stjórnmálum.Telur sig hafa fullt frelsi til að hrósa og gagnrýna hvern sem er og hvenær sem er.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...1212_913482
  • ...ner1_568492
  • ...rad-banner1
  • Screenshot

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 38
  • Frá upphafi: 123114

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 38
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband