Hugleiðingar Ísþræls

Í dag var Ice-Save samþykkt og í dag ákvað ég loks að skrifa mitt fyrsta, langa og eina innlegg um þetta mál. Oft áður hef ég reynt að rita eitthvað um þetta mál sem hefur verið vandræðamál sem ekki varð komist undan að leysa á einhvern hátt, en gengið frekar illa þar sem skoðanir mínar fyrr í sumar sveifluðust til og frá líkt og margra. Ekki var það til bóta að umræðan var að mestu af því tagi að manni bauð við henni, upphrópanir um föðurlandsvikara og brigsl um landráð af hálfu fólks sem spilaði samkvæmt fyrirframgefnum skoðunum á ríkistjórn eða samkvæmt möntru flokkslínu, drekktu nær allri vitrænni umræðu og á endanum hafa örugglega náð að fæla fólk frá að skoða málin eða taka ígrundaða ákvörðun út frá öllum þáttum.

Svo maður tali um svona hvernig þetta hefur litið út og þróast frá mínum sjónarhóli, þá ætla ég að byrja frá því að samningurinn kom í höfn, samningur sem er ekki upphaf alls ills, heldur eingöngu punktur á þessari vegferð sem hófst með gráðugum mönnum í banka allra landsmanna. Einhvern veginn þá varð mér það ljóst að þegar samninganefndin var farin af stað, að þetta væri mál sem þyrfti að semja um því erfitt yrði að fara dómstólaleiðina miðað við öll óveðurskýin og alkulinu sem ríkti gagnvart Íslandi á alþjóðavettvangi. Einnig var það öruggt að við þyrftum að gangast við ábyrgðum okkar sem fyrri ráðamenn höfðu gengist við og með nokkuð almennum vilja stjórnarþingmanna og að mig minnir einnig að einhverju leyti stjórnarandstöðu.

Svo kom samningurinn sem manni varð brátt ljóst að var ekki góður samningur né réttlátur frekar en margt annað sem hefur gerst hér. Samninganefndinni höfðu orðið á mistök með ýmsa þætti, nokkuð sem flestum er ljóst og alltof mörg vafa-atriði voru þarna sem vöktu upp réttmætar spurningar. Aftur á móti blæs maður á það að það hafi verið gert af ásettu ráði eða af einhverjum undirlægjuhætti, nefndin var líkt og nær því allir íslenskir stjórnmálamenn og embættismenn í gegnum tíðina, hálfgerðir kjánar í samanburði við erlenda samningsaðila, sendir á fund faglærðra hákarla. Hvort við hefðum getað fengið betri samninga með öðrum innlendum mannskap er ég ekki viss og hreinlega stórefast um það eftir hina stórkostlegu umgjörð sem Sjálfstæðisflokkurinn hreykti sér af með 6,7% vöxtum og styttri lánstíma, og hafði örugglega áhrif á það hvernig endanlegur samningur leit út.

Í fyrstu voru viðbrögð manns að það ætti að troða þessum samningi þvert upp í boruna á feðgum tveimur í teinóttu ásamt bankabjálfum sínum, miðstjórnarmanni Sjálfstæðisflokksins sem finnst það þokkafullt að vera með slaufu og öðrum þeim sem sátu í bankastjórn, og hafna honum algjörlega. Það kæmi nefnilega ekki til greina að borga skuldir vina Davíðs Oddsonar og vinnumiðlunar SUS sem kallast Landsbankinn, hafði stofnað til. Eðlileg viðbrögð byggð á hreinræktaðri reiði og tilfinningasemi og ekkert að því svosem nema kannski að þessi niðurstaða var fengin án íhugunar eða vangaveltna.

Svo fór umræðan meir og meir af stað og þegar eftir smátíma maður var byrjaður eingöngu að lesa það sem byrjaði ekki á landráð, föðurlandsvik, þjóðníðingar eða „þjóðhollir menn eiga að rísa upp gegn svikráðum KOMMÚNISTA“, þá byrjaði maður algjörlega að sveiflast með og á móti með hverri góðri grein sem reyndi að rökstyðja mál sitt án gífuryrða. Maður lifði algjöra óvissu um allt saman og gat ekki lent á niðurstöðu innra með sér. Þó sem lengra leið á umræður sumarsins varð manni meira og meira ljóst að undan samningi kæmumst við ekki og þegar maður las eða hlýddi á fólk utan hjarta skotgrafa flokkana, fólk sem maður hafði lært af reynslunni að væri að segja hluti af heilindum og hefði nægilega sýn á hlutina til þess að meta þá, þá væri staðan einfaldlega sú að við værum „damned if we do, damned if we don‘t“ og sterkari líkur væri á að samþykkt samningsins væri skárri kosturinn af tveimur hræðilegum á gatnamótum þar sem svartnættið ríkti á þeim tveimur leiðum sem liggja framundan.

En orð og röksemdir nokkurra aðila eru ekki það eina sem fékk mig til þess að telja samþykkt skárri kost því í svona stórum málum sem margt hangir á spýtunni og hlutirnir eru ekki svart-hvítir, þá verður maður að bakka frá eigin tilfinningasemi stundum og horfa yfir vígvöllinn svo maður grípi aðeins til myndlíkingar, og þá varð manni brátt ljóst að þetta var barátta í vonlausri aðstöðu. Herinn stóð einn á vígvellinum gegn máttugum, sameinuðum andstæðingum fyrrum vina sem töldu sig svikna og hlunnfarna af þessum litla, hrokafulla her og blésu til sóknar gegn honum. Enginn vildi hjálpa þessum svikurum og þjófum sem nú stóðu í forarvaði við óhagstæð skilyrði sköpuð af þeim sjálfum með dyggum stuðningi nokkurra hershöfðingja og herdeilda sem höfðu aðstoða við svikin og þjófnaði frá vinum, herdeilda sem vildu svo ekki bera ábyrgð á eða iðrast þess að birgðar ætlaðar til að framfleyta hernum höfðu einnig horfið með aðstoð og/eða heimskupörum þeirra.

Hvað er til ráða á slíkum vígvelli? Hvað ber að gera? Valið er mjög einfalt, annað hvort berjast menn til síðasta manns gegn ofurefli við óhagstæðar aðstæður með litlum sem engum birgðum sem valda gjörtapi, nokkuð sem getur ekki farið öðruvísi með sundruðum her vegna svika og þjófnaða hershöfðingja, vina þeirra og undirmanna sem hinn almenni hermaður getur ekki sætt sig við að fylgja. Hinn möguleikinn í stöðunni er að koma sér í burtu af vígvellinum með sem minnstum skaða þó hann sé gríðarlegur orðinn, kaupa sér tíma til þess að sameina herinn á ný, koma honum í gegnum þrautagönguna sem bíður hans, refsa hinum seku, , endurskipuleggja sig, fá baráttuviljann á ný og hefja baráttuna á ný á vígvelli að eigin vali. Þó þessi orrusta sé töpuð, þá er ekki stríðið búið.

Hin strategíska hlið var þó ekki það eina sem bættist við í flóru röksemda því sýnin sem maður sá framundan í þjóðhagsspá ASÍ sem á eftir að birtast, var myrk og þung. Hið eitraða epli sem arfleifð mannfjandsamlegrar frjálshyggjutilraunar sem framkvæmd var á þjóðinni, var mjög eitrað og það þarf þennan sjö ára frest til að ná vopnum á ný því þó Damiklesar-sverð Ísþrælkunar hangi yfir okkur, þá eru sjö ár sem við höfum von til þess að hindra að hann slitni, sjö ár af því að reyna að byggja upp það sem drepið hefur verið: traust, sátt og virðingu, ekki bara heima fyrir heldur einnig erlendis.

Þar liggur nefnilega eitt af okkur stóru vandamálum, það er að við getum ekki eytt kröftum okkar í vonlausu baráttu sem Ice-Save er í raun miðað við núverandi aðstæður því traustið og virðingin utan frá er engin. Ef maður lítur út frá sjónarhóli þeirra erlendu þjóða sem við kljáumst við og vilja ekki treysta okkur nema gengið sé frá samkomulaginu, þá er þetta mjög einfalt: við erum hrokafull, við neituðum að hlusta, við komum fram af einstöku stærilæti og höfðum upp stór orð um að við borguðum ekki reikninga okkar, við tókum þátt í svindlinu og svikunum. Já, við tókum þátt utan frá séð því flestum er það ljóst ekki bara hér, heldur erlendis að stjórnvöld voru viljandi með í að halda blekkingunni áfram og skapa aðstæður fyrir stærstu svikamyllu sem sést hefur verið, hvort sem það voru ráðherrar, þingmenn, Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn með forystu eins af arkitektum hrunsins og viljugs velgjörðarmanns þeirra sem hreinsuðu fé frá breskum og hollenskum einstaklinga, líknarfélaga, spítala, sveitarfélaga og m.a.s. Scotland Yard. Já, Scotland Yard, Íslendingar rændu Scotland Yard, geri aðrir betur. Er það furða þó allir séu fúlir út í okkur?

Við erum vonda fólkið í augum heimsins og það breytist ekki með því að segja í hrokafullum tón:"Nei, við borgum ekki." Ef maður skrifar upp á ábyrgð fyrir einhverja, þá losnar maður ekkert undan ábyrgðinni þó viðkomandi stingi af frá skuldunum. Slíkt vita allir sem gerast ábyrgðarmenn á lánum eða öðru slíku, innheimtu-aðilinn horfir bara þegjandi á þig  með vorkunnarsvip yfir hrokafullri fáviskunni og segir svo:"Borgaðu annars hjólum við í þig af fullri hörku.. Réttlátt? Nei. Sanngjarnt? Nei. En ef við viljum semja og látum af hroka og afneitun á ábyrgð, þá eru frekari líkur á að okkur takist að fella niður hluta af skuldinni eða getum náð einhverju fé til baka frá hinum ábyrgðarlausa með jafnvel aðstoð innheimtumannsins.

Fleira gæti ég týnt til og ekki er það fallegt því efnahagslífið er að koðna niður, innan úr bönkunum heyrir maður að fyrirtæki séu að fara yfirrum vegna þess að það er ekkert hægt að gera, ákvörðunarfælni þar og vantraust erlendis frá hefur haft þau áhrif að sumir þurfa að staðgreiða eða greiða fyrirfram fyrir nauðsynlegar vörur eða varahluti, nokkuð sem gerir enn erfiðara fyrir sum fyrirtæki til að starfa eðlilega. Samfélagið var nefnilega sett á pásu og atvinnulífið látið ganga fyrir gufunum í bensíntanknum á meðan lýðskrum, orðalagspælingar og langdregið orðaska hefur gengið fyrir.  Til allrar hamingju þó var þessi orkunýting ekki alveg til einskins því þetta skilaði fyrirvörum sem gefur allavega einhverja glætu í þetta hvort sem það var fengið fram með lýðskrumi þeirra sem hugsa um hag sinna flokka ofar öllu eða baráttu þeirra sem stóðu heilir fyrir utan leikskólann á Austurvelli og heimtuðu að reynt yrði að breyta þessu svo skaðinn yrði lágmarkaður. Stjórnin hlustaði allavega, þingið gat ekki annað en þorað að reyna að ná lendingu og örugglega einhver góður hluti gerði sér grein fyrir því að lenda varð einhverri sátt, það varð að vinna saman

Þegar allt þetta er haft í huga og fyrirvara voru komnir í höfn, þá gat ég sem almennur borgari ekki lengur barmað mér, haldið áfram afneitun eða þrjósku. Ég verð því að greiða þessu atkvæði mitt með óbragð í kjaftinum og vona hið besta en ég set líka fyrirvara á þetta allt. Ég hef nefnilega líka sem almenningur, líka sem borgari og líka sem Íslendingur, ákveðnar kröfur bæði til þings og framtíðar.

Ég set því eftirfarandi fyrirvara til sjö ára en að þeim loknum, þá mun ég vera annaðhvort fluttur úr landi eða búiinn að ákveða að ég vilji tilheyra þessu þjóðfélagi lengur. Þessir fyrirvarar eru svo hljóðandi:

Ég krefst þess að stjórnvöld geri allt á þessum sjö árum til þess að fá IceSave-samningi breytt, reyni að bæta álit umheimsins á okkur og leggi allt í sölurnar til að lágmarka skaðann af þessum samning.

Ég krefst þess að stjórnvöld geri hvað sem þau geta til að ganga ekki nærri velferðarkerfinu, verndi auðlindir og þjóðareigur framar öllu gegn innlendum og erlendum fjárglæframönnum og öðrum sem ásælast eigur okkar og vilja eignast þær á bruna-útsölu með bellibrögðum og aðstoðar AGS.

Ég krefst þess að það verði lýst yfir algjöru stríði gegn þeim sem sviku okkur og komu okkur í þessa stöðu. Enginn miskunn, enginn fagurgali, enginn teknísk lagaflækja á að hindra að réttlæti á einhvern hátt nái fram að ganga.

Ég krefst þess að harðar verði gengið að þeim sem hafa sóað gífurlega magni fjár, þeim sem hafa ótæpilega farið ránshendi um bankanna í formi ofurlána og stóreignamönnum sem hafa sölsað undir sig fé með vafasömum hætti, en að almenningi sem hefur það eitt til sakar unnið að hafa asnast til að fæðast inn í samfélag siðlausrar frjálshyggju og spilltrar stjórnmála sem fyrirlitið hafa almenninga hingað til.

Ég krefst þess og tel það algjört skilyrði, að hér verði myndað nýr samfélagssáttmáli eða hið „Nýja Ísland“ og það verði ekki andvana fætt eða kæft í þinghúsinu eftir að róast í samfélaginu. Það skal verða stjórnlagaþing, það skal verða ný stjórnarskrá skrifuð af almenningi og fyrir þjóðina alla.

Ég krefst þess að þingmenn, ráðherrar og stjórnsýslan öll verði látin gangast undir strangar siðareglur sem hafi hagsmuni almennings að leiðarljósi og að Alþingi verði ekki lengur skúffufyrirtæki valdaætta, viðskiptablokka, auðmanna eða Viðskiptaráðs heldur Alþingi verði fyrir alla borgara landsins.

Ég krefst þess að það verði tryggt með lögum að siðferði verði látið ríkja í viðskiptum og þrengt verði að því frelsi sem orsakaði hrunið, frelsinu til að mega vera siðblindur og iðka slíkt í viðskiptum og hörð viðurlög verði sett vð brotum þar.

Og að lokum krefst ég þess, að hér rísi upp réttlátt samfélag,  gott samfélag sem ég get viljað búað í, samfélag þar sem maður getur horft framan í spegilinn og sagt:“Ég þraukaði, ég barðist og ég uppskar samfélag vonar, virðingar og sáttar öllum til handa.“ Ef það gengur eftir og þetta haft að leiðarljósi, þá er ég tilbúinn til þess að þrauka þorrann. Ef ekki þá er bara eitt sem hægt er að segja:

„Guð blessi Ísland, ég er farinn!“


mbl.is Icesave-frumvarp samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingifríður Ragna Skúladóttir

Flottir fyrirvarar.  Ég get tekið undir með þér.

Ingifríður Ragna Skúladóttir, 28.8.2009 kl. 15:34

2 Smámynd: Óskar Þorkelsson

„Guð blessi Ísland, ég er farinn!“

ég líka Agnar !! 1 sept þá er ég farinn og ég mun ekki taka þátt í þessu bulli með það að borga skuldir Bjöggana.

Stórgóður pistill ! 

Óskar Þorkelsson, 28.8.2009 kl. 15:53

3 Smámynd: AK-72

Takk, Inga. Ég var reyndar að spá í að hafa einn fyrirvarann að Framsókn og Sjálfstæðisflokkur sæti ekki í stjórn en svo áttaði ég mig á því að það yrði þá ekkert gert í átt heilbrigðs samfélags svo allir fyrirvarar væru ónýttir með slíku samstarfi.

Óskar: Ég ætla allavega að berjast áfram áður en maður gefst upp. The fight ain't over till it's over en ég miða allavega annaðhvort við 2016 eða stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokkana tveggja. Ef þeir flokkar ná á ný völdum, þá er samfélagið sjálkfrafa ónýtt og ekkert réttlæti verður nokkurn tímann til staðar hér í Nígeríu norðusins.

AK-72, 28.8.2009 kl. 16:02

4 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Gott innlegg AK. Sammála þínum vangaveltum. Þú ert efni í snjallann hershöfðingja. Það vantar góða leiðtoga hér á landi og góðan lýð til að leiða fram. Ekki fara.

Hjálmtýr V Heiðdal, 28.8.2009 kl. 16:08

5 identicon

Já þetta var gott innlegg og góðar tillögur sem þú kemur með.    Ég er orðinn svo fullorðinn að flótti er tilgangslaus, 71 þegar fyrsta afborgun fellur ef ég lifi!!!  Mér þykir hins vegar slæmt að fara mannorðslaus í gröfina svo það er bara að vona að endurreisn þess takist.     Þetta lítur hins vegar hálf dapurlega út, allir virðast blásaklausir og nú er, ofan á allt annað, Steingrímur búinn að móðga Evu Joly með því að skipa nefnd!      Þöngulhausanefnd mætti kalla hana enda verða verk hennar sjálfsagt lík vinnu þöngulhausa!

Þakka enn og aftur fyrir skrifin, þú virðist eins og Hjálmtýr bendir á, efnilegur skipuleggjandi og leiðtogi!

Ragnar Eiríksson 

Ragnar Eiriksson (IP-tala skráð) 28.8.2009 kl. 21:05

6 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ég þekki ekki allar lagaflækjur málsins, en ég get ekki ímyndað mér neitt sem getur réttlætt að veðsetja leikskólabörnin í sjónvarpsfréttunum í kvöld.

Getur þú það Agnar, eða hver sem þetta les?

Theódór Norðkvist, 28.8.2009 kl. 23:57

7 Smámynd: Einar Indriðason

Amen, Agnar.

Einar Indriðason, 30.8.2009 kl. 15:53

8 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég er sammála þér Agnar með fyrirvarana. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 31.8.2009 kl. 00:50

9 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Þakka fyrir kröftuga ræðu, með jafnkröftugum undirtektum.

Ég fór ... að vísu fyrir mörgum árum, minn spillingarþráður var stuttur, viðurkenni það, eigi samt von;  sem aldrei fyrr um að hægt verði;  ef gengið verður að kröfum þínum um betra Ísland; að byggja upp manneskjulegra samfélag þar sem spilling verður einfaldlega fyrirlitin um allt þjóðfélagið.

Farinn?  ...... en hvurt?

Baráttukveðja,

Jenný Stefanía Jensdóttir, 1.9.2009 kl. 04:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

AK-72

Höfundur

AK-72
AK-72
Með óþrjótandi áhuga á kvikmyndum, sögu og stjórnmálum.Telur sig hafa fullt frelsi til að hrósa og gagnrýna hvern sem er og hvenær sem er.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...1212_913482
  • ...ner1_568492
  • ...rad-banner1
  • Screenshot

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband