Afsökunarbeiðni til þjóðarinnar

 Mín kæra þjóð(fyrir utan útrásarvíkinga, bankamenn, Sjálfstæðismenn og önnur samviskulaus fól sem leitt hafa okkur í glötun),

 ég er búinn að horfa lengi í gaupnir mínar, hljóður og fullur af iðrun. Í dag langar mig til að biðjast vægðar af ykkur og bera fram afsökunarbeiðni í þeirri von um að þið getið einhvern tímann fyrirgefið mér þær syndir sem ég játa hér.

Til nánari útskýringar og formála fyrir þá sem vilja vita hversvegna ég leita mér fyrirgefningar svo sál mín geti hvílst, þá tók ég þátt í stofnun, störfum, kosningabaráttu og skrifum fyrir Borgarahreyfinguna í þeirri trú að það fólk sem færi inn á þing, væri heilt og heiðarlegt fólk sem væri hafið yfir það að festast í persónulegum erjum, engum til góðs. Því miður brást mér bogalistin þá og líkt og ég sagði frá áður, fóru leikar þannig að ég yfirgaf hreyfinguna eftir hið fræga Alzheimer-bréf. Þó ég hafi gengið á brott fullur vonbrigða yfir því hvernig leikar höfðu þróast, þá vonaði ég svo innilega að fólk gæti náð sáttum, að fólk gæti náð að horfa frá persónulegum deilum og horfa í átt til heildarinnar því manni þótti þetta sárt, sérstaklega með tilliti til margs hins góða fólks sem innan hreyfingarinnar starfaði, að horfa upp á það sem fór fram.

Reyndin var önnur, þetta var falsvon, von sem var fyrirfram dauð þó ég neitaði að horfast í augun við það sem var að: þinghópurinn var ónýtur að atgervi þegar kom að samvinnu, sáttfýsi, auðmýkt, virðingu við aðra og heilindum í samskiptum við annað fólk, nokkuð sem ég komst að í einkasamtölum við þá sem ég treysti en gátu ei meir þegar að þinghópnum, duttlungum og einræðis-æsingi þeirra kom.

Enda fór sem fór, í stað þess að nota það tækifæri sem landsfundur Borgarahreyfingar var, til að ná sáttum, sáðu þau meiri sundrungu með hrokafullri hundsun lýðræðis og hafa gert það að verkum að breytingarafl það sem lagt var af stað í upphafi, er stórskaðað, rúið trausti líkt og þingflokksformaðurinn, orðið að athlægi og mælist nú rétt svo í upphafsfylgi. Ég vill samt taka það fram að margt af því fólki sem valdist til stjórnar nú og áður, það fólk sem eltir þingmennina eða heldur ótrautt áfram er margt hvert gott fólk sem hefur hjartað á réttum stað, og ég innilega vona að það fólk geti náð að rífa Borgarahreyfinguna upp úr öskunni(og hinir einstaklingarnir sem heilir voru en fylgdu þrenningunni, snúi aftur...án þrenningar að sjálfsögðu).

 Ég játa að í dag er ég fíflið, bjáninn sem féll fyrir fagurgala, kjáninn sem féll fyrir látbragði gæðaleikara sem gaspra um hugsjónir og lýðræði af falskri innlifun, án þess að hafa nokkurn skilning á þessum orðum eða öðrum slíkum.

Ég játa að hafa haft von í mér um að þetta fólk hefði í sér þann félagsþroska sem til þyrfti í samstarfi með öðrum, gæti séð að sér og reynt að ná sáttum.

Ég játa að í dag er ég heimski maðurinn sem lagði á plóginn með trú fávitans um að hægt væri að breyta einhverju í stjórnmálalífi landsins en hef líklegast átt þátt í að stórskaða von um að ný framboð geti sprottið upp og breytt hinu pólitíska landslagi til frambúðar.

Kæru Íslendingar og aðrir íbúar þessa sokkna skers(-fyrrgreindir að sjálfsögðu), ég vill biðjast afsökunar á eftirfarandi hlutum:

  • Ég biðst afsökunar á því að hafa lagt vinnu, orku og hjarta í það að koma þessum einstaklingum á þing sem líta á alla sem eru á annarri skoðun sem fífl, fávita og aumingja.
  • Ég biðst afsökunar á því að hafa komið fólki til valda sem skortir alla þá auðmýkt, gagnkvæmu virðingu, heilindi og siðferði til að koma á hugarfarsbreytingum.
  • Ég biðst afsökunar á því að hafa komið til valda, fólki sem talar um lýðræði en getur ekki sætt sig við niðurstöður þess, líkt og sást á landsfundi Borgarahreyfingarinnar, hvað þá skilið að lýðræði byggist m.a. á því að stundum tapar maður í kosningum.
  • Ég biðst afsökunar á því að hafa komið einstaklingum inn á þing, sem umbreyttust í það sem barist var gegn á mettíma, hvort sem það var vegna blekkinga eða ógeðisdrykk brugguðum á þingi úr svita Davíðs Oddsonar, táfýlu Finns Ingólfssonar og krókódílatárum Árna Johnsen.
  • Ég biðst afsökunar á því að hafa trúað því um tíma að þessir einstaklingar myndu geta brotið odd af oflæti sínu og reynt að tala sig niður á sameiginlega niðurstöðu þó hún væri ekki hin fullkomna lausn.
  • Ég biðst afsökunar á því að hafa brugðist því fólki sem reyndi hvað það gat til að lægja öldur innan hreyfingarinnar, öllu því fólki sem reyndi að starfa í þágu hreyfingarinnar en uppskar fyrirlitlegt yfirlæti þingmanna og þá sem börðust við þennan þríhöfða þurs í þeirri von um að hægt væri að ná sameiginlegri sátt, með því að yfirgefa það á ögurstundu í stað þess að leggja mitt á vogarskálarnar.
  • Ég biðst innilega og af öllu mínu hjarta, alla þá afsökunar sem kusu þessa einstaklinga inn á þing á grundvelli orða og skrifa minna, og trúðu því sama og ég: að þau færu þangað inn af heilindum en ekki persónulegum metnaði.
  • Einnig vil ég að lokum nota tækifærið til að biðjast afsökunar á öðru illvirki sem ég framdi og skaðaði íslensku þjóðina til frambúðar: ég vill biðjast afsökunar á því að hafa kosið Sjálfstæðisflokkinn með Davíð Oddson efstan á lista og átt minn þátt í að halda honum við völd. Sál mín mun brenna í víti fyrir það um alla ókomna tíð ásamt Ice-Slave skuldum sem brennimerktar eru svo í hold mitt:" Með ást frá FL-okknum."

Ég vona því að hinir ágætu landar mínar og þjóð mín góð, geti fyrirgefið mér heimsku mína, fyrirgefið mér syndir fávitans sem trúir að það sé til gott fólk sem vill vel, fyrirgefið mér heimskupör og illvirki þau sem þetta brölt mitt hefur skilað, að í stað þess að hafa komið þjóðinni á þing, þá á ég þátt í að koma sjálfhverfum, hrokafullum ÉG-um á þing, sér einum til dýrðar og öðrum til kjánahrolls.

Ég lýt nú höfði  mínu í auðmýkt og bíð eftir dómi ykkar(og sögunnar) með von um fyrirgefningu synda vorra,

Agnar Kr. Þorsteinsson

P.S. Það skal tekið fram að útrásarvíkingar, bankamenn, Sjálfstæðismenn og önnur fól sem hafa sundrað samfélagi voru og sökkt skerinu, þurfa ekki að sættast við mig eða fyrirgefa. Þeir teljast ekki til þjóðarinnar né annarra mennskra samfélaga eftir hermdarverkin sem þeir frömdu og iðrast ei nú né nokkurn tímann um ókomna tíð, enda væri það „óábyrg meðferð á samvisku".


mbl.is Hreyfingin verður til
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég fyrirgef þér Agnar.
Veit ekki hvort það sé að marka því að ég er undir sömu sök seldur.
Ég tældi fólk til að kjósa Borgarahreyfinguna með því að dreifa kosningabæklingum hér og þar.
Ég talaði um nauðsyn þess að fá nýtt siðrænt afl inn í íslenska pólitík.
Ég vona að mér verði einnig fyrirgefið.

Og þó! Ég held að við getum ekki álasað okkur fyrir það að þau þrjú hafi ekki manndóm og siðferðisþroska til að haga sér eins og fullorðið fólk og starfa með öðrum að því að leysa þessi ágreiningsmál innan Borgarahreyfingarinnar.
Þau hafa gert sig sek um lygar, fals og svik allt í þeim eigin tilgangi að þjónka eigið egó og framabrölt.

En ég ætla mér að halda áfram hvað sem raular og tautar og vona einnig að þú leggir ekki árar í bát.
Komandi kynslóðir eiga það inni hjá okkur að við reynum þó hvað við getum til að siðvæða landið og gera það að byggilegum stað á jarðarkúlunni.

ps. Það væri líka verðugt viðfangsefni að koma ræningjunum þremur útaf þingi með öllum tiltækum ráðum.

Eggert Vébjörnsson (IP-tala skráð) 18.9.2009 kl. 20:41

2 identicon

Tek heilshugar undir þessa færslu, það er skömm af þessum þremur einstaklingum sem svo greinilega eru að kafna úr sjálfum sér og engu öðru, telja sig ómissandi og telja sig vera yfir alla aðra hafna og þar á meðal yfir þá hafna sem kusu þá á þing!!!

Þessir þrír einstaklingar hafa eyðilagt þá von fyrir okkur öllum að það sé séns á því að koma heilsteyptum einstaklingum á þing sem sitja þar fyrir fólkið í landinu, sem berjast fyrir okkur og standa við gefin loforð.

Þetta fólk er nú búið að sýna okkur að það er liggur við sama hver er þetta er allt sama skítapakkið á þingi og von okkar um betri tíð er svartari í dag.

Birgitta, manneskjan sem barðist svo hetjulega hér fyrir kosningar, fordæmdi alla spillingu, lofaði öllu fögru, sagðist vera vinur okkur og vera rödd okkar er að mínu mati mesti svikarinn af þeim öllum.

Borgarinn (IP-tala skráð) 18.9.2009 kl. 21:08

3 Smámynd: Ingólfur

Einhvers staðar heyrði ég að valið á listanna hefði verið þannig að þeir sem höfðu mestan áhuga á því að komast á þing hefðu fengið sætin sem voru líklegust til þess að gefa af sér þingsæti.



Eftir á að hyggja held ég að skárra hefði verið að velja þá sem minnstan áhuga höfðu á því að komast á þing.



Annars er þetta góð færsla hjá þér. Mér skuldar þú enga afsökun því ég er í raun jafn "sekur" og þú þó ég hafi kannski ekki verið jafn duglegur í kosningabaráttunni að sannfæra kjósendur um ágæti þingmannsefnanna, en ég leit aldrei á þær persónur sem aðalatriðið heldur málefnin.



Persónurnar brugðust en málefnin standa enn eftir jafn mikilvæg og þau mun ég áfram styðja.

Ingólfur, 18.9.2009 kl. 21:58

4 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Takk fyrir þessa færslu.

Jenný Anna Baldursdóttir, 18.9.2009 kl. 22:00

5 identicon

Fulltrúalýðræðið er blekking. Það er kerfisbundið fyrir breytingum, svo að með því að taka þátt í fulltrúalýðræðinum og reyna að ná fram breytingum þá gengur maður sjálfkrafa gegn markmiðum sínum og verður bara fyrir þeim næstu sem eru að reyna að ná fram sömu breytingum.

Raunveruleg barátta (eða nauðgun öllu heldur) fer fram undir fyrirtækjunum nú til dags. Þessu hafði Paddy Chayefsky áttað sig á þegar hann skrifaði Network http://www.youtube.com/watch?v=RzSj1yNZdY8. Hlutverk stjórnvalda, hvort sem þau heita VG, Sjálfstæðisflokkurinn eða Venstre er að búa til regluverk fyrir fyrirtækin, og svo auðvitað að vernda það fyrirkomulag sem er fyrirtækjunum fyrir bestu.

Svo viljið þið raunverulegar breytingar þá gerir maður það ekki með því að taka þátt í því kerfi sem hamlar þeim, heldur með því að hundsa það eða skemma það.

Rúnar Berg Baugsson (IP-tala skráð) 18.9.2009 kl. 22:09

6 Smámynd: AK-72

Örstutt athugasemd við ps. hjá Eggerti.

Ég eiginlega hugsa nú um endinn á Point of order um McCarthy-yfirheyrslurnar þar sem hann stóð einni í salnum og hélt ræðu út í loftið en allir voru hættir að hlusta því þeir höfðu séð hvernig hann var í raun og veru.  Þau hafa grafið sér eigin gröf, eru að moka yfir sig og stefna á það að verða gleymd og grafin, rúin trausti og virðingu samborgara og þingheims líkt og McCarthy(þó þau séu engir slíkir, thank heavens)

Ég ætla þvi að spá því að næst þegar verður skipað í nefndir og slíkt, þá munu þau skyndilega upplifa það að vera áhrifalaus inn á þingi, fólkið sem enginn treystir eða vill starfa með og brosað verður að eins og krakka í kjánaskap með smá vorkunn þegar þau gaspra, og þeirra einu völd til að hafa áhrif á mál, verður með já eða nei.

Leyfum þeim því að kklára sig sjálf, það þarf ekkert að eyða orku eða tíma í þau lengur.

AK-72, 18.9.2009 kl. 22:28

7 Smámynd: Ingifríður Ragna Skúladóttir

Þó að eitt af aðal baráttumálum okkar hafi verið persónukjör, þá var því ekki til að heilsa í síðustu kosningum.  Þess vegna voru þeir sem kjörnir voru á Alþingi á vegum BH ekki þingmenn á eigin vegum eins og sum þeirra vilja halda fram.  Persónulega hefði ég frekar viljað sjá allt annað fólk inni fyrir BH eftir síðustu kosningar, en það fólk var ekki valdasjúkt og barðist því ekki fyrir því að vera í 1. sæti. 

Má þar nefna Valgeir Skagfjörð sem átti upphaflega að vera í 1.sæti í SV, en Þór Saari vildi alls ekki taka þátt nema að fá það sæti, og sagði blygðunarlaust við Valgeir að fullt af fólki yrðu honum þakklát fyrir að láta eftir sætið.  Valgeir, sem sá séntilmaður sem hann er, gaf að sjálfsögðu eftir og lét Þór eftir sætið, enda þó að Þór hafi mun seinna komið að BH heldur en hann. 

Birgitta, hótaði að hætta í hvert sinn sem einhver mælti henni í mót og hélt uppi þeim hætti eftir að hún komst á þing.  Sendi langan lista á stjórn BH um það hvað stjórnin ætti að gera, meðal annars að taka ábyrgð opinberlega á öllu því illa umtali (að Birgittu mati) sem átti sér stað um hana, ella myndi hún hætta. 

Margrét, sem ég hafði óbilandi trú á í byrjun sem góðri og heiðarlegri mannesku, er búin að sanna að hún er jafn slæm ef ekki verri en hin.  Sér ekker ósiðlegt við að bera heilasjúkdóm upp á samstarfsmann sinn og telur alla sem telja það ekki við hæfi, vera persónulega á móti sér. 

Minni á að í útvarpsviðtali í kvöld sagði hún að eina ástæðan fyrir að "Hreyfingin" sé með formann, sé til þess að eiga rétt á aðstoðarmanni á Alþingi.  Talandi um spillingu, þarna útvarpar hún því yfir alþjóð að þau hafi skipað sér formann einungis til að ná í peninga af hinu opinbera.

Ingifríður Ragna Skúladóttir, 18.9.2009 kl. 22:30

8 Smámynd: Arnór Valdimarsson

Jæja     "Hér sitjum við eplin, sögðu hrossataðskögglarnir"

Á meðan Róm brann sat Neró og spilaði á hörpu, segir sagan.

Okkar Róm brennur, okkar þjóðfélag er að verða yfirtekið af IMF og  Samspillingin og VG, vilja endilega að við göngum að öllum þeirra kröfum, og borgum Iceslave eins og þægir krakkar svo Jóhanna geti þaggað niður og falið allar skuldir og skammir 4 flokkana gegnum árin.

Hvað er að ykkur? Eruði ekki Íslendingar?  Væri ykkur ekki nær að flykkja ykkur um þessa fáu þingmenn sem virkilega standa í spillingaröflunum? Ef ekki nú hvenær þá?

 Hér eru miklu stærri hagsmunir í húfi en hverjir ráða hér eða þar, í einhverjum hreyfingum. Hér eru hagsmunir okkar framtíðar lýðræðis, Íslands í húfi!

Þessir þingmenn eru löglega kosnir af þjóðinni og sitja því þetta kjörtímabil. Vinnum með þeim en ekki á móti, nema þið séuð á sveif með spillingaröflunum.

Ingiríður þú gargar spilling! þar sem þú situr nú í stjórn Flokks sem ekki hefur neina þingmenn á þingi! Allir 4 eru horfnir.

Jæja málið er nú einfaldlega þannig: Að þið 12 postularnir og Borgarahreyfingin, sem í dag er ekki á þingi. Fær að öllum líkindum alla þá peninga sem koma frá Ríkinu samanber þær frábæru reglur sem 4flokkurinn hefur skammtað, að hann hélt sjálfum sér. Og vil ég benda þér á að það er ódrengilegt af þér að  vega að Margréti þegar hún einmitt kemur hreint fram með þau sjónarmið að eina aðstoðin sem þingmennirnir okkar munu fá fram að næstu kosningum er einn aðstoðarmaður. En ekki örvænta. Við bakland þeirra sem trúum á verk þeirra munum sannarlega koma að þeim stuðningi sem þingmennirnir þarfnast, þar sem þið brugðust.

Arnór Valdimarsson, 19.9.2009 kl. 01:15

9 Smámynd: Ingifríður Ragna Skúladóttir

Ef þú trúir þessu Anór minn, þá vorkenni ég þér. Persónulega hefði ég aldrei trúað því sem Margrét lét hafa eftir sér á Bylgjunni (sagði reyndar í beinni), en að segja það opnum fetum að eina ástæðan fyrir því að "Hreyfingin" væri með formann væri sú að fá aðstoðarmann á Alþingi er í mínum bókum ekkert annað en að viðurkenna fullum fetum að verið væri að blekkja ríkið til að borga fyrir eitthvað sem ekki er til. Sem sagt svíkja út peninga.

Ingifríður Ragna Skúladóttir, 19.9.2009 kl. 01:28

10 identicon

Þvílíkt rugl er þetta allt saman. Það gengur ekki að þingmenn sem segja sig úr flokki geti setið áfram. Það var BH sem fékk þessi atkvæði en ekki þau þrjú persónulega. En þetta hefur liðist og mun ekki breytast fyrr en við förum að kjósa einstaklinga en ekki flokka á þing. Við þurfum að krefjast stjórnlagaþings sem semur nýja stjórnarskrá.

Ég hefði viljað sjá Valgeir Skagfjörð inn á þingi fyrir hreyfinguna. Einnig fyrrv. formann.

Ína (IP-tala skráð) 19.9.2009 kl. 01:47

11 Smámynd: Arnór Valdimarsson

Ef þú heldur það, sannaðu það bara með því að skipta bróðurlega peningunum milli ykkar BH og Hreyfingunni. Væri það ekki sanngjarnt? Værirðu til í það?

Varla þurfið þið þá alla, þar sem enga hafiði þingmenn til að styðja eða bakka upp og vinna rannsóknarvinnu fyrir.

Og er það að svíkja út peninga að hafa aðstoðarmann ( sem jú allir hinir flokkarnir hafa á þinn kostnað, ekki hef ég heyrt þig kalla þá fjársvikara) 

Arnór Valdimarsson, 19.9.2009 kl. 01:47

12 Smámynd: Katrín Linda Óskarsdóttir

Ég kaus Borgarahreyfinguna í síðustu kosningum en geri þau mistök ekki aftur. Gæti hugsað mér að kjósa Hreyfinguna, mér finnst þau þrjú hafa staðið sig mjög vel hingað til .....    en þetta kemur allt í ljós

Katrín Linda Óskarsdóttir, 19.9.2009 kl. 02:07

13 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Mér finnst þingmennirnir þrír hafa staðið sig vel, ég fylgdi þeim út af landsfundinum síðastliðinn laugardag.  Ég fylgi í dag Hreyfingunni heilshugar. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 19.9.2009 kl. 02:43

14 Smámynd: Eva

Ef ég ætti hatt mundi ég taka hann ofan fyrir þér Agnar , takk fyrir afsökunarbeiðnina :)

Ég er persónulega kominn með upp í kok á að hlusta á þrætur og þras , er líka kominn með upp í kok á að lesa langar greinar eftir stjórnmálafólk og aðra þá sem tengjast pólitík í landinu, dásama sig og sína en lasta aðra. Þvílík sóun á tíma og orku, á meðan eru auðlyndir landsins okkar og sjálfstæði á lokuðu uppboði út í heimi..... ......

Það er löngu kominn tími til þess að slíðra sverðin snú bökum saman og redda málunum.

Eva , 19.9.2009 kl. 05:21

15 Smámynd: Kama Sutra

Ég játa að ég féll líka fyrir fagurgalanum og leikaraskapnum og kaus Borgarahreyfinguna - sem aldrei skyldi verið hafa.

Ég er með aumingjahroll og óbragð í munninum yfir því að hafa stuðlað að því að þrenningin Birgitta, Þór og Margrét komust á þing.   Vonandi verður þetta þeirra eina kjörtímabil á Alþingi.

Kama Sutra, 19.9.2009 kl. 05:41

16 identicon

Svona, svona, ekki vera svona sár öllsömul ... munið hvað kom fyrir manninn sem ætlaði að moka öllum skítnum eitthvað annað ... hann mokaði og mokaði þangað til hann komst ekki lengur upp úr holunni sem hann hafði mokað og grófst síðan undir þegar allir hinir mokuðu skítnum til baka.

Á þannig villigötum finnst mér öll þessi stjórnmálaumræða í dag ... sér í lagi innan raða Borgarahreyfingarflokksins ... eða hvað þetta nú heitir ... þar virðist það hreint og beint vera aðalatriði að grafa sjálfa sig upp úr eigin skítaholu með því að moka skítnum yfir á aðra.

Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 19.9.2009 kl. 07:48

17 Smámynd: Þorvaldur Geirsson

BH og peningarnir eru ekki fyrir þingmennina, heldur eins og var og er enn fyrir fólkið í landinu. Það stóð aldrei annað til og það er ekkert annað í boði. Þingmennirnir áttu að vera fyrir fólkiið líka en misskildu þetta greinilega eitthvað.

Fólkið þarf ráðgjöf og vettvang til að geta séð í gegnum þessa þvælu sem er í gangi af hálfu ráðamanna. Þessi vettvangur er meðal annarra BH. Þó að þessir þingmenn hafi farið sína leið þá verður BH áfram málpípa fyrir fólkið í landinu og ég vona að fólk haldi áfram að vinna saman að hagsmunum Þjóðarinnar.

Þorvaldur Geirsson, 19.9.2009 kl. 11:42

18 Smámynd: AK-72

Mig langar til að gera athugasemd við orð Arnórs Valdimarssonar. Hann mælir svo:

" Hvað er að ykkur? Eruði ekki Íslendingar?  Væri ykkur ekki nær að flykkja ykkur um þessa fáu þingmenn sem virkilega standa í spillingaröflunum? Ef ekki nú hvenær þá?....Þessir þingmenn eru löglega kosnir af þjóðinni og sitja því þetta kjörtímabil. Vinnum með þeim en ekki á móti, nema þið séuð á sveif með spillingaröflunum."

Fyrir utan að þetta er frekar mikið "either you're with us or you're against us"-viðhorf, þá verð ég að benda Arnóri á, að maður fylkir sér ekki í kringum fólk sem maður treystir ekki, telur hafa brugðist fjölmörgum og komið fram af hroka og lítilsvirðingu.Þau hafa glatað virðingu samborgara sinna, þau hafa glatað trausti fólks og þau hafa glatað stuðningi út frá gjörðum sínum, slíkt fær ekki fólk til þess að fylkja sér í kringum þau. 

Þú ert örugglega á öðru máli enda er það skoðun þin en það er fáránlegt að stilla þessu svona upp eins og þú gerir, að þau séu eina heiðarlega/góða fólkið og þeir sem þeim fylgja, allir aðrir eru spilltir/vondir/illskan uppmáluð, nokkuð sem mér finnst frekar vera mikil persónudýrkun og einmitt þessi "liða"-hugsun íslenskra stjórnmála. Og voru ekki annars allir þingmenn kosnir á þing af þjóðinni? Eru allir aðrir þingmenn núll og nix þar sem þeir eru í öðrum "liðum"? 

Mér finnst svo Bergur ísleifs orða þetta skemmtilega og bendi svo öllum mínum fyrrum félögum, hvort sem þeim eru í Borgarahreyfingu eða Hreyfingu(er það ekki annars líkarmsræktarstöð?), að þið sannfærið ekki hvort annað um ágæti/slæmsku þingmannana. Þeir sem fylgja þeim, fylgja þeim þá en aðrir geta þá farið að einbeita sér að alvöru málum innan Borgarahreyfingarinnar í friði fyrir þeim ólátabelgjum og leiðindum sem fylgja þeim. 

AK-72, 19.9.2009 kl. 11:56

19 Smámynd: AK-72

Ætla þó að taka fram að ólátabelgirnir eru þrír og fóru í gær. Gæti aldrei talið t.d. Jónu sem slíkan en hún fylgir sinni sannfæringu og aðrir fylgja sinni með því að vera eftir, og eins og ég sagði, það er margt gott fólk sem hreyfir sig og svo þeir sem sitja áfram í Borgó.

AK-72, 19.9.2009 kl. 12:04

20 Smámynd: Arnór Valdimarsson

Sæll AK-72. Það er athyglisvert að þú skulir frekar treysta þingmönnum 4flokkanna til að taka til í þeim skít, sem þeir margir hverjir sjálfir sköpuðu og komu þjóðinni í.

Það geri ég ekki nema að litlu leiti. Þar sem að það eru aðeins örfáir þingmenn 4 flokkana sem hafa látið verkin tala í þágu þjóðarinnar. Flestir eru þeir þar fyrir sjálfan sig og til að gegna flokknum. Og vilja foringjanna. Og hreinlega standa í vegi fyrir réttlætinu og umbótum hér.

Þingmenn Hreyfingarinnar hafa hinsvegar sannað fyrir mér að þeir eru þarna til að vinna ötullega að þeirri frábæru stefnuskrá sem BH lagði upp með, og ég kaus þau  fyrir. Þarna erum við bara ekki sammála, og svo fremi þú virðir mínar skoðanir þá virði ég að sjálfsögðu þínar.

Það sem eftir stendur er að meira en þrjú ár eru eftir af þessu þingi. Hvernig haldið verður á málum á alþingi á þessum tíma kemur til með að ráða framtíð barna okkar, og hvort hér verði eitthvert réttlæti og hreinlega samfélag eftir, sem búandi er í.

Þess vegna verðum við að hámarka getu allra þingmanna sem hægt er að virkja í þágu þess að ná fram réttlæti hér. Og nauðsynlegum lýðræðisbótum. Hvaðan sem þeir koma frá.  Og setja til hliðar smá erjur og fáránlegar spurningar um t.d. ESB. sem er alls ekki forgangsmál og heldur ekki á stefnuskrá, hvorki BH né Hreyfingarinnar.

Arnór Valdimarsson, 19.9.2009 kl. 13:55

21 Smámynd: AK-72

Sælir Arnór, ég veit nú ekki alveg hvernig þú færð það út að ég treysti þingmönnum fjórflokkana meir til að taka til í þeim skít en þremenningunum en þó treysti ég þar nokkrum. Þremenningarnir hafa enfaldlega ekkert traust, virðingu né tiltrú af minni hálfu lengur eftir atburði síðustu mánuða og því miður verð ég að segja að hafa ollið e.t.v. meiri skaða en þau munu gera sér nokkurn tímann grein fyrir.

Ég er þó sammála þér í því sem þú segir um framtíðina og hvort hér verði réttlátt og samfélag sem hægt sé að búa í, nokkuð sem ég er að hugleiða þessa daganna vegna ýmisra teikna á lofti um að allt sé að færast í sama farið og í átt til endurkomu hrunvaldsins mikla í Valhöll.

Mig langar þó að lokum að gera athugasemd við það að ESB sé fáránleg spurning nú, ég er ekki sammála því því ég tel að umsóknarferlið sjálft með öllum sínum skammtímamarkmiðum í átt til samnings, sé okkur hollt sem aðhald og innleiði e.t.v. loksins þá vinnureglu í íslenska stjórnssýslu að miða ekki við hlutina frá ári til árs eða kjörtímabils.Svo má benda á að slíkt er allavega ákveðin skilaboð til umheimsins sem við getum ekki hundsað, að við séum að gera eitthvað.

Reyndar er svo ESB-aðildarumsóknin svo annað mál sem stórskaðaði hreyfinguna alla og ekki bara þingmenn, heldur einnig okkur sem vorum fótgönguliðar í grasrótinni þar sem við stóðum uppi sem lygarar og óheilindafólk fyrir það að hafa staðið í þeirri meiningu allan tímann að ESB(sem var vissulega mál sem yrði að hafa skýra stefnu í) ætti að afgreiða þannig að fara ætti í aðildarviðræður og kjósa svo þegar við hefðum eitthvað í höndunum. Þetta kom upp á fundi og var ákveðið snemma í mótun hreyfingarinnar sem slíkrar, fundi sem ég sat og hafði ekki orðið var við nokkra umræðu um að annað væri í pípunum fyrir kosningar, hvað þá eftir kosningar. Þó var það ekki endilega málið sem slíkt sem var skipbrotið í mínum augum því ef þau hefðu útskýrt og talað við grasrótina fyrst og svo farið og gert það sem þau töldu rétt, þá hefði ég leyft mér að vera ósammála en stutt þau áfram. Slíkt var ekki gert heldur farin þessi grátlega misheppnaða hrossakaups-leið sem stórskaðaði allt starf og tiltraust til hreyfingarinnar og fékk mig til að missa alla tiltrú á heiðarleika þeirra og pólitískt hyggjuvit vegna annara þátta sem mér voru sagðir síðar.

En svona er það, við erum allavega sammála um að vera ósammála um sumt en vonandi berum við virðingu fyrir skoðunum hvors annars. Eigðu góðan dag, ég ætla nefnilega að hvíla mig aðeins á umræðunni og njóta góðra kvikmynda síðar í dag.

AK-72, 19.9.2009 kl. 15:23

22 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Ég fyrirgef þér Agnar af heilum hug.

Óskar Þorkelsson, 19.9.2009 kl. 17:29

23 identicon

Arnor Valdimarsson: ég veit ekki betur en þessir blessuðu 3 þingmenn fái um og yfir 4 milljónir yfir árið.

Þú ert ekkert betri með bullið og lygina  en þau þrjú Þór S Margrét og Birgitta hvort sem þið skrifið eða talið.

Sveinbjörn Herbertsson (IP-tala skráð) 22.9.2009 kl. 21:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

AK-72

Höfundur

AK-72
AK-72
Með óþrjótandi áhuga á kvikmyndum, sögu og stjórnmálum.Telur sig hafa fullt frelsi til að hrósa og gagnrýna hvern sem er og hvenær sem er.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...1212_913482
  • ...ner1_568492
  • ...rad-banner1
  • Screenshot

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband