Á krossgötum kosninga

Það er svo skrítið að hugsa til þess, að fyrir ári síðan, þá sat maður heima hjá sér og var að velta fyrir sér hvaða bíómynd maður ætti að horfa á, með páfagauknum. Engan veginn gat manni órað fyrir hvað myndi gerast um haustið, né hvaða vegferð maður héldi út í, vegferð sem ekki er enn séð fyrir endann á, þó kaflaskil verði núna á kjördag.

Þessi vegferð hófst með hruninu, þar sem maður uppgötvaði hvað allt var rotið, spillt og græðgin hafði reynst svívirðilegri og hrikalegri en maður bjóst við. Eftir fyrstu daganna þar sem maður var ráðalaus, reiður og ringlaður með puttann á músinni við að smella á „refresh“-takkann, í von um að eitthvað jákvætt, eitthvað sem gæfi von, þá gerðist það, að maður stóð upp úr sófanum, með orð Howard Beales úr myndinni Network, ómandi í kollinum:“I‘m mad as hell and I‘m not going to take this anymore“. Förinni úr sófanum var heitið niður í bæ, til að sýna óánægju sína í verki og standa niður á Austurvelli með hópi fólks, sem fór stækkandi. Brátt varð þessi athöfn sem var feimnisleg í upphafi af manns hálfu, hluti af manns lífi, ljós punktur í afhjúpun svika, spillingar og siðblindra gjörða, þar sem stækkandi hópur fólks kom saman til að sýna samhug og til að sýna að almenningur væri ekki sáttur við það sem gerðist og framferði valdhafa.

En þessi vegferð staðnaði ekki við það að mæta eingöngu í mótmæli, heldur hélt hún áfram í gegnum Borgarafunda-starfið með Gunnari Sigurðsyni, þar sem maður fékk tækifæri til að beina orkunni í jákvæðari áttir, að draga fram upplýsingar, að koma af stað umræðu og reyna að komast að því, hversvegna hlutirnir fóru svona. Brátt áttaði maður sig á því, að það voru ekki bara menn sem brugðust, heldur kerfið allt, kerfið sem átti að vernda okkur en vann með þeim sem sökktu okkur ofan í myrkt hyldýpið þar sem smáljós sást í fjarska, ljós vonar um breytingar í gegnum stjórnlagaþing og afrakstur þess sem yrði Nýtt Ísland, Ísland trausts, sáttar og vonar þar sem heilbrigt og réttlát samfélag risi upp úr hyldýpi kreppunar. En þröskuldur spillingar og vanhæfrar ríkistjórnar stóðu í vegi fyrir því. Vonin dó, vonin kviknaði, vonin í mér sjálfum sveiflaðist frá bjartsýni til örvæntingar og stundum fannst manni að eina vonin fælist í flugmiða, aðra leiðina.

Svo gerðist stórviðburður, viðburður sem fékk mann til að fyllast von, skilaði baráttukrafti og einbeittum vilja um að maður yrði leggja sitt mesta og vonandi besta, á vogarskálarnir um að hér væri hægt að breyta. Þúsundir Íslendinga fóru niður í bæ með potta og pönnur, trommur og flautur, ýlur og vælur, og særði í burtu vanhæfa ríkistjórn, líkt og Sæmundur fróði kölska forðum. Á þessum dögum fann ég þjóðina sem ég vildi tilheyra, þjóðina sem er tilbúin til þess að segja: Hingað og ekki lengra, ég er búinn að fá nóg af svona spillingu og rugli.

Önnur ríkistjórn tók við á meðan skrattakollar íhaldsins sleiktu sár sín og sáu ekki neitt vandamál í sínum garði, allt var öðrum að kenna, slík var blindan á eigin gjörðir. Mæting á mótmæli fjaraði rólega út og stjórnmálastéttin tók því sem að þjóðin hefði sofnað á ný, líkt og dauðþreyttur dreki eftir grillveislu. Allt ætlaði hægt og rólega að síga í sama, gamla farið og einstaka byltingamaður lagði pottunum. En átti það að vera náttúrulögmál? Átti allt saman að verða eins og venjulega?

Nei, hugsaði lítið föruneyti Búsáhaldabyltingarinnar sem taldi þörf að breyta kerfinu, uppræta spillinguna og að það yrði samin nýr samfélagssáttmáli til að hér gæti þjóðin sameinast og orðið heil á ný eftir erfiða tíma. Og hvað var þá til ráða? Átti að ganga inn í fastmótaðar vélar flokkana sem skiluðu af sér froðusnökkurum sem þuldu loðna frasa? Átti Búsáhaldabyltingin að verða endapunktur?

Nei, föruneytið ákvað að stofna hreyfingu, hreyfingu sem ætlaði sér að fara inn á þing og reyna hafa áhrif innan Alþingis, heimta aðgerðir í þágu þjóðar en ekki til þjónkunar auðmanna og reyna gott af sér leiða, í þeim gjörningastormi sem er framundan. Óvissan tók við, baráttan í gegnum storm kosningabaráttu hófst með aðeins viljann og hugmyndir að vopni, í von og óvon um hvernig færi á vígvelli kosningastríðsins undir gunnfána Borgarahreyfingarinnar.

Á kjördegi stendur maður enn á ný, á krossgötum þessarar vegferðar, í óvissu um hvert stefnir. Hvernig samfélag verður hér? Mun verða nýr samfélagssáttmáli í gegnum stjórnlagaþing eða munu Söngvar Satans verða kyrjaðir til dómsdags af söngelskum skrattakollum, til að koma í veg fyrir sátt? Mun rísa réttlátt samfélag eða mun verða haldið áfram á sömu nótum leyndar, lyga og ljótra uppljóstrana? Verður hægt að reisa hér landið úr þeirri rúst sem það varð eftir spillinguna og græðgina? Eiga þeir sem komu þjóðinni og almenningi í þessa stöðu, að fá sín atkvæði í áskrift enn á ný? Eiga þeir að fá atkvæðin sín, þrátt fyrir allt sem gerst hefur, þrátt fyrir allt sem komið hefur í ljós og þrátt fyrir allt innihaldslausa froðusnakkið, enn á ný? Verður ekki að breyta hlutunum núna?

Margar svona spurningar þjóta í gegnum hugann á þessum krossgötum, ekki bara sem þáttakanda í kosningabaráttu, heldur einnig sem manneskju. Framtíðin er nú óskrifað blað og núna ræðst hvort á það sé skrifað í átt til vonar, trausts og sáttar eða í átt til áframhaldandi geðþótta-ákvarðana, spillingar, valdhroka og sinnuleysis sérhagsmunaflokks og manna. Kjósenda er valið, kjósenda er sannfæringin um hverjir skal leiða landið til betri vegar, kjósenda er kosturinn um hvernig framtíðarsýnin gæti orðið.

Að lokum þá biðla ég til ykkar kjósenda, um að veita umboð ykkar til Borgarahreyfingarinar,umboð til að vera þjónar þjóðarinna en ekki herrar hennar, umboð til að breyta hlutunum í átt til gegnsæis, í átt til upprætingu spillingar, í átt til betra samfélags en þær hrundu rústir sem við búum í nú, í átt til samfélags þar sem þjóðin fær að segja sitt oftar en á fjögurra ára fresti. En umfram allt, hvort sem þið viljið veita okkur þetta umboð eður ei, mætið á kjörstað, takið virkan þátt, kjósið og reynið að hafa áhrif með því að velja þá sem eiga að þjóna ykkur í átt til betra samfélags.

Valdið er ykkar.


mbl.is Samfylkingin enn stærst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig skal kjósa-Myndband

Þessa daganna gengur um orðrómur þess efni að ákveðinn FL-okkur, sé að hringja í unga kjósendur og biðja þá um að strika út nafn ákveðins manns á kjörseðlinum í ákveðnu kjördæmi. Með þessu eru þeir að vonast samkvæmt orðróminum, til að þessir kjósendur geri þannig "tæknileg mistök" og ógildi seðilinn. Ef satt er, þá er þetta algjör svívirða og eitthvað sem þarf að láta eftirlitsmenn ÖSE vita af.

Minni ágætu systur varð svo um og ó, að hún ákvað að gera myndband til að upplýsa fólk um hvernig skal kjósa og hvað br að varast, því þetta er helgur réttur okkar sem má ekki láta blekkja okkur til að eyðileggja. Endilega látið þetta berast og nýtið atkvæðisréttinn.

 

X-O


mbl.is Sögulegar kosningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ákveðum sjálf með íbúð í ESB-blokkinni

Þegar ESB ber á góma, þá undantekningalaust rísa upp raddir hræðslukórs, sem talar um landráð, afhausanir, missi fullveldis og forræðis yfir auðlindum. Þessi kór talar og skrifar yfirleitt í 150desibela styrk í þeirri von um að öskrin kaffæri umræðuna. En virkar það?

Allavega ekki á mig, því upphrópanir ofstækismanna eru einfaldlega frekar fráhrindandi og fyrst og fremst innihaldslaus hræðslu-áróður. Ég stend í þeim sporum með ESB, að vera frekar hlutlaus í garð ESB. Umræðan hér á landi síðustu 14 árin eða svo, hefur einkennst einmitt af þessum upphrópunum í báðar áttir um tóma hamingju eða tæra illsku ESB, og því hefur maður ekki nennt að setja sig inn í það mál allt.

En í dag, er staðan önnur. Þjóðfélagið og efnahagskerfið er hrunið, gjaldmiðillinn er hreinlega dauður á skurðborðinu, hjartahnoðið virkar ekki og við höfum ekki efni á rafmagni til að reyna endurlífgun með straum. Þegar svona er ástatt um hlutina, þá verður að leggja til hliðar kreddur og upphrópanir og hjóla í hlutina til leitar að lausnum.  Eins og staðan er, þá verðum við að hafa bæði langtímalausnir og skammtímalausnir sem leiða okkur í áttina að langtímalausn á vandanum. Sumir segja að við eigum ekki að leita að langtímalausnum strax, heldur eingöngu einblína á skammtímalausnir en það verður því miður að segjast, að slíkt gengur ekki upp í dag. Það verður einfaldlega plástur á sárin sem halda áfram að blæða en ekki eitthvað sem stöðvar blæðinguna og lokar sárinu til (vonandi) frambúðar.

Þegar ég sat aðeins í gær og var að hugleiða þessi mál, þá kom upp í kollinn á mér ágætis myndlíking við þessi mál. Stórfjölskyldan Þjóðin sem við erum hluti af, býr í húsi þar sem stoðirnar eru ónýtar eftir ýmiskonar óværu, grunnurinn sprunginn og ónýtur og eignalaus eftir að varðhundurinn svaf út í garði eftir að hafa fengið bein frá ræningjahópnum sem öryggisvörðurinn hleypti inn.  Staðan er sú að þessi stórfjölskylda þarf núna að koma sínu húsi í stand ásamt því að leita hjálpar og húsaskjóls á meðan. Tveir frændur sitja sitja í sitthvoru horninu undir burðarbitum húsins, annar öskrar um að við eigum að flytja í tiltekið hús þar sem allt er æðislegt, en hinn fullyrðir að við séum mikið betur sett í húsinu sem er að hrynja, við getum gert við það alveg sjálf þótt við höfum ekki efni á nöglum, þetta reddist.  Í yfir hálft ár hafa þessir tveir frændur öskrað á hvorn annan, á meðan stórfjölskyldan veit ekki hvað hún á að gera, á meðan það hrynur meir og meir úr lofti og burðarbitum húsins.

En nú er kominn tími til þess að hætta að hlusta á frændurnar og stórfjölskyldan verður að gera eitthvað í málinu. Stórfjölskyldan verður einfaldlega að senda einhverja af stað í stóru íbúðina sem hún hefur verið að spá í, á meðan hún tjaslar upp á húsið sitt á meðan. Þessir fjölskyldumeðlimir sem eru bestu samningamenn fjölskyldunnar, eiga að fá það verkefni að skoða nýju íbúðina, finna kostina og galla, og reyna sitt besta til að fá sem bestan samning um framtíðarleigu/kaup, í ESB-blokkinni.  Þegar samkomulag hefur náðst um þetta nýja húsaskjól, þá hafa samningamennirnir þá skyldu við stórfjölskylduna Þjóðina, að snúa aftur með samninginn í höndunum, kalla saman fjölskyldufund þar sem plúsarnir og mínusarnir við að leita ásjár í ESB-blokkinni verða kynntir, ræddir og að lokum þá ákveður stórfjölskyldan Þjóðin það sjálf í kosningu hvort þetta sé fýsilegur kostur eður ei.

Hættum að sitja og hlusta á tuðandi frændur rífast,förum strax í að skoða hlutina með alvöru, förum í aðildarviðræður sem fyrst, fáum samning til að skoða sjálf og dæma, og látum ÞJÓÐINA segja til um hvort þetta sé góður samningur eða ekki.

Þetta er mín persónulega skoðun, skoðun sem samræmist stefnu Borgarahreyfingarinnar. Ákveðum þetta sjálf, látum ekki upphrópanir ráða ferðinni en umfram allt,  fáum þessi mál á hreint með forsendurnar sem felast í sjáanlegum samning í höndunum.

Við höfum nefnilega ekki lengur efni á því að tala niðurstöðulaust í hringi.


Exista og Bakkabræður-Hýenur hlutabréfamarkaðrins fara aftur á kreik.

Að hugsa sér, að það er varla komið ár síðan að Exista rændi hlutabréfunum mínum í Landsímanum og nú virðist sem að það eigi að leika sama leikinn aftur. Eftir þann gjörning í fyrra, þá ritaði ég grein er kallaðist Hýenur hlutabréfamarkaðrins í Morgunblaðið þar sem ég lýsti vinnubrögðunum. Ekki varð fögnðuru við það hjá Exista, heldur fékk ég svar þar sem útúrsnúningar, hálfsannleikar og hroki fjárglæframanna réðu ferðinni.

Stuttu síðar hrundi allt, á meðan ég hugleidd stöðu mína. Exista tókst að lifa þetta af, þó það sé tæknilega gjaldþrota að því virðist, en ýmislegt skuggalegt tengdist þeim byrjaði að koma upp á yfirborðið: stöðutaka gegn krónunni, fulltrúar þeirra í stjórn Kaupþings samþykktu afskriftir lána til handa lykilstarfsmönnum, forstjóri Exista er formaður Viðskiptaráðs sem kom 90% af ályktunum sínum inn í lög með þeim skelfilegu afleiðingum sem við upplifum, og margt, marg fleira.Einnig er alveg furðulegt að þetta fyrirtæki skuli hafa getað fengið að kaupa upp fyrirtæki með útgáfu á hlutabréfum í sjálfu sér, en ekkert lagt til í handbæru fé á síðasta ári. Þannig eignuðust þeir Símann og samkvæmt óstaðfestum heimildum, þá ætla Bakkabræður að láta eitt fyrirtæki Exista: Lýsingu, lána sér fyrir þessum siðlausa gjörningi.

En svo við snúum okkur að aðferðafræðinni sem notuð var við ránið á Símanum og nú Exista, þá gengur þetta svona fyrir sig. Hýenur hlutabréfamarkaðarins gera yfirtökutilboð í fyrirtæki sem þær hafa nýverið eignast stóran hlut í og gerir þær yfirtökuskyldar.  Yfirtökutilboð er gert, helst með útgáfu hutabréfa en í þessu tilfelli er það aumingjalegast prís sem gúmmístimplaður var að klappstýru auðmanna: Fjármálaeftirlitinu. Þegar hýenurnar hafa náð 90% eignahlut, þá nýta þær sér lagaklásúlu sem segir að þær hafi rétt til þess að taka hina hlutina af því fólki sem neitaði að selja(brot á eignarétti stjórnarskrár?), og á því verði sem hýenurnar ákveða. Eftir situr almenningur og aðrir litlir hluthafar sem framreiddu raunverulegt fé, með svöðusár í veskinu, sviknir og rændir með aðstoð opinberrar stofnunar, á meðan hýenurnar hlaupa í burtu hlæjandi með vænan kjötbita í kjaftinum.

Hverjir eru kjötbitarnir? Það er nefnilega málið, að inn í Exista liggja verðmæti: Skipti hf eða Síminn, VÍS og Míla ehf. Fyrir ykkur sem ekki vita, þá er Míla grunnet landsímans og með ótrúlega einokunarstöðu, þar sem allir þurfa að versla við það fyrirtæki á einn eða annan hátt.

En hvað er hægt að gera, sem mótsvar nú, sem merki um að við sem höfum veirð rænd og svívirt af auðmönnum, séum hætt að láta traðka á okkur. Við verðum að lýsa yfir stríði gegn þeim, stríði sem þeim mun ekki líka. Við höfum vopn, lögleg vopn umfjöllunar, samtakamátts og aðgerða ýmiskonar.

Fyrir það fyrsta þá á alls ekki að taka tilboðinu. Ef við gerum það, þá missum við áhrif á fyrirtækið, við getum ekki krafist lögreglurannsóknar, rannsóknar á vafasömum bókhaldsbrellum né tekið á málum á hluthafafundum. Auk þess völdum við Bakkavarar-bræðrum auknum fé-útlátum(eða ætti maður kannski að segja Lýsingu ef þeir fá peningin þaðan?), við það að reyna aftur og aftur að sölsa undir sig félagið í annarlegum tilgangi. Ég segi annarlegum, því mín tilfinning er að þar sé eitthvað geymt sem ekki má sjá dagsins ljós, en það gæti verið rangt hjá mér samt.

Annað sem hægt er að gera. á Nýja Kaupþing um 10% part í félaginu. Ef þrýst er á Nýja Kaupþing með bréfaskrifutm, hótunum um að færa viðskipt sín annað ef þeir taka tilboðinu, þá er ávinningur Kaupþings frekar lítill, ef þeir missa hundruð, ef ekki einhver þúsund viðskiptavina frá sér vegna þess að þeir ákveða að þjóna fremur siðlausum auðmönnum sem hafa átt sinn þátt í að koma landinu á vonarvöl.

Það þriðja sem hægt er að gera, er að skrifa greinar, bréf til þingmanna, ráðherra, Fjármála"eftirlits", og hætta því ekkert. Því fleiri sem vita af því hvað er í gangi, því minni líkur eru á að Bakkabræður komist upp með þetta og því óþægilegra er þetta. Ég er sjálfur á því eftir hugmynd annars staðar frá, að það eigi að þjóðnýta grunnet Símans, þ.e. ríkið þjóðnýti Mílu, skapi þar með sjálfu sér tekjugrundvöll og ýti þar með undir heilbrigða samkeppni á fjarskiptamarkaðnum, en ekki einokun.

Hið fjórða sem þarf að skoða, er að nýta sér öll lagaleg ráð til að stöðva þetta. Vilhjálmur Bjarnason beitr þarna einu, og spurning hvað aðrir geta gert. Persónulega er ég að spá í að setja mig í samband við hann og fá ráðleggingar um hvaða úrræði er hægt að beita. Við sem erum hluthafar getum einnig farið fram á að rannsóknir verði settar af stað á hugsanelgum brotum, og það verður að gera.

Hið síðasta sem mér datt í hug, er einhverskonar herferð þar sem við krefjumst að Bakkavarar-bræður og stjórnendur Exista endurgreiði okkur skaðann sem þeir hafa ollið litlum hluthöfum með svívirðilegum brellum sínum, ég vill t.d. .fá hlutabréfin mín í SKiptum til baka, og við krefjumst þess einnig að þessir menn endurgreiði ÞJÓÐINNI fé sitt, gefi eftir eigur sínar og biðjist aföskunar á þeim gjörðum, sem hafa leitt okkur í þjóðargjaldþrot. 'Eg mun geta fyrirgefið þessum mönnum alveg, ef þeir sýna alvöru iðrun, og reyna að bæta fyrir gjörðir sínar á slíkan hátt.

Ég segi fyrir mitt leyti, að ég vill frekar tapa þessum smánarskeini sem ég á og kallast hlutabréf í Exista, fremur en að þau lendi í höndunum á bakkavar-bræðrum og öðrum stjórnendum/stóreigendum í Exista. 

Ég er tilbúinn í stríð, stríð sem þessum mönnum mun ekki líka við, stríð við mennina sem lögðu sitt á plóginn við að gera þjoðina gjaldþrota, stríð við mennina sem ætlast til að við borgum skuldir þeirra á meðan þeir féfletta okkur, stríð sem þarf að heyja til að heiðarleiki og siðferði verði að veruleika, í íslensku viðskiptalífi.

Eru fleiri tilbúnir í þetta stríð?

 

 


mbl.is Ætlar að krefjast verðmats á Exista
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Valhallarhneykslið: EInkavæðing HS, tengslanetið og var styrkurinn liðkun fyrir einkavæðingu?

Frá því að Valhallarhneykslið komst í fjölmiðla, þá hefur hver sprengjan fallið á fætur annari og varnir FL-okksmanna, verið hefðbundnar. Fyrst steig fram fyrrum formaður og tók við syndunum enda orðin hálfgerð ruslakista fyrir allar syndir FL-okksins og þegar það dugði ekki til að þagga niður umræðuna, þá var gripið til hefðbundnar Baugs-varnar með Samflylkinguna og benda þangað.  Það sprakk í andlitið á FL-okksmönnum svo. Framkvæmdastjórinn núverandi lét sig hverfa næst með þeim orðum, að hann hefði ekki komið nálægt þessu og fyrrum framkvæmdastjóri þóttist ekkert vita frekar en miðstjórn og fjáröflunarnefndir flokksins. Að lokum gáfu sig fram tveir menn sem sögðust hafa reddað styrknum fyrir hönd Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, Þorsteinn M. Jónson, stjórnarmaður í FL Group og Steinþor Gunnarsson, yfirmaður í Landsbankanum. Við það átti málið að falla dautt niður og þetta væru "mistök" allt saman.

En er það nægilegt? Er ekki talsvert af spurningum ósvarað um vitneskju manna? Hversvegna er þetta fé gefið? Hvað ætluðust menn að fá í staðinn? Hversvegna er styrkurinn settur fram á þessum tíma? Og svo það sem verið hefur reynt að beinta athyglinni frá, tengslin við REI-málið og það sem er upphafið: að þessu öllu: tengist þessi styrkveiting einkavæðingu á HS?

Í nýlegri færslu hjá Láru Hönnu má lesa ágæta og mjög ítarlega grein Péturs Blöndals blaðamanns, um ferli REI-málsins og því óþarfi að fara nánar út í það sem stendur. Aftur á móti þegar nú þessir"styrkir" hafa komið í ljós, þá er vert að skoða hvað var í gangi á þessum tíma, og það er ekki bara stofnun Geysis Green Energy, heldur einnig einkavæðing HS, sem virðist tengja þessu ferli öllu.

Skoðum smá tímalínu í tengslum við einkavæðingu HS og stofnun GGE.

  • 20. desember Árni Matthíasen fjármálaráðherra og Jón Sigurðsson, viðskipta- og iðnaðarráðherra, fela einkavæðingarnefnd á fundi, að einkavæða hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja. Á sama fundi er bréf tekið fyrir þar sem Glitnir lýsir áhuga sínum á að kaupa HS.
  • 29. desember Greiðsla FL Group, eins af eigendum Glitnis, upp á 30 milljónir berst inn á reikning Sjálfstæðisflokksins. Um svipað leyti eru greiddar 25 millur frá Landsbankanum.
  • 1. janúar Lög um styrki lögaðila taka gildi.
  • 7. janúar Glitnir og FL Group stofna fyrirtækið Geysir Green Energy ásamt  VGK-hönnun.
  • 2. febrúar Reykjanesbær kaupir 2,5% hlut í GGE fyrir 175 milljónir. 
  • 30. apríl GGE eignast hlut ríkisins, til viðbótar hlutnum í HS frá Reykjanesbæ. Samtals er GGE með 32% og reyndi síðar meir að eignast meir, bæði um sumarið og svo hefði REI-sameiningin skilað um 48% hlut í HS.

Þennan hluta styrkja-málsins finnst mér lítið hafa verið spáð í, sérstaklega einkavæðingarnefnd, leikmenn þar og í bönkunum eða það sem kallast tengslanetið. Það er nefnilega þannig með íslensk stjórnmál og viðskipti, að það nægir ekki að elta peninginn, það verður líka að skoða mennina sem hafa hagsmuni af peningunum, hverjum þeir tengjast og hver eru tengslin í viðskipta- og stjórnmálalífinu.Tengslanetið er kannski flókið og því miður gat ég ekki græjað skyringamynd.

Byrjum á því að skoða einkavæðingarnefnd, hverjir sátu þar þegar þessi einkavæðing átti sér stað.

  • Baldur Guðlaugsson-ráðuneytistjórinn sem seldi í LÍ kortér fyrir hrun og Sjálfstæðismaður.
  • Illugi Gunnarsson-Sjálfstæðismaður
  • Jón Sveinsson-Framsóknarmaður?
  • Sævar Þór Sigurgeirsson-Ekki viss um fyrir hvorn flokkinn hann starfaði fyrir í nefndinni.

Skoðum tvær staðreyndir með þessa menn.

Síðar meir þá tók Illugi Gunnarsson það hlutverk að sér, að gerast stjórnarmaður í Glitnir sjóðum.

Jón Sveinsson, Baldur Guðlaugsson og Sævar Þór Sigurgeirsson, tóku allir þátt í einkavæðingu bankanna, á sínum tíma og sátu í þessari nefnd. Þessi nefnd hafði tvo starfsmenn á sínum tíma við einkavæðingu bankanna: Skarpheðinn B. Steinarsson og Guðmund Ólason. Þetta er gott að hafa í huga þegar kemur að stjorn Glitnis og FL Group.

Á þessum tíma eru FL Group og Milestone nokkuð ráðandi eigendur í Glitni. Werners-bræður, Hannes Smárason o.fl. þeim tengdir sitja í stjórnum eða taka sæti í stjórn Glitnis á þessum tíma.

Skoðum nú nokkra menn sem tengjast Glitni í stjórn, og eða starfa þar á þessum tíma.

  • Skarphéðinn B. Steinarsson-Stjórnarmaður sem starfaði fyrir einkavæðingarnefnd og þá menn sem sitja þar. Einnig í stjórn FL Group.
  • Guðmundur Ólason-Stjórnarmaður sem starfaði fyrir einkavæðingarnefnd og þá menn sem sitja þar. Framkvæmdastjóri Milestone.
  • Árni Magnússon-Fyrrum ráðherra Framsóknarflokksins og framkvæmdastjóri hins nýlega orkusviðs Glitnis.
  • Jón SIgurðsson-stjórnarmaður og aðstoðarforstjóri FL Group. 
  • Þorsteinn M. Jónsson-Varastjórn Glitnis(frá febrúar 2007 allavega, gæti verið fyrr) og sá sem reddaði pening frá FL Group, fyrir Sjálfstæðisflokkinn
  • Einar Sveinsson-Stjórnarformaður, frændi Bjarna Benediktssonar, eigandi í BNT hf(N1) og stjórnarmaður í Sjóvá-Almennum, sem er í eigu Milestone.

Þá skulum við skoða næst hverjir sitja í stjórn FL Group og/eða tengjast nánum böndum.

  • Jón Ásgeir Jóhannesson-Stjórnarmaður sem varla þarf að kynna
  • Þorsteinn M. Jónsson-Varaformaður stjórnar FL Group og sá hinn sami og sótti styrkinn fræga.
  • Skarphéðinn B. Steinarson-Stjórnarformaður og sá sem vann eitt sinn fyrir einkavæðingarnefnd.
  • Kristinn Björnsson-Stjórnarmaður, þekktur úr olíusamráðinu, og fyrirtæki í hans eigu er næststærsti eigandi FL Group á þessum tíma. .Einnig stjórnarmaður i Sjóvá og Árvakri.

Á þessum tíma, séu heimildir mínar réttar, þá voru stærstu eigendurnir Oddaflug Hannesar Smára, Baugsmenn og fyrirtæki Kristinss Björnssonar. Einnig er áhugavert að sjá að Glitnir á í eigenda sínum smá hlut.Í

framhaldi af þessu er vert að skoða Reykjanesbæ, og tengslanetiðá þessum tíma. Þetta er þó aðeinsþað sem maður fann í fljótu bragði.

  • Reykjanesbær á fyrirtækið Fasteign hf. til heilminga við Glitnir. Þetta fasteignafélag sér um rekstur fasteigna bæjarins.
  • Árni Sigfússon er bæjarstjóri fyrir Sjálfstæðisflokkinn og bróðir hans heitir Þór Sigfússon.
  • Þór Sigfússon er forstjóri Sjóvá-Almennra, stjórnarformaður Árvaks á þessum tíma og framkvæmdastjóri SA.  Werners-bræður eiga góðan hlut í Glitni og á Sjóvá-Almennar, í gegnum Milestone, Þáttur og önnur fyrirtæki.

Það er vert að minnast þess einnig í framhjáhlaupi að einkavæðing varnarliðssvæðisins, tengdist einnig fyrirtæki í eigu bróður Árna Matt, fjármálaráðherra og Þórs Sigfússonar, og ef mig minnir rétt, þá var Reykjanesbær einnig tengdur því máli. Þori samt ekki að fara með það.

En allavega svo við snúum okkur að aðalmálinu. Það þarf varla neinn eldflaugasérfræðing til að fara að tengja saman tengsl manna í viðskiptalífi og stjórnmálalífi þegar kemur að einkavæðngu HS í gegnum stjórnir fyrirtækjanna sem tengjast því máli, og svo maður reyni að draga saman þessi flóknu tengsl.

  • FL Group sem greðir 30 milljónir til Sjálfstæðisflokksins, fer með stóran eignahlut í Glitni.
  • Milestone á einnig stóran hlut í Glitni. Milestone er einnig eigandi Sjóvá-Almennra.
  • Í stjórn Glitnis og FL Group sameinast menn sem hafa náin tengsl við einkavæðingarnefnd, Sjóvá Almennar og Sjálfstæðisflokkinn.
  • Í gegnum Glitni og Sjóvá-Almennar, eru svo sterk tengsl við Reykjanesbæ.

Einnig þegar tímalínan er skoðuð, þá verður varla hægt að draga aðra ályktun en þá, að þessar 30 milljónir voru til þess að liðka fyrir einkavæðingunn á HSi.Landsbankinn(sem var reyndar einnig 8-9 stærsti eigandi í FL Group) var þar að auki einnig að hugsa sér til hreyfings á þessum markaði og því mjög líklegt að einmitt í gegnum flokkinn hafi borist þau skilaboð: "Ef þú vilt vera með í leiknum, þá þurfið þið að borga ykkur inn í hann." Hugsanelga hefur átt Landsbankinn að fá Landsvirkjun eða annað orkufyrirtæki síðar um árið og með þeim rökum að það gengi ekki að ríkið væri í samkeppni við einkafyrirtækið HS eða álíka klassísk rök frjálshyggjumanna þegar kom að einkavæðingunni.

En hversvegna draga menn þá ályktun að það þurfi að liðka fyrir einkavæðingunni? Er það ekki e.t.v. að fenginni reynslu?Þegar haft er í huga að einkavæðingarnefnd var að mestu leyti skipuð mönnum sem sáu um einkavæðingu bankanna á sínum tíma, að innan Glitnis og FL Group voru menn sem þekktu til hvernig hlutirnir gengu fyrir sig, þá getur maður ekki annað en skellt fram þeirri stóru spurningu: Var þetta svona líka þá? Nú sér maður að Illugi Gunnarsson fær stjornarset innan Glitnis eftir þetta, var það eðlilegt eða tengist það störfum hans í einkavæðingu HS?  Þarf ekki að opna bókhald flokkana mun lengra aftur í tímann en bara 2006?Þarf ekki að opna einnig prófkjörs-fjármálin aftur í tímann?

 


mbl.is Svandís skorar á Guðlaug Þór og Vilhjálm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smá skilaboð til kjósenda!


Vernd fyrir fé?

Þegar spilaborgir spillingar hrynja, brestir koma í þöginna og lokin fara af ormagryfjum, þá byrjar alltaf meiri og meiri óþverri að koma upp á yfirborðið og gamlar minnngar brjótast fram. Ekki er það bara minningin um að eiginkona Geirs H. Haarde gekk út úr stjórn FL Group á sínum tíma en þagði um ástæðuna, ekki er það bara minningar um orðróma um að eitthvað væri rotið í FL-veldi, heldur er það minning um bók.Minningin um atvik sem Jón Ólafsson lýsir í bók sinni og EInars Kárasonar.

Atvikið var á þá leið að tveir Sjálfstæðismenn úr fjáröflunarnefnd flokksins, gengu á fund Jóns sem var þá forstjóri Norðurljósa(eða hvað Stövar 2 fyrirtækið hét þá). Kokhraustir og uppfullir af hroka handrukkarans, lýstu þeir yfir við Jón, að samkvæmt þeirra tölum, þá væri fyrirtækið X stórt og miðað við staðla fjáröflunarnefndarinnar, þá ætti hann að greiða Sjálfstæðisflokknum X pening í styrk. Það var ekki beðið um styrk, heldur tilkynnt um hvað hann ætti að greiða. Jón nietaði að sjálsögðu þessari frekju en í framhaldi af því þá fór maskína flokksins af stað, hann hrópaður af köllurum flokksins sem glæpamðaur og steinar lagðir í götu hans.

Að sjálfsögðu þegar bókin kom út, þá mættu kallararnir aftur, reyndu að draga sem versta mynd af Jóni að sjálfsögðu til að gera þessi orð hans tortryggileg og hann ótrúverðugan. En maður heyrði fuglahvísl sem barst frá litlum söngfugli úr Valhöll. Sá fugl söng fyrir nákominn ættingja minn að því miður væri þetta satt, svona starfaði flokkurinn einfaldlega.

Þessa starfshætti hafði maður aðeins heyrt af og séð í glæpamyndum og óðum til mafíunnar. Glæpamenn gengu inn í verslanir eða búllur starfrækta af heiðarlegum sem óheiðarlegum borgurum, fengu greitt fé til að sjá til þess að ekkert henti fyrir þær og sáu um sína. En vei þeim, sem borguðu ekki, þá byrjuðu vörur að skemmast, gluggar að brotna, munum stolið, spillt lögregla skyndilega skoðaði skyndilega allt með nálarauga, og ef það dugði ekki til, þá var gengið frá viðkomandi, öðrum til viðvörunar.

Ef við leggjum saman tvo og tvo, sjáum hvað svikamyllur FL Group hélt áfram að starfrækja á þessum tíma óáreitt, olíusamráðsmenn sluppu og ósvífnir viðskiptahættir fengu að vera óáreittir hér á landi, meðan kótilettuþjófum var refsað sem stórþjóf væri um að ræða, þá fær maður út fjóra.

En það eru vangaveltur bara, horfum bara á staðreyndir:

FL GROUP GREIDDI 30 MILLJÓNIR KRÓNUR TIL SJÁLFSTÆÐISFLOKKSINS!


mbl.is 30 milljóna styrkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vafasöm afskrift skilanefndar Glitnis

Í öllum þeim hrunadansi sem hrunið er, þá hafa stundum litlar fréttir eða upplýsingar í tengslum við bankanna og annað vafasmt, flogið framhjá manni eða "off the radar" líkt og um flugvélar eiturlyfjasmyglara væri um að ræða. Sumu hefur maðru bara einfaldlega gleymt, athygli manns hefur legið annars staðar eða ekki náð að kanna betur hvort sé rétt, eins og t.d. það að Landsvirkjun hafi skúffufyrirtæki í karabíska hafinu. Skiljanlegt því hlutirnir hafa gerst hratt og út um allt.

Í gær var mér bent á frekar sakleysislega frétt sem birtist núna þann 7. febrúar hjá Fréttablðainu/visir.is , þegar augu landsmannna beindust annað.  Í henni stendur eftirfarandi og ætla ég að feitletra ákveðinn part:

" Glitni vantar 1.400 milljarða til að mæta skuldbindingum sínum.

Skilanefnd gamla Glitnis gerir ráð fyrir að 121,5 milljarðar króna séu glatað fé. Tapið er vegna afskrifta á lánum bankans til íslenskra eignarhaldsfélaga, sem flest eru skráð erlendis. Áætlað er að sex prósent útlána til eignarhaldsfélaganna fáist greidd til baka.

Þetta kemur fram í yfirliti skilanefndar bankans yfir eignir og skuldir gamla Glitnis, sem birt var kröfuhöfum í gær. Þar segir enn fremur að 1.400 milljarða króna vanti svo bankinn geti mætt skuldbindingum sínum.
„Þetta eru stórar tölur þótt þær líti sakleysislega út í yfirlitinu," segir Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis, um skuldastöðu bankans. - jab"

Takið eftir þessu, íslensk eignarhaldsfélög erlendis.

Sá sem benti mér á þessa frétt, bætti við nefnilega talsvert af upplýsingum um þetta. Þessi íslensku eignarhaldsfélög erlendis, standa á bak við nær því allri þessari tölu: 121,5 milljarðar. Til samanburðar má benda á að íslensk heimili skulda um 150 miilljarða samtals og heilbrigðiskerfið kostar örlítið minna í rekstri þetta árið eða 115 milljarða.

Annað sem mér var tjáð um þessi fyrirtæki og afskriftir á þeim, er það að þessi fyrirtæki sem eru víst örfá í reynd, voru öll skráð á Tortula-eyju. Þessari eyju sem er jafnfræg og vafasöm og Kaupþing í Lúxemburg þegar kemur að einstaklega vafasömum hlutum í tengslum við efnahagshrunið.

Þriðji hluturinn sem mér var tjáð í sambandi við þessar afskriftir, er að skilanefnd Glitnis neitar að gefa upp hvaða fyrirtæki þetta voru og þar með, hverjir stóðu á bak við þau.

Hversvegna er ekki látið reyna að ná þessum íslensku félögum á Tortula, ef fé skyldi leynast þar?Hvað varð um gagnsæi, öllum steinum velt við og ekkert dregið undan? Hversvegna er skilanefndin að breiða yfir þetta? Og ef þetta er svona hjá þeim, hvað með skilanefndi hinna bankanna? Hversvegna er reynt að draga leyndarhulu yfir afskriftir og hverjir fá þær?

Maður spyr sig.

 

 

 


Baráttan gegn trausti, von og sátt stjórnlagaþings

Þegar bankakerfið hrundi, og efnahagskerfið lagðist á hliðina, þá varð það fljótt ljóst að þetta var ekki það eina sem hafði brostið í hrunadansi græðginnar. Traustið hafði verið myrt og samfélagssáttmálinn rofinn af þeim sem áttu að gæta hagsmuna okkar borgara þessa lands, en létu glepjast frekar af djúpum vösum auðmanna og settu hagsmuni þeirra framar þjóðarinnar.

Í framhaldi af þessu rofi og svikum á samfélagssáttmálanum, þá kom sú réttmæta krafa upp, um að gerður yrði nýr sáttmáli á stjórnlagaþingi. Stjórnlagaþingið sem slíkt, hefði ekki bara það hlutverk að útbúa nýja stjórnarskrá í stað þeirrar gömlu sem ráðherrar og þingmenn höfðu gripið yfirleitt til, þegar skorti salernispappír á leikskólanum við Austurvöll, heldur væri einnig grundvöllur sáttar, uppbygging á trausti og neisti vonar um að hér gæti risið nýtt og sanngjarnt samfélag með nýjum samfélagssáttmála eða hið Nýja Ísland.

En í stað þess að horfast í augun við að það væri ekki bara þörf, heldur einnig samfélagsleg nauðsyn að skapa hér sátt með stjórnlagaþingi, hafa margir þingmenn stokkið á vagninn til að hindra að landsmenn geti samið eigin stjórnarskrá og hafið ferlið til sáttar. Og hver er ástæðan?

Hræðsla.

Fyrst og fremst hræðsla. Hræðslan við að flokkarnir sitji ekki lengur eftirlitslausir við kjötkatlana né geti ausið úr þeim að vild flokknum til hagsbóta, hræðslan við að ráðherrarnir hafi ekki gerræðisvald lengur, hræðslan við vald flokkana veikist, hræðslan við að atvinnustjórnmálastéttin eigi ekki ein þingið, hræðslan við að geta ekki ákveðið einir valdsvið sitt og hræðslan við að hagsmunir flokksins og flokkseigenda verði ekki lengur framar hagsmunum borgaranna og þjóðarinnar.

Enda byrjaði ballið fljótt og áður en tókst að negla samkomulag um kæfingu málsins í nefnd skipuð að mestu þeim sem nærst höfðu á mjólk spillingar, þá hófu misgamlir drengir í stuttbuxum að þeyta smjörinu í allar áttir. Fyrst var sagt að það ætti ekki að vera að eyða tíma í svona óþarfa á borð við stjórnlagaþing á svona víðsjárverðum tímum. Ekki beysin rök þegar skoðað er að margar stjórnarskrár þjóða hafa verið samdar við slíkar aðstæður og sem upphaf nýrrar sáttar. Þá var gripið til næsta hálmstrás, þess að tala um að kostnaður væri óhóflegur enda peningar meira mikilvægari en traust, von og sátt í huga slíkra eyðingarafla samfélagsins.  Slengt var fram tölum sem keyrðar höfðu verið upp í topp án tillits til hvað skilaði sér til baka í gegnum skatta né hver ávinningur þjóðarinnar yrði í formi lýðræðisaukningar og uppbyggingu samfélagsins að nýju, til lengri tíma litið. Ekki nægði þeim það þó, því nýjasta atlaga misgamalla drengja í stuttbuxum,  að gerð nýs samfélagssáttmála, er að stjórnlagaþingið eigi að vera ráðgefandi eingöngu. Hugsunin að þeirri atlögu gegn sáttmála samfélagsins, er mjög einföld: valdaklíkum stjórnmálatéttarinnar verði þá gert kleyft að hundsa allar þær niðurstöður sem veiki flokks- og ráðherraræðið, og minnki valdsvið þeirra þegar kemur að útdeilingu kjötsins til vina og vandamanna.

Á meðan misgömlu drengirnir í stuttbuxum þeyttu smjörinu í tonnavís, þá beindist að sjálfsögðu athyglinni í burtu frá innihaldi frumvarps núverandi ríkistjórnar um hvernig framkvæmd stjórnlagaþings ætti að fara fram, og líklegast var það samkomulag flestra þingmanna um að beina ætt athyglinni í burtu frá þvi. Frumvarpið er nefnilega sniðið þannig, að ef það takist ekki að kæfa málið niður í nefnd og stjórnlagaþing verði að raunveruleika, þá sé svo búið um hnútana, að aðeins stjórnmálaflokkar og önnur öflug samtök tengd þeim, geti yfirtekið stjórnlagaþingið með takmörkunum á því hverjir geti setið á þinginu og hvernig þeir aðilar geti tekið sæti. Takmarkanirnar eru t.d. fólgnar í því að hver frambjóðandi til þings, þarf að safna 50 meðmælendum auk tveggja votta með hverjum meðmælanda eða allt að 150 manns.  Aðeins stjórnmálaflokkar, hagsmunasamtök eða peningaöfl hafa slík tök að geta meðmælum á þessum grundvelli en hin venjulegi Jón eða venjulega Gunna, þyrftu að kalla saman ættarmót með tilheyrandi fyrirhöfn í besta falli.

Afleiðingin væri sú að þverskurður almennings fengi ekki að koma að málum, heldur aðeins Morfís-ræðumenn stjórnmálastéttarinnar og hagsmunagæslumenn atvinnulífsins. Slíkt væri stórskaðlega arfavitleysa,  að handbendi stjórnmálaflokka ákveði hversu vald þeirra er mikið og hver takmörk þess eru,  og mun ekki vera framtíð þjóðarinnar til heilla og frekar leiða hana meir í átt til glötunar.

Eitt af hjartans málum okkar sem í Borgarahreyfingunni eru, er að stjórnlagaþing geti farið fram án yfirgangs atvinnustjórnmálamanna, heldur að þverskurður þjóðarinnar semji hana með almannahag, lýðræði og mannréttindi að leiðarljósi. Valið skal á þingið með slembi-úrtaki úr þjóðskrá, sérfræðingahópar fengnir til að hafa verkstjórn með vinnunni, allir þættir stjórnarskránnar endurskoðaðir með aðsendar tillögur almennings og fyrri vinnu stjórnarskrárnefndar til hliðsjónar. Að því loknu skal leggja hin nýja sáttmála samfélagsins, til kynningar og umsagnar um tíma, og mun svo þjóðin fella sinn dóm yfir nýrri stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Krefjumst þess að stjórnlagaþing verði í höndum borgara þessa lands, ekki stjórnmálastéttarinnar. Krefjumst þess að uppbygging vonar, trausts og sáttar fari fram á stjórnlagaþingi með lýðræði, ekki flokksræði, að leiðarljósi. Krefjumst þess að traust, von og sátt verði að raunveruleika.

Því án þess að vísirinn að trausti, von og sátt sem felst í stjórnlagaþingi, þá mun ekki rísa heilbrigt samfélag upp úr rústum hruns og spillingar.


mbl.is Geta setið fram að kosningum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um bloggið

AK-72

Höfundur

AK-72
AK-72
Með óþrjótandi áhuga á kvikmyndum, sögu og stjórnmálum.Telur sig hafa fullt frelsi til að hrósa og gagnrýna hvern sem er og hvenær sem er.
Apríl 2009
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30    

Nýjustu myndir

  • ...1212_913482
  • ...ner1_568492
  • ...rad-banner1
  • Screenshot

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.10.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband