Fjölmiðlar og fordómakynding

Ég hef alltaf gaman af því að velta fyrir mér fréttaflutningi af ýmsum málum, skoða hvernig þeir setja fram fréttir og hvað þeir segja eða segja ekki.

Eitt af því sem ég hef tekið eftir er hvernig fréttaflutningur er þegar kemur að þegar neikvæðum samskiptum, glæpum og öðru slíku í sambandi við útlendinga og hvernig fréttir eru matreiddar þar. Tökum sem dæmi fyrst það að RÚV fyrir nokkrum árum minntist á það að kastast hefði í kekki milli tveggja unglingahópa og einhverra hluta vegna tóku þeir það sérstaklega fram að annar hópurinn hefði verið asískur að uppruna, án þess að það kæmi í raun fréttinni sem slíkri við því ekkert var minnst á það að öðru leyti að litarháttur eða uppruni hefði verið orsök átakanna.

Svo nú síðasta haust, þá kom fréttaflutningur af nauðgunartilraun A-Evrópubúa og fréttir af glæpum tengdar útlendingum. Þessu var slegið fram á forsíðu með stríðsletri og æpandi fyrirsögnum um að útlendingar væru að fremja glæpi. Á sama tíma var konu af erlendu bergi brotið nauðgað af Íslendingi en ekki var því slegið fram á forsíðu með stríðsletri og uppruna glæpamannsins né fórnarlambsins. Nei, maður þurfti að lesa fréttina alla til að komast að því að hún var ekki héðan. Greinilega ekkert fréttnæmt við það að Íslendingar nauðga, kannski vegna þess að Íslendingar eru á bak við meirihluta nauðgana hér á landi.

Framhaldið þekkja flestir, þetta var notað svo í pólitískum tilgangi og sem hræðsluáróður gegn útlendingum þar sem sleggjudómar Íslendinga og útlendingahræðsla fengu útrás í blöðum, á öldum ljósvakans og í sumum tilfellum í framkomu gagnvart saklausu fólki af erlendu bergi brotið.

Svo kom i morgun fréttir um barsmíðar helgarinnar og innan í Fréttablaðinu mátti finna vel falda frétt um það að Litháa hefði verið misþyrmt illilega, í miðri fréttinni. Ég fór þá að velta fyrir mér fyrir að ef það skyldi koma fram að honum hefði verið misþyrmt af Íslendingi, ætli það verði risafyrirsögn í öllum fjölmiðlum:"Litháa misþyrmt af Íslendingi!"?  Einhvern veginn held ég ekki. Ef aftur á móti að Íslendingur fengi í það minnsta kinnhest frá útlending þá yrði það sett fram sem stríðsfyrirsögn af viðkomandi fjölmiðlum, það er ég nokkuð viss um.

Fyrirsagnir sem þessar og fréttaflutningur í þessum dúr er til þess fallinn eingöngu, að kynda undir fordóma og gefa fordómafullum einstaklingum vopn til þess að nota í hræðsluáróður. Í framhaldi af því má velta því fyrir sér hver er ábyrgð fjölmiðla? Geta þeir verið stikkfríir og sagt eingöngu að þeir hefðu verið að flytja fréttir? Eða eru þeir eingöngu búnir að gleyma því að orð bera ábyrgð, sérstaklega skoðanamótandi orð líkt og fjölmiðlar bera á borð fyrir okkur? 


Fyrsta álit á ríkistjórninni

Þegar ég stóð í kjörklefanum í kosningunum þá var ég búinn að ákveða að kjósa annað hvort VG eða Samfylkinguna. Báðir flokkar höfðu sem stefnu sína mörg mál sem ég var sammála, og í mínu kjördæmi var þar gott fólk efst á blaði:hin efnilega Katrín Jakobs og einn albesti þingmaður landsins, Jóhanna Sigurðardóttir. Ákvörðunin var erfið svo ég dró djúpt andann og ákvað að merkja við þann flokk sem undirmeðvitundin og eðlisávísunin sögðu mér að væri betra valið í þetta sinn.

Kosningarnar fóru eins og þær fóru og svo kom að stjórnarmyndun eins og flestallir vita. Svo í gær fór að sjá fyrir endann á þessu og leist mér ágætlega á þó að helmingurinn af krabbameininu sem hefur verið síðustu 12 árin við völd sé enn til staðar. Þetta leit samt ágætlega út þar sem Samfylkingin hafði öll spil á hendi sér og hafði alla burði í að geta náð góðri stöðu.

En ekki fór svo eins og maður vonaði. Þegar byrjuðu að berast fréttir af ráðherrum og ráðuneytum, runnu á mig tvær grímur. Sjálfstæðisflokkurinn virtist enda með flest mikilvægustu ráðuneytin og budduna þar að auki sem ég hafði vonast og búist við að Ingibjörg tæki nú að sér, enda húsmæðrum yfirleitt betur treystandi fyrir slíku en dauðyflislegum skrifstofublókum. En nei, Ingibjörg ákvað frekar að taka að sér ráðuneytið sem maður þarf bara að muna að segja já við óskum Bandaríkjamanna í, og vildi greinilega ferðast. Það hýrnaði þó aðeins yfir mér að sjá að allavega að umhverfisverndarsinnin Þórunn fékk draumastarfið og hún Jóka fengi félagsmálaráðuneytið og kæmi allavega öryrkjum og öldruðum undir verndarvæng sinn, frá frjálshyggjupjakknum sem fór í heilbrigðismálin, áður en hann tæki smá Kobba kviðrista á þessa þjóðfélagshópa og græðgisvæddi kerfið. Fékk það á tilfinninguna að ef maður myndi lenda í aðgerð næstu fjögur árin, þá væri best að telja öll líffæri eftir, það gæti svo farið að eitthvað yrði selt upp í kostnað.

Einhvern veginn fannst mér þó hlutur Samfylkingarinnar frekar klénn miðað við ráðuneytaskiptingu og sérstaklega þar sem þurfti að skipta iðnaðar- og viðskiptaráðuneytunum upp, starfi sem einn ráðherra hafði haft með áður og fannst eiginlega verið að gefa í skyn að fyrri ráðherrar hefðu greinielga verið tveggja manna makar og unnið allan sólarhringinn, sem ég stórefast um.

Svo byrjuðu óljósar fréttir að berast af málefnasamningnum og sumar ískyggilegar og óhugnanlegar, þ.e. að Sjálfstæðisflokkurinn fengi Íbúðarlánasjóðinn í krumlu sína og gæti fengið tækifærið sitt til að ganga af honum dauðum fyrir hönd bankana. Klukkan 11 í morgun þá kom stóra stundin, samningurinn kynntur og ákvað þá einn vinnufélagi minn að fylgjast með útsendingunni og stuttu seinna átti ég leið framhjá skrifstofunni hans og slóst í hópinn Við fylgdumst með og þetta leit ágætlega út:barnamálin, málefni aldraðra, uppstokkun á landbúnaði en svo byrjuðu að koma atriði sem fengu okkur til að líta á hvorn annan eða hrista hausinn.

Í það fyrsta má nefna stóriðjumálin, mikið hitamál í vinnunni, þar sem Geir tók sérstaklega fram að ekkert yrði skrúfað fyrir stóriðjuna ef hún væri með leyfi og talað um rammaáætlun um náttúruvernd sem ætti að rumpa af á tveimur árum. Einhverra hluta vegna passaði þetta nákvæmlega við það að eftir tvö ár er planið að byrja að byggja álver á Bakka. Tilviljun? Held ekki.

Svo kom annað atriði sem við vinnufélagarnir urðum orðlausir og það var þegar hið ólöglega og viðbjóðslega Írakstríðið var harmað. Ég fékk það þá stórlega á tilfinninguna að Jón Sigurðsson sæti þarna dulbúinn sem Ingibjörg Sólrún því þetta hljómaði nákvæmlega eins: stríðsreksturinn harmaður í innihaldslausu hjali, ekkert frekar um fordæmingu og aðgerðir til að draga til baka stuðning okkar við stríðið eða rannsóknir á gjörðum þeirra sem tóku ákvörðunina, og í anda Framsóknarmanna var talað um að ekki ætti að horfa til fortíðar heldur framtíðar. Gat nú ekki annað en hugsað, ætli þetta hafi líka verið sagt í tengslum við gjörðir nasista eftir seinna stríði lauk?

Eftir þetta fór maður og settist þögull við skrifborðið þar sem maður las yfir stefnuyfirlýsinguna og maður tók meir og meir eftir hversu mikil hægri stjórn þetta verður og ýmislegt loðið t.d. sem gaf fyrirheit um aðgerðarleysi í sjávarútvegsmálum og að jafnvel einkavæðing í orkugeiranum gæti orðið á dagskrá. 

Mér var farið að líða eins og ég væri staddur í bærilegum draumi sem væri að breytast i martröð og kvíði nú mjög fyrir framtíð undir stjórn þessarar hægri stjórnar því Samfylkingin virðist hafa látið margt fjúka fyrir ráðherrastóla og völd, m.a. sum stefnumál, mál sem varða hagsmuni almennings eins og Íbúðarlánasjóð og heilbrigðismál, og siðferðislegt stórmál eins og Írakstríðið sem margir(ég þar á meðal) eru enn reiðir yfir og munu ekki fyrirgefa Samfylkingunni fyrir að hafa lúffað eins og lúbarinn hundur í. 

Einn ljósan punkt sá ég þó eftir allt saman: eðlisávísunin lét mig krossa við VG. Ég væri annars berjandi hausnum við vegg næstu fjögur árin fyrir að hafa kosið Samfylkingunna og ekki öfunda ég þá sem það gerðu og líður svipað og ég.


Stjörnustríð, strumpar og stjórnarslit

Þessa daganna keppast formenn og stuðningsmenn stjórnmálaflokkana við að benda á hvorn annan um hver sprengdi stjórnina og sumir grenja eins og verstu smákrakkar yfir því að fá ekki nammi á sunnudegi, þegar nammidagurinn er nýbúinn.

Einhverra hluta vegna leiddu þessi harmakvein og þras stjórnmálamanna, til tveggja mun áhugaverðari, áhrifameiri og skemmtilegri rifrilda sem maður hefur lent í. Það fyrra átti sér stað þegar ég var krakki og gerðist ca. ári eða tveimur eftir að maður upplifiði Star wars í fyrsta sinn. Ég rölti út til að leika mér og kom þar að tveimur leikfélögum mínum frekar æstum sem stóðu og öskruðu á hvorn annan. Deiluefnið var það að annar stóð í þeirri trú að Svarthöfði hefði drepist í endann á Star wars en hinn benti (réttilega) á að geimflaugin hans hefði einfaldlega laskast og hún þotið stjórnlaust út í geim. Ég var þá spurður út í hvort væri rétt og ég svaraði eftir bestu vitneskju og e.t.v. einnig það að mér líkaði betur við annan, að Svarthöfði hefði drepist. Þetta endaði með látum og margra daga fýlu á milli okkar strákanna og gott ef ekki einvherjir fleiri drógust inn í þetta. Loks kom að því að málið leystist þegar einn var búinn að gleyma rifrildinu og bankaði upp á hjá okkur hinum og spurði hvort maður vildi vera memm, málið dautt. Stuttu síðar sáum við svo Star wars aftur og allir sammála um að geimflaugin hefði þotið í burtu. Næst rifrildi um Star wars fór svo fram mörgum árum seinna um Boba Fett og hvort hann hefði drepist en það er önnur saga....

Hitt eftirminnanlega rifrildið hófst í partý fyrir ca. 5-6 árum. Við sátum þar nokkur og spjölluðum og samtalið leiddi að Strumpunum og ákveðinni Strumpabók. Í þessari bók þá hafði gamli Strumpurinn strumpast eitthvað í burtu og einn strumpur var strumpaður upp í það hlutverk að strumpa yfir hinum strumpunum í staðinn(gat bara ekki staðist að rifja upp strumpa-tal). Fljótt fór þetta nú að snúast út i rifrildi um það hvort strumpurinn sem gerðist einræðisherra í staðinn fyrir gamla strumpinn, hefði verið kallaður Æðsti strumpur eða Yfirstrumpur, og þar á móti hvort nafnið sá gamli hefði verið kallaður. Um þetta var þrasað í örugglega klukkutíma og að lokum röltum við út á djammið.

Þar sem við gengum niður í bæ, hélt rifrildið áfram og að lokum þá var einhver sem snéri sér við að fólki sem  gekk á eftir okkur og spurði hvort þau vissu þetta. Enginn hafði hugmynd um þetta og þegar við gengum í burtu þá heyrðist fyrir aftan okkur að fólkið var byrjað að kýta um þetta einnig. Við aftur á móti fórum stuttu síðar að tala um annað og steingleymdum þessu. Ég hef þó góðan grun um að þetta hafi orðið að farandsrifrildi í bænum þetta kvöld og hver veit, kannski startað blóðugum slagsmálum, stíað í sundur hjónum og næstum því sprengt ríkistjórnina daginn eftir.

Þetta leiðir hugann þá aftur að stjórnarslitunum og rifrildum um það hver beri ábyrgð og hver sveik hvern. Eftir nokkra daga þá verður þetta gleymt og grafið því það skiptir engu máli eftir smátíma þegar ný ríkistjórn er kominn og sú staðreynd stendur eftir að stjórnin hætti og allir verða vinir aftur. Hver veit, kannski setjast þau öll í forystu flokkana og horfa á Star wars-myndirnar í röð og rífast um hversu svalur/ömurlegur Boba Fett er eða hómó-erótískt samband Han Solo við gangandi teppi? Það væri allavega mun skemmtilegra rifrildi á milli þessa fólks heldur en tuðið og biturðin í þeim þessa daganna.

Að lokum, ef einhver á umrædda Strumpabók, þá væri ég til í að fá á hreint hvað strumpa-einræðisherrann var kallaður og hvað sá gamli hét. Veit að það eru örugglega þó nokkuð margir sem vilja fá það á hreint núna. 


Atvinnuviðtöl frá helvíti

Síðustu vikur hefur fjöldinn allur af fólki keppst við það að sækja um vinnu og reynt að selja sig á sem bestan hátt, vitandi það að á morgun verður gengið frá ráðningu í 63 störf og nokkrar aukastöður aðeins seinna. Hæfni eða vanhfæni virðist ekki skipta suma máli heldur aðeins í hvaða klíku þeir eru eða hvernig þeir koma fram fyrir sjónir fyrst og fremst og jafnvel einn hefur verið ráðinn fyrir að vera hálfgerður trúður á vinnustaðnum. Líkt og annars staðar þá bíða sumir í von og óvon um að verða ráðnir, aðrir telja að þeir séu pottþétt komnir með vinnu næstu fjögur árin á meðan sumir eru úrkula vonar um það, sérstaklega eftir að atvinnurekandinn sem er að ráða, hefur lýst mikilli óánægju með þá og vinnubrögð síðustu árin.

En nóg um það, þetta leiðir hugann að eigin atvinnuviötðlum sem maður hefur lent í og ólíkt því sem gerist á morgun, þá er það nú þannig að atvinnurekandinn eða fulltrúi hans, er einnig að koma fram með fyrstu ímynd af fyrirtkinu sem launþeginn fær. Í flestum tilfellum þá eru viðtöl kurteisisleg og báðir aðilar reyna að sýna sitt besta en þó hefur maður lent í viðtölum sem eru furðuleg, pínleg og jafnvel hrikaleg fyrir launþegann.

Ég á mér nokkur slík í gegnum tíðina og langar að deila reynslunni með ykkur lesendum sjálfum mér til sáluhjálpar og öðrum til viðvörunar um hvað þeir geta lent í, þó þetta sé hollt og gott og að auki fær maður ekki vinnuna yfirleitt.

Fyrsta dæmið er frá stofnun þar sem ég var boðaður í viðtal sem fór fram síðla dags. Þegar ég mætti á svæðið og var vísað inn í lítinn fundarsal beið mín heill flokkur fólks sem taldi 5 eða 6 manns. Vanalega lendir maður á einum til tvemur en þarna virkaði þetta eins og yfirheyrslunefnd hjá bandaríska þinginu og þegar viðtalið var komið af stað, þá fékk ég þá tilfinnngu að bráðum kæmi spurningin:"Are you or have you ever been a memeber of the Communist Party?" a la McCarthy. Þessi heila móttókunefnd sem sá um viðtalið leystist svo upp í kjaftavaðal þar sem meirihlutinn fór að blaðra um vinnuslúður við hvort annað fyrir utan einn sem reyndi að fylgjast með og konu sem vildi þjarma að mér illilega með því að spyrja oft reiðilega hvað væri stærsti persónulegi gallinn í mínu fari.

Annað eftirminnanlegt sem innihélt fjölda fólks, er þegar ég sótti um aðstoðarlagerstjórastöðu hjá einu fyrirtæki. Þar var manni vísað inn í fundarsal og sátu þar fjórir menn, þrír við borð og maðurinn sem kom í ljós að maður ætti að e.t.v. að starfa með, hafður út í horni þar sem hann sagði ekki orð allan tímann. Viðtalið byrjaði ósköp eðlilega og manni boðið upp á Ópal með vatnsglasinu sem ég þáði með þökkum. Spurningarnar voru ósköp hefðbundnar nema það að mér var alltaf boðið upp á Ópal reglulega og var farið að líða meir eins og í neytendakönnun heldur en atvinnuviðtali. Loks þegar ég afþakkaði í eitt skipti, þá var sagt með ákafa:"Hva, viltu ekki meiri Ópal?". Mér var farið að líða þá eins og ég væri annað hvort í einhverri Pavlovískri tilraun og átti von á raflosti í gegnum sætið eða þá að markaðsfræðingarnir hefðu loks komist að niðurstöðu að menn borðuðu ekki nema visst mikið af Ópal á fundum. Ekki fékk ég þetta starf hvort sem það var út af of lítilli Ópal-neyslu eða ekki.

 En þá að einu hrikalegu. Ættingi minn útvegaði mér viðtal á opinberri stofnun sem þykir ekki ein sú vinsælasta hér á landi. Þar var mér visað inn till starfsmannastjórans sem var frekar kuldalegur í viðmóti fannst mér og svo byrjaði ballið þar sem spurningar komu frá honum sem voru svona upp og ofan. Svo ákvað ég nú að koma á framfæri nokkru sem mér fannst mikilvægt að hann vissi, að ég væri ekki með bílpróf út af slæmri sjón, nokkuð sem hefur ekki að öðru leyti áhrif á vinnu mína og viðbrögðin við því voru svakaleg. Starfsmannstjórinn hellti sér yfir mig og hreytti skít út úr sér ásamt því að öskra á mig hvernig ég ætlaði að komast á milli staða ef með þess þyrfti(starfið innihélt að skjótast í eitt útibú ef það væru einhver stórvandræði en 90-95% innanhús starf að öðru leyti, tók ca. 10 mínútur með strætó og svo eru nú leigubílar til) og mátti helst skilja á honum að ég ætti ekkert að vera að sækja um störf því svona fólk eins og ég væri ekki æskilegt á vinnumarkaði. Ég var hreinlega í losti þegar ég gekk út og leið eins og skít, ekki beint gaman að heyra það að maður sé lægra en allt sem skríður á jórðinni fyrir það eitt að vera með smáfötlun sem maður lifir einfaldelga með. Reyndar prófaði ég svo samt síðar að hringja og tékka hvort ég hefði fengið starfið og kallhelvítið hnussaði bara, sagði nei og skellti á mig.

 Svo að lokum kemur viðtal sem ég fór í nýverið. Það byrjaði alveg þokkalega, fulltrúi atvinnurekandans kom vel fyrir og spurningar hefðbundnar og leit út fyrir að vera á allan hátt týpískt viðtal þar til kom að Milljón Króna spurningu þessa aðila, sem getur vel verið að sé hreinlega ólögleg og  hljomaði svona: Hvað heldurðu að þú sért mikið veikur á hverju ári? 'Eg svaraði henni án vitneskju um hvort þetta væri leyfileg spurning og svaraði því að líklegast væri það um tvær vikur. Það var eins og ég hefði varpað sprengju því maðurinn varð fyrir losti og byrjaði að tala um að það væri óeðlilegt að maður í yngri kantinum(er nú hálfnaður á ellihemilið) væri veikur 5% ársins og byrjaði svo að yfirheyra mig hvaða heilsubresti ég ætti eiginlega við að stríða því þetta væri svo óeðlilegt og virkaði eins og ég hefði tilkynnt um krabbamein, berkla eða AIDS. Eftir að hafa bent honum á að oftast nær væri þetta vegna ofkælingar í tengslum við núverandi starf,  með tilheyrandi kvefi og hálsbólgu, þá hélt hann samt áfram, sannfærður greinielga um það að ég væri langlegusjúklingur á barmi dauðans og reyndi að veiða upp úr mér meir um heilsufarið.

Loks fór hann að tala um að ég væri búttaður og ég yrði að hugsa um skrokkinn á mér sem ég svaraði tl að ég væri nú í formi enda gengi ég mikið. Hann hélt þó áfram og ég var byrjaður að fá hugmynd að sketchu í hausinn þar sem hann færi nú að sýna mér vöðvana í Schwarzenegger pósu eftir að hafa rifið skyrtuna utan af sér, og talandi með austurískum hreim:"Ja, you feel my muscles!". Svo breyttist viðtalið aðeins í normal heit þar til í endann að það var komið aftur inn á heilsufarið sem viritst greinilega að manni fannst, vera helsta ráðningarskilyrði fyrirtækisins.

Fyrir utan staldraði ég við og spáði í því hovrt fyrirtækið væri annað hvort eins og spartnesk nýlenda þar sem menn kepptust við að vera með vöðvapósur alla daga og þeir starfsmenn sem hnerruðu væri hent til úlfana í kjallaranum. Að auki datt mér í hug hvort fyrirtækið væri að leita að fólki til að rækta ofurmenni úr sem yrði hluti af her ofur illmennis með heimsveldisplön. En ég ákvað að hvíla slíkar hugsanir og tók mér klukkutíma göngutúr í góðu veðri enda kannski sama eftir viðtalið og hvernig það fór, hvort ég fái vinnu þarna eður ei.

Góðar stundir!

 

 

  


Hvar er Árni Johnsen?

Aftan á Blaðinu í dag var stór heilsíðuauglýsing frá Sjálfstæðsimönnum á Suðurlandi þar sem þeir stilltu upp helstu stjörnum sínum.....nema Árna Johnsen. Ég fór að hugsa þá hvar er Árni Johnsen og hvers vegna þora Sjálfstæðismenn ekki að sýna hann í auglýsingum eða tefla honum fram á fundum?

Til að mynda hefði verið allavega verið flott að tefla honum fram í stað Árna Matt í umræðum um efnahagsmál þjóðarinnar þar sem Árni Johnsen virðist hafa meira vit og tilfinningu fyrir fjármálum ríkisins, hvernig eigi að meðhöndla skattpeningana og hvernig eigi að svara hlutum. Fjandinn hafi það, páfagaukurinn Nonni úr litla Sjálfstæðisflokknum(sumir kalla þann flokk Framsókn, aðrir Umsókn) sem sat við hliðina á Árna Matt í sjónvarpsal kom betur út en Mattinn.

Miðað við hvað þeir lögðu mikið kapp á að gera hann kjörgengan á ný, hröðuðu gegn syndaaflausninni með uppáskrft helstu forkólfa Sjálfstæðisflokksins á meðan Óli forseti var vant við látinn í þeim tilgangi að troða honum upp á þjóðina sem þingmanni, þá taldi ég nú það alveg bókað að honum yrði skellt fram í hvern einasta kartöflugarð með gítarinn í annari hendi og heilsandi að sjómannasið andstæðingum sínum. En nei, hann sást víst ekki einu sinni á fundi í sinni heimabyggð heldur var Árna Matt teflt fram að manni heyrist.

En hver veit, kannski er þetta svona feluleikur í tilefni kosninga? Það gæti nefnilega einhver snillingurinn úr markaðsfræðinni sem sér um skipulag kosningana hafa fengið þá snilldarhugmynd að fela Árna Johnsen í hverri einustu auglýsingu og uppákomu á vegum Sjálfstæðsiflokksins og þannig stolið hugmyndinni frá Vallabókunum. Eftir kosningar verða svo allir Árnarnir sýndir og haha, þið tókuð ekki eftir honum.

Nú skora ég á ykkur, kæru lesendur að finna Árna Johnsen í auglýsingum, uppákomum og öðru er tengist flokknum. Vegleg verðlaun verða veitt til þeirra sem finna flesta Árna Johnsena: ársbirgðir af kantsteinum og góð dýna frá Kvíabryggju. 


Mamma Jónínu Bjartmarz var meðmælandi!

Í DV í dag kemur fram að móðir Jónínu hafi gefið kærustu barnabarnsins meðmæli til þess að hún gæti fengið ríkisborgarétt. Þar kemur einnig fram það sem manni grunaði í það minnsta að þingmennirnir þrír viðurkenna það að enginn þeirra hafi unnið vinnuna sína þegar þeir tóku umsóknina fyrir, það var aldrei tékkað á meðmælendum né hringt í þá, nokkuð sem heyrir undir Alþingi. Samt sagði Bjarni Ben í Kastljósi að ríkisborgararétturinn hefði verið veittur eftir heildarskoðun á gögnum. Miðað við þessar upplýsingar þá virðist mér sem að ef athugað hefði veirð á meðmælendum þá hefði komið í ljós tengslin við Jónínu því jú, það hlýtur að koma fram við bakgrunnstékk á fólki, hver börnin þeirra séu og svo hefði nú verið hægt að gera það sem DV gerði, þeir gúggluðu nafn mömmunar og fengu tilvísanir á síður Framsóknarflokksins.

 Er ekki kominn tími til að menn leggi bara öll spilin á borðið í stað þess að flækja sig meir og meir í lygavef, yfirklór og útúrsnúninga? 

 Annað sem maður er að velta fyrir sér, eru fjölmiðlar búnir að gefast upp á þessu máli a la mál vikunnar þegar farið er að hitna undir ráðamönnum? Finnst oft á tíðum margir íslenskir fjölmiðlar einmitt gefast upp eða hætta að eltast við einhver mál þegar þeir ættu að halda áfram í að þjarma að stjórnmálamönnum. Nixon hefði örugglega setið sem fastast ef Woodward og Bernstein hefðu ekki nennt þessu nema í viku.  DV má allavega eiga hrós skilið fyrir að halda áfram að grufla í þessu máli.


Dómsdagur nálgast...

Í gegnum tíðina hafa kvikmyndir verið duglegur sem miðill til að vara okkur við spádómsorðum Biblíunnar um að endalok heimsins sé i nánd, And-Kristur sé á leiðinni og dómsdagur sé óumflýjanlegur, í gegnum myndir á borð við The omen, The rapture og The seventh sign svo maður nefni nokkrar. 

Menn hlustuðu þó ekki og einn daginn kom að því að teiknin breyttust með tímanum frá blóðrauðum ám(enginn tekur eftir slíku, mengunin er það mikil núorðið) yfir í að koma sér á framfæri í gegnum kvikmyndir til fjöldans. 

Þetta sannfærðist ég um í gær því tvö teikn birtust um enda heimsins, í formi kvikmynda. Fyrra teiknið var nýjast mynd Jean-Claude Van Damme sem nefnist Until death sem var þokkaleg löggumynd EN Van Damme lék bara þokkalega vel sem vafasöm lögga og má taka því sem fyrsta teikn um enda heimsins.

Hin kvikmyndin sem klingdi viðvörunarbjöllum og fékk mig til að komast á þá skoðun að dómsdagur hlyti að vera að nálgast, er gagnrýni um myndina Postall. Fyrir þá sem þekkja ekki til er Postal byggð á tölvuleik og leikstýrð af Uwe Boll. Uwe er kvikmyndaáhugamönnum að "góðu" kunnur því hann hefur gert þó nokkrar myndir eftir tölvuleikjum sem hafa verið svo afspyrnuvondar að blætt hefur úr augunum á fólki, hausar sprungið og geðdeildir fyllst af katatónískum áhorfendum og nægir að nefna þar Bloodrayne, Alone in the dark og House of the dead. 

Gagnrýnin hljóðaði á þann veg að Postal væri bara nokkuð góð, drepfyndin og skemmtilega klikkuð og var hún skrifuð af Todd nokkrum sem er með vefinn Twitch-films, og var hann í skýjunum og sagðist aldrei hafa búist við svo góðri mynd frá Uwe.

Þegar ég hafði lesið þetta yfir, þá brenndi ég strax í Bónus, keypti helling af dósamat og þaðan í Veiðbúðina eftir haglabyssum og kom mér fyrir í neðanjarðarbyrginu. Ég er nefnilega fullviss um það að bráðlega fái Denise Richards Óskarinn fyrir að leika Helen Keller og þá er síðasta teiknið komið fram....

 


Hin ÆPANDI þögn Moggans

Eins og flestir hafa tekið eftir þá er stórt mál í gangi í samfélaginu sem tengist veitingu ríkisborgaréttar, ráðherra, störfum þingmanna í undirnefnd allsherjarnefndar og gagnrýni frá starfsfélögum þeirra. Á bloggsíðum, spjallvefjum, vinnustöðum og í vinahópum er spjallað um þetta og sitt sýnist hverjum.

Ekki ætla ég þó að skrifa um málið núna heldur það sem hreinlega öskrar á mig á þessum vef. Það er hin ÆPANDI þögn Mbl.is um málið og þar sem ég les ekki Morgunblaðið dags daglega, þá reikna ég með að þar sé hið sama í gangi, Frá því að Jónína svaraði ásökum Kastljós í frétt hjá mbl.is á fimmtudagskvöldið hef ég ekki séð eina einustu frétt um málið eða i tengslum við ummæli eða slíkt.

Nú hef ég haldið að hlutverk fjölmiðils sé að flytja fréttir og þarne er um að ræða stórmál í dag í samfélaginu og Morgunblaðið kýs að þegja, frekar en að sinna skyldu sinni sem fréttarit. Þetta er ekkert nýtt í gegnum tíðina, það tók nú fjóra daga fyrir þá að minnast einu einasta orði á Árna Johnsen og oft á tíðum hefur komið kannski örfrétt um vandræðaleg mál ráðherra og þingmanna sem spila með "rétta" liðinu í augum ritstjórnar, eða algjöra þögn líkt og nú í aðdraganda kosninga.

Þegar maður skoðar svo þetta í sambandi við orð í Reykjavíkurbréfi Moggans sem skrifuð er af ristjóra líklegast, þar sem koma fram ásakanir um að Samfylkingin hafi reynt að hafa áhrif á ritstjórn mbl.is sem áð hafa staðið á föstu og ekki tekið út frétt, þá slær þetta mann enn meir og ef maður vissi ekki að Mogginn væri fyrst og fremst pólitískt málgagn myndi maður spyrja nokkura spurninga. Lét þá mbl.is undan þrýstingi í þessu máli? Hafa aðrir stjórnmálaflokkar sterkari ristjórnarleg áhrif á Morgunblaðinu? Hver skrúfaði fyrir fréttaflutning af þessu máli? Og fleiri í þeim dúr.

Ef Morgunblaðið og mbl.is ætlar að halda trúverðugleika sínum sem fréttamiðill í aðdraganda kosninga, þá verða þeir einfaldlega að fara að birta fréttir, jafnvel þó að þær komi "liðinu" þeirra illa. Annars sanna þeir enn eina ferðina þá styrku skoðun mína sem olli því að ég sagði upp áskriftinni, að Morgunblaðið er ekkert annað en dulbúið áróðursrit og lítt marktækt fréttablað þegar kemur að málum tengdum Sjálfstæðisflokknum og núverandi ríkistjórn.

 

 


Um bloggið

AK-72

Höfundur

AK-72
AK-72
Með óþrjótandi áhuga á kvikmyndum, sögu og stjórnmálum.Telur sig hafa fullt frelsi til að hrósa og gagnrýna hvern sem er og hvenær sem er.
Maí 2007
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • ...1212_913482
  • ...ner1_568492
  • ...rad-banner1
  • Screenshot

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.10.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband