Færsluflokkur: Kvikmyndir
21.8.2009 | 17:30
Sjónarhorn-Frumsýning á Menningarnótt 2009
Á morgun er Menningarnótt, á morgun er ár eða svo síðan Heimildarmyndaklúbburinn Hómer stóð fyirr kvikmyndatöku á Miklatúni í veröld sem eitt sinn var en er ei meir og á morgun frumsýnir Heimildarmyndaklúbburinn Hómer afraksturinn, mynd sem kallast Sjónarhorn sem verður sýnd í Hljómskálagarðinum kl. 14:30 og Tjarnarbíó kl.18:30. En hvað er Sjónarhorn og hver sagan á bak við þessa mynd?
Hvítasunnuhelgina 2008 ákvað Heimildarmyndaklúbburinn Hómer sem er félagskapur fólks sem hittist reglulega og horfir á áhugaverðar heimildarmyndir saman, að halda til Patreksfjarðar á heimildarmyndahátíðina Skjaldborg. Hátíðin kveikti í þessu fríða föruneyti löngun og neistann til að skapa eitthvað og framkvæma eitthvað. Hugmyndum var kastað fram og aftur og á öðrum bjór sem oft á tíðum er fylgifiskur kvikmyndagerðar, stakk einn félaganna upp á því að safna saman fólki héðan og þaðan úr ólíkum áttum sem myndi kvikmynda einn atburð og hann klipptur saman í rauntímamynd. Áður en bjór tvö var búin og þessi þriðji sem fær alla til að gleyma góðu hugmyndunum daginn eftir tók við, þá höfðum við dottið niður á að það væri alveg brill að kvikmynda Menningarnætur-tónleikana sem hafa verið stórasti viðburður Menningarnætur með flugeldasýningu á eftir, og fanga andrúmsloftið sem þar ríkti á svæðinu. Ákveðið var að stefna að því að hafa þetta 100 manns og nafngiftina Project 100.
Þegar komið var heim frá Skjaldborgar-hátíðinni dásamlegu, þá hófst undirbúningurinn. Reykjavíkurborg leist velá þetta og veitti smástyrk, starfsmönnum Rásar 2 hrifust einnig með og RÚV lét til hljóðupptökur og baráttan við að fá fólk og styrktaraðila hófst.Erfiðlega gekk það enda voru blikur á lofti um versnandi árferði en þó sáu einhverjir aumur á okkur svo sem Sony Center sem lét okkur í té spólur til upptöku. Smá vonleysi greip mannskapinn um tíma vegna þess að markmiðstalan 100 manns, virtist ekki vera að nást en svo tókum við þá ákvörðun að þó það næðist ekki, þá myndum við einfaldlega framkvæma þetta með öllum þeim mannskap sem vildi taka þátt, bara kýla á þetta eins og einhver orðaði það.
Loks rann stóri dagurinn upp og mannskapurinn dreif að til að fá spólur og myndir teknar af þeim. Einhver afföl urðu og sumir komu hlaupandi að Kjarvalstöðum rétt fyrir töku-stund sem miðuð var við þegar hljómsveitin Hjaltalín myndi stíga á svið og klukkustundu síðar þegar Magnús og Jóhann hefðu lokið söng sínum, þá væri tökum lokið. Tökunum var safnað saman að því loknu og daginn eftir þegar Ísland varð "stórasta land í heimi"svo vitnað sé til fagnaðarláta forsetafrúrnar yfir árangri handboltaliðsins á Ólympíuleikunum, þá vorum við þegar byrjaðir að taka stikkprufur og byrjaðir að hugsa að e.t.v. hefðum við bara gott "stöff" í höndunum og gætum því hjólað í það að reyna að fá meira fjármagn fyrir eftirvinnsluna.
Nokkrum vikum síðar breyttist allt þegar Guð blessaði Ísland og stórasta eyjan breyttist í Helvítis Fokking Fokk-landið. Við það fauk síðasta vonin um fjármögnun dó með blessuninni og líkt og aðrir varð Heimildarmyndaklúbburinn Hómer heltekinn af hruninu, svo heltekinn að margir meðlimir tóku sig til og stóðu saman upp úr sófanum, sögðu:"I'm mad as hell and I'm not going to take it anymore" og framkvæmdu ýmsa hluti yfir þennan stormasama vetur. Meðlimirnir tóku þátt í skipulagningu borgarafunda, mótmælafundum, bloggskrifum, börðu potta, pönnur og trommu í Bónus-poka fyirr framan þinghúsið þar til fólkið sem bað Guð um að blessa Ísland, hrökklaðist frá völdum. Í framhaldi af því gengu sumir m.a.s. svo langt að stofna stjórnmálahreyfingu og bjóða sig fram til þings í öllum hasarnum en ávallt á þessu tímabili eftir hrun, fengum við reglulega áminningu um að okkar biði ólokið verkefni, að gera þessa mynd tilbúna til sýningar.
Loks fór það í gang á ný, lítið sýnishorn sett saman fyrir Skjaldborgar-hátíðina sem gaf okkur innblástur og neistann til framkvæmda, myndn kynnt þar og brjáluð klippivinnatók við yfir sumartímann hjá Herberti Sveinbirnssyni sem sýndi meðlimum klúbbsins endanlegan árangur svo í gær, árangur sem kallast Sjónarhorn.
Þegar maður horfði svo á árangurinn líða yfir tjaldið, þá spruttu upp margar hugleiðingar í kolli manns, hugleiðingar um horfinn heim sem birtist manni þarna áður en allt breyttist, hugleiðingar um heim sem maður sér líklegast aldrei aftur, allt er breytt. En það voru ekki einu hugleiðingarnar því að sjónahorn nær því fimmtíu einstaklinga á sama atburðinn birtust, þá voru þau mörg hver ólík í kringum sama atburðinn, hver sá sitt með sínu augu, hver hafði sinn smekk fyrir hvað væri áhugaverðast hverja stundina, hver og einn dró upp glefsur af hlutum sem við sjáum ekki í matreiddum tónleikamyndum eða ritskoðuðum fréttum af samtíma-atburðum svo maður taki annað dæmi. Þátttakendunum tókst að draga upp samtímaheimild að manni fannst, samtímaheimild um fólk á mannfögnuði sem ætlað er að skemmta mörgum eina kvöldstund.
Þó er það ein hugleiðing hjá mér sem stendur upp úr með þetta allt og það er hugleiðingin sem spratt upp í dag, þegar þessu er öllu lokið. Það þarf ekki mikið til að framkvæma hluti og skapa eitthvað. Það sem eingöngu þarf er hugmyndin, þorið til að hætta að tala engingu og byrja að framkvæma, kraftinn sem fylgir sköpunargleðinni og þolinmæðina til að halda áfram þó á móti blási. Peningaleysi og önnur vandamál er eitthvað sem maður veltir sér ekki upp úr, heldur reynir að finna lausn á frekar en að gefast upp, því ef áhuginn og krafturinn er til staðar leysist þetta á endanum.
Að lokum þá langar mig til að segja að án alls þess góða fólks sem gaf okkur stund af lífi sínu þetta kvöld á Miklatúni fyrir ári siðan, eingöngu af áhuga, gleði og óeigingirni þeirra sem vilja sjá eitthvað verða að veruleika, þá hefði þetta aldrei orðið að veruleika.
Þökk sé ykkur að við getum frumsýnt á Menningarnótt 2009 "öðruvísi" tónleikamynd og vonandi mætir fólk sem flest til að sjá ykkar Sjónarhorn.
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 18:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.9.2008 | 20:10
Hvar í heiminum er Osama bin Laden?
Nú nýverið varð ég þeirrar ánægju að sjá nýjustu heimildarmynd Morgan Spurlocks(Super size me), Where in the world is Osama bin Ladem? Þar tekst Morgan á við það verkefni að reyna að finna Osama kallinn sem hefur gert heiminn hættulegan og óöruggan, að sögn bandarískra stjórnvalda, og ætlar sér að gera heiminn öruggari fyrir væntanlegt barn sitt.Ekki sakar það að verðlaunin fyrirmanninn illræmda myndu nú lyfta fjárhag væntanlegrar barnafjölskyldu vel upp.
Upphefst þá vegferð sem byrjar í landi óttans þar sem Morgan fær þjálfun í hvenrig skal bregðast við væntanlegum tilraunum til mannráns og hryðjuverka gegn sér í áætluðu ferðalagi, þar sem honum er kennt hvernig skal t.d. bregðast við handsprengju-árásum, að hann eigi ekki að sitja fyrir miðju á veitingastað og sprengjuleit á farartækjum sínum. Eftir það heldur Morgan af stað í leit sinni sem hefst í Egyptalandi og þaðan til Marokkó, Ísrael og Palestínu, S-Arabíu, Afganistan og að lokum Pakistan þar sem vegferðin fær niðurstöðu.
Fyrir þá sem vilja ekki vita meir í tengslum við myndina og/eða vilja ekki "SPOILERS" er hollast að hætta að lesa núna.
Nokkrir áhugaverðir hlutir standa upp úr í þessari skemmtilegu en umhugsunarverðu mynd. Fyrir það fyrsta skal nefna það sem er aðall þessarar mynda og það eru samtölin við almenning í þessum löndum sem er uppistaðan í myndinni. Fyrir utan það að Morgan sýnir okkur að þarna býr venjulegt fólk en ekki froðufellandi hryðjuverkamenn sem berji konurnar sínar og drepi alla Vesturlandabúa um leið og þeir sjá þá(eða svo vilja þeir sem eru að kynda undir múslimahatur meina), þá eru viðhorf þeirra að mestu leyti svipuð okkur Vesturlandabúum, grunnþarfir og kvörtunarefni þau sömu.
Flestir viðmælenda líta á Al Queda sem glæpamenn og óþverra en gagnrýna einnig Bush-stjórnina sem þeir segja af sama meiði og Al Queda, bara betur vopnaða, nokkuð sem margir Vesturlandabúar geta kvittað upp á einnig. Sumir nota tækifærið einnig og gagnrýna ástand mannréttindamála í löndum sínum sem flest eru studd af Bandaríkjunum í staðinn fyrir aðgang að olíu eða aðstoð í sínu "war of terror" svo dæmi séu nefnd.
Þó eru tveir staðir í ferðinni sem vekja upp mestan áhuga í myndinni. Sá fyrri er að sjálfsögðu hið illæmda land S-Arabía þar sem kúgunin greinilega ríkir ríkjum þegar Morgan tekur viðtal við tvo skóladrengi sem óttinn skín af og virðast hafa lært svörin utan af eða reyna að svara þeim sem varfærnislegast. Þar standa yfir þeim tveir kennarar sem eiga að gæta að ekkert sé sagt sem sé slæmt í tengslum við ríkið og er Morgan spyr óþægilegrar spurningar er tengist Ísrael, þá er skyndilega klippt á samtalið. Einnig má sjá súrrealíska senu þar sem nær því alhuldar konur ganga um í nýtiskulegri verslunarmiðstöð þar sem Morgan er hundsaður þegar hann reynir að tala við fólk.
Hinn áfangastaðurinn sem vakti mikinn áhuga var Ísrael og hernumdu svæðin. Á hernmdu svæðunum eru viðmælendur síður en svo hrifnir af Al Queda og öllum öðrum þeim sem eru að misnota baráttu Palestínumanna fyrir frelsi sínu, í pólitískum tilgangi eða sér til framdráttar. Biturlega segja sumir að þessum aðilum sé nokk sama um baráttuna og Palestínumenn þurfi ekki aðstoð frá svona illmennum. Ísraels-megin má heyra frá einum gyðngi að þessar deilur milli Ísraela og Palestínumanna geti ekki endað nema með því að þarna verði tvö ríki, annað sé fásinna og því fyrr sem tekst að koma öfgamönnunum sem ráða ríkjum báðum megin, því fyrr ríki friður þarna.
Það er þó í Ísrael sem við sjáum í fyrsta sinn að Morgan kemst í hann krappann og er það þegar hann ætlar að ræða við heittrúaða gyðinga við grátmúrinn. Þar nær hann varla að bera upp spurningu áður en ráðist er að honum með fúkyrðum og hrindingum sem verða svo aðgangsharðar að hermenn þurfa að grípa inn í. Ekki virðist hafa verið um að kenna neinum dónaskap eða slíku og þegar Morgan kemst loks í burtu undan æstum ofsatrúarmönnunum þá er hann greinilega forviða á öllum látunum.
Það næsta sem ég ætla að minnast á, er Afganistan og nokkuð sem er íhuganarefni sem væri vert að reyna að kanna betur. Hvar vetna þar sem Morgan drepur fæti niður meðal almennings í Afganistan virðist aljgör örbirgð ríkja, enn er kennt í rústum skóla og ekki sjáanlegt að uppbygging sé í gangi. Þegar nánar er kannað, þá segja allir sömu söguna, peningarnir sem ætlað var að fara í uppbygginguna hafa allir lent í höndum spilltra stjórnmálamanna og valdsmanna að mestu. NATO-þjóðirnar virðast láta sig þetta litlu varða og er óánægja meðal almennings með þetta. Ef ástandið er svona, þá er þetta ávísun á frekari vandræði og harðari andspyrnu í Afganistan því ef þú hefur ekki fólkið með þér og gerir ekki neitt af því sem lofað er á sviði uppbyggingar og öryggis, þá snýst almennningur fyrr eða síðar gegn frelsurunum þar.
Síðasti hluturinn sem ég minnist á í sambandi við myndina, er í tengslum við upphaf myndarinnar í BNA. Þetta land óttans við allt og alla, virðist hafa tekist að gera hræðsluna að iðnaði í allskonar sjálfsvarnar-námskeiðum þar sem spilað er á hræðslu fólks við það sem það þekkir ekki og staðalímyndir Hollywood-mynda. Maður veltir því fyrir sér hvort það sé ekki einmitt tilgangur þessarar ofurhræðslu, að þetta sé eitt það fáa sem haldi hagkerfi Bandaríikjanna gangandi í dag ásamt vopnaframleiðslu, og þess vegna verði að viðhalda henni ásamt því að dreifa athygli almennings frá innri vandamálum Bandaríkjanna sem öfgafrjálshyggjan og spilltri fyrirtækjahygluninni hefur ollið.
Að lokum þá mæli ég eindregið með að sjá þessa mynd ef hún ratar í bíó hér sem er vonandi, ef ekki þá er hún allavega komin út á DVD í Bandaríkjunum.
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 23:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
5.8.2008 | 10:14
Project 100 vantar enn fólk í heimildarmyndatöku
Fyrr í sumar þá setti ég færslu inn um Project 100 sem er hugarfóstur okkar félaganna í Heimildarmynaklúbbnum Hómer. Ætlun okkar er að fá 100 manns með Mini-DV vélar til að taka upp tónleikanna á Menningarnóttu í samvinnu við Reykjavíkurborg og Rás 2. Í framhaldinu verður svo klippt saman heimildarmynd um upplifunina séð í gegnum þessa 100 einstaklinga og sýna á næstu Menningarnótt.
Þrátt fyrir að lítið hafi veirð auglýst og sumarfrí sem vinna hafi tekið sinn toll af undirbúningnum, þá hefur það samt skilað okkur nær þriðjungi þess mannskaps sem við þurfum. Nú erum við loks að reyna að koma þessu í fjölmiðla af viti og vonandi skilar því að við getum framkvæmt þetta. Ef einhverjir eru áhugasamir og vilja taka þátt í þessari heiimildarmyndagerð, endilega kíkið á heimasíðunna okkar og skráið ykkur:
16.6.2008 | 14:10
Project 100-Kvikmyndataka á Menningarnótt
Stundum fáum við félagarnir svo skemmtilegar hugmyndir að við verðum að framkvæma þær. Ein af slíkum kom upp á "brain-storming" á Patró þegar heimildarmyndahátíðin Skjaldborg stóð sem hæst. Eftir að henni hafði verið varpað fram og menn hugsuðu meir og meir, því ákveðnair urðum við í því að framkvæma hana, enda vorum við ekki komnir á það stigið að fara að leysa öll heimsins vandamál yfir bjór en eins og margir kannast örugglega við, þá gleymast slíkar lausnir fljótt. Hjólin fóru svo fljótlega af stað eftir heimkomu og opnuðum við annarsvegar Facebook-síðu og svo heimasíðu sem DV tókst reyndar að skrifa vitlaust þegar þetta var kynnt þar en aðsetur hennar er: www.projecthundred.com.
En hver er hugmyndin? Hún er frekar einföld á pappír. Við ætlum að fá 100 manns, helst með mini-DV vélar, til að taka upp klukkutíma af tónleikunum á Menningarnóttu í samvinnu við Reykjavíkurborg, og klippa saman í eina mynd sem verður allt að 55-60 mínútur þar sem allir fá að njóta sín. Ekki má slökkva á vélum frá því að byrjað er en á meðan tökum stendur hefur þáttakandinn algjörlega frjálst val um efnistök, sjónarhorn eða annað þó við setjum þær takmarkanri að halda sig innan tónleikasvæðis. Ætlunin er svo í framhaldi að sýna myndina á Skjaldborg og svo á Menningarnóttu 2009 og verður myndin svo í framhaldi aðgengileg á heimasíðunni.
Þessa daganna erum við í leit að sjálfboðaliðum til að taka þátt í þessu og hafa nokkrir skráð sig og það ánægjulegasta var að fyrsti þáttakandinn var 54 ára gömul kona. Okkar draumur er nefnielga að fá sem mesta breidd í aldri, kyni, störfum, reynslu o.fl. til að ná flóru samfélagsins á bak við vélina. Talandi um reynslu, þá gerum við engar sérstakar kröfur um reynslu, eingöngu um það að fólk komi með sína vél sjálft, við ætlum að skaffa mini-DV spólur sjálfir og stefnum að því að halda kynningu á kvikmyndatöku fyrir þáttakendur þar sem rennt er yfir grunnatriðin.
Ef þið viljið vita meir, þá kíkið endilega á heimasíðuna og skráið ykkur eða sendið spurningar. Ef fólk er ekki viss um vélarnar sínar, þá getum við fundið út hvenrig þær eru. Eins og ég sagði, við viljum helst Mini-Dv til að auðvelda eftirvinnsluna sem verður bilun en ætlum ekki að vera neitt strangir á því, við viljum að þetta gerist frekar en að hengja okkur á smáatriði.
Að lokum þá væri ég mjög þakkláttur ef fólk getur látið áhugasama vita eða jafnvel sett upp auglýsinga-"banner" á síðuna sína en hann má finna hér og stærri útgáfu hér.
Bið ykkur vel að lifa.
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 15:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
5.5.2008 | 20:15
Heimildarmyndaklúbburinn Hómer
Nú þegar styttist í heimildarmyndahátíðina Skjaldborg á Patreksfirið, þá flaug upp í hausinn á mér hvort það væri ekki óvitlaust að kynna Heimildarmyndaklúbbinn Hómer sem ætlar að mæta á hátíðna til að fylgjast með, ræða við heiðursgestinn Albert Maysles en hann og bróðir hans hafa sett sitt mark á kvikmyndasöguna með myndum sínum, ásamt því að klúbburinn sér þarna tækifæri á að hrinda heimsvalastefnu sinni í framkvæmd....úpps, ég kjaftaði kannski af mér.
En hvaða félagsskapur er þetta og hvað gerir hann? Heimildarmyndaklúbburinn Hómer spratt upp úr hópi áhugasamra manna um kvikmyndir og heimildarmyndagerð, sem bæði tækifæri til að hitta félagana og svo til þess að sjá eitthvað spennandi fyrir þennan hóp bjór- og fróðleiksþyrstu manna. Herbert Sveinbjörnsson sem ásamt Guðmundi Erlingssyni(einnig klúbbmeðlimur) stóðu á bak við heimildarmyndina Tímamót, er forsprakki og einræðisherra klúbbsins(stundum er einræði gott þegar kemur að félagstarfi) og stjórnar með harðri hendi dagskránni sem hann velur af einstakri list. Yfirleitt er horft á 2 myndir í fullri lengd og oft á tíðum eru þetta eitthvað þema sem hægt er að tengja saman, þó ekki sé alltaf svo. Í framhaldi af áhorfi kvöldsins er oft spjallað um efni og fleira sem þróast út frá samræðunum og hafa klúbbar staðið eitthvað framyfir miðnætti þegar mesti hamurinn er í mönnum eftir áhorfið, og margt skemmtilegt og fróðlegt flakkar í bland við dægurmálin.
En Hómer er ekki lengur ósýnilegur í dimmum sjónvarpsherbergjum þar sem myrkraverk um framtíð heimsins og heimsyfirráð eru rædd, heldur er hann farinn að láta á sér kræla á opinberum vettvangi. Nú nýverið þá fékk Sigríður Pétursdóttir kvikmyndafræðingur, Hómer til að flytja pistla um áhorf sitt, í þætti sínum Kvika á Rás 1 og ef alt gengur að óskum þá verða reglulegir pistlar fluttir þar, sem meðlimir semja og útbúa fyrir flutning. Einnig hefur klubburinn komið sér upp heimasíðu sem verður bloggað á frá Skjaldborg þar sem einnig verður tekið viðtal við hinn merka Albert Maysles, ef allt gengur að óskum.
Að lokum ælta ég að láta fylgja með nýjasta pistil klúbbsins úr kviku. Til ábenidngar má benda á að þar sem stendur SB, þá þýðir það að þarna eigi að koma hljóðbrot úr viðkomandi mynd og er þá þýðingin strax á eftir.
"
Nader og Schwarzenegger - Pistill
Heimildamyndaklúbburinn
Hómer
Kynnir
útvarpsumfjöllun um myndirnar:
An Unreasonable Man eða Ósveigjanlegur maður
eftir Henriette Mantel og Steve Skrovan
frá 2006
og
Running With Arnold eða Boðið fram (eða hlaupið) með Arnold
eftir Dan Cox
frá 2006
3.maí.2008
An unreasonable man
SB #1
Takk Ralph fyrir Íraksstríðið, takk Ralph fyrir skattalækkanirnar, takk Ralph fyrir eyðilegginguna á umhverfinu og fyrir eyðilegginguna á stjórnarskránni.
Þetta er verra enn barnalegt þetta jaðrar við íllsku.
Mér finnst að maðurinn verði að fara, hann ætti að búa í öðru landi. Hann er búinn að valda nægum skaða hér nú er komið að einhverju öðru landi.
Ralph, snúðu þér aftur að afturendum bifreiða ekki eyðileggja möguleika Demokrata á forsetastólnum aftur líkt og þú gerðir fyrir fjórum árum.
Þessi upphafsorð lýsa þeirri mynd sem dregin hefur verið upp af neytendalögfræðingnum Ralph Nader frá því að úrslit í bandarísku forsetakosningunum árið 2000 voru kunngerð. En er þetta hin rétta sýn á manninn? Það er umfjöllunarefni myndarinnar An unreasonable man eða Ósveigjanlegur maður.
Hinn líbanskættaði Nader vakti fyrst athygli á sér þegar hann skrifaði bók þar sem hann gagnrýndi bandarískan bílaiðnað harkalega fyrir lélegar öryggiskröfur og gallaða bíla sem fyrirtækin settu á markað, í fullri vitneskju um hversu léleg og hættuleg hönnunin væri.
Ekki voru þessi risafyrirtæki hrifin af baráttu Naders fyrir öryggi bíleigenda og fljótlega fór honum að finnast sem hann væri eltur. Einnig fór að bera á dularfullum símhringingum og heimsóknum ókunnugra manna til vina Nader, í þeim tilgangi að fræðast um einkalíf hans. Þá birtist skyndilega glæsileg kona í matvöruverslun sem gekk upp að honum og vildi eiga við hann samræður um stjórnmál. Konunni var þó ekki ætlað að eiga samræður við Nader heldur átti hún að tæla hann til samræðis svo hægt væri að þagga niður í honum með svo sem einu kynlífshneyksli.
Umfjöllunarefni bókar Naders endaði fyrir þingnefnd þar sem bílafyrirtækin játuðu sig sigruð og báðust afsökunar á framferði sínu í hans garð.
SB#2
Ég vil biðja nefndina afsökunar sem og Ralph Nader og ég vona að afsökunarbeiðnin verði tekin til greina.
Þessi sigur Naders gegn bílaframleiðendum varð svo til þess að alríkislög um öryggiskröfur í bílum og umferð voru sett árið 1972.
En baráttu Naders fyrir hagsmunum neytenda og almennings var hvergi nærri lokið. Nader, sem eyðir 18 stundum á dag í hugsjónabaráttu sína, fór þannig að sanka að sér fólki sem var tilbúið til að leggja hönd á plóginn. Það fólk öðlaðist fljótt nafnbótina Naders raiders eða Víkingar Naders og einbeitti sér að baráttu fyrir hag neytenda með því að kafa í gögn og vekja athygli á spillingu ýmissa aðila. Harkaleg gagnrýni Naders og samstarfsfélaga varð þannig til þess að mörgum lögum var breytt til hins betra ásamt því sem neytenda-, vinnu- og umhverfisvernd jókst. Má e.t.v. segja að uppeldi Naders, þar sem faðir hans úthlutaði honum pólitískum verkefnum á hverjum morgni sem kröfðust gagnrýninnar hugsunar og verja þurfti að kveldi, hafi skilað þessu árangursríka framlagi Naders til hagsbóta fyrir almenning.
SB#3
Á hverjum morgni fyrir skóla tilkynnti pabbi Ralphs umræðuefni sem átti að ræða yfir kvöldmatnum.
Til dæmis, við ætlum að ræða um bílastæðavandamál við aðalgötuna. Þannig að við reyndum að finna lausn á bílastæðavandanum.
Í stjórnartíð Jimmy Carters fór að síga á ógæfuhliðina hjá Nader sem hafði stutt Demókrata dyggilega í gegnum tíðina. Hann hafði ávallt talið að málefni hans ættu góðan hljómgrunn hjá Demókrötum, en þegar á reyndi var það mest í orði. Með valdatöku Regans hófst svo niðurrif á öllu því sem Nader hafði barist fyrir. Niðurrif sem varð til þess að stofnanir sem ætlað var að hafa eftirlit með fyrirtækjum og sinna réttindum neytenda voru stórlaskaðar og ekki svipur hjá sjón þegar valdatíð Clintons hófst. Valdataka Clintons breytti þó litlu fyrir þennan ötula baráttumann. Demókratar höfðu nefnilega dottið ofan í sömu gryfju og Repúblikanar og voru orðnir hallir undir ýmis fyrirtæki vegna ríflegra styrkja í kosningasjóði. Hugsjónir þær sem Nader gat tengt sig við á þeim bæ voru því horfnar.
Í gegnum tíðina hafði Nader oft verið spurður að því hvort hann myndi skella sér í forsetaframboð en ávallt svarað því neitandi. Að lokum var forsetaframboð þó hið eina sem hann sá í stöðunni til að vekja athygli á baráttumálum sínum eða fá þeim framgengt. Ákvörðun um framboð til forseta fyrir hönd Græningja var því tilkynnt.
SB#4
Eins og þið vitið ætla ég að bjóða mig fram til forseta sem óháður frambjóðandi í öllum fylkjum. Mikilvægast er að forsetaframbjóðendur taki tillit til fólksins, því þessir frambjóðendur hafa ekki staðið sig lengi. Flokkarnir tveir hafa ekki staðið sig, það þarf að hrista upp í þeim og halda þeim á tánum.
Kosningabarátta Naders fór að mestu fram í stórum samkomuhúsum þar sem leikarar og þekktir listamenn komu fram til stuðnings honum. Þar á meðal Susan Sarandon leikkona og Michael Moore kvikmyndagerðamaður.
SB#5
Þið verðið að skilja að snýst um meira en að sigra, þetta snýst um heildamyndina og hér byrjar heildarmyndin.
Við erum þar sem við erum því að við höfum sætt okkur við svo lítið svo lengi. Ef við höldum því áfram versnar þetta bara, ef þú sættir þig við skárri kostin af tveimur íllum endarðu samt uppi með vondan kost.
Fjölmiðlar vildu sem minnst vita af honum vegna tengsla eigenda þeirra við annað hvort Demókrata eða Repúblikana og var Nader því skipulega haldið í burtu frá þeim. Þessi kæfing á málfrelsi Naders náði þó fyrst hámarki þegar kom að kappræðum forsetaframbjóðendanna. Þar komu stóru stjórnmálaflokkarnir ekki einungis í veg fyrir þátttöku hans, því þegar háskólanemi gaf honum miða á kappræðurnar sjálfar svo hann gæti fylgst með, fékk fylkislögreglan fyrirskipanir um að meina honum aðgang.
En svo fór sem fór. Bush vann og í biturð sinni yfir ósigrinum fundu demókratar sér blóraböggul í Nader. Honum var kennt um ósigur Gore og allsherjar rógsherferð fór af stað gegn honum.
En var tapið honum að kenna? Þegar litið er nánar á þær fullyrðingar í myndinni kemur annað í ljós.
SB#8
Allir frambjóðendurnir fengu fleiri enn þessi 537 atkvæði sem skildu að Bush og Gore Demokratar fóru að leit að blóraböggli sem þeir fundu í Nader Og litu framhjá staðreyndinni að 10 milljón Demokratar kusu Bush.
Þetta varð þó Nader einnig dýrkeypt á annan hátt. Margir snéru við honum baki og ósættir við nána samstarfsmenn í gegnum tíðina ollu vinslitum. En ótrauður hélt hann áfram og bauð sig fram aftur árið 2004 við lítinn fögnuð þeirra sem gleypt höfðu við þeim áróðri að hann hefði stuðlað að valdatöku Bush.
SB#7
Þegar þú ferð inn í kjörklefann og hugsar, mér mun líða vel að kjósa Ralph Nader, því að hann er hreinn og ég er hreinn og mig langar að líða vel. Þannig að ég ætla að kjósa Nader. Hlustið vinir, foreldrar ykkar hljóta að hafa kennt ykkur að fyrir fimm mínútna vellíðan þurfið þið að borga fyrir alla ykkar ævi.
Við lok myndarinnar um þennan hugsjónamann koma upp í hugann skilgreiningarnar sem birtar eru í upphafi. Þær segja að sveigjanlegur maður aðlagi sig heiminum, en að ósveigjanlegur maður aðlagi sig ekki heiminum heldur reyni að aðlaga heiminn að sér. Til þess að framfarir verði í samfélaginu þurfum við ósveigjanlega menn. Nader sé hinn ósveigjanlegi maður.
Running with Arnold
SB#8
Viltu í alvöru fá leikara í framboð til ríkisstjóra. Hver er betri en leikari einhver sem hægt er að leikstýra og getur farið eftir handriti. Hann hefur einfaldningslegan sjarma sem gæti höfðað til kjósenda en hann er gangandi sviðsmynd.
Þegar stórstjarnan Arnold Schwarzenegger bauð sig fram til ríkisstjóra Kaliforníuríkis í Bandaríkjunum i þeim tilgangi að bola demókratanum David Gray frá völdum, varð uppi fótur og fit. Í myndinni Boðið fram (eða hlaupið) með Arnold eða á ensku Running with Arnold, er farið yfir feril hins metnaðargjarna Arnold Schwarzenegger sem ungur að aldri fékk áhuga á vaxtarrækt. Vaxtarræktin varð brátt aðaláhugamál hans og gekk það svo langt að hann strauk úr hernum til að geta tekið þátt í keppni. Eftir að hafa sankað að sér titlum í greininni flutti Schwarzenegger til Bandaríkjanna með 20 dollara í vasanum og stóra drauma. Eins og flestir vita náði hann miklum frama í kvikmyndum og varð að stórstjörnu, en þar fyrir utan auðgaðist hann mikið á líkamsræktarstöðvum og fasteignaviðskiptum. Við þetta bættist að hann giftist inn í Kennedy-fjölskylduna. Arnold varð því eins konar holdtekja ameríska draumsins.
En hugur Arnolds stefndi einnig inn í stjórnmálin og tengist myndin að mestu þeim heimi. Farið er yfir skuggalegri hliðar Schwarzenegger: framhjáhöld, vinskap við fyrrum nasista, kynferðislega áreitni, heimskuleg ummæli og sú mynd dregin upp að hann sé tækifærissinnaður maður sem geri hvað sem er fyrir frægð og frama.
Þeirri einsleitu mynd sem dregin er upp af Arnold er ætlað að fá áhorfendur til að halda að hann sé holdgervingur illskunnar. Myndin er þannig í raun rógsherferðarmynd dulbúin sem heimildarmynd og er því gott dæmi um að áhorfendur þurfa einnig að vera gagnrýnir á heimildirnar og samsetningu þess efnis sem fyrir augu ber. Þótt sannleikur kunni að leynast í þeim ásökunum sem á Arnold eru bornar, er matreiðslan þannig að gagnrýnir áhorfendur efast um gildi ásakananna og grunsemdir um hálfsannleik naga þá.
SB#9
Hasta la vista baby
Þegar á heildina er litið gefa báðar myndirnar ágætis sýn inn í bandaríska stjórnmálaveröld, þótt á ólíkan hátt sé. Myndin An unreasonable man gefur manni þá sýn að þó að hugsjónamenn séu ötulir þá séu það fyrirtækin og peningarnir sem ráði ferðinni og veiki stoðir lýðræðisins illilega. Hin myndin gefur manni innsýn í þá skuggahlið bandarískrar kosingabaráttu þar sem persónuárásir ráða ríkjum en málefnin gleymast eða falla í skuggann. Í þessum skúmaskotum ráða gamlar slúðursögur úrslitum frekar en það hvort menn hafi eitthvað fram að bera til hagsbóta fyrir almenning. Að sama skapi má segja að myndirnar endurspegli þann sorglega raunveruleika að tækifærissinnaðir athafnamenn á borð við Arnold, sem hugsa um þrönga hagsmuni þeirra sem gefa í kosningasjóðinn, séu búnir að ryðja hugsjónamönnunum í burtu til að setjast sjálfir að kjötkötlunum.
Það var heimildamyndaklúbburinn Hómer sem færði ykkur þennan pistil. Okkur er að finna á slóðinni www.hmk-homer.com.
Góðar stundir, klaufabárðar."
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 20:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.5.2007 | 18:06
Dómsdagur nálgast...
Í gegnum tíðina hafa kvikmyndir verið duglegur sem miðill til að vara okkur við spádómsorðum Biblíunnar um að endalok heimsins sé i nánd, And-Kristur sé á leiðinni og dómsdagur sé óumflýjanlegur, í gegnum myndir á borð við The omen, The rapture og The seventh sign svo maður nefni nokkrar.
Menn hlustuðu þó ekki og einn daginn kom að því að teiknin breyttust með tímanum frá blóðrauðum ám(enginn tekur eftir slíku, mengunin er það mikil núorðið) yfir í að koma sér á framfæri í gegnum kvikmyndir til fjöldans.
Þetta sannfærðist ég um í gær því tvö teikn birtust um enda heimsins, í formi kvikmynda. Fyrra teiknið var nýjast mynd Jean-Claude Van Damme sem nefnist Until death sem var þokkaleg löggumynd EN Van Damme lék bara þokkalega vel sem vafasöm lögga og má taka því sem fyrsta teikn um enda heimsins.
Hin kvikmyndin sem klingdi viðvörunarbjöllum og fékk mig til að komast á þá skoðun að dómsdagur hlyti að vera að nálgast, er gagnrýni um myndina Postall. Fyrir þá sem þekkja ekki til er Postal byggð á tölvuleik og leikstýrð af Uwe Boll. Uwe er kvikmyndaáhugamönnum að "góðu" kunnur því hann hefur gert þó nokkrar myndir eftir tölvuleikjum sem hafa verið svo afspyrnuvondar að blætt hefur úr augunum á fólki, hausar sprungið og geðdeildir fyllst af katatónískum áhorfendum og nægir að nefna þar Bloodrayne, Alone in the dark og House of the dead.
Gagnrýnin hljóðaði á þann veg að Postal væri bara nokkuð góð, drepfyndin og skemmtilega klikkuð og var hún skrifuð af Todd nokkrum sem er með vefinn Twitch-films, og var hann í skýjunum og sagðist aldrei hafa búist við svo góðri mynd frá Uwe.
Þegar ég hafði lesið þetta yfir, þá brenndi ég strax í Bónus, keypti helling af dósamat og þaðan í Veiðbúðina eftir haglabyssum og kom mér fyrir í neðanjarðarbyrginu. Ég er nefnilega fullviss um það að bráðlega fái Denise Richards Óskarinn fyrir að leika Helen Keller og þá er síðasta teiknið komið fram....
24.3.2007 | 11:11
Gamlar myndir og góðar
Síðustu daga hef ég legið í pest heima og sem afleiðing af því, er það að maður hefur hjólað í bunkann af DVD-myndum sem biðu áhorfs. Einhvern veginn hefur það samt farið svo að ég er búinn að vera í stuði fyrir gamlar myndir frekar en nýjar og svo áttaði ég mig á því að nær allar myndir síðustu daga hafa eiginlega verið frá tveimur tímabilum: upphaf talmyndana til seinna stríðs og svo uppáhaldstímabilið mitt frá fæðingu spagettivestrans til endakaflans í Star Wars(nýju teljast ekki með). Dásamlegt tímabil og margar af uppáhaldsmyndum mínum eru þaðan og má einnig segja að þetta tímabil hafi mótað kvikmyndaáhugann minn strax á barns aldri.
En svona ef maður lítur yfir nokkra hápunkta af glápinu þá má helst til telja þessar myndir:
All quiet on the western front-Fyrsta andstríðsmyndin er ennþá jafn öflug í dag og hún var fyrir 77 árum síðan. Grimm og mikil ádeila á stríð, áróður og þá sem hvetja unga menn til að fara í stríð en sitja heima sjálfir. Svo sem ekki miklu að bæta við dúndurgagnrýni á einu bloggi hér um daginn en uppfull af ógleymanlegum senum, sérstaklega lokasenunni.
Dr. Jekyll & Mr. Hyde(1931)-Líklegast elsta útgáfan af sögu Stevensons(gæti verið til silent útgáfur samt) og á margan hátt áhugaverð fyrir hversu opinská hún er kynferðislega. Hún var gerð fyrir tíma ritskoðunar(Pre-code) og þar er ekkert verið að fela kynferðislega bælingu og spennu Jekylls sem sleppur laus í gegnum sadistann Hyde. Fredrick March tekst vel upp sem dúettinn Jekyll og Hyde og svo vel að honum tókst að krækja sér í Óskar á sínum tíma. Förðunin á hinum ansi apalega og ófríða Hyde er einnig ágætlega gerð.
The good earth-"Hver í andskotanum heldurðu að hafi áhuga a mynd um kínversku bændur þegar enginn hefur áhuga á bandarískum bændum?" voru orð sem voru látin falla við framleiðandann Irving Thalberg(síðasta myndin hans) þegar hann fór af stað með þetta mikla drama sem gert er í skugga kreppunar og eftir sögu Pearl S. Buck. Sagt er frá örlögum fátækra bændahjóna í Kína frá því um aldamótin 1900 í gegnum súrt og sætt, eymd og ríkidóm, hamingju og sorg og þó að bandarískir leikarar leiki aðalhlutverkin þá er hún það góð og áhrifamikil að slíkt gleymist. Leikur Paul Munis(stórgður leikari sem er líklegast gleymdur flestum nema kvikmyndaáhugamönnum) og Luise Rainer er það góður einnig að Rainer fékk Skara fyrir og Muni tilnefningu. Frekar óvægin miðað við drama frá þessum tíma á köflum og borin er virðing fyrir kínversku fólki ólíkt hvernig meðhöndlun svartir fengu t.d. í Gone with the wind.
Svo kemur að nýrra tímabilinu:
The Yakuza-Robert Mitchum leikur fyrrum hermann sem heldur til Japan í leit að dóttur vinar síns sem hefur verið rænt. Það er bara byrjunin á þessum nokkuð góða þriller með sterkum hasar-senum sem og vel sköpuðum persónum og pælingum um heiður, hollustu og Austur vs. Vestur. Minnir mann vel á hvers vegna mikið af góðum hasarmyndum voru gerðar milli 1970 og 80.
The warriors Ultimate editon-Walter Hill var á hápunkti ferli síns þegar hann gerði þessa frægu klíkumynd, mynd sem maður sá aftur og aftur í æsku og því var smá tilhlökkun/hræðsla við að kikja á hana aftur í nostalgíukastinu. Til allrar hamingju reyndist óttinn ástæðulaus því myndin svínvirkar sem hasarmynd enn í dag þökk sé mikilli keyrslu, ekkert verið að flækja hlutina og fyrirtaks afþreying í þessar 90 mínútur. Ultimate edition DVD-inn er með smá breytingum frá orginal útgáfunni, þ.e. Hill heldur inni upprunalegu hugmynd sinni með að þetta sé teiknimyndasaga og skiptingar á milli staða fara þannig fram að comics-rammar færa atburðarrásina fram.
Mæli svo með að ef fólk er í vafa um hvað skal glápa á um kvöldið, að fara nú út á leigu og ná sér í eina gamla mynd og/eða klassíkina sem það á alltaf eftir að sjá, ef ekkert heillar í sjónvarpi sem og nýja rekkanum. Gamlar myndir líkt og vín eru oft alveg eðal og sumar betri með aldrinum.
Kvikmyndir | Breytt 21.4.2007 kl. 10:47 | Slóð | Facebook
16.2.2007 | 00:03
BAFTA, eftirsjá kvikmyndaunnanda o.fl. bíótengt
Einhvern veginn er ég bara hreinlega stemmdur til að blogga um stóru ástríðu mína í lífinu: bíómyndir. Það hefur nefnielga gengið svo mikið á þar á bæ síðustu vikuna eða svo. Mun örugglega vaða úr einu í annað.
Fyrst langar mig til að minnast hins frábæra leikara Ian Richardson sem féll frá, í síðustu viku. Eitt hlutverk hans er í miklu uppáhaldi hjá mér, lanstjórinn í An ungentlemanly act sem var bresk, hárbeitt sjonvarpsmynd um fyrstu 36 klst. í Falklandseyjarstríðinu. Enn einn fallinn frá sem ég þarf að skála fyrir og góða skál. Fyrir þá sem ekki til þekkja þá höfum við tveir félagarnir þá venju að við skálum í einhverju áfengu fyrir öllum þeim er hafa lagt eitthvað fram til kvikmynda og heiðrum þannig fráhvarf þeirra. Annars minntist nú Helen Mirren hans einnig á BAFTA og upplýsti að hann hefði verið hennar kennari í leik.
Talandi um BAFTA, þá eru það á margan hátt mjög afslöppuð og skemmtileg verðlaunahátíð, ekki glamúr eins og Óskarinn heldur meira eins og undirbúningur fyrir gott partý. Þar hefur spilað inn í skemmtilegir kynnar og svo það sem ég fíla hvað mest við BAFTA, þar er heiðrarð fólk sem er ekki endilega í sviðsljósinu en leggur mikið af mörkum á bak við tjöldin. T.d. í ár var location manager nokkur heiðraður, maður sem sér um að finna tökustaði og skipuleggja tökuáætlanir og sjá til þess að allt gangi eftir áætlun, þessar örfáu mínútur sem tekur að taka upp atriði. Þessi maður sem ég man ekki hvað heitir(og skammast mín) sá m.a. um að stoppa alla umferð í London þegar strætóatríðð í Harry Potter var tekið upp og loka frægum stöðum fyrir V for vendetta þegar marsering V-eftirhermana fór fram. Mikil vinna og nokkuð sem spáir kannski ekki í. Tek hattinn ofan fyrir slíkum mönnum.
AFtur á móti tók ég eftir einum í viðbót í In memorium á BAFTA sem þarf að skála fyrir og lát hans hafði farið framhjá mér: Kenneth Griffith. Flestir í dag sem hafa lítið horft á eldir myndir muna eftir honum sem gamla kallinum í Four weddings and a funeral en hjá mér sem öðrum fanatískum kvikmyndaáhugamönnum sem traustur aukaleikari í ótal gamanmyndum sem og öðrum. Uppáhaldshlutverk hans hjá mér er þó sem samkynhneigði sjúkraliðinn í stríðsmyndinni The wild geese þar sem hann stal senunni í hverju atriði sem hann birtist í og af mönnum eins og Richard Burton, Richard Harris, Hardy Kruger og Roger Moore. Geri aðrir betur! Annar sem lék í þeirri mynd féll einnig frá í fyrra: Patrick Allen, ágætur aukaleikari sem var yfirleitt hermaður, aðalsmaður eða lögga, Shakespeare-leikari sem fór ekki mikið fyrir.
En nóg um það, færum okkur yfir í næsta kvikmyndaviðburð vikunnar hjá mér. Heimildarmyndakl´buburinn Hómer hittist enn eina ferðinni í gær og tók fyrir tvær heimildarmyndir sem tilnefndar eru til Óskars(erum einnig búnir að sjá hina mögnuðu Jesus Camp). Fyrst horfðum við á An inconvient truth sem er stórgóð þó hún sé ekki nema fyirrlestur í raun. Hún heldur athyglinni allan tíman og fær mann til að vilja vita meir um global warming. Þetta er allavega umræðuefni sem er þess virði að fara að ræða almennielga og grípa til aðgerða og láta þá ekki gróðahagsmuni fyrirtækja ráða ferðinni fyrst og fremst. Hvernig eiga þau annars að græða ef mannkynið er orðið að léttgrilluðum kolamolum?
Hin myndin var My country, my country sem er um kosningarnar í Írak og aðdragandann, séð frá nokkrum sjónarhólum. Á margan hátt mjög góð mynd en hefði mátt fókusera e.t.v. betur þó maður fái mikla tilfinningu fyrir andrúmsloftinu í Írak, óttanum hjá hermönnum sem og borgurum, venjulegu fjölskyldulífi í skugga sprenginga, skothríða og rafmagnsleysi á meðan þyrlur sveima yfir Baghdad. Mæli með að kíkja á hana þó hún sé gölluð.
Að lokum, þá sá ég Pan's labyrinth aftur í kvöld. Mögnuð mynd sem verður betri í annað sinn og maður vonast eftir nokkrum styttum þarnæstu helgi, til hennar.
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 09:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.1.2007 | 14:35
EInhæft úrval kvikmyndahúsana
Talandi um kvikmyndahátíðir sem eru hið besta mál, þá er hliðin sem snýr að bíóhúsa-eigendunum ekki sem best heldur. IIFF-kvikmyndahátíðin hefur verið að sumu leyti hreingerning af lagernum, myndir sem þeir telja ekki hæfar fyrir almennar sýningar vegna tungumáls eða uppruna s.s. Óskarsverðlaunamyndina Tsotsi, Der Untergang og að hluta til hafa þeir staðið síg í stykkinu og komið með myndir eins og Volver ferska inn á hátíð og klórað sér svo í hausnum yfir því að hún skuli fá góða aðsókn jafnvel þótt hún sé ekki bandarísk og á spænsku. 2-3 ára myndir hafa einnig verið algengar og myndir á Norðurlandatungumálum sýndar ótextaðir eða jafnvel að myndir á tungumáli(japönsku myndina Hana-bi) sem fáir skilja, sýndar með sænskum texta eða álíka. Metnaðarleysið er mikið.
Svo kom Alþjóða kvikmyndahátiðin(RIFF), hátíð óháð kvikmyndakeðjunum og með það viðhorf sem nauðsynlegt er fyrir hátíðir til að blómstar. Nýjar, ferskar myndir sem ekki eru jafnvel komnar í almenna dreifingu og áhugafólk fremur en markaðsfræðingar við stjórn. Maður var byrjaður að líta á bjarta tíð, kvikmyndahátið kvikmyndakeðjanna þegar vorið nálgaðist og aðsókn þar á myndir á öðru tungumáli en ensku framar vonum og önnur hátíð á haustin sem var einstaklea vel heppnuð 2005 þrátt fyrir smá hnökra sem geta alltaf komið fyrir.
Maður gleymdi því þó óvart að sumir þola ekki samkeppni, sérstaklega hjá Senu. Þeir komu með sitt Oktoberfest þar sem sýndar voru 2-3 myndir af hinni hátiðinni til að fylla upp í, opnunarmynd RIFF var t.d. hin frábæra Adams æbler sem var sýnd með enskum texta þar en textalaus á Oktoberfest og hefði gengið vel í almennum sýningum en nei, hún var dönsk og svoleiðis myndir fer fólk ekki á. Oktoberfestið var í það heila fíaskó á margan hátt en Sena gat ekki setið á sér heldur var á síðasta ári færð til stóra kvikmyndahátið bíóanna:IIFF og sett á haustin, rétt á undan Alþjóðlegu kvikmyndahátiðnni. Þar að auki hefur maður heyrt af fleiri steinum í götu þeirrar hátíðar af hálfu Senu, neitað að leyfa sýningar á myndum sem þeir höfðu réttinn á og ætluðu ekkert að sýna og Sena neitaði að leigja sali Regnbogans undir hátíðina, nokkuð sem Sambíóin gerðu ekki með Háskólabío. Það er ekki eins og að Sena hefði tapað nokkru á því heldur eru þetta ekta einokunartilburðir og eingöngu gert til að drottna yfir markaðnum því báðar hátíðir geta þrifist á sitthvorum árstímanum. Svona tilburðir skaða líka fjölbreytnina yfir allt árið og er síður en svo gert til að auka úrvalið nema á örstuttum tíma á haustin.
Hvað á að gera? Ég veit það ekki en fyrsta skrefið er hjá kvikmyndahúsum að koma með fjölbreyttara úrval allt árið í kring og hætta eingöngu að horfa til Bandaríkjanna, heldur skoða hvað er vinsælt í Bretlandi, Frakklandi og Danmörku t.d. Svo hafa asískar myndir ákveðinn markað einnig og eru sterkar í hasar, spennu og hryllingi(sjáið bara allar endurgerðirnar af asískum myndum:The departed, The grudge, The ring og fleiri góðar), litlar hátíðir reglulega gæti gengið með óvissu myndir. Það þýðir heldur ekkert að reikna með að þessar myndir skili 10.000 áhorfendum fyrstu helgina og vera eins og Kaninn, líta á það sem flopp ef svo fer ekki. Svona myndir og góðar myndir sem ekki eru mainstream, taka tíma að taka inn áhorfendur með orðspori sínu og lifa lengur en nýjasta Fast and the furious-mydin og álíka, í bíósölum.
Annað skref er að vera ekki að kæfa niður kvikmyndahátíðir sem þeir hafa ekki gerræði yfir heldur fagna þeim og hlúa að þeim. Aðsókn áhorfenda skilar sér til þeirra í popp og kók kaupum því kvikmyndahátiðir hafa verið vel sóttar í gegnum tíðina og farið fram úr björtustu vonum. Einnig eiga kvikmyndahúsin ekki að koma með lagerhreinsun inn á kvikmyndahátíðir, sérstaklega þar sem margar myndirnar eru fyrir löngu síðan komnar út á DVD og menn búnir að fá sér myndirnar sem þeir eru spenntir fyrir.
Ef kvikmyndahúsin gæta sín hreinlega ekki, þá munu þeir hreinlega missa áhorfendur, sérstaklega þá sem eru eldri og þá sem vilja sjá fjölbreyttar myndir og áhugaverðar. Þessi hópur mun færa sig inn til þeirra aðila sem verða með minni sýningar í Tjarnabíó og kaupa frekar DVD-ana að utan. Að sama skapi þá mun þetta frekar auka niðurhal á áhugaverðum myndum ef kvikmyndahúsin eru að koma með þær allt að ári síðar.
Svona að lokum til að vera ekki algjörlega neikvæður, þá hefur Sena allavega rankað aðeins við sér eftir ábendingar líklegast og ákveðið að taka hina þrælgóðu Pan's labyrinth til sýningar í febrúar. Vonandi þýðir það að það sé vakning meðal kvikmyndahúsa að fara af stað en kannski er það bara óskhyggja hjá mér.
Segir úrval kvikmynda einhæft í íslenskum kvikmyndahúsum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.1.2007 | 16:35
Óskars-tilnefningarnar komnar-Ekki mikið óvænt
Það sem kannski helst kemur á óvart er Ryan Gosling fyrir besta leik í karlhlutverki, Borat fyrir besta handrit og að Jackie Earle haley hafi fengið tilnefningu sem er skemmtilegt því hann hvarf í fjölda ára eftir að hafa leikið í myndum á borð við Breaking away og minnistæður sem mest óþolandi krakki í heimi í The day of the locust. Alltaf gaman þegar það er endurkoma með stíl. Einnig kom mér það nú aðeins á óvart að hin hrollvekjandi heimildarmynd Jesus camp skuli vera útnefnd. Ánægjulegt þó umfjöllunarefnið sé óhugnanlegt: Kristnar sumarbúðir sem heilaþvo börn að hætti Talibana og eru með mikla hernaðarhyggju og tilbeiðslu til Bush sem hins nýja Messíasar, sem hluta af heilaþvottinum.
Nú þarf maður bara að leggjast yfir þetta og spá í spilin næsta mánuðinn þar til stundin rennur upp. Kvikmyndaklúbburinn Afspyrna hefur hingað til horft á afhendinguna með sínum venjulegu hefðum: vöfflubakstri, veðmálum, teljandi hversu oft sama auglýsingin birtist í hléum og hvaða bull og vitleysu þulurinn á Stöð 2 lætur út úr sér.
Um bloggið
AK-72
Tenglar
Borgarahreyfingin
Kvikmyndir og því tengt
- Heimildarmyndaklúbburinn Hómer Félagskapur sem hittist til að drekka í sig fróðleik og bjór á þriggja vikna fresti
Project 100
- Heimasíða Project 100 Viltu vera einn af 100?
Bloggvinir
- don
- soleys
- tharfagreinir
- sigurgeirorri
- neddi
- smali
- omnis
- nanna
- baldurkr
- siggi-hrellir
- gorgeir
- paul
- geimveran
- skari60
- semaspeaks
- vest1
- thj41
- gudrunlilja
- zeriaph
- siggisig
- gudbjorng
- svatli
- athena
- ace
- ragnarb
- einarolafsson
- amadeus
- brell
- thorsaari
- tbs
- vilhjalmurarnason
- patent
- jennystefania
- drum
- folkerfifl
- larahanna
- ragnar73
- hildurhelgas
- ladyelin
- sigurduringi
- sij
- hedinnb
- valgeirskagfjord
- hehau
- baldvinj
- jonarnarson
- olinathorv
- saemi7
- agustg
- ingaragna
- liljaskaft
- astajonsdottir
- reisubokkristinar
- lehamzdr
- sparki
- malacai
- leifur
- evaice
- gus
- tryggvigunnarhansen
- kjarri
- vistarband
- fun
- einari
- spurs
- annaeinars
- gattin
- kaffistofuumraedan
- launafolk
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar