Ys og þys skammdegisins

Stundum þegar fólk kvartar yfir því að janúar og febrúar séu svo leiðinlegir mánuðir, ekkert gerast í skammdeginu og allt í volæði, þá get ég ekki annað en glottað. Ef eitthvað er þá er það ekki nógu duglegt við að finna sér eitthvað til dundurs líkt og ég. Það er einhvern veginn búið að vera allt brjálað hjá mér í að glápa niður DVD-staflann, tæta í mig bækur, er á Microsoft-námskeiði, kvikmyndaklúbbarnir Afspyrna og Hómer á fullu ásamt því að Óskars-myndirnar streyma í bíó og er að klára handritsuppkast þannig að það sé boðlegt í styrkumsókn. Ekki dauð stund í lífinu eftir vinnu og stundum nær maður m.a.s. að slappa af á mlli.

Fólk verður einfaldlega að líta í eigin barm stundum og átta sig á því að það getur ekki beðið eftir því að einhver finni upp á skemmtilegu að gera fyrir sig, heldur verður það að taka af skarið og finna sér eitthvað skemmtilegt að gera og hafa samband við vini og ættingja eða taka frumvkæði að því að hittast. Það er nefnilega ekki alltaf hægt að ætlast til þess að aðrir sjái um slíkt og koðna svo niður sjálfur án þess að skilja hvers vegna ekkert gerist. Oft á tíðum er einnig hægt að gera eitthvað án þess að það kosti mikinn tilkostnað eða engan pening: göngutúr, spilakvöld, lítið matarboð(þarf ekki endilega að þýða drykkju) eða annað.

Semsagt, ef þið þjáist af svona vandamálum með leiðindi, takið ykkur til og eigið frumkvæði að því að gera eitthvað sniðugt og skemmtilegt, hvort sem það er fyrir ykkur sjálf eingöngu eða fleiri í kring. Lífið er einfaldlega of stutt til þess að láta sér leiðast. 


Demantar eru bestu vinir stúlkunnar

Fyrir nokkrum árum þá var systir mín með ergelsi yfir saumaklúbb sem hún hafði farið í. Ein vinkonan átti mann sem hafði heitið því að gefa henni aldrei demant vegna einokunarverslunar og okrinu á þeim. Hinar vinkonurnar voru yfir sig hneykslaðar á þessu tilltisleysi mannsins því eins og allir vita:"Diamonds are girl's best friend" og fóru að bollaleggja að það yrði að taka á þessum stóra vanda vinkonunnar með demantsgjöf til hennar. Systir mín sem er soldið pólitísk, fékk nóg og hélt þrumuræðu yfir þeim um allan óþverran sem tengdist demanta-iðnaðinum: stríðin, grimmdarverkin, barnahermennina og klykkti út að hún væri alveg sammála skoðunum mannsins. Á meðan horfðu vinkonurnar á systur mína með tómum Bambi-augum eins og hún væri að lýsa hægðum sínum, og þegar ræðunni lauk, snéru þær sér aftur að því að planleggja demantskaupin, búnar að blokkera allt hið vonda út.

 Ég mundi eftir þessari sögu í gær,þegar ég fór á hina ágætu Blood diamond sem er hasarmynd með boðskap og gerist í löngu og ömurlegu borgarastríði í Sierra Leone sem öllum var sama um(gæti reyndar haldið heilan fyrirlestur um viðbjóðinn þar t.d. Guess the baby anyone?).Það eina sem heimurinn hafði áhyggjur af, var flæði demanta þaðan og má kannski segja að þessi saga að ofan sé dæmigerð fyrir heiminn og sinnuleysi hans. Við höfum meiri áhyggjur af glingri og hagsmunum okkar en viljum ekkert vita af hörmungum og hvernig við eignumst þetta glingur á kostnað afhöggina útlima, ráni á börnum sem með nauðgunum, pyntingum,ánetjun fíkniefna og heilaþvotti eru gerð að grimmum hermönnum, fjöldamorða og margs konar hörmunga.Ef einhver segir að þetta sé Afríkuvæl eða álíka, þá bendi ég hinum sama að hugleiða hvernig vopnakaup eru framleidd, sérstaklega til skæruliða. Ekki slá þeir lán hjá Alþjóðabankanum? 

En þetta skiptir svo sem engu máli í raun, allar konur verða að eiga demant.

 

 


EInhæft úrval kvikmyndahúsana

Glöggt er gests augað, er það fyrsta sem mér datt í hug þegar ég las þetta og ágætt að einvher utanaðkomandi láti heyra í sér með þetta. Ástandið er búið að vera slæmt og versnar á hverju ári varðandi úrval kvikmynda. Hvers vegna? Jú, það er einfaldlega það að með fákeppninni og þröngsýni markaðsmanna hjá stóru keðjunum tveimur: Sam-Bíóunum og Senu, þá er eingöngu horft til Bandaríkjanna þegar kemur að myndum. Þær fáu myndir sem koma frá Evrópu eða Asíu í bíóhúsin hér á almennar sýningar, koma í gegnum bandarísku dreifingaraðilana. Maður veit það að ástandið er slæmt þegar breskar myndir fá ekki dreifingu hér nema á kvikmyndahátiðum og jafnvel að það þurfi kvikmyndahátíð til að sýna myndir sem flokkast undir afþreyingarmyndir frá öðrum löndum eins og t.d. 28 days later o.fl., myndir sem ef allt væri eðlilegt hér, myndu rata á almennar sýningar.

Talandi um kvikmyndahátíðir sem eru hið besta mál, þá er hliðin sem snýr að bíóhúsa-eigendunum ekki sem best heldur. IIFF-kvikmyndahátíðin hefur verið að sumu leyti hreingerning af lagernum, myndir sem þeir telja ekki hæfar fyrir almennar sýningar vegna tungumáls eða uppruna s.s. Óskarsverðlaunamyndina Tsotsi, Der Untergang og að hluta til hafa þeir staðið síg í stykkinu og komið með myndir eins og Volver ferska inn á hátíð og klórað sér svo í hausnum yfir því að hún skuli fá góða aðsókn jafnvel þótt hún sé ekki bandarísk og á spænsku. 2-3 ára myndir hafa einnig verið algengar og myndir á Norðurlandatungumálum sýndar ótextaðir eða jafnvel að myndir á tungumáli(japönsku myndina Hana-bi) sem fáir skilja, sýndar með sænskum texta eða álíka. Metnaðarleysið er mikið.

Svo kom Alþjóða kvikmyndahátiðin(RIFF), hátíð óháð kvikmyndakeðjunum og með það viðhorf sem nauðsynlegt er fyrir hátíðir til að blómstar. Nýjar, ferskar myndir sem ekki eru jafnvel komnar í almenna dreifingu og áhugafólk fremur en markaðsfræðingar við stjórn. Maður var byrjaður að líta á bjarta tíð, kvikmyndahátið kvikmyndakeðjanna þegar vorið nálgaðist og aðsókn þar á myndir á öðru tungumáli en ensku framar vonum og önnur hátíð á haustin sem var einstaklea vel heppnuð 2005 þrátt fyrir smá hnökra sem geta alltaf komið fyrir.

Maður gleymdi því þó óvart að sumir þola ekki samkeppni, sérstaklega hjá Senu. Þeir komu með sitt Oktoberfest þar sem sýndar voru 2-3 myndir af hinni hátiðinni til að fylla upp í, opnunarmynd RIFF var t.d. hin frábæra Adams æbler sem var sýnd með enskum texta þar en textalaus á Oktoberfest og hefði gengið vel í almennum sýningum en nei, hún var dönsk og svoleiðis myndir fer fólk ekki á. Oktoberfestið var í það heila fíaskó á margan hátt en Sena gat ekki setið á sér heldur var á síðasta ári færð til stóra kvikmyndahátið bíóanna:IIFF og sett á haustin, rétt á undan Alþjóðlegu kvikmyndahátiðnni. Þar að auki hefur maður heyrt af fleiri steinum í götu þeirrar hátíðar af hálfu Senu, neitað að leyfa sýningar á myndum sem þeir höfðu réttinn á og ætluðu ekkert að sýna og Sena neitaði að leigja sali Regnbogans undir hátíðina, nokkuð sem Sambíóin gerðu ekki með Háskólabío. Það er ekki eins og að Sena hefði tapað nokkru á því heldur eru þetta ekta einokunartilburðir og eingöngu gert til að drottna yfir markaðnum því báðar hátíðir geta þrifist á sitthvorum árstímanum. Svona tilburðir skaða líka fjölbreytnina yfir allt árið og er síður en svo gert til að auka úrvalið nema á örstuttum tíma á haustin.

Hvað á að gera? Ég veit það ekki en fyrsta skrefið er hjá kvikmyndahúsum að koma með fjölbreyttara úrval allt árið í kring og hætta eingöngu að horfa til Bandaríkjanna, heldur skoða hvað er vinsælt í Bretlandi, Frakklandi og Danmörku t.d. Svo hafa asískar myndir ákveðinn markað einnig og eru sterkar í hasar, spennu og hryllingi(sjáið bara allar endurgerðirnar af asískum myndum:The departed, The grudge, The ring og fleiri góðar), litlar hátíðir reglulega gæti gengið með óvissu myndir. Það þýðir heldur ekkert að reikna með að þessar myndir skili 10.000 áhorfendum fyrstu helgina og vera eins og Kaninn, líta á það sem flopp ef svo fer ekki. Svona myndir og góðar myndir sem ekki eru mainstream, taka tíma að taka inn áhorfendur með orðspori sínu og lifa lengur en nýjasta Fast and the furious-mydin og álíka, í bíósölum.

Annað skref er að vera ekki að kæfa niður kvikmyndahátíðir sem þeir hafa ekki gerræði yfir heldur fagna þeim og hlúa að þeim. Aðsókn áhorfenda skilar sér til þeirra í popp og kók kaupum því kvikmyndahátiðir hafa verið vel sóttar í gegnum tíðina og farið fram úr björtustu vonum. Einnig eiga kvikmyndahúsin ekki að koma með lagerhreinsun inn á kvikmyndahátíðir, sérstaklega þar sem margar myndirnar eru fyrir löngu síðan komnar út á DVD og menn búnir að fá sér myndirnar sem þeir eru spenntir fyrir.

Ef kvikmyndahúsin gæta sín hreinlega ekki, þá munu þeir hreinlega missa áhorfendur, sérstaklega þá sem eru eldri og þá sem vilja sjá fjölbreyttar myndir og áhugaverðar. Þessi hópur mun færa sig inn til þeirra aðila sem verða með minni sýningar í Tjarnabíó og kaupa frekar DVD-ana að utan. Að sama skapi þá mun þetta frekar auka niðurhal á áhugaverðum myndum ef kvikmyndahúsin eru að koma með þær allt að ári síðar.

Svona að lokum til að vera ekki algjörlega neikvæður, þá hefur Sena allavega rankað aðeins við sér eftir ábendingar líklegast og ákveðið að taka hina þrælgóðu Pan's labyrinth til sýningar í febrúar. Vonandi þýðir það að það sé vakning meðal kvikmyndahúsa að fara af stað en kannski er það bara óskhyggja hjá mér.
mbl.is Segir úrval kvikmynda einhæft í íslenskum kvikmyndahúsum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilviljanir

Tilviljanir geta verið áhugaverðar stundum. Ég er búinn að vera lesa bækur í þyngri kantinum upp á síðkastið, og ákvað að grípa í einhverja afþreyingu til að kæla heilann aðeins í gær. Mundi eftir íslenskri spennusögu sem var búinn að vera upp í hillu í lengri tíma og náði í hana. Þetta var bærilegur reyfari skrifaður 2002 sem var um hana Stellu Blómkvist og heitir Morðið í þinghúsinu.

Nú er örugglega einvher byrjaður að velta fyrir sér hvað þetta kemur tilviljunum við(ef menn hafa ekki lesið bókina). Aðalmálið í bókinni er um dauða blaðakonu sem hrapar af þingpöllum þegar öfgafullir þjóðernissinnar eru með læti á þingpöllum, hrópandi slagorð á borð við "Ísland fyrir Íslendigna" og í gegnum bókina má sjá tal þjóðernissinna um að útlendingar séu að stela vinnunni frá okku og sömu frasa og heyrst hafa í umræðunni hér um útlendinga  . Ástæðan fyrir þessum látum er sú að umræða er á þingi vegna orða dómsmálaráðherra, um að takmarka þurfi flæði útlendinga til landsins. Tilviljunin er sú að ég hafði ekki hugmynd um söguþráðinn og fer að lesa bókina á sama degi og Frjálslyndir byrja sitt flokksþing.

 Önnur Frjálslynd tilviljun er dagurinn í dag. Þegar Frjálslyndir ganga til kosninga í dag þá er annars staðar í heiminum verið að minnast fórnarlamba Helfararinnar og er þessi dagur nefndur Auschwitz-dagurinn. Þar er verið að minnast hvernig spilað hefur verið á hörpur þjóðernishyggju og fordóma, til að fremja ein hryllilegustu grimmdarverk síðustu aldar. Enn í dag hljóma sömu frasarnir og nasistar beittu þegar kemur að því að kynda upp hræðslu gegn öðrum trúarhópum, kynþáttum eða litarhætti: Þýskaland fyrir Þjóðverja, það er þeim að kenna að þið hafið ekki vinnu, þeir vilja ekki aðlagast samfélaginu og rotta sig saman í hverfi, þeir nauðga hvítum, kristnum, arískum konum o.sv.frv.

Ég efast þó stórlega um að svipaðar ofsóknir séu í huga þeirra sem ala mest á hræðslu við útlendinga meðal Frjálslyndra en sporin hræða miðað við söguna, sérstakelga þegar kemur að stjórnmálamönnum sem eru að ná sér í atkvæði. Tækifærismennska sumra er nefnilega sprottinn upp úr þeirra örvæntingu um að vera ekki lengur við kjötkatlana og þá er gripið til ýmisra ráða til að tryggja áframhaldandi veru á þingi, sérstaklega ef menn geta ekki haldið áfram á eigin verðleikum. Í raun eins og félagi minn sagði við mig, þá var þetta eiginlega spurningin hvor yrði til: Framsókn eða Frjálsyndir. Það er er nefnilega mjög auðvelt að ná sér í atkvæði út á hræðsluáróður við minnihlutahópi, sérstaklega hér á landi því við Íslendingar erum gjarnir að koma fram með sleggjudóma og alhæfingar um þjóðfélagshópa af öllu tagi.

Ég vona að þetta sé ekki fyrirboði um það að Hvítt afl sigri á flokksþingi Frjálslyndra eða hvert stefnir. Ef svo fer, þá mun ég berjast gegn þeim af fullri hörku á hvern þann hátt sem ég get.


Dabbi kóngur og Jón biskup

    Einhvern veginn verður mér alltaf hugsað til Hinriks II, Englandskonungs og Beckets biskup, þegar kemur að Baugs-málinu. Hinrik og Becket höfðu eitt sinn verið mátar en svo lenti þeim saman þegar Becket neitaði að beygja sig undir ofurvald konungs og setja kirkjuna undir hæl hans. Þetta endaði í illdeilum sem páfi neyddist til að skipta sér af og þær enduðu með því að Hinrik hreytti út úr sér orðum um hvers vegna einhver losaði sig ekki við þennan helvítis prest. Fjórir riddarar skildu þetta sem skipun, skipulögðu og framkvæmdu morð á Becket í kirkju hans. Sumir sagnfræðingar segja að það hafi verið með fullri vitund Hinriks sem hafi eingöngu verið að tala undir rós til að forðast ákæru fyrir skipulagt morð. Morðið á Becket snérist í höndunum á Hinriki og undirsátum, páfi gerði Becket að dýrlingi og að lokum þurfti konungur að auðmýkja sig opinberlega og iðrast við gröf Beckets sem var almennt orðinn að píslarvotti.
   Í Baugsmálinu varð atburðarrásin þannig að Davíð Oddson eða Dabbi kóngur byrjaði að leggja fæð á Jón Ásgeir og Baugsmenn fyrir að vilja ekki setja kirkju sína, markaðinn, undir hæl Davíðs. Sumir segja að þetta hafi byrjað í tíð Davíðs sem borgarstjóra en ég tel að þetta hafi byrjað við einkavæðingu FBA sem Davíð fagnaði í fyrstu en trompaðist svo yfir þegar hann sá að Jón nokkur Ólafs hafði keypt bankann ásamt Jóni Ásgeiri. Jónarnir tveir voru ekki hluti af aðalsmönnum þeim er mynduðu hirð Davíðs:heildsölum, Kolkrabbafjölskyldunum og kvótagreifum, heldur höfðu þeir byggt upp veldi sitt samkvæmt þeim reglum er kóngu setti en skildu ekki að menn þurftu að tilheyra hirðinni til að mega það. Hirðmönnum sem hirðfíflum mislíkaði þessi ótukt götustrákana að dirfast að halda að þeir sætu að sama borði þegar kæmi að einkavinavæðingu, sérstaklega þó kónginum sem leit á ríkið sem sitt. Óvild kóngsins og hirðar hans í garð Jón Ásgeirs, manna hans og veldi, magnaðist svo með ýmsum hætti og almennt var það orðið viðurkennt að þarna var ekki kært á milli.
    Enginn veit i raun hvort Dabbi kóngur hreytti út úr sér svipuðum orðum og Hinrik en riddarar, trúir kóngi sínum, tóku sig til og ákváðu að nú væri kominn tími til að þagga niðri í biskupi markaðarins, honum Jóni Ásgeiri. Þrír settust niður á skrifstofu í einum kastala valdsins:Morgunblaðinu, ræddu um og skipulögðu aðförina gegn Jóni Ásgeiri og lénsveldi hans Baugi, með þeim vopnum sem þeim höfðu áskotnast, fyrrum heitmey gamla barónsins af Baugi sem mislíkaði það illa að hafa verið velt út úr rúmi og landflótta fésýslumanni í hefndarhug sem taldi Jón hafa dregið konu sína á tálar.
    Þegar áætlunin var tilbúin var haft samband við fógeta ríkisins sem var trúr sínum kóngi og hafist handa. Fógetanum var gert að finna einhverjar sakir á hendur Jóni, foður hans og undirsátum, sönnum sem upplögnum og skaða þá sem mest í augum annara lénsherra sem og almennings með stóru höggi. Ráðist var inn í kirkju Jóns en áætlunin tókst ekki sem skyldi. Baugsveldið féll ekki í valinn svipstundis heldur barðist hatrammlega á móti árás konungsveldisins fyrir rétti sem og annars staðar.
    Kóngurinn varð brátt óvinsæll vegna misnotkunar á valdi sínu þegar hann reyndi að keyra lög í gegn sem klárlega var beint gegn eigum Baugs er hafði að gera með fjölmiðla ásamt því að hafa lýst yfir stuðningi við stríð yfirgangsams stórveldis og fleiri verkum. Almenningur sem og aðrir mislíkaði það og að lokum neyddist Ólafur Ragnar Grímsson páfi til að grípa í taumana og stoppa kónginn sem var orðinn líkt og illvígur tarfur í drápsham í stríði sínu við Baugs-veldið og almenning i landinu.Á endanum hrökklaðist konungur frá völdum og var hann sendur í útlegð í hinn afskekkta kastala Seðlabankann þar sem hann situr bitur og áhrifalaus dreymandi  um endurkomu sína til valda.
     Örlög riddara hans og vopna þeirra eru þó óráðin, einum var verðlaunað með dómarasæti sem gæti komið fyrrum kóngi og hans hirð vel síðar, sá er básunaði hvað mest orð konungs hefur glatað traust fólks á blaði sínu en engum tekst að ýta honum í burt, sá þriðji var hrakinn frá hirðinni af nýjum kóngi og fógetinn eyðilagði trúverðugleika sinn og löggæslumanna sinna. Bréf heitmeyjarinnar um samsæri riddarana kom fyrir sjónir almennings og að lokum lenti fésýslumaðurinn á sakamannabekk við hlið óvinar síns og nafna.
    Jón Ásgeir og veldi Baugs náði að koma sér undan aðför konungs og hans manna þó því sé ekki alveg lokið. Hirðinni mistókst og aðförin snérist í andhverfu sína og gerði Jón að dýrlingi og píslarvætti í augum almennings sem var orðinn þreyttur á harðræði og spillingu konungs og hirðmanna.
    Nú er spurningin hvað gerist næst, mun þáttur konungs og hans manna vera rannsakaður? Mun einhver þurfa að bera ábyrgði á stórfelldum útgjöldum af skattpeningum upp á hundruðir milljóna? Mun yfirmaður lögreglu og leyniþjónustu konungs taka ábyrgð á gjörðum fógetanum og böðlum hans og fara frá? Eða munu fjölmiðlar sem þeir sem á þingi sitja forðast að taka á málinu og þeir seku munu halda áfram í sínum störfum, bruggandi ný launráð? Og svo að lokum, mun einhver af fjölmiðum landsins, hjóla í gamla, bitra kónginn og minna hann á orð sín um að ef aðför fógeta væri pólitískur gjörningur, þá myndu dómstólar vísa málinu frá sér?

Óskars-tilnefningarnar komnar-Ekki mikið óvænt

Jæja, þá er loksins komnar tilnefningar fyrir aðaluppskeruhátíð ársins: Óskarsverðlaunin. Það er svo sem ekki margt sem kemur á óvart í rauninni, maður vissi að Dreamgirls fengi margar tilnefningar, Scorsese yrði útnefndur, Pan's labyrinth sem besta erlenda mynd en Sena hefur ekki áhuga á að sýna hana því eins og þeir orðuðu það:"HAHAHAHA, hver heldurðu að hafi áhuga á að sjá mexíkanskar myndir?". Little miss sunshine er svo sem ekki neitt óvænt frekar en Babel og ég hefði orðið mjög hissa ef Peter O'Toole hefði ekki fengið tilnefningu enda fer karlinn víst á kostum í Venus. Verst að Will Smith fær tilnefningu, hef hrikalegt óþol gegn  honum þó maður gefi honum kredit fyrir leik við og við.

Það sem kannski helst kemur á óvart er Ryan Gosling fyrir besta leik í karlhlutverki, Borat fyrir besta handrit og að Jackie Earle haley hafi fengið tilnefningu sem er skemmtilegt því hann hvarf í fjölda ára eftir að hafa leikið í myndum á borð við Breaking away og minnistæður sem mest óþolandi krakki í heimi í The day of the locust. Alltaf gaman þegar það er endurkoma með stíl. Einnig kom mér það nú aðeins á óvart að hin hrollvekjandi heimildarmynd Jesus camp skuli vera útnefnd. Ánægjulegt þó umfjöllunarefnið sé óhugnanlegt: Kristnar sumarbúðir sem heilaþvo börn að hætti Talibana og eru með mikla hernaðarhyggju og tilbeiðslu til Bush sem hins nýja Messíasar, sem hluta af heilaþvottinum.

Nú þarf maður bara að leggjast yfir þetta og spá í spilin næsta mánuðinn þar til stundin rennur upp. Kvikmyndaklúbburinn Afspyrna hefur hingað til horft á afhendinguna með sínum venjulegu hefðum: vöfflubakstri, veðmálum, teljandi hversu oft sama auglýsingin birtist í hléum og hvaða bull og vitleysu þulurinn á Stöð 2 lætur út úr sér.

Rúv ohf.-frumvarpið: Innihald og umfjöllun fjölmiðla

Í gær lauk svokölluðu "málþófi" stjórnarandstöðunnar við RÚV ohf.-frumvarpið, mér til mikilla vonbrigða. Já, vonbrigða þar sem ég hafði haft fyrir því að lesa mér meira til um frumvarpið vegna þess að fjölmiðlar stóðu sig ekki í stykkinu og fóru yfir málið og um hvað væri deilt.Það má eignilega segja að aövörunarbjöllurnar hjá mér hafi farið á fullt þegar meirihlutinn ákvað að keyra málið í gegn eftir að Þorgerður hafði þurft að afhenda gögn sem hún hafði leynt. Það eitt að mönnum sé ekki gefinn tími til að kíkja á gögn segir manni margt.

Eftir að hafa kynnt mér frumvarpið og athugasemdir við það auk hvernig vinnubrögðin hafa verið, er ég sannfærður um að þetta sé enn ein lögin sem eru keyrð í gegn, stórgölluð og vegna óvandaðra vinnubragða mun þurfa að tjasla mikið upp á það síðar meir með tilheyrandi kostnaði fyrir samfélagið, allt út af því að ráðherra er komin í þráhyggjulegt frekjukast. Síðast þegar það gerðist, þá voru það meingölluð fjölmiðlalög Davíðs Oddsonar.

Í fljótu máli þá sá ég þetta m.a. út úr frumvarpinu.
Kostir:
Nefskattur i stað afnotagjalda.
Peningar sem fóru í rekstur innheimtudeildar nýtist í annað.

Gallar:
Enn er óljóst með samkeppnismál og lokaálit frá ESA er ekki komið. Ef það reynist neikvætt og spár einhverra lögfræðinga ganga eftir, þá gæti það þýtt talsverð málaferli og deilur með tilheyrandi kostnaði.
RÚV mun þurfa að beita sér af meiri hörku gegn samkeppnisaðilum og hefur yfirburðarstöðu á markaðnum(minnir óþægilega mikið á Símann) sem auglýsingamiðill um land og sjó allan.
Réttindamissir starfsmanna-Þó að Páll segi að það verði óbreytt, er ekkert um það í frumvarpinu um að starfsmenn njóti sömu lífeyrisréttinda eða annara réttinda sem þeir njóta undir lögum um opinbera starfsmenn. Þvert á móti viriðist sem að þeir glati ýmsu: áminningarétt og andmælarétt, lífeyrisréttindum o.fl. Auk þess verður launaleynd komið á og RÚV getur tekið upp þá gömlu venju sína að láta starfsmenn vinna í verktöku. Þetta eykur þar að auki hættuna á því að fólk í sömu störfum fái ekki greitt sömu laun fyrir sömu vinnu.
Krumla pólítisks valds verður enn meiri á RÚV-Alþingi kýs stjórn RÚV sem hefur algjört vald til að reka/ráða útvarpstjóra. Útvarpstjóri hefur algjört vald yfir stofnunni og vegna þess að lög um opinbera starfsmenn gilda ekki lengur, er hægt að reka fólk sem hefur ekki réttar pólítískar skoðanir að mati stjórnenda. Þetta býður hættunni heim í mínum augum, að RÚV ohf. verði beitt í pólitískum tilgangi gegn andstæðingum ríkistjórnar hverju sinni, m.ö.o. gæti orðið ríkisrekið FOX news.
Ekki verður lengur hægt að leggja fram fyrirspurnir um mál tengd RÜV og þeirra málum á þingi því afsökunin er komin:"Við getum ekki skipt okkur af því hvað er gert innan fyrirtækja"

Ég sé eiginlega engan tilgang í þessum ohf.-væðingum, það er talað fjálglega um einvherja óljósa hagræðingu sem enginn hefur hugmynd um hver er og miðað við Flugstoðir og MATÍS má búast við allsherjar veseni og leiðindum í kringum starfsmannamál. OHF virðist bara einfaldlega vera til að leyna hlutum betur og jafnvel auka launamisrétti. Hver veit? Maður man nú hvernig hf. væðing Símans fór þar að auki, þeir misnotuðu sér yfirburðarstöðu sína gegn keppinautunum, svo kom í ljós að gjaldkerinn var duglegur við að halda upp sjónvarpstöð og maðurinn sem kjaftaði frá var rekinn, keyptu svo viðkomandi sjónvarpstöð til að fara í samkeppni við helsta óvin Dabba og svo einkavætt til fákeppni með yfirburðarstöðu og verri þjónustu.

Það sem er kannski verst við lætin í kringum þetta, er hvernig fjölmiðlar hafa forðast það eins og heitan eldinn að fjalla um frumvarpið og kynna fyrir almenningi um hvað RÚV snýst, á hlutlausan hátt heldur virðist eins og flestir ef ekki allir fjölmiðlar hafi tekið þá afstöðu að einblína og tala um málþóf en ekki hvers vegna þessi orrahríð stóð yfir á þingi. Reyndar skortir nær því alla íslenska fjölmiðla vilja og þor til að kafa ofan í mál og velta við steinum þegar kemur að ráðandi öflum hvort sem það er í stjórnmálum, viðskiptum eða öðrum. Aumingjaskapur, yfirborðsmennska, hlutdrægni og áhugaleysi íslenskra fjölmiðla í innlendum sem erlendum málum, held ég reyndar að sé efni í langan pistil síðar meir.

Nóg í bili.


Fyrsta bloggfærsla

Jæja, þar kom að því að maður hóf blogg og spurningin er örugglega eins og hjá flestum, hversu lengir helst þetta út eða verður þetta virkt hjá manni í skrifum eða hvort þetta muni lognast út eins og áhugi á fótbolatamyndum af EM.

 Ætla reyndar að nota þetta blogg kannski fyrst og fremst til að skrifa hugleiðingar, gagnrýna stjórnmálamenn sem og annað sem mér ekki að skapi eða hrósa eftir þörfum, fjalla um eitthvað skemmtilegt eða áhugavert úr sagnfræði ef ég dett í það skap og ekki má gleyma bíómyndum og bókum. Set mér það markmið að reyna að skrifa eitthvað sem ég vill að sjáist hér frekar en innantómrar tilvísunar í frétt eða linka á eitthvað sem þykir skemmtilegt án þess að tjá sig að einvherju leyti um efnið.  Ég vona að þetta séu ekki of háleit markmið í upphafi, best að byrja smátt í heimsyfirráðunum.

 Gott í bili, páfagaukurinn og harðstjórinn á mínu heimili þarf að fara að komast í Frétttablaðið og slagsmálin um kaffibollann.

 AK-72


« Fyrri síða

Um bloggið

AK-72

Höfundur

AK-72
AK-72
Með óþrjótandi áhuga á kvikmyndum, sögu og stjórnmálum.Telur sig hafa fullt frelsi til að hrósa og gagnrýna hvern sem er og hvenær sem er.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • ...1212_913482
  • ...ner1_568492
  • ...rad-banner1
  • Screenshot

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.7.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 123426

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband