Vafasöm afskrift skilanefndar Glitnis

Í öllum þeim hrunadansi sem hrunið er, þá hafa stundum litlar fréttir eða upplýsingar í tengslum við bankanna og annað vafasmt, flogið framhjá manni eða "off the radar" líkt og um flugvélar eiturlyfjasmyglara væri um að ræða. Sumu hefur maðru bara einfaldlega gleymt, athygli manns hefur legið annars staðar eða ekki náð að kanna betur hvort sé rétt, eins og t.d. það að Landsvirkjun hafi skúffufyrirtæki í karabíska hafinu. Skiljanlegt því hlutirnir hafa gerst hratt og út um allt.

Í gær var mér bent á frekar sakleysislega frétt sem birtist núna þann 7. febrúar hjá Fréttablðainu/visir.is , þegar augu landsmannna beindust annað.  Í henni stendur eftirfarandi og ætla ég að feitletra ákveðinn part:

" Glitni vantar 1.400 milljarða til að mæta skuldbindingum sínum.

Skilanefnd gamla Glitnis gerir ráð fyrir að 121,5 milljarðar króna séu glatað fé. Tapið er vegna afskrifta á lánum bankans til íslenskra eignarhaldsfélaga, sem flest eru skráð erlendis. Áætlað er að sex prósent útlána til eignarhaldsfélaganna fáist greidd til baka.

Þetta kemur fram í yfirliti skilanefndar bankans yfir eignir og skuldir gamla Glitnis, sem birt var kröfuhöfum í gær. Þar segir enn fremur að 1.400 milljarða króna vanti svo bankinn geti mætt skuldbindingum sínum.
„Þetta eru stórar tölur þótt þær líti sakleysislega út í yfirlitinu," segir Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis, um skuldastöðu bankans. - jab"

Takið eftir þessu, íslensk eignarhaldsfélög erlendis.

Sá sem benti mér á þessa frétt, bætti við nefnilega talsvert af upplýsingum um þetta. Þessi íslensku eignarhaldsfélög erlendis, standa á bak við nær því allri þessari tölu: 121,5 milljarðar. Til samanburðar má benda á að íslensk heimili skulda um 150 miilljarða samtals og heilbrigðiskerfið kostar örlítið minna í rekstri þetta árið eða 115 milljarða.

Annað sem mér var tjáð um þessi fyrirtæki og afskriftir á þeim, er það að þessi fyrirtæki sem eru víst örfá í reynd, voru öll skráð á Tortula-eyju. Þessari eyju sem er jafnfræg og vafasöm og Kaupþing í Lúxemburg þegar kemur að einstaklega vafasömum hlutum í tengslum við efnahagshrunið.

Þriðji hluturinn sem mér var tjáð í sambandi við þessar afskriftir, er að skilanefnd Glitnis neitar að gefa upp hvaða fyrirtæki þetta voru og þar með, hverjir stóðu á bak við þau.

Hversvegna er ekki látið reyna að ná þessum íslensku félögum á Tortula, ef fé skyldi leynast þar?Hvað varð um gagnsæi, öllum steinum velt við og ekkert dregið undan? Hversvegna er skilanefndin að breiða yfir þetta? Og ef þetta er svona hjá þeim, hvað með skilanefndi hinna bankanna? Hversvegna er reynt að draga leyndarhulu yfir afskriftir og hverjir fá þær?

Maður spyr sig.

 

 

 


Baráttan gegn trausti, von og sátt stjórnlagaþings

Þegar bankakerfið hrundi, og efnahagskerfið lagðist á hliðina, þá varð það fljótt ljóst að þetta var ekki það eina sem hafði brostið í hrunadansi græðginnar. Traustið hafði verið myrt og samfélagssáttmálinn rofinn af þeim sem áttu að gæta hagsmuna okkar borgara þessa lands, en létu glepjast frekar af djúpum vösum auðmanna og settu hagsmuni þeirra framar þjóðarinnar.

Í framhaldi af þessu rofi og svikum á samfélagssáttmálanum, þá kom sú réttmæta krafa upp, um að gerður yrði nýr sáttmáli á stjórnlagaþingi. Stjórnlagaþingið sem slíkt, hefði ekki bara það hlutverk að útbúa nýja stjórnarskrá í stað þeirrar gömlu sem ráðherrar og þingmenn höfðu gripið yfirleitt til, þegar skorti salernispappír á leikskólanum við Austurvöll, heldur væri einnig grundvöllur sáttar, uppbygging á trausti og neisti vonar um að hér gæti risið nýtt og sanngjarnt samfélag með nýjum samfélagssáttmála eða hið Nýja Ísland.

En í stað þess að horfast í augun við að það væri ekki bara þörf, heldur einnig samfélagsleg nauðsyn að skapa hér sátt með stjórnlagaþingi, hafa margir þingmenn stokkið á vagninn til að hindra að landsmenn geti samið eigin stjórnarskrá og hafið ferlið til sáttar. Og hver er ástæðan?

Hræðsla.

Fyrst og fremst hræðsla. Hræðslan við að flokkarnir sitji ekki lengur eftirlitslausir við kjötkatlana né geti ausið úr þeim að vild flokknum til hagsbóta, hræðslan við að ráðherrarnir hafi ekki gerræðisvald lengur, hræðslan við vald flokkana veikist, hræðslan við að atvinnustjórnmálastéttin eigi ekki ein þingið, hræðslan við að geta ekki ákveðið einir valdsvið sitt og hræðslan við að hagsmunir flokksins og flokkseigenda verði ekki lengur framar hagsmunum borgaranna og þjóðarinnar.

Enda byrjaði ballið fljótt og áður en tókst að negla samkomulag um kæfingu málsins í nefnd skipuð að mestu þeim sem nærst höfðu á mjólk spillingar, þá hófu misgamlir drengir í stuttbuxum að þeyta smjörinu í allar áttir. Fyrst var sagt að það ætti ekki að vera að eyða tíma í svona óþarfa á borð við stjórnlagaþing á svona víðsjárverðum tímum. Ekki beysin rök þegar skoðað er að margar stjórnarskrár þjóða hafa verið samdar við slíkar aðstæður og sem upphaf nýrrar sáttar. Þá var gripið til næsta hálmstrás, þess að tala um að kostnaður væri óhóflegur enda peningar meira mikilvægari en traust, von og sátt í huga slíkra eyðingarafla samfélagsins.  Slengt var fram tölum sem keyrðar höfðu verið upp í topp án tillits til hvað skilaði sér til baka í gegnum skatta né hver ávinningur þjóðarinnar yrði í formi lýðræðisaukningar og uppbyggingu samfélagsins að nýju, til lengri tíma litið. Ekki nægði þeim það þó, því nýjasta atlaga misgamalla drengja í stuttbuxum,  að gerð nýs samfélagssáttmála, er að stjórnlagaþingið eigi að vera ráðgefandi eingöngu. Hugsunin að þeirri atlögu gegn sáttmála samfélagsins, er mjög einföld: valdaklíkum stjórnmálatéttarinnar verði þá gert kleyft að hundsa allar þær niðurstöður sem veiki flokks- og ráðherraræðið, og minnki valdsvið þeirra þegar kemur að útdeilingu kjötsins til vina og vandamanna.

Á meðan misgömlu drengirnir í stuttbuxum þeyttu smjörinu í tonnavís, þá beindist að sjálfsögðu athyglinni í burtu frá innihaldi frumvarps núverandi ríkistjórnar um hvernig framkvæmd stjórnlagaþings ætti að fara fram, og líklegast var það samkomulag flestra þingmanna um að beina ætt athyglinni í burtu frá þvi. Frumvarpið er nefnilega sniðið þannig, að ef það takist ekki að kæfa málið niður í nefnd og stjórnlagaþing verði að raunveruleika, þá sé svo búið um hnútana, að aðeins stjórnmálaflokkar og önnur öflug samtök tengd þeim, geti yfirtekið stjórnlagaþingið með takmörkunum á því hverjir geti setið á þinginu og hvernig þeir aðilar geti tekið sæti. Takmarkanirnar eru t.d. fólgnar í því að hver frambjóðandi til þings, þarf að safna 50 meðmælendum auk tveggja votta með hverjum meðmælanda eða allt að 150 manns.  Aðeins stjórnmálaflokkar, hagsmunasamtök eða peningaöfl hafa slík tök að geta meðmælum á þessum grundvelli en hin venjulegi Jón eða venjulega Gunna, þyrftu að kalla saman ættarmót með tilheyrandi fyrirhöfn í besta falli.

Afleiðingin væri sú að þverskurður almennings fengi ekki að koma að málum, heldur aðeins Morfís-ræðumenn stjórnmálastéttarinnar og hagsmunagæslumenn atvinnulífsins. Slíkt væri stórskaðlega arfavitleysa,  að handbendi stjórnmálaflokka ákveði hversu vald þeirra er mikið og hver takmörk þess eru,  og mun ekki vera framtíð þjóðarinnar til heilla og frekar leiða hana meir í átt til glötunar.

Eitt af hjartans málum okkar sem í Borgarahreyfingunni eru, er að stjórnlagaþing geti farið fram án yfirgangs atvinnustjórnmálamanna, heldur að þverskurður þjóðarinnar semji hana með almannahag, lýðræði og mannréttindi að leiðarljósi. Valið skal á þingið með slembi-úrtaki úr þjóðskrá, sérfræðingahópar fengnir til að hafa verkstjórn með vinnunni, allir þættir stjórnarskránnar endurskoðaðir með aðsendar tillögur almennings og fyrri vinnu stjórnarskrárnefndar til hliðsjónar. Að því loknu skal leggja hin nýja sáttmála samfélagsins, til kynningar og umsagnar um tíma, og mun svo þjóðin fella sinn dóm yfir nýrri stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Krefjumst þess að stjórnlagaþing verði í höndum borgara þessa lands, ekki stjórnmálastéttarinnar. Krefjumst þess að uppbygging vonar, trausts og sáttar fari fram á stjórnlagaþingi með lýðræði, ekki flokksræði, að leiðarljósi. Krefjumst þess að traust, von og sátt verði að raunveruleika.

Því án þess að vísirinn að trausti, von og sátt sem felst í stjórnlagaþingi, þá mun ekki rísa heilbrigt samfélag upp úr rústum hruns og spillingar.


mbl.is Geta setið fram að kosningum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sirkussýning Sjálfstæðisflokksins

Einhvern veginn er það svo að á þessum tímum, líta landsfundir flokkana út sem einhverskonar trúarsamkomur eða eins og í tilfelli landsfundar Sjáfstæðisflokksins, sem leikhús eða jafnvel sirkus fáránleikans þar sem sirkusstjórar fortíðar, nútíðar og framtíðar eru hylltir sem konungar eða jafnvel guðir. 

Sirkus Sjálfstæðisflokksins eða frekar kannski Sirkus Skelfingar, hófst á fimmtudaginn með beinni útsendinguá hjá fjölmiðli sem þykir yfirleitt hafa verið eins og kynningarfulltrúi á torgum út, þegar kemur að því að básúna skoðunum sirkusins. Þegar skrifari greip þar inn í fjölleikasýninguna, þá stóð þar þáverandi sirkusstjóri fyrir framan bakgrunn sem leit út eins og brotnar glerflísar í mósaiki. Sú hugsun greip mann þá, hvort þetta væri myndgjörningur af hálfu Snorra Ásmundssonar, sem mætti lesa út hvernig samfélagið og stoðir þess, er brotið og bramlað eftir 18 ára valdatíð Sjálfstæðisflokksins. Því miður hvarf sú hugsun fljótt þegar að var gáð. Þetta reyndist vera myndir af gömlum skörfum sem höfðu á einn eða annan komið nálægt flokknum í gegnum tíðina og persónuhylltir þarna eins og hetjur. Meira að segja þeir sem sköpuðu kerfið og lögðu hönd á plóginn við að gera landið að efnahagslegri kjarnorku-auðn, fengu sinn sess.

Þessi myndræni gjörningur reyndust því vera skilaboð til okkar sem horfðu á í hryllingi, að sirkusinn ætlaði sko ekki að gangast við því né viðurkenna sök um að hýenurnar, úlfarnir og önnur rándýr, sem sirkusinn sleppti lausum gegn almenningi með tilheyrandi afleiðingu, hefðu ekki verið á þeirra ábyrgð. Skrítið þar sem sirkusfólkið opnaði búrin sjálf, hindraði eða stóð í vegi fyrir þeim eftirlitsaðilum sem áttu að stoppa það að rándýr réðust á íslenskan almening, og unnu ötulelga að því með stefnu sinn, að rándýrin gætu fengið eins mikið af éta fólk og þau vildu, án afskipta stjórnvalda. Afneitun á hæsta stigi, má eiginlega segja.

En að ávarpi sirkusstjórans, sem var frekar klént í margan stað og óspennandi. Eftir píp og væl, tókst honum loksins að biðja sirkusgesti eina afsökunar á því að ástandið hefði bitnað á þeim. Annað var ekki hægt að lesa úr því en sirkusgestirnir í þessum sirkus fáránleikans, væru einu manneskjurnar sem ættu rétt á slíku. Allavega voru þeir sem finna hvað mest fyrir þessum ósköpum ekki beðnir afsökunar, heldur einfaldlega ætlast til þess að þjáningarsystkinin fyrir utan flokkinn, borgi reikninga sirkussins og skaðann sem sirkusdýrin ollu.

Fátt markvert gerðist næsta dag eftir þetta ávarp, fyrir utan það að einn af velþjálfuðum fjölleikahundum sirkusins, ákvað að gelta á heiðarlegan hátt og mælti svo:" Vilji Sjálfstæðisflokkurinn halda yfirráðum sínum yfir sjávarútvegsauðlindinni, þá hafnar Sjálfstæðisflokkurinn aðild að Evrópusambandinu." Ekkert spurðist til þessa hvolps eftir þetta, og játa ég að maður hefur pínu áhyggjur af því að þessum hvolpi hafi verið lgeldur eða jafnvel lógað af eigendum sirkusins við sjávarsíðuna, fyrir einlægt, heiðarlegt og hreinskilið gelt. 

En þegar maður hélt nú að þessi sirkus væri byrjaður að koðna niður, sýningin orðin þung og leiðnleg þar sem sirkustrúðarnir klöppuð hvor öðrum á bakið og sögðu við hvorna nanna frekar húmorslaust:"Þetta er ekki þér að kenna, að dýrin sluppu út og alls ekki stefnu okkar, þetta er allt Jóni Ásgeiri að kenna.", þá kom líf í sirkusinn aftur. Óvænt skemmti-atriði og það frumsamið, var kynnt til sögunnar, gamall sirkusstjóri sem hafði um tíma gegnt starfi yfirtrúðs en verið rekinn . Í stað þess að grípa inn í og aðstoða við slökkvistörfin hafði þessi yfirtrúður ákveðið að skvetta grillvökva eldgelypsins á bálið, skildi svo ekkert í að bálið logaði bara meir og vildi skella skuldinni á þennan Jón og yfirstrympu Samfylkingar-sirkusins.

Við lófaklapp skrölti þessi gamli og þreytulegi yfirtrúður upp á sviðið, við mikinn fögnuð sirkusgesta sem biðu í eftirvænitingu eftir enn einu frábæru atriðinu í þeirra augum, en hryllingi í augum þeirra sem vildu ekki koma  nálægt þessum sirkus. Skyndilega svipti trúðurinn hulunni af sér og reyndist ekki vera gamli trúðurinn, heldur Kristur á krossinum sem væri að þjást fyrir syndir alls heimsins. Þegar það kom í ljós að trúðurinn var ekki að grínast með Krists-gervið heldur áleit sig hafa verið fórnað til friðþægingar þrátt fyrir að hann hafi verið gripinn með grillvökvann í hendinni, runnu tvær grímur á suma. Biturleiki trúðsins í bland við þessa nýtilfundnu firringu, gerði þetta óþægilegt fyrir aðra sem á horfðu í gegnum netið en sirkusgestirnir hlógu og fögnuðu af trúarofsa þeirra sanntrúuðu á vakningarsamkomum.

Hrifning sirkusgestanna á þessu atriði bitra yfirtrúðsins með Frelsara-kompexana, náði þó hámarki þegar trúðurinn gyrti niður um sig, skeit í lófana á sér og þeytti skítnum út um allt, m.a. í mann sem hafði misst barn sitt í síðastliðnri viku. Trúðurinn ágerðist svo við hrinfinguna og ákefði salsins sem heimtaði meira að nokkrum auka spörðum var kastað en ekki við mikinn fögnuð sumra gestanna sem fengu illa lyktandi saurinn beint í framan. Reiddust þeir og töldu sig ekki geta endurreist virðingu sína nema seinna um kvöldið í fjölmiðlum og töluðu um ómaklegt skítkast. Trúðurinn lauk svo senunni við það mikla hrinfingu áhorfenda að þeir risu upp úr sætum sínum og hylltu hvert einasta saurkast með því þannig að trúðurinn gekk af sviðinu, glaður í bragði yfir því að allir væru fagnandi skítnum sem hann aus í allar áttir, m.a.s. þeir sem fengu kastið beint í andlitið.

En svo fór að draga að lokum sýningarinnar og stökk fráfarandi sirkusstjóri í pontu og var þungur yfir því að trúðurinn hafði hagað sér svona. Sirkustjórinn var ekki sáttur við framferði hans og sérstaklega að hafa kastað einum stórum og illa lyktandi í andlit manns sem hann hafði séð til að fengi starf í undirdeild flokksins:Samtaka atvinnulífsins. En ekki varð meiri eftirmáli af þessu en það því að hápunktur og aðalatriðið nálgaðist hratt, og það var hver ætti að hreppa hnossið og verða næsti sirkusstjóri?

Upphófst þá skemmti-atriði sem gekk út á það að menn áttu að þykjast kjósa um tíma. Tveir kandidatar og sá þriðji sem vildi sýna fram á fáránleikann, sýnd sig á sviðinu eins og sperrtir stóðhestar en í raun var búið að ákveða að krónprins Kolkrabbans gamla, ætti að fá sprotann og starfið. Það hafði veirð ákveðið fyrir þó nokkru síðan og jafnvel árum síðan, en þegar það uppgötvaðist að sirkusinn myndi missa áhorf, þá varð uppi fótur og fit. Í skelfingu sinni hlupu markaðsmenn sirkusins út um allt land þar til að sjóaður skrípaleikari við sjávarsíðuna fannst til að stökkva inn í senuna. Sýndarmennskan í þessum gervikosningum náði svo hámarki þegar krónprinsinn var svo krýndur, líkt og um fegurðarsamkeppni væri um að ræða. Gott ef hann brosti ekki stöðluðu brosi í gegnum tárin, jafnvel við tónlist frá Gunnari Þórðarsyn.

Næstu kosnignar gengu fljótt fyrir sig enda engin sem nennti að horfa á sama leikatriðið tvisvar í röð,  og tók því skipun á varasirkustjóra fljótt yfir. Að lokum endðai sirkusinn á atriði fáránleikans þegar krónprinsinn sem var orðinn N(r)1, hóf ræðu um að nýtt fólk og ferskt loft blési um sirkusinn. Í ljósi þess að ekkert nýtt fólk hafði valist til valdastarfa, aðeins starfsmenn sirkusins sem báru sína ábyrgð á hruni samfélagsins né að mokað hafði verið út áralöngum og illa lyktandi úrgangi sirkusgesta og sirkusdýra, þá varð þetta frekar hjákátlegt og falskt. Það var því ekki annað en skellihlátur af vantrú sem kom þegar keikur krónprinsinn tilkynnti svo að nú væri allt orðið hreint og fínt, og ætti sirkusinn að fá að vera aftur aðasirkusinn í bænum, um aldur og ævi.

Flestir þeir sem horfðu á þessa sýningu fáránleikans og trúðslegrar firru með Krists-komplexa, hafa líklegast gert eitt, hrist hausinn og sagt við sig: Ég kaupi ekki framar miða á þennan sirkus,sýningin er ekki bara léle, heldur skaðleg samfélaginu.

Að lokum hef ég ákveðið að þessi sýning fái 0 stjörnur af fimm mögulegum og er áhorfendum bent á að forðast hana, ef þeim þykir vænt um heilsu sína og barna.

 


mbl.is Nýrri kynslóð treyst til verks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrjár uppákomur á vegum Borgarahreyfingarinnar sunnudaginn 29. mars

Mig langar til að benda fólki á að Borgarahreyfingin er síður en svo, að sitja kyrr, þó að tveir af fjórflokkunum séu með háflgerðar trúarsamkundur er kallast víst í auglýsingum: landsfundur. Frambjóðendur okkar og talsmenn, hafa verið á ferðalagi úti á landiog hafa þeir boðað til fundar á Akureyri nú á sunnudaginn 29. mars. Sá fundur verður haldinn í Deiglunni, Kaupvangsstræti 23 og hefst hann kl. 14.

Þar munu Herbert Sveinbjörnsson formaður flokksins og Baldvin Jónsson ritari, halda stutt erindi og eftir það verður spjallað við gesti um það sem liggur þeim hvað mest á hjarta. Einnig verða Lilja Skaftadóttir, heiða B. Heiðars og Gunnar Sigurðsson leikstjóri á svæðinu, til að svara spurningum og spjalla.

 En þessi fríði hópur mun ekki láta sér nægja þetta eitt, heldur verður svo stefnan tekinn til Sauðarkróks þar sem haldinn verður kynningarfundur í litla salnum, Aðalgötu 8. Þar munu þau kynna hreyfinguna og stefnu hennar og að því loknu, svara áhugasömum og ræða við þá um allt sem þeim liggur á hjarta.

Borgarahreyfingin lætur sér þó ekki nægja að vera með fundarhöld út á landi, heldur verður boðið upp á vöfflukaffi á morgun í kosningamiðstöð hreyfingarinnar að Laugavegi 40. Þar verður boðið upp á nýbakaðar vöfflur og verða meðlimir hreyfingarinnar til skrafs um allt mögulegt sem fólki kynni langa að vita. Allir eru að sjálfsögðu velkomnir og vonumst við til að sjá sem flesta.

Að lokum, þá yrðum við mjög þakklát ef okkar velgjörðarfólk, myndi láta alla þá sem gætu haft áhuga á þessum viðburðum vita. Kærar þakkir og vonandi sjáumst við sem flest.


Sögur að handan-með Agli Helga

Þegar ég kveikti á sjónvarpinu í dag, með kaffið í bollanum og áhugasaman páfagaukinn á öxlinni, þá blasti við mér næstu 80 mínúturnar, nokkuð sem ég átti ekki von á. Egill Helgason hafði ákveðið að bregða sér aftur til fortíðar, til þess tíma þegar yfirborðskenndir fjölmiðlamenn göspruðu eftir línum sem spunameistarar flokkana höfðu lagt þeim og stjórnmálamenn reittu af sér hvern lærða frasann úr stjórnmálaskólum flokksmaskínunar eins og páfagaukar. Enda fór sem fór, páfagaukurinn stakk af frekar snemma, sármóðgaðuir yfir því að það skyldu einhverjir skyldu vera að troða sér inn á hans starfssvið.

Þetta afturhvarf til fortíðar hans Egils fór þó brátt að minna mann á annan óhuggulegri þátt: Sögur að handan(Tales from the Crypt), þar sem Vörður Grafhýsins, sýndi okkur hryllingssögur með reglulegu millibili úr grafhýsi fortíðar. Fyrsti parturinn með fjölmðlamönnunum yfirborðskenndu dró fram myndina af því þegar prófkjör voru stórasta mál í heimi í augum þeirra og hver væri mestur og bestur þar, á meðan fjölmiðlarnir litu undan hvísli um að ýmislegt óhugnanlegt leyndist í myrkviðum bankahvelfinga sem þyrfti að bjarga almenningi frá. Ekki nægði það þó heldur voru þeir svo þekkingarlitlir eða fastir í fortíð sem endurtók sig, að þeir höfðu ekki hugmynd um að ný framboð hefðu komið fram né að sá fimmti var einnig með þing um helgina, heldur töldu að aðeins væru fjórir flokkar í boði fyrir kosningar.

Að lokum tók þó þessum hluta hryllingsþáttarins enda, þar sem svipmyndir af Draumalandi birtust, Draumalndinu sem breyst hefur í Martraðarland byggt á lygum, með dyggri aðstoð fjölmiðlamanna, sem matreiddu áróður stjórnmálamanna og fyrirtækja gagnrýnislaust ofan í almenning, og hundsuðu hrópendurnir í eyðimörkinni og hæddust að þeim. Sýnishornið rifjaði upp margar minningar af loforðum sem stóðust ekki, lygum sem stóðust ekki, taumlausri græðgi sem réð ríkjum og tíma þar sem stórfyrirtækin voru rétthærri en almenningur landsins.  Allt þetta var með dyggri aðstoð fjölmiðlastéttarinnar og skyndilega urðu fjölmiðlamennirnir á undan, naktir í yfirborðskennd sinni og úr tengslum við raunveruleikann.

Eftir stutt auglýsingahlé kynnti Vörður Grafhýsins nýja en mun lengri fortíðar-svipmyndir hryllings. Umhverfis hann sátu fulltrúar fjórflokkana, fastir í árinu 2007, og með kunnuglega takta þó ný andlit hefðu tekið við argaþrasinu að litlum hluta. Þreyttar og frasakenndarsetningar, einstrengislegar og ofstækisfullar trúarbragðajátningar voru kyrjaðar, innantóm skoðanaskipti spiluð af vel rispaðri plötu og firring réð ríkjum þar sem Verði Grafhýsins var jafnvel bannað að tala um mál, af vel greiddum erfðaprinsi sem almenningi hafði verið sagt að flokkinn myndi erfa, allt frá fæðingu hans í konungsveldi Engeyjar.

Hryllingurinn var svo yfirgengilegur á köflum að stundum þurfti maður að standa upp og ganga í burt frá sjónvarpinu til að ná óhugnaðinum niður, sérstaklega eftir að eini kvenkyns fulltrúi fjórflokkana og líklegast sá eini með snefil af samvisku, datt til hugar að ympra á máli sem almenningur er heitur fyrir: frystun eigna glæpamanna og eigum náð til baka úr skálkaskjólum uppvakningsvæddra eyðieyja í Karabíska hafinu þar sem smáhýsi tekst á dularfullan hátt að hýsa þúsundir fyrirtækja. Viðbrögði hinna handhafa myrkravalds fjórflokkakerfisins voru líka eftir því: hvað er þessi kvensa að þvæla um eitthvað sem íslenskur almenningur getur borgað fyrir vini okkar?

Þegar hryllingurinn var kominn í hámark og áhorfendanum mér var farið að líða iens og fórnarlambi í Hostel 3:Icelandic banking paradise, þá kom Vörðurinn á ný með vel tímasett endalok hryllingsins, þar sem fögur og vel sminkuð ásýnd íslenskra stjórnmálamanna, var afhjúpuð, í viðtali er fór fram hjá frændum vorum Norðmönnunum. Þar tjáði sig kona sem barist hafði við blóðsugur fjármálalífsins og spillta seiðkarla stjórnmálalífsins, með öllum þeim vopnum sem tiltæk voru. Í orðum hennar kom fram að handbendi myrkravalds fjórflokkakerfisins, höfðu ákveðið að sjúga allt blóð úr íslenskum almenningi, börnum þeirra og barnabörnum með reikningi upp á 400.000 dollara á hvert lifandi mannsbarn hér á landi. Að sama skapi sagði þessi blóðsugnabani frá því að ekki væri nóg um það heldur væru þjónar blóðsugnanna innan raða þeirra sem áttu að vernda landið fyrir þeim ófögnuði, að reyna að koma í veg fyrir að hægt væri að finna forðabúr blóðsugnanna og ná að reka þannig stjaka í gegnum hjarta þeirra, svo réttlætið næði fram að ganga og von myndi fæðast í hjörtu hinna lifandi hér á landi.

Lömunin sem fylgdi eftir þennan hriklaega seinni hluta Sagna að handan, skildi eftir í manni óhugnað og vonleysi, nokkuð sem hefur verið e.t.v. ætlun Vörðs Grafhýsins: Egils Helgasonar, sem kvaddi með þeim orðum að grafhýsinu væri lokað í bili en fyrirheit um fleiri hryllingssögur biðu okkar í næstu viku.

Vonandi verður þetta Grafhýsi fortíðar aldrei opnað aftur.


Opinn borgarafundur í kvöld kl. 20:00, í Iðnó

Langar að koma þessu á framfæri:

Í IÐNÓ, miðvikudaginn 11. mars kl 20-22.

Fundarefni
500 milljarðar til eigenda - glæpur eða vinagreiði
Frummælendur
Atli Gíslason - þingmaður
Bjarni Benediktsson - þingmaður
Björn Þorri Viktorsson - hæstaréttarlögmaður

Í pallborði verða Haraldur L. Haraldsson hagfræðingur og Jóhann G. Ásgrímsson viðskipafræðingur.
Auk þeirra hefur ráðherrum viðskipta- og dómsmála verið boðið í pallborð.
Öllum þingmönnum hefur einnig verið sérstaklega boðið.

Fyrirkomulag
Fundarform verður með sama sniði og áður, þegar frummælendur hafa lokið máli sínu er orðið gefið laust og fundargestir úr sal fá að tjá sig eða spyrja þátttakendur í pallborði spurninga.
Hver aðili hefur tvær mínútur til að tjá sig svo gott er að vera vel undirbúinn.
Spyrjum, hlustum og fræðumst.
Sýnum samstöðu og borgaralega virkni og fjölmennum á fundinn.

www.borgarafundur.org 


Kynningarfundur Borgarahreyfingar í Iðnó í kvöld


kynningarfundur

Í kvöld mun Borgarahreyfingin halda opinn kynnignarfund fyrir áhugasama, þar sem stefnan verður kynnt og rætt við fólk Herbert Sveinbjörnsson formaður, Birgitta Jónsdóttir varaformaður og Hjálmar Hjálmarsson leikar munu halda stutt erindi.

Kynningarfundurinn verður haldinn í Iðnó og eru allir áhugasmir velkomnir. Fyrir þá sem vilja kynna sér meir um framboðið, þá endilega kíkið á www.borgarahreyfingin.is.

 


Á leið í slaginn með Borgarahreyfingunni

Fyrir einu ári eða tveimur, þá hefði ég líklegast horft með djúpri vantrú og spurnarmerki, ef einvher hefði sagt við mig, að allt færi til fjandans hér á landi og að afleðingin yrði sú m.a., ég færi að taka þátt í stjórnmálum og stofnun stjórnmálahreyfingar. Þrátt fyrir áhuga minn á stjórnmálum og öðru dægurþrasi, þá einhvernveginn óaði manni við og hafði ekkert sérlega mikinn áhuga á að fara í þennan sandkassaleik og drullumallið sem honum fylgdi.

Síðan þá eins og þið vitið, hefur allt breyst. Heimsmyndin er hrunin, blekkingin hefur verið afhjúpuð og samfélagssáttmálinn rofinn. I greiði minnii og örvæntingu yfir að geta ekki gert neitt, þá stóð ég upp úr sófanum og ákvað að gera eitthvað. Ég beindi reiði minni og kröftum í jákvæðan farveg að mér fansnt, fór að starfa við borgarafundina og boltinn byrjaði að rúlla. Maður byrjaði að kynnast fullt af fólki sem maður hefði aldrei annars hitt, hlustaði á fólk og sögur þeirra, maður heyrði hluti sem rændu manni svefni og manni varð ljóst þegar maður horfði upp á hroka valdhafa, siðblindu viðskiptamanna og firru embættismanna sem áttu að gæta hagsmuna okkar, að íslensku samfélagi yrði að breyta. Annars gætum við einfaldlega kvatt þetta sker og farið.

Eftir búsáhaldabyltinguna sem blés manni von í brjóst, þá varð manni það fljótlega ljóst, að sláttur á potta, pönnur og trommu í Bónus-poka líkt og ég hafði, myndi ekki duga. Manns eigin vantrú og vantraust á að flokkarnir myndu breyta einhverju eða vildu breyta einhverju, varð fljótlega ofan á, þegar þingmenn og flokkarnir byrjuðu að færa sig hægt og rólega yfir í sama farið, með innihaldslausum rifrildum um "störf þingsins" á Austurvallar-leikskólanum. Manni sýndist að heilu mjólkurbúi yrði einnig fórnað í smjörklípur til að dreifa athyglinni frá hlutum sem þyrfti nauðsynlega að gera.

Það var því upp úr þessu öllu sem manni varð ljóst að eitt af því sem þyrfti að gera, væri að viðhalda þrýstingi inn á þingi, sem og utan þess. Hópur fólks í svipuðum hugleiðingum, héðan og þaðan úr grasrótarhópum, kom sér svo saman um það að við skyldum stofna Borgarahreyfinguna, hvað við værum öll sammála um að þyrfti að gera og skyldum stefna á þing til að reyna að gera okkar besta til að breyta samfélaginu í átt til réttlætis og aukins lýðræðis, fulljóst að okkar mun bíða mikil orrahríð frá flokkum og fólki sem hræðist valdamissi.

Ég er því á leið í framboð með Borgarahreyfingunni og með góðu fólki sem manni hefur hlotnast sú gæfa að hafa kynnst á þessum hörmungartímum sem eru rétt að hefjast. Þrátt fyrir að vita hvað mun bíða manns: óhróður, smjörklípur,skítkast og allskonar hræðsluáróður á borð við "ný framboð tryggja Sjálfstæðisflokki völdin", nokkuð sem mér finnst álíka mikil mýta og "Sjálfstæðisflokknum er einum treystandi fyrir efnahagsmálum", þá er ég tilbúinn í þetta stríð. Það er nú þannig að ef maður vill að eitthvað gerist sem maður vill að verði gert, ef maður vill að hugsjónir manns verði að veruleika og ef maður vill geta fengið trúna á íslenskt samfélag aftur, þá verður maður sjálfur að standa upp úr sófanum og taka þátt í að reyna að gera það að veruleika. Maður getur ekki treyst alltaf á að einvher annar framkvæmi þetta fyrir mann.

Þið sem viljið það sama og við í Borgarahreyfingunni, ég vona innilega að þið standið einnig upp úr sófanum og reynið að gera það að veruleika, hvort sem það er með okkur eða á öðrum vettvangi.

Ykkar er valið.

 

 

 


mbl.is Vilja gegnsætt réttlæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ósvaraðar spurningar vegna hrunsins

Þegar búsáhaldabyltingin hafði róast niður, þá var viðkomið að það kæmi skeið á meðan fólk biði og sæi hvað gerðist í framhaldi, þrátt fyrir að mörgu sé ósvarað. Greinilegt er á gjörningum eins og afskrifturm Landsbanka og Glitnis á um 60% skulda Árvaks sem Björgúlfarnir stofnuðu til, að sumstaðar er talið þetta merki um að almenningur sé orðinn þægur á ný og hægt að skella þessum byrðum á herðar þjóðarinnar.Það má ekki gerast heldur verður að halda áfram að hamra járnið, og eitt af því er að heimta svör við mörgum ósvöruðum spurningum.

 Ef maður kíkr á margt sem maður hefur verið að spyrja sjálfan sig, þá eru hér þó nokkrar spuringar og ekki tæmandi listi:

Almennt í tengslum við bankanna:

Hversvegna voru lappirnar dregnar í því að hefja rannsókn?

Hversvegna fengu stjórnendur bankanna að sitja í lengri tíma óáreittir og með fullan aðgang að gögnum?

Hversvegna er ekkert gagnsæi með afskriftir?

Hversvegna eru fyrrum eigendur gömlu bankanna, stjórnendur þeirra og aðrir, ekki komnir á válista og útilokaðir frá viðskiptum hér á landi, heldur fá að kaupa eins og t.d. Árvak með góðum afslætti?

Hversvegna er ekkert gagnsæi um hvernig meðhöndlun mála er?

Af hverju eru söluferli fyrirtæki ekki upp á borðum?

Hversvegna er ekki enn byrjað að rannsaka ásakanir um óeðlilega fyrirgreiðslu sem Davíð Oddson nefndi, né upplýst af jfölmiðlum eða bönkum? Ég hef fengið það staðfest(án nafna) að Landsbankinn hafi allavega stundað slíkt.

Landsbankinn:

Hversvegna voru hryðjuverkalögin sett á Landsbankann?

Hversvegna eru enn menn á borð við Yngva Örn Kristinnson, fyrrum yfirmann Verðbréfasviðs og núverandi yfirhagfræðingur bankans, enn starfandi í yfirmannastöðum þarna og fleiri nátengdir Sigurjóni Árnasyni?

Hvað líður annars rannsókn á óeðlilegum viðskiptum Landsbankans í tengslum við húsnæðismál, þar sem téður Yngiv Örn var ráðgjafi ríkistjórnarinnar í þeim málum?

Hversvegna var Ársæll Hafsteinsson, yfirmaður lögfræðisviðs Landsbankans, maður sem hafði verið dæmdur fyrir að leka innherja-upplýsingum til Björgúlfs Guðmundssonar, skiipaður í skilanefnd? Hversvegna var ákveðið að treysta slíkum manni?

Hversvegna gera Landsbankamenn allt til þess að koma í veg fyrir, að fólk sem tapaði á peningasjóðunum, fái aðgang að gögnum um þá?

Hvað hafa Landsbankamenn afskrifað af skuldum 30-menningana og fyrirtækja þeirra hjá sér?

Og svo eitt sem ég heyrði nýlega, og vill endilega koma í umræðuna: hvaða þingmaður eða þingmenn, hafa farið inn í Landsbankann ásamt forstjóra fyrirtækja, til að sjá til þess að viðkomandi fyrirtæki fengju fyrirgreiðslu?

Kaupþing:

Hversvegna hefur ekki enn verið hætt við afskriftir á lánum lykilstarfsmanna Kaupþings? Hversvegna hefur það verið þaggað niður?

Hvaða starfsmenn Kaupþings voru búnir að færa skuldir sínar yfir í einkahlutafélög, líkt og Frosti ReyrRúnarsson og Ingvar Vihjálmsson, og hafa þeir fengið að komast upp með það?

Hversvegna hefur ekkert verið gengið almennilega í að kanna tengsl Kaupþings-Lúxemburg við skattsvik, fjárflutnigna til Jómfrúareyja o.fl. vafasamra staða þar sem skattsvik, peningaþvætti o.fl. tengd skipulagðri glæpastarfsemi þrífst? Hver er staðan á þeim málum?

Hversvegna fékk Robert Tscengis 107 milljarða króna yfirdrátt og hverjir aðrir hafa fengið slíkt?

Glitnir:

Hversvegna situr Birna Einarsdóttir ennþá sem bankastjóri? Hversvegna var henni ekki vikið frá eftir að upp komst með "gleymda hlutinn"?

Af hverju fékk fyrrum eigandi bankans að kaupa Árvak með góðum afslætti, og fleiri aðilar tengdir Glitni?

Hversvegna hefur enginn verið handtekinn eða vikið vegna Stím-málsins, og hvað er að frétta af því?

Hversvegna er enn margir lykilmenn úr Gamla Glitni enn starfandi í Nýja Glitni?

Hversvegna var Árni Tómasson, settur í skilanefnd Glitnis þrátt fyrir dóminn sem hann hlaut með Ársæli Hafsteinssyni fyrir að leka innherja-upplýsingum til Björgúlfs?

Annað í tengslum við fjárfestingar og fjárfestingafélög:

Hvað töpuðu lífeyrissjóðir miklu á fjárfestingum í bönkunum, hver voru tengsl stjórnarmanna og hverjir tóku ákvörðunina um að fjárfesta í vafasömum fyrirtækjum á borð við Exista?

Hversvegna hefur ekkert verið gruflaði í því að þrír lífeyrissjóðir voru látnir fjárfesta í Exista snemma a síðasta ári þegar fyrirtækið virtist í vandræðum? Allir þessir sjóðir hafa þurft að skerða greiðslur og einn af stjórnameðlimum eins sjóðsins var Vilhjálmur Egilson, formaður SA. Hversvegna hefur hann ekki verið spurður út i þetta?

Hversvegna er ekki búið að upplýsa hvaða fyrirtæki og auðmenn, tóku stöðutöku gegn krónunni?

Hversvegna fékk Viðskiptaráð 90% af tillögum sínum um viðskiptalífið í gegn hjá stjórnvöldum og hversvegna sitja enn margir gerendur hrunsins í forsvari fyrir það?

Hversvegna er ekki verið að rannsaka endurskoðendaskrifstofurnar, þátt þeirra og lögfræðistofna í hruninu?

Af hverju er ekki veirð að rannsaka þátt Tryggva Þórs Herbertssonar í tengslum við Mishkin-skýrsluna?

Hversvegna er ekki byrjað að rannsaka Gift-málð?

Hversvegna er ekki einnig byrjað að rannsaka Byr og ýmislegt vafasamt í tengslum við eignarhald á því?

Hversvegna hefur Inga jóna, eiginkona fyrrum forsætisráðherra og fyrrum stjórnarmaður í FL Group, ekki veirð spurð út í hvað fór þar fram?

Stjórnvöld:

Hversvegna gripu stjórnvöld ekki í taumana þegar ljóst var hvert stefndi snemma árs 2008?

Hversvegna var ekkert gert varðandi IceSave, af hálfu stjórnvalda?

Hversvegna er ekki gengið í egur Björgúflsfeðga hér á landi og erlendis vegna IceSave?

Hversvegna lánaði Seðlabankinn Kaupþingi, þegar Seðlabankastjóri sagðist hafa varað við bankahruninu? Var það ekki einstaklega óábyrgt?

 Hversvegna verða gögn "rannsóknanefndar þingsins" eða hvítþvottanefndar réttara sagt, ekki gerð öll opinber?

Hversvegna hefur ekkert verið birt úr skýrslum endurskoðenda um bankanna, heldur falið sig á bak við bankaleynd?

Hversvegna er ekkert byrjað að rannsaka af hálfu lögreglu eða slíkra aðila, hvort Baldur Guðlaugsson hafi staðið í innherjaviðskiptum?

Hversvegna hefur það ekkert verið rannsakað né upplýst hvað gerðist þegar Seðlabankinn festi gengið um tíma við evruna í október? Ég hef heimildir fyrir því að það var ekki gert í samráði við hagfræðinga bankans sem urðu fyrst varir við það á visir.is, og að gjaldeyrissjóður bankans, hafi nær því klárast. Hverjir fluttu fé út úr landi á þeim stutta tíma?

Hversvegna er ekki verið að rannsaka tengsl stjórnmálaflokka við bankanna og hvort þeir hafi þegið fé í tugmilljónatali í gegnum skúffufyrirtækin?

Hversvegna er ekki veirð að hjóla í stjórnmálamenn um að fá raunverulega stöðu þjóðarinnar upp á borðið?

Hversvegna hefur ekk enn verið gengið hart í það að frysta eiginir auðmanna og lykilstjórnenda bankanna, þegar fordæmi eru til fyrir því með haldlagningu á fé hælisleitenda?

Af hverju var hætt við að fá erlenda sérfræðinga og allt kapp lagt á að þetta yrði innlendir aðilar, valdir af fjórflokkunum?

Hversvegna er rannsókn hindruð innan stjórnkerfisins af "eftirlitsstofnunum"?

Samkvæmt mínum heimildum þá mun rannsóknafé til saksóknararns, duga skammt ef það á að gera alvöru rannsókn, vegna kostnaðar við tæki, tól og erlenda sérfræðinga í endurskoðun vegna fjármálaglæpa. Hversvegna er það fé svona lítið?

Hversvegna var ákveðið að skera niður fé til efnahagsbrotadeildar þrátt fyrir að augljóst væri að nú þyrfti þess meir en áður? 

Og að lokum, hvað varð um allt gagnsæið, allt upp á borðum, hverjum steini velt við, ekki neinu leynt og allur sannleikurinn kæmi í ljós?

Læt þetta nægja í bili en endilega, bætið við ósvöruðum hlutum og höldum svona á lofti. Þetta má alls ekki gleymast né mega bankarnir og klíkurnar sem tengjast þeim, að byrja að haga sér á sama hátt aftur líkt og er byrjað að örla á. 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Opinn borgarafundur 16. febrúar í Háskólabíó

Nú er komð að næsta borgarafundi hér í bænum og ætlunin er að smala ríkistjórninni inn í húsið til að ræða málin ásamt fulltrúum stjórnarandstöðuflokkana á þingi. Er markmiðið að ræða hver hin raunverulega staða er og hvert við stefnum og mælist ég til að fólk mæti vel undirbúið með spurningar. Þrír frummælendur eru og einn þeirra var í Silfri dagsins: Haraldur L. Haraldsson.

 Hér er opinbera tilkynningin frá Borgarafundinum og bendi ég á heimasíðu okkar www.borgarafundur.org þar sem má finna myndir, myndskeið o.fl. frá fundunum.

 

Opinn borgarafundur #10

Í Háskólabíó, mánudaginn 16. febrúar kl 20-22.

Fundarefni

Staðan - Stefnan - Framtíðin


Frummælendur

  • Haraldur L. Haraldsson - hagfræðingur
  • Andrés Magnússon - geðlæknir
  • Aðalheiður Ámundadóttir - laganemi

Auk þeirra hefur ríkisstjórn Íslands og formönnum þeirra þingflokka sem ekki eiga aðild að ríkisstjórn verið boðin þátttaka í pallborðsumræðunum.

Öllum þingmönnum hefur einnig verið sérstaklega boðið.


Fyrirkomulag

Fundarform verður með sama sniði og áður, þegar frummælendur hafa lokið máli sínu er orðið gefið laust og fundargestir úr sal fá að tjá sig eða spyrja þátttakendur í pallborði spurninga. Hver aðili hefur tvær mínútur til að tjá sig svo gott er að vera vel undirbúinn.

Spyrjum, hlustum og fræðumst.

Sýnum samstöðu og borgaralega virkni og fjölmennum á fundinn.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

AK-72

Höfundur

AK-72
AK-72
Með óþrjótandi áhuga á kvikmyndum, sögu og stjórnmálum.Telur sig hafa fullt frelsi til að hrósa og gagnrýna hvern sem er og hvenær sem er.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...1212_913482
  • ...ner1_568492
  • ...rad-banner1
  • Screenshot

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.5.): 4
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 123179

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband