Færsluflokkur: Bloggar

Eru nafn og myndbirtingar hin íslenska aftaka?

Fyrir örfáum árum síðan þá braust út ofsareiði meðal almennings í garð DV, vegna sjálfsmorðs manns sem blaðið hafði birt nafn og mynd af. Maðurinn hafði verið grunaður kynferðisrotamaður en nafnbirtingin virtist þó þegar öll kurl komu til grafar, ekki vera sá faktor sem réð þessari ákvörðun. Umræðan sem spannst í kjölfarið þar sem fórnarlömb mannsins höfðu m.a. orð á því að þessi blaðaumfjöllun og afleðingar hennar, hefði orðið til þess að eyðileggja málið gegn manninum og því myndi aldrei sannleikurinn ná að koma fram.  Í kjölfarið á þessu máli þá var hætt að birta nafn og mynd af grunuðum einstaklingum og féll málið í gleymsku fyrir utan það að menn töluðu við og við um fréttamennsku DV í fyrirlitningrtón.

En líkt og annað, þá virðist svona ferli fara í hringi. Nú nýverið hefur það verið að ágerast hjá fjölmiðlum að birta nöfn og myndir af grunuðum einstaklingum og helst draga í viðtal til að fá áhorf eða lestur og hafa Fréttablaðið og Stöð 2 verið harðast að manni finnst í þessari athyglisleit sinni. Í fyrstu voru það myndir eingöngu birtar af útlendingum því líklegast hefur þótt viðkomandi fréttamönnum og ritstjórum það þægilegast því þeir geta ekki varið sig né líklegri til að eiga ættingja sem gæti þótt það sárt að sjá umfjöllunina í fréttum og í framhaldi á blogg-síðum eða spjallvefjum. 

En loks kom að því að það var ekki nóg og nú um helgina birtist frétt um prest og sagt að verið væri að kæra hann vegna kynferðisbrota og nafn hans og mynd birt. Reis upp þá æstur múgurinn sem álítur grun samansem sekt og greip sér heygaffla og kyndla í hönd sem hjá nútímamanninum finnst í formi lyklaborðs og Internet-tengingar. Í framhaldi má segja að viðkomandi prestur hafi gersamlega verið hengdur og það allt út frá einni frétt um mál sem er ekki búið að rannsaka. Fáum virðist hafa dottið það til hugar að kæra jafngidli ekki dómi í málnu sem óljósar upplýsingar voru til um. Að sama skapi má segja að þó að málið myndi falla niður vegna þess að sannanir skorti t.d. þá er ferill mannsins og orðspor ónýtt um aldur og ævi, búið er að hnýta reipið í formi sleggjudóma almennings.

Sami almenningur virðist oft gleyma því að grunaðir einstaklingar eiga einnig fjölskyldur sem eiga jafn erfitt út af málum og fjölskyldur fórnarlamba. Ég þekki slíkt dæmi frá konu sem ég vann með og var náskyld manni sem framdi glæp. Í kjölfar áfallsins fyrir fjölskylduna sem var í áfalli yfir því að viðkomandi skuli hafa framið slíkan glæp, þá reyndi það mjög svo andlega á viðkomandi konu sem þurfti að heyra og sjá umfjallanir um málið. 

Í framhaldi af þessu þá fór maður að velta fyrir sér enn og aftur, um réttlætingu nafn- og myndbirtinga í okkar litla samfélagi. Mynd- og nafnbirtingar eru oft á tíðum réttlætar með því að verið sé að benda á hættulega ofbeldismenn, nauðgara og barnaníðinga, nokkuð sem er erfitt að færa rök gegn, þegar menn á borð við Steingrím Njálsson eiga í hlut. Að sama skapi veitir það ákveðið aðhald að almenningur sé látinn vita af því þegar opinberir aðilar fara glæpsamelga með fé líkt og Árni nokkur Johnsen og miðað við okkar samfélag þá er það nauðsyn að lsíkt frétti fólk, vegna þöggunaráráttu stjórnmálamanna á gjörðum flokksbræðra sinna. Einnig getur verið þörf á því að fólk viti að það sé að eiga í viðskiptum við þekkta fjárglæframenn eða vafasama viðskiptamenn t.d. þegar kemur að fasteignaviðskiptum og öðrum hlutum þar sem það leggur aleiguna undir.

En slæmu hliðarnar eru margar þegar litið er til okkar litla samfélags. Útskúfun manna verður algjör oft á tíðum fyrir það að vera grunaðir um hryllilega glæpi þó svo að á endann reynist þeir saklausir, íslensk þjóðarsál er einstaklega dómhörð án sannana og smjattað er oft á tíðum á sögum um viðkomandi um langa tíð. Að sama skapi eru fréttamenn of æstir í að halda vinsældum og keppni, að þeir virðast ekki dómbærir á að beita því tvíeggja sverði sem þetta er, og nöfnum og myndum skellt fram án þess að bíða eftir frekari upplýsingum um málin. Einnig má segja að duttlungar ráði oft ferð eða ótti við stjórnmálamenn og peningamenn því á meðan skellt er fram myndum af grunuðum þá er ekki fjallað um samviskulausa fjárlglæpamenn sem hrekja fólk út úr húsum eða nöfn slíkra persónna birt opinberlega í fjölmiðlum, jafnvel þó viðkomandi hafi verið dæmdur og nafngreindur fyrir rétti.  

Að lokum má segja það, að spurningin um réttmæti nafn- og myndbirtingar sé ekki hægt að svara með einföldu já eða nei. Því miður verða þó fjölmiðlar að læra að meðhöndla þetta tvíeggja sverð með ábyrgð og varfærni hvort sem það erí formi vinnureglna eða almennrar siðferðisvitundar og einnig því að við búum í litlu samfélagi þar sem sleggjudómarar hengja menn byggða á fyrstu fréttum óháð sönnunum í málum hvort sem það er prestsmálið eða Lúkasarmálið.

Það gæti nefnilega komið að því einn daginn að einhver saklaus svipti sig lífi eftir heykvíslar bloggara og ábyrgðarlausa fréttamennsku fjölmiðla. Ef svo færi, hvern ætti að kæra fyrir morð?


Heimildarmyndaklúbburinn Hómer

Nú þegar styttist í heimildarmyndahátíðina Skjaldborg á Patreksfirið, þá flaug upp í hausinn á mér hvort það væri ekki óvitlaust að kynna Heimildarmyndaklúbbinn Hómer sem ætlar að mæta á hátíðna til að fylgjast með, ræða við heiðursgestinn Albert Maysles en hann og bróðir hans hafa sett sitt mark á kvikmyndasöguna með myndum sínum, ásamt því að klúbburinn sér þarna tækifæri á að hrinda heimsvalastefnu sinni í framkvæmd....úpps, ég kjaftaði kannski af mér.

 En hvaða félagsskapur er þetta og hvað gerir hann? Heimildarmyndaklúbburinn Hómer spratt upp úr hópi áhugasamra manna um kvikmyndir og heimildarmyndagerð, sem bæði tækifæri til að hitta félagana og svo til þess að sjá eitthvað spennandi fyrir þennan hóp bjór- og fróðleiksþyrstu manna. Herbert Sveinbjörnsson sem ásamt Guðmundi Erlingssyni(einnig klúbbmeðlimur) stóðu á bak við heimildarmyndina Tímamót, er forsprakki og einræðisherra klúbbsins(stundum er einræði gott þegar kemur að félagstarfi) og stjórnar með harðri hendi dagskránni sem hann velur af einstakri list. Yfirleitt er horft á 2 myndir í fullri lengd og oft á tíðum eru þetta eitthvað þema sem hægt er að tengja saman, þó ekki sé alltaf svo. Í framhaldi af áhorfi kvöldsins er oft spjallað um efni og fleira sem þróast út frá samræðunum og hafa klúbbar staðið eitthvað framyfir miðnætti þegar mesti hamurinn er í mönnum eftir áhorfið, og margt skemmtilegt og fróðlegt flakkar í bland við dægurmálin.

En Hómer er ekki lengur ósýnilegur í dimmum sjónvarpsherbergjum þar sem myrkraverk um framtíð heimsins og heimsyfirráð eru rædd, heldur er hann farinn að láta á sér kræla á opinberum vettvangi. Nú nýverið þá fékk Sigríður Pétursdóttir kvikmyndafræðingur, Hómer til að flytja pistla um áhorf sitt, í þætti sínum Kvika á Rás 1 og ef alt gengur að óskum þá verða reglulegir pistlar fluttir þar, sem meðlimir semja og útbúa fyrir flutning. Einnig hefur klubburinn komið sér upp heimasíðu sem verður bloggað á frá Skjaldborg þar sem einnig verður tekið viðtal við hinn merka Albert Maysles, ef allt gengur að óskum.

Að lokum ælta ég að láta fylgja með nýjasta pistil klúbbsins úr kviku. Til ábenidngar má benda á að þar sem stendur SB, þá þýðir það að þarna eigi að koma hljóðbrot úr viðkomandi mynd og er þá þýðingin strax á eftir.

 "

Nader og Schwarzenegger - Pistill

Heimildamyndaklúbburinn

Hómer

Kynnir

útvarpsumfjöllun um myndirnar:

An Unreasonable Man eða Ósveigjanlegur maður

eftir Henriette Mantel og Steve Skrovan

frá 2006

og

Running With Arnold eða Boðið fram (eða hlaupið) með Arnold

eftir Dan Cox

frá 2006

3.maí.2008

An unreasonable man

SB #1

„Takk Ralph fyrir Íraksstríðið, takk Ralph fyrir skattalækkanirnar, takk Ralph fyrir eyðilegginguna á umhverfinu og fyrir eyðilegginguna á stjórnarskránni.

Þetta er verra enn barnalegt þetta jaðrar við íllsku.

Mér finnst að maðurinn verði að fara, hann ætti að búa í öðru landi. Hann er búinn að valda nægum skaða hér nú er komið að einhverju öðru landi.

Ralph, snúðu þér aftur að afturendum bifreiða ekki eyðileggja möguleika Demokrata á forsetastólnum aftur líkt og þú gerðir fyrir fjórum árum.“

Þessi upphafsorð lýsa þeirri mynd sem dregin hefur verið upp af neytendalögfræðingnum Ralph Nader frá því að úrslit í bandarísku forsetakosningunum árið 2000 voru kunngerð. En er þetta hin rétta sýn á manninn? Það er umfjöllunarefni myndarinnar An unreasonable man eða Ósveigjanlegur maður.

Hinn líbanskættaði Nader vakti fyrst athygli á sér þegar hann skrifaði bók þar sem hann gagnrýndi bandarískan bílaiðnað harkalega fyrir lélegar öryggiskröfur og gallaða bíla sem fyrirtækin settu á markað, í fullri vitneskju um hversu léleg og hættuleg hönnunin væri.

Ekki voru þessi risafyrirtæki hrifin af baráttu Naders fyrir öryggi bíleigenda og fljótlega fór honum að finnast sem hann væri eltur. Einnig fór að bera á dularfullum símhringingum og heimsóknum ókunnugra manna til vina Nader, í þeim tilgangi að fræðast um einkalíf hans. Þá birtist skyndilega glæsileg kona í matvöruverslun sem gekk upp að honum og vildi eiga við hann samræður um stjórnmál. Konunni var þó ekki ætlað að eiga samræður við Nader heldur átti hún að tæla hann til samræðis svo hægt væri að þagga niður í honum með svo sem einu kynlífshneyksli.

Umfjöllunarefni bókar Naders endaði fyrir þingnefnd þar sem bílafyrirtækin játuðu sig sigruð og báðust afsökunar á framferði sínu í hans garð.

SB#2

„Ég vil biðja nefndina afsökunar sem og Ralph Nader og ég vona að afsökunarbeiðnin verði tekin til greina.“

Þessi sigur Naders gegn bílaframleiðendum varð svo til þess að alríkislög um öryggiskröfur í bílum og umferð voru sett árið 1972.

En baráttu Naders fyrir hagsmunum neytenda og almennings var hvergi nærri lokið. Nader, sem eyðir 18 stundum á dag í hugsjónabaráttu sína, fór þannig að sanka að sér fólki sem var tilbúið til að leggja hönd á plóginn. Það fólk öðlaðist fljótt nafnbótina Nader‘s raiders eða Víkingar Naders og einbeitti sér að baráttu fyrir hag neytenda með því að kafa í gögn og vekja athygli á spillingu ýmissa aðila. Harkaleg gagnrýni Naders og samstarfsfélaga varð þannig til þess að mörgum lögum var breytt til hins betra ásamt því sem neytenda-, vinnu- og umhverfisvernd jókst. Má e.t.v. segja að uppeldi Naders, þar sem faðir hans úthlutaði honum pólitískum verkefnum á hverjum morgni sem kröfðust gagnrýninnar hugsunar og verja þurfti að kveldi, hafi skilað þessu árangursríka framlagi Naders til hagsbóta fyrir almenning.

SB#3

„Á hverjum morgni fyrir skóla tilkynnti pabbi Ralphs umræðuefni sem átti að ræða yfir kvöldmatnum.

Til dæmis, við ætlum að ræða um bílastæðavandamál við aðalgötuna. Þannig að við reyndum að finna lausn á bílastæðavandanum.“

Í stjórnartíð Jimmy Carters fór að síga á ógæfuhliðina hjá Nader sem hafði stutt Demókrata dyggilega í gegnum tíðina. Hann hafði ávallt talið að málefni hans ættu góðan hljómgrunn hjá Demókrötum, en þegar á reyndi var það mest í orði. Með valdatöku Regans hófst svo niðurrif á öllu því sem Nader hafði barist fyrir. Niðurrif sem varð til þess að stofnanir sem ætlað var að hafa eftirlit með fyrirtækjum og sinna réttindum neytenda voru stórlaskaðar og ekki svipur hjá sjón þegar valdatíð Clintons hófst. Valdataka Clintons breytti þó litlu fyrir þennan ötula baráttumann. Demókratar höfðu nefnilega dottið ofan í sömu gryfju og Repúblikanar og voru orðnir hallir undir ýmis fyrirtæki vegna ríflegra styrkja í kosningasjóði. Hugsjónir þær sem Nader gat tengt sig við á þeim bæ voru því horfnar.

Í gegnum tíðina hafði Nader oft verið spurður að því hvort hann myndi skella sér í forsetaframboð en ávallt svarað því neitandi. Að lokum var forsetaframboð þó hið eina sem hann sá í stöðunni til að vekja athygli á baráttumálum sínum eða fá þeim framgengt. Ákvörðun um framboð til forseta fyrir hönd Græningja var því tilkynnt.

SB#4

Eins og þið vitið ætla ég að bjóða mig fram til forseta sem óháður frambjóðandi í öllum fylkjum. Mikilvægast er að forsetaframbjóðendur taki tillit til fólksins, því þessir frambjóðendur hafa ekki staðið sig lengi. Flokkarnir tveir hafa ekki staðið sig, það þarf að hrista upp í þeim og halda þeim á tánum.“

Kosningabarátta Naders fór að mestu fram í stórum samkomuhúsum þar sem leikarar og þekktir listamenn komu fram til stuðnings honum. Þar á meðal Susan Sarandon leikkona og Michael Moore kvikmyndagerðamaður.

SB#5

Þið verðið að skilja að snýst um meira en að sigra, þetta snýst um heildamyndina og hér byrjar heildarmyndin. „

„Við erum þar sem við erum því að við höfum sætt okkur við svo lítið svo lengi. Ef við höldum því áfram versnar þetta bara, ef þú sættir þig við skárri kostin af tveimur íllum endarðu samt uppi með vondan kost.“

Fjölmiðlar vildu sem minnst vita af honum vegna tengsla eigenda þeirra við annað hvort Demókrata eða Repúblikana og var Nader því skipulega haldið í burtu frá þeim. Þessi kæfing á málfrelsi Naders náði þó fyrst hámarki þegar kom að kappræðum forsetaframbjóðendanna. Þar komu stóru stjórnmálaflokkarnir ekki einungis í veg fyrir þátttöku hans, því þegar háskólanemi gaf honum miða á kappræðurnar sjálfar svo hann gæti fylgst með, fékk fylkislögreglan fyrirskipanir um að meina honum aðgang.

En svo fór sem fór. Bush vann og í biturð sinni yfir ósigrinum fundu demókratar sér blóraböggul í Nader. Honum var kennt um ósigur Gore og allsherjar rógsherferð fór af stað gegn honum.

En var tapið honum að kenna? Þegar litið er nánar á þær fullyrðingar í myndinni kemur annað í ljós.

SB#8

„Allir frambjóðendurnir fengu fleiri enn þessi 537 atkvæði sem skildu að Bush og Gore Demokratar fóru að leit að blóraböggli sem þeir fundu í Nader Og litu framhjá staðreyndinni að 10 milljón Demokratar kusu Bush.“

Þetta varð þó Nader einnig dýrkeypt á annan hátt. Margir snéru við honum baki og ósættir við nána samstarfsmenn í gegnum tíðina ollu vinslitum. En ótrauður hélt hann áfram og bauð sig fram aftur árið 2004 við lítinn fögnuð þeirra sem gleypt höfðu við þeim áróðri að hann hefði stuðlað að valdatöku Bush.

SB#7

„Þegar þú ferð inn í kjörklefann og hugsar, mér mun líða vel að kjósa Ralph Nader, því að hann er hreinn og ég er hreinn og mig langar að líða vel. Þannig að ég ætla að kjósa Nader. Hlustið vinir, foreldrar ykkar hljóta að hafa kennt ykkur að fyrir fimm mínútna vellíðan þurfið þið að borga fyrir alla ykkar ævi.“

Við lok myndarinnar um þennan hugsjónamann koma upp í hugann skilgreiningarnar sem birtar eru í upphafi. Þær segja að sveigjanlegur maður aðlagi sig heiminum, en að ósveigjanlegur maður aðlagi sig ekki heiminum heldur reyni að aðlaga heiminn að sér. Til þess að framfarir verði í samfélaginu þurfum við ósveigjanlega menn. Nader sé hinn ósveigjanlegi maður.

Running with Arnold

SB#8

„Viltu í alvöru fá leikara í framboð til ríkisstjóra. Hver er betri en leikari einhver sem hægt er að leikstýra og getur farið eftir handriti. Hann hefur einfaldningslegan sjarma sem gæti höfðað til kjósenda en hann er gangandi sviðsmynd.“

Þegar stórstjarnan Arnold Schwarzenegger bauð sig fram til ríkisstjóra Kaliforníuríkis í Bandaríkjunum i þeim tilgangi að bola demókratanum David Gray frá völdum, varð uppi fótur og fit. Í myndinni Boðið fram (eða hlaupið) með Arnold eða á ensku Running with Arnold, er farið yfir feril hins metnaðargjarna Arnold Schwarzenegger sem ungur að aldri fékk áhuga á vaxtarrækt. Vaxtarræktin varð brátt aðaláhugamál hans og gekk það svo langt að hann strauk úr hernum til að geta tekið þátt í keppni. Eftir að hafa sankað að sér titlum í greininni flutti Schwarzenegger til Bandaríkjanna með 20 dollara í vasanum og stóra drauma. Eins og flestir vita náði hann miklum frama í kvikmyndum og varð að stórstjörnu, en þar fyrir utan auðgaðist hann mikið á líkamsræktarstöðvum og fasteignaviðskiptum. Við þetta bættist að hann giftist inn í Kennedy-fjölskylduna. Arnold varð því eins konar holdtekja ameríska draumsins.

En hugur Arnolds stefndi einnig inn í stjórnmálin og tengist myndin að mestu þeim heimi. Farið er yfir skuggalegri hliðar Schwarzenegger: framhjáhöld, vinskap við fyrrum nasista, kynferðislega áreitni, heimskuleg ummæli og sú mynd dregin upp að hann sé tækifærissinnaður maður sem geri hvað sem er fyrir frægð og frama.

Þeirri einsleitu mynd sem dregin er upp af Arnold er ætlað að fá áhorfendur til að halda að hann sé holdgervingur illskunnar. Myndin er þannig í raun rógsherferðarmynd dulbúin sem heimildarmynd og er því gott dæmi um að áhorfendur þurfa einnig að vera gagnrýnir á heimildirnar og samsetningu þess efnis sem fyrir augu ber. Þótt sannleikur kunni að leynast í þeim ásökunum sem á Arnold eru bornar, er matreiðslan þannig að gagnrýnir áhorfendur efast um gildi ásakananna og grunsemdir um hálfsannleik naga þá.

SB#9

Hasta la vista baby

Þegar á heildina er litið gefa báðar myndirnar ágætis sýn inn í bandaríska stjórnmálaveröld, þótt á ólíkan hátt sé. Myndin An unreasonable man gefur manni þá sýn að þó að hugsjónamenn séu ötulir þá séu það fyrirtækin og peningarnir sem ráði ferðinni og veiki stoðir lýðræðisins illilega. Hin myndin gefur manni innsýn í þá skuggahlið bandarískrar kosingabaráttu þar sem persónuárásir ráða ríkjum en málefnin gleymast eða falla í skuggann. Í þessum skúmaskotum ráða gamlar slúðursögur úrslitum frekar en það hvort menn hafi eitthvað fram að bera til hagsbóta fyrir almenning. Að sama skapi má segja að myndirnar endurspegli þann sorglega raunveruleika að tækifærissinnaðir athafnamenn á borð við Arnold, sem hugsa um þrönga hagsmuni þeirra sem gefa í kosningasjóðinn, séu búnir að ryðja hugsjónamönnunum í burtu til að setjast sjálfir að kjötkötlunum.

 

Það var heimildamyndaklúbburinn Hómer sem færði ykkur þennan pistil. Okkur er að finna á slóðinni www.hmk-homer.com.

Góðar stundir, klaufabárðar."

 


Að pirra smáborgaranna

Ég get ekki annað en glott út í annað út af þessari kvörtun þar sem ég bý í grennd við þar sem þessi list berst um. Ég steinsvaf í gegnum þetta bænakall eftir öll drykkju- og skrílsslætin sem ómuðu um hverfið höfðu haldið mér vakandi og voru þau nú frekar mikil í nótt eða allavega til um þrjú en þá náði ég loks að sofna. Á tímabilinu 1-3 þá mátti heyra röfl í íslenskum, háværum fyllibyttum út á götu, syngjandi og öskrandi einhvers staðar standaindi en barst kvörtun út af því? Nei, það virðist ekki vera og ekki nennti ég að hringja og kvarta því íslensku bytturnar fara fyrir rest, jafnvel þó þær hafi staðið þarna í hálftíma.

Nokkrir háværir búmm-búmm bílar með græjurnar í botni ruku einnig framhjá eða stoppuðu, væntanlega svo kraftmiklu bassarnir gætu hrist heilaselluna í hnakkanum við stýrið, í gang fyrir eða eftir bjórdrykkju kvöldsins eða hentu út bjórflösku á ferð. En kvartaði ég eða nokkur annar? Nei, þetta eru hefðbundin læti og eitthvað sem fylgir hnakka-þjóðflokknum. 

Einnnig ómuðu drykkjulæti, skvaldur og tónlist úr partý sem virtist vera haldið í garði eða út á svölum/götu, og var enn í gangi þegar ég sofnaði. Hafði nokkur kvartað? Nei, allavega ekki ég né nokkur annar að því virtist heldur var þetta nú hefðbundið íslenskt partý sem flestir líta framhjá og breiða bara koddann yfir hausinn til að sofna.

En þegar heyrist múslimskt bænakall í ca 2-3 mínútur, þá veðrur allt vitlaust í kjötheimum og bloggheimum, smáborgararnir eiga ekki orð af hneykslun  yfir múslimskum og rjúka í símann til að kvarta, jafnvel þó þeir hafi hundsað líklega drykkjulæti og aðra trúarlega dýrkun hins venjulega Íslendings á djammlífinu. Granni minn sagðist hafa rumskað við þetta í nótt og þetta hefði hvorki verið minna né meira en læti íslensku fyllibyttnana sem ganga framhjá á nóttinni í hverfinu, og steinfosnafði hann aftur. Ég aftur á móti steinsvaf sjálfur í gegnum þetta og hrökk svo upp hér við vélsagar og slípirokkshljóð sem hafa haldið hverfinu vakandi frá því upp úr hálf níu til níu í morgun.

En er kannski einmitt einnig smá gjörningur í þessu hjá listamanninum? Að ætlunin hafi verið einmitt að sýna framá hræsni og hneykslun smáborgaranna þegar kemur að múslimum á sama tíma og brjáluð drykkulæti eru í bænum og varla svefnfrið að fá. Um leið og orðið múslimi heyrist þá rjúka margir upp til handa og fóta og að hætti íslenskra sleggjudómara úr sma´borgarastétt, þá er skrifuð heilu bloggin um hvað múslimar eru voðalegir, að þeir eigi ekki að fá mosku svo þeir trufli ekki vodka í kók-drykkju þeirra o.sv.frv. Pirringur smáborgaranna verður svo augljóselga sýnilegur þegar hljóðmengun í næsta nágrenni er látinn óátalinn vegna þess að það er bara Nonni og Gunna að halda partý og þau mega það, en þegar það kemur "vondi hryðjuverkamaðurinn"(stimplun sleggjudómara á öllum múslimum) að ákalla Allah til að menga okkar íslenska, hreina eyra í smástund, þá verður allt vitlaust.

Aftur á móti, þá mætti nú listamaðurinn eftir þessar kvartanir, færa bænaköllin til svo að þau séu innan marka laga, þ.e. hafa þetta innan þeirra reglna sem fjalla um hávaða og framkvæmdir og láta semsagt bænakallið vera klukkan 7 á virkum dögum, 8 á laugardögum og 9(eða 10?) á sunnudögum. Reyndar yrði það flott að hafa það á sama tíma á sunnudögum þegar Hallgrímskirkja byrjar að æra heilan bæjarhluta, yrði skemmtileg hljóðblanda.

Það þarf nnefnilega að taka tillit til smáborgaranna líka, jafnvel þó þeir séu eins og versta mávager . 


mbl.is Kvartað til lögreglu yfir bænakalli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óboðnir gestir og "öryggisúttekt"

Langaði til að deila þessari sögu með ykkur sem tilbreyting frá argaþrasi stjórnmála og dægurmála, enda er þetta ekta saga sem ratar ekki í blöðin þó í henni leynist örlagafólk og mannlegir harmleikar með skammti af smáhúmor.

Fyrir tveimur vikum síðan þá hrökk ég upp um miðja nótt við það að svefnherbergið mitt sem snýr að götunni, var orðið bjart. Ég nuddaði stýrurnar úr augunum og kíkti út um rifu á glugganum og sá að þar voru tveir sjúkrabílar fyrir utan og lögreglubíll. Eftir smástund sá ég hvar sjúkraflutningamennirnir báru einhvern út lífs eða liðinn úr kjallaranum hjá mér(virtist þó ekki vera trukkabílstjóri með tilliti til lögreglunnar) og fóru í burtu. Ég heyrði lögreglunna ræða við einhvern fyrir utan og ein af fáum setningum sem ég heyrði var:"Hvernig komst hann inn?" og svarið var að dyrnar hefðu líklegast verið opnar. 

Útidyrnar að framan höfðu verið í ólagi í einhvern tíma og það þurfti alltaf að gefa sér smátíma í að þrýsta/taka í hana, svo dyrnar skyllu í lás. Því miður er það svo að þegar maður býr í húsi þar sem nær því allir íbúar í dag eru leigjendur, þá er eins og það viðgangist allsherjar kæruleysi hjá flestum nema þeim sem eru meðvitaðir um hættuna af því að geta hleypt inn gestum og gangandi.

Við þetta kviknuðu grunsemdir hjá mér. Helgina áður hafði ég heyrt svefnhljóð fram á gangi og tengdi það við að einhver hefði komið lyklalaus heim og sofnað frammi, enda ekki skrítið miðað við að það voru tvö partý í húsinu kvöldið áður. Önnur tenging varð einnig til þar sem ég hafði 1-2 fundið sterka áfengislykt sem angaði um stigaganginn að morgni til og tengdi það við þær grunsemdir að útigangsfólk væri byrjað að lauma sér inn í hlýjuna í þvottahúsinu. Grunsemdir mínar fengust svo staðfestar tveimur dögum síðar þegar ég heyrði um laugardagsmorgun, hóstað reglulega á stigaganginum og bingó, einn vesalingurinn laumaði sér út um bakdyrnar stuttu síðar. Fyrstu viðbrögð eftir það voru að rjúka niður og skoða umgengnina, ein Sprite hálffull, skilinn eftir, en engin önnur merki um umgang. Greinilegt að þarna var á ferð einhver sem gerði sér grein fyrir því að til að skjólið yrði lengur þá mætti ekki sjást ummerki og virtist nú vera einn af þeim meinlausu sem eru á götunni.

Viðbrögð mín voru við það fyrsta að skella upp miða til að vara íbúa við og ítreka að útidyrnar þyrftu að vera læstar, svona á meðan maður væri að reyna að ná í eigendur og gera ráðstafanir um að taka á dyramálinu. Þeir fáu sem ég náði í fljótu bragði, urðu sammála um að redda smiði og græja þetta þannig að það yrði mannhelt því þó flestir af þeim útigangsmönnum séu meinleysisgrey þá eru fyrir það fyrsta ekki allir meinlausir, sprautufílarnir tilbúnir að selja ömmu sína fyrir næsta skammt og einnig áhætta með eld og fleira sem maður er að taka ef maður veit af þessu. Síðasta vetrardag var svo hjólað í að græja þetta en þó ekki fyrr en eftir eina skemmtilega heimsókn af götunni.

Um hálf tólf leytið kvöldið áður þá sat ég hér við tölvunna og heyrði útundan mér af götunni að tveir ölvaðir menn gengu framhjá. Annar heyrist skyndilega segja:"Hvað, ætlarðu þarna inn?" og næsta sem ég heyri er að einhver gekk inn um dyrnar. Smá hik kom á mig en ég rauk svo fram á gang og heyrði að viðkomandi var kominn niður í kjallarann og byrjaður að rjála við dyrnar að aftan. Ég stóð þarna með manndrápssvipinn á sloppnum, tilbúinn í slaginn með símann í annari hendi ef maður skyldi nú þurfa á hjálp lögreglunnar að halda,ekki vitandi að þeir væru uppteknir við að gera sig tilbúna undir barsmíðar vegna særts stolts silkihúfa. Upp stigann kemur svo maður sem má kalla Konung útigangsmannana í dag, enginn annar en Lalli Johns, og fylgir hér samtalið á eftir:

Ég(hvessi augun og rödd):"Ert þú ekki eitthvað að villast, vinur?"

LJ(flóttalegur með drafandi röddu):" Ég sá að það var opið hérna og var að tékka hvort það væri ekki allt í lagi hérna inni."

Lalli klárar að ganga upp stigann og stendur við dyrnar sem hann opnar til hálfs:"Það er eitthvað ólag á þessari læsingu, ég gæti nú gert við hana fyrir þig."

Lalli strýkur dyrunum blíðlega og horfir upp eftir þeim:"Þetta er nú ekki nógu öruggt hérna.....Ég var að vinna hjá Öryggismiðstöðinni."

Lalli snýr sér við, réttir mér hendina og kynnir sig mannalega:"Lalli Johns"

Eftir handarbandið, bakkar Lalli út úm dyrnar, umlar að allt sé í góðu og skellir þeim aftur.

Daginn eftir öryggisúttekkt Lalla, kom smiðurinn og græjaði þetta. Það er nú ekki á hverjum degi sem maður fær svona ókeypis ráðleggingar frá fagmanni á borð við Lalla og fyrir þá sem vilja láta hann taka út stigaganga og hús sín, þá má bóka tíma hjá honum mili 12-17 niður á Lækjartorgi eða Ingólfstorgi. 


Staðreyndir um Frjálslynda ásamt fréttum um fordóma/ofbeldi gegn innflytjendum - Fyrsti hluti

1. nóvember 2006 skrifar Jón Magnússon gren í Blaðið, sem heitir Ísland Fyrir Íslendinga?

5. nóvember 2006 er ráðist á portugalskan mann af 6 Íslendingum fyrir utan 10/11 í Kópavogi.

Frjálsllyndir ákveða að innflytjendamál verði eitt af stóru kosnigamálum sínum á flokksþingi 27. janúar 2007

14. mars skrifa Viðar Guðjohnsen formaður ungra Frjálslyndra á blogg sitt svo um Frjálslynda flokkinn:"Þeir eru eini flokkurinn sem vill stöðva þá flóðbylgju tugþúsunda nýbúa til íslands. Þeir eru eini flokkurinn sem þorir... "

19. mars. Tveir ÍSLENDINGAR ráðast á marókóskan mann og misþyrma illilega. 

20. mars Viðar Guðjohnsen formaður ungra Frjálslyndra skrifar grein á bloggið sitt sem heitir: "ÍSLAND FYRIR ÍSLENDINGA-UM HVAÐ SNÝST MÁLIÐ". Þar segir hann m.a. "Það er nauðsynlegt að verja íslenska menningu og gildi" og "Fjölmenningarsamfélög hafa aldrei virkað. "

 30.mars 2007 Frétt birtist um að spreyjuð hafi verið níðrandi ummæli um Pólverja sérstaklega í Reykjanesbæ ásamt hakakrossum og merki ÍFÍ eða ÍSLAND FYRIR ÍSLENDINGA-félagsskaparins

20. febrúar 2008 heldur Bubbi Mortens tónleika gegn fordómum þar sem Ungir Frjálslyndir mæta á sviðið, við litla hrifningu ýmisra.  Á sömu tónleikum er byssukúla skilin eftir handa svörtum rappara.

21. febrúar. Nýnasistasamtökin Combat 18 skilja eftir dreifimiða á bílrúðum með óhróðri í garð innflytjenda. Á þeim stendur m.a. "„Fjölmenningin er útbrunnin!" og "Látum ekki fjölmenningu og blöndun kynstofna skemma landið okkar“

Meiri áhugaverðar staðreyndir síðar.....


Spilling meðal lögreglu og ákæruvalds?

Ég verð nú að játa að þó sum mótmæli Saving Iceland hafi verið frekar öfgakennd, þá er samt ekkert sem réttlætir þessa hörku sem lögreglan og ríkisvaldið hefur beitt þessi samtök. Það sem er þó einstaklega ámælisvert við þetta er það að ríkissaksóknari neitar að rannsaka og taka við kærum á hendur lögreglunni því lögreglan er ekki hafin yfir lög sjálf, sérstaklega ef hún reynir að keyra mann niður. Það er í það minnsta ásetningur um að valda manni tjóni og í það versta tilraun til manndráps.

Svo ef maður lítur á tilkynningu Saving Iceland inn á aftaka.blog.is þá má sjá nú mun verri lýsingar af meðferð lögreglu:

" Öll borgaraleg vitni segja að fjórhjóladrifsjeppa lögreglunnar hafi viljandi verið ekið á Ólaf Pál á hraða sem gat haft lífshættu í för með sér. Ökumaðurinn, Arinbjörn Snorrason, lögregluþjónn nr. 8716 og háttsettur við stjórn aðgerðanna við Kárahnjúka, reyndi einnig að aka yfir aðra mótmælendur við mörg önnur tækifæri þetta sumar sem og við Lindur (nú undir vatni en þar voru mótmælabúðir Saving Iceland) og við mótmælaaðgerðir á byggingarsvæði Desjarárstíflu."

Þegar aðeins neðar í yfirlýsingunni á blogginu er komið sést þetta:

"Flestir sem voru í einhverjum hinna þriggja mótmælabúða Saving Iceland sumarið 2006 geta sagt einhverjar sögur af Arinbirni Snorrasyni lögregluþjóni. Að hann hafi reynt að aka yfir þá, skorið í eigur þeirra með hnífi, bundið þá með rafmagnsvír með andlitið í leðjunni tímunum saman eða nærri hálsbrotið þá með járnaklippum. “Allir minnast þess að hann hafi verið óstöðugur og hættulegur,” sagði talsmaðurinn."

Þegar svona harðar ásakanir á hendur lögrglu koma fram og viðbrögð valdsins er að stinga málinu undir stól og hengja fórnarlambið, þá getur maður ekki annað en dregið þá ályktun að það sé ýmislegt rotið við þetta og þarna sé pólitísk spilling og fasismi á ferð. Það var mikið orð haft á því á sínum tíma að pólitíkusar voru að láta lögregluna hjola í þá sem valdhöfum þóknaðist ekki hvort sem það var Baugur eða Saving Iceland, og harkan gífurleg á meðan vinir og kunningjar valdhafanna sluppu með skrekkin eða líkt og í olíusamráðinu að málinu virtist vísvítandi klúðrað.

En svo er annað sem bætist við og það eru bein áhrif hagsmunaaðila á störf lögreglunnar fyri austan. Fyrir einhverju síðan þá heyrðist frétt á RÚV þar sem kom fram að þetta sama embætti sem liggur undir ásökunum, hafði veirð að þiggja styrki frá Alcoa(gæti hafa veirð Bechtel og kannski báðum) til námskeiðahals fyrir starfsmenn o.fl. Þetta er ekkert annað en í mínum augum mútur þegar tekið er tillit til þess að þarna er um að ræða fyrirtæki sem hefur hagsmuni af því að hart sé tekið á mótmælendum.

Er ekki kominn tími til að koma af stað innra eftirliti og rannsókn á störfum lögreglunnar ásamt því að losa sig við þá sem tengjast spillingunni hvort sem það eru lágt settir fautar eða jafnvel ráðherrar?

Almenningur á nefnilega rétt á því að þurfa ekki að óttast lögreglu vegna skoðanna sinna heldur á að geta treyst henni. 


mbl.is Stofnandi Saving Iceland ákærður fyrir eignaspjöll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Níð Skúla Skúlasonar í garð múslima

Eitt heitasta umræðuefni á Moggablogginu þessa daganna, er lokun á því sem ég kalla hatursáróðurs-blogg Skúla Skúlasonar. Þessi lokun hefur ekki komið mér á óvart en ég furða mig á því hvers vegna þessu var ekki lokað á sama tíma og nasistabloggið síðastliðð haust. Ég hef aðeins verið að blanda mér í umræður um það í dag og meðal annars á bloggi Einars Einarssonar í Landsambandi Ungra Frjálslyndra. Þar lét ég efti mér ummæli um hatursáróðurinn sem Skúli iðkaði og Skúli Skúlason fannst hann þurfa að svara mér með eftirfarandi ummælum:

"

Góðan daginn AK-72,

Þú ert að misskilja prestinn, þetta sagði hann orðrétt: ,,Enda væri á henni efni sem ,,samræmdist að öllu líkindum
ekki íslenskum lögu
m" og væri meiðandi fyrir minnihlutahóp í samfélaginu sem
ætti ekki auðvelt að halda uppi vörnum."

Þú segir hins vegar fullum fetum: ,,Hatursáróður eins og Skúli iðkaði, er bannaður samkv. lögum."   Mér sýnist vera mikill munur milli fullyrðingar þinnar og þess sem presturinn sagði.

Það varðar líka við lög að þegja yfir vitneskju um samsæri og stefnu hóps fólks til að drepa Íslendinga, sbr. Kóran 009:005  og 008:039 svo aðeins tvær málsgreinar séu nefndar.  Það geturðu séð  í hinum almennu íslensku Hegningarlögum.  Og meir að segja bent á það hér í færslum að ofan.  Það getur einnig varðað við sömu lög að þagga niður í þeim sem varar alþjóð við slíkum fyrirætlunum.

Nasistabloggið sem þú talar um  skaparinn.com  er í fullum gangi ennþá að því er ég best veit og skoðaði það síðast.

Það er nú ekki stórmannlegt af þér að vera hér með stóryrði og digurbarkalegar fullyrðingar og þora ekki að gera það undir fullu nafni."

Þessi feitletruðu ummæli Skúla sýna ágætlega þann hatursáróður sem hann boðaði og mér blöskraði hvað hann er að segja þarna. Hann er að gefa í skyn sterklega að það sé ætlun múslma að drepa Íslendinga og stefna þeirra og ef þetta flokkast ekki undir níð, þá veit ég ekki hvað.

Þegar maður les svo öfgafull komment sumra sem verja Skúla, er það furða að maður sé ekki að skrifa undir fullu nafni þó. Ég er ekki viss um að ég kærði mig um að eiga á hættu að fá þá öfgafyllstu í heimsókn með heykvíslarnar sínar. 


Árni Matt flengdur enn eina ferðina vegna dómaraspillingarinnar

Eitt mesta spillingarmál síðustu mánuði er crony-isma ráðning Árna Matthíassen á vanhæfasta umsækjanda +til dómaraembættis, máli sem er ekki enn lokið og hefur stórskaðað dómskerfi ásamt því að líklegast mun það kosta íslenskan almenning stórfé í formi málaferla. Þess vegna er frekar skrítið að fjölmiðlar sem annað hvort hafa verið múlbundnir af ritstjórum Sjálfstæðisflokksins sem þar stjórna, eða hafa misst áhugann, skuli ekki hafa tekið upp málið í dag þegar Ragnheiður Jónsdóttir birti frekar öfluga grein þar sem röksemdir Árna Matt eru tættar í sig og hann nánast flengdur ásamt því að hvernig komið var fram við hana í tengslum við andmælarétt og þeim órétti sem hún var beitt. Ég held að það sé orðið ekki bara krafa heldur nauðsyn að Árni Matt og sú klíka sem hann þjónaði við þessa ráðningu, verði vikið burtu úr valdastöðum miðað við þessi og fleiri mál af svipuðu tagi.

Hérna er greinin sem er þess virði að lesa þó löng sé.

Eitt enn, eitt af því sem Þorstein var talið til tekna af Árna Matt, var að hann hefði reynslu af bókaútgáfu og prófarkalestri. Annars staðar á netinu sá ég því fleygt fram að það hefði fundist ein bók sem Þorseinn hefði lesið yfir: hin fræga bók Halldór eftir Hannes Hólmstein. Maður þarf að tékka á þessu:) 


Strumpurinn ég

Jæja, þá tók maður þetta fræga strumpapróf og niðurstaðan ekki slæm. Aftur á móti þegar ég hugsa um strumpana þessa daganna, þá er aðallega rifrildi sem kom upp í partýi fyrir nokkrum árum. Þar fórum við nokkur að kíta hvort strumpurinn sem tók við af gamla strumpinum hefði kallast Æðsti strumpur eða Yfirstrumpur og þá hvort gamli strumpurinn hefði heitið Æðsti eða Yfir þá. Þetta teygðist í lengri tíma og og á röltina á pöbbinn þa´spurðum við eitthvað fólk á eftir okkur um þetta en það hafði ekki hugmynd um. Þegar við héldum í burtu heyrðum við að fólkið var einnig byrjað að rífast um þetta en við vorum hætt þessu kíti að mestu.

 Ég hef grun um að það hafi veirð rað-strump um Æðsta eða Yfirstrump þetta strumpið.

 

Clumsy_Smurf


Linkur á strumpið:

http://bluebuddies.com/smurf_fun/smurf_personality_test/smurf_personality_test.htm 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

AK-72

Höfundur

AK-72
AK-72
Með óþrjótandi áhuga á kvikmyndum, sögu og stjórnmálum.Telur sig hafa fullt frelsi til að hrósa og gagnrýna hvern sem er og hvenær sem er.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...1212_913482
  • ...ner1_568492
  • ...rad-banner1
  • Screenshot

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband