Færsluflokkur: Bloggar

Sjónarhorn-Frumsýning á Menningarnótt 2009

Á morgun er Menningarnótt, á morgun er ár eða svo síðan Heimildarmyndaklúbburinn Hómer stóð fyirr kvikmyndatöku á Miklatúni í veröld sem eitt sinn var en er ei meir og á morgun frumsýnir Heimildarmyndaklúbburinn Hómer afraksturinn, mynd sem kallast Sjónarhorn sem verður sýnd í Hljómskálagarðinum kl. 14:30 og Tjarnarbíó kl.18:30. En hvað er Sjónarhorn og hver sagan á bak við þessa mynd?

Hvítasunnuhelgina 2008 ákvað Heimildarmyndaklúbburinn Hómer sem er félagskapur fólks sem hittist reglulega og horfir á áhugaverðar heimildarmyndir saman, að halda til Patreksfjarðar á heimildarmyndahátíðina Skjaldborg. Hátíðin kveikti í þessu fríða föruneyti löngun og neistann til að skapa eitthvað og framkvæma eitthvað.  Hugmyndum var kastað fram og aftur og á öðrum bjór sem oft á tíðum er fylgifiskur kvikmyndagerðar, stakk einn félaganna upp á því að safna saman fólki héðan og þaðan úr ólíkum áttum sem myndi kvikmynda einn atburð og hann klipptur saman í rauntímamynd. Áður en bjór tvö var búin og þessi þriðji sem fær alla til að gleyma góðu hugmyndunum daginn eftir tók við, þá höfðum við dottið niður á að það væri alveg brill að kvikmynda Menningarnætur-tónleikana sem hafa verið stórasti viðburður Menningarnætur með flugeldasýningu á eftir, og fanga andrúmsloftið sem þar ríkti á svæðinu. Ákveðið var að stefna að því að hafa þetta 100 manns og  nafngiftina Project 100.

Þegar komið var heim frá Skjaldborgar-hátíðinni dásamlegu, þá hófst undirbúningurinn. Reykjavíkurborg leist velá þetta og veitti smástyrk, starfsmönnum Rásar 2 hrifust einnig með og RÚV lét til hljóðupptökur og baráttan við að fá fólk og styrktaraðila hófst.Erfiðlega gekk það enda voru blikur á lofti um versnandi árferði en þó sáu einhverjir aumur á okkur svo sem Sony Center sem lét okkur í té spólur til upptöku. Smá vonleysi greip mannskapinn um tíma vegna þess að markmiðstalan 100 manns, virtist ekki vera að nást en svo tókum við þá ákvörðun að þó það næðist ekki, þá myndum við einfaldlega framkvæma þetta með öllum þeim mannskap sem vildi taka þátt, bara kýla á þetta eins og einhver orðaði það.

Loks rann stóri dagurinn upp og mannskapurinn dreif að til að fá spólur og myndir teknar af þeim. Einhver afföl urðu og sumir komu hlaupandi að Kjarvalstöðum rétt fyrir töku-stund sem miðuð var við þegar hljómsveitin Hjaltalín myndi stíga á svið og klukkustundu síðar þegar Magnús og Jóhann hefðu lokið söng sínum, þá væri tökum lokið. Tökunum var safnað saman að því loknu og daginn eftir þegar Ísland varð "stórasta land í heimi"svo vitnað sé til fagnaðarláta forsetafrúrnar yfir árangri handboltaliðsins á Ólympíuleikunum, þá vorum við þegar byrjaðir að taka stikkprufur og byrjaðir að hugsa að e.t.v. hefðum við bara gott "stöff" í höndunum og gætum því hjólað í það að reyna að fá meira fjármagn fyrir eftirvinnsluna.

Nokkrum vikum síðar breyttist allt þegar Guð blessaði Ísland og stórasta eyjan breyttist í Helvítis Fokking Fokk-landið. Við það fauk síðasta vonin um fjármögnun dó með blessuninni og líkt og aðrir varð Heimildarmyndaklúbburinn Hómer heltekinn af hruninu, svo heltekinn að margir meðlimir tóku sig til og stóðu saman upp úr sófanum, sögðu:"I'm mad as hell and I'm not going to take it anymore" og framkvæmdu ýmsa hluti yfir þennan stormasama vetur. Meðlimirnir tóku þátt í skipulagningu borgarafunda, mótmælafundum, bloggskrifum, börðu potta, pönnur og trommu í Bónus-poka fyirr framan þinghúsið þar til fólkið sem bað Guð um að blessa Ísland, hrökklaðist frá völdum. Í framhaldi af því gengu sumir m.a.s. svo langt að stofna stjórnmálahreyfingu og bjóða sig fram til þings í öllum hasarnum en ávallt á þessu tímabili eftir hrun, fengum við reglulega áminningu um að okkar biði ólokið verkefni, að gera þessa mynd tilbúna til sýningar.

Loks fór það í gang á ný, lítið sýnishorn sett saman fyrir Skjaldborgar-hátíðina sem gaf okkur innblástur og neistann til framkvæmda, myndn kynnt þar og brjáluð klippivinnatók við yfir sumartímann hjá Herberti Sveinbirnssyni sem sýndi meðlimum klúbbsins endanlegan árangur svo í gær, árangur sem kallast Sjónarhorn.

Þegar maður horfði svo á árangurinn líða yfir tjaldið, þá spruttu upp margar hugleiðingar í kolli manns, hugleiðingar um horfinn heim sem birtist manni þarna áður en allt breyttist, hugleiðingar um heim sem maður sér líklegast aldrei aftur, allt er breytt. En það voru ekki einu hugleiðingarnar því að sjónahorn nær því fimmtíu einstaklinga á sama atburðinn birtust, þá voru þau mörg hver ólík í kringum sama atburðinn, hver sá sitt með sínu augu, hver hafði sinn smekk fyrir hvað væri áhugaverðast hverja stundina, hver og einn dró upp glefsur af hlutum sem við sjáum ekki í matreiddum tónleikamyndum eða ritskoðuðum fréttum af samtíma-atburðum svo maður taki annað dæmi. Þátttakendunum tókst að draga upp samtímaheimild að manni fannst, samtímaheimild um fólk á mannfögnuði sem ætlað er að skemmta mörgum eina kvöldstund.

Þó er það ein hugleiðing hjá mér sem stendur upp úr með þetta allt og það er hugleiðingin sem spratt upp í dag, þegar þessu er öllu lokið. Það þarf ekki mikið til að framkvæma hluti og skapa eitthvað. Það sem eingöngu þarf er hugmyndin, þorið til að hætta að tala engingu og byrja að framkvæma, kraftinn sem fylgir sköpunargleðinni og þolinmæðina til að halda áfram þó á móti blási. Peningaleysi og önnur vandamál er eitthvað sem maður veltir sér ekki upp úr, heldur reynir að finna lausn á frekar en að gefast upp, því ef áhuginn og krafturinn er til staðar leysist þetta á endanum.

Að lokum þá langar mig til að segja að án alls þess góða fólks sem gaf okkur stund af lífi sínu þetta kvöld á Miklatúni fyrir ári siðan, eingöngu af áhuga, gleði og óeigingirni þeirra sem vilja sjá eitthvað verða að veruleika, þá hefði þetta aldrei orðið að veruleika.

Þökk sé ykkur að við getum frumsýnt á Menningarnótt 2009 "öðruvísi" tónleikamynd og vonandi mætir fólk sem flest til að sjá ykkar Sjónarhorn.

 

 


Skuggaverk á Suðurnesjum: Enn meir um einka(vina)væðingu auðlinda í hendur GGE

Í dag sáust þrenningarteikn íslenskrar spillingar: auðmönnum hyglað af góðum vinum af æðstu stöðum, bankamenn kröfðust í krafti óskammfeilni græðginnar bónus-greiðslna fyrir að setja banka á hausinn og það sem er hér fjallað um í fréttinni: spilltir stjórnmálamenn sem æstir eru að koma auðlindum þjóðar og eignum almennings í hendur einkavina.

Frá því að þetta ferli hófst með mútugreiðslum til handa Sjálfstæðisflokknum vegna einkavinavæðingar á hlut ríkisins í HHS, hefur þessi þráhyggja Sjálfstæðisflokksins við að selja auðlindir Íslendinga í hendur manna sem einskis svífast, verið með ólíkindum að horfa á. Einkavinavæðing í upphafi, vandræðagangur með hlut OR og að lokum REI-málið hefð átt að gera mönnum ljóst að almenningur væri mótfallinn svona.

En nei, hafist var handa við að nýta tækifæri kreppunnar þegar athyglin beinist annað á tímum ESB-umræðunnar, hentugrar umræðu fyrir þá sem vilja vinna í skugganum og lauma myrkraverkum í gegn. Því ferli lýsti ég hér áður og var þá smávon um að einhvern veginn tækist að stöðva þetta allt saman, að Suðurnesingar myndu rísa upp og stöðva þá ósvinna sem var að gerast þarna.

Hvaða ósvinna? Nú, það er verið að færa þarna einkafyrirtæki réttinn til þess að nýta orku-auðlindir okkar landsmann, næstu 130 árin sem eru mun lengra en við munum nokkurn tímann lifa. Fyrir það fæst grátlegt auðlindagjald sem er varla upp i nös á ketti þegar yfir er litið og það sem verra er, að þarna fer fyrirtæki sem var í góðum rekstri þar til frjálshyggjupúkarnir suður með sjó ákváðu að keyar það kerfisbundið í hallarekstur. Um svipað leyti tóku þessir púkar einnig til hendinni innan bæjarins, komu öllu sem þeir gátu í hendur Glitnis og eigenda þeirra með þeim afleiðingum að bærinn á varla nokkra fasteign í bænum né lengur auðlindir. Nú stefnir þar að auki að þessar orku-auðlindir okkar verði ekki bara undir hæl misvitra fjárglæframanna og févana frjálshyggjumana, heldur einnig í eign erlendra aðila sem stefna að því að ná... tja, er ekki best að grípa til orðsins óhugnanlega: kjölfestuhlut í fyrirtækinu.

Sandgerði hefur selt sinn hlut fyrir litið og nú er innan OR bæði þrýstingur á Hafnfirðinga um að selja glorhungruðum græðgispúkum miskunnarlausrar frjálshyggjunnar sinn hlut og svo hinsvegar hamast ofstækisfullir frjálshyggjumenn okkar Reykvíkinga eins og graðir hundar á lóðarí við að koma eign okkar Reykvíkinga í hendur erlendra og innlendra fulltrúa græðisvæðingar sem hafa komið landinu á kné. Það aðhyllist þeirra trúarbrögðum nefnilega að sjá til þess að gangsterar í teinóttum fötum geti hagnast einir og almenningur beri skaðann áratugi fram í tímann.

En hverjar eru afleiðingarnar fyrir utan að Suðurnesjamenn missa yfirráðarétt sinn í 130 ár? Það er góð spurning en svo miðað sé við hvernig svona einka(vina)væðingar hafa farið i öðrum löndum og hér reyndar einnig, þá kristallast þetta alltaf í tvennu: hærra verð til neytandans og verri lífsgæði honum til handa sem afleiðing af því og svo verri þjónusta á allan hátt. Einnig má við því búast að Suðurnesingar megi byrja að búa við orkuskort, allur hagnaður af sölu raforku til stóriðju og fyrirtækja mun renna beint til eigenda en ekki til sveitarfélagsins líkt og áður og erfiðara verður að reka sveitarfélagið sem slíkt. Við það bætist að þetta einkavinavædda fyrritæki mun hafa krumlu sína læsta um Suðurnesin og geta stjórnað þróun atvinnu sem og öðrum þáttum, stjórnmálamenn verða undir hælnum á þeim og vei þeim sem ætlar að reyna að hafa aðrar skoðanir en eigendur þess.

Svo mun söngurinn hefjast á ný annars staðar:" ríkið getur ekki verið í samkeppni við einka-aðila, markaðnum er einum treystandi, samkeppnin á orkumarkaðnum mun skila betri þjónustu til viðskiptavina" og allt það sem við höfum heyrt áður frá aðilum sem stóðu þétt á bak við olíusamráð og bankabrask.

Höfum við ekki lifað slíkan tíma upp nú þegar? Erum við ekki að upplifa hrikalegar afleiðingar frjálshyggjunnar og einkavæðingar sem stendur? Vilja Suðurnesingar taka á sig enn meira högg af þeim þáttum?

Það er þeirra einna að meta og þeirra að berjast fyrir. Við hin verðum að leggja þeim lið og stöðva sölu OR og annarra til hinnar nýju hrollvekju einkavæðingar og martraðar frjálshyggjunnar með öllum ráðum sem til eru, jafnvel að krefjast þess að ríkið grípi inn í og þjóðnýti auðlindirnar til bjargar almenningi suður með sjó. Það eru nefnilega mannréttindi okkar að geta haft aðgang að ódýru rafmagni, orku og vatni til að lifa af og við verðum að gæta okkur á því að siðlausir menn nýti sér ekki tækifæri kreppunnar til að brjóta á okkur og framtíð okkar til betra lífs, sér og sínum til handa.

Eða viljum við bara loka eyrunum aftur og vonast eftir hamingjusömum endi með fákeppni, okri og engri þjónustu á meðan við sitjum heiladofin og slefandi í sófanum yfir hinu íslenska Wipeout á Stöð 2?

Maður spyr sig.


mbl.is Áhyggjur af framsali auðlindaréttar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Adieu, Borgarahreyfing

Í dag er maður dapur, í dag er maður sár, í dag er maður leiður því að í dag er dagurinn sem Borgarahreyfingin endanlega dó í hjarta mínu. Þessi vegferð sem hófst hjá mér í kytru í Borgartúni þar sem nokkrir menn settust niður og ákváðu að koma þeirri hugmyndafræði sem verið var að móta háleitt á efstu hæð þar af hópi sem þar sat, frá umræðustiginu yfir í framkvæmdastigið sem nauðsynlegt var svo að árangur næðist. Þessi vegferð hefur endað með skelfingu einni, andhverfunni við upphaf í heilindum, andhverfuna við þær hugsjónir sem lagt var af stað með, andhverfu við siðferði manns sjálfs.

Og hvernig var þessi vegferð? Hvernig varð hún svona í augum manns? Hvernig gat þess hreyfing sem lagði af stað af krafti vonar með heilindi og siðferði að leiðarljósi, kannski barnalega stundum en af einlægni, orðið að Frankenstein-skrímsli í forarvaði siðferðisbresta, óheilinda og rýtingsstungna? Hvað gerðist? 

Þetta er erfitt svar og örugglega margþætt en það eina sem ég get, er að lýsa mínum sjónarhól á þessari vegferð frá Borgartúninu sem varð að skærri stjörnu um tíma en brenndi sig upp um leið. Frá Borgartúninu færðist þetta til funda þar sem reynt var að sættast a stefnu, strauma, vott af skipulagi og öðru sem skipti máli í þeirri stóru framkvæmd sem var framundan: þingframboð. Allir virkuðu sem þeir ynnu af heilindum og væru að gera sitt besta en þrasfundir sem tóku alltof langan tíma, áttu það til að tefja fyrir og reyndari menn sem sátu með, sögðu að svona gengi ekki, þrasið um smáatriðin yrðu að víkja fyrir einblíningu á praktískari hluti, bæði út á við og inn á við. 

Áfram hélt þetta þó en samt byrjuðu að koma fram teikn fram sem hefðu átt að vera aðvörun um að ekki væri allt eins og vera bæri. Sá sem þetta ritar lenti m.a. í því að vera ýtt til hliðar sem vefritstjóra með tölvupósti, með ákvörðun sem virtist tekin í skyndingu og önnur manneskja átti skyndilega að taka við öllu án samráðs. Það fyrirgafst þó eftir nokkurra daga sárindi  né nokkuð við þá sem við tók að sakast enda alsaklaus af ákvörðuninni og vinnubrögðum þessum sem ég erfi ekki við þann aðila.

En þetta var þó smáhlutur í raun um asa og taugatitring í brjálæðinu sem kosningabaráttan var, kosningabarátta sem maður sér ekki eftir að hafa tekið þátt í og er reynslunni ríkari eftir á. Þó fór maður að ókyrrast yfir því að sú stjórn sem átti að stýra kosningabaráttunni virtist ekki hafa heildarsýn á hlutunum með fyrirfram ákveðna áætlun í huga, heldur var að bregðast við frá degi til dags út frá þrasfundum morgnana. Brátt fór að kvisast til manns að ákveðnir aðilar sem þar sátu, töldu það meira aðkallandi að eiga sviðið eitt, leggja fólk innan stjórnarinnar í hálfgert einelti og jafnvel krefjast þess að formaðurinn viki vegna þess að þjóðin þyrfti á öðrum að halda en honum. Síðastnefnda málið varð til þess að heil vika glataðist í undirbúningi kosningabaráttu, nokkuð sem var alls ekki ásættanlegt á þeim tímapunkti þegar allur kraftur þurfti að fara í baráttuna, ekki einhverjar persónulegar kýtir sem leystust fyrir rest með hálfkjánalegri yfirlýsingu um að hreyfingin hefði eingöngu talsmenn en ekki hefðbundið skipulag á strúktúr stjórnar.

Við það greip mann ákveðinn vantrú og maður vissi ekki hvort  Borgarahreyfingin væri andvana fædd eða hvort þetta væri einfaldlega álagið í kosningabaráttunni að brjótast út í svona heimskulegum uppákomum í garð fólks sem hefur nú sagt sig úr stjórn og hreyfingunni. Samt hélt maður áfram, ótrauður bæði vegna þessa fólks sem maður þekkti og svo sannfærðist maður á ný af hálfu þess að taka þátt í þessu fólki sem var heilt í baráttunni, grasrótarfólksins sem lagði sitt fram af hjarta og sál og kom þessum fjórmenningum á þing við mikinn fagnað á kosningakvöldið.

Sá fagnaður stóð þó ekki lengi yfir því brestir fóru strax að koma fram, brestir sem reyndust ekki vera álagið heldur brestir þeirra sem blekktu sig til valda að manni fannst þegar litið er yfir söguna frá kosningum, og sviku þá sem stóðu í þessu. Þó er mögulegt að við þröskuld þinghús hafi farið fram inngönguathöfn inn i helvíti fláræðis og óheilinda þar sem ógeðsdrykki spillingar og siðleysis var neytt ofan í þá sem voru ekki nógu sterkir á svellinu til að segja nei með penum hætti.

Í byrjun sumar heyrði maður af því að allskonar uppákomur í tengslum við peningamál og stórmennskulega sýnir um risahúsnæði fyrr allt hið mikla fé sem frá ríkinu kom og fór fram mikill átakafundur þar sem harkaleg gagnrýni fór fram á kosningastjóra  fyrir launamál og aðra fyrir önnur mál, en ég get ekki vitnað um hvað þar gekk á og tel reyndar að miðað við samtöl við nokkra aðila og viðkynni mín af kosningastjórunum að einhver misskilningur eða ýkjur hafi verið þar á ferð því um þann mann hef ég haft eingöngu góð viðkynni af, og hafði samúð með þegar ég sá vörn hans á auka-aðalfundi sem var haldin um mitt sumar. Fram að þeim auka-aðalfundi heyrði maður þó raddir um versnandi samband þinghóps við stjórn þar sem þinghópurinn að mestu virtist vilja vera æðsta vald hreyfingar, ekki framlenging á henni. 

Auka-aðalfundur var boðaður sem ég sá mér fært að mæta á, fundur sem maður fékk á tilfinninguna að ákveðið hefði verið að skyldi nýttur til að sætta aðila og hreinsa með nýrri stjórn. Tilfinningin sú var léttir, tilfinningin var við lok dags að þá var þetta að mjakast í rétta átt, þetta væru vaxtaverkir einir, nú yrði þetta léttara undir fæti, nú myndu hlutirnir stefna í rétta átt.

Lognið sem féll yfir, reyndist vera svikalogn því þegar afgreiðslan á ESB kom, fyrsta stóra prófmálið fyrir hreyfinguna, þá kolféll þingflokkurinn á prófinu, ekki bara með svikum á því samkomulagi sem flestir stóðu að væri meiningin, þ.e. farið yrði í aðildarviðræður til að geta séð eitthvað í hendi til að kjósa um, heldur féllu þau á stóra siðferðisprófinu sem skipti mestu máli: að verða ekki eins og hinir flokkarnir, að bregðast ekki við með óheilindum og breyta rangt. Gripið var til réttlætingar án iðrunar, gripið var til þeirra meðala sem aðrir voru gagnrýndir fyrir. Þó taldi maður að örvænting yfir IceSave réði ferðinni, málinu stóra sem öllu átti að fórna fyrir: heiðarleika, trausti og virðingu. Tilgangurinn helgaði meðulin líkt og hver varða til vítis segir okkur en samt vonaðist maður eftir iðrun.

Þetta olli því að maður sem þögull áhorfandi sem sá meir en fólk hélt, byrjaði að verða það ljóst að stjarnan skæra væri að brenna upp. Þó vildi maður reyna að lokum að blása lífi í dauðvona sjúklinginn sem lá rotnandi á borðinu fyrir framan, félagsfundurinn í síðustu viku var tilraun til þess þar sem allt það góða fólk sem þar mætti, vildi raunverulega reyna, vildi ekki gefast upp, vildi ná sáttum.

Þó þegar tíminn byrjaði að líða frá þeim fundi og maður byrjaði að sjá og heyra meir og meir sem hinn þögli áhorfandi sem tekur eftir hlutum og hefur vitneskjuna, að þetta var orðið búið spil þó tíminn sem maður gæfi til björgunar var til lítillar vonar um að örfáum aðilum sem engum voru tengdir, gætu gert kraftaverk. Sú von dó þó með hverri frétt og upplýsingu um hegðun þingmanna, bæði hinar opinberu fréttir um ósættið, orða um að þeir hefðu farið þarna inn á eigin forsendum sem virkaði eins og að þau ein hefðu framkvæmt allt, viðsnúning í IceSave-málinu þar sem öllu var fórnandi áður en mátti nú samþykkja með fyrirvörum, hroka þingmanns í garð grasrótarinnar sem vildi reyna að sætta fólk með þeim orðum að félagsfundur vegna deilnanna hefði verið gagnslaus nema þeim sem mættu, hið einstaklega rætna bréf í garð Þráins sem birtist í gær.

Eins og það væri ekki nóg þá voru það einnig hinar óopinberu fréttir um að þingmenn tækju köst á stjórnarliðum, handveldu fólk til að mæta á fundi með sér, töldu að stjórnin ætti að lúta vilja sínum og hefðu stofnað sérfélag um þingflokkinn í algjörri andstöðu við samþykkt félagsfundar um að slíkt ætti ekki að gera. Slíkt sagði manni aðeins eitt, þremenningarnir sem höfðu sig hvað mest í frammi, voru búin að kljúfa sig frá grasrótinni sem kom þeim á þing.

Nú í dag eru þetta þrjár hreyfingar: þinghópurinn sem seldi sálu sína, Þráinn sem stendur einn og heill eftir þann eineltislega mykjuhaug sem dembt hefur yfir hann og svo grasrótin sem stóð trú í hjarta sínu við sannfæringuna sem örfáir einstaklingar hafa gert óhreina og að athlægi í sínum mennska harmleik. Og hversvegna fór svo? Eins og ég segi, þá er það örugglega ekki einfalt svar en sjálfin sem fóru inn á þing voru stór, eitt þeirra mundi þó fyrir hverju viðkomandi átti að standa, þrjú þeirra komu á eigin forsendum og með sig og sína í huga framar þjóðinni sem átti að fara inn á þing. 

Slíkt getur maður ekki við unað lengur, slíkt getur maður ekki tekið þátt í, slíkt getur maður ekki varið eða eytt orku sinni í að berjast við, slíkt eftirlætur maður öðrum einum. Ég segi mig hér með úr hreyfingunni sem hófst til lofts líkt og sjálfstæðisbarátta Íslendinga, varð að afli líkt og lýðveldið Ísland en dó líkt og samfélagið Ísland í spillingu, siðleysi, klíkuskap og einstökum óheiðarleika fámenns hóps. Ég óska því fólki í grasrótinni hið besta og ég vona að ég geti hitt þau öll sem voru heil og trú sjálfum sér, deildu saman sorg og sút, gleði og gráti á ný við mun gleðilegri og skemmtilegri aðstæður. Það fólk er þess virði að hafa kynnst og starfað með og það er það fólk sem átti þetta aldrei skilið.

Adieu, Borgarahreyfing. Sagan mun dæma þennan feril frá búsáhaldabyltingu til blóðugra bakstungna á þennan hátt:

Byltingin át ekki börnin sín, börnin átu byltinguna.
mbl.is Reynt að ná sátt hjá Borgarahreyfingunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimur á hvolfi

Mótmæli á Austurvelli voru í dag undir merkjum InDefence.

Þar mátti sjá Bjarna Benedikstsson formann Sjálfstæðisflokksins sem taldi 6,7% vexti á IceSave-láni til 10 ára með fyrsta gjalddaga ári síðar, vel viðunandi niðurstöðu síðastliðin desember. Í dag stóð hann og mótmælti því að 5,5% vextir væru á láni til 15 ára með fyrsta gjalddaga eftir 7 ár.

Annars staðar stóð Davíð Oddson fyrrum forsætisráðherra og utanríkisráðherra sem gerði sig að Seðlabnakastjóra. Sá maður einkavinavæddi Landsbankans til Björgólfs-feðga og hrópaði þeir lengi lifi, var alltaf frekar blíður í garð þeirra feðga og Landsbankans sem notaður var sem atvinnumiðlun fyrir Sjálfstæðisflokkinn og endaði sú vernd með ósköpum þar sem IceSave-skuldirnar féllu á landann og skilyrði um samning um þá mál sett inn í samkomulag við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn með undirritun Davíðs Oddsonar Seðlabankastjóra.

Í dag stóð Davíð Oddson og mótmælti þeirri undirskrift sinni, einkavinavæðingu bankanna og hlustaði heillaður á Einar Már Guðmundsson bölsótast yfir stefnu og ákvörðunum Sjálfstæðisflokksins og vina þeirra sem þjóðin þarf að borga.

Enn er verið að leita að Hannesi Hólmsteini, Kjartani Gunnarssyni og Björgólfs-feðgum á myndbandi en vænta má að þeir ásamt fleirum öflugum Sjálfstæðisfmönnum sem kölluðu mótmælendur skríl, lýð og töldu að lögreglan ætti að berja þá til óbótar í vetur, sama lögregla og stóð nú og klappaði með Davíð og Bjarna. Reikna má með niðurstöðu innan skamms.

Í dag var ég kallaður Quislingur, landráðamaður og föðurlandsvikari fyrir að vilja ekki sýna samstöðu og telja þennan fund póltískt lýðskrum auglýst upp með þjóðernishyggju, í þágu Sjálfstæðisflokksins.

Ef þessi súrrealíski heimur á hvolfi, er afleiðing innhverfar íhugunar David Lynch, þá hef ég bara eitt að segja:

GUÐ BLESSI ÍSLAND, ÉG ER FARINN!

 


mbl.is Sneisafullur Austurvöllur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samstöðu-spuni þjóðernishyggjunar

Mér er heitt í mansi núna enda fylltist mælirinn nú af dropum ógeðfellds áróðurs. Hver er ástæðan? Í gærkvöldi sá ég ábendingu um auglýsingu frá InDefence sem ég hef verið frekar tortrygginn í garð vegna annarsvegar tengsla þeirra við Framsóknarflokkinn og svo hinsvegar framkoma þeirra í tengslum við nýlegan borgarafund þar sem þeir eignuðu sér fundinn í fréttatilkynningum þrátt fyrir að vera eðeins gestir í boði aðstandenda Borgarafunda.

Það fauk hressilega svo í mig þegar ég sá þessa auglýsingu þó ég hafi verið orðinn nett pirraður yfir ábendingunni, því hún innihélt það sem ég fyrirlít framar öllu: þjoðernishyggjulegt myndmál notað í pólitískum myndmáli. Þar var flennistór mynd af styttunni af Jóni Sigurðssyni grenjandi eins og að hann hefði veirð neyddur til að hlusta á ræður Bjarna Ben og Sigmunds Davíðs einhvers staðar í þröngum fangaklefa í leynifangelsum CIA. Myndmálið var augljóslega til að sýna að hann gréti yfir IceSlave-samningnum sem Bjarni Ben hafði lofað rétt fyrir jól en þótti nú grátlegur, en tónninn sjálfur undirniðri er alvarlegri á margan hátt.

Síðustu daga hafa nefnilega birst fleiri auglýsingar í svipuðum dúr þar sem Jón Sigurðsson er notaður í svipuðum pólitískum tilgangi þar sem gefið er í skyn ákveðinn hótun til þingmanna með orðalaginu:„Kæri þingmaður. Afstaða þín mun aldrei gleymast í Icesave deilunni – kjóstu gegn ríkisaábyrgð“ af ónafngreindum aðilum sem kalla sig Áhugafólk um framtíð Íslands.Þetta áhugafólk er þó ekki annað en yfirvarp yfir Samtök Fullveldissinna sem eru öfgaþjóðernishyggjumenn sem fara einnig hamförum við að auglýsa upp þennan fund og berja á trommur þjóðernisrembings í pólitískum tilgangi. 

Þegar þessar auglýsingar báðar eru svo skoðaðar í samhengi þá má lesa út úr þeim ákveðin skilaboð. Ef þú telur að það eigi að fara samningaleið eða hugleiðir einhverjar aðrar lausnir en þá sem InDefence og Fullveldissinar vilja, þá ertu föðurlandsvikari. Þar sem IceSave-málið er einnig blandað við ESB til að ná fram markmiðum fullveldssina og Sjálfstæðisflokksins sem þeir flestir, ef ekki allir tilheyra, þá ertu landráðamaður og vei þér, ef þú skyldir minnast á í þeirra hópi að Davíð beri einhverja ábyrgð á hruninu og skuli stinga inn, þá ertu nefnilega orðinn sekur um guðlast. Semsagt ef þú fylkir þér ekki á bak við grátandi Jón Sigurðsson, þá ertu lydda sem vilt skríða fyrir útlendingum, landráðamaður eða föðurlandsvikari í bland við hefðbundið blótsyrði hægri öfgamanna: kommúnisti eða Samfylkingarmaður. 

Þessar þjóðernisöfgar fylla mig alltaf af velgju, velgju þess sem veit að þeir sem spila á slíkt í pólitískum tilgangi, eru með hrient lýðskrum í valdabrölti eða til að fá hrætt fólk á sitt band hvort sem það er að mótmæla einhverju máli, senda hermenn til Íraks til að berjast fyrir föðurlandið eða enn verri hluti sem má lesa í sögubókum. 

Ég veit það allavega að ég mun ekki mæta á þennan samstöðu-fund spunameistara þeirra afla sem eru að nýta sér IceSave-málið inn á þingi til að ná völdum á ný. Ég veit það allavega að ég mun ekki mæta á samstöðufund sem þjóðernisöfgamenn auglýsa grimmt mitt á milli þess sem þeir tala um að vinstri menn séu landráðamenn, samkynhneigðir séu óæskilegir í samfélag manna og að múslimar séu ógn við hinn hvíta, kristna kynstofn, jafnvel þó það kitli mig aðeins að mæta dulbúinn sem vinstrisinnaður, samkynhneigður múslimi til að sjá viðbrögð brúnstakkalegra Samtaka fullveldissina sem telja sig eina hafa rétt a skoðunum hér á landi.

En nei, ég held ég haldi mig bara heima og rifji upp myndina Triumph of the will  til áminningar um verstu afleiðingar þess að þjóðernishyggja sé spunninn inn í pólitískt lýðskrum.


Þegar rándýr frjálshyggjunar fara á kreik í skóginum.

Þegar þögn sló á viðmælendur um IceSave í Kastljósi í gær við spuningu fréttamanns um hvað myndi gerast ef IceSave yrði hafnað, þá varð manni ljóst tvennt. Annarsvegar að hinn ungi bóndi Vinstri Grænna var ekki búinn að hugsa þá hugsun til enda og svo hinsvegar að þessi þögn var þögnin sem grípur frumskóganna þegar risahættu steðjar að og glorsoltin rándýr fara á kreik eftir æti til að rífa í sig.

Enda passaði það, hinum megin við borðið sat fulltrúi glorhungraðra rándýra frjálshyggjunar sem hafði veirð úthýst út úr frumskóginum íklætt dulargervi sem sauður væri og með fleðulegum brosum þóttist vera orðinn að verndara þeirra sem áður var réttlaus bráð að mati sömu rándýra áðurr. Dýrin sem höfðu stór og smá verið bráð áður, höfðu nefnilega síðastliðin vetur snúið vörn í sókn til að koma í veg fyrir að hömlulaus græðgi rándýra frjálshyggjunar myndu ganga af öllu dýralífi dauðu í skóginum og mikil barátta hófst.  Að endingu hröktu dýrin smáu út úr Dýrabæ sem var æðsta vald skógsins, um leið svín Félaga Napóleons sem hafði verndað þau rándýr sem á smælingjunum nærðust, framar öllu.

En hversvegna þykjast rándýrin vera vinir smælingja fyrst nú? Svarið er mjög einfalt, rándýrin sjá sér færi á að komast aftur inn í skóginn til að deila og drottna á ný með sömu borðfélögunum, þeim sömu og hrökkluðust uppfullir út úr vistkerfi skógarins, uppfullir af gnægtum annara. Og hvert er færið sem rándýr frjálshyggjunar ætla að nýta sér? Nú, öll dýrin eru nefnilega skelfingu lostin yfir svokölluðum Klaka-skuldum við frændur sína í Skíriskógi sem og öðrum skógum. Þessir frændur höfðu nefnilega í góðri trú, trúðu vel tenntum úlfum í teinóttu fyrir öllum vetrarbirgðum sínum til geymslu og áttu í staðinn að uppskera öryggið sem fælist í því að geyma forðann allan í stórum ísklump með ríkulegri uppskeru og safaríkari fæði.

Þegar uppkomst að úlfarnir höfðu nú stungð af með vetrarbirgðirnar sem m.a. áttu að fara í að gera elliár Kalla kanínu og Bangsímons bærilegri, til Tortola-eyja þar sem hollensku hneturnar voru ristaðar til að neyta með drykkútbúnum úr breskum berjum kældum með íslklumpinum góða, þá varð allt vitlaust. Breskir bolabítar og hollenskir hanar sem misttu höfðu allar hænur sínar til úlfanna, heimtuðu nú að Dýrabær skyldi gangast að samningum um ábyrgðir sínar, abyrgðir sem komið hafði verið á tíð Félaga Napóleons.

Afleiðingarnar voru að gengist var til samninga, slæmra samninga þar sem vetrarbirgðirnar skulu endurgreiðast og með góðum skammt af íslenskri beljumjólk með í vexti sem úlfarnir tóku einnig með til Tortola. Þetta er því miður nokkuð sem mörgum hverjum finnst afarslæmt en erfitt er að sjá hvernig er hægt að komast að án þess að skorið verði á allt hveiti og ger til Hérastubbs bakara sem reynir að finna leiðir til að brauðfæða allan skóginn í gegnum dimman og drungalegan vetur framundan. 

Í þessu leynist sóknarfæri Félaga Napóleon, rándýra frjálshyggjunar og vel tenntra úlfa til að komast með tennurnar í smádýrin á ný, nýta sér hræðsluna með fleðulegum brosum, skilningsríkum samúðarsvip og réttlætri reiði lýðskrumsins og falsi úlfsins sem langar til að gæða sér á ömmu Rauðhettu.En það er ekki það eina sem stýrir þessu lýðskrumi til valda á ný, því rándýrin eru einnig hrædd og ekki bara við það að upp komist um hvert þeirra drap Bambi fyrir nokkrum árum.

Nei, það sem þau hræðast mest núna og vilja gera allt til að stöðva nú, er rannsókn á því hvernig þau eyðilögðu nær því allt vistkerfi skógarins og hvernig þau átu upp öll þau grös, ber og lyng sem átti að fleyta skóginum í gegnum veturinn framundan og gott betur. Fulltrúar þeirra í Dýrabæ höfðu sett á fót leikrit þar sem Björninn geðstirði sem yfir dómsmálum réði, ætlaði að nota gömlu Dýrabæjar-aðferðina við að þagga nður hluti, þ.e. setja af stað eitthvað en sjá svo til þess að ekki væri nægilegt æti til handa þeim sem fengið hafði það verkefni að komast að sannleikanum og ætlaðist til að sá kæmi auðmjúkur biðlandi um hunang til að smyrja rannsóknina áfram.

En ekki dugði það til, heldur var hann borinn út áður en leikritið byrjaði af alvöru og litli bangsinn sem hann réð til verksins, hefur reynst vera að þróast í átt til að verða stórt bjarndýr sem glorsoltið er í að réttlæti næði fram að ganga og fékk svo með í lið með sér hvassa, norska skógaruglu sem vön eru að leita uppi vonda úlfa og hýenur sem þeim þjóna. Björninn geðstirði er þó ekki bara gramur heldur titrar einnig á beinunum yfir því að breskir blóðhundar sem vanir eru að leita uppi dýrbíta viðskiptalífsins, skuli nú hafa bæst í þennan fríða hóp réttlætisins og reynir að gera það allt tortryggilegt líkt og sást í dag.

Völdin sér og sínum til handa og stöðvun rannsóknar eru því aðalástæðurnar fyrir offorsinu sem fulltrúar rándýrafrjálshyggjunar sýna af sér í þörf sinni og græðgi fyrir völdum á ný. Ekkert skal til sparað, allt skal reynt, öllum reykbömbum skal hent fram og hvað svo ef þeim tekst ætlunarverk sitt, að komast aftur að veisluborðinu sér til gnægtar, öðrum til skelfingar? Ekkert breytist, smælingjarnir þurfa að borga hvortsem er ísklumpsskuld úlfanna illræmdu og rándýrunum verður sleppt eftirlitslaust á nýjan leik gegn smælingjunum gegn góðri greiðslu í forðabúr Dýrabæjar-þingmanna og ráðherra.

Vörumst lýðskrumið, hundsum falska varga í véum sem hugsa eingöngu um sig og sína.

 

 

 


Athugasemd vegna umræðu um deilur í Borgarahreyfingunni frá almennum félagsmanni

Frá því að kosningum lauk hef ég lítið sem ekkert tjáð mig opinberlega um Borgarahreyfinguna enda vilja fókusera meira á mál á bloggi mínu sem hafa vakið athygli mína. Svo kom þó að vegna frétta af deilum, niðurrifsumræðu á netinu og umræðu á heimasíðu um þennan ágæta fund í gær, þá setti ég inn eftirfarandi athugasemd á umræðu um fundinn í gær, sem ég vona að verði efni til umhugsunar fyrir alla meðlimi hreyfingarinnar:

"Eftir að hafa lesið yfir þetta allt saman þá get ég ekki orða bundist lengur yfir þessu öllu. Ég hef reynt að forðast það að taka þátt í umræðunni um Borgarahreyfinguna opinberlega þó mig hafi langað til að taka undir gagnrýni. Ég er búinn að vera viðloðinn þetta frá upphafi að einhverju leyti, fyglst með, tekið þátt í kosningabaráttunni og sýnt stuðning allt þar til kom að ákveðnum vendipunkti sem var afgreiðslan á ESB-málinu.

Frá því að kosningum lauk hef ég lítið sem ekkert tjáð mig opinberlega um Borgarahreyfinguna enda vilja fókusera meira á mál á bloggi mínu sem hafa vakið athygli mína. Svo kom þó að vegna frétta af deilum, niðurrifsumræðu á netinu og umræðu á heimasíðu um þennan ágæta fund í gær, þá setti ég inn eftirfarandi athugasemd á umræðu um fundinn í gær, sem ég vona að verði efni til umhugsunar fyrir alla meðlimi hreyfingarinnar:

"Eftir að hafa lesið yfir þetta allt saman þá get ég ekki orða bundist lengur yfir þessu öllu. Ég hef reynt að forðast það að taka þátt í umræðunni um Borgarahreyfinguna opinberlega þó mig hafi langað til að taka undir gagnrýni. Ég er búinn að vera viðloðinn þetta frá upphafi að einhverju leyti, fyglst með, tekið þátt í kosningabaráttunni og sýnt stuðning allt þar til kom að ákveðnum vendipunkti sem var afgreiðslan á ESB-málinu.

Þegar ég sá þá frétt um að hluti þinghópsins hefði tekið pólitískt "charge of the Light Brigade" með barnalegri og misheppnaðri tilraun til hrossakaupa, þá féllust mér hendur. Ég varð reiður, ég varð sár, ég íhugaði alvarlega að segja mig úr hreyfingunni og gat engan veginn fengið það af mér að verja þessa ákvörðun sem voru hörmuleg mistök tekin í góðri trú að því að mér skildist. En hversvegna varð ég svona sár? Það var eiginlega ekki málið sem slíkt þó ég hafi staðið í þeirri meiningu frá því löngu fyrir kosningar, að lendingin milli ESB-sinna og andstæðinga hefði verið sú að samþykkja aðildarviðræður og að það yrði þjóðaratkvæðagreiðsla um samninginn, nokkuð sem ég sagði fólki í góðri trú þegar ég var spurður um afstöðu hreyfingarinnar í þessum málum og í dag stend ég uppi sem fábjáni að hafa haldið fram hlutum sem gengið hefur verið á bak orða sinna með.

En það er samt ekki aðalmálið í þessu öllu. Það sem mér finnst aðalmálið er að það sem gerðist var að þessi mistök þinghópsins fyrir utan Þráinn sem gekk út meiri maður frá þessu máli í mínum dómi, voru að reyna kúgun og hrossakaup sem voru óheil. Ég skil ástæuurnar á bak við, hræðslan við IceSave og einhver örvænting sem hefur gripið þau sem olli því að þau misstu þarna sjón af því sem skiptir mestu máli fyrir þau og okkur öll: heilindi og heiðarleiki og þeirri grundvallarreglu að tilgangurinn helgar aldrei meðölin.Þetta var og er aðalástæðan fyrir sárindum mínum því ég held að þeim hafi ekki gengið illt til, heldur misst sjónir af því sem máli skiptir fyrir alla þá sem hafa komið að Borgarahreyfingunni, þeim heilindum sem við viljum innleiða á ný í íslenskt samfélag.

Ég ákvað þó að gefa þinghópnum færi á að útskýra mál sitt, færi á að sýna auðmýkt og iðrun á mistökum sínum en fólk þarf þá að horfa í eigin barm og segja:"Ég gerði mistök, fyrirgefið mér". Þó einhver tími sé liðinn, þá hef ég enn smá von um þetta þó ég sé langþreyttur á biðinni eftir slíku og traust mitt skaddað eftir þetta.

En um þessar deilur svo innan þinghóps og þinghóps gagnvart öðrum. Það er til máltæki sem hljoðar svo: Sjaldan veldur einn þá er tveir deila. Nú er sú staða komin upp að deiluaðilar þurfa að setjast niður og horfa í eigin barm, hætta skeytasendingum í gegnum fjölmiðla, viðurkenna fyrir sjálfu sér að það hafi gert mistök eða sagt eitthvað í reiði sem hefði ekki átt að segja, sýna hvort öðru virðingu og rétta út sáttarhönd, setjast niður og tala saman án hrópa og gífuryrða þegar reiðin er horfin en umfram allt að hlusta á hvort annað sem manneskjur.

Að lokum, hvað varðar fundinn, þá skil eg alveg að fyrirvarinn hafi verið stuttur en þessir félagafundir hafa verið á dagskrá í allt sumar og hefðu e.t.v. mátt vera betur auglýstir. Tilkynningin um þennan fund barst frekar seint en ég skil alveg ástæðuna fyrir breytingunni, þetta var krísufundur og þingmenn allir hefðu mátt vera það ljóst að þó skammur fyrirvari væri, þá hefðu þeir átt að reyna að mæta ef kostur væri til að útskýra sín sjónarmið.

Aftur á móti var þessi fundur mjög gagnlegur þó sumir þingmanna geri lítið úr honum og baklandi grasrótarinnar sem þar mætti. Grasrótin getur nefnilega rætt saman, hún getur náð sáttum sín á mill um ákvarðanir og hún gerði það málefnalega í gær og til fyrirmyndar í sátt og samlyndi. Ef það er gagnslaust að baklandið tali saman og taki ákvarðanir, að grasrótin sé ómerkileg og ekki marktæk vegna þess að enginn þingmaður mætti að mati þeirra, þá verða þeir að líta í eigin barm og spyrja: er ég nokkurs megnugur án þessa fólks sem lagði alla þessa vinnu og krafta af óeigingirni í þeirri trú að hægt væri að breyta samfélaginu til hins betra? Vill ég glata trausti, stuðningi og virðingu þessa fólks?

Sættist nú, góða fólk, ekki bara fyrir ykkar sálarheilla heldur einnig vegna hreyfingarinnar og þeirra mála sem við vildum koma á framfæri. Persónulegar erjur eru smámál sem hægt er að leysa auðveldlega, smámál sem blikna í samanburði við stórmálin í samfélaginu og þeir einu sem græða á þessu, eru þeir sem gleðjast yfir óförum þessum.

Bið ykkur vel að lifa,

Agnar Kr. Þorsteinsson eða Aggi"

Sem auka-athugasemd við þetta, þá ætla ég ekkert að velta mér frekar upp úr þessu máli í bili, heldur sjá hverju framvindur á tímum mikilla sviptivinda yfir landinu því það eru aðrir og stærri hlutir sem ég hef áhyggjur af.


Hið Villta Vestur

Ég elska vestra, hef alla tíð gert það frá því að minn kæri fóstri byrjaði að sýna mér þá á stóra myndbands-hlunknum frá Nordmende sem dugði fjölskyldunni í 12 ár. Varla var maður byrjaður í skóla þegar maður hafði séð John Wayne sveifla fram Winchesternum sínum í Rio Bravo og salla svellkaldur niður þý óðalsbónda sem vildi ná drápsglöðum syni sínum úr fangelsi lögreglustjórans væna og tákngervingur hetjunnar fæddist í huga manns, hetjan sem var tilbúinn til þess að berjast gegn ofurefli til að réttlætið næði fram að ganga.

Tveimur árum síðar opnaðist nýr heimur fyrir manni þegar á RÚV eitt föstudagskvöldið hjá ömmu gömlu, birtist Nafnlausi maðurinn í fylgd með mannaveiðaranum Lee Van Cleef, í eltingaleik við bankaræningjann brenglaða Indio í For a few dollars more. Þar opnaðist nýr og grárri heimur spagetti-vestrans og þrír menn kynntir til sögunnar sem dáðir hafa verið á þessum bæ síðan: Eastwood, Morricone og Leone. Þó var það þríeykið Góða, slæma og ljóta sem átti eftir að stimplast rækilega inn í sálu mína sem uppáhaldið um ókomna tíð, þríeykið sem leitaði að stolnu gulli í miðri styrjöld í von um skjótfenginn auð og breytti ásýnd vestursins um leið í átt til þess sem það raunverulega var.

Þetta voru hetjur æsku minnar, hvítar sem gráar og hetjur í samfélagi sem var villt en hafði einfaldar reglur manna á milli. Heiður, hollusta, sannleikur og réttlæti var í hávegum hafður og framar lögum og reglum ef þess þurfti, og aldrei í hávegum haft af þeim föntum og fúlmennum sem skeldfu samfélagið með gripdeildum eða fólskulegum óðalsböndum með spilltan ættarlauk sér við hið, sem svifust einskis í því að ná því sem þeir vildu með þjófnuðum, hótunum, kúgunum og jafnvel morðum á heilu fjölskyldunum. Lögin unnu með þeim jafnvel, lögreglustjórinn og bæjarstjórinn í vasa óðalsbóndans ógurlega. Jafnvel í vestrinu sjálfu leyndust samtök miskunnarlausra auðmanna sem töldu sig hafna yfir allt, líkt og Santa Fe-hringurinn sem fékk Pat Garret til að leita uppi Billy the Kid vegna þess að hann ógnaði hagsmunum þeirra.

En oftast nær þá tókst hvítum sem gráum hetjum hvort sem það voru slyngir byssumenn sem þoldu ei óréttlætið, heiðarlegur og réttsýnn lögreglustjóri sem stóð einn gegn ofureflinu eða góðhjartaðir bófar sem vildu vernda þá sem minna eiga sín, sem klekktu á spillingunni og losuðu samfélagið úr viðjum óttans í átt til bjartari framtíðar.En umfram allt þá gilti sú grunnregla að réttlætið var ofar öllu, lögum og reglu, embættsimönnum og auðmönnum og grunnforsenda þess að sár samfélagsins greru á ný.

Þetta var vestrið í sinni enföldustu mynd skáldskaparins, vestrið sem flestir kannast við og vestrið sem flestir hugsa til, þegar um er það rætt. En er þetta það vestur sem Bjarni Ben vísar til þegar hann talar gegn breytingum eða afnámi bankaleyndar eða er það vestur sem hann talar um hið raunverulga vestur þar sem kaldrifjðair nautgripabændur og járnbrautakóngarsölsuðu undir sig land og eigur fólks með hótunum og ofbeldi, höfðu embættismenn í eigin vasa, embættismenn sem litu undan glæpum auðmanna og lögin með sér þegar kom að því að ganga að lítilmagnanum. Er það vestrið þar sem hagsmunir fárra voru ofar réttlætinu og almannahagsmunum, vestrið þar sem græðgi eftir landi og gulli réð ríkjum? Er þetta vestrið sem Bjarni Ben vísar tilí með orðum sínum um bankaleynd?

Maður spyr sig.

 


mbl.is Þurfa breyttar reglur um bankaleyndina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lánabók Kaupþings: Illir kostir Kaupþings, hugleiðingar um lögbannið og stóra, skuggalega myndin

Þegar fréttir af lánabók Kaupþings dundu yfir mann og lögbannið var skellt á fréttir RÚV vegna fréttaflutnings úr lánabók Kaupþings sem hafði verið sett á vefinn Wiki-Leaks, þá áttaði ég mig á einu. Ég er ekki reiður lengur, ég er orðinn dofinn yfir hverri einustu fjöldagröf fjármálafrjálshyggjunar sem opnuð er úr rústum Fjórða Ríkis Frjálshyggjunar. 

Kannski hjálpar það þó til að sjá hlutina á fleiri en einn hátt, að vera laus við reiðina og vera orðinn svellkaldur yfir öllum þessum óhugnaði sem 18 ár frjálshyggju Davíðs Oddsonar og náhirðar hans, skildi eftir sem minnisvarða um hluti sem mega aldrei endurtaka sig aftur.

En hvað um það, ég ætla að hætta mér út beint út í stórskotahríðina fyrst og koma Kaupþing örlítið til varnar í upphafi. Ég held nefnilega að þeim hafi ekki verið á öðru stætt en að krefjast lögbanns á frétt RÚV með tilliti til starfsemi þeirra. Í lánabókinni sem birtist á Wikileaks, er nefnilega ekki bara að finna upplýsingar um Exista, Bakkabræður og annan óþjóðalýð, heldur einnig fara þarna út upplýsingar um fyrirtæki sem eru heiðarleg, stunda eðlileg viðskipti og hafa í raun ekkert erindi sem fréttamatur né eiga erindi út á við, þ.e.a.s ef allt var eðilegt og því ekki óeðlileg ástæða fyrir lögbannskröfunni til að geta haldið andlitinu gagnvart viðskiptavinum sínum. Önnur ástæða sem ég sé einnig sem forsendur fyrir lögbannskröfu, er að þessi bévítans bankaleynd myndi gera Kaupþing skaðabótaskylt ef þeir reyndu ekki að gera neitt í málunum. Þá hefðu blankir Bakkavarar-bræður, svikamyllan Exista o.fl. getað farið í mál og náð fé til sín(eins og þeir hafi ekki hirt nóg) í gegnum lagalegan grundvöll. Einhvern veginn held ég að maður yrði einstaklega ósáttur við það og vonandi nær þetta að slá það vopn úr höndum þeirra. Þetta var því val á milli að "damned if we do, damned if we don't" kosts.

Nú veit ég að reiðin hefur fengið einhver augu til að tútna út yfir því að ég sé með vörn fyrir Kaupþing. Skiliningur á hversvegna gripið er til svona aðgerða, gerir mann ekki sjálfkrafa samþykkan þeim og ég er engan veginn sáttur við lögbannið á fréttaflutning RÚV því þetta eru upplýsingar sem eiga fullt erindi við almenning, þ.e.a.s. upplýsingar um hrunvaldana. Enda viðbröðgin allstaðar sú sömu, harkaleg með hvatningu til "Streisand effect".Þó er eitt jákvætt við þetta lögbann, nú munum við fáið út úr því skorð fyrir dómi, hvort bankaleynd sé ofar almannahagsmunum, hvort bankaleynd sé ofar réttlæti og hvort bankaleynd sé ofar siðferði og glæpum.

En það er samt svo að þegar maður hættir að einblína á lánabókina sjálfa, þá kvikna ýmsar spurningar um lögbannið. Hveresvegna bara RÚV? Hversvegna ekki hinar stöðvarnar? Hvað var það í frétt RÚV sem gerir þá að sérstöku skotmarki? Maður gæti velt fyrir sér hvort það sé vegna þess að þetta er prófmál, hvort þetta sé vegna þess að Kaupþing var þarna með málamyndargjörning eða það sem ég og fleiri tókum efitr: Kristinn Hrafnsson talaði um heimildir um gífurlega fjármagnsflutninga hjá Kaupþingi og að á næstu dögum yrði meira sagt frá þeim, nokkuð sem Hörður Svavarsson veltir ágætlega upp í blogg-færslu sinni.Heimildr Kristinn virðast vera nokkuð fleiri en upplýsingarnar úr lánabókinni.

En frétt RÚV er ekki það eina sem vakti upp spurningar og hvort meira væri í gangi. Frétt DV á föstudagskvöldið um að lánanefndin hefði afgreitt þessi mál sama dag og þegar ákveðið var að fella niður ábyrgðir starfsmanna Kaupþings, fengu ákveðnar bjöllur til að hringja í hausnum í mér. Í kjölfarið fór ég að grufla og setja saman stærri mynd sem er örugglega ekki tæmandi. Það flaug nefnilega upp í hausinn á mér allar þær fréttir sem komið hafa fram um millifærslur o.fl. og ég ákvað að skoða einn vinkil á þessu, ekki upphæðirnar, heldur tímalínuna í kringum þetta.Ef við byrjum á að líta á tímalínu frá byrjun september:

  • 2. september: Björgvin G. Sigurðsson og Baldur Guðlaugsson sitja fund í London varðandi bankakerfið og áhyggjur breskra yfirvalda af Landsbankanum í London lýst þar yfir.
  • 11. september: Sigurður Valtýsson forstjóri Exista, færir eignarhlut sinn í félag á Tortola-eyjum. Stuttu eftir hrunið sjálft skráir hann húsið yfir á konuna.
  • 7-16. september(hugsanlegt tímabil).:Baldur Guðlaugsson ráðuneytistjóri selur bréf sín í Landsbankanum. Sumar fréttir segja að salan hafi farið fram nokkrum dögum eftir Lundúnar-fund, aðrar tveimur vikum.
  • 22. september: Sheik Al-Thani kaupir 5% í Kaupþingi.
  • 23. september: Hæsta millifærsla Bjarna Ármanns út úr landi. Hinar millifærslurnar ásamt millifærslum Lárusar Welding, voru ekki dagsettar í fréttum.
  • 25. september: Lánanefnd Kaupþings afgreiðir lán og afskrifar önnur, til útrásarvíkingafyrirtækja. Samþykkt í stjórn Kaupþings að ábyrgðir starfsmanna á lánum falli niður. Einar Sveinsson fyrrum stjórnarmaður í Glitni, millifærir 170 milljónir af reikningi sínum til Noregs.
  • 29. september: Ríkið lýsir því yfir að ætlun sé að yfirtaka Glitni og kaupa 75% hlut í bankanum.
  • 2. október: Ólafur Ólafsson lætur Kaupþing í Lúxemborg kaupa ríkiskuldabréf fyrir fé sitt í Lúxemborg og hefur verið að koma fé út úr landi um svipað leyti.
  • 3. október: Breska fjármála-eftirlitið gerir sérstakar ráðstafanir til að tryggja að innlagnir í Singer&Friedlander fari ekki inn í bankann, heldur á serstakan reikning. Heritable, dótturfélagi Landsbankans einnig gert skylt að gera hið sama. Imon-félag Magnús Ármanns kaupir í Landsbankanum.
  • 6. október: Kaupþings-menn fara inn í Seðlabankann og fá 80 milljarða króna lán. Sama dag eru Singer & Friedlander og Heritable sett í gjörgæslu breskra yfirvalda
  • 7. október:Heritable fært undir hollenska bankann ING.Seðlabankinn festir gengið við krónuna og upphefst miklar umbreytingar úr krónum í evrur innan bankanna. Landsbankinn yfirtekinn.
  • 8. október: Seðlabankinn heldur fast við gengisfestinguna allt þar til um kvöldið. Hryðjuverkalög sett á Landsbankann og Kaupþing Edge fært undir ING-bankann.Glitnir yfirtekinn
  • 9. október: Kaupþing yfirtekið af ríkinu.
Hvað hefu okkur verið svo sagt í fréttum til viðbótar um millifærlsur o.fl.(ótímasett)?
  • Björgólfs-feðgar, Karl Wernersson, Magnús Þorsteinsson, Samson og Milestone fluttu fé út úr landi.
  • Bakkavör flutti frá London til Reykjavíkur 130 milljónir punda í byrjun október. Þessi fjármagnsflutningur er llíklega einn af orsakavaldöldum hryðjuverkalaga Breta.
  • Fleiri menn í viðskiptalífinu(fyrir utan Kaupþings-menn) fluttu eigur sínar í einkahlutafélög eða yfir á konuna fyrir hrun. Ef fólk hefur orku í að finna það út hverjir það voru, endilega komið því á framfæri.
  • Kaupþing í Lúxemborg, Tortola-eyjar o.fl. lönd, eru vinsælir áfangastaðir fyrir þetta þar sem rík krafa um bankaleynd, gerir auðveldara fyrir menn að fela eignarhald og hvert peningar fara.
  • Hlutabréfakaup Al-Thani og Imons, félags Magnúsar Ármannsonar, eru þegar komin í rannsókn sem sýndarviðskipti.
  • Nokkrum sinnum áður hafa birst fréttir af því að óeðlilegir millifærslur hafi átt sér stað hjá Kaupþingi í kringum hrun, sem eru í rannsókn hjá rannsóknanefndinni og saksóknara.
  • Glitnir hefur ráðið sérfræðifyrirtækið Kroll til að kanna hugsanlegar óeðililegar millifærslur fyrir hrun.

Ef við skoðum þetta allt saman(vantar reyndar peningaflutninga af IceSave inn í myndina), þá er eitt sem stingur mann strax. Snemma í september voru menn byrjaðir að bjarga egin skinni, selja bréf, losa um eigur og flytja fé út úr landi. Upp úr miðjum september virðist vera brostinn á almennur fjármagnsflótti útrásarvíkinga, bankamanna og annara með innherja-upplýsingar ásamt því að allavega tvenn sýndarviðskipti eru sett á svið. Þetta er bara það sem við vitum af, nota bene, við höfum ekkert fengið enn af ráði úr Glitni og Landsbankanum sem slegin hefur verið þagnarmúr í kringum. Persónulega grunar mig að mesti óhugnaðurinn leynist í Landsbankanum og ekki bara IceSave, heldur einnig þar sem Björgólfs-feðgar réðu þar ríkjum og stjórnsýsla Sjálfstæðisflokksins var hvað í mestu ástarsambandi þar við, enda bankinn atvinnumiðlun fyrir margan SUS-arann og bankastjórnin tengd beint inn í æðstu stjórn landsins. Samkvæmt heimildarmanni sem ég hef enga ástæðu til að rengja, þá átti þar nefnilega líka sér stað sú fyrirgreiðsla til stjórnmálamanna sem hefur veirð minnst á, og gæti átt sinn þátt í því að algjör skjaldborg hafi verið slegin um þann banka til verndar starfsferlum margra. Þögn hefur svo ríkt um Glitni síðan leki varð þar síðasta haust og gripið var til ráðstafana til að koma í veg fyrir slíkt. 

Svo má einnig benda á til viðbótar, að allir þessir aðilar: Kaupþings-klíkan, Landsbanka-lýðurinn og Glitnis-gengið, voru að lána hvor öðrum, halda saman upp verði á hlutabréfum bankanna sinna og stunduðu allskonar óeðlilega viðskiptahætti sem miðuðu að því að viðhalda blekkingunni. Því er mögulegt að þegar einhver úr þessum hópi hafi fengið upplýsingar um að öll spilaborgin hafi verið að fara að hrynja, að bræðralagið hafi í anda skyttnana eða einn fyrir alla, allir fyrir einn, hafi gilt framar öllu og boðin gengið út: Þetta er búið, læsið neðri þilförunum svo almenningur komist ekki í björgunarbátana sem ætlaðir eru okkur einum.

En þetta vekur líka upp ýmsar spurnignar til viðbótar, ekki bara ályktanir. Hvaða vitneskja olli þessum fjölmenna flótta og uppnámi fyrir hrun? Lak eitthvað út úr stjórnsýslunni eða frá stjórnmálamönnum sem áttu ýmislegt undir, um að aðgerðir væru í vændum? Hveersvegna gripu FME og Seðlabanki ekki til aðgerða? Hverjir fleiri losuðu um fé sitt úr innstu röðum stjórnsýslunar og stjórnmálaflokkana? Höfðu ráðherrar, þingmenn, ráðuneytistjórar og aðrir valdamenn upplýsingar um hvað væri í gangi innan bankanna og sýndarviðskipti færu þar fram? Og svo hverjir sátu í lánanefndum bankanna?

Mörgum spurningum og hlutum er hægt að velta upp til viðbótar en þetta ætti að nægja að sinni. Þó er eitt atriði sem rifjaðist upp fyrir mér við þessa litlu samantekt og upplýsingaleit og það er þetta hér:

  • SKY sjónvarpsstöðin kom fram með umfjöllun um að Ísland hefði veirð notað sem peningaþvottastöð fyrir rússnesku mafíuna. Einnig var skrifuð grein þar sem fjallað var um þetta í rússnesku blaði og birtist hún víða. 

Er þetta ekki mál sem ætti að rannsaka einnig frekar? Gæti peningaþvætti tengst fjármagnsflutningum?

Að lokum, þá býð ég ykkur upp á gott grín í boði Samtaka atvinnulífsins: frétt um morgunverðarfund SA sem hafði yfirskriftina:

Traust í viðskiptalífinu - Getur gott siðferði borgað sig?


mbl.is Netverjar æfir yfir lögbanni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðmannamillifærslurnar og áhugaverður fréttaflutningur Morgunblaðsins

Einhvern tímann var sagt, að oft á tíðum væri það athyglisverðara hvað Morgunblaðið segði ekki frekar en hvað það birti í fréttum sínum. Fréttir gærdagsins um millifærslur auðmanna og bankamanna á milli landa er e.t.v. ágætis dæmi um það þar sem tvennar fréttir birtust, önnur á RÚV og svo hinsvegar fréttin sem þessi yfirlýsing tengist, á Stöð 2.

Lítum aðeins fyrst á þessa frétt um Björgúlfs-feðga, Magnús Þorsteinsson, Karl Wernersson, Milestone og Samson. Fréttin birtist á Stöð 2 um 18:30 en á vef Morgunblaðsins birtist ekki neitt fyrr en um 5:30 þar sem Morgunblaðsfréttin um málið er birt en hún birtist einnig í blaði dagsins, ekki sérlega áberandi þó. Er titill hennar eftirfarandi:

"Björgúlfs-feðgar segja frétt Stöðvar 2 ranga"

Ef fréttin er lesin svo, er lítið sagt um hvað kom fram í frétt Stöðvar 2, heldur aðeins koma fram sjónarmið auðmannana. Frekar óljóst og loðið allt saman og ef maður væri nú svo heftur í nútíma samfélagi að aðeins lesa matreiðslu Morgunblaðsins og þeim FL-okksins dindlum sem stýra þar á bak við tjöldin, þá væri maður eitthvað að klóra sér í hausnum.

Næsta frétt um þetta mál birtist svo kl. 12:04. Er það yfirlýsing frá Magnúsi Þorsteinssyni þar sem hann segist vera voða svekktur og sár, heimtar afsökunarbeiðin og er óhress.Ber fréttin titilinn:

"Segir frétt Stöðvar 2 ranga"

Eitthvað meir er hægt að glöggva sig á málinu, en samt er ekki komið fram nákvæmlega um hvað frétt Stöðvar 2 fjallaði um í heild sinni eða hvað Stöð 2 segir. Það skal tekið fram að Stöð 2 lýsir því yfir um svipað leyti að þeir standi alveg við fréttina um peningamillifærslurnar sem Morgunblaðið hefur ekki enn hirt um að segja okkur nákvæmlega frá.

Aðeins 10 mínútum síðar er birt tilkynning frá Straumi um að þeir væru óhressir með þessa frétt og ætluðu að leita til lögfræðinga sinna.Er titill fréttarinnar mjög eftirtektarverður og grípur strax lesandann heljartökum:

"Straumur leitar til lögfræðinga vegna fréttar"

Í þessari frétt kemur þó fram í einni setningu um hvað frétt Stöðvar 2 snérist um og þeir sem aðeins treysta á mbl. hefðu nú kinkað kolli og áttað sig á hvað væri í gangi. Því miður var fréttin fljót að hverfa í hít viðskiptafrétta svo ekki hefðu margir náð að glöggva sig á samhengi hlutanna.

Á öðrum vef-miðlum er vítt og breitt talað um málið, m.a. rætt við fjármálaráðherra, FME, skilanefnd Straums o.fl. en á Morgunblaðinu ríkir þögn að hætti húsins. Mætti halda að gamlir kaldastríðsdraugar frá Háaleitisbraut 1, hefðu nú hrekkt eitthvað tölvukerfið þegar kom að svona hlutum því það er ekkert minnst á þetta mál á einn eða annan hátt fyrr með þessari yfirlýsingu Björgúlfs Thor sem hér er tengt við og er hún með eftirfarandi stríðsyfirlýsingu:

"Björgúlfur Thor: Skipulagður óhróður, véfréttir og lygar"

Hefur hann fengið að vera framarlega í sessi hér á forsíðu mbl.is enda var nú faðir hans nú fyrrum eigandi blaðsins og örugglega margir sem hugsa hlýtt til þeirra ára, hvort sem það voru gamlir jaxlar eða kaldastríðshermenn sem dáðu þá feðga ofan af Háaleitisbraut 1. En hefur þó ekkert sést til neinnar tilraunar til að draga fram fleiri hliðar en burgeisana sem Sjálfstæðismenn kiknuðu í hnjánum yfir,  líkt og ástfangin skólastelpa fyrir framan draumaprinsinn. Hver veit, kannski eru þeir feðgar að fara að stökkva til með smáfjármagn til handa Morgunblaðinu, svo hægt sé að leyfa Davíð vini þeirra að setjast í ritstjórastól þar til eftirlaunin kalla?

En svo eru það hinar millifærslurnar, þessar sem RÚV sagði frá.  Nákvæmlega kl. 18:24 að staðartíma þá laumar Morgunblaðið þeirri frétt inn á mbl.is að Bjarni Ármanns og Lárus Welding, hafi nú millifært milljarða og ber fréttin titilinn:

"Millifærðu hundruð milljóna á milli landa"

Er fréttinni haglega komið fyrir undir viðskipti fremur en undir innlendum fréttum, þó að þetta sé stórfrétt að mörgu leyti. Er titillinn þó meira grípandi og segir mun meira í frétetinni hvað hafi verið gert heldur en þegar blaðamenn og ritstjóri mbl.is og Morgunblaðsins voru að væflast með burgeisana sem bjórseðla þóttust eiga, þá Björgúlfsfeðga. Eina sem fréttist um það mál í dag, er svo yfirlýsing frá Bjarna Ármannssem birt er að sjálfsögðu undir Viðskiptum og ber þann grípandi titil:

"Bjarni Ármanns: Eðlileg fjárstýring"

Reikna má með að hver einasti maður á landinu hafi stokkið til og lesið yfirlýsinguna sem hvarf fljótt inn í hyldýpi viðskiptaheimsins líkt og skortstaða bankanna eða millifærslur sem ekki máttu sjást. Ekki sást reynt að fá fleiri álit og/eða fleiri vinkla á fréttirnar, heldur ber þar að sama garði og með bjórfeðgana.

En það er meira við fréttaflutninginn af Glitnis-bankastjórunum. Þar er nefnilega ekki öll sagan sögð og líkt og áður þá eru þeir sem treysta aðeins á Morgunblaðið varðandi fréttaflutning, með skerta sýn og jafnvel búnir gleraugnalausir vegna ryksins sem fjölmiðillinn þyrlar upp. Það sem vantar inn í söguna er að í frétt RÚV. að það vantaði Harry Lime í söguna Fyrir ykkur sem ekki þekkja kvikmyndasöguna þá er Harry Lime Þriðji Maðurinn hans Orson Welles. Og hver er þessi Þriðji maður sem ekki er til hjá Morgunblaðinu?

Einar Sveinsson heitir hann og var nú stjórnarmaður á sama tíma og Karl Weners, Hannes Smára o.fl. töffarar útrásarinnar. Einnig sat hann í stjórn Sjóva Almennra, Olíufélagsins, BNT og Icelandair þar sem hann tautaði um vonda kommúnista þegar Icelandair var yfirtekið.

Og hversvegna ætli Morgunblaðið hafi kosið að minnast ekki á hann?

Það skyldi þó ekki vera þó sú staðreynd, að hann Einsi er nú bróðir Benedikts, pabba formanns Sjálfstæðisflokksins, hans Bjarna Ben.

 

 

 

 

 


mbl.is Björgólfur Thor: Skipulagður óhróður, véfréttir og lygar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

AK-72

Höfundur

AK-72
AK-72
Með óþrjótandi áhuga á kvikmyndum, sögu og stjórnmálum.Telur sig hafa fullt frelsi til að hrósa og gagnrýna hvern sem er og hvenær sem er.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...1212_913482
  • ...ner1_568492
  • ...rad-banner1
  • Screenshot

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband