Færsluflokkur: Bloggar

Mótmælin á gamlársdag og Ari Edwald

Ég er einn af þessum skríl, lýð, atvinnumótmælenda, VG-pakk, krakki og öllum öðrum nöfnum sem maður er víst kallaður af smáborgaralegum unnendum spillingar, sem mætti á mótmælin við Hótel Borg sem fara líklegast í annála. Í dag hef ég aðeins fylgst með umræðunni, horft á myndbönd, skoðað ljósmyndir o.fl. og langar að setja mitt sjónarhorn inn um þetta, enn einn vitnisburð þeirra sem voru þarna en sitja ekki í sófanum sínum með blammeringar og stimplanir á okkur "skrílinn", og kannski skilja ekki hvað er að fara að gerast á þessu ári og því næsta sem verður mun verra að öllum líkindum.

Atburðarrásin er eins og ég sá hana frá mínum sjónarhóli inn í portinu, er frá mínum sjónarhóli séð svona. Eftir að einhverjir klifruðu inn í portið og opnuðu hliðið þar, þá fór fólk þar inn og ég þar á meðal, ásamt tveimur félögum mínum sem voru líkt og ég að taka myndir. Fólk var þá komið inn á Hótel Borg og ég sá nú ekkert hvað var að gerast þar inni og get því ekki borið vitni til um það. Lögreglumenn héldu sig frá, tvístigandi bak við eitt hlið þar og litu flestir út fyrir að vera óviljugir til að fara að standa í einhverju stappi, enda í sama helvítis fokking fokkinu og við hin. Svo tók maður eftir því að þar var kominn einhver yfirstjórnandi sem fór að gefa fyrirskipanir og stuttu síðar færði lögreglan sig inn að mótmælendum. Um tíma stóðu þeir þar, þar til nokkrir lögreglumenn fóru inn og var þeim hleypt góðfuslega í gegn af fólki, enginn var að veitast að þeim eða hrópa að þeim heldur flestir talið að þeir ætluðu bara að ýta fólki út eða taka sér öryggisstöðu inni. Loks tóku sér lögreglumenn stöðu í dyrunum, til að hleypa ekki neinum inn.

Í framhaldi af því, þá verða kaflaskipti þegar gasinu er beitt þar inni og maður heyrir sársaukaöskur í fólki þar, sem er innikróað. Ég get vel skilið að lögreglan hafi ætlað sér að koma fólki út, en að innikróa það til að beita vopnum gegn fólki, er ekki beint til þess fallið að róa ástandið niður, og líklegast hefðu nú gamlir jaxlar á borð við Geir Jón getað komið fólki þarna út með góðu. Við þetta verða margir reiðir og reiðin beinist í átt að lögreglunni fyrir þetta. Það er hrópað að þeim,og loks er byrjað að syngja og senda þeim fingurinn. Þá stormar fram foringinn með kalltækið sitt, gargar að fólk sé með ólögleg mótmæli sem ég skil ekki hvernig hann fær út, tilkynnir í kalltækinu sem varla heyrist í, fyrir öðrum hávaða, að beitt verði táragasi. Maður hugsaði með sér þá, hvað í andskotanum er í gangi í kollinum á þessum manni, að gasa fólk fyrir að hrópa og syngja?

Skyndilega brjótast svo fram GAS-man og félagar, og byrja að sprauta á fullu eins og óðir yfir fólkið sem sumir hverjir höfðu lyft höndum upp til að sýna að það væri óvopnað og ekki með neitt ófriðsamegt í huga, á meðan aðrir lögreglumenn byrja að rífa þá upp sem sátu eða vísa fólki í burtu. Einn fór upp að mér og bað mig um að fara í burtu og hlýddi ég fyrirmælum, lyfti upp höndum til að sýna að ég væri friðsamelgur, en komst ekki mikið þar sem fólk hreyfðist hægt í burtu. Lögreglan hélt áfram að ýta við bakinu á manni með kylfunum upp að mannlegri keðju þarna og var ég orðinn fastur upp við. Viðkomandi lögreglumaður hvæsti þá á mig að hreyfa mig en ekki náði ég að svara honum um að slíkt væri ekki hægt, þareð keðjan losnaði og skyndilega fannst mér eins og e.t.v. öðrum, að verið væri að ýta mér upp að þar sem verið var að gasa fólk. Úðiinn fannst manni vera orðinn aðeins of nálægt og ég játa að ég hefði misst allt álit á lögreglunni ef þeir hefðu ýtt manni  bununa sem stóð frá þessu árásarvopni.

Svo fór nú ekki og fór maður út úr sundinu klakklaust og án þess að vera gasaðureða verra. Eftir á, stóðum við félagarnir og fylgdumst með m.a. gömlum, reiðum manni sem hafði veirð þarna í sundinu að ég held, sem las yfir lögreglumönnunum pistilinn fyrir að hafa úðað yfir fólk sem hafði ekki gert neitt nema vera í sundinu. Fólk fyrir utan Borgina, var margt hvert yfir sig hneykslað á gasárás lögreglunnar, því þetta fyrir utan var árás en ekki vörn eða nauðsyn. Ég ætla þó mér ekkert að réttlæta það sem gerðist inn á Borginni, og ekki sæmandi að beita aðra manneskju ofbeldi, og finnst það einnig ömurlegt að lögreglumaður hafi endað á spitala. Ég skil svo sem ofsareiðina sem greip um sig af hálfu þessa einstaklings, að rífa upp grjót og henda efitr gasárásina, en það réttlætir það engan veginn ekki. Mér finnst eiginlega að við mótmælendur ættum að rölta með konfekt og blóm niður á lögreglustöð og biðja félaga hans um að koma þeim til skila, svona um leið og við lesum þeim pistilinn fyrir yfirgengilg viðbrögð fyrir utan hús. Ég er nefnilega hræddur um að þetta atvik leiði bara til dýpra vantrausts í garð lögreglunnar sem bitnar á heiðarlegum mönnum þar, en ekki vanhæfri yfirstjórn, sem vernda hina raunverulegu glæpamenn í landinu vegna flokks- og vinatengsla. Hinir almennu lögreglumenn eru nefnilega engir sökudólgar, heldur eru í óþægilegri stöðu á milli steins og sleggju og ég efast ekki um að þeir vildu frekar vera að handtaka auðmenn, bankamenn og spiltla stjórnmálamenn fremur en að berja á fólki sem er í sama skítnum og þeir sjálfir.

En þá að öðrum hlut í tengslum við þessi mótmæli og það er Stöð 2 og Ari Edwald. Ég er enn að reyna að átta mig á hvað Stöð 2 var að hugsa fyrir það fyrsta að hafa Kryddsíld eftir allt saman, þátt þar sem úr sér gengnir stjórnmálamenn og atvinnugasprar sem njóta einskis trausts lengur, troða út á sér belginn og láta út úr sér sömu þvæluna enn og aftur, í andvana skilningsleysi á því hversvegna fólkið fyrir utan borðar ekki bara kökur þegar brauðið klárast.Einnig hefði þeim átt að vera ljóst og fullkunnugt um að mótmæli væru fyrihuguð við Borgina. Kannski var það ætlunin, að hleypa smá fjöri í hrútleiðinlegan þátt og reyna að búa til smá fjör, hver veit?

Á sama tíma þvældist fólk fyrir utan frá þeim að taka viðtöl við mótmælendur og eins og venjulega, reyndu þeir mikið til þess að reyna að gera lítið úr fólki með barnalegum og háflvitalegum spurningum, sem kokkaðar voru upp í Valhöll. Fjölmiðlar hérlendis hafa hingað til nefnilega tekið afstöðu með valdinu í gegnum tíiðina, svona í svipuðum dúr og aðrir sambærilegir fjölmiðlar erlendis:Fox news, Pravda og TASS svo maður nefni dæmi. Engin breyting virðist vera á þessum þankagangi hjá Fréttastofu Stöðvar 2, enda kannski erfitt þegar þeir vinna fyrir gerendur hrunsins og í meðvirkni sinnni vilja vernda höndina sem gefur þeim að éta og segir þeim jafnvel hvað þeir eigi að hugsa og segja.

Maður var því þokkalega undirbúinn undir fréttaflutning Stöðvar 2 sem var orðinn að þáttakanda í frétt og kastaði í burtu þykjustuhlutleysinu sínu sem er ágætt mál því engum þarf að dyljast það lengur með hverjum þeir standa. Hefðbundin frétt sást frá þeim þar sem reynt var að draga upp þá mynd að mótmælendur væru vondir ofbeldismenn upp til hópa,  örugglega eitthvað sem Ari Edwald hefur heimtað til réttlætingar orða sinna um "vopnaða glæpamenn".Var fólk að beita vopnum þarna fyrir utan grjót tekið upp í reiði? Og hvað með þessi skemmdarverk? Það sést bara einn bruninn kapall, nokkuð sem gerðist eftir að lögreglan beitti táragasi. Hvaða aðrar skemmdir áttu að vera framdar á tækjum Stöðvar 2? Og já, er gasárás ekki nógu hart að þínu mati? Hvað vildirðu, Ari? Að lögreglan myndi hefja skothríð á fólk?

Ari Edwald má þó eiga það að hann kallaði fram reiði hjá manni og einstaklega mikla klígju yfir Ara sem minnti mann helst á þa atvinnurekendur og landeigendur fyrr á öldum sem letu berja og myrða fólk sem barðist fyrir réttindum verkafólsk. Sór ég þess eið að ég myndi aldrei gerast áskrifandi að Stöð2 eftir þau orð, og var hálffúll yfir því að vera ekki áskrifandi, því ég hefði getað sagt upp áskriftinni með þeim formerkjum. Ari Edwalds er nefnilega einn af þeim mönnum sem hafa átt þátt í að setja landið á hausinn því fyrir utan það að vera stjórnandi einstaklega skuldsetts Baugs-fyrirtækis og hafa sukkað með lífeyrissparnað fólks, þá var hann einn af þeim félögum í Viðskiptaráði sem þrýsti á ríkistjórnina og mótaði aðgerðarleysisstefnu gagnvart fjármálaglæpum og glæframennsku því eins og Viðskiptaráð sagði, þá ættu fyrirtæki að sjá um að móta reglur sjálf um sig, ekki ríkið sem ætti ekki að skipta sér af starfsemi fyrirtækja á neinn hátt. En hverjir eru í Viðskiptaráði með Ara? Klingja einhverjar bjöllur við nöfn manna á borð við Lárus Welding, Erlend Hjaltason forstjóra Exista o.fl slíkt lið sem hefur framkallað þjóðargjaldþrot? Viðskiptaráð hefur nefnilega í gegnum tíðina fengið um 90% af sínum hlutum í gegn, vegna náinna tengsla í gegnum Sjáflstæðisflokkinn og afleiðingarnar sjáum við nú með efnahgshruninu.

Takki, Ari fyrir það, og vonandi verða fleiri sem þakka þér fyrir þinn þátt í ástandinu, með því að segja upp áskrfitinni að Stöð 2 og hætta viðskiptum við fyrirtæki sem þú kemur nálægt.

Hér eru svo hlekkir á skrif fólks af staðnum, ljósmyndir og videó af mótmælunum svo fólk geti séð þetta frá sem flestum sjónarhornum:

http://birgitta.blog.is/blog/birgitta/entry/758972/

http://hehau.blog.is/blog/hehau/entry/759218/#comment2063228

http://salvor.blog.is/blog/salvor/entry/759037/

 http://eyjan.is/blog/2008/12/31/myndband-fra-hotel-borgar-motmaelum/

 http://larahanna.blog.is/blog/larahanna/entry/759143/

http://skessa.blog.is/blog/skessa/entry/758550/

 


Réttlæti Ekkert Ofbeldi-Myndband

Ákvað að setja þetta myndband hér inn á bloggið. Frekar flott af þeim sem gerðu þetta.

 

 

 


Opinn borgarafundur í kvöld kl. 20 í Háskólabíó-Mætum öll sem getum

Ætla að minna á og hvetja fólk til að mæta. Það eru allavega einhverjir verkalýðsforkólafr búnir að staðfesta komu sína og vonandi mæta sem flestir úr þeirra hópi og forstöðumenn lífeyrissjóðanna sem þurfa að svara ýmsu.


OPINN BORGARAFUNDUR #5

Háskólabíó Mánudaginn 8. desember, klukkan 20:00.

Fundarefni: Verðtryggingin,skuldir heimila og fl.

Við skorum á forystumenn verkalýðsfélaga og lífeyrissjóða, Viðskiptaráðherra og Félagsmálaráðherra til að mæta og svara spurningum milliliðalaust
Auk þess hvetjum við alla aðra ráðherra og þingmenn að mæta að og hlusta á sitt fólk.

Hinum almenna borgara mun nú gefast tækifæri að spyrja viðkomandi forustusveit spjörunum úr.

Þá munu verkalýðshreyfingin, fulltrúar lífeyrissjóða auk ráðherra eiga kost á því að skýra fyrir okkur almennum borgurum hvernig þessi samtök munu mæta kreppunni með okkur.

Hvernig hefur varðveisla eigna okkar gengið fyrir sig hjá lífeyrissjóðunum, hver er niðurstaðan,hvað er tapið mikið ?

Mun verðtryggingin gera þá sem skulda eignalausa? -Landflótta?

Frummælendur:
Ásta Rut Jónasdóttir, húsmóðir
Gylfi Arinbjörnsson, framkvæmdastjóri alþýðusambands Íslands
Vésteinn Gauti Hauksson, markaðsstjóri

Við fækkum frummælendum úr fjórum í þrjá vegna fjölda áskorana um að gefa áheyrendum í sal meiri tíma til spurninga.

þegar frummælendur hafa lokið máli sínu geta fundarmenn tjáð sig eða spurt gesti Borgarafundarins.

Fjölmennm á fundinn, spyrjum spurninga og fáum svör. Án þeirra getum við ekki myndað okkur skoðun né tekist á við vanda heimilanna.

Sýnum borgaralega virkni, ábyrgð og samstöðu-mætum í Háskólabíó.
f.h. undirbúningsnefndar
borgarfundur@gmail.com


Tveir mánuðir af ábyrgðarleysi

Þegar ég sá ábendingu á Eyjunni um það, að sama endurskoðendafyrirtæki: KPMG ,og sá um að kvitta upp á reikninga Baugs, FL Group o.fl. fyrirtækja sem stóðu í braski, skuli vera fengið til að rannsaka þau og sjálft sig í raun, þá féllust mér hendur og vonleysið greip mig. Mér fannst eins og það væri verið að senda okkur puttann enn eina ferðina og láta hina grunuðu meðhöndla sönnunargögnin.

Í framhaldi af því fór hugurinn að líta yfir síðustu tvo mánuði og allt það sem hefur komið fram úr rotnum innviðum samfélagsins sem er að hruni komið, og hvað það er æpandi að hinir seku og grunuðu sitja sem fastast á meðan almenningi er ætlað að þjást fyrir þá. Engin ábyrgð né nokkuð gert til að stöðva óheiðarleikann eða byggja upp traust, og varð það eiginlega til þess að ég ákvað að taka saman lista yfir sem mest af þessu og vonandi bætir fólk við.

  • Endurskoðendur sem sáu um að fara yfir ársreikninga og annað hjá bönkunum, eru nú að rannsaka það sem þeir klúðurðu í upphafi. Engin ábyrgð af þeirra hálfu og liggja undir grun um óeðlileg vinnubrögð en samt fengnir í það, að rannsaka viðskiptavini sína sem þeir samþykktu. Hafa ekki verið rannsakaðir enn.
  • Bankamenn sem bera ábyrgð á IceSave, peningamarkaðsjóðum, vafasömum viðskiptaháttum og blekkingum ýmiskonar, sitja enn. Engin rannsókn hefur farið fram á gjörðum þeirra, heldur hafa þeir haft tvo mánuði til gagnaeyðingar.
  • Stjórnendur FME sem áttu að fylgjast með og skoða hvort eitthvað óeðlilegt hafi veirð í gangi, sitja enn þrátt fyrir að hafa brugðist öllum skyldum sínum. Hafa ekki þurft að sýna ábyrgð, heldur fengið aukin völd.
  • Starfsmenn Kaupþings sem stofnuðu ehf. til að færa skuldir vegna hlutabréfakaupa inn í og skella í gjaldþrot með aðstoð bankans, sitja enn. Ekkert gert til að taka á þessu.
  • Stjórn Kaupþings ákvað að fella nður skuldir "ómissandi" starfsmanna, en segjast ekki ætla að gera það eftir fjölmiðlaumfjöllun. Enginn þarf að víkja né sýnt fram á að slíkt verði hvorteð er ekki gert. Orð frá bankamönnum er hreinlega ekki traustsins verð í dag.
  • Formaður VR sem satí stjórn Kaupþings og vann gegn hagsmunum umbjóðenda sinna, situr enn sem fastast í stéttarfélaginu og Lífeyrssjóðnum sem notaður var til að fjárfesta fyrir auðmennina. Enga ábyrgð hefur hann sýnt heldur stendur í því að múta trúnaðarmönnum með jólahlaðborðum.
  • Nýi bankastjóri Glitnis reynist hafa óhreint mjöl í pokanum með verðbréfaviðskipti. Þarf enga ábyrgð að sína, heldur situr sem fastast.
  • Nýja bankastýra Glitnis hefur meiri áhyggjur af því að það fréttist um vafasöm viðskipti bankans heldur en að vinna að heiðarleika og trausti með því að leggja öll spil á borðið, og hefur hafið mannaveiðar innan bankans í leið að "litla Glitnis-manninum". Sá á að sýna ábyrgð, ólíkt stjórnendum bankans.
  • Banakstýra Landsbankans, reynist hafa verið hægri hönd fyrrum bankastjóra og mjög líklega með fulla vitneskju um stöðu bankans og IceSave ásamt því að vera með puttana í vafasömum viðskiptum. Ekki hefur verið neitt rannsakað með þátt hennar og hún situr sem fastast ásamt öðrum stjórnendum.
  • Einn af ábyrgðarmönnunum á bak við IceSave er gerður að yfirmannni innra eftirlits landsbankans og liggur undir grun um að vera að fegra sinn hlut í því þannig. Enga ábyrgð þarf hann að sýna ne´hefur hlutur hans verið rannsakaður.
  • Fyrrum yfirmaður verðbréfasviðs sem er grunaður um að hafa nýtt sér upplýsingar sem hann hafði aðgang að sem ráðgjafi ríkistjórnar í húsnæðismálum, til innherjaviðskipta, situr sem fastast í Landsbankanum og er yfirhagfræðingur.
  • Greiningardeildirnar sem sáu um að ljúga að fólki, eru enn með sömu yfirmenn og skipulögðu þessa fölsku auglýsingastarfsemi bankanna. Enn halda fjölmiðlar áfram að sýna ábyrgðarleysi og spyrja þá einskis, heldur taka orð þeirra sem sannleika.
  • Þingmaður sem sat í stjórn Glitnis Sjóða, situr enn, þrátt fyrir að það hafi verið ýmislegt vafasamt þar. Grunur um að 11 milljörðum hafi verið dælt í Sjóð 9 til að bjarga honum, hefur ekki enn veirð afsannaður.
  • Ráðuneytstjóri sem grunaður er um að hafa nýtt sér upplýsingar, til að losa sig við hlutabréf í Landsbankanum, situr sem fastast og hefur yfirlýst traust ráðherra. Engin rannsókn hefur farið fram á athæfi hans, heldur er slegið skjaldborg í kringum hann.
  • Auðmenn sem hafa skuldsett bankanna og fyritækin svo svaklaega að landið er á leið í þjóðargjaldþrot, fá að kaupa upp bestu bitana úr þrotabúum eigin fyrirtækja og hafa stofnað sjóði til uppkaupa(Fönxi-sjóður Straums er gott dæmi). Engin ábyrgð  fellur til þeirra handa né reynt að hindra þennan hrægammahátt ne´eigur frystar eða handtökur farið fram.
  • Seðlabankastjóri gasprar og lætur allskonar rugl út úr sér í viðtölum sem valda titringi á alþjóðavísu og er hugsanelg orsök að þriðji bankinn fór í þrot. Enga ábyrgð hefur viðkomandi þurft að sýna heldur fær að sitja sem fastast ásamt vanhæfri stjórn Seðlabankans, sem hefur tekið stórskaðlegar ákvarðanir á borð við hringl með stýrivaxtahækkanir, lækkaða bindiskylda til handa bönkunum og fleira sem hefur átt sinn þátt í að skapa aðstæður fyrir þetta þjóðargjaldþrot.
  • Hafist er handa á fullu við það að selja Kaupþing í Luxemborg, þrátt fyrir að rauður þráður vafasamra viðskipta auðmanna og bankamanna, peningaþvætti og ýmislegt fleira vafasamt, liggi þar í gegn. Reynr er að koma þessu í hendur fyrrum stjornarformanns Kaupþings, svo hann geti klárað gagna-eyðingu og hulið slóðina.
  • Glitnir afskrifar skuldir fyrirtkækisins Stím, sem bankinn notaði til að fjárfesta í sér og í FL group til að búa til viðskipti, Ábyrgðarlaust lan og vafasamir viðskiptahættir hafa ekki enn fengið nokkurn mann til að víkja.
  • Fyrrum Samvinnutryggingar, og núverandi Gift, hefur skyndilega farið frá 30 milljörðum í plús í svipað í mínus vegna þess að peningurinn var nýttur til að sýna viðskipti með félög sem stjórnarmenn tengdust eða höfðu tengsl við e.t.v. Enginn þarf að sæta ábyrgð, heldur er bara yppt öxlum af þeim sem misnotuðu féð.
  • Ráðherrar sem virtust hafa haft pata af og vitað um hvert stefndi, sitja sem fastast og vilja ekki víkja. Ábyrgð þeirra felst nefnilega í því að fá launaseðilinn en ekki að víkja til að leyfa hæfari mönnum og ótengdum mistökunum að taka við.
  • Þingmenn sem áttu að veita ráðherrum aðhald, sinna eftirliti og setja lög til varnar því að svona færi, brugðust algjörlega og létu flokksskírteinið og ráðherraræðið vísa sér leið. Enginn þeirra hefur sýnt manndóm og sagt af sér.

Læt þetta nægja í bili enda er ég farinn að rífa hár mitt af örvinglun og gremju yfir því að enginn ábyrgð sé sýnd, ekkert sé reynt til að stíga spor í átt til réttlætis og uppbyggingu trausts og heiðarleika, heldur virðist sem að dagskipunin sé að bjarga hinum fáu af Icetanic sem keyrðu skipið í strand, og láta almenningin á neðri farrýmunum drukkna.

 Bætið endilega við þennan lista og svi ætla ég að reyna að viðhalda honum á mánaðrfresti.Sjáumst svo á Austurvelii á eftir. kl. 15:00.


Þetta er ekki almenningi að kenna!

Á bloggi Spámannsins,bloggvinar míns, rakst ég á athugasemd við góða færslu hans um hið auvirðilega "blame game" sem gengur út á það að reyna að sannfæra almenning um að það sé honum að kenna að allt fór til fjandans, ekki bankamönnunum, auðmönnunum og óhæfu embættismönnunum. Mér finnst þessi athugasemd þess virði að birta sér hér á blogginu og hafi Sigurvin þökk fyrir að benda á eftirfarandi:

"

Ef ársskýrsla seðlabankans fyrir 2007 er skoðuð og aðrar upplýsingar má sjá að útlán bankanna skiptust nokkurnveginn svona:

59% til erlendra aðila

32% til innlendra fyrirtækja, sveitarfélaga o.sl.

9% til heimilanna

Af þessum 9% voru ca 60% íbúðarlán sem þýðir að ca 3,6% útlána bankanna voru s.k. neyslulán þ.e. yfirdráttur, bílar, sumarhús, hjólhýsi, flatskjáir....

sigurvin (IP-tala skráð) 2.12.2008 kl. 22:37"

Þið semeruð svo að reyna að sannfæra okkur, hættið því og horfist í augu við sekt stjórnmálamannana, bankamannana og auðmannana. ÞETTA ER EKKI OKKUR AÐ KENNA!

 

 


Borgarafundurinn-Hugrenningar undirbúningsaðila

Þegar Gunnar hélt sinn fyrsta borgarafund í Iðnó í lok október upp á eigin spýtur, þá held ég að mér né nokkrum öðrum sem sátu þar, óraði fyrir snjóboltanum sem rúllaði á stað þar með okkur innanborðs. Sá fundur olli því nefnilega að ég ákvað að finna reiði minni í garð stjórnar, bankamanna, auðmanna, eftirlitsaðila og annara óhæfra embættismanna valda út frá flokkskírteinum, farveg í að reyna að gera eitthvað og finna kannski smá von um framtíð hér á Íslandi.

Í frmahaldi af því tróð ég mér í fartesið með Gunnari, Davíð og öllu því ágæta fólki sem einnig var á svipuðum nótum, það vildi svör og það vildi að það væri talað við sig og hlutir útskýrðir. Svo byrjaði boltinn að rúlla, tveir fundir enn, annar í Iðnó og næsti í NASA og að endingum stóðum við í Háskólabío, mánuði seinna eftir þessa hugdettu eins manns, þar sem við vissum ekki hvort nokkur maður myndi mæta né hvort nokkur af þeim háans herrum sem telja sig hafa eina vald til að tala fyrir þjóðina, myndu mæta. En þau undur og stórmerki gerðust að þetta fór fram úr okkar vonum, bíóið meira en troðfylltist, valdamennirnir mættu bíóið með greinilega þá trú að fólk myndi kikna í hnjánum við komu þeirra og meðhöndla þá með silkihönskum þar sem þau fengju að mjálma sömu loðnu frasanna aftur og aftur.

Raunin varð önnur, því líkt og þingmennirnir sem mættu á fyrsta borgarafundinn kynntust illlilega, fengu ráðherrarnir það að mestu málefnalega óþvegið, og manni varð það ljóst að líkt og þingmennirnir flestir ef ekki allir, voru ráðherrarnir ekki í neinum tengslum við fólk, heldur aðskildi gjá þá við fólk, gjá hroka og stéttar sem hvorki deilir né skilur mikið hvað almenningur hefur áhyggjur af eða vill.. Þetta var þó ekki það eina sem líktist fyrsta fundinum, því að mörgu leyti endurtók hann sig í því að fóllk var að upplifa að geta loksins geta talað við ráðamenn, loksins spurt það sem lá þeim á hjarta, loksins reynt að fá svör og einnig að leyfa ráðamönnum að skynja reiðina, sárindin og vantraustið sem borið er til þeirra. Fólk vill einfadlega að það sé hlustað og talað við það og ekki bara það, heldur einnig þá sem m.a. hafa haft framsögu á borgarafundum eða tjáð sig annars staðar með hugmyndir að lausnum og ábendingum um lausnir og hvað þarf að gera strax eða forðast. Því miður virðist svo vera að þeir sem hafa mest gert í því að sökkva skipum, hafi óbilandi trú á að þeir einir hafi vitið og getuna til að bjarga þeim og aðrir séu bara vitleysingar sem kunni ekki neitt í björgun.

Um frammistöðu ráðherra og framsögumanna ætla ég svo sem ekkert mikið að segja, enda hafa marigr tjáð sig um það, heldur bara það eitt að þegar ég hlustaði á ráðherrana og horfði á þingmennina þá kom hugsunin um spurningar sem hefur hvílt á mér lengi: hversvegna á ég að standa í þessu? Hversvegna á maður að hafa áhuga á að taka þátt í þessu samfélagi, borgandi skuldir annara og með sama liðið gjammandi á þingi í stjórn og stjórnarandstöðu sem er orðið svo samdauna rotnu flkkakerfi sem hefur lagt þjoðfélagið í rúst? Á ég ekki bara að gera eins og aðrir eru byrjaðir að gera, flytja út og koma aldrei aftur þar sem lítil von er til þess að þetta samfélag samtryggingar, flokksræðis, spillingar og valdhroka, getur ekki breyst með þetta fólk við stjórnvölinn, fólk sem telur meiri nauðsyn að vernda hina seku og refsa almenningi heldur en að gera nokkuð í átt til breytinga?

Í dag er það eina vonin mín um áframhaldandi Ísland, að samfélagið nái að breytast á næstu mánuðum, þrískipting valds verði að veruleika, gagnsæi og siðferði nái að ríkja í stjórnsýslu og að það náist að útrýma pólitískri spillingu eða lágmarka hana um aldur og ævi. Annars einfaldlega kveður maður Ísland með þá vitneskju að maður reyndi þó á einhvern hátt að hafa áhrif á hlutina en þjóðinni sé þvi miður ekki viðbjargandi fremur en öðrum þjóðfélögum sem hafa dáið út um aldanna rás. Maður er þó ekki einn í því að reyna hvort sem það er með mótmælum, borgarafundum eða dásamlegri flöggun Bónus-fána á Alþingishúsi sem inniheldur fólk sem er rúið trausti, virðingu og sumt hvert heiðarleika, og í því fólki sem reynir að breyta hlutunum, felst eina von Íslands, ekki í fólkinu sem tuðar út í horni og gerir svo ekki neitt nema að borga skuldir sem aðrir komu okkur í, um aldur og ævi.

Að lokum langar mig til að klykkja því út,  að maður hafði nú lúmskt gaman af því að sjá umfjallanir og heyra að við sem undirbjuggum þennan fund, værum öfgapakk, eitthvað VG-"lið" sem ég held að Sjálfstæðismennirnir í hópnum okkar, muni finnast furðulegt og að sjá okkur líkt við nasista jafnvel. Ég ætla þó að játa að ég sem gekk um svartklæddur með appelsínugulan borðann, minniti þó nokkuð á SS-mann og hafði nú spurt einhvern í gríni hvort við hefðum ekki getað haft þetta rautt til að fullkomna útlitið á mér. Kannski mun þó einn ráðherrana minnast mín sem slíks fóls, þegar ég kom, sótti viðkomandi og vísaði framfyrir röðinna inn í salinn þar sem pólitísk slátrun viðkomandi fór fram. Ef viðkomandi hugsar til mín á þann hátt, þá segi ég bara:

Ingibjörg Sólrún, þú slátraðir þér sjálf inn í salnum. Ekki kenna öðrum um.


mbl.is „Þetta er þjóðin“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgarafundurinn í Háskólabíó í kvöld-Mætum öll

Endilega látið sem flesta vita af þessu og fyllum Háskólabíó. Nú er búið að boða ráðherra og verða settir stólar upp á svið fyrir þá. Það er kominn tími til að þeir svari fólki beint og það milliliðalaust.

Hér er svo tilkynningin:

 Gott fólk takk fyrir frábærar mætingar á Borgarafundi undanfarnar vikur Nú þurfum við virkilega að vera dugleg og virkja alla til að mæta. Við þurfum að sýna stjórnvöldum að við stöndum saman og viljum milliliðalausar umræður og upplýsingar frá þeim. Fyllum Háskólabíó og sýnum hvers megnug við erum

____________________________________________________

OPINN BORGARAFUNDUR #4

Í Háskólabíói , mánudaginn 24. nóvember klukkan 20:00.


Við hvetjum ríkisstjórn Íslands og alla alþingismenn til að mæta á svæðið, hlusta á sína kjósendur og vera með í umræðunni. Á sviðinu verður komið fyrir 12 merktum stólum fyrir ríkisstjórnina, auk stóla fyrir alla alþingismenn. Einn stóll verður sérmerktur seðlabankastjóra.

Til hvers?
- Til að hinn almenni borgari geti komið hugmyndum sínum og skoðunum á framfæri á óvissutímum.

- Öllum stjórnmálamönnum, ráðherrum, alþingismönnum, seðlabankastjórum og bankastjórum er boðið að mæta til að svara spurningum Íslendinga, milliliðalaust.

- Til að almenningur fái skýr skilaboð og sé ekki hafður útundan í umræðunni.

- Til að leita spurninga og svara um efnahagsástandið.

Fyrirkomulag:
Fjórir frummælendur hefja umræðuna (5 mínútur hver):

Þorvaldur Gylfason, hagfræðingur
Silja Bára Ómarsdóttir, alþjóðastjórnmálafræðingur
Benedikt Sigurðarson, framkvæmdastjóri
Margrét Pétursdóttir, verkakona

Þegar frummælendur hafa lokið máli sínu er orðið gefið laust og hver sem vill fær tvær mínútur til að tjá sig úr sal eða spyrja þátttakendur í pallborði spurninga.

Fundarstjórn og tímavarsla verður sem fyrr tekin föstum tökum í nafni lýðræðislegrar umræðu.

Sýnum stuðning með þátttöku – spyrjum og heimtum svör – látum í okkur heyra.

Við ítrekum breyttan fundarstað. Hittumst í Háskólabíói kl. 20:00.

F.h. undirbúningshóps 


Aðstoðuðu þingmenn Samfylkingarinnar við handtökuna?

Einhvern veginn er það nú lýsandi fyrir samfélagið, að maður sem klifraði upp á þak og festi þar upp fána sem er lýsandi fyrir stefnu Alþingis síðustu 10-17 árin eða svo, þ.e. að setja hagsmuni fyrirtækja, auðmanna, bankamanna og fjárfesta framar hagsmunum almennings og þjóðar, skuli vera handtekinn. Á sama tíma hefur ekki einn einasti af þeim óþokkum sem settu landið á hausinn verið hnepptur í varðhald eða séð til þess að þeir séu teknir úr umferð á einhvern hatt svo þeir geti ekki haldið áfram að skaða þjóðina. Þeir sitja enn í bönkunum glottandi, þeir fljúga enn á milli landa og kaupa eignir úr þrotabúum fyrirtkja sinna o eru líklegast komnir í það að semja um að kaupa bankanna og skurtðstofur ódýrt þessa daganna. Enginn og það eru átta vikur liðnar.

 En eru þingmenn að hafa áhyggjur af þeim eða grípa til aðgerða? Nei, ef miðað er við þessa lýsingu af handtökunni sem ég set hér inn frá Maurildi, þá er Þjóðaróvinur nr. 1 maðurinn sem er orðinn að hálfgerðri þjóðhetju í dag fyrir þennan flotta gjörning, í augum þingmanna Samfylkingarinnar, framar auðmönnunum og bankamönnunum sem ganga enn lausir og í störfum sínum innan bankanna. Ef fánaflaggarinn hefði heitið Björgúlfur, Hannes, Jón 'Asgeir eða verið í toppstöðu innan "gömlu og nýju" bankanna, þá væru þingmennirnir líklegast með fánahyllingu fyirr framan skrifstofuna hans.

"

G l ó ð h e i t a r - f r é t t i r !


Haukur heimspekinemi dundaði sér við þann táknræna gjörning á dögunum að hengja Bónusfána á Alþingishúsið. Í kvöld beið hann niðurlútur með félögum úr Háskólanum eftir því að fá að hefja skoðunarferð um það sama hús í vísindaferð. Þar sem hópurinn stóð á snakki við Ágúst Ólaf og aðra broddborgara rak þjónustulundaður öryggisvörður glyrnurnar í Hauk.

Uppi varð fótur og fit. Háskólanemendunum var vísað á dyr í snarhasti. Þarna fengju þeir sannarlega ekki að laumast um gólf.

Í staðinn bauð Samfylkingin þeim á skrifstofur sínar. Haukur og félagar nutu þar lífsins og höfðu ekki minnsta grun um að á meðan Samfylkingarmenn gerðu við þá gælur voru Svartstakkarnir á leið á staðinn.

Samfylkingarmenn létu á engu bera. En þegar Haukur ætlaði að ganga út af skrifstofunum stökk löggan á hann og handtók hann.

Bónusmaðurinn er sumsé kominn í djeilið.

Og er nú ekki lýsandi fyrir hlut Samfylkingar á þessum síðustu tímum að bjóðast brosandi til að umbera lýðinn sem ekki er velkominn á hið háa Alþingi og sitja síðan aðgerðarlaus hjá þegar yfirvaldið kemur fram vilja sínum við hann?"

 


mbl.is Bónusfánamaður handtekinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sameining SÍ og FME eða hvernig skal koma Davíð í burtu og það með fulla tösku af seðlum

Ég hef alltaf gaman af kenningum, sérstaklega samsæriskenningum en verst er að þessa daganna hafa flestar þeirra ræst og það sem sannanir um svo óhugnanlega og gífurlega siðspillingu, heimsku, græðgi og hugarfar sem minnir helst á dystópískar lýsingar af verstu ríkjum heims.

En nú er ein kenning kominn upp sem er ansi trúverðug og það er í tengslum við sameiningu Seðlabankans og Fjármála-eftirlitsins. Eins og flestir sem eru ekki enn búnir að koma sér héðan, þá hefur verið talsverð krafa um að losna við Davíð nokkurn Oddson sem er búinn að líma sig fastan við kóngastól í Seðlabankanum þar sem hann gaular Gleðibankann meðan hann brennir efnahagskerfi þjóðarinnar sér til ánægju, hita og kökubaksturs. Almenningur getur jú borðað kökur þegar brauðið er búið. Gamli flokkurinn hans sem dýrkar hann og dáir og getur ekki hugsað sér að láta þennan hamingjusama og taumlausa Fenris-úlf í gereyðingargríni, verða rekinn með þeirri skömm sem hann á skilið. Samfylkingin sem langar svo mikið til að halda völdum, valdanna vegna þessa daganna, getur ekki heldur tekið áhættuna á að missa fallegu ráðherrastólana sem þau hafa fengið að máta. Allt hefur því veirð í status quo í spillingarbaðkarinu sem þjóðinni blæðir út í og hengist hægt og rólega í skuldasnörunni þessu veruleikafirrta fólki til skemmtunar.

En nú hafa samkvæmt þessari kenningu, einhverjir örvæntingarfullir menn í flokkunum sem hafa fundið fyrir eldi í sætum sínum, fundið leið framhjá til að taka tappann Davíð Oddson úr og slegið jafnvel fleiri en eina flugu í höggi. Hjáleiðin er nefnilega sameining Seðlabankans og Fjármála-eftirlitsins sem myndi skila fléttu sem hægt væri að sætta sig við af hálfu ríkistjórnarinnar. Við það gerist nefnilega það að það verður í raun til ný stofnun sem þyrfti að endurskipuleggja. Við endurskipulagninguna þá er nauðsynlegt að auglýsa stöðurnar upp á nýtt: forstjóri FME myndi fá færi á að færa sig um set annað, með afsökun um að "annað spennandi starf væri í boði" og fara í burut í kyrrþey til náðugs starfs annars staðar fyrir ríkið. Við það bætist bónusinn að starfsemi FME færi í algjört uppnám við breytingarnar sem gæfu bankamönnunum og fjárglæframönnunum meiri tíma til að eyða gögnum og koma fé út úr landi. Ekki amarlegur þakklætisvottur það fyrir góðar greiðslur í kosningasjóði. Aðrir embættismenn úr Seðlabankanum fyrir utan Davíð, myndu fara á eftirlaun, stjórnarmenn einnig fyrir utan það að Hannes Hólmsteinn myndi einbeita sér að kennslu um hvað frjálshyggjan hefði verið eyðilögð af synjun Ólafs Ragnars á fjölmiðlafrumvarpinu og hvað alllir hefðu veirð vondir við Davíð, Halldór Blöndal o.fl. afdankaðir yrði komið fyrir á órólegu deildinni á Grund og annað eftir því

En hvað með Davíð? Hann mun ákveða að vegna þessara breytinga sé kominn tími til þess að hann skoði aðra meira spennandi kosti, og hver er sá kostur? Það skyldi þó ekki vera sendiherrastóllinn í Washington sem ekki hefur veirð skipað í, eftir tilfærslu sendiherrans þaðan til Færeyja. Kóngurinn fengi þá að ljúka starfsævinni fyrir utan landsteinana sem honum er ekki lengur vært í, vegna þess að stefna hans og flokksins hans hefur skilað efnahagslegri hryðjuverku-árás gegn þjóðinni. Að sjálfsögðu verður svo eftirlaunafrumvarpið ekki afnumið á meðan því menn eins og Bjarni Benediktsson o.fl. skósveinar, munu tala um að það sé svo "erfitt og flókið" að taka af þessi ólög sem tók þrjá daga að koma á. Loks þegar gamli foringinn er orðinn sjötugur, þá mun hann taka út feita eftirlaunatékkann sinn ásamt öllum ritlaunum sínum, fara með töskurnar fullar af fé til fasteignasala, og kaupa sér búgarð í Texas til að eyða ævikvöldinu á.

Hver veit, kannski verður sá búgarður við hliðina á vini hans, Bush?


mbl.is Nýja Seðlabankastjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áskorun borgarafundarins

Á þessum magnaða fundi sem haldin var, þá kom fram áskorun frá Gunnari fyrir næsta borgarafund sem verður haldin í Háskólabíó næsta mánudag. Þess er krafist að ríkistjórnin mæti og svari fyrir sig, umbúðalaust og beint til fólks. Maður veit nú ekki hvort þau hafi hreðjar í það, en stólum verður raðað upp á svið, merktum með nöfnum þeirra, þar sem sést hverjir mæta ekki. Einnig er skorað á alla þingmenn, Seðlabankastjóra o.fl. að mæta.

 Svo er spurningin hvort fjölmiðlar taki einnig hinum hluta áskorunar, þ.e. að þeir sýni beint og þeir þrýsti á stjórnina að mæta.

Verður gaman að sjá, það verður allavega svo á næstu dögum byrjað að auglýsa þetta upp hjá okkur sem vinnum að undirbúningnum undir dyggri stjórn Gunnars leikstjóra.

Meir um það síðar....

 Ákvað að setja inn myndbandið þar sem Gunnar kemur með áskorunina hér.


mbl.is Troðfullt á fundi á Nasa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

AK-72

Höfundur

AK-72
AK-72
Með óþrjótandi áhuga á kvikmyndum, sögu og stjórnmálum.Telur sig hafa fullt frelsi til að hrósa og gagnrýna hvern sem er og hvenær sem er.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...1212_913482
  • ...ner1_568492
  • ...rad-banner1
  • Screenshot

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 123270

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband