Færsluflokkur: Bloggar

Opinn borgarafundur á NASA í kvöld kl. 20:00! Fjölmennum öll!

Vinir og velunnarar! Nú ríður á að láta þetta fundarboð berast í gegnum tölvupóst, bloggsíður og símskeyti. Hægt er að vista viðhengið og prenta það út.

Á fundinum verður m.a. rætt verður um ábyrgð og stöðu fjölmiðlanna. Í viðhengi er veggspjald fundarins sem er upplagt að festa á bloggsíður, MySpace, Facebook og áframsenda í tölvupósti. Við erum á www.borgarafundur.org.


OPINN BORGARAFUNDUR #3


á NASA við Austurvöll, mánudaginn 17. nóvember klukkan 20:00.

Í pallborði verða ritstjórar og fréttastjórar helstu fjölmiðla landsins, auk fulltrúa frá Blaðamannafélagi Íslands.

Hvetjum ríkisstjórn Íslands og alla alþingismenn til að mæta á svæðið, hlusta á sína kjósendur og vera með í umræðunni. Hvetjum ennfremur alla fjölmiðlamenn og konur til að mæta og taka þátt.
 
Til hvers?
- Til að hinn almenni borgari geti komið hugmyndum sínum og skoðunum á framfæri á óvissutímum.

- Öllum stjórnmálamönnum, seðlabankastjórum, bankastjórum, fréttastjórum og öðru fjölmiðlafólki er boðið að mæta til að svara spurningum Íslendinga, milliliðalaust.
 
- Til að almenningur fái skýr skilaboð og sé ekki hafður útundan í umræðunni.
 
- Til að leita spurninga og svara um efnahagsástandið.
 
Fyrirkomulag:

Fjórir frummælendur hefja umræðuna (5 mínútur hver):

Irma Erlingsdóttir, bókmenntafræðingur
Eggert Briem, stærðfræðingur
Björg Eva Erlendsdóttir, blaðamaður
Davíð A. Stefánsson, bókmenntafræðingur

Þegar frummælendur hafa lokið máli sínu er orðið gefið laust og hver sem vill fær tvær mínútur til að tjá sig úr sal eða spyrja þátttakendur í pallborði spurninga.
 
Fundarstjórn og tímavarsla verður sem fyrr tekin föstum tökum í nafni lýðræðislegrar umræðu.

Sýnum stuðning með þátttöku – spyrjum og heimtum svör – látum í okkur heyra.
 
Við ítrekum breyttan fundarstað. Hittumst á NASA kl. 20:00.
 
F.h. undirbúningshóps: Gunnar Sigurðsson leikstjóri (gus@mmedia.is - s: 897 7694) og Davíð A. Stefánsson bókmenntafræðingur (david@ljod.is - s: 864 7200).

 Bendi einnig á www.borgarafundur.org með upptökum frá síðustu fundum, myndum og spjalli.


„Nei takk, komið aftur eftir hreinsun“

Langaði til þess að benda á þessa grein á NEI, sem er athyglisverð. Ég hef allavega fengið það staðfest að svona er álit heimsins á okkur af hálfu erlendrar stjórnsýslu, frá aðila sem þekkir þar vel til.

Þetta sýnir bara einfaldlega að það þarf að fara fram hreinsun á stjórnkerfinu um leið og við byrjum að huga að breyttu stjórnskipulagi með lýðræði í staðinn fyrir ráðherra- og flokksræðis. Við þurfum einnig að aðgreina þrískiptingu vald og tryggja að vina- og vandamannasráðningum óhæfs fólks til handa óhæfu og flokksbundnu fólki sé gerð brottræk úr íslensku samfélagi. Ef það breytist ekki neitt, þá held ég að það sé óhætt að kvitta upp á einn mesta landlfótta vestræns lands því líkt og afstaða míns vinahóps er, þá er örugglega um 60-70% hans að hugsa um brottflutnig frá landinu. Við höfum bara einfaldlega engan áhuga á að búa í þjóðfélagi þar sem þessi spilling fær að viðgangast og engar breytingar verða á sama tíma og okkur er ætlað að borga óútfyllta IceSave-tékka og skuldir mannana sem ríkistjórnin verndar. Nei takk og bless þá, þjóðfélagið í núverandi mynd er ekki þess virði til að eyða tíma og lífi sínu í.

Minni svo á að á morgun mánudag, þá verður borgarafundur í NASA þar sem fjölmiðlar eiga að svara fyrir þátt sinn og ábyrgð í því hvernig fyrir okkur er komið.


Opinn borgarafundur í Iðnó laugardag kl. 13:00

Ég ætla að auglýsa hér með borgarafund sem á að vera í Iðnó á laugardaginn. S'iðasti fundur var magnaður og og stemmingin svakaleg. Það sem var þó best við fundinn var það að maður fékk upplýsingar settar fram á mannamáli um hvað gerst hefði og hvað væri hugsanelgt að gerðist næst, og eiginelga eygði smá von fyrir þetta þjóðfélag okkar eftir á.

Nú er búið að munstra að það mæti allavega þrír varaformenn flokkana á fundinn og svari spurningum og fái ekki að vera með neinar framboðsræður, heldur tala við fólk eins og manneskjur. Við þurfum að fá svör því þessi óvissa og upplýsingaleysi er að drepa alla.Svo maður vitni nú í eina sjónvaprseríu:"I'm not a number, I'm a human being!"

Þeir sem ætla að mæta eru Valgerður Sverris, Magnús Þór hafsteinss og Ágúst Ólafur en Sjálfstæðismenn og Vinstir gærnir eiga eftir að staðfesta komu sína eða hvern þeir senda. Ætti að koma í ljós á morgun og endilega látið sem flesta vita með því að afrita textann að neðan og senda á sem flesta. Hérna er svo opinbera auglýisngin á eftir og einnig er búið að setja upp vefsíðu þar sem má m.a. finna myndskeið frá síðasta fundi:

www.borgarafundur.org

Auglýsingin er svona:

OPINN BORGARAFUNDUR

- um stöðu þjóðarinnar -

í Iðnó, laugardaginn 8.nóvember frá 13.00-14.30

Til hvers?
- Til að hinn almenni borgari geti komið hugmyndum sínum og skoðunum á framfæri á óvissutímum.

- Á síðustu vikum hefur almennum borgurum hvergi gefist kostur á að tjá sig eða spyrja ráðamenn beinna spurninga.

- Öllum stjórnmálamönnum, seðlabankastjórum og bankastjórum verður boðið að mæta til að svara spurningum Íslendinga, milliliðalaust.

- Til að almenningur fái skýr skilaboð og sé ekki hafður útundan í umræðunni.

- Til að leita spurninga og svara um hvað framtíðin ber í skauti sér.

Fyrirkomulag

Fundarstjóri verður Gunnar Sigurðsson, leikstjóri.
Fjórir frummælendur hefja umræðuna (5-10 mín hver):

Lilja Mósesdóttir hagfræðingur, Pétur Tyrfingsson sálfræðingur, Ingólfur H. Ingólfsson fjármálaráðgjafi og Halla Gunnarsdóttir blaðamaður


Þegar frummælendur hafa lokið máli sínu er orðið gefið laust og hver sem vill fær tvær mínútur til að tjá sig úr sal eða spyrja spurninga. Svarendum eru gefnar tvær mínútur til þess að svara.

Hverjum stjórnmálaflokki verður boðið að hafa einn fulltrúa á sviði til að svara spurningum. Við boðum formenn eða varaformenn eða að þeir sendi sinn fulltrúa og hvetjum sem flesta þingmenn að mæta .

Fundurinn verður festur á myndband til sýninga á netmiðlum og fyrir sjónvarp.Settir verða upp hátalar bæði í forsal og fyrir utan Iðnó

Fundurinn verður tekinn upp af RUV og sendur út Þriðjudaginn 11 nóv kl. 21.00 á Rás 1 í þættinum Í heyranda hljóði umsjón Ævar Kjartanson


Settur verður fundarritari og tekin saman ályktun í lok fundar ef þurfa þykir.

Takmarkaður sætafjöldi, sýnum stuðning með þátttöku, spyrjum og heimtum svör, látum í okkur heyra.

F.h. undirbúningshóps: Gunnar Sigurðsson leikstjóri (gus@mmedia.is - s: 897 7694) og Davíð A. Stefánsson bókmenntafræðingur (david@ljod.is - s: 864 7200).

 

 


Bankamenn í skilanefndum: Að láta grunaða fjalla um glæpinn

Það er ekki annað hægt en að spyrja í ljósi síðustu fregna af Kaupþingi, hvort þurfi ekki að víkja tveimur starfsmönnum Kaupþings, sem þar sitja frá? Um er að ræða annarsvegar Guðný Örnu Sveinsdóttir sem var varamaður í stjórn gamla Kaupþings og yfirmaður fjármálasviðs þar og er í dag yfir fjármálum og rekstri samkv. skipuriti. Hinn aðilinn er Bjarki H. Diego sem var yfirmaður útlána hjá gamla Kaupþing og er yfir Fyrirtækjasviði í dag sem hann hafði áður umsýslu með, áður en útlánin féllu í hans skaut.. 

Ég get því miður ekki annað en sagt, að það ber að víkja þeim og starfsmönnum annara banka, úr skilanefndinni og þeim öllum yfirmönnum sem tengjast niðurfellingarmálum, innherjaviðskiptum, ehf.-undanskotum og IceSave til hliða, sem fyrst. Það þarf að tryggja að bankamenn nái ekki að hylja slóðina og bræða úr pappírstætaranum. Þess vegna er það alveg óskiljanlegt að þetta fólk situr enn á sínum stöðum og í skilanefndum ennþá, því þó það sé saklaust, þá er það sett í þá stöðu að fjalla um spillingarmál vina sinna og samstarfsfélaga. 

Ef það á að byggja upp traust aftur, þá gengur það hreinlega ekki upp að láta grunaða sýsla með gögn þeim tengd, og í dag liggja allir yfirmenn sem komu úr "gömlu" bnkunum undir grun, um að hafa tekið þátt í einhverju saknæmu. Þó að það sé sagt að maður eigi ekki að dæma fólk fyrifram, þá er staðan enfaldlega sú að það er búið að stela, svíkja, ljúga og svindla of mikið, að að.maður trúir ekki skilanefndum og stjórnendum banka í dag Maður treysti ekki heldur "óháðum" sérfræðingum sem maður veit ekki hvort séu heiðarlegir eða valdir með tilliti til hvítþvottar, og maður treystir heldur ekki Fjármálaeftirlitinu sem hefur sýnt af sér afburða vanhæfni.

Traustið er nefnilega dáið á Íslandi. Bankarnir myrtu það.

 

 


mbl.is Skoða meintar milljarðafærslur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smá tölur til samanburðar.

Í gær kom í ljós að Kaupþings-menn fengu afskrifaður með barbabrellu sem kallast "niðurfelling persónulegrar ábyrgðar" rúma 50 milljarða.

Í dag fréttist að Glitnis og Kaupþings-toppar höfðu fengið lánað rúmar 80 milljarða.

Einnig fréttist það að 100 mlljarðar hurfu út úr landi til landa þar sem erfitt er að nálgast upplýsingar.

Lánið sem Kaupþing ætlaði að fá hjá Seðlabankanum nam um 80 milljörðum ef mig minnir rétt.

Lánið frá Norðmönnum til okkar er um 80 milljarðar.

Kárahnjúkavirkjun kostaði um 70 milljarða ef rétt er munað.

Gjöld Félagsmálaráðuneytis og undirstofnanna er um 25 milljarðar úr ríkissjóði samkvæmt fjárlögum 2008.

Það kostar um 156 miljarða að reka heilbirgði- og almannatryggingakerfið, örlítið meira en talað var um að hefði horifð úr land ásamt samanlögðum barbabrellu-afskriftum.

Þetta er bara rétt að byrja. Hvað kemur í ljós á morgun?


mbl.is 100 milljörðum skotið undan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það sem FME og bankarnir segja ekki

Þegar ég var að velta fyrir mér sannleiksgildi þessarar sögu um að verið væri að fella niður skuldir starfsmanna bankans, þá var sett eftirfarandi athugasemd frá manni nokkrum að nafni Gestur H.:

"Úr því að þú vitnar í athugasemd mína verð ég að koma að smá komment. Það er ekki verið að "fella niður lán" í eiginlegum skilningi. Veit reyndar ekki hvað Bankamaður á við með að "losa ákveðinn hóp undan skuldbindingum" en ljótu dæmin sem ég hef fregnir af eru svona:

Maður kaupir hlutbréf með láni frá banka. Hlutabréfin verða verðlaus við bankahrunið en krafan frá Gamla Banka er enn til staðar. Hana þarf að greiða. Hann á (eða stofnar) einkahlutafélag og fær síðan bankann til að flytja lánið af sinni kennitölu yfir á ehf félagið sitt. Veðið fyrir láninu eru hlutabréfin, sem núna eru orðin verðlaus og eru líka færð yfir á ehf. Krafan gjaldfellur en einkahlutafélagið á engar eignir og getur ekki borgað. Það er lýst gjaldþrota, engar eignir í búinu og bankinn tapar kröfunni. Maðurinn sjálfur sleppur og borgar ekkert.

Þannig losnar lántakandinn undan því að borga. Ef þú eða ég færum og bæðum um að færa skuldir okkar yfir í ehf sem á engar eignir og engin veð væri hlegið að okkur og okkur vísað út. Það er með algjörum ólíkindum að menn geti, stöðu sinnar vegna, hagrætt málum með þessum hætti. Get ekki ímyndað mér að það sé löglegt. Vitneskju mína hef ég frá tveimur mönnum sem eru báðir "háttsettir í kerfinu" og er þessa stundina að leita eftir skriflegum staðfestingum þó ég dragi orð þeirra ekki í efa. Dæmin sem Bankamaður vísar í kunna að vera annars eðlis.

Sumir hafa notað sömu aðferð og bankastýran sem týndi bréfunum sínum ætlaði að gera, þ.e. að nota ehf í sinni eigu til að kaupa bréfin. Þeir geta látið félagið sitt fara á hausinn. Einhverjir gætu samt þurft að "bjarga" alvöru verðmætum úr þeim fyrst, en um það gilda líka reglur. Einnig gætu þeir fengið skattinn á sig ef þeir hafa notið sérkjara eða vaxtaleysis - þann þátt þekki ég ekki nógu vel. Væri fróðlegt ef einhver sem er snjall í skattareglum ehf-félaga veit hvort slík hlunnindi fylgi ekki eigandanum þó hann stofni ehf um hlutabréfakaupin sín. Hvað sem öðru líður þá er skítalykt af málinu. Og það eru hreint ekki litlar upphæðir sem hér um ræðir."

Í dag birtist frétt um að tveir starfsmenn Kaupþings hefðu stofnað ehf. rétt áður en bankinn var yfirtekinn og hafði annar þeirra náð að framkvæma þessa brellu. FME segir ekki aukatekið orð um þetta né heldur Kaupþing, að svona hafi þetta verið framkvæmt og í raun er það eina sem sagt er, að skuldirnar séu eign hins nýja banka. Annað er svo loðiið að mörgu leyti að það hálfa væri nóg.

Ég játa að að mér finnst þetta vera fyrirsláttur og það sé verið að reyna að kaupa sér tímabundin frið. Maður trúir ekki einu orði sem kemur frá bönkunum í dag, Seðlabanka, FME o.lf. vegna þess að þessir aðilar hafa logið svo mikið að okkur og eru þessa daganna að reyna að bjarga eigin rassi. Fjölmiðlar hafa sofið á vaktinni og eftir leynifund ritstjóranna og útvarpstjóra á maður erfitt með að trúa því sem kemur þaðan þessa daganna. Enda er ég kominn á þá niðurstaða að yfirmennirnir í bönkunum og FME verði að víkja strax frá störfum og fá traustverða menn til að rannsaka svona hluti. Persónulega sting ég upp á Vilhjálmi Bjarna, treysti honum til þess en aðra veit ég ekki um, enda ekki skrítið.

Allt traust er nefnilega farið.

 


mbl.is FME hefur ekki samþykkt niðurfellingu skulda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru bankarnir að fella niður lán eigin starfsmanna vegna hlutabréfakaupa?

Á blogg-síðu Egils Helgasonar, þá birtist eftirfarandi bréf frá bankamanni:

"Smá saga af því sem er að gerast innan bankanna þriggja núna - staðfest frá fyrstu hendi þar sem ég er einn af þeim sem þetta á við. Finnst siðferðisleg skylda mín að láta vita af þessu.

Mikill fjöldi starfsmanna hefur keypt hlutabréf gegn láni (og þá helst erlendu) á undanförnum árum og jafnvel stuttu fyrir hrunið. Innan bankanna er unnið að því hörðum höndum að leysa úr þessari flækju og losa fólk undan þessari skuldbindingu - ástæðan er m.a. sú að starfsmenn sem tapa öllu og verða gjaldþrota mega ekki vinna hjá bankanum.

Hvaða sanngirni er þetta - ef losa á ákveðinn hóp undan skuldbindingum, afhverju á það ekki við alla. Þetta þarf að fá á hreint frá Björgvini G., formönnum skilanefnda og/eða núverandi bankastjórum.

Annað að fjölmargir framkvæmdastjórar seldu eitthvað að bréfum vikuna fyrir hrunið - FME hlýtur að rannsaka það og bakfæra slík viðskipti, við treystum þeim til þess (eða ekki!)."

Í athugasemd stuttu á eftir segir Gestur H þetta:

"

Um fyrsta bréfið, frá bankamanni:
Ef þetta er rétt (sem ég veit því miður að er) þá er með þessu verið að rýra eignir sjóðanna. Gæðingarnir losa sig undan skuldbindinum og almenningur fær að borga brúsann.

Þetta er beint orsaka samhengi: Gæðingarnir sleppa - sjóðirnir rýrna - almenningur tapar.

Sjálfur mátti ég sætta mig við 31,2% rýrnun á mínum sparnaði, þetta yfirgengilega siðleysi verður að stoppa. Sumir af þessum gjörningum eru þess eðlis að þeir geta tæpast verið löglegir."

Þegar maður hugsar svo um hverjir eru líkelgastir til að hafa verið að kaupa hlutabréf með lánum innan bankanna, þá eru það helst yfirmenn og liðið sem hefur hagað sér mest af siðleysi og heimsku í innherjaviðskiptum í tengslum við ráðgjöf vegna ÍLS, IceSave o.fl. Allt þetta fólk er enn starfandi hjá bönkunum í toppstöðum. 

En það er ekki bara það, heldur er þetta gróf mismunu í garð annars fólks sem þeir mismuna með þessum hætti. Það er skýlaus krafa að þeir grei það sama þegar kemur að lánum viðskiptavia sinna og ég m.a.s. efast jafnvel um að þeir séu að haga sér samkvæmt lögum í þessu. Allavega á að hefjast tafarlasut rannsókn á þessu og stöðvun á þessum gjörningum, eða að það sama verði gert við aðra skuldara.

 

 

 


Dýrkeyptur Davíð

Þegar maður skoðar fréttir dagsins, setur hlutina í samhengi um stýrivaxtahækkunina, þá verður að segjast að Davíð Odsson er snillingur. Hann er snillingur í að drepa von fólks, þennan litla vonarneista sem kom í brjóst manns í gær á borgarafundinum og ég er farinn að halda að hann sé einn við stjórn þarna því ekki sjást hinir bankastjórnendurnir né ríkistjórnin þar sem Sjálfstæðismenn þora ekki að hrófla við þessum stjórnlausa Fenrisúlfi.

Skoðum nokkra hluti:

  1.  Davíð Oddson hefur verið sagður vera ósáttur við aðkomu IMF.
  2. Hann tilkynnir að þessi skyndilega stýrivaxtahækkun sé vegna IMF.
  3. Ekki er enn búið að skrifa undir eða samþykkja samkomulag IMF.
  4. Ásmundur Stefánsson og Friðrik Már Baldvinsson sögðu fyrir framan þingnefnd í gær, að stýrivaxtahækkun væri EKKI SKILYRÐI AF HÁLFU IMF.
  5. Þetta er gert á þeim tíma þegar forkólfar ríkistjórnarinnar eru staddir annars staðar, ekki virðist vera samráð eða kynning til handa ríkistjórninni.

Ég játa að þegar maður hefur þessa hluti í huga, þá er það fyrst og fremst um að þarna sé einhver einleikur Davíðs og smjörklípa á ferð til að koma beina athyglinni frá einhverju. En hverju? Var einhver sannleikur á ferð í Kompás í gær? 'Maður veit ekki, þar sem mikið er logði en það breytir ekki um eitt: Davíð þarf að kveða niður líkt og drauginn Glám forðum.

 Hvar er Grettir þegar við þurfum hann í Seðlabankann?


Mótmælum öll!

Ef einhvern tímann hefur verið tilefni til að láta í okkur heyra og að almenningur sýni að honum er ekki sama um hvernig komið er, þá er það núna. Ég er allavega hættur að vera þrælslunduð mús sem tuðar út í horn, ég ætla að vera maður sem þorir að mótmæla því þegar samfélagið er lagt í rúst. Hvað með ykkur?

Það er einnig mótmælt á Akureyri og á Seyðisfirði kl. 16:00

Skilst annars að fundarhöld hefjist niður á Austurvölli kl. 15:00 en blysförin að ráðherrabústaðnum sé upp úr fjögur.


mbl.is Rjúfum þögn ráðamanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hýenur hlutabréfamarkaðarins-Grein frá því í sumar og eftirleikur hennar

Þegar Exista stal af mér hlutabréfunum í Símanum síðastliðið sumar, þá ákvað ég í reiði minni að skrifa grein í Morgunblaðið, þar sem ég lýsti framferði þeirra sem því miður vakti ekki mikla athygli nema hjá vinnufélögum, vinum og ættingjum. Greinin sú fór ekki vel í þá Exista-menn og var einn þeirra sendur í það að svara mér. Svargreinin var annarsvegar hálfgerð lofgrein um hvað Exista væri stöndugt og æðislegt fyrirtæki og hvað þeir hefðu marga hluthafa. Reyndar var þetta með hluthafana ansi vafasamt þar sem margir þeirra höfðu eignast bréf í Exista þegar Kaupþing ákvað að sleppa því að greiða út arð í peningum, heldur lét hluthafa sína fá Exista-bréf, hvort sem var um að kenna blankheitum eða öðru.

Restin af greininni fór í hrokafullan skæting sem mannin fannst varla svaraverður, þar sem annarsvegar var gefið var í skyn að maður væri að ljúga og jafnvel eitthvað klikk fyrir að hafa viljað halda mínu hlutafé í Símanum. Að lokum klykkti manngreyið út með því að það væri nú aldrei hægt að gera öllum til geðs og að sjálfsögðu yrðu alltaf einhverjir óánægðir með það að vera rændir.....ég hef nú ekki séð enn fólk dansa um af gleði yfir því að vera rænt.

Svo leið sumarið, ég sendi inn fyrirspurn um gjörðir Exista og hvort þetta væri leyfilegt, til FME sem af sinni alkunnu vandvirkni og áhugamennsku um hagsmuni almennings, svaraði aldrei. Í framhaldi tóku miklar annir við, sem höfðu meiri forgang en að hjóla í Exista strax þó ég hugleiddi næstu skref. Ég hugsaði mér að e.t.v. ætti maður að reyna að hafa samband við e.t.v. Vilhjálm Bjarnason, þingmenn og jafnvel viðskiptaráðherra með beiðni um að hið minnsta yrði tekið á þessum málum svo stórfyrirtæki gætu ekki rænt pínulitla hluthafa í krafti valds síns. En svo dundi ósköpin á þjóðinniog í dag, segi ég fyrir mitt leyti að ég græt svo sem ekki peningin en maður vill að tekið sé á siðferðinnu og að svona geti ekki gerst. Reyndar vonast ég einnig til þess að Björgvin viðskiptaráðherra leyfi mér að fara inn í Exista, fremstan í fararbroddi víkingasveitar, þegar kemur að því að taka þurfi til á þeim bænum. Ég þarf nefnilega að svara svargreininni.

Hérna er þetta greinarkorn:

"Hýenur hlutabréfamarkaðrins

Þann 11. Júní síðastliðinn fékk ég símtal frá Kaupþing sem er í eigu Exista hf., þar sem mér var sagt það að Exista hf. hefði ákveðið að hrifsa af mér hlutabréfin sem ég átti í Símanum eða Skiptum eins og það kallast í dag, í skjóli þess að vera orðinn stærsti fanturinn á skólalóðinni, þ.e. stærsti hluthafinn. Þetta hafði þeim tekist eftir einstaklega vafasöm brögð við það að setja Skipti á markað og kippa í burtu örstuttu síðar án þess að gefa almenningi færi á að eignast hlut í fyrirtækinu líkt og var skilyrði einkavæðingar Símans. Í framhaldi af því þá gerði Exista hf. yfirtökutilboð sem ég ákvað að ganga ekki að enda hafði ég grun um að Exista hf. væri frekar vafasamt fyrirtæki siðferðislega og betra að halda mínum bréfum sem ég hafði átt og vildi eiga, frá því 2001 heldur en að láta hlunnfara sig. Því miður höfðu þeir þá lagaglufu sem kallast innlausn og gefur þeim svipuð réttindi til að ræna nesti smælingjanna líkt og sambærilegir fantar á skólalóðinni og sönnuðu fyrir mér grunsemdir mínar.

Í staðinn fyrir þetta ágæta nesti sem maður átti í formi hlutabréfanna í Skiptum, þá átti ég að fá hlutabréf í Exista að „sama andvirði“, sem myndu afhendast mánuði eftir ákvörðun Exista hf um innlausn án kosts um að geta losnað við þau. Ef þau „jöfnu“ skipti eru skoðuð nánar, þá má sjá þetta er álíka og að láta rífa af sér góða nautasteik og vera afhent vel úldið og maðkað hrossakjöt í staðinn og fullyrt að það sé sami hluturinn. Exista hf. ákvað nefnilega hvað hlutabréfin í sér og Skiptum væru mikils virði, verðlagði eigin bréf á genginu 10,1 og gáfu svo út hlutabréf í sjálfu sér til að standa undir þessu. Þegar ég fékk vitneskju um þetta þá stóð raungengi Exista í 8,85 og hafði einmitt lækkað frá verðlagningu Exista sem gilti. Í dag þegar þetta er skrifað, stendur gengið í 7,60 og má alveg reikna með að það verði komið lægra þegar ég fæ loksins hlutabréfin í þessu fyrirtækii. Ef við setjum þetta upp í krónutölu þá er e.t.v. auðveldara að gera sér grein fyrir tapinu og miðum við gengi hlutabréfanna x 10 þúsund hlutir.

2. júní þegar stjórnin ákveður að gefa út hlutabréf : 101.000 kr.

11. júní þegar ég fæ vitneskju um þetta: 88.500 kr.

28. júní þegar greinin er skrifuð: 76.000 kr.

2. júlí þegar loksins bréfin í Exista eru afhent mér: 70.000 kr. eða lægra?

Í lögum er kveðið á að þegar innleyst eru bréf í skjóli fantaskaps stærsta hluthafans, þá beri að greiða fyrir það með raunverulegu andvirði. Eins og sjá má þá er það ekki gert, heldur er verið að féfletta mig ásamt öðrum sem í þessu lenda, auk þeirra sem gengu að yfirtökutilboði Exista hf. með því að afhenda mér ekki raunverulegt andvirði í peningum. Í staðinn fær maður lélegan og illa lyktandi skeinipappír á yfirverði sem er ekki í neinu samræmi við raunveruleikann og ekkert reynt að bæta það tap sem verður vegna biðtímans. Við það bætist að ég hef engan áhuga á að eiga hlut í fyrirtæki þar sem siðlaust fólk ræður ríkjum . Að mínu mati er þetta því ekki annað en hreinn og klár þjófnaður þó löglegur sé, sérstaklega með tilliti til þess að Exista gefur ekki færi á að fá andvirðið í peningum, heldur fær einhliða að setja alla skilmála sjálft og ræður því algjörlega hvað það lætur fólk fá í staðinn fyrir eigur þess. Ég veit allavega að ef ég myndi haga mér svipað sem einstaklingur þá sæti ég annað hvort inni eða lögreglan væri að vara við þessu sem nýju formi af Nígeríu-svindli.
Í augum leikmanns eins og mér, lítur þetta út sem að hafi verið ætlunin allan tímann hjá því kaldrifjaða og samviskulausa fólki sem fer með stjórnun hjá Exista. Þeir ná þarna að sleppa við að greiða um 25% kaupverðs í Skiptum og munu svo örugglega í framhaldi kaupa hlutabréfin af fólki sem þeir hafa þannig prettað, á spottprísi. Þegar þeir hafa svo náð því til baka sem þeir gáfu út til að „fjármagna“ kaupin í Skiptum, verður svo bréfunum ýtt upp á ný, þeir koma út í gróða og hafa náð að sölsa undir sig stöndugt fyrirtæki með siðlausum klækjum og bellibrögðum á kostnað annara. Þetta er ekki ólíklegt því annað eins hefur gerst og viðskiptasiðferðið frekar dapurt meðal fjárfesta hér á landi.

Að lokum fær þetta mann til þess að hugsa um hvort það sé ekki þörf á því að viðskiptaráðherra beiti sér fyrir lagabreytingum sem geri það að verkum að litlir hluthafar njóti einhverjar verndar frá þeim stóru sem haga sér svipað og Exista o.fl. slíkir. Hér á landi virðist einnig vanta lög til að bæta viðskiptalegt siðferði og vernda almenning fyrir þeim rándýrum sem leika lausum hala í viðskiptalífinu og rífa fólk á hol fjárhagslega. Því er ekki skrítið að fólk eigi létt með að trúa því að bankarnir standi fyrir gengisfellingu krónunnar, sérstaklega þegar viðskiptalegt siðleysii virðist ríkja meðal fagfjárfesta . Ég hvet að lokum fólk til að forða sér frá því að láta peninga sína í fyrirtæki á hlutabréfamarkaði eða sjóði þar sem Exista og slík fyrirtæki fá að leika sér með, því það er öruggt að slíkar hýenur hlutabréfamarkaðsins munu ganga í burtu hlæjandi, með annara manna fé í sínum vösum.  "


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

AK-72

Höfundur

AK-72
AK-72
Með óþrjótandi áhuga á kvikmyndum, sögu og stjórnmálum.Telur sig hafa fullt frelsi til að hrósa og gagnrýna hvern sem er og hvenær sem er.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...1212_913482
  • ...ner1_568492
  • ...rad-banner1
  • Screenshot

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 123270

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband