Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Opinn borgarafundur á NASA í kvöld kl. 20:00! Fjölmennum öll!

Vinir og velunnarar! Nú ríður á að láta þetta fundarboð berast í gegnum tölvupóst, bloggsíður og símskeyti. Hægt er að vista viðhengið og prenta það út.

Á fundinum verður m.a. rætt verður um ábyrgð og stöðu fjölmiðlanna. Í viðhengi er veggspjald fundarins sem er upplagt að festa á bloggsíður, MySpace, Facebook og áframsenda í tölvupósti. Við erum á www.borgarafundur.org.


OPINN BORGARAFUNDUR #3


á NASA við Austurvöll, mánudaginn 17. nóvember klukkan 20:00.

Í pallborði verða ritstjórar og fréttastjórar helstu fjölmiðla landsins, auk fulltrúa frá Blaðamannafélagi Íslands.

Hvetjum ríkisstjórn Íslands og alla alþingismenn til að mæta á svæðið, hlusta á sína kjósendur og vera með í umræðunni. Hvetjum ennfremur alla fjölmiðlamenn og konur til að mæta og taka þátt.
 
Til hvers?
- Til að hinn almenni borgari geti komið hugmyndum sínum og skoðunum á framfæri á óvissutímum.

- Öllum stjórnmálamönnum, seðlabankastjórum, bankastjórum, fréttastjórum og öðru fjölmiðlafólki er boðið að mæta til að svara spurningum Íslendinga, milliliðalaust.
 
- Til að almenningur fái skýr skilaboð og sé ekki hafður útundan í umræðunni.
 
- Til að leita spurninga og svara um efnahagsástandið.
 
Fyrirkomulag:

Fjórir frummælendur hefja umræðuna (5 mínútur hver):

Irma Erlingsdóttir, bókmenntafræðingur
Eggert Briem, stærðfræðingur
Björg Eva Erlendsdóttir, blaðamaður
Davíð A. Stefánsson, bókmenntafræðingur

Þegar frummælendur hafa lokið máli sínu er orðið gefið laust og hver sem vill fær tvær mínútur til að tjá sig úr sal eða spyrja þátttakendur í pallborði spurninga.
 
Fundarstjórn og tímavarsla verður sem fyrr tekin föstum tökum í nafni lýðræðislegrar umræðu.

Sýnum stuðning með þátttöku – spyrjum og heimtum svör – látum í okkur heyra.
 
Við ítrekum breyttan fundarstað. Hittumst á NASA kl. 20:00.
 
F.h. undirbúningshóps: Gunnar Sigurðsson leikstjóri (gus@mmedia.is - s: 897 7694) og Davíð A. Stefánsson bókmenntafræðingur (david@ljod.is - s: 864 7200).

 Bendi einnig á www.borgarafundur.org með upptökum frá síðustu fundum, myndum og spjalli.


Það sem FME og bankarnir segja ekki

Þegar ég var að velta fyrir mér sannleiksgildi þessarar sögu um að verið væri að fella niður skuldir starfsmanna bankans, þá var sett eftirfarandi athugasemd frá manni nokkrum að nafni Gestur H.:

"Úr því að þú vitnar í athugasemd mína verð ég að koma að smá komment. Það er ekki verið að "fella niður lán" í eiginlegum skilningi. Veit reyndar ekki hvað Bankamaður á við með að "losa ákveðinn hóp undan skuldbindingum" en ljótu dæmin sem ég hef fregnir af eru svona:

Maður kaupir hlutbréf með láni frá banka. Hlutabréfin verða verðlaus við bankahrunið en krafan frá Gamla Banka er enn til staðar. Hana þarf að greiða. Hann á (eða stofnar) einkahlutafélag og fær síðan bankann til að flytja lánið af sinni kennitölu yfir á ehf félagið sitt. Veðið fyrir láninu eru hlutabréfin, sem núna eru orðin verðlaus og eru líka færð yfir á ehf. Krafan gjaldfellur en einkahlutafélagið á engar eignir og getur ekki borgað. Það er lýst gjaldþrota, engar eignir í búinu og bankinn tapar kröfunni. Maðurinn sjálfur sleppur og borgar ekkert.

Þannig losnar lántakandinn undan því að borga. Ef þú eða ég færum og bæðum um að færa skuldir okkar yfir í ehf sem á engar eignir og engin veð væri hlegið að okkur og okkur vísað út. Það er með algjörum ólíkindum að menn geti, stöðu sinnar vegna, hagrætt málum með þessum hætti. Get ekki ímyndað mér að það sé löglegt. Vitneskju mína hef ég frá tveimur mönnum sem eru báðir "háttsettir í kerfinu" og er þessa stundina að leita eftir skriflegum staðfestingum þó ég dragi orð þeirra ekki í efa. Dæmin sem Bankamaður vísar í kunna að vera annars eðlis.

Sumir hafa notað sömu aðferð og bankastýran sem týndi bréfunum sínum ætlaði að gera, þ.e. að nota ehf í sinni eigu til að kaupa bréfin. Þeir geta látið félagið sitt fara á hausinn. Einhverjir gætu samt þurft að "bjarga" alvöru verðmætum úr þeim fyrst, en um það gilda líka reglur. Einnig gætu þeir fengið skattinn á sig ef þeir hafa notið sérkjara eða vaxtaleysis - þann þátt þekki ég ekki nógu vel. Væri fróðlegt ef einhver sem er snjall í skattareglum ehf-félaga veit hvort slík hlunnindi fylgi ekki eigandanum þó hann stofni ehf um hlutabréfakaupin sín. Hvað sem öðru líður þá er skítalykt af málinu. Og það eru hreint ekki litlar upphæðir sem hér um ræðir."

Í dag birtist frétt um að tveir starfsmenn Kaupþings hefðu stofnað ehf. rétt áður en bankinn var yfirtekinn og hafði annar þeirra náð að framkvæma þessa brellu. FME segir ekki aukatekið orð um þetta né heldur Kaupþing, að svona hafi þetta verið framkvæmt og í raun er það eina sem sagt er, að skuldirnar séu eign hins nýja banka. Annað er svo loðiið að mörgu leyti að það hálfa væri nóg.

Ég játa að að mér finnst þetta vera fyrirsláttur og það sé verið að reyna að kaupa sér tímabundin frið. Maður trúir ekki einu orði sem kemur frá bönkunum í dag, Seðlabanka, FME o.lf. vegna þess að þessir aðilar hafa logið svo mikið að okkur og eru þessa daganna að reyna að bjarga eigin rassi. Fjölmiðlar hafa sofið á vaktinni og eftir leynifund ritstjóranna og útvarpstjóra á maður erfitt með að trúa því sem kemur þaðan þessa daganna. Enda er ég kominn á þá niðurstaða að yfirmennirnir í bönkunum og FME verði að víkja strax frá störfum og fá traustverða menn til að rannsaka svona hluti. Persónulega sting ég upp á Vilhjálmi Bjarna, treysti honum til þess en aðra veit ég ekki um, enda ekki skrítið.

Allt traust er nefnilega farið.

 


mbl.is FME hefur ekki samþykkt niðurfellingu skulda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru bankarnir að fella niður lán eigin starfsmanna vegna hlutabréfakaupa?

Á blogg-síðu Egils Helgasonar, þá birtist eftirfarandi bréf frá bankamanni:

"Smá saga af því sem er að gerast innan bankanna þriggja núna - staðfest frá fyrstu hendi þar sem ég er einn af þeim sem þetta á við. Finnst siðferðisleg skylda mín að láta vita af þessu.

Mikill fjöldi starfsmanna hefur keypt hlutabréf gegn láni (og þá helst erlendu) á undanförnum árum og jafnvel stuttu fyrir hrunið. Innan bankanna er unnið að því hörðum höndum að leysa úr þessari flækju og losa fólk undan þessari skuldbindingu - ástæðan er m.a. sú að starfsmenn sem tapa öllu og verða gjaldþrota mega ekki vinna hjá bankanum.

Hvaða sanngirni er þetta - ef losa á ákveðinn hóp undan skuldbindingum, afhverju á það ekki við alla. Þetta þarf að fá á hreint frá Björgvini G., formönnum skilanefnda og/eða núverandi bankastjórum.

Annað að fjölmargir framkvæmdastjórar seldu eitthvað að bréfum vikuna fyrir hrunið - FME hlýtur að rannsaka það og bakfæra slík viðskipti, við treystum þeim til þess (eða ekki!)."

Í athugasemd stuttu á eftir segir Gestur H þetta:

"

Um fyrsta bréfið, frá bankamanni:
Ef þetta er rétt (sem ég veit því miður að er) þá er með þessu verið að rýra eignir sjóðanna. Gæðingarnir losa sig undan skuldbindinum og almenningur fær að borga brúsann.

Þetta er beint orsaka samhengi: Gæðingarnir sleppa - sjóðirnir rýrna - almenningur tapar.

Sjálfur mátti ég sætta mig við 31,2% rýrnun á mínum sparnaði, þetta yfirgengilega siðleysi verður að stoppa. Sumir af þessum gjörningum eru þess eðlis að þeir geta tæpast verið löglegir."

Þegar maður hugsar svo um hverjir eru líkelgastir til að hafa verið að kaupa hlutabréf með lánum innan bankanna, þá eru það helst yfirmenn og liðið sem hefur hagað sér mest af siðleysi og heimsku í innherjaviðskiptum í tengslum við ráðgjöf vegna ÍLS, IceSave o.fl. Allt þetta fólk er enn starfandi hjá bönkunum í toppstöðum. 

En það er ekki bara það, heldur er þetta gróf mismunu í garð annars fólks sem þeir mismuna með þessum hætti. Það er skýlaus krafa að þeir grei það sama þegar kemur að lánum viðskiptavia sinna og ég m.a.s. efast jafnvel um að þeir séu að haga sér samkvæmt lögum í þessu. Allavega á að hefjast tafarlasut rannsókn á þessu og stöðvun á þessum gjörningum, eða að það sama verði gert við aðra skuldara.

 

 

 


Stjórnarmaðurinn Illugi Gunnarsson og Sjóður 9

"Einn stjórnarmanna í sjóðum Glitnis, þar á meðal Sjóði 9, sem gaf sjóðsfélögum rangar upplýsingar um samsetningu sjóðsins, var og er þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi aðstoðarmaður forsætisráðherra, sem nú er seðlabankastjóri. Hvað var hann að gera inni á gafli hjá Glitni?"

Ég hnaut um þessa setningu þegar ég las grein Þorvalds Gylfasonar í morgun þar sem fettað var fingur út í óeðlileg tengsl í fjármálageiranum m.a.Fyrsta nafnið sem flaug í hausinn við lýsinguna á þingmanninum, var Illugi Gunnarsson og þegar nánar var leitað, þá kom í ljós að það var rétt.

Nú veltir maður fyrir sér ábyrgð Illuga sem stjórnarmanns í Glitni sjóðum hf og hvaða vitneskju og ákvarðanir hann tók, sérstaklegaa með tilliiti til Sjóðs 9. Sjóður 9 var sá peningasjóður þar sem ekki stóð steinn yfir steini þegar kom að samsetningu bréfa þar og ekki snifsi af ríkisskuldabréfum sem átti að vera kjölfestan þar. Þegar viðbættist hin ranga upplýsingagjöf þá var þetta farið að daðra við að vera fjársvikamylla og hið minnnsta vörusvik.

Nú veit ég ekki hvort ég leggi réttan skilning í hlutverk stjórnar og stjórnarmanna, en minn skilningur er sá að henni sé m.a. ætlað ákveðið eftirlitshlutverk með stefnu og markmiðum fyrirtækja ásamt stefnumótun. Ef svo er þá hefur Illugi klárlega brugðist skyldum sínum þarna, og stóra spurningin er: hver er ábyrgð og vitneskja hans, og mun hann axla ábyrgð sem fulltrúi "nýja Íslands" eða vonast eftir gleymsku kjósenda líkt og fulltrúar "gamla Íslands" hafa gert hingað til?

Því miður er ég sannfærður um að "gamla 'Island" ráði för. Ekkert breytist né mun breytast

 

 


Að verðlauna hershöfðingja fyrir klúðrið en hengja hermennina

Þegar ég sá frétt Eyjunnar um að maðurinn sem bar ábyrgð á IceSave-klúðrinu, hafi verið gerður að yfirmanni innra eftirlits Landsbankans, þá blöskraði mér. IceSave er við það að fara að setja Ísland á hausinn og tengist einnig milliríkjadeilum okkar við Breta, og e.t.v. í framtíðinni gæti hann þurft að rannsaka sjálfan sig og hvort óeðlileg viðskipti hefðu átt sér stað með IceSave. Enga ábyrgð virðist maðurinn þurfa að axla þrátt fyrir ofurlaun í samræmi við "ábyrgð", nokkuð sem var klifað á aftur og aftur þegar bent var á laun yfirmanna bankanna.

Virðist það sjónarmið hafa ráðið nokkru við þetta nýja skipurit bankans því þegar rennt er neðar í athugasemdum við fréttina, má sjá að maðurinn sem ber ábyrgð á Eignastýringasviði og þar með Peningasjóðunum sem almenningur og lífeyrissjóðir hafa tapað stórfé á, fær einnig að halda sinni stöðu. Eigi veit ég um aðra þarna en hygg þó að flestir fái að halda áfram í sínum, mjúku, góðu stólum á meðan fjöldi fólks sem asnaðist til að hlýða fyrirskipunum þeirra, er látið taka poka sinn vegna ákvarðanna þessara sömu yfirmanna.

Ábyrgð þessara yfirmanna er mikil á því hvernig komið er. Margir þeirra tóku ákvarðanir, vitandi um stöðu bankans, um að láta þau boð ganga að ákveðnum fjárfestingum yrði otað að fólki, blekkingum og fölskum loforðum yrði beitt líkt og sjá má í mörgum sögum er hafa birst á bloggi Egils Helgasonar sjónvarpsmanns.Ekki mun þessi skipun á fólki sem bar ábyrgð á hvernig fór, vera til þess fallinn að vekja traust né virðingu fyrir hinum "nýja Landsbanka", sérstaklega þar sem þeir munu fá að sleppa við alla ábyrgð á gjörðum sínum.

Óhjákvæmilega flaug mér í hug myndin Paths of glory hans Stanley Kubricks þar sem fjórir hermenn voru tekniraf lífi fyrir allsherjarklúður hershöfðingja, sem olli dauða þúsundir manna. Gott ef hershöfðingjarnir fengu ekki orðu í lokin fyrir vasklega framgöng.

Maður hefði einhvern veginn haldið það að stjórnmálamennirnir sem gaspra um nýja tíma og breytingar hefðu lært af reynslunni, og byrjað á því að hreinsa burtu fólkið sem ber ábyrgðina á þessum ósköpum en nei, líkt og venjulega bitnar þetta á fótgönguliðunum eða almenningi. Það er því ekkert annað en óbragð sem kemur í munninn þegar maður heyri klisjusönginnum um "að leita ekki að sökudólgum heldur horfa fram á veginn", á meðan þeir sem bera ábyrgð sitja enn á sinum stað í bönkunum, verma sætin sín í Seðlabankanum og FME, eða blaðra af fullkomnu innihaldsleysi um mál sem skipta engu máli á þingi.

Ég er farinn að hallast að því meir og meir að við sem tilheyrum almenningi verðum hengd í skuldareipi framtíðarinnar og la´tinn deyja hægum, kvalafullum dauðdaga. Á meðan hersjöfðingjar vorir á þingi, bönkum og stofnunum munu sötra sitt kampavín í einhverri veislunni, ábyrgðar- og áhyggjulaus með úttroðinn maga af kavíar á okkar kostnað.

Ekkert mun breytast né verða breytt.


mbl.is Brynjólfur yfirmaður innri endurskoðunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Valdarán eineltisklíku

Á sínum tíma varaði Margrét Sverris, formann Frjálslnydra við því að hleypa liðsmönnum Nýs afls eða Hvíts afls eins og maður hefur séð það gengi einnig kallað af gárungum,  inn í flokkinn og til áhrifa þar, þar sem hún taldi þar á ferð varga í véum. Guðjón Atli hlustaði einhverra hluta ekki á hana, hvort sem það var að hann bar of lítið skynbragð á slíkt fólk eða lét blekkjast af fagurgala frá Ormstungu hins Hvíta afls, honum Jóni Magnússyni sem fljótlega gerði sig breiðan í nafni flokksins. Í framhaldi af því hófust grimmar nornaveiðar af hálfu þessara varga í garð Margrétar og mátti m.a. heyra í nokkrum þeirra á Útvarpi Sögu þar sem svívirðingarnar fuku á fullu um Margréti og var þar fremstur í flokki Eiríkur nokkur Stefánsson sem helsta framlag til viðhalds íslenskrar menningu og gi, var að hafa rotað mann á verkalýðsfundi fyrir austan, með fundargerðarbókinni.

Að lokum fór sem fór, Margrét hraktist út úr flokknum undan liðsmönnum Hvíts afls, sem sá sér mikið sóknarfæri í að halda áfram að veitast að fólki, nema nú á stærri skala. Upphófst aftur ofstopafullur áróður sem höfðaði m.a. mikið til reiðs, ungs fólk sem vanalegaí bíomyndum á borð við This is England, gengur um göturnar í hermannaklossum og telur að allt sé einhverjum öðrum að kenna, sérstaklega innflytjendum og múslimum sem hafa tekið við af gyðingum og svertingjum í heimssýn slíks fólks. Auðvelt er að kenna slíkum minnihlutahópum yfirleitt um því vegna tungumála-erfiðleika t.d., á það erfiðara um vik að skilja hvað er í gangi í umræðunni og erfiðara þarmeð að verja sig sjálft í umræðunni.

Brátt flykktist fólk af slíku tagi til liðs og áhrifa innan flokksins, sérstaklega ungliðahreyfingarinnar, sem gleypti við lymskulegum hræðsluáróðri hins tækifærissinaða foringja hins Nýja afls innan Frjálslnydra. En ekki voru þó allir sem gengu til liðs við flokkinn út frá þessum ástæðum heldur m.a. út af baráttunni um kvótakerfiby sen höfðaði meir til þess fólks heldur en hræðsluáróður um nágranna þeirra og samstarfsfélaga í þeim sjávarplássum er áttu um sárt að binda. Einnig bættist þar til liðs gamall þingmaður, Kristinn nokkur Gunnarsson, sem hafði hrakist úr Framsóknarflokknum fyrir að vera ekki 100% hækja Davíðs Oddsonar og annara yfirmanna í Sjálfstæðisflokknum.

Ásamt formanninum tókst svo Kristni að ná tveimur þingsætum í kjördæmi þeirra félaga, m.a. vegna persónufylgis þeirra beggja. En sumir voru gramir út í Kristinn af einhverjum ástæðum, líkt og Sigurjón Þórðarson sem var nú fyrrum þingmaður og virtist kenna Kristni um allt sem miður fór með það m.a. að hafa ekki orðið að þingmanni né framkvæmdastjóra flokksins sem Jón Magnússon studdi hann í. Svo leið og beið þar til Kristinn sem hafði greinilega lesið málefnahandbók og samþykktir flokksins, skrifaði grein þar sem hann varaði við að ala á ótta í garð útlendinga. Þessu reiddust útlendingahatarnir illilega og hófu upp raust sína með svíviðringum og persónuárásum ásamt þeim sem vildu koma höggi á Kristinn. Kristni var bætt við á listann um "allt að kenna"-fólksins sem er svipaður listi og sá er bitirir áfengissjúklingar hefja raust sína um þegar þeir þurfa að kenna einhverjum um allt sitt volæði.

Hin tækifærissinaða Ormstunga sá þá sér tækifæri með að nýta sér þetta í ráðagerð sem myndu færu honum lokatakmarkið: formennsku í flokknum þar sem draumsýn hans um "kristilegan Repúblikanaflokk" yrði að veruleika og miðað við hvað sú tegund flokks hefur afrekað í nafni Sáms frænda, þá myndi það verða óhugnanleg martröð fyrir Íslendinga. Hamrað skyldi á þessum ofsa í garð Kristinns og hann lagður í einelti að hætti verstu fanta og handrukkara og hjólað í formanninn sem studdi Kristinn um leið.

Eftir átök í vor þar sem varaformaður flokksins sem miðað við bókmenntakynningu sína telur að múslimar ætluðu sér að taka yfir Evrópu með því að fjölga sér(Eurabia-kenningin),  varð sér og flokk sínum til skammar með fyrilitlegum hætti vegna móttöku flóttafólks, þá greinilega virtist vera komið andrúmsloftið fyrir valdarán varganna sem biðu þó haustsins til að hefja aðgerðir, eða þar til að formaðurinn færi erlendis sem þykir góður siður og hefð þegar kemur að valdaránum.

Loks kom að því og aðgerðirnar hófust með því að Frjálslnydir í Eyjafirði sem leiddir eru af Jóhanni Kristjánssyni, sem virðist einnig vera sá sami og kvittar undir hjá ungum Frjálslyndum, skoraði á SIgurjón Þórðarsson, hatursmann Kristinns, til að bjóða sig fram til formanns. Sami Jóhann vildi svo ekki meina að áskorun um framboð gegn sitjandi formanni, væri ekki árás á þann formann, sem er með furðulegri röksemdum sem hafa heyrst í stjórnmálum í lengri tíma. Um svipað leyti þá réðst formaður ungra Frjálslyndra og miðstjórnarmaður, til atlögu gegn Kristni þar sem sárasaklaus grein um flóttamenn var sögð vera árás og dylgjur um flokkinn. Í lok greinar Viðars hins unga, þá klykkti hann út að Kristinn ætti að segja af sér þingflokksformennsku. 

Þá var komið að næsta stigi ráðagjörðar og var það miðstjórnarfundur þar sem fulltrúar Nýs afls og útlendingahatarnir, samþykktu tillögu Eiríks Stefánssonar sem var nú orðinnn að föstum, tilfinningaþrunginn svívirðingameistara á Útvarpu Sögu og má reikna með að ýmis miður falleg orð hafi komið úr munni hans þar um Kristinn síðustu mánuði. Tillaga þessi gekk einmitt út á það að Kristinn ætti að segja af sér þingflokksformennsku og virtist nokkuð samhljóma því sem áður hafði komið frá Viðari í þessari samræmdu aðgerð.

Öll spjót stóðu nú á Kristni af hálfu þessara flokksfélaga sinna, m.a. Sigurjóns Þórðar sem sagði Kristinn vera með Messíasar-komplexa og einnig Guðjóni fyrir að verja Kristinn gagnvart þessari eineltisliði líkt og Guðjón kallaði hana. Á sama tíma heimtaði svo miðstjórnin að Guðjón drægi sig úr nefnd um eftirlauna-ósómann, nokkuð sem varaformaðurinn taldi galið og óásættanleg afskiptasemi af þingflokknum, sem var á skjön við viðbrögð hans er kom að Kristni. Að þessu viðbættu kom svo hótun um að Guðjóni yrði refsað ef hann færi ekki í einu og öllu eftir tilmælum ráðabruggarana líkt og kemur fram í orðum Valdimars Jóhannesson, eins þeirra:"Kristinn hefur sagt opinberlega að samþykkt miðstjórnar jafngildi vantrausti á formann flokksins. Það mat Kristins er því aðeins rétt að Guðjón bregðist ekki eðlilega við ályktun miðstjórnar. Þá er því miður ljóst hverjum klukkan glymur"

Svo í gær steig svo fram höfuðpaurinn í sviðsljósið, með árásir á Kristinn og Guðjón, sem minntu óþægilega mikið á árásir þeirra félaga á Margréti Sverris áður:"Þá talar Jón um einkavinavæðingu innan flokksins að hálfu formannsins og þingflokksformannsins.  Hann segir að hæfasta fólkið sé ekki valið til starfa og segir að framkvæmdastjóri flokksins sé vinur og stuðningsmaður formannsins." Að sjálfsögðu þykist hann svo ekki hafa ekki mikinn áhuga á þingflokksformanninum sem stendur enda kitlar formaðurinn meir, en ef planið næst ekki allt í gegn nú, þá er formannsætið í næstu atrennu þegar þeir hafa losað sig við Kristinn.

Svo í dag birtast tvö ný atvik í tengslum við þetta valdabrölt allt. Sigurjón Þórðarsson mælist til að Grétar Mar verði gerður að þingflokksformanni sem "sáttamiðlun", kannski búinn að sjá að Jón vill frekar konungsdæmið allt en ekki bara þingflokksformanninn. Svo kom þessi fádæma yfirlýsing frá Ungum Frjálslnydum þar sem miðstjórnarmaðurinn Viðar Guðjohnsen kvittar undir í krafti valds síns, þar sem heimtað er að Kristinn segir af sér formennsku fyrir það eitt að fylgja stefnu flokksins samkvæmt málefnaskrá.

Nú þegar allt er komið á suðupunkt hjá Frjálslnydum og skriður kominn á valdaránið, þá má búast við ansi fjörugum dögum hjá Frjálslyndum sem sumir hverjir hafa áttað sig á hvað er í gangi líkt og Helgi Helgason, formaður félags Frjálslyndra í Kópavogi sem segir svo:"Það verða örugglega líflegar umræður. Ekki síst í ljósi nýjustu atburða þar sem ákveðinn hópur fólks innan flokksins reynir nú ljóslega yfirtöku á flokknum,“, líkt og segir á heimasíðu flokksins. Einnig verður forvitnilegt að sjá viðbrögð Guðjóns, hvort hann nái að bæla niður uppreins þessara sjóræningja a skipi sínu, eða hvort hann verði meðvirkur til að halda Jóni góðum, nokkuð sem væru mistök þar sem Guðjóni hlýtur að vera orðið það ljóst hverskonar nöðru hann ól við brjóst sitt þegar hann hleypti Jóni til áhrifa innan flokksins. Meðvirkni og lúffun fyrir eineltisgengi Nýs afls, myndi þýða aðeins tímabundinn frest á því að Jón tæki yfir flokkinn, nokkuð sem er öruggt að verði banamein hans eftir allan þennan hamagang þar sem varla nokkur maður þar halar inn atkvæði, nema Vestfirðingarnir tveir.

Endaleikurinn verður hið minnsta blóðugur fyrir flokkinn, það er öruggt.

 

 


mbl.is Lýsa vantrausti á Kristin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar í heiminum er Osama bin Laden?

Nú nýverið varð ég þeirrar ánægju að sjá nýjustu heimildarmynd Morgan Spurlocks(Super size me), Where in the world is Osama bin Ladem? Þar tekst Morgan á við það verkefni að reyna að finna Osama kallinn sem hefur gert heiminn hættulegan og óöruggan, að sögn bandarískra stjórnvalda, og ætlar sér að  gera heiminn öruggari fyrir væntanlegt barn sitt.Ekki sakar það að verðlaunin fyrirmanninn illræmda myndu nú lyfta fjárhag væntanlegrar barnafjölskyldu vel upp.

Upphefst þá vegferð sem byrjar í landi óttans þar sem Morgan fær þjálfun í hvenrig skal bregðast við væntanlegum tilraunum til mannráns og hryðjuverka gegn sér í áætluðu ferðalagi, þar sem honum er kennt hvernig skal t.d. bregðast við handsprengju-árásum, að hann eigi ekki að sitja fyrir miðju á veitingastað og sprengjuleit á farartækjum sínum. Eftir það heldur Morgan af stað í leit sinni sem hefst í Egyptalandi og þaðan til Marokkó, Ísrael og Palestínu, S-Arabíu, Afganistan og að lokum Pakistan þar sem vegferðin fær niðurstöðu.

Fyrir þá sem vilja ekki vita meir í tengslum við myndina og/eða vilja ekki "SPOILERS" er hollast að hætta að lesa núna.

 

 

 

 

 

Nokkrir áhugaverðir hlutir standa upp úr í þessari skemmtilegu en umhugsunarverðu mynd. Fyrir það fyrsta skal nefna það sem er aðall þessarar mynda og það eru samtölin við almenning í þessum löndum sem er uppistaðan í myndinni. Fyrir utan það að Morgan sýnir okkur að þarna býr venjulegt fólk en ekki froðufellandi hryðjuverkamenn sem berji konurnar sínar og drepi alla Vesturlandabúa um leið og þeir sjá þá(eða svo vilja þeir sem eru að kynda undir múslimahatur meina), þá eru viðhorf þeirra að mestu leyti svipuð okkur Vesturlandabúum, grunnþarfir og kvörtunarefni þau sömu.

Flestir viðmælenda  líta á Al Queda sem glæpamenn og óþverra en gagnrýna einnig Bush-stjórnina sem þeir segja af sama meiði og Al Queda, bara betur vopnaða, nokkuð sem margir Vesturlandabúar geta kvittað upp á einnig. Sumir nota tækifærið einnig og gagnrýna ástand mannréttindamála í löndum sínum sem flest eru studd af Bandaríkjunum í staðinn fyrir aðgang að olíu eða aðstoð í sínu "war of terror" svo dæmi séu nefnd. 

Þó eru tveir staðir í ferðinni sem vekja upp mestan áhuga í myndinni. Sá fyrri er að sjálfsögðu hið illæmda land S-Arabía þar sem kúgunin greinilega ríkir ríkjum þegar Morgan tekur viðtal við tvo skóladrengi sem óttinn skín af og virðast hafa lært svörin utan af eða reyna að svara þeim sem varfærnislegast. Þar standa yfir þeim tveir kennarar sem eiga að gæta að ekkert sé sagt sem sé slæmt í tengslum við ríkið og er Morgan spyr óþægilegrar spurningar er tengist Ísrael, þá er skyndilega klippt á samtalið. Einnig má sjá súrrealíska senu þar sem nær því alhuldar konur ganga um í nýtiskulegri verslunarmiðstöð þar sem Morgan er hundsaður þegar hann reynir að tala við fólk.

Hinn áfangastaðurinn sem vakti mikinn áhuga var Ísrael og hernumdu svæðin. Á hernmdu svæðunum eru viðmælendur síður en svo hrifnir af Al Queda og öllum öðrum þeim sem eru að misnota baráttu Palestínumanna fyrir frelsi sínu, í pólitískum tilgangi eða sér til framdráttar. Biturlega segja sumir að þessum aðilum sé nokk sama um baráttuna og Palestínumenn þurfi ekki aðstoð frá svona illmennum. Ísraels-megin má heyra frá einum gyðngi að þessar deilur milli Ísraela og Palestínumanna geti ekki endað nema með því að þarna verði tvö ríki, annað sé fásinna og því fyrr sem tekst að koma öfgamönnunum sem ráða ríkjum báðum megin, því fyrr ríki friður þarna.

Það er þó í Ísrael sem við sjáum í fyrsta sinn að Morgan kemst í hann krappann og er það þegar hann ætlar að ræða við heittrúaða gyðinga við grátmúrinn. Þar nær hann varla að bera upp spurningu áður en ráðist er að honum með fúkyrðum og hrindingum sem verða svo aðgangsharðar að hermenn þurfa að grípa inn í. Ekki virðist hafa verið um að kenna neinum dónaskap eða slíku og þegar Morgan kemst loks í burtu undan æstum ofsatrúarmönnunum þá er hann greinilega forviða á öllum látunum.

Það næsta sem ég ætla að minnast á, er Afganistan og nokkuð sem er íhuganarefni sem væri vert að reyna að kanna betur. Hvar vetna þar sem Morgan drepur fæti niður meðal almennings í Afganistan virðist aljgör örbirgð ríkja, enn er kennt í rústum skóla og ekki sjáanlegt að uppbygging sé í gangi. Þegar nánar er kannað, þá segja allir sömu söguna, peningarnir sem ætlað var að fara í uppbygginguna hafa allir lent í höndum spilltra stjórnmálamanna og valdsmanna að mestu. NATO-þjóðirnar virðast láta sig þetta litlu varða og er óánægja meðal almennings með þetta. Ef ástandið er svona, þá er þetta ávísun á frekari vandræði og harðari andspyrnu í Afganistan því ef þú hefur ekki fólkið með þér og gerir ekki neitt af því sem lofað er á sviði uppbyggingar og öryggis, þá snýst almennningur fyrr eða síðar gegn frelsurunum þar. 

Síðasti hluturinn sem ég minnist á í sambandi við myndina, er í tengslum við upphaf myndarinnar í BNA. Þetta land óttans við allt og alla, virðist hafa tekist að gera hræðsluna að iðnaði í allskonar sjálfsvarnar-námskeiðum þar sem spilað er á hræðslu fólks við það sem það þekkir ekki og staðalímyndir Hollywood-mynda. Maður veltir því fyrir sér hvort það sé ekki einmitt tilgangur þessarar ofurhræðslu,  að þetta sé eitt það fáa sem haldi hagkerfi Bandaríikjanna gangandi í dag ásamt vopnaframleiðslu, og þess vegna verði að viðhalda henni ásamt því að dreifa athygli almennings frá innri vandamálum Bandaríkjanna sem öfgafrjálshyggjan og spilltri fyrirtækjahygluninni hefur ollið.

Að lokum þá mæli ég eindregið með að sjá þessa mynd ef hún ratar í bíó hér sem er vonandi, ef ekki þá er hún allavega komin út á DVD í Bandaríkjunum.

 


Skrautsýning keisaraynjunnar

Á tímum Rómverja tíðkaðist það að halda stórar skrautsýningar er enhver snéri heim aftur úr frækilegum herleiðangri, hvort sem það var um hernaðarsigur á Spáni, gereyðing Karþagó og menningar þeirra eða bæling þrælauppreisnar þar sem þrælarnir enduðu sem vegskreytingar á krossum fyrir að vilja allir heita Spartacus. Yfirleitt var ekið með hermennina knáu um stræti Rómar á opnum vagni með lárviðarsveig eða svipaðar marklausar skreytingar til að dreifa athygli fjöldans frá óstjórn valdamanna og í þeirri von að ljóminn frá "hetjunum" myndi einnig yfirfærast á keisarann og þá valdamenn sem honum þjónuðu.

Síðar meir þegar dró úr herförum til að fagna þá var stundum til þess gripið að dröslast með skylmingakappa úr hringleikahúsinu sem hafði verið sett á stofn til að tryggja að almenningur færi ekki að hugsa um spillingu og hversvegna þeir ættu varla fyrir sósu með spagettinu á meðan auð- og valdamenn tróðu svo miklu í sig að þeir þurftu að kitla kokið með fjöður svo hægt væri að rýma fyrir meiru.

Enn leifir af þessum venjum í dag, eins og sjást má á gjörðum Þorgerðar Katrínar í tengslum við sigur handboltaliðsins. Bruðlið og kapphlaupið við það að láta ljómman falla á sig frá handboltaliðiðinu og tilraunin til að yfirskyggja djöfulímynd Sjálfstæðismanna frá fornri tíð eða Ólaf forseta, hefur kostað fimm milljónir á sama tíma og uppalendur barna mega varla fá brauðmola af borði hennar og skoðanasystkina sinna sem virðast furða sig á því að þetta fólk skuli ekki bara borða kökur líkt og annað aðalkvendi sagði eitt sinn. Djöfull Sjálfstæðismanna glotti þó með og tók þátt í sýningunni og henti um hálsinn á skylmingaköppunum smá prjáli og gengisfelldi það í leiðinni, í kapphlaupinu um athygli og dýrð valdamanna.

En ekki er nóg með það, heldur er þegar þetta er skrifað að hefjast för hinna nýju skylmingakappa um stræti Reykjavíkur þar sem litlu er til sparað  í formi vagna, riddarasveitar yfirhershöfðingjans og fljúgandi fleyja sem fylgdarliðs og ætlunin er að halda með þá upp á svið til Brútúsinu borgarstjóra, sem ólíkt Rómverjanum fræga sem lét rýtinginn vaða í Sesar til varnar lýðræðinu, notaði rýtinginn sinn til þjónkunar eigin hagsmunum og félaga sinna. Brútusína hefur átt nefnilega í vandræðum með vinsældir síðan og virðist keisaraynjunni hafa dottið það til hugar að það væri nú ansi gott að nota eins og nokkrar milljónir ef ekki yfir tug milljónir af fé skattborgaranna, þeim til dýrðar í popúlismananum. Á sama tíma og féið góða rennur í þessa skrautsýningu, þá fæst varla peningur til að hífa upp laun leikskólafóstra eða til aðstoðar þeim er minna mega sín.

Einnig hafa hirslur keisarahallarinnar verið opnaðar til fagnaðar og einum fimmtíu milljónum úthlutað til skylmingakappaklúbbsins sem vann í hringleikahúsi Kínakommakeisara, sem sumum þykir allt í lagi upphæð á meðan öðrum þykir fullmikið eytt í ágætlega stæðan klúbb eiginmanns keisaraynjunnar sem þrýsti víst aðeins á prjálnefnd um að smella orðu um háls 19 milljón króna á mánuði-manns síns sem varð að láta það nægja að fá allavega flug og uppihald borgað í þetta sinn. 

En nokkrum dögum síðar þegar þessi dýrðarljómi byrjar að hverfa, spillingin og þverrandi fé almennings ásamt reikningnum fyrir showinu, byrjar að hafa áhrif aftur á múginn sem tókst að dreifa athyglinni frá svallveislunum góðu, þá verður komið annað hljóð í strokkinn frá keisaraynjunni ög félögum. Fyrir framan myndavélarnir liggjandi á dívaninum í tóganu með heilt svínslæri í annari og fullan vínbikarinn í hinni, munu þau kyrja gamla góða söngin aftur:

"Almenningur verður að læra að spara og herða sultarólina á þessum erfiðu tímum."

 

 

 

 


Illska kerfiskalla

Ein mesta skömm okkar Íslendinga var þegar íslenskir stjórnmálamenn og kerfiskallar ákváðu að senda gyðinga aftur til Þyskalands þar sem þeirra beið ill meðferð og síðar meir dauðabúðir nasista. Eftir að örlög gyðinga urðu ljós eftir stríð, þóttust sömu menn lítið kannast við framferði sitt og að þeir hefðu ekki vitað að það yrði farið illa með gyðinga í Þýskalandi nasimans, jafnvel þótt það hafi frést af meðferðinni í Dachau og Buchenwald hingað til lands fyrir stríð og Kristalsnótt gerði heimsbyggðinni ljóst hvað var í gangi.

Þetta ofangreinda getur ekki annað en skotið upp í kollinn þegar kemur að máli Paul Ramses og fjölskyldu og framferði íslenskra stjórnvalda. Í stað þess að úrskurða um málið ákváðu kerfiskallar og lítlmenni, að betra væri að splundra upp fjölskyldunni og senda Paul til Ítalíu þar sem hann fer aftast í langa, langa, langa röð í fjansamlegu landi, þ.e.a.s. ef ítölsk stjórnvöld sem þykja ansi fjandsamleg innflytjendum, flóttamönnum og múslimum í dag, senda hann ekki beint til Kenýa þar sem hann verður líklegast færður upp að veggnum og hnakkaður.  Við bætist svo að næsta skref er að senda konu hans til Svíþjóðar með sex vikna gamalt barn og allslausa og án eiginmannsins, þá get ég ekki annað en spurt hverskonar illmenni fara með völd á Útlendingastofnun? Eru menn gersamelga sneyddir öllu sem heitir mennska og mannúð þarna? Eru menn búnir að gleyma að það er til nokkuð sem heitir mannréttind, nokkuð sem ríkistjórnin ætlaði sér að vera meðal fremstu þjóða í framkvæmd á? 

En svo veltir maður fyrir sér spurningunni með málsmeðferðina, ástæður og hvernig var staðið að henni. Paul kemur hér í desember og sækir um hæli. Kerfið dregur lappirnar og svarar honum ekki þrátt fyrir fjórar yfirheyrslur 'utlendingastofnunar yfir honum og óstaðfestar fréttir hér á blogginu segja að málið hafi veirð komið inn á borð utanríkisráðuneytis í mars. Skyndilega er svo ákveðið að taka ekki mál hans fyrir og hann sendur með hraði út úr landi og yfirklór byrjað til að reyna að breiða yfir ástæðurnar. Falið er á bak við að þetta sé lögmætt sem er klassík þegar kemur að réttætingu illverks kerfiskalla og vísað til Dyflinnarsamkomulags sem réttlætingu, samkomulags sem segir að ríki þurfi ekki að gera það sem var framkvæmt í morgun og nú að ekki væri hægt að fara yfir mál Pauls þar sem kona hans var ólöglegí  landinu.....hvernig komst hún inn í landið ólöglega? Rann út dvalarleyfi hennar vegna seinagangs sálarlausra kerfiskalla? Ef svo er, hvers vegna á þá að refsa henni og Paul fyrir það?

Þetta er sú ástæða sem mér dettur til hugar, að Haukur Guðmundsson og aðrir starfsmenn 'utlenidngastofnunar hafi einfaldlega ákveðið að losa sig við Paul og fjölskyldu til að þurfa ekki að vinna vinnuna sína og biðjast afsökunar á seinaganginum, seinagangi sem virðist ekki vera til þegar kemur að því að redda ríkisborgararétt handa tengdadóttur ráðherra svo hún geti komist á námslán. Maður er nokkuð sannfærður um það að ef Paul hefði verið tengdasonur einvhvers ráðherrans, kannski Björns Bjarna sjálfs, þá væri hann kominn með dvalarleyfi, ríkisborgararétt og prófessorstöðu í Háskólanum við hliðina á Hannes Hólmsteini og það allt saman fyrir síðustu áramót.

Svo skjóta þó aðrar grunsemdir upp í kollinn á manni einnig þegar sést að Útlendingastofnun hefur stundað þetta grimmt á síðasta ári að senda fólk til annars lands og láta úrskurða um hælisleit þar, hvort þetta sé leynileg stefna Björns Bjarnasonar í innflytjendamálum þar sem notað eru brögð kerfisins sem fáir frétta af, til að hindra að flóttamenn komi til landsins. Eini munurinn kannski á þeim málum og nú, að þettta rataði í fréttirna. 

Svo er líka þriðji möguleikinn, að Haukur GUðmundsson og Björn Bjarnason hafi einfaldlega fundið gamalt skilti sem nasistar gáfu íslenskum ráðamönnum til að hafa við vegabréfshliðið, í heimsókn sinni hingað. Þeir hafi ekki viljað henda því en ákveðið að breyta áletrunni og það sett upp á vegg í mötuneyti Útlendingastofnunnar með þessari áletrun:

SCHWARZE VERBOTEN!

 


mbl.is Eiginkona Ramses ólöglega í landinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilviljanir

Tilviljanir geta verið áhugaverðar stundum. Ég er búinn að vera lesa bækur í þyngri kantinum upp á síðkastið, og ákvað að grípa í einhverja afþreyingu til að kæla heilann aðeins í gær. Mundi eftir íslenskri spennusögu sem var búinn að vera upp í hillu í lengri tíma og náði í hana. Þetta var bærilegur reyfari skrifaður 2002 sem var um hana Stellu Blómkvist og heitir Morðið í þinghúsinu.

Nú er örugglega einvher byrjaður að velta fyrir sér hvað þetta kemur tilviljunum við(ef menn hafa ekki lesið bókina). Aðalmálið í bókinni er um dauða blaðakonu sem hrapar af þingpöllum þegar öfgafullir þjóðernissinnar eru með læti á þingpöllum, hrópandi slagorð á borð við "Ísland fyrir Íslendigna" og í gegnum bókina má sjá tal þjóðernissinna um að útlendingar séu að stela vinnunni frá okku og sömu frasa og heyrst hafa í umræðunni hér um útlendinga  . Ástæðan fyrir þessum látum er sú að umræða er á þingi vegna orða dómsmálaráðherra, um að takmarka þurfi flæði útlendinga til landsins. Tilviljunin er sú að ég hafði ekki hugmynd um söguþráðinn og fer að lesa bókina á sama degi og Frjálslyndir byrja sitt flokksþing.

 Önnur Frjálslynd tilviljun er dagurinn í dag. Þegar Frjálslyndir ganga til kosninga í dag þá er annars staðar í heiminum verið að minnast fórnarlamba Helfararinnar og er þessi dagur nefndur Auschwitz-dagurinn. Þar er verið að minnast hvernig spilað hefur verið á hörpur þjóðernishyggju og fordóma, til að fremja ein hryllilegustu grimmdarverk síðustu aldar. Enn í dag hljóma sömu frasarnir og nasistar beittu þegar kemur að því að kynda upp hræðslu gegn öðrum trúarhópum, kynþáttum eða litarhætti: Þýskaland fyrir Þjóðverja, það er þeim að kenna að þið hafið ekki vinnu, þeir vilja ekki aðlagast samfélaginu og rotta sig saman í hverfi, þeir nauðga hvítum, kristnum, arískum konum o.sv.frv.

Ég efast þó stórlega um að svipaðar ofsóknir séu í huga þeirra sem ala mest á hræðslu við útlendinga meðal Frjálslyndra en sporin hræða miðað við söguna, sérstakelga þegar kemur að stjórnmálamönnum sem eru að ná sér í atkvæði. Tækifærismennska sumra er nefnilega sprottinn upp úr þeirra örvæntingu um að vera ekki lengur við kjötkatlana og þá er gripið til ýmisra ráða til að tryggja áframhaldandi veru á þingi, sérstaklega ef menn geta ekki haldið áfram á eigin verðleikum. Í raun eins og félagi minn sagði við mig, þá var þetta eiginlega spurningin hvor yrði til: Framsókn eða Frjálsyndir. Það er er nefnilega mjög auðvelt að ná sér í atkvæði út á hræðsluáróður við minnihlutahópi, sérstaklega hér á landi því við Íslendingar erum gjarnir að koma fram með sleggjudóma og alhæfingar um þjóðfélagshópa af öllu tagi.

Ég vona að þetta sé ekki fyrirboði um það að Hvítt afl sigri á flokksþingi Frjálslyndra eða hvert stefnir. Ef svo fer, þá mun ég berjast gegn þeim af fullri hörku á hvern þann hátt sem ég get.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

AK-72

Höfundur

AK-72
AK-72
Með óþrjótandi áhuga á kvikmyndum, sögu og stjórnmálum.Telur sig hafa fullt frelsi til að hrósa og gagnrýna hvern sem er og hvenær sem er.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...1212_913482
  • ...ner1_568492
  • ...rad-banner1
  • Screenshot

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband